Indversk veisla að hætti Yesmine Olsson með íslenskri bjórpörun!

Ég hef alltaf verið spenntur fyrir indverskum mat en ég hef ekki hætt mér út í að prófa að elda hann sjálfur, það hefur bara vaxið mér í augum.  Mig hefur samt alltaf langað að læra að gera indverskt. Ég hnippti því hér um árið í nágranna okkar og vinkonu Yesmine Olsson sem eins og kunnugt er er snillingur í indverskri matargerð . Ég spurði  hana hvort hún vildi ekki elda með mér indverskt og bjóða góðu fólki í mat en til að selja henni hugmyndina kvaðst ég vilja prófa að para bjór með réttunum.  Yesmine líkaði hugmyndin vel en hún sagði mér reyndar eftir á að hún hafi ekki verið vongóð um að bjórpörunin kæmi vel út en samt spennt að sjá hvernig til tækist.  Hún er búin að taka þetta til baka núna enda kom það henni verulega á óvart hvernig til tókst. Reyndar mér líka!

Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig það kæmi út að para bjór við indverska rétti, þetta er nefnilega mikil áskorun, þeir eru oft mjög sterkir og miklir réttirnir og það eru svo ótal mörg krydd í þeim, krydd sem maður þekkir ekkert allt of vel.  Ég sá mér því leik á borði, ég myndi læra smá inn á töfrandi heim indverskrar matargerðar á sama tíma og ég gæti prófað bjórpörunina.

wp-1590433486965.jpg

Yesmine er snillingur í eldhúsinu, ég vissi það svo sem en ég fékk bara meiri staðfestingu á því eftir þennan dag okkar saman í eldhúsinu, mikið var þetta gaman.  Við vorum reyndar nokkra daga að plana veisluna og svo þurftum við að hittast því ég þurfti að fá nákvæmar lýsingar á réttunum, við erum að tala um hvernig krydd, hvernig áferð, sætt, súrt, sterkt og svo framvegis.  Ég nefnilega þurfti að velja bjórinn út frá þessum upplýsingum eingöngu því ég hafði jú ekki smakkað neitt af þessu áður.  Út frá þessum upplýsingum gerði ég lista yfir þá bjóra sem kæmu til greina, ég valdi nokkra til að prófa með hverjum rétt bara svona til að hafa smá varnagla á. Það má ekki gleyma því að við vorum með 8 gesti í þessari veislu þannig að smá pressa! Ég vildi hafa þetta íslenskt bjórþema og auðvitað bara bjór frá landsins bestu brugghúsum!

Þetta lukkaðist svona líka vel, bæði að mínu mati og svo 9 annara reyndar líka, og maturinn guð minn góður…eða ætti ég frekar að segja Yesmine góða?  Ég ætla að rissa aðeins upp þessar paranir og láta eina og eina uppskrift fljóta með.

Djúpsteikt indverskt „dumplings“ með geggjaðri karrí mayo sósu!

Við byrjuðum á léttum forrétt svona til að koma öllum í gírinn.  Við vorum ofsalega heppin með veður og gátum því notið matar og drykkjar á svölunum hjá þeim Yesmine og Adda.  Í forrétt vorum við með djúpsteikt indversk „dumplings“ sem við höfðum fyllt með nautahakki og svínahakki sem legið hafði í indverskri kryddmarineringu yfir nótt.  Þetta er virkilega bragðmikill réttur en þó ekkert sem rífur allt of mikið í.   Við erum með öll klassísku kryddin í þessu, kóríander, múskat, engifer, túrmerik, karrí og meira til.  Þessi réttur er dálítil handavinna, jafnvel þó við séum búin að marinera deginum áður. En í góðum félagsskap og með gott hvítvín t.d. á kantinum þá er bara gaman!

wp-1590434071375.jpg

Ef maður er svakalega anal getur maður gert degið sjálfur en best er að kaupa dumplings deig bara tilbúið í asískum verslunum.  Þetta eru örþunnar deigplötur.  Bleytið alla kanta með vatni til að deigið klístrist saman í lokin þegar þið krumpið það saman.  Setjið hæfilegt magn af fyllingu á miðja örkina og lokið svo með fingrunum og þéttið vel.  Svo er þetta djúpsteikt í jurtaolíu þar til orðið gyllt og stökkt.  Látið svo standa á grind!

Fyllingin er hér

  • 250 g nautahakk
  • 250 g svínahakk
  • 1 laukur
  • 1 rauðlaukur
  • 1,5 dl vorlaukur
  • 2 skalottlaukar
  • 4 hvítlaukssrif
  • 25 g ferskur kóríander
  • 3 stórir tómatar
  • 2 cm engiferrót
  • 1/4 tsk múskat
  • 1/2 tsk túrmerik
  • 2 tsk karrí
  • 2-3 ferskir rauðir chilipipar eftir smeklk
  • 3-4 msk matarolía
  • 5 stk döðlur
  • salt og pipar

Allt nema kjötið er blandað vel saman í matvinnsluvél.  Svo er kjötinu bætt útí og hrært saman.  Látið svo standa yfir nótt helst.  Amk nokkra tíma.

Með þessu vorum við  svo með alveg splunku nýja uppfinningu, karrí mayo sósu sem Yesmine töfraði fram.  Yesmine sagðist hafa fengið innblástur frá kóríander mayo sósunni minni og langaði að prófa að gera eitthvað svona indverskt twist með majonesi.  Hún hefur annars aldrei áður notað majones í sinni matargerð.  Ég viðurkenni að ég er pínu stoltur sko.  Þessi sósa er kreisí!  Krrrrreisí og ég sök á því að hún varð til!

Indversk karrí mayo sósa

  • ca 2-3 bollar (US cups) majones
  • ca 1/2 mtsk kapers
  • 2-3 litlar súrar gúrkur (pikles)
  • 1-2 mtsk engiferrót
  • 1 grænn chili ávöxtur
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 1 mtsk gott karrí krydd
  • sjávarsalt eftir smekk

Aðferð.

