Ég hef haft augastað á Omnipollos Hatt í Stokkhólmi frá því þeir opnuðu fyrir fáeinum árum enda hefur Omnipollo verið eitt af þeim brugghúsum sem síðustu ár hafa verið að koma sér hratt og örugglega fyrir meðal bestu brugghúsa heims.  Omnipollo eru þekktir fyrir geggjaða merkimiða, sem eru sönn listaverk eftir myndlistarmaninn Karl Grandin annar tveggja stofnenda Omnipollo, og svo að sjálfsögðu frábæran og oft á tíðum afar fríkaðan bjór sem má að mestu leiti þakka Henok Fentie, hitt höfuðið í Omnipollo og fyrrverandi heimabruggara.  Omnipollo bjórinn hefur verið í persónulegu uppáhaldi síðustu árin og ég hef alltaf spáð þeim þeirri velgengni sem nú blasir við þeim og því hef ég sérstaklega gaman að því að fylgjast með hvernig þetta er að þróast allt.  Þessir gaurar eru stöðugt að koma með nýja fríkaða bjóra og þeir eru sérlega duglegir í samstarfsbrugginu (collab brewing), ég held að ég hafi aldrei séð eins mikið um samstarfsbruggun hjá öðrum brugghúsum og þeir eru ekkert að brugga með einhverjum no name aukvisum, nei við erum að tala um brugghús á heimsklassa svo sem J Wakefield, Other HalfCloudwater, Mikkeller, Evil Twin, Trillium ofl og nú síðast Monkish í LA.  Þetta er bara rosalegt.

IMG_6736

Omnipollos Hatt er svo eins konar bækistöð brugghússins í Stokkhólmi en þar má finna bjórinn þeirra á 10 krönum og svo frábærar pizzur bakaðar í fríkuðum pizzaofni staðarins sem er eins og stór munnur sem gleypir pizzurnar.  Við erum ekki að tala um pizzur með pepperoni og sveppum, nei pizzurnar þeirra eru í takt við bjórinn, öðruvísi, dálítið ögrandi og spennandi og svo virkilega ljúffengar.  Sumir hafa kannski smakkað eitthvað af þeim þegar þeir yfirtóku pizzaofnin á Hverfisgötu 12 hérna um árið?

Staðurinn er pínu lítill en það er góður andi þarna og vinalegt andrúmsloft.  Ef þú ert þarna á matmálstíma eða um helgi þarftu líklega að bíða aðeins eftir sæti en það er allt í lagi.  Pantaði þér bara bjór á meðan, t.d. er flott að byrja á einum klassískum sem alltaf er á krana, Mazarin Oatmeal Pale Ale sem er algjörlega magnaður.  Þegar þú ert svo kominn með sæti þá byrjar ballið, pantaðu bara einhverja pizzu af matseðlinum, þær 20171216_192101.jpgeru allar geggjaðar og svo ertu með 10 mismunandi bjóra á krana til að para við máltíðina.  Ef þeir eru með William þá verð ég að mæla sterklega með honum, hann er algjörlega stórkostlegur, helmattur og safaríkur og passar við flestar pizzurnar á staðnum (minn uppáhalds Omnipollo um þessar mundir).   Ef þú ert í vafa samt þá er Perikles alltaf fínn með öllu enda pilsner af bestu gerð.  Það mikilvægasta er bara að slaka á, pantaðu pizzu, drekktu í þig stemninguna og bjórinn og prófaðu þig áfram.  Við erum að tala um eina mest klassísku pörun sögunnar, pizza og bjór, getur ekki klikkað!