5 bestu jólabjórar ársins (2018) að okkar mati!

Nú erum við búin að liggja dálítið yfir jólabjórum 2018 og komin að niðurstöðu. Þetta var ekki auðvelt en þegar allt er tekið saman, þá er útkoman þessi. Hér tökum við allt saman í einn pott, erlenda, íslenska, létta og þungaviktabjóra í sömu yfirferð. Við trúum ekki á að velja bestu bjóra í hverjum flokki fyrir sig en það er bara þannig hjá okkur. Hér eru yfir allt fimm bestur bjórar sem fást í vínbúðunum þetta árið að okkar mati og nokkur orð um afhverju okkur finnst það. Það skal tekið fram að við tökum ekki með frábæra bjóra eins og Ákaflega Gaman Þá frá RVK Brewing Company sem er alveg stórbrotinn double IPA með eins miklum humlum og hægt er að koma í einn bjór held ég svei mér þá, þessi fæst aðeins á krana í bruggstofu RVK Brewing og á völdum börum borgarinnar. Svo eru það bjórarnir frá frá KEX Brewing sem eru þrír að þessu sinni en allir bara fáanlegir á börum borgarinnar og eru þeir því ekki með í þessu mati.

Loks má geta þess að við smökkuðum ekki alla 60 jólabjóra sem í boði eru því mikið af þessu höfum við smakkað áður í gegnum tíðina, og annað bara höfðaði alls ekki til okkar.

ATH hér erum við að velja jólabjór og því tökum sérstaklega eftir því ef bjórinn færir okkur eitthvað jólalegt á tungu eða parast vel með jólamat og hefur það jákvæð áhrif á dómana. Tekið skal fram að þetta er ekki blindsmakk!

En ok fimm bestu jólabjórar sem í boði eru þetta árið koma hér:

  1. Skyrjarmur (4.3%) frá Borg. Ég vissi að þessi myndi verða flottur þegar ég smakkaði hann á gertankinum hjá þeim félögum í Borg á sínum tíma en ég bjóst ekki við að hann kæmi svona svakalega vel út. Þetta er einstaklega ljúffengur bjór, mildur og þægilegur með alveg hreint glás af bláberjum, hann er nánast þykkur eins og skyr. Þó hann sé súrbjór þá er hann í svo hárfínu jafnvægi að hann verður í raun ekki súr því berjasætan kemur á móti og mildar allt saman. Það er þannig súrsætur keimur sem gælir við bragðlaukana og já bláberin eru ekkert að fela sig. Skyrjarmur er líka fullkominn í útliti fyrir jólabjór, dimmrauður eins og blóð úr fallinni rjúpu! Þessi er stórkostlegur og parast í raun asnalega vel við villigæsapaté með klettasalati og bláberja eða hindberjavinagrette. Þvílíkt jólakombo.
    .
  2. Ginger Brett IPA (6.9%) frá Mikkeller. Þessi var hér í fyrra og árið þar á undan einnig. Hann hefur verið ofarlega á lista hjá okkur síðustu ár enda frábær jólabjór. Engifer er jú jólakrydd ekki satt og það er nóg af því í þessum. Reyndar meira engiferrót frekar en kryddið. Í grunninn er um að ræða IPA þannig að það er líf og fjör í bjórnum með notalega beiskju sem rétt aðeins tekur í og svo er ákveðin beiskja frá engiferrótinni sem tengist ofsalega vel við hið svokallað „funk“ frá villigerinu brettanomyces. Þessu bragði er ekki hægt að lýsa en menn reyna að líkja við háaloft, moldargólf, leður, fúkka ofl. Hvað sem því líður, þessi blanda með engifer og humlunum er mögnuð. Frábær einn og sér en gerir líka ofsalega skemmtilega hluti með mat hvers konar. T.d. gröfnu lambi með graflaxsósu og klettasallati.
    .
  3. Leppur (6.5%) frá Brothers Brewery. Þessi kom okkur mjög á óvart en hann er alveg magnaður frá strákunum í Vestmannaeyjum. Hér erum við með svo kallaðan mjólkur stout (milk stout) en slíkur bjór er jafnan með mikla mýkt og fyllingu en í þennan stíl nota menn laktósa eða mjólkursykur sem skapar þessa skemmtilegu mjólkurkenndu áferð. Í Lepp eru auk þess settir hafrar og hveitikorn sem gefa enn meiri fyllingu. Ofan á þetta er Leppur bruggaður með kaffi sem kemur vel fram í bragði eins og ristaðar kaffibaunir og svo er hellingur af súkkulaði sem menn ná fram úr maltaða bygginu. Bjórinn er dálítið á sætu nótunum en humlar koma þó dálítið inn á móti og tóna niður sykursæluna, en jólin eiga eignlega að vera dálítið sæt ekki satt? Þetta er frábær jóladrykkur sem er flottur sem bara desert einn og sér eftir jólasteikina eða sem meðlæti með heimlagaða toblerone ísnum og ekki væri verra að nota bjórinn sem flot á ísinn. Fæ vatn í munn við tilhugsunina.
    .
  4. Giljagaur (10%) frá Borg. Nú skulum við fá það á hreint, Giljagaur er alltaf á listanum okkar, nema það komi fram 5 nýjir alveg geggjaðir jólabjórar sem lenda ofar. Þessi bjór er bara ómissandi hluti af jólunum okkar B&M. Við erum að tala um 10% kraftmikinn bjór af gerðinni byggvín eða barleywine sem er bjórstíll með mikinn þrótt og háar áfengisprósentur. Oft með ávaxtanótum eða sætu frá vínandanum og korninu en hann getur einnig verið ansi beiskur og beittur. Stíllinn er dálítið þykkur, þéttur og yfirleitt með notalegum áfengishita. Giljagaur er að okkar mati dálítið sætbeiskur með ögn ávaxtakeim sem minnir á mandarínur eða appelsínubörk og það er mikill þróttur í honum. Með tímanum missir hann beitta bitið og verður mýkri en flóknari. Við skulum svo hafa annað á hreinu, Borg bruggar alltaf sama Giljagaurinn og ætti munur milli ára að vera óverulegur jafnvel þótt menn telji sig líka misvel við hann milli ára. Mögulega er það bara stemning smakkarans sem er mismunandi á milli ára og svo má ekki gleyma bragðlaukum sem stöðugt eru að þroskast og breytast, ég skal ekki segja? Þessi er magnaður með tvíreyktu lambi og með því. Tékkið á þessu!
    .
  5. Jólakisi (7%) frá Malbygg. Malbygg er hér með fyrsta jólabjórinn sinn í vínbúðir sem er af gerðinni India Pale Ale sem í raun mætti flokka sem New England IPA eða NEIPA. Bjórinn hefur samt ekkert jólalegt uppá að bjóða, nema þá ef menn tengja við furunálarnar sem oft má finna af humlunum sérsaklega simcoe. Merkimiðinn er jólalegur og nafnið, hins vegar er þessi bjór bara svo ofsalega góður ef maður þolir beiskju og safaríka tóna frá humlunum að það er ekki hægt annað en að hafa hann á lista. Citra, simcoe og mosaic tröllríða bragðlaukunum á góðan máta samt. Humlahausar, þið eigið eftir að elska þennan.