Ok, þetta er í fyrsta sinn sem þessi sósa er gerð, ég gerði hana svo aftur daginn eftir nokkurn veginn svona.  Menn verða svo bara að smakka til, meiri hvítlauk eða meira salt eða karrí.  Allt eftir smekk.  Þetta á samt að vera karrí mayo þannig að meira karrí en minna.   Þetta er í raun allt sett saman og maukað með töfrasprota.  Ef menn vilja bera fram í skál með smá bitum í þá er það bara fínt en ef við viljum bera sósuna fram í sprautuflösku þá þarf að mauka þetta vel þannig að engir bitar eru eftir í maukinu.  Bæði betra!

Þessi sósa er alveg mögnuð með þessu og í raun með ansi mörgum réttum sé ég fyrir mér.  Ég veit að þessi sósa mun slá rækilega í gegn í sumar!

wp-1590434139611.jpg

Pörunin!

Hér erum við með stökka áferð, það er fita í deiginu og djúpsteikingunni og svo er grísahakkið feitt og djúsí inní og kryddin áberandi.  Karrí mayo sósan er svo alveg sér á báti og rífur vel í með hvítlauk og karrí.   Þetta er geggjað eitt og sér en enn betra með góðum drykk.   Hér þarf bjór sem heldur velli gagnvart kryddunum og bragmikilli sósunni en þó ekki þannig að hann taki öll völd.  Við viljum njóta líka kryddanna og kjötsins.  Með feitum mat og sósum eins og hér er er kjörið að nota bjór með smá beiskju bit, IPA er fullkominn í verkið og svo auðvitað gaman að para Indian Pal Ale við Indian food ekki satt, svona bara vegna upprunans?  Beiskjan í bjórnum klippir upp fituna í þessum rétt og opnar allt upp á gátt og hreinsar munn og kok af fitubrákinni sem myndast.  Ég ákvað að fara hér í minn uppáhalds íslenska IPA/pale ale sem er frá Malbygg brugghús og heitir einfaldlega Kisi. Mér er sama hvað stendur á dósinni, þetta er safaríkur djúsí NEIPA (new england IPA) þar sem humlarnir fá að njóta sín með ávaxtakeim á borð við mango og ástaraldin en svo er líka örlítið beiskjubit sem sinnir sínu hlutverki eins og áður er ritað.

Þetta er fullkomið, öll þessi krydd , léttur hiti og þessi feita áferð steinliggja með þessum frábæra bjór.  Ég elska líka kóríander og IPA, það er eins og þetta tvennt hafi verið fundið upp saman. Vá!  Það besta er að Yesmine, sem ekki er mikið fyrir bjórinn, var alveg dolfallin.  Henni fannst þetta koma svakalega vel út og þá er takmarki mínu náð.

Aðalréttirnir, lamba pylsu grillspjót og kjúklinga grillsprjót með spínat kóríandersósu og alls konar meðlæti.

wp-1590434012790.jpg
Eggaldinn í alveg nýjum búning

Við ákváðum að hafa nokkra rétti sem fólk bara blandar saman á einn disk, það voru bæði stærri og minni réttir.  Við vorum með hvítlauks naanbrauð með, saffran hrísgrjónum, magnað döðlu  raita og svakalega góð ofnbökuð eggaldinn með indverskum kryddum toppuð með sósu af óþekktum toga, já ég gat ekki fylgst með öllum töfrunum hennar Yesmine.

Fyrir lambagrillspjótin (fyrir 4-5)

  • 400 g lambaprime, skorið í hæfilega bita
  • 400 g kryddpylsur, tvær gerðir, t.d. chorizo pylsur og eitthvað annað gott
  • 1/2 dl repjuolía
  • 5 kardimommur
  • 10 negulnaglar
  • 5 cm kanilstöng
  • 1 tsk túrmerik
  • 5 svört piparkorn
  • 2 tsk cuminfræ
  • 2 stórir laukar, skornir í fernt
  • 5 hvítlauksrif
  • 2 grænir chilibelgir með fræjum
  • 5 cm af ferskri engiferrót, afhýdd, skorin gróft
  • safi úr 1/2 sítrónu
  • 1 tsk sjávarsalt

Aðferðin

Fyrir marineringuna á kjötinu.  Taktu öll kryddin á disk.  Taktu til pönnu og hitaðu hana vel upp.  Svo eru kardimommur, negulnaglar, kanilstöng, pipar og cuminfræ þurristað á pönnunni í 30-40 sek eða þar til kryddin breyta um lit og gefa frá sér frábæran ilm.  Notaðu svo mortél til að merja öll kryddin nema túrmerik.   Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél ásamt kryddunum og maukið saman.  Veltu lambakjötinu vel uppúr marineringunni, skerðu líka pyslurnar í hæfilega bita og blandaðu þeim saman við lambið.  Látið standa yfir nótt.

wp-1590433676693.jpg

Sama dag og rétturinn er borinn fram.   Leggi tréspjót/grillpinna í bleyti, skerið niður gula papriku og rauðlauk í hæfilega bita eftir smekk.  Raðið svo lambi og pylsum saman á spjótin og inn á milli lauk og papríku.  Látið þetta líta dálítið vel út.  Pysla og kjöt saman samt, þannig renna kryddin úr hvoru tveggja saman við grillunina.

Auk lambaspjóta vorum við með kjúklingaspjót með dásamlegri spínat kóríandersósu.  Yesmine notar alltaf úrbeinað lærkjöt þegar hún notar kjúkling, ég er algjörlega sammála, þetta er besta kjötið, svo djúsí og gott og dregur í sig öll kryddin í marineringunni.  Þessi réttur var bragðmikill líka, ekki þó eins spicy og lambaspjótin en í sósunni er ríkjandi kóríander og hvítlauksbragð.  Ofsalega gott saman.

Hrísgrjón eru ómissandi með indverskum mat, þau vissulega drýgja máltíðina en eru líka frábær til að sjúga í sig sósurnar á diskunum, ekkert má fara til spillis.  Með mjög sterkum mat er líka gott að nota hrísgrjónin til að dempa brunann.  En hrísgrjón eru ekki bara hrísgrjón, Yesmine notar nánast eingöngu basmati grjón t.d. en það er mikill munur á gæðunum.  Þetta kvöld komst ég svo að því að ég og Sigrún mín höfum verið að elda hrísgrjón vitlaust alla okkar tíð.  Ég komst líka að því að hægt er að gera fáranlega gómsæt hrísgrjón sem meðlæti.

wp-1590433511942.jpg
Saffran þræðir, gull kryddanna!

