Húgó IPL Októberfest bjór frá Borg 2018 er algjörlega magnaður!

Það er að koma október og það þýðir oktoberfest með bjór, pylsum og læti ekki satt? Reyndar er hin upprunanlega oktoberfest byrjuð en hún byrjar ár hvert síðustu vikuna í September í Munchen Þýskalandi.  Í ár hófst veislan reyndar bara í dag þann 22.9.18 og ef þið hafið ekki þegar prófað þessa veislu í Munchen þá eigið þið mikið eftir.  Sturlun í allri merkingu þessa orðs.

En hér heima erum við með októberstemningu í smættaðri mynd víðs vegar um land, skólar, fyrirtæki og vinahópar halda uppá þessi tímamót um allt land í ýmsum stærðum og myndum.  Hér á landi miðum við við október fyrir þessi veisluhöld enda hljómar það bara rökrétt ekki satt?  En það er drukkinn bjór á októberfest og mikið af honum.  Í upprunalandinu Þýskalandi er þessi bjór alltaf lager og frekar á léttari nótunum en þó oft dálítið maltaður líka, stíllinn er stundum kallaður Marzen en ekki má kalla bjór alvöru oktoberfest bier nema hann sé bruggaður í Munchen í tengslum við þessa hátíð.

Hér heima eru brugghúsin sum hver farin að framleiða sérstakan bjór fyrir október „októberfestbjór“ eins og þeir kalla hann og við munum sjá þessa bjóra detta í vínbúðir núna einn af öðrum.  Borg Brugghús hefur verið að gera þetta síðustu árin og er alltaf um lager að ræða en yfirleitt er eitthvað skemmtilegt tvist á þeim en þó alltaf einhver tengsl við Þýskaland.   Hver man ekki eftir baltic porternum Grétu eða reykbjórnum Hans t.d?  Allir oktoberfest bjórar frá Borg eru með fjólubláum miða og í ár er það engin undantekning.  Húgó er nr 58 í röð Borg bjóra og kemur hann í verslanir í næstu viku, hann er reyndar þegar kominn á krana á Skál, Session Craft bar ofl stöðum og er um að gera að prófa hann ferskan því í ár þarf að drekka hann eins ferskan og hægt er, hann er bara bestur þannig.  Við erum að tala um stórkostlega 7.2% humla ávaxtabombu í anda New England IPA bjóra.  Þetta er þó lager fyrir þær sakir að hann er gerjaður með lagergeri en hann minnir í raun ekkert á lager, ekki í þeim skilningi sem flestir tengja við.  Ef ég væri að blindsmakka þennan bjór myndi ég gíska á NEIPA af bestu sort enda er hann þurrhumlaður í hengla með citra og mosaic humlum sem gefa þessa stórbrotnu ávaxtatóna og nett humlabit og svo er í honum lactosi sem skapar ákveðna mýkt og fyllingu. Borg kallar þennan bjór reyndar India Pale Lager til að tengja við humlana og beiskjuna. Magnaður bjór vægast sagt.

20180922_133754-01.jpeg

Tengingin við Þýskaland er kannski hér mest fólgin í nafngiftinni því stíllinn er fyrir mér alla vega eins amerískur og hann gerist!  Sem er frábært.  En nafnið er vísun til fatahönnuðsins Hugo Boss sem allir ættu að þekkja.  Hugo Boss stofnaði fyrirtækið í Þýskalandi árið 1924 og einbeitti sér upphaflega að því að hanna og framleiða einkennisbúninga fyrir þýska herinn.  Eftir síðari heimsstyrjöld hins vegar snéri fyrirtækið sér alfarið að því að hanna jakkaföt fyrir karlmenn.  Þar hafið þið það.

Bjórinn er væntanlegur eftir helgina í vínbúðir, vá hvað ég mun hamstra þetta!

Sushi borgari með krabbasalati og ljómandi lager bjór

Við elskum sushi hér á þessu heimili, það er ekkert leyndarmál og þegar ég rak augun í gaura í Las Vegas sem bjóða uppá sushi borgara af ýmsum toga þá var bara of erfitt að hemja sig.  Auðvitað varð ég að prófa.  Ég hef verið að djúpsteikja hitt og þetta að undanförnu eftir að tengdó gaf okkur forláta djúpsteikingarpott sem hún hefur notað í gegnum aldana rás.  Pottur með sál skal ég segja ykkur. Það var því borðleggjandi að gera djúpsteikt sushi grjón og nota í stað hamborgarabrauðs.

Megin áleggið á þessum borgara er spicy krabbasalat,  eitthvað sem ég hef verið að þróa í gegnun tíðina og hef bara náð ansi góðum árangri í.  Salatið er alveg sturlað í sushi.  Vinsælustu rúllurnar á okkar borðum satt best að segja.   Afgangurinn er svo bara eitthvað sem menn raða í raun sjálfir á borgarann eftir smekk.  Ég notaði hér fínt skornar paprikur, lárperusneiðar, ferskan lax í strimlum, graslauk, spicy majones, nori blað og soyja sósu.