Ef við værum með 6 sæti þá er Eitthvað Fallegt (5%) fyrsti jólabjórinn frá RVK Brewing næstur inn. Þessi bjór er ofsalega skemmtilegur og sérstaklega jólalegur. Hér má eiginlega segja að menn séu búnir að koma jólum í flösku en bjórinn er bruggaður með heilu jólatré ásamt mandarínum, negulnöglum, loftkökum, vanilluhringjum og machintos sælgæti úr heilli dós, vondu og góðu molarnir allt saman í einn pott. Já þessi bjór fær sko jólaprik frá okkur. Við köllum stílinn bakkelsis IPA eða pastry IPA Valli og Siggi kalla hann season IPA sem sagt ekki session IPA. Í bragði má finna greninálar, hvort sem það er frá trénu eða simcoe humlunum er ekki gott að segja, það er alla vega notaleg beiskja í honum og svo kemur mandarínukeimurinn vel í gegn, sérstaklega í nefi. Í eftirbragði er svo þægilegur kryddkeimur sem líkast til er frá negulnöglunum en þetta er látlaust sem betur fer því negull getur algjörlega rústað góðum bjór. Fyrir okkur gengur þetta upp og við erum ægilega ánægð með hann hér á B&M. Mér skilst að lítið sé til af honum þannig að það er um að gera að næla sér í flöskur.

Jólabjórinn 2018, hvað mun fara í bjórkælinn okkar?

Þá er bjórskápurinn á nano kominn í smá jólabúning en það vantar auðvitað allan jólabjórinn. Giljagaur og Hurðaskellir 2017 eru reyndar að koma sér fyrir þarna auðvitað en annað þarf að fara kaupa inn. Sala jólabjórs hefst núna á morgun 15.nóv og það er sko um nóg að velja, reyndar eiginlega of mikið en um 60 tegundir hafa boðað komu sína þessi jólin. Nú hefur Bjór & Matur ekki lagt í það að fara að smakka þetta allt fyrir útgáfudag því við bara nennum því ekki, megnið af þessu er einfaldlega lítt spennandi fyrir fólk sem gerir kröfur, smekkur manna er svo auðvitað mismunandi sem betur fer.

Hér ætla ég að renna yfir það sem mun fara í minn bjórskáp yfir hátíðarnar, margt hef ég smakkað í gegnum tíðina og lært að forðast en mikið á þessum lista mínum, sérstaklega íslenski bjórinn, eru samt spádómar og spennandi verður að sjá hvort bjórinn standist kröfur eftir að hann er kominn í hús.

Það má byrja á því að taka fram að ekki allt sem er á listanum í Vínbúðinni (sjá hér) mun komast til byggða en það geta verið ýmsar ástæður fyrir því. Menn ná ekki að koma bjórnum í umbúðir eða hann einfaldlega er ekki tilbúinn fyrir jólin eða útkoman var ekki það sem ætlast var til.

Það sem fer í skápinn minn verður eftirfarandi:

Borg jólabjórinn. Góðkunningjar frá Borg eru alltaf á sínum stað, auk Giljagaurs og Hurðaskellis frá því í fyrra mun ég næla mér í Giljagaur (barley wine) og Hurðaskellir 2018 ( rúgvínstunnuþroskaður imperial porter) og passa að taka inn nóg til að geyma fram til næstu jóla. Ég hef smakkað þá báða þetta árið og var ég sérstaklega ánægður með Giljagaur, Hurðaskellir var flottur líka á krana alla vega. Ég smakkaði líka Skyrjarm sem er nýjasti jólabjórinn þeirra og er bláberja súrbjór og auðvitað með skyri. Þó ég smakkaði hann bara af gertanki ekki full kláraðan þá lofaði hann mjög góðu. Askasleikir er svo kominn í dósir og með breyttu geri. Flottur session bjór sem gengur vel með flestum jólamat. Ætli maður hafi ekki nokkrar dósir fyrir gesti og gangandi.

