Þeir Tore og Tobias hjá To Øl létu loksins verða að því að opna sinn eigin stað í Kaupmannahöfn fyrr á þessu ári, lítið To Øl veldi væri reyndar betri lýsing.  Þetta veldi kalla þeir Brus en þar er bæði bar, brugghús, flöskubúð og svo veitingastaðurinn Spontan.  Á Spontan snýst allt um ferskt hráefni, matar og bjór/vínpöryn og hér gengur maður ekki að neinu vísu nema kanski gæðunum því bæði bjórlistinn og matseðillinn er síbreytilegur.  Það er Michelin kokkurinn Christian Gadient sem ræður ríkjum á Spontan en hann er jafnframt yngsti Michelin stjörnukokkur Dana eins og þeir kalla hann þótt hann sé í raun frá Austurríki en búsettur í Danmörku en það er önnur og líklega leiðinleg saga.  Christian ákveður „spontant“ hvað hann vill hafa á matseðlinum hverju sinni og því veit maður í raun ekkert hvað maður gengur að þegar maður pantar borð á Spontan, matseðillinn breytist reyndar ekki daglega en samt nokkuð ört.  Þetta gerir staðinn mun skemmtilegri því maður getur þá komið aftur og aftur og alltaf prófað eitthvað nýtt.

20161116_203136Matseðillinn er einfaldur, maður velur sér fjögurra, fimm eða sex rétta máltíð og svo bjór með, 3,4,5, eða 6 allt eftir því hvað maður þolir.  Þjónustan er persónuleg og vinaleg og allir vita hvað þeir eru með í höndunum, bæði hvað bjór og mat varðar því þjónarnir eru allir einnig starfsfólk í eldhúsinu og fara höndum um réttina í framleiðslu þeirra.  Ég var svo heppinn að sú sem þjónaði mér til borðs, Trine, er hægri hönd Christians og sjálfur kokkur á staðnum og jafnframt sú sem velur bjórinn með réttunum ásamt Christian. Christian kom svo sjálfur með einn réttinn og þá gafst tækifæri á að spjalla örstutt við hann og auðvitað hrósa matseldinni. Það vakti athygli mína hve ungur hann er og algjörlega laus við sjálfsdýrkun og mont.  Christian er frekar hlédrægur og rólegur persónuleiki sem gaman er að tala við.  Það er klárt að hann lítur á fólk í kringum sig sem jafningja og hann tekur öllu hrósi ekki beint til sín heldur hópsins í eldhúsinu sem heild.  Þessi strákur á sko eftir að verða eitthvað stórt og mikið.
Maturinn var stórkostlegur og bjórpörunin „spot on“ eins og sagt er ég myndi amk ekki breyta neinu. Í byrjun var það Pilsner með hveitimalti bruggaður á staðnum, svo Lindermans Blossom Gueuze með Hyldeblomst, loks Mikkeller Nelson Sauvin á Chardonnay tunnum sem kom ljómandi vel út með andabringunni og plómusósunni.  Það er svo alltaf gaman að sjá þegar fólk tvinnar bjór og mat saman, t.d. er brauðið með aðalréttinum bakað með imperial stout sem bruggaður er á staðnum og ég get sagt ykkur að brauðið var alveg magnað og gæti nánast staðið sem sér réttur. Menn vita ekki áfengisprósentu bjórsins sem er einn sá fyrsti sem kom úr brugggræjunum á Brus og því20161116_215026 má ekki selja hann úr húsi, þess í stað er hann notaður í sósur, bakstur og kokteila á staðnum.  Frábær lausn, maður hellir jú ekki góðum bjór. Ég gerðist djarfur og blikkaði Trine og spurði hvort hún gæti gefið mér að smakka þennan dularfulla bjór með brauðinu á meðan ég beið eftir eftirréttinum.  Hún gerði það með glöðu geði og ákv að skrá hjá sér þessa pörun sem góða hugmynd. Í lokin var borinn fram sætur eftirréttur með vöflu, ís og sætum sósum og ávöxtum.  Ég bjóst við Imperial Stout með þessu sem er  dálítið klassísk pörun með sætum eftirrétti en mi langaði eiginlega í flott Barley Wine og viti menn Trine kom með glæsilega flösku af Rommtunnu þroskuðum Imperial Red Ale fra To Øl, RedRum eða Murder afturábak sem var stórkostlegur með eftirréttnum.

Það skal tekið fram að það er reyndar hægt að fá vín-matarpörun ef maður vill heldur, en við munum ekki fjalla um það hér því ég hvet fólk frekar að fara í bjór-matarpörun en þar eru mun fleiri og skemmtilegri möguleikar í boði.

„Michelin stjarna á næstu 6-12 mánuðum að mínu mati“

Það er óhætt að mæla með heilu kvöldi hér á Brus og Spontan, hér er fólk sem veit nákvæmelga hvað það er að gera og þjónustan er frábær.  Spontan er ekki Michelin staður enn sem komið er en ég hef sterkan grun um að það muni breytast á næstu mánuðum eða ári.  Christian er alla vega að gera hér góða hluti og hefur fengið þessa stjörnu áður.  Ég verð að bæta við, þegar ég heimsótti Luksus (Evil Twin) í Brooklyn New York fyrir nokkrum árum síðan þá spáði ég líka Michelin stjörnu og viti menn, stjarnan kom hálfu ári síðar og varð Luksus þá fyrsti bjórbar í heimi til að fá þessa stjörnu.  Boðskapurinn er sem sagt, ef ég er sannspár þá er um að gera að drífa sig á Spontan áður en hann fær stjörnuna því þá hækka jú prísarnir