Hey Kanína IPL frábært collab frá Borg og Lamplighter í Boston..komdí partí!

Skömmu eftir Hina íslensku bjórhátíð 2019 fengum við Íslendingar að njóta samverkefnis þeirra Borg manna og Lamplighter í Boston.  Hey Kanína hét sá bjór og kom hann út sem C bjór eða bjór úr svo kallaðri collab seriu Borg Brugghúss. Þó það hafi ekki verið T bjór eða tilraunabjór þá var útgáfan amk í T línu stíl.  Þ.e.a.s tilraunaverkefni sem koma einungis á kúta í takmörkuðu upplagi og þeir berast á útvalda bari sama dag og þeim er tappað á kúta.  Hugmyndin er væntanlega sú að prófa sig áfram, þreifa á markaðinum og þá jafnvel þróa í framhaldinu bjór sem gæti komið á flöskur eða dósir.  Til þessa hefur enginn T bjór komið í vínbúðir svo ég best veit.  Hey Kanína er nú kominn aftur og í þetta skiptið á dásamlega fallegar dósir og mun berast í vínbúðir vonandi núna á morgun.   Þeir sem ekki þekkja til þá er Lamplighter með betri brugghúsum í Boston um þessar mundir.  Þeir eru staðsettir í Cambridge í Boston í rólegu lágreistu studentahverfi og er afar ljúft að vera þarna og sötra öl og fylgjast með verðandi stórmennum vinna heima vinnu sína yfir kollu.  Bjórinn er afar fjölbreyttur, þeir brugga alls konar, ekki bara hazy new england bjór þrátt fyrir staðsetninguna og það sem einkennir allan bjórinn þeirra er að hann er sérlega vandaður.  Tyler vinur minn og yfir bruggmeistari  hjá Lamplighter leggur nefnilega mikla alúð í bjórinn og er mikið í mun að gera bjórstílum hátt undir höfði og vanda til verks. Það er ofsalega gaman að spjalla við hann því eins fróðan mann um brugg, ger, bjórgerð og bjórstíla er erfitt að finna. Nánar um Lamplighter hér og fyrra collab þeirra með Borg Brugghús.

20190606_213602-012021750225.jpeg

Hey Kanína er ekki páskabjór þrátt fyrir afar páskalegt yfirbragð, um er að ræða lager með skemmtilegri fléttu því hann er óvenju þurrhumlaður og djúsí.  Þetta er eiginlega einhvers konar samflétta lagers og new england pale ale.  Hann nær nefnilega ekki að vera nægilega beiskur til að líkja honum við IPAIPL eða india pale lager kalla þeir þennan stíl (sem ekki er til formlega) og held ég að þeir hitti alveg naglan á höfuðið þar.
Fyrir mig er þetta kærkominn bjór því ekki bara er hann dásamlega ljúfur heldur er ég persónulega pínu að fá leið á þessum skýjuðu NEIPA bjórum, ekki misskilja mig, þeir eru dásamlegir oftast en ég er aðeins farinn að þreifa aftur fyrir mér í lager fjölskyldunni.  Ljúfur vel gerður lager er bara svo góður.   Hey Kanína tengir þessa tvo heima saman, hann er skýjaður eins og NEIPA, angar af djúsí humlum en einnig má finna lager heytugguna í nefi sem er dálítið skemmtilegt.  Humlarnir, citra, el dorado, idaho 7 og simcoe sem maður tengir oftast við IPA eða NEIPA koma vel út og gefa safaríka ávaxtatóna en svo kemur þessi lager bragur í gegn, heytuggan sem ég kannast svo við frá hinum gyllta lager, og breytir dálítið heildarmyndinni, mögulega er það lager ger sem gerir þetta?  Fylling er góð enda er í þessum bjór hveitimalt og maltaðir hafrar og slatti af lactosa en allt þetta er afar klassískt í NEIPA bjór.  Eftirbragð er ljúft, mjúkt í byrjun með ávaxtablæ en svo tekur einhver lagertónn yfir.  Þessi bjór er í raun það sem hann gefur sig út fyrir að vera, lager og öl.
Merkimiðinn eða í raun dósin sjálf, það er enginn merkimiði, er fáránlega falleg með hoppandi kanínum með hendur fyrir höfuð.  Kanínurnar eru tenging við einn frægasta bjór Lamplighter, Rabbit Rabbit sem jafnframt er einn besti NEIPA bjór á markaði í dag.