Saffran hrísgrjón

  • 5 dl basmati hrísgrjón
  • 1 L vatn
  • 1 mtsk isio 4 olía eða 2 mtsk ghee
  • 1/2 – 1 tsk saffran þræðir
  • 1/2 sítróna, bæði hýði og safi
  • 1 tsk salt
  • 2 tsk brún sinnepsfræ (fæst í Fiska)

Setjið vatn í pott (1 L) og látið suðuna koma upp.  Bætið við rifnum sítrónuberki og safa (1/2 sítróna) út í vatnið ásamt saffran þráðunum og látið renna saman í 5 mín.  Á meðan notið þið tíman og setjið olíuna eða ghee í pott og náið upp hita.  Setjið sinnepsfræin varlega útí en passið ykkur þau geta poppað og þá slettist á ykkur heit ólían.  Hrærið í fræunum stöðugt í 30-40 sek, bætið svo þurrum hrísgrjónumum útí pottinn og blandið við fræin í 1-2 mín.

Bætið þvínæst hrísgrjónunum ásamt salti (1 tsk) út í saffran vatnið og hrærið létt saman og setjið svo viskastykki yfir pottinn og lok yfir og látið malla í 10 mín.  Ekki bullsjóða.  Forðist að hræra mikið svo þið brjótið ekki grjónin.  Þvínæst slökkvið þið á hitanum og látið pottinn standa í aðrar 10 mínútur.

Þetta er svakalega gott með öllum þessum réttum.

Gott naan brauð er líka ómissandi með indverskum mat.  Það má gera það frá grunni sem er auðvitað skemmtilegast og svo grilla á grilli eða ef maður á tandori ofn, þá notar maður hann auðvitað.   Gott er að útbúa einhverja góða olíu, t.d. hvítlauskolíu og pennsla brauðin fyrir eldun.

Annað sem er mikilvægt að mínu mati er eitthvað ferskt og létt til að milda tungu og hvíla frá sterkum kryddum.  Klassískt er gúrku raita sem þó mér finnst stundum dálítið of klassískt jafnvel.  Yesmine bauð uppá aðeins aðra útgáfu, alveg hrikalega góða döðlu raita sem koma æðislega vel út með öllu þessu hérna, döðlurnar gefa skemmtilega sætu í þetta allt saman.

Loks var það ofnbakaða eggaldinið, það var svakalegt.  Maður er vanur að grilla þetta og setja salt og olíu á og það kemur vel út en þessi útgáfa var stórkostleg, öll þessi indversk krydd, radísuspírur og svo þessi dularfulla sósa ofan á.  Úff úff úff!

Pörunin

En ok, pörunin, þetta var pínu flókið en svo í raun ekki.  Hér gat ég ekki parað einn bjór við hvern rétt því við buðum upp á þetta allt saman í einu, sem einn rétt með mörgum vinklum.  Ég prófaði nokkra bjóra með þessu.  Mér fannst borðleggjandi að velja frekar látlausa bjóra en sem þó gætu höndlað sterk krydd á sama tíma og þeir yfirbuguðu ekki látlausu kryddin sem maður vill ekki missa af eins og t.d. safran eða múskat.  Hrísgrjón er lykil meðlæti í svona veislu og því tilvalið að velja bjór sem bruggaður er með hrísgrjónum, bæði tengja grjónin vel við grjónin í matnum en svo gefa þau fyllingu og dempa brunann frá „heitum“ kryddum á borð við chili eða sterk karrí.  Ég valdi hrísgrjóna lager í þetta verk en það vill svo til að það eru alla vega tveir slíkir í boði akkúrat núna frá íslenskum framleiðendum.

wp-1590434301967.jpg

Sudoku Rice Lager frá Borg er frábær lager.  Hann er þéttur og elegant með ögn sætukeim og afar látlausu humalbiti sem er þó til staðar.  Mér fannst borðleggjandi að tefla fram lager með grilluðum pylsum, kjúlla og lambi og þetta svínvirkaði.  Sætan í korninu dempaði ögn kryddin en slökkti samt alls ekki á þeim heldur tvinnaðist bragðið frá bjórnum fallega saman við hrísgrjónin og rest.   Nett beiskjan var nægileg til að vinna á fitunni frá kjötinu og sósunum.  Mjög gott combo.

wp-1590609667787.jpgÖnnur pörun sem kom vel út var Yuzu Rice Lager frá RVK Brewing.  Þessi bjór er líka bruggaður með hrísgrjónum en einnig yuzu ávexti sem er súrt sítrusaldin frá Austurlöndum fjær.  Þessi bjór er afar ferskur og sumarlegur og smellpassar á pallinn í sólinni en gengur líka vel hér af sömu ástæðum og hér að ofan.  Súraldinið gefur svo auka vinkil með þægilega sýru sem gengur vel á móti þungum matnum og styður skemmtilega við ferska döðlu raita-ið.   Gestum þótti þetta skemmtilegur valmöguleiki með matnum.

Það sem hins vegar sló í gegn hjá mér persónulega, og það voru nokkrir sammála mér í því var næsti bjór.  Ég var reyndar á höttunum eftir rauðöli eða amber bjór fyrir verkið, jafnvel hefði bock geta komið vel út en þau brugghús sem ég skoðaði, bestu íslensku brugghúsin okkar auðvitað, áttu slíkan bjór ekki til á flöskum eða dósum.   Hér langaði mig að nota bjór með mikinn maltkarakter en sem væri þó léttur og meðfærilegur.  Ofannefndir bjórstílar eru dekkri en hinn ljósi lager því í þá er notað aðeins meira ristað korn/malt sem gefur af sér ögn karamellukeim og rist.   Ég sá fyrir mér fullkomna tengingu við grillaða kjötið sem fær jafnan á sig ákv karamellu áferð við grillunina.  Það er líka vel þekkt að sætukeimurinn frá maltinu komi ofsalega vel út á móti sterkum kryddum og er jafnvel það eina sem gengur á móti sterkustu chiliréttum þeirra Indverja.

