Skömmu eftir Hina íslensku bjórhátíð 2019 fengum við Íslendingar að njóta samverkefnis þeirra Borg manna og Lamplighter í Boston. Hey Kanína hét sá bjór og kom hann út sem C bjór eða bjór úr svo kallaðri collab seriu Borg Brugghúss. Þó það hafi ekki verið T bjór eða tilraunabjór þá var útgáfan amk í T línu stíl. Þ.e.a.s tilraunaverkefni sem koma einungis á kúta í takmörkuðu upplagi og þeir berast á útvalda bari sama dag og þeim er tappað á kúta. Hugmyndin er væntanlega sú að prófa sig áfram, þreifa á markaðinum og þá jafnvel þróa í framhaldinu bjór sem gæti komið á flöskur eða dósir. Til þessa hefur enginn T bjór komið í vínbúðir svo ég best veit. Hey Kanína er nú kominn aftur og í þetta skiptið á dásamlega fallegar dósir og mun berast í vínbúðir vonandi núna á morgun. Þeir sem ekki þekkja til þá er Lamplighter með betri brugghúsum í Boston um þessar mundir. Þeir eru staðsettir í Cambridge í Boston í rólegu lágreistu studentahverfi og er afar ljúft að vera þarna og sötra öl og fylgjast með verðandi stórmennum vinna heima vinnu sína yfir kollu. Bjórinn er afar fjölbreyttur, þeir brugga alls konar, ekki bara hazy new england bjór þrátt fyrir staðsetninguna og það sem einkennir allan bjórinn þeirra er að hann er sérlega vandaður. Tyler vinur minn og yfir bruggmeistari hjá Lamplighter leggur nefnilega mikla alúð í bjórinn og er mikið í mun að gera bjórstílum hátt undir höfði og vanda til verks. Það er ofsalega gaman að spjalla við hann því eins fróðan mann um brugg, ger, bjórgerð og bjórstíla er erfitt að finna. Nánar um Lamplighter hér og fyrra collab þeirra með Borg Brugghús.
Hey Kanína er ekki páskabjór þrátt fyrir afar páskalegt yfirbragð, um er að ræða lager með skemmtilegri fléttu því hann er óvenju þurrhumlaður og djúsí. Þetta er eiginlega einhvers konar samflétta lagers og new england pale ale. Hann nær nefnilega ekki að vera nægilega beiskur til að líkja honum við IPA. IPL eða india pale lager kalla þeir þennan stíl (sem ekki er til formlega) og held ég að þeir hitti alveg naglan á höfuðið þar.
Fyrir mig er þetta kærkominn bjór því ekki bara er hann dásamlega ljúfur heldur er ég persónulega pínu að fá leið á þessum skýjuðu NEIPA bjórum, ekki misskilja mig, þeir eru dásamlegir oftast en ég er aðeins farinn að þreifa aftur fyrir mér í lager fjölskyldunni. Ljúfur vel gerður lager er bara svo góður. Hey Kanína tengir þessa tvo heima saman, hann er skýjaður eins og NEIPA, angar af djúsí humlum en einnig má finna lager heytugguna í nefi sem er dálítið skemmtilegt. Humlarnir, citra, el dorado, idaho 7 og simcoe sem maður tengir oftast við IPA eða NEIPA koma vel út og gefa safaríka ávaxtatóna en svo kemur þessi lager bragur í gegn, heytuggan sem ég kannast svo við frá hinum gyllta lager, og breytir dálítið heildarmyndinni, mögulega er það lager ger sem gerir þetta? Fylling er góð enda er í þessum bjór hveitimalt og maltaðir hafrar og slatti af lactosa en allt þetta er afar klassískt í NEIPA bjór. Eftirbragð er ljúft, mjúkt í byrjun með ávaxtablæ en svo tekur einhver lagertónn yfir. Þessi bjór er í raun það sem hann gefur sig út fyrir að vera, lager og öl.
Merkimiðinn eða í raun dósin sjálf, það er enginn merkimiði, er fáránlega falleg með hoppandi kanínum með hendur fyrir höfuð. Kanínurnar eru tenging við einn frægasta bjór Lamplighter, Rabbit Rabbit sem jafnframt er einn besti NEIPA bjór á markaði í dag.
Látið ykkur hlakka til að njóta langrar Hvítasunnuhelgar með þessu góðgæti!
You must be logged in to post a comment.