Látið ykkur hlakka til að njóta langrar Hvítasunnuhelgar með þessu góðgæti!

Eðal chilli nautahakk á kálbeði með góðum lager

Ok þetta er eitt af því fyrsta sem ég prófaði frá Gordon Ramsay fyrir mörgum árum síðan.  Það er til nautahakk og svo er til nautahakk sem búið er að lyfta upp á annað plan.  Þetta er geggjað gott og fáránlega einfalt að gera og svo er þetta lág kolvetna! Hollur og ljúfur götumatur ef svo má segja.  Sósan sem er í þessu er eitthvað sem ég nota reyndar oft á ýmislegt, t.d. til að marinera naut ofl.   Ég hef undanfarið verið að skoða lager stílinn og reynt að endurvekja áhuga minn á þessum bjórstíl.  Mig vantaði því einhvern rétt sem væri hægt að para vel við.

Það sem þarf í þetta (ca fyrir 4):

  • 800g nautahakk
  • 500-800g svínahakk
  • 2-3 msk ólífuolía til steikingar
  • salt og pipar eftir smekk
  • 1 tsk sesam olía
  • 1-2 ferskur chilli, rauður og smátt skorinn
  • 3 hvítlauksgeirar, skornir í smátt
  • ca 3 msk smátt skorin fersk engiferrót
  • 5 msk smátt skorinn vorlaukur
  • 1,5 msk púðursykur
  • sletta af fiskisósu
  • 1 límóna, rifinn börkur og safi
  • Stökkt sallat sem myndar bolla eða litlar skálar.  Finnið bara eitthvað sem hentar

Fyrir sósuna (þetta er svona ca, maður smakkar bara til):

  • 2 msk púðursykur
  • 5-6 msk soya sósa (kikkoman)
  • 1 msk sesam ólía
  • 2-3 msk ólifuolía
  • 1 tsk fiskisósa
  • 2 límónur, safinn
  • 1 ferskur rauður chilli, skorinn í sneiðar
  • góð lúka af kóríander, gróft skorinn

Bjórinn:

  • Einhver flottur lager, hér kemur margt til greina, ljós premium eða pilsnerSchwarzbier eða bock er jafnvel enn betra!


Aðferðin

Það er gaman að gera þennan rétt því útkoman er svo flott og fólk sem smakkar þetta heldur að maður hafi staðið sveittur í eldhúsinu.  Byrjum á að salta og pipra kjötuð áður en það er steikt.  Svo kemur mikilvægi hlutinn, að steikja kjötið þannig að það verði stökkt en ekki sjóða það á pönnunni.

Setjið ólífuolíu á pönnu og hitið vel, myljið svo nautahakk og svínahakkið á pönnuna og notið tréskeið til að mylja þetta á pönnunni.   Veltið þessu reglulega til og frá svo brenni ekki.  Stundum er eins og það myndist slatti af vökva við steikinguna og þá byrjar kjötið að sjóða, við viljum það ekki, við viljum heyra snarkið á pönnunni.  Ég hef stundum bara hellt þessum vökva af og haldið áfram að steikja.   Þegar kjötið er orðið fallega brúnt og brennt á stöku stað er það sett í sigti og látið standa þannig.  Hér lekur vökvi og fita af kjötinu.

Svo er það að þerra pönnuna, ekki þvo hana.  ca 1 tsk sesam olía á pönnuna og hitið pönnuna á meðal hita eða svo.   Skerið niður 1 – 2 chilli, 2-3 hvítlauksgeira og svo ferska engiferrót þannig að þið endið með um 3-4 msk.  Þetta er reyndar allt eftir smekk bara.  Skellið þessu á pönnuna, ca 1,5 msk púðursykur yfir og steikið aðeins.  Sykurinn skapar smá karmelliseringu.  Lyktin á þessu stigi er geggjuð.