Ölgerðin. Fyrst við erum að tala um Borg þá má skoða bjórinn frá Ölgerðinni en það er einn bjór frá þeim sem vert er að skoða, Boli Doppel Bock en þessi bjór er furðulega ljúfur og algjörlega stórkostleg pörun við flest sem við borðum um jólin. Allt annað frá þeim mun ég láta vera. Bara ekki minn tebolli.

RVK Brewing Company. Hér erum við nokkuð örugg með góðan jólabjór. Co & Co er á listanum en hann mun ekki koma í Vínbúðina ef ég skildi þá félaga Valla og Sigga rétt. Hann er bara ekki tilbúinn í það ævintýri. Hins vegar ætla þeir að koma öðrum jólabjór í sölu, Eitthvað Fallegt heitir hann, sá er kominn á kút hjá þeim á bruggstofuna en kemur í næstu viku í Vínbúðina. Þessi er mjög skemmtilegur, bakkelsis IPA vil ég kalla hann, en þeir hentu í hann heilu jólatré, machintosh dollu og mandarínum með negulnöglum svo eitthvað sé nefnt. Já hljómar undarlega en hann bragðaðist virkilega vel, reyndar var hann ekki tilbúinn þegar ég smakkaði hann um daginn. Þessi mun rata rakleiðis í minn bjórkæli þegar hann dettur í sölu.

Malbygg. Malbygg hefur sannarlega sannað sig frá opnun fyrr á þessu ári með sérdeilis ljúffengum bjórum af ýmsum toga. Fyrsti jólabjórinn þeirra Jólakisi (7% DDH IPA) er kannski ekkert sérstaklega jólalegur bjór en hann er sannarlega ljúffengur og umbúðirnar eru skemmtilegar og jólalegar. Jólakisi mun klárlega taka nokkuð pláss í bjórkælinum yfir hátíðarnar. Malbygg er svo reyndar með annan jólabjór þetta árið sem er sérlagaður fyrir Skúla Craftbar og fæst þar á krana. Sá heitir Djús Kristur og er súrbjór með mango og vanillu sem vert er að kanna.

KEX Brewing. Það voru 3 jólabjórar boðaðir þetta árið en því miður koma þeir ekki í búðir. Tæknilegir örðugleikar. Hins vegar munu þeir fara á dælur á helstu bari borgarinnar í litlu upplagi þó. Conceptið er skemmtilegt, eins konar „malt og appelsín“ pæling, en auðvitað ekki malt og appelsín heldur Forbidden Christmas Fruit sem er af gerðinni gose (4% súrbjór) með helling af mandarínum og ögn vanillu og svo Afi María sem er mjólkur porter. Hugmyndin er að blanda þessu saman og mynda þannig alveg nýjan bjór og í raun bjórstíl ef út í það er farið. Spennandi. Svo verða þeir með KEX Mas sem er jólaútgáfa af Thunder IPA. Því miður verður ekkert af þessu í bjórkælinum mínum þetta árið þar sem ekkert er til á dósum eða gleri.

Brothers Brewing í Eyjum. Ég er dálítið spenntur fyrir Lepp sem ku vera ljúffengur. Lýsingin er góð í það minnsta, kaffi rjóma stout. Ég náði ekki að smakka þennan í fyrra en þá kom hann einungis á dælu. Nú er hann endurbættur og í flöskum. Þegar þetta er ritað er ég ekki búinn að smakka en ég ætla að lauma eins og 2 – 3 flöskum í kælinn.

Steðji. Steðji brugghús hefur ekki tekist að fanga mig til þessa. Þeir gerðu þó einn jólabjór hér um árið sem var nokkuð skemmtilegur. Jólasteðji eða álíka, með lakkrís. Ef hann er í sölu í ár er vert að prófa hann. Steðji fær hins vegar ekki inngöngu í skápinn minn þetta árið.

Annað á lista Vínbúðarinnar vekur ekki áhuga minn, ég mun samt klárlega smakka eitt og annað.

Svo er það erlendi bjórinn. Þar er eru nokkrir stórkostlegir sem munu fara í skápinn.

Mikkeller Hoppy Luvin er geggjaður IPA sem ég tek alltaf inn, sama má segja um BrewDog Hoppy Christmas en báðir þessir eru beiskir og hressandi IPA bjórar. Svo er Mikkeller Brett IPA með þeim betri og mjög næs matarbjór með funky brettkeim ofan á milda en hressandi beiskju. To Öl Snowball er alltaf með þeim betri, en hér er frábær saison á ferð en saison er bjórstíll sem nánast passar með öllu. To Öl er einnig með annan bjór þetta árið sem menn verða að prófa, Santa Gose Fuck it All sem er súrbjór af bestu sort. Vá hvað þetta verður gaman!

Haustrunk nýr gose bjór frá Borg í samstarfi við Wacken!

Ekki má rugla Gosa, litlu hraðlygnu strengjabrúðunni með langa nefið, við gose sem er sérkennilegur og forn bjórstíll sem hefur síðustu ár verið að fá mikla athygli í bjórheiminum.  Kaninn er sérstaklega hrifinn af þessum bjórstíl og við erum farin að sjá hann í mun meira mæli hér heima líka undanfarið.  Gose á rætur sínar að rekja til Þýskalands fyrir einhverjum þúsundum árum síðan. Hann dregur nafn sitt af ánni Gose sem rennur í gegnum miðaldarbæinn Goslar þaðan sem bjórinn er talinn hafa komið. Gose er súr hveitibjór bruggaður með ögn söltu vatni úr ánni (sem reyndar er meiri lækur) Gose á sínum tíma en í dag bæta men auðvitað salti í bjórinn. Gose er svo jafnan kryddaður með kóríander og mildum humlum. Bjórstíllinn, sem var vinsælasti bjór í Leipzig og nágrenni í kringum 1900, dó næstum því út á stríðsárunum en í kringum árið 2000 var honum sem betur fer komið til bjargar og stíllinn endurlífgaður.

