Bjórhátíð, lokahnykkurinn!

Þá er parTíið búið, loka dagur Bjórhátíðar var í gær og nú er heilt ár í næstu veislu.  Það eru dálítið blendnar tilfinningar sem bærast í manni í dag, að hluta til er ég dálítið feginn að þessu sé lokið, það er bara takmarkað hvað hægt er að leggja á sig en á hinn bóginn þá er maður dálítið tómur inní sér.  Hvað á maður að gera næstu daga t.d.? Enginn bjór? Það er reyndar alveg leyfilegt að opna dós af góðu öli í dag t.d. frá Lamplighter, svona til að trappa sig aðeins niður (þ.e.a.s ef maður var pínu séður og verslaði nesti á Bjórhátíð).

En tökum lokadaginn saman hér eldsnöggt en svo kemur heildar samantekt innan skamms.   Gærdagurinn var dálítið erfiðari en fyrstu tveir, ég held að palletan hafi verið orðinn mettuðm bragðlaukar dálítið dofnir og svo er hitt að maður verður svo vanur góðum bjór að kröfurnar aukast með degi hverjum.  Ég held að 3 dagar séu alveg max í svona fest.  Ég fann amk að ég átti erfitt með að finna virkilega góðan bjór í gær en mér tókst það nú samt.

IMG_6993
Ég smakkaði lítið af því íslenska í gær, en ég leit við hjá KEX brewing, Borg, Malbygg og Ölverk en ég bara gleymdi að smakka spennandi bjór frá Ör Brewing Project sem þeir kölluðu How Hi Are You og er IPA með bourbon, vanillu og laktósa.  Frekar súrt að missa af þessum skrítna karli, en ég er nokkuð viss um að ég geti laumast í smakk á næstunni eða hvað?  Malbygg var hins vegar með besta bjórinn þennan daginn að mínu mati, helvíti nettann skýjaðan pale ale með Galaxy.  Þetta er greinilega allt á réttri leið hjá þeim.  Borg var ekki með neitt spennandi þennan daginn, þ.e.a.s ekkert sem ég hafði ekki smakkað áður nema tuttugu og eitthvað rúmlega % kolsvarta monsterið á litlu tunnunni, hann fór alveg með mig svona á 3. degi í þynnku.  Ég ætla bara ekkert að tjá mig frekar um hann.

Ég var mest ánægður með það sem var að gerast á efri hæðinni í gær,  The Other Half héldu áfram að töfra mann upp úr skónum 3. daginn í röð.  Báðir IPA bjórarnir þeirra voru geggjaðir en mér fannst samt Space Cadet (9.1%) hazy citra DIPA frá Voodoo Brewing alveg sturlaður, einmitt það sem mig vantaði til að lifna aðeins við.  Black Magic, 13% imperial stoutinn frá Voodoo var einnig magnaður, þroskaður á four roses bourbon tunnum, hins vegar heldur snemmt að fara í svona karl kl 16:00 á laugardegi.  The Veil voru líka með mjög gott mót í gær, en ekkert nýtt  samt fyrir mig (hafði smakkað þetta á tap takeover á miðvikudaginn á Mikkeller).  Tripel IPAinn þeirra sem var undir alla dagana var reyndar með betri bjóruim hátíðarinnar.    Bokkereyder var með áhugaverðan bjór,  einn fyrsti bjórinn sem þeir gerðu, gueuze sem tappað var á flösku 2014.  Raf hafði gleymt þessum flöskum en fann þær bara nýlega og ákvað að kippa þeim með til Íslands.  Verulega flottur gueuze.

20180224_163845
Voodoo gaurarnir hafa verið að standa sig vel alla hátíðina

Civil Society (5 besta nýja brugghús á Ratberr 2017) þarf að nefna hér en þeir hafa verið með arfa góðan bjór alla hátíðina.  Safaríku DIPA bjórarnir standa uppúr hjá þeim og í gær var engin undantekning.  Mjög flott.  Besti bjór gærdagsins, þeir voru reyndar tveir, kom hins vegar frá Mikkeller.  Já ég veit pínu klisja? Samt, þessir voru algjörlega mindblowing.  Eftir helling af bjór í gær sem mér fannst bara góður þá kom þessi, Spontanpentadrupelrasperry 13% ávaxtasprengja sem kom mér bara í opna skjöldu.  Eftir þennan bjór var ég í raun bara tilbúin að fara heim og segja þetta gott, ég gerði það reyndar ekki, fékk mér fyrst annað glas ef þessu sælgæti og kláraði svo daginn á Mikkeller Beer Geek Vanilla Maple Shake barrel aged (13%) og þvílíkur endir á góðri hátíð.

20180224_175022_001-01.jpeg
Mikkeller Spontanpentadrupel rasperry (13%)