Bætið svo kjötinu á pönnuna og steikið áfram og blandið öllu saman.  Rífið svo límónubörk yfir, þetta lyftir upp kjötinu og gerir þetta ofsalega djúsí.   Svo kreistið þið safa úr 1-2 límónum yfir til að skapa smá sýrujafnvægi.  Smakkið á þessu núna, þetta er geggjað.   Skerið svo vorlauk í smátt og bætið saman við síðustu 30 sek.   Færið allt saman yfir á disk eða skál sem þið berið þetta fram í.

Svo er það sósan.  Hér hef ég bara slumpað í þetta og smakkað til.    Náið í skál, setjið 2 msk púðursykur, hellið 5-6 msk soya yfir og hrærið aðeins saman.  Svo er það ólifuolían og sesam olían, 1 tsk fiskisósa og safi úr amk 2 límónum.  Hrærið öllu saman og bætið svo chilli skífunum og kóríander út í.  Ef ykkur finnst vanta meira lime eða soya þá bara bætið þið við.  Sósan á samt að vera bragðmikil og rífa ögn í.  Best er að setja þetta svo í gallega skál með skeið og bera þannig fram. 

Rétturinn er þannig að maður fyllir sjálfur kjötið í kálblaðið og setur svo sósuna yfir.  Þetta er puttamatur og svolítið messí þannig að hafið endilega þurrkur við höndina.  Við höfum stundum með þessu líka sriracha majo (majones blandað með sriracha sósu eftir smekk).

IMG_8314-01.jpeg

Pörunin

Þessi réttur er með dálitlum hita frá chilliinu og svo mikið salt einnig en fersk límónan léttir aðeins á þessu öllu og opnar upp. Svínakjötið gefur einnig nokkuð feita djúsí áferð en kjötið er þó þægilega stökkt og skemmtilegt og svo er sallatblaðið líka stökkt.  Hér þarf bjór sem ræður við þetta allt án þess að það skemmi bjórinn eða áferðina á réttinum.  IPA magnar upp salt og chilli hitann og gæti verið allt of mikið hér.  Lagerinn er hins vegar fullkominn, hann er léttur og nettur með sætum undirtón frá maltinu en er þó þægilega beiskur og krispí til að tækla hitann og seltuna.  Lager er líka nokkuð kolsýrður en búblurnar vinna frábært verk við að hreinsa gómboga milli bita og létta á öllu saman.   Við vorum hér með nýja lagerinn frá Borg og Fræbbblunum, Bjór NR. C18 sem passaði fullkomlega með þessu.  Þessi bjór er meira humlaður en klassískur pilsner en það gefur bjórnum meiri beiskju og ávaxtablæ frá humlunum en humlarnir virka hér eins og enn eitt kryddið á kjötið og eins og ég segi alltaf, humlar og kóríander eru töfrandi blanda, það gerist bara eitthvað svo magnað þegar þetta kemur saman!

Bjór! C18 frá Borg og Fræbbblunum, er lagerinn að koma aftur?

Lífið gengur í endalausa hringi og það sama má segja um tískustrauma og stefnur og smekk manna held ég.  Í upphafi (fyrir 20 árum) var maður sjálfur bara í lager bjór, bara þessum klassíska ljósa lager sem á rætur sínar að rekja til hins gullna pilseners frá Tékklandi fyrir ansi mörgum áratugum.   Svo fór maður að fikta í ölinu, færði sig yfir í belgíska ölið enda ljúft og milt og ekki svo krefjandi.  Þaðan lá leiðin yfir í ameríska ölið, pale ale og india pale ale og svo varð fjandinn laus, maður fór að elska humlabombur og rótsterka bjórstíla á borð við DIPA, tripel IPA, og imperial stout og barley wine helst tunnuþroskað í drasl á alls konar áfengis tunnum.  Svo hefur funkið alltaf verið líka „on the side“ þ.e.a.s funky villibjórarnir og gallsúru súrölin.  Þetta hefur mallað svona síðustu árin þar til New England IPA stíllinn kom fram og algjörlega heltók mig.  Bakkelsis bjórinn með öllu sínu gotteríi á líka hug minn allan um þessar mundir.  Lagerinn er fyrir löngu dauður hjá mér en þegar ég fór að hugsa um það síðustu vikur finnst mér það miður.  Það var alltaf staður og stund fyrir góðan lager en góður lager er alls ekki eitthvað sem auðvelt er að gera.  Við heimabruggarar höfum lítið fyrir að brugga pale ale eða IPA en lagerinn er snúnari.  Ég hef enn ekki smakkað góðan heimagerðan lager.