biere-illustration-01-gose
Gose er forn þýskur súrbjór frá Goslar

Haustrunk Nr.C17 sem líklega má bera fram “hásdrúnk” á germönsku er nýr collab bjór frá Borg brugghús og þýska brugghúsinu Wacken Brauerei og er einmitt af gerðinni gose.  Hér hafa menn svo poppað bjórinn aðeins upp með apríkósum, hafþyrnum og vanillu sennilega til að gera hann meira íslendingavænni?  Það er svo skemmtileg staðreynd að Helge frá Wacken mætti á klakann með vatn úr Gose sem sett var í suðuna, svona meira til að tengja bjórinn við lækinn á táknrænan máta.

En þessi herlegheit er nú komin í sölu, ég hef ekki smakkað hann ennþá en klassískt er gose súr á tungu, vel kolsýrður, léttur og mildur með öööörlítilli seltu sem svo sem finnst ekki mikið.  Haustrunk er svo með áhugaverðum ávöxtum sem munu líka setja sinn svip á þetta allt.   Hlakka til að prófa!

Skýjabjór og bakkelsis stout, hvað finnst þér?

Það má með sanni segja að skýja æðið eða „the haze craze“ sem hefur verið að tröllríða öllu erlendis hafi heldur betur náð til landsins og þarf ekki að líta lengra aftur en til síðustu útgáfu frá Borg Brugghúss, safasprengjunnar Húgó India Pale Lager sem er skínandi dæmi um þennan nýlega viðurkennda bjórstíl (NEIPA) jafnvel þó Borgar menn kalli Húgó lager.  Það er hins vegar líka annað æði í gangi sem hefur farið aðeins minna fyrir hér heima en sætir álíka gagnrýni og skýja æðið en spekúlantar sumir hverjir vilja nefnilega meina að báðir þessir bjórstílar séu mikil afbökun og jafnvel móðgun við bjórheiminn og rótgrónar brugghefðir.  Fyrir mér er þetta bara væl í fólki sem er ekki opið fyrir nýjungum og fast í fortíðinni.  Að sjálfsögðu er framþróun í þessu eins og öllu öðru og hún er svo sannarlega af hinu góða, án hennar værum við t.d. föst með humlalausan, karakterlausan, dýsætan klístraðan fornbjór, ljósi lagerinn hefði t.d. aldrei litið dagsins ljós eins og í raun allir aðrir bjórstílar.  En nóg um það, fyrir okkur hér á Bjór & Matur þá er framþróun í bjórgerð bara fagnaðarerendi.  En hitt æðið sem ég ætlaði að tala um er svo kallaður bakkelsis bjór eða pastry beer.  Oftast er um að ræða stout eða imperial stout þó svo að aðrir grunnstílar komi vel til greina.

Bakkelsis bjór er svo sem ekki til sem viðurkenndur stíll og ekki er til nein ein rétt túlkun á hvað flokkast sem bakkelsis bjór.  Sumir nota þetta orð yfir bjór sem bruggaður er með einhverju sætabrauði ss snúðum, kleinuhringjum, vínarbrauði eða álíka sem þá er sett í annað hvort í meskingu eða eftir gerjun, já eða jafnvel í suðuna sjálfa.  Aðrir tala um bakkelsis bjór ef bjórinn líkist bakkelsi eða sætum eftirréttum og er hann þá bragðbættur með einhverju ss súkkulaði, hnetusmjöri, vanillu, sykurpúðum eða hvað það kann að vera.  Það sem fer fyrir brjóstið á mönnum eru allar þessar viðbætur (adjuncts) og þeir vilja meina að svona drykkir sé ekki hægt að flokka sem bjór.  Hvenær hættir bjór að vera bjór annars?  Ef hann er gerður úr vatni, byggi, humlum og geri þá er það bjór, sama hvað menn reyna að segja, punktur.  Það má til gamans benda á að hér áður var ekki notast við humla í bjórgerð, humlar í bjór er tiltölulega nýtt fyrirbæri, eða þannig en tilkoma humlanna hefur umbylt bjórnum og gert hann mun meira aðlaðandi og drekkanlegri.

Omnipollo í Svíþjóð er líklega það brugghús sem gerir hvað mest af þessu en þeir hafa þótt heldur lauslátir og djarfir í bjórgerð en eru þó feyki vinsælir.  Þeir virðast bara ekki þreytast á því að prófa sig áfram með þykkar og ljúffengar gúmmilaðibombur.  Einn af okkar uppáhalds bjórum er einmitt Noa Pecan Mudcake Stout þar sem þeir eru að túlka ákveðna tegund bakkelsis sem er í uppáhaldi hjá þeim.  Þessi bjór er svakalegur, þróttmikill og mjúkur en ofsalega sætur en fyrir mér gengur það upp hér. Annar frá þeim er svo Hypnopompa sem er imperial stout bruggaður með haug af sykurpúðum og Tahiti vanillustöngum á stærð við kúbanska vindla.  Útkoman er mögnuð.