Það sem þið þurfið (fyrir 5-6):

 • 500 g sushi grjón
 • 0,75 dl sushi edik
 • 0,75 dl sykur
 • 7 dl vatn
 • 1 nori blað
 • 1 pakki af brauðraspi
 • ferskur lax eftir smekk (má sleppa)
 • 2 lárperur
 • 1 pakka/búnt af graslauk
 • 1 dós létt majones
 • 1 límóna (safinn)
 • 2 rauðir ferskir chili ávextir
 • 1 tsk reykt paprikuduft
 • 1/2 pakki frosið krabbakjöt (surimi sem er í raun ekki alvöru krabbi)
 • 2-3 L djúpsteikingarolía

Bjórinn með: 

Hvað er gott með sushi?  Við fórum í gegnum það dálítið hér um árið, hveitibjór er flottur með sushi, belgískur blond líka og jafnvel vel valinn súrbjór.  Hér erum við hins vegar með dálítið þungan rétt og mikið að gerast.  Lagerinn gengur vel og svo ekki sé talað um aðeins humlaðan lager á borð við nýja oktoberbjórinn frá Borg, RUMPUTUSKI!

Aðferð:

Byrjið á grjónunum, það er dálítið dútl, tekur ca 2 tíma í heildina.  Sjá nánar hér.   Þegar grjónin eru komin í bleyti er best að fara í að græja krabbasalatið.  Hér er það dálítið eftir smekk bara, þetta er svona ca eins og hér segir:

 • Majones, ca hálf krukka(fer alveg eftir hve mikið þið ætlið að gera)
 • Surimi („krabbakjöt“), t.d. 6-10 lengjur.  Skorið mjög fínt.
 • Vorlaukur eða blaðlaukur, skorið mjög fínt.  Magn fer bara eftir smekk.
 • Safi úr heilli lárperu
 • Chilli krydd, eða ferskur fíntskorinn chili.  Eftir smekk, má alveg taka vel í
 • Reykt paprikuduft, eftir smekk.

20170923_212458

Hrærið bara öllu saman í skál og látið standa. Klárið svo að græja grjónin og látið þau kólna.  Gerið dressinguna, 0,75 dl edik og 0.75dl sykur í pott.  Hitið þar til sykurinn er horfinn og hellið þessu svo yfir grjónin þegar þau hafa náð ca stofuhita.

Gerið áleggið klárt, skerið niður papriku í fínar ræmur, laxinn í ræmur líka.  Lárperur eru skornar í fínar sneiðar og svo er graslaukurinn tilbúinn á kantinum.   Næst er svo að gera botninn og lokið á borgarann úr grjónunum.   Hér þarf að hafa eitthvað mót til að móta grjónin.  Fínt að nota sama áhald ef menn nota slíkt til að búa til hamborgara úr nautahakki.

Hitið olína í potti, max hiti. Veltið svo „grjónaborgurunum“ varlega uppúr raspinu og djúpsteikið einn og einn í einu.  Látið kólna aðeins og svo bara raðið þið þessu saman á smekklegan máta.  Ég klippti noriblöðin í ferninga, rétt aðeins minni en borgararnir sjálfir og rétt aðeins bleytti í þeim til að mýkja.  Þetta er nú aðalega til að fá sushi stemninguna, þarf alls ekki að vera með.   Berið svo fram með góðum bjór!

Pörunin:

Þessi borgari er frekar þungur, einn svona gaur er vel til að fylla stóran svangan karlmann.  Líklega mun ég prófa aftur að gera þetta og hafa þá bara djúpsteikt grjón í botninn og mun minni botn og raða svo ofan á eins og á snittum.  Bjórinn má ekki vera þungur því þá er þetta bara búið, við þurfum bjór sem er líflegur og léttir stemninguna, ég held að belgíski blondinn yrði of mikið hér, súrbjór gæti vel gengið og humlaður hveiti er líklega flottur með en við fórum í nýja bjórinn frá Borg, Oktoberbjórinn frá þeim í ár, RUMPUTUSKI sem er svo kallaður indian pale lager (IPL).

Já við erum þá með lager sem hefur aðeins verið fitlað við með humlum sem gefa honum þannig meiri beiskju og karakter.  Ég held að þetta sé bara akkúrat bjórinn sem við þurfum með þessum rétt.  Klassískur lager væri mögulega of einfaldur og myndir hverfa í skuggan á sterku salatinu og spicy majoinu.  Humlarnir í Rumputuska tengja vel við sterku kryddin og magna upp bragð í bæði bjór og mat en á sama tíma tengir sætan frá korninu í bjórnum við sætuna í paprikunni og dempar þetta allt saman og pakkar einhvern veginn inn á notalegan máta. Það er jafnframt mikil sæta í þessum djúpsteiktu grjónum sem gæti orðið of mikið af þvi góða en beiskjan bæði frá humlunum og graslauknum brjóta þetta aðeins upp og draga úr væmninni.  Djúpsteikingin skapar skemmtilega stökka áferð sem passar líka svo vel við lagerinn sem er dálítið „krispí“ og beittur í munni ef svo má segja.

Mér finnst líka alltaf beiskja í bjór opna upp þunga rétti og skapa pláss í mallakút, kannski dálítið eins og kók og þung steik? Þegar ég er að tala um beiskju hér er ég samt að tala um afar látlausa beiskju, ekkert á við IPA eða Pale Ale samt þannig að fólk þarf ekki að óttast neitt.  Þetta er bjór sem allir ættu að geta sötrað með góðu móti. Þetta er alla vega mjög flott combo hér og þessi sushi borgari er alveg geggjaður!