Craft brugghúsin úti í hinum stóra heimi hafa sum hver reynt að halda stílnum lifandi fyrir bjórnördunum en það reynist oft erfitt þegar menn hrópa eftir meiri djús, meiri beiskju eða meiri sýru og svo fram eftir götum.  Það eru hins vegar til virkilega flottir pilsner bjórar og lager af ýmsum toga þarna úti.   B&M hefur ákveðið að nota árið 2019 í að endurvekja lagerinn í hjartanu og koma honum aftur á blað.   Það var því sönn ánægja þegar Borg Brugghús kom með þennan nýja bjór sinn sem bruggaður er með Fræbbblunum í tilefni 30 ára afmæli bjórs á Íslandi en Fræbbblarnir voru eins og margir harðir gagnrýnendur bjórbannsins og kom það stundum fram í lagatextum hljómsveitarinnar.   Bjórinn heitir bara því lýsandi nafni Bjór! NrC18 og er skv merkimiðanum india pale lager en undirritaður kýs að kalla hann hoppy pilsner eða premium lager.  Bjór þessi er svo sannarlega kærkomin tilbreyting frá öllum skýjabjórnum sem reyndar er unaðslegur en stundum þarf maður hlé.  Þetta er frábær bjór, kristal tær, hreinn á tungu með krispí humlum og þó nokkurri sætu frá korninu.  Svo er hann vel humlaður með citra humlum þannig að hann verður ekstra safaríkur en nær þó alls ekki að verða þannig að kalla mætti pale ale eða IPA.  Bjór er held ég bjór sem allir ættu að eiga auðvelt með að elska.  Svona þegar ég hugsa út í það þá minnir hann dálítið á American Dream frá Mikkeller sem fæst í vínbúðunum.

Frábært, takk fyrir mig Borg og Fræbbblar!

Húgó IPL Októberfest bjór frá Borg 2018 er algjörlega magnaður!

Það er að koma október og það þýðir oktoberfest með bjór, pylsum og læti ekki satt? Reyndar er hin upprunanlega oktoberfest byrjuð en hún byrjar ár hvert síðustu vikuna í September í Munchen Þýskalandi.  Í ár hófst veislan reyndar bara í dag þann 22.9.18 og ef þið hafið ekki þegar prófað þessa veislu í Munchen þá eigið þið mikið eftir.  Sturlun í allri merkingu þessa orðs.

En hér heima erum við með októberstemningu í smættaðri mynd víðs vegar um land, skólar, fyrirtæki og vinahópar halda uppá þessi tímamót um allt land í ýmsum stærðum og myndum.  Hér á landi miðum við við október fyrir þessi veisluhöld enda hljómar það bara rökrétt ekki satt?  En það er drukkinn bjór á októberfest og mikið af honum.  Í upprunalandinu Þýskalandi er þessi bjór alltaf lager og frekar á léttari nótunum en þó oft dálítið maltaður líka, stíllinn er stundum kallaður Marzen en ekki má kalla bjór alvöru oktoberfest bier nema hann sé bruggaður í Munchen í tengslum við þessa hátíð.

Hér heima eru brugghúsin sum hver farin að framleiða sérstakan bjór fyrir október „októberfestbjór“ eins og þeir kalla hann og við munum sjá þessa bjóra detta í vínbúðir núna einn af öðrum.  Borg Brugghús hefur verið að gera þetta síðustu árin og er alltaf um lager að ræða en yfirleitt er eitthvað skemmtilegt tvist á þeim en þó alltaf einhver tengsl við Þýskaland.   Hver man ekki eftir baltic porternum Grétu eða reykbjórnum Hans t.d?  Allir oktoberfest bjórar frá Borg eru með fjólubláum miða og í ár er það engin undantekning.  Húgó er nr 58 í röð Borg bjóra og kemur hann í verslanir í næstu viku, hann er reyndar þegar kominn á krana á Skál, Session Craft bar ofl stöðum og er um að gera að prófa hann ferskan því í ár þarf að drekka hann eins ferskan og hægt er, hann er bara bestur þannig.  Við erum að tala um stórkostlega 7.2% humla ávaxtabombu í anda New England IPA bjóra.  Þetta er þó lager fyrir þær sakir að hann er gerjaður með lagergeri en hann minnir í raun ekkert á lager, ekki í þeim skilningi sem flestir tengja við.  Ef ég væri að blindsmakka þennan bjór myndi ég gíska á NEIPA af bestu sort enda er hann þurrhumlaður í hengla með citra og mosaic humlum sem gefa þessa stórbrotnu ávaxtatóna og nett humlabit og svo er í honum lactosi sem skapar ákveðna mýkt og fyllingu. Borg kallar þennan bjór reyndar India Pale Lager til að tengja við humlana og beiskjuna. Magnaður bjór vægast sagt.