Menn eru aðeins farnir að leika sér hér heima með þetta sem er mikið fagnaðarerendi.  Co og Co frá RVK Brewing er gott dæmi um bakkellsis bjór sem er bruggaður einmitt með bakkelsi en þeir nota snúða frá Brauð & Co í lögunina og útkoman er mjög skemmtileg.  Það er um að gera að prófa þennan en hann fæst á krana í bruggstofu þeirra um þessar mundir.  KEX Brewing er líka í þessum rituðu orðum að gefa út bakkelsis bjór á dós sem þeir kalla einfaldlega Skúffukaka og er svakalega ljúffengur imperial stout með skúffuköku kleinuhringjum frá DEIG Workshop.  Skúffukaka er reyndar þegar kominn á krana hér og þar í höfuðborginni ss KEX,  Mikkeller & Friends ofl stöðum.  Ég smakkaði svo um daginn bjór uppí Borg sem þeir eru að leika sér með og má líklega lítið fjalla um en það var amk frábær bakkelsis stout með vínarbrauði.  Ég vona svo sannarlega að þeir ákveði að gera eitthvað meira úr þeim pælingum því þetta var sannarlega ljúffengt.

Loks bruggaði Malbygg kókosbollu imperial stout hér fyrir einhverjum mánuðum síðan. Mig minnir að ég hafi smakkað hann á sínum tíma en hann er ekki tilbúinn, honum er nefnilega ætlað að liggja á ýmsum eikartunnum í einhverja mánuði til viðbótar áður en við fáum að bragða á honum.   Svo eru án efa einhverjir fleiri að gera eitthvað í þessum dúr sem ég veit bara ekki af.

En þetta er skemmtilegt, pastry bjór er amk valmöguleiki fyrir fólk sem vill salgæti á fljótandi formi og er ekki fast í fortíðinni.  Þegar þetta er ritað er ég staddur í Boston og er einmitt að fara rölta á Trillium en þeir eru að setja í sölu bakkelsis bjór sem þeir kalla Adjunction Junction og er imperial stout bruggaður með hnetum, kókoshnetu, kaffi og vanillu.  Þeir tala um að hann minni á smákökur með karamellubitum eða kökudeig.  Það verður eitthvað!

Húgó IPL Októberfest bjór frá Borg 2018 er algjörlega magnaður!

Það er að koma október og það þýðir oktoberfest með bjór, pylsum og læti ekki satt? Reyndar er hin upprunanlega oktoberfest byrjuð en hún byrjar ár hvert síðustu vikuna í September í Munchen Þýskalandi.  Í ár hófst veislan reyndar bara í dag þann 22.9.18 og ef þið hafið ekki þegar prófað þessa veislu í Munchen þá eigið þið mikið eftir.  Sturlun í allri merkingu þessa orðs.

En hér heima erum við með októberstemningu í smættaðri mynd víðs vegar um land, skólar, fyrirtæki og vinahópar halda uppá þessi tímamót um allt land í ýmsum stærðum og myndum.  Hér á landi miðum við við október fyrir þessi veisluhöld enda hljómar það bara rökrétt ekki satt?  En það er drukkinn bjór á októberfest og mikið af honum.  Í upprunalandinu Þýskalandi er þessi bjór alltaf lager og frekar á léttari nótunum en þó oft dálítið maltaður líka, stíllinn er stundum kallaður Marzen en ekki má kalla bjór alvöru oktoberfest bier nema hann sé bruggaður í Munchen í tengslum við þessa hátíð.

Hér heima eru brugghúsin sum hver farin að framleiða sérstakan bjór fyrir október „októberfestbjór“ eins og þeir kalla hann og við munum sjá þessa bjóra detta í vínbúðir núna einn af öðrum.  Borg Brugghús hefur verið að gera þetta síðustu árin og er alltaf um lager að ræða en yfirleitt er eitthvað skemmtilegt tvist á þeim en þó alltaf einhver tengsl við Þýskaland.   Hver man ekki eftir baltic porternum Grétu eða reykbjórnum Hans t.d?  Allir oktoberfest bjórar frá Borg eru með fjólubláum miða og í ár er það engin undantekning.  Húgó er nr 58 í röð Borg bjóra og kemur hann í verslanir í næstu viku, hann er reyndar þegar kominn á krana á Skál, Session Craft bar ofl stöðum og er um að gera að prófa hann ferskan því í ár þarf að drekka hann eins ferskan og hægt er, hann er bara bestur þannig.  Við erum að tala um stórkostlega 7.2% humla ávaxtabombu í anda New England IPA bjóra.  Þetta er þó lager fyrir þær sakir að hann er gerjaður með lagergeri en hann minnir í raun ekkert á lager, ekki í þeim skilningi sem flestir tengja við.  Ef ég væri að blindsmakka þennan bjór myndi ég gíska á NEIPA af bestu sort enda er hann þurrhumlaður í hengla með citra og mosaic humlum sem gefa þessa stórbrotnu ávaxtatóna og nett humlabit og svo er í honum lactosi sem skapar ákveðna mýkt og fyllingu. Borg kallar þennan bjór reyndar India Pale Lager til að tengja við humlana og beiskjuna. Magnaður bjór vægast sagt.

20180922_133754-01.jpeg

Tengingin við Þýskaland er kannski hér mest fólgin í nafngiftinni því stíllinn er fyrir mér alla vega eins amerískur og hann gerist!  Sem er frábært.  En nafnið er vísun til fatahönnuðsins Hugo Boss sem allir ættu að þekkja.  Hugo Boss stofnaði fyrirtækið í Þýskalandi árið 1924 og einbeitti sér upphaflega að því að hanna og framleiða einkennisbúninga fyrir þýska herinn.  Eftir síðari heimsstyrjöld hins vegar snéri fyrirtækið sér alfarið að því að hanna jakkaföt fyrir karlmenn.  Þar hafið þið það.

Bjórinn er væntanlegur eftir helgina í vínbúðir, vá hvað ég mun hamstra þetta!

Bjór í Barcelona, staðan í dag!