Það var Maggi hjá RVK brewing sem reyndar líka er með sitt eigið brugghús, sem ég hef fjallað stuttlega um áður Mono, sem benti mér á aðra mögulega lausn.   Þeir Mono strákar voru nýlega komnir með bjór á flösku sem gæti gengið, svo kallaður märtzen , sem er þýskur lager sem menn tengja jafnan við Oktoberfest þar í landi.  Þetta er „maltforward“ bjór og oft með kopar til rauðum blæ.  Bjórinn er lager og yfirleitt með létta til meðal fyllingu og litla beiskju.  Þetta fannst mér frábær hugmynd og ákvað að prófa.

wp-1590434346705.jpg

De Stijl heitir kauði og er samstarfsbrugg með Ekta Brewing sem ég þekki lítt til.  Bjórinn var töluvert mildari en ég átti von á og ekki eins maltaður og amber en maltið þó vel merkjanlegt.  Bjórinn er þó með áberandi meiri bragðprófíl ef miðað er við hrísgrjóna lagerinn sem ég fjallaði um að ofan.  Þessi bjór algjörlega negldi þennan mat og gerði nákvæmlega það sem ég hafði vonast til.  Maltsætan og ristin dönsuðu vel með grilltónunum frá kjötinu, indversku kryddin komu líka skemmtilega vel út með þessum bjór og tvinnuðust kóríander, kardimommur, negull og allt hitt skemmtilega við karamelluristina frá korninu.   Sterkustu tónarnir frá lambaspjótunum milduðust ögn og lyftu meira að segja upp bjórnum og gerðu hann meiri.  Kolsýran var líka kærkomin á móti öllum þessum brögðum og fitunni en kolsýran „skefur“ einhvern veginn palletuna og opnar fyrir næsta bita.

Frábær pörun!

Svakaleg sænsk „kladdkaka“ með indversku chili súkkulaði ganache og þeyttum mynturjóma

wp-1590434457338.jpg

Góð veisla þarf að enda eftirminnilega að mínu mati og þessi gerði það svo sannarlega.  Jafnframt var hér besta pörun kvöldsins sem kom meira að segja mestu efasemdamönnum á óvart.  Þessi kaka er svakaleg, djúsí og klístruð með fullfermi af súkkulaði alveg eins og ég vil hafa það í eftirrétt.  Ofan á þessu var svo þykkt nánast eins og fudge súkkulaðikrem með indversku chili kryddi sem reif af og til í.  Svo kom stökk áferð frá ristuðu pistasíuhnetunum ofan á.  Ekki má svo gleyma þeytta rjómanum með fersku myntunni en myntan og kryddin í kökunni dönsuðu vel saman og myntan gefur líka léttleika og ferskan blæ í þetta allt saman.

Ég mun pottþétt gera sér færslu hér innan skamms bara með uppskrift af sænskri súkkulaðikladdköku með chili súkkulaðikremi og svo þessari pörun.   Þessi eftirréttur er svakalega þungur en gefandi, mér datt í hug að prófa tvo bjóra með.  Mjög hefðbundið er að nota stout, porter eða imperial stout með súkkulaðieftirréttum.  Hér er það tengingin við kaffið sem er augljós enda oft hægt að finna kaffitóna og súkkulaði í þessum bjórum.  Humlarnir gefa svo beiskjuna sem létta dálítið á þunganum.  Ég bauð því uppá Garúnu frá Borg.  Þetta er svakalega flottur bjór, rótsterkur og mikill með ögn sætu en þó vegur beiskjan þyngra og svo áberandi kaffiristin, jafnvel ögn lakkrís og súkkulaði.    Þetta er bjór fyrir þróttmikið fólk með sterka palletu.  Bjórinn gengur einn og sér sem eftirréttur ef út í það er farið.  Þessi pörun var skemmtileg, kaffið og súkkulaðið tengdu vel við og beiskjan opnaði vel upp þunga kökuna.  Beiskjan dró líka mikið upp chili hitann í kreminu sem var mjög skemmtilegt því ef eitthvað er hefði mátt vera meira chili í kökunni að mínu mati.

wp-1590434520599.jpg

Það sem sló hins vegar öll met var Blágosi frá Microbar & Brew (Gæðingi brugghús).  Blágosi er ofsalega skemmtilegur súrbjór eða svo kallaður gose sem er þýsk ættaður súrbjór, Blágosi er í grunninn Skyrgosi ketilsýrður með skyri og bragðbættur með bláberum, heilum helling alveg.   Bjórinn er ofsalega þægilegur með léttri sýru, ögn skyrkeim og svo ljómandi bláberjasýru.   Mér datt í hug að tefla þessum bjór fram á móti þungri kökunni til að létta aðeins á öllu.  Svo eru ber á borð við hindber, bláber og jarðaber alveg frábær með súkkulaðikökum yfirleitt.  Gosið í bjórnum og sýran opnuðu allt upp á gátt gerði kökuna auðmeltari og skópu pláss fyrir næsta bita, berin tvinnuðust dásamlega saman við súkkulaðið og sýran skapaði skemmtilegar andstæður við chili brunann.   Þetta var alveg mögnuð pörun og mun ég klárlega hafa þetta í mínum veislum þegar ég vil slá í gegn.

Haustrunk nýr gose bjór frá Borg í samstarfi við Wacken!