20180922_133754-01.jpeg

Tengingin við Þýskaland er kannski hér mest fólgin í nafngiftinni því stíllinn er fyrir mér alla vega eins amerískur og hann gerist!  Sem er frábært.  En nafnið er vísun til fatahönnuðsins Hugo Boss sem allir ættu að þekkja.  Hugo Boss stofnaði fyrirtækið í Þýskalandi árið 1924 og einbeitti sér upphaflega að því að hanna og framleiða einkennisbúninga fyrir þýska herinn.  Eftir síðari heimsstyrjöld hins vegar snéri fyrirtækið sér alfarið að því að hanna jakkaföt fyrir karlmenn.  Þar hafið þið það.

Bjórinn er væntanlegur eftir helgina í vínbúðir, vá hvað ég mun hamstra þetta!

Sushi borgari með krabbasalati og ljómandi lager bjór

Við elskum sushi hér á þessu heimili, það er ekkert leyndarmál og þegar ég rak augun í gaura í Las Vegas sem bjóða uppá sushi borgara af ýmsum toga þá var bara of erfitt að hemja sig.  Auðvitað varð ég að prófa.  Ég hef verið að djúpsteikja hitt og þetta að undanförnu eftir að tengdó gaf okkur forláta djúpsteikingarpott sem hún hefur notað í gegnum aldana rás.  Pottur með sál skal ég segja ykkur. Það var því borðleggjandi að gera djúpsteikt sushi grjón og nota í stað hamborgarabrauðs.

Megin áleggið á þessum borgara er spicy krabbasalat,  eitthvað sem ég hef verið að þróa í gegnun tíðina og hef bara náð ansi góðum árangri í.  Salatið er alveg sturlað í sushi.  Vinsælustu rúllurnar á okkar borðum satt best að segja.   Afgangurinn er svo bara eitthvað sem menn raða í raun sjálfir á borgarann eftir smekk.  Ég notaði hér fínt skornar paprikur, lárperusneiðar, ferskan lax í strimlum, graslauk, spicy majones, nori blað og soyja sósu.

Það sem þið þurfið (fyrir 5-6):

  • 500 g sushi grjón
  • 0,75 dl sushi edik
  • 0,75 dl sykur
  • 7 dl vatn
  • 1 nori blað
  • 1 pakki af brauðraspi
  • ferskur lax eftir smekk (má sleppa)
  • 2 lárperur
  • 1 pakka/búnt af graslauk
  • 1 dós létt majones
  • 1 límóna (safinn)
  • 2 rauðir ferskir chili ávextir
  • 1 tsk reykt paprikuduft
  • 1/2 pakki frosið krabbakjöt (surimi sem er í raun ekki alvöru krabbi)
  • 2-3 L djúpsteikingarolía

Bjórinn með: 

Hvað er gott með sushi?  Við fórum í gegnum það dálítið hér um árið, hveitibjór er flottur með sushi, belgískur blond líka og jafnvel vel valinn súrbjór.  Hér erum við hins vegar með dálítið þungan rétt og mikið að gerast.  Lagerinn gengur vel og svo ekki sé talað um aðeins humlaðan lager á borð við nýja oktoberbjórinn frá Borg, RUMPUTUSKI!