Ég lenti óvænt í sólarhrings stoppi í Barcelona á dögunum á leið minni frá Róm vegna flugvandamála og svo kom ég aftur nokkrum vikum síðar (þegar þetta er skrifa).  Ég notaði tækifærið og skoðaði bjórsenuna í borginni sem er á góðu flugi og hefur verið síðustu ár.  Nú er ég hér í 5. sinn og það er bara alltaf eitthvað nýtt að bætast við.  Ég hef áður einhvers staðar skrifað um bjór í Barcelona og um Edge Brewing sem var valið besta nýja brugghús heims á Ratbeer árið 2014 en það hefur ýmislegt breyst síðan þá.  Ég ætla ekki að fara í einhverjar langlokur hér að þessu sinni…eða það er amk planið.

20160725_172701.jpgSíðast var ég í borginni 2016 og heimsótti ma. Edge Brewing sælla minninga en á þeim tíma var Mikkeller Barcelona bara að opna og BrewDog nýlega komnir.  Þetta eru svo sem góðkunningjar bjórunnenda og þarf ekki að fara frekar í þá sálma hér.  Þess má þó geta að maturinn á Mikkeller var virkilega flottur klassískur barmatur, ég borðaði þarna nokkrum sinnum.  Það góða við þetta er að BrewDog og Mikkeller eru bara rétt hjá hvor öðrum og það sem meira er, BierCab er þarna líka rétt hjá bara.  BierCab hefur lengi vel verið titlaður besti craft bar borgarinnar en þar eru að finna 30 krana með alls konar góðgæti frá öllum heiminum.  Þeir eru líka með stóran og áhugaverðan matseðil.  Samfast við BierCab er svo mjög flott bjórbúð með góðu úrvali af flöskubjór frá flottustu brugghúsum veraldar, líklega með betri bjórbúðum í Barcelona. Í þessari ferð fann ég þarna t.d. Yellow Belly frá Omnipollo sem ég hef leitað að í nokkur ár.

Ofan á þetta allt bætist svo við Garage Beer Company sem opnaði dyr sínar skammt frá BrewDog og Mikkeller fyrir einum þrem árum síðan.  Já ég bara vissi ekki af þeim þegar ég var þarna að þvælast 2016 fjandinn hafi það 🙂  Í dag eru þessir gaurar á hraðri uppleið í bjórveröldinni og gera með betri bjórum Spánar.  Sumir kannast kannski við þá af Bjórfestinni á Kex á síðasta ári?  Þeir gera bara magnaðan bjór og ekkert múður.  Við Sigrún fengum okkur aðeins í gogg þarna, flottan burger og svo geggjaðan bjór, hazy NEIPA auðvitað og nokkra mismunandi.   Ég mæli með Soup sem er þeirra best seller um þessar mundir.  Barinn er flottur en allt mjög hrátt og einfalt.  Ekkert glis og glimmer.  Þjónustan var frekar hæg reyndar, það tók ansi mörg andartök að panta bjór, reyndar var verið að þjálfa starfsmann þarna og svo má ekki gera lítið úr því að ég var ansi tæpur á tíma, átti vél heim til Íslands 5 tímum síðar.  En þrátt fyrir allt þá setjum við þennan stað efst á lista yfir staði til að heimsækja ef bjór er það sem menn vilja í Barcelona.

20180601_185946-02.jpeg

Við römbuðum reyndar einnig inn á tvo aðra ansi magnaða staði, þetta eru systurstaðir reknir af dönskum bjóráhugamönnum.   Danir og bjór virðast vera allstaðar svei mér þá.  Annars vegar er það Kælderkold og hins vegar Ölgod.  Kælderkold hefur verið hér í borg síðustu 4 árin, ég vissi bara ekki af honum fyrr en ég rambaði óvart inn á hann í gotneska hverfinu skammt frá Römblunni.  10 kranar með bjór frá öllum heimsins hornum þmt local svo sem The Garage Brewing, Soma ofl.  Virkilega ljúft að rekast á þetta, staðurinn er samt pínu lítill en maður getur tekið með sér dósir to go.  Ölgod er hins vegar töluvert stærri og ekki svo langt frá.  Staðurinn opnaði 2016 og er með 30 dælur og myndarlegan matseðil.  Þetta er fullkominn staður til að tilla sér á, eftir dag á ströndinni eða í „mollinu“, og fá sér í gogg.

En svona til að taka þetta saman í stuttu máli þá eru meðmæli Bjór & Matur þessi:

Best er að koma sér á Placa de Catalunya sem er mjög miðsvæðis miðað við þetta allt.  Það er auðvelt að komast þangað.  T.d. fer flugrútan beint þangað.  Svo er tiltölulega stutt að rölta í bjórinn (sjá kort).

Ölgod. Algjört möst ef þú ert að þvælast í miðbænum, á La Rambla (sem mér finnst persónulega hræðilegur staður), Gotneska hverfinu eða á ströndinni t.d. þá er stutt að fara á Ölgod.  Kælderkold ef þú ert aðframkominn og nærð ekki á Ölgod.

 

Sumir kjúklingar eru betri en aðrir, Massaður Kjúklingur er bestur!!!

Veður hefur verið vægast sagt ógeðslegt hér á Fróni í allt sumar, allt sumar sko en þá er gott að hafa góða menn sem gera handa manni góðan bjór.  Að undanförnu hafa sérstaklega tvö brugghús hér heima séð um að hjálpa okkur að gleyma viðbjóðnum fyrir utan gluggana okkar með frábærum bjór sem er algjörlega í takt við tíðarandann, sem sagt skýjaður en ofsalega ferskur og safaríkur bjór.  Við erum að auðvitað að tala um Borg Brugghús og Malbygg sem hafa verið skýjum ofar undanfarið og raðað út New England IPA eins og enginn sé morgundagurinn.  Úff þvílíkur orðaleikur.