Ekki má rugla Gosa, litlu hraðlygnu strengjabrúðunni með langa nefið, við gose sem er sérkennilegur og forn bjórstíll sem hefur síðustu ár verið að fá mikla athygli í bjórheiminum.  Kaninn er sérstaklega hrifinn af þessum bjórstíl og við erum farin að sjá hann í mun meira mæli hér heima líka undanfarið.  Gose á rætur sínar að rekja til Þýskalands fyrir einhverjum þúsundum árum síðan. Hann dregur nafn sitt af ánni Gose sem rennur í gegnum miðaldarbæinn Goslar þaðan sem bjórinn er talinn hafa komið. Gose er súr hveitibjór bruggaður með ögn söltu vatni úr ánni (sem reyndar er meiri lækur) Gose á sínum tíma en í dag bæta men auðvitað salti í bjórinn. Gose er svo jafnan kryddaður með kóríander og mildum humlum. Bjórstíllinn, sem var vinsælasti bjór í Leipzig og nágrenni í kringum 1900, dó næstum því út á stríðsárunum en í kringum árið 2000 var honum sem betur fer komið til bjargar og stíllinn endurlífgaður.

biere-illustration-01-gose
Gose er forn þýskur súrbjór frá Goslar

Haustrunk Nr.C17 sem líklega má bera fram “hásdrúnk” á germönsku er nýr collab bjór frá Borg brugghús og þýska brugghúsinu Wacken Brauerei og er einmitt af gerðinni gose.  Hér hafa menn svo poppað bjórinn aðeins upp með apríkósum, hafþyrnum og vanillu sennilega til að gera hann meira íslendingavænni?  Það er svo skemmtileg staðreynd að Helge frá Wacken mætti á klakann með vatn úr Gose sem sett var í suðuna, svona meira til að tengja bjórinn við lækinn á táknrænan máta.

En þessi herlegheit er nú komin í sölu, ég hef ekki smakkað hann ennþá en klassískt er gose súr á tungu, vel kolsýrður, léttur og mildur með öööörlítilli seltu sem svo sem finnst ekki mikið.  Haustrunk er svo með áhugaverðum ávöxtum sem munu líka setja sinn svip á þetta allt.   Hlakka til að prófa!

Gómsæt Sítrónu Marengs Terta með bjór á súru á nótunum á konudaginn?

Nú er konudagurinn á morgun og þá er nú eins gott að græja eitthvað trít fyrir konuna.  Ég er forfallinn súkkulaði fíkill og reyni að nota öll tækifæri til gera eftirrétti þar sem súkkulaði er í aðalhlutverki.  Hins vegar er ekki hægt að hugsa um eigin hagsmuni þegar kemur að því að gera vel við hinn helminginn, maður verður stundum að láta undan.  Konan mín féll algjörlega fyrir sítrónu marengs tertu sem við fengum okkur í París fyrir nokkrum árum síðan.  Þetta var reyndar ofsalega gott og fór vel niður með frönsku kampavíni af bestu sort, ég verð bara að viðurkenna það.  Ég ákvað því að reyna að líkja eitthvað eftir þessu og sem oft áður kíkti ég á vefsíðu Nigellu og fann þessa uppskrift hér.  Það er gaman að lesa á síðunni hennar að hún gafst upp fyrir löngu síðan að reyna að gera  hefðbundna stírónu marengs tertu, þær voru bara aldrei nægilega fullkomnar hjá henni að hennar mati.  Þessi uppskrift á að vera einfaldari en alls ekki síðri.   Sigrún mín var alla vega virkilega sátt!

Það sem þarf í þetta (gott að smella bara mynd af listanum hér) :

Í botninn

  • 125 g mjúkt ósaltað smjör
  • 4 stór egg, annars 5, rauður og hvítur aðskildar, rauðurnar fara í botninn
  • 100 g sykur
  • 100 g hveiti
  • 25 g maís mjöl
  • 1 tsk lyftiduft
  • ½ tsk matarsóti
  • rifinn börkur af 1 sítrónu
  • 4 tsk sítrónusafi
  • 2 tsk mjólk

Í marenge-inn

  • ½ tsk „cream of tartar“
  • 200 g sykur
  • eggjahvítur úr 4 eggjum

Annað

  • 150 ml þeyttur rjómi
  • 150 g „lemon curd“, ég notaði 320g (heil krukka)

Bjórinn með

Súrbjór með ögn beiskju biti ss Sur Simcoe frá To Øl.  Eins kemur berliner weisse vel til greina, prófið t.d. Stone Berliner Weisse já eða Brjánsa frá Borg ef hann er enn til. Svo er belgíski gueuze alveg stórbrotinn með þessu líka. Tropical Rumble frá To Øl er geggjaður með þessu líka en hann er hlaðinn tropical ávöxtum og er með notalegt bit frá Mosaci humlum sem er nauðsynlegt hér.

Aðferð:

IMG_6946Ok til að byrja með verð ég að taka fram að ég er virkilega lélegur með eggjahvítur og svona marenge.  Ég ælta líka að viðurkenna að marenge dæmið mitt féll í fyrstu umferð hjá mér en útkoman var samt geggjuð. Það sést vel á myndinni að ofan að marenge lagið er ansi aumingjalegt og ekkert í líkingu við það sem maður sér hjá Nigellu. Ég veit samt hvað klikkaði, komum að því á eftir.  Viðbót, ég endurtók þetta á 2. í konudegi og þá lukkaðist þetta svona líka vel (sjá hér til hliðar).

 1. Byrjið á að forhita bakarofn í 190 gráður.  Finnið til tvö hringlaga form, 21 cm í þvermál og smyrjið með smjöri.

2. Blandið eggjarauðum, 100 g af sykrinum, mjúka smjörið, hveiti, maís mjöl, lyftidufti, matarsóda og sítrónu berki í blandara og blandið vel.  Bætið svo sítrónu safanum og mjólk við og blandið áfram.

3. Deilið blöndunni milli formanna tveggja.  Hér fær maður smá panic, þetta virðist voðalega lítið en þetta nær samt að dekka formið.  Bara anda með nefinu og dreifa úr þessu í formin.

4. Þetta finnst mér alltaf erfiðast.  Þeytið eggjahvíturnar og „cream of tartar“ vel í þeytara (hrærivél) þar til þið fáið rjómakennda áferð og hægt er að mynda toppa.  Stillið svo á aðeins hægari stillingu á þeytaranum, og þeytið meðan þið bætið sykrinum (200g) smátt og smátt saman við.   Ég hrærði honum varlega saman við í fyrstu tilraun með sleif en þá held ég að hvíturnar hafi fallið hjá mér, alls ekki gera það.  Ég gerði þetta í hrærivél í annað sinn og þá var þetta flott.  Blandan á að verða  töluvert þykk og stíf í lokin. Deilið svo blöndunni á milli formanna og dreifið úr.