Aðferð:

Byrjið á grjónunum, það er dálítið dútl, tekur ca 2 tíma í heildina.  Sjá nánar hér.   Þegar grjónin eru komin í bleyti er best að fara í að græja krabbasalatið.  Hér er það dálítið eftir smekk bara, þetta er svona ca eins og hér segir:

  • Majones, ca hálf krukka(fer alveg eftir hve mikið þið ætlið að gera)
  • Surimi („krabbakjöt“), t.d. 6-10 lengjur.  Skorið mjög fínt.
  • Vorlaukur eða blaðlaukur, skorið mjög fínt.  Magn fer bara eftir smekk.
  • Safi úr heilli lárperu
  • Chilli krydd, eða ferskur fíntskorinn chili.  Eftir smekk, má alveg taka vel í
  • Reykt paprikuduft, eftir smekk.

20170923_212458

Hrærið bara öllu saman í skál og látið standa. Klárið svo að græja grjónin og látið þau kólna.  Gerið dressinguna, 0,75 dl edik og 0.75dl sykur í pott.  Hitið þar til sykurinn er horfinn og hellið þessu svo yfir grjónin þegar þau hafa náð ca stofuhita.

Gerið áleggið klárt, skerið niður papriku í fínar ræmur, laxinn í ræmur líka.  Lárperur eru skornar í fínar sneiðar og svo er graslaukurinn tilbúinn á kantinum.   Næst er svo að gera botninn og lokið á borgarann úr grjónunum.   Hér þarf að hafa eitthvað mót til að móta grjónin.  Fínt að nota sama áhald ef menn nota slíkt til að búa til hamborgara úr nautahakki.

Hitið olína í potti, max hiti. Veltið svo „grjónaborgurunum“ varlega uppúr raspinu og djúpsteikið einn og einn í einu.  Látið kólna aðeins og svo bara raðið þið þessu saman á smekklegan máta.  Ég klippti noriblöðin í ferninga, rétt aðeins minni en borgararnir sjálfir og rétt aðeins bleytti í þeim til að mýkja.  Þetta er nú aðalega til að fá sushi stemninguna, þarf alls ekki að vera með.   Berið svo fram með góðum bjór!

Pörunin:

Þessi borgari er frekar þungur, einn svona gaur er vel til að fylla stóran svangan karlmann.  Líklega mun ég prófa aftur að gera þetta og hafa þá bara djúpsteikt grjón í botninn og mun minni botn og raða svo ofan á eins og á snittum.  Bjórinn má ekki vera þungur því þá er þetta bara búið, við þurfum bjór sem er líflegur og léttir stemninguna, ég held að belgíski blondinn yrði of mikið hér, súrbjór gæti vel gengið og humlaður hveiti er líklega flottur með en við fórum í nýja bjórinn frá Borg, Oktoberbjórinn frá þeim í ár, RUMPUTUSKI sem er svo kallaður indian pale lager (IPL).

Já við erum þá með lager sem hefur aðeins verið fitlað við með humlum sem gefa honum þannig meiri beiskju og karakter.  Ég held að þetta sé bara akkúrat bjórinn sem við þurfum með þessum rétt.  Klassískur lager væri mögulega of einfaldur og myndir hverfa í skuggan á sterku salatinu og spicy majoinu.  Humlarnir í Rumputuska tengja vel við sterku kryddin og magna upp bragð í bæði bjór og mat en á sama tíma tengir sætan frá korninu í bjórnum við sætuna í paprikunni og dempar þetta allt saman og pakkar einhvern veginn inn á notalegan máta. Það er jafnframt mikil sæta í þessum djúpsteiktu grjónum sem gæti orðið of mikið af þvi góða en beiskjan bæði frá humlunum og graslauknum brjóta þetta aðeins upp og draga úr væmninni.  Djúpsteikingin skapar skemmtilega stökka áferð sem passar líka svo vel við lagerinn sem er dálítið „krispí“ og beittur í munni ef svo má segja.

Mér finnst líka alltaf beiskja í bjór opna upp þunga rétti og skapa pláss í mallakút, kannski dálítið eins og kók og þung steik? Þegar ég er að tala um beiskju hér er ég samt að tala um afar látlausa beiskju, ekkert á við IPA eða Pale Ale samt þannig að fólk þarf ekki að óttast neitt.  Þetta er bjór sem allir ættu að geta sötrað með góðu móti. Þetta er alla vega mjög flott combo hér og þessi sushi borgari er alveg geggjaður!