Síðustu NEIPA bjórar frá Borg hafa verið framúrskarandi og allt frá upphafi hefur Malbygg verið að gera betri og betri bjór.  Sá nýjasti frá Malbygg, sem var bara að fara á dósir ÁÐAN, heitir Massaður Kjúklingur og er 8% double New England IPA með haug og helling af humlum, Citra, Mosaic og svo Columbus held ég, þurrhumlaður fjórum sinnum takk fyrir.  Bjórinn kemur í dósir í vínbúðir vonandi strax eftir helgi en eitthvað fyrr á  dælur á næsta bar.  Vá hvað þetta er gott, það besta frá Malbygg til þessa að mínu mati.IMG_7567-01.jpeg

Hver fílar ekki Ást á Pöbbnum? Geggjaður NEIPA frá Borg.

Eins og menn vita orðið (sem lesa þessar færslur mínar) þá er ég algjörlega forfallinn New England IPA (NEIPA) fíkill þessa stundina.  Það breytist sennilega einhvern tíman eins og allt en akkúrat núna er þetta málið en þess má geta að fleiri eru sammála mér þar sem NEIPA stíllinn er vinsælasti bjórstíll veraldar um þessar mundir.   Ég hef kvartað í gegnum tíðina yfir NEIPA leysi hér heima en loksins eru íslensku brugghúsin farin að reyna fyrir sér í hinum safaríku NEIPA stíl.  Það er auðvitað alls ekki til að þóknast mér samt bara svo það sé skjalfært!

Tilrunir brugghúsanna hafa að mestu verið svona la la til þessa og í raun ekki alveg náð þeim hæðum sem ég persónulega er að leita eftir.  Reyndar eru Malbygg guttar nánast búnir að mastera þetta og ég veit að það mun halda áfram að berast einhver snilld frá þeim! Ég viðurkenni það samt, mín viðmið eru Trillium í Boston, eða NEIPA bjórinn frá Lamplighter í sömu borg.  Þessi brugghús hafa neglt þennan stíl algjörlega.  Það er í raun ekki fyrr en núna….akkúrat í dag sem ég hugsaði Boston hvað? Þegar ég smakkaði nýjasta NEIPA bjórinn á klakanum ÁST Á PÖBBNUM frá Borg, en þeir hafa undanfarið verið að ferja í okkur NEIPA bjóra sem hafa verið stórgóðir nokkrir hverjir.  Bjórinn tilheyrir svo kallaðri T línu sem þýðir því miður að hann kemur bara á kúta í litlu magni á helstu bari borgarinnar.  Ást á pöbbnum er nr 6 í röðinni en nafnið er vísun í lagatexta okkar einu sönnu indversku prinsessu Leoncie sem eins og allir vita gerir stórbrotna og skemmtilega texta.  Svei mér þá, eftir nokkra Ást Á Pöbbnum frá Borg þá er bara alveg hægt að hlusta á Leoncie….hún hljómar bara nokkuð sæmilega….magnað.  Bjórinn er reyndar 7.1% sem hjálpar aðeins.

Alla vega, hér vil ég meina að menn hafi náð því sem að mínu mati er frábær safaríkur skýjaður New England IPA á pari við það sem maður kemst í tæri við í Boston.  Þetta eru stór orð…ég veit en ég ætla að lofa bruggurum Borgar Brugghúss að eiga þau bara.  Ég vona að fólk reyni að ná sér í smakk á börum borgarinnar en þetta þarf að drekkast sem fyrst því hér er um ferskvöru að ræða sem kemur í litlu upplagi.  Fyrir mína parta myndi ég vilja fá þennan bjór á dósir.  Líf mitt myndir bara breytast heilmikið við það að geta hvenær sem er rölt út í ÁTVR og fengið frábæran NEIPA þegar mér henntar.  Draumar eru draumar þannig er það bara.  Takk fyrir mig Leoncie og Borg.

Það verður lágskýjað um helgina því geggjað Borg, Lamplighter, KEX collab er að lenda á börum borgarinnar.

BOREALIS BABY nr. C14 er 7% New England IPA frá ekki minni mönnum en Borg Brugghús, Lamplighter og KEX brewing.  Jább, C merkið stendur fyrir „collab“ eða svo kallað samstarf þriggja brugghúsa sem kunna sko heldur betur að brugga bjór.  KEX Brewing eru að gera stórgóðan bjór þessi misserin og Borg er auðvitað búið að marg sanna sig en svo er hið „Bostoníska“ Lamplighter í sérlega sérstöku uppáhaldi þessa dagana en þeir eru snillingar í skýjuðum (hazy) IPA bjór sem hefur verið að tröllserða bjórheiminn undanfarin misseri. Sumir tala um að þeir séu á pari við Trillium sem segja má að séu Guðir í NEIPA bruggun.  Þeir slóu sannarlega í gegn á nýafstaðinni Bjórhátíð á KEX.

IMG_7320
Borealis Baby!!!

Borg hefur verið að svara kallinu síðustu misserin og verið að færa sig æ nær þessum vinsæla bjórstíl sem pöpullinn kallar eftir, með bjórum á borð við Midt om Natten, Best Fyrir 2018, Partyþokan og Hin Hliðin á Kodda sem mér fannst persónulega komast næst því sem mér finnst vera NEIPA , amk í íslenskri bjórgerð.  Áður en ég smakkaði Borealis Baby var Hin Hliðin á Kodda eitt af því besta frá Borg í langan tíma að mínu mati en þessi bjór hefur gjörbreytt því.   Borealis er einfaldlega stórbrotinn!  Bruggaður af alúð með citra, mosaic og idaho 7 humlum og algjörlega „true to the style“ hvernig sem maður segir það nú á íslenskunni?  Þessi frábæri karl kemur á helstu bari borgarinnar á föstudaginn skilst mér, tékkið á honum, munið ferskt ferskt ferskt.  Hann er að skemmast hægt og rólega í þessum töluðu….eða allt að því!

Þess má geta að Borg skellti sér til Boston á dögunum þar sem þeir brugguðu annan samstarfsbjór með Lamplighter á heimavelli í Cambridge!  Þessi bjór verður tilbúinn líklega í kringum lok næsta mánaðar ef einhverjir verða staddir í Boston!  Bjór & Matur verður á staðnum til að taka þetta allt saman út!!!

Bjórhátíð, lokahnykkurinn!

Þá er parTíið búið, loka dagur Bjórhátíðar var í gær og nú er heilt ár í næstu veislu.  Það eru dálítið blendnar tilfinningar sem bærast í manni í dag, að hluta til er ég dálítið feginn að þessu sé lokið, það er bara takmarkað hvað hægt er að leggja á sig en á hinn bóginn þá er maður dálítið tómur inní sér.  Hvað á maður að gera næstu daga t.d.? Enginn bjór? Það er reyndar alveg leyfilegt að opna dós af góðu öli í dag t.d. frá Lamplighter, svona til að trappa sig aðeins niður (þ.e.a.s ef maður var pínu séður og verslaði nesti á Bjórhátíð).

En tökum lokadaginn saman hér eldsnöggt en svo kemur heildar samantekt innan skamms.   Gærdagurinn var dálítið erfiðari en fyrstu tveir, ég held að palletan hafi verið orðinn mettuðm bragðlaukar dálítið dofnir og svo er hitt að maður verður svo vanur góðum bjór að kröfurnar aukast með degi hverjum.  Ég held að 3 dagar séu alveg max í svona fest.  Ég fann amk að ég átti erfitt með að finna virkilega góðan bjór í gær en mér tókst það nú samt.

IMG_6993
Ég smakkaði lítið af því íslenska í gær, en ég leit við hjá KEX brewing, Borg, Malbygg og Ölverk en ég bara gleymdi að smakka spennandi bjór frá Ör Brewing Project sem þeir kölluðu How Hi Are You og er IPA með bourbon, vanillu og laktósa.  Frekar súrt að missa af þessum skrítna karli, en ég er nokkuð viss um að ég geti laumast í smakk á næstunni eða hvað?  Malbygg var hins vegar með besta bjórinn þennan daginn að mínu mati, helvíti nettann skýjaðan pale ale með Galaxy.  Þetta er greinilega allt á réttri leið hjá þeim.  Borg var ekki með neitt spennandi þennan daginn, þ.e.a.s ekkert sem ég hafði ekki smakkað áður nema tuttugu og eitthvað rúmlega % kolsvarta monsterið á litlu tunnunni, hann fór alveg með mig svona á 3. degi í þynnku.  Ég ætla bara ekkert að tjá mig frekar um hann.

Ég var mest ánægður með það sem var að gerast á efri hæðinni í gær,  The Other Half héldu áfram að töfra mann upp úr skónum 3. daginn í röð.  Báðir IPA bjórarnir þeirra voru geggjaðir en mér fannst samt Space Cadet (9.1%) hazy citra DIPA frá Voodoo Brewing alveg sturlaður, einmitt það sem mig vantaði til að lifna aðeins við.  Black Magic, 13% imperial stoutinn frá Voodoo var einnig magnaður, þroskaður á four roses bourbon tunnum, hins vegar heldur snemmt að fara í svona karl kl 16:00 á laugardegi.  The Veil voru líka með mjög gott mót í gær, en ekkert nýtt  samt fyrir mig (hafði smakkað þetta á tap takeover á miðvikudaginn á Mikkeller).  Tripel IPAinn þeirra sem var undir alla dagana var reyndar með betri bjóruim hátíðarinnar.    Bokkereyder var með áhugaverðan bjór,  einn fyrsti bjórinn sem þeir gerðu, gueuze sem tappað var á flösku 2014.  Raf hafði gleymt þessum flöskum en fann þær bara nýlega og ákvað að kippa þeim með til Íslands.  Verulega flottur gueuze.

20180224_163845
Voodoo gaurarnir hafa verið að standa sig vel alla hátíðina

Civil Society (5 besta nýja brugghús á Ratberr 2017) þarf að nefna hér en þeir hafa verið með arfa góðan bjór alla hátíðina.  Safaríku DIPA bjórarnir standa uppúr hjá þeim og í gær var engin undantekning.  Mjög flott.  Besti bjór gærdagsins, þeir voru reyndar tveir, kom hins vegar frá Mikkeller.  Já ég veit pínu klisja? Samt, þessir voru algjörlega mindblowing.  Eftir helling af bjór í gær sem mér fannst bara góður þá kom þessi, Spontanpentadrupelrasperry 13% ávaxtasprengja sem kom mér bara í opna skjöldu.  Eftir þennan bjór var ég í raun bara tilbúin að fara heim og segja þetta gott, ég gerði það reyndar ekki, fékk mér fyrst annað glas ef þessu sælgæti og kláraði svo daginn á Mikkeller Beer Geek Vanilla Maple Shake barrel aged (13%) og þvílíkur endir á góðri hátíð.

20180224_175022_001-01.jpeg
Mikkeller Spontanpentadrupel rasperry (13%)