5. Svo er Nigella með einhverjar tilfæringar, í annað formið á maður að slétta vel úr eggjahvítunum með málmspaða en hitt formið þá notar maður bakhliðina á skeið til að ýfa upp og mynda toppa í yfirborðið.   Stráið svo ögn sykri yfir toppana. Smellið báðum formunum svo í ofninn í ca 25 mín.

6. Látið svo botnana kólna alveg.  Takið slétta botninn (þann sem þið gerðuð ekki toppa í) og snúið á hvolf (marengs hliðin niður) á kökudisk.

7. Þeytið rjóma, ekki þannig að verði alveg stífur samt.  Dreifið svo „lemon curd“ yfir botninn og svo rjóma þar yfir.  Takið svo hinn botninn og leggið ofaná þannið að hliðin með marengs toppunum snúi upp.  Þá er þetta bara klárt.

Kakan kom dásamlega vel út, súr en líka nokkuð sæt.  Ég hefði alveg vilja meira krispí marengs en það kemur bara næst.  Bjórinn gerði svo alveg útslagið.

IMG_6962
Sur Simcoe
frá To Øl er skemmtilegur súr session pale ale, sem sagt blanda af súröl og pale ale.  Við erum þarna með aðeins beiskjuna frá simcoe humlunum og sítrus furunálarnar sem oft fylgja simcoe og svo er einhver ögn ferskja sem skín í gegn.   Þegar bjórinn kemur strax á eftir munnbita af kökunni er eins og hann taki bragðið sem er að fjara dálítið út og blæs lífi í það og togar fram aftur súra sítrónukeiminn, beiskjan ræðst svo á rjómafituna og opnar allt upp á þægilegan hátt.  Skánin sem byrjar að myndast í gómnum hverfur alveg.  Þannig er eins og bjórinn framlengi braðinu frá kökunni og heldur gangandi þar til næsti biti mætir á staðinn.  Svo kemur sykursætan í kökunni vel út á móti súr-beiskjunni í bjórnum og gerir mjög skemmtilegt mót.  Þetta er sannarlega súr en góð upplifun.

Þegar ég endurgerði kökuna (taka tvö), köllum það bara 2. í konudegi, þá prófaðir ég ansi magnaðan bjór með sem algjörlega negldi þetta.  Tropical Rumble frá To Øl er 4.3% tropical IPA bruggaður með mango, ástaraldin og ferskjum ásamt helling af mosaic humlum.  Bjórinn er virkilega nettur með þægilega beiskju frá humlunum og djúsí sítrus og ávaxtaríka humla en svo koma ávextir inn með dálítið beiskum ávaxtakeim.  Virkilega flott með tertunni sem sem fyrr segir er dálítið sæt.  Beiskjan trappar sætuna niður og heldur vel við sítrónukeiminn.  Geggjað.

Gott freyðivín er líka algjörlega geggjað með þessu og nánast betri pörun en hér er talað um að ofan.

Súrbjórs ceviche með lárperum og kóríander og auðvitað súrbjór með

Ég held áfram að leika mér með Mark Dredge’s Cooking With Beer við hönd og nú er það ceviche með súrbjór.   Það er svo oft þannig að gott þarf alls ekki að vera flókið, þessi réttur er alls ekki flókinn og hann er ekki bara góður heldur mjög mjög góður.  Einu sinni sem oftar þá fengum við Lovísu Ósk vinkonu okkar til að prófa með okkur bjór og mat.  Útkoman var frábær, eiginlega fullkomin og ég veit að hún getur staðfest það.

Í þessari uppskrift á að vera súrbjór, talað er um gueuze en í raun má það vera hvaða súrbjór sem er, svo lengi sem hann er góður.  Berliner Weisse og Gose koma t.d. vel til greina ef men finna ekki gueuze.  Ég var búin að verða mér úti um allt hráefnið nema bjórinn þegar ég komst að því að bjórinn sem ég ætlaði að nota, Oud Beersel Oude Geuze var ekki til í Vínbúðinni.  Ég ætlaði auðvitað að para sama bjór með réttnum þannig að ég var kominn í vanda.  Við Íslendingar höfum ekki aðgang að miklu úrvali af súrbjór, ég kippti því með Oud Beersel Kriek sem er kirsuberjaútgáfan af sama bjór og svo sá ég Dugges/Stillwater Tropical Thunder sem er súrbjór reyndar með mangó, ástaraldin og ferskjum.  Sama dag og ég ætlaði að elda réttinn áskotnaðist mér virkilega flottur Gose frá Sigga í RVK Brewing Company,(tilraunabrugg) sem er spennandi brugghús sem mun opna hér í borg innan tíðar.  Þetta reddaði mér alveg og útkoman algjör snilld.  Mun gera þennan rétt aftur og aftur og aftur.

Það sem þið þurfið (fyrir 4)

  • Góðan þéttan fisk, smálúða er snilld eða þorskhnakkar, ca 250g
  • 1/2 rauðlaukur skorinn í smátt
  • 1/2 rauður chilli pipar, mjög smátt skorinn engin fræ
  • Safi úr 1 límonu
  • 50ml súrbjór (Gueuze, Gose eða Berliner Weisse)
  • 1/2 tsk salt
  • 1/2 tsk möluð kóríanderfræ
  • 2 þroskaðar lárperur, skornar í sneiðar
  • lúka af ferskum kóríander

Bjórinn með
Sem fyrr segir þá þarf bjórinn í ceviche að vera súrbjór því hann þarf að vinna á fiskinum með sýru og hamingju.  Ég var með smakkprufu af Gose frá Sigga hjá RVK Brewing Company, sem er ögn sölt útgáfa af súrbjór frá Þýskalandi en í Vínbúðinni okkar er oftast til Oud Beersel Oude Gueuze sem er stórkostlegur gueuze. Það liggur beinast við að hafa sama bjórinn með en það má vel vera kriek eða ávaxtabættur súrbjór.  Hér prófaði ég tvo og báður voru frábærir með þessu.  Dugges/Stillwater Tropical Thunder og Oud Beersel Kriek.

 

Aðferðin

Þetta er svo skemmtilega einfalt.  Leggið rauðlaukinn í ísbað í 10 mín til að draga úr bitinu aðeins.  Skerið svo í smátt.

Skerið fiskinn í litla kubba, ca 1 cm á kant og setjið í stóra skál.  Bætið svo öllum hinum hráefnum saman við nema lárperur og ferskan kóríander.  Veltið þessu varlega saman og setjið í ískáp í ca klst, vökvinn verður að fjóta alveg yfir fiskinn, bætið við bjór eg þarf. Passið vel að hafa ekki of mikinn chilli pipar.

Raðið svo lárperuskífunum á fallegan disk, setjið fiskiblönduna yfir og skreytið með ferskum kóríander.  Salt og pipar eftir smekk.

20171022_114841.jpg

Pörunin

Þessi réttur er ofsalega flottur sem forréttur, hann er léttur, mildur og frískandi en samt bragðmikill.  Fiskurinn nýtur sín vel en sýran lyftir honum upp og frískar upp á réttinn.  Kóríander og lárperur skapa ljúfa fyllingu í réttinn og svo er örlítill bruni frá Chilli sem passar vel við sýruna.  Saltið er alveg hæfilegt og leikur skemmtilega vel við milda beiskjuna frá rauðlauknum.  Tropical Thunder frá Dugges , sem er sænskt brugghús sem er að gera það gott um þessar mundir, er súr en þó með talsvert sætan ávaxtablæ frá ástaraldin, mangó og ferskjum.   Sýran í bjórnum lyftir sýrunni í réttnum án þess að yfirtaka neitt og svo koma þessir skemmtilegu ávextir með sem gera undur fyrir fiskinn.  Allt án þess að stela neinum þrumum, fiskurinn fær að njóta sín til fulls.  Við gátum ekki valið hvor bjórinn var betri pörun því Oud Beersel Kriek var alveg geggjaður með líka.  Súr og funky en svo með þurra kirsuberjatóna.  Hér koma berin ofsalega skemmtilega út á móti saltinu og beiskjunni réttnum.    Allt er þetta svo létt og notalegt að maður á vel inni pláss fyrir góðan aðalrétt.

Djúpsteiktur þorskhnakki með dásamlegu baunamauki, franskar og spriklandi súrbjór!

Gordon Ramsay hefur verið að setja aðeins mark sitt á okkur hér hjá Bjór & Matur undanfarið.  Um daginn var það „scrambled eggs“ með stout, nú er það „fish & chips“ á breska vísu.  Fiskur er góður en djúpsteiktur fiskur er geggjaður.   Í þættinum um daginn (Masterchef) , þáttur 7 held ég að það hafi verið, sýndi Gordoninn okkar hvernig hann gerir hinn fullkomna „Fish & Chips“ í bjórdeigi.  Ég auðvitað ákvað að prófa þetta í gær á góðum vinum sem við fengum í heimsókn.  Útkoman var stórkostleg og þetta baunagums er eitthvað sem ég mun gera oftar með öðrum réttum, meira að segja börnin hámuðu í sig baunirnar.

Það sem þarf (fyrir 4):

  • Þorskhnakkar ca 1 kg
  • Hveiti 220 g
  • Lyftiduft 1 tsk
  • Sykur 1 tsk
  • Lager bjór, t.d. Stella Artois eða Mikkeller American Dream
  • Góð olía til að djúpsteikja í, amk 2 L
  • Salt
  • 4-5 stórar kartöflur
  • Reykt paprikukrydd eftir smekk
  • Fersk steinselja

    Fyrir Tartar Sósuna:

  • 1/2 krukka Majones
  • 1/2 dós sýrður rjómi
  • 2 msk Capers
  • 1 tsk Dijon sinnep
  • Sweet  relish gúrkumauk (t.d. Boston Gurka frá Felix), 2 tsk
  • Safi úr ferskri sítrónu eftir smekk (hálf er nóg)

    Fyrir baunagumsið:

  • Frosnar baunir, 1 poki
  • Smjör ca 4 mtsk
  • Hvítlaukur 2 geirar fínt saxaðir
  • 1 Skalottlaukur, fínt saxaður
  • Salt eftir smekk
  • ca 2 msk fersk mynta, fínt skorin

Bjórinn: Einhvern góðan súrbjór eða lager. Hér prófaði ég nokkra, American Dream frá Mikkeller, Sur Simcoe frá To Öl og Brjánsa frá Borg.

AÐFERÐ:

  1. Ok, það þarf að byrja á bjórdeiginu því það þarf að standa eins lengi og hægt er.  Þannig verður það meira krispí þegar það fer í djúpsteikinguna.   Setjið hveiti 220g, 1 tsk sykur og 1 tsk lyftiduft í stóra skál og hrærið.  Bætið bjórnum útí líklega þarf alveg heila flösku og hrærið vel.  Þetta á að verða þunnt eins og súrmjólk nánast, eða eins og pönnukökudeig.  Ef það eru kekkir þá sigtið þið þetta í gegnum sigti.  Saltið aðeins.  Ekki hræra of vel samt.  Látið svo standa.
    .
  2. Skerið Þorskinn í hæfilega bita, þeir eiga að vera dálítið þykkir.  Saltið báðu megin og látið liggja þannig.
    .
  3. Undirbúið nú meðlæti og kartöflurnar. Skrælið kartöflurnar og skerið í ræmur eftir smekk, passa að hafa allar ræmurnar eins þykkar því annars steikjast þær ójafnt. Græið tartar sósuna, hrærið hálfri krukku af majonesi og hálfri dós af sýrðum rjóma saman, saxið capers, 2 msk, og bætið útí ásamt 1 tsk af sinnepi, gúrkumauki og kreistið svo sítrónu yfir.  Smakkið þetta bara til. Það er erfitt að segja til nákvæmleg hlutföll, ég gerði þetta bara einhvern veginn og útkoman var frábær.
    .
  4. Baunagumsið, setjið einn poka af grænum baunum í pott og vatn í og látið suðu koma upp og malla bara stutt, ekki sjóða þetta neitt sérstaklega.  Þetta er meira svona til að mýkja baunirnar.  Sigtið svo vatnið frá, bætið 3-4 msk smjöri í pottinn og svo saxaða skarlottulauknum og mýkið aðeins í smjörinu á vægum hita.  Hellið svo baununum yfir og látið malla, kreistið hvítlauk (2 geirar) yfir og hrærið saman.  Maukið þetta svo með þar til gerðu apparati.  Ég veit ekkert hvað þetta er kallað.  Ef ykkur finnst þetta of þurrt þá bætið þið smjöri saman við.  Loks er bara að salta eftir smekk og sáldra myntunni yfir.  Þetta er fáránlega gott!
    .
  5. Svo er skemmtilegi parturinn, djúpsteikingin.  Ég reddaði mér gömlum djúpsteikingarpotti frá tengdó en það má vel nota stóran pott bara og sigti.  Setjið olíu í pottinn og hitið vel, Það er fínt að reyna að halda hitanum í 190 ráðum . Steikið svo kartöflurnar þar til þær eru orðnar gull brúnar, setjið í skál, saltið og sáldrið steinselju yfir og aðeins reykta papriku.
    .
  6. Fiskurinn er næstur,  Setjið hveiti í skál eða ílát sem hentar.  Salt og pipar í og svo veltið þið fiskibitunum vel uppúr hveitinu.  Hristið hveitið létt af og leggið svo í bjórdeigið.  Bitarnir eiga að fara alveg á kaf.  Takið svo hvern bita upp og látið renna aðeins af honum og leggið svo varlega í djúpsteikinguna.  Líklega fínt að hafa hvern bita ca 6-8 mín eða þar til litur er orðinn fallega gullinn.  Prófið bara einn bita fyrst og smakkið.  Saltið bitana eftir djúpsteikinguna.

Loks er þetta bara borið fram á fallegan hátt og svo má ekki gleyma sítrónunni sem kreist er yfir.

IMG_6571

BJÓRINN.
Hér er hægt að fara nokkrar leiðir, fiskur og fallegur lager er alltaf gott combo, lagerinn veitir krispí og flottan bakgrunn án þess að taka völdin, léttir grösugir humlarnir létta á fitunni í frönskunum og deiginu.  Kornið í bjórnum tengist líka vel við deigið og auðvitað er lager bjór í deiginu.  Nokkuð borðleggjandi.  Hér notaði ég American Dream frá Mikkeller en það er virkilega góður lager með mikið bragð.  Menn voru sammála því að þessi pörun hafi verið mjög fín.  

Mér finnst hins vegar skemmtilegast að para svona steiktan fisk með súrbjór (t.d. Berliner Weisse, Gose eða Gueuze).  Það er í raun augljóst, líkt og sítrónan yfir fiskinn.  Súrbjór gerir svipað fyrir fiskinn og sítrónan, auk þess magnar bjórinn upp sítrónuna og öfugt.  Ferkur sítruskeimurinn opnar upp þennan rétt og léttir á öllu og tvinnast frábærlega við baunagumsið.  Brjánsi er nr 52 í röðinni frá Borg Brugghús og er að koma í fasta sölu í ÁTVR.  Hér erum við með léttvægan 4% súrbjór sem gaman er að og gæti gengið sem frábær svaladrykkur.  Hann er mildur á tungu og frekar léttur.  Menn hafa hér farið öruggu leiðina til að höfða til sem flestra.  Bjórinn er flottur með fiskinum hér, hins vegar mætti hann vera nokkuð súrari fyrir mína parta en ég reyndar elska gallsúra bjóra sem rífa í kinnarnar og koma munnvatninu af stað.  Sigrún mín og Lovísa vinkona voru með Cava sem fordrykk, við prófuðum þetta með fiskinum og það var reyndar geggjað því Cava er þurrt og súrt og í kringum 11% og hefur því þróttinn til að taka nánast yfir og skapa nýja upplifun.   Ég prófaði svo einnig Sur Simcoe frá TO ÖL sem er dálítið humluð útgáfa af súrbjór (blanda lagers og súrbjórs kannski 🙂 ).  Bjór þessi er nokkuð súrari en Brjánsi og svo kemur létt beiskjan fram og notalegt sítrus bragðið frá Simcoe humlunum.  Þetta combo gekk mjög vel líka því á meðan Brjánsi á dálítið í hættu að falla í skuggann af fiskinum hér þá heldur Sur Simcoe vel velli og skín alltaf í gegn.

Alla vega, maturinn var frábær, ég mæli svo sannarlega með þessu og svo erum við með hugmynd af nokkrum bjórum til að prófa með!!!

Grillað lamb í kirsuberjabjórlegi með kinoa-myntu salati með granateplum, pistashnetum og geitaosti.

Það eru komnir tveir nýjir bjórar frá Borg í hillur Vínbúðarinnar, tveir af nokkrum reyndar þetta sumarið, annar er ný útgáfa af Ástríki sem sem bara dúkkaði upp í dag en Ástríkur er eins og margir muna hinn árlegi óopinberi Gay Pride bjór okkar Íslendinga. Hinn er endurútgáfa af Aycayia IPA sem er samstarfsbjór Borg Brugghúss og Cigar City í Tampa.  Þetta er bjór sem ég er mjög stoltur af enda átti ég nokkurn þátt í tilurð hans á sínum tíma.  Bjórinn kom út í flöskum á síðasta ári sælla minninga en er nú kominn í nýjan og betri búning, dósir sem eru bæði umhverfisvænar og varðveita gæði bjórsins betur en flöskurnar!

Kriek legið lambakjöt.

20170614_225919

Ég hef haft augastað á þessum rétti í nokkurn tíma.  Uppskriftin er úr bókinni Cooking with beer eftir Mark Dredge.  Ég greip nokkrar lambasteikur um daginn þegar ég var að skoða Costco eins og stór hluti þjóðarinnar.  Ég fann svo aldrei tíma til að elda þær vegna anna.  Í gær ákvað ég að henda kjötinu í pækil þar sem ég átti allt til sem þurfti, ekki vildi ég að kjötið færi til spillis.  Daginn eftir var svo kjötið eldað.  Hugmyndin var upphaflega að para þetta með stout eða porter, reyndar veit ég að súrbjór á borð við gueuze myndi líka ganga vel.  Ég komst hins vegar ekki í vínbúðina fyrir kvöldið.  Ég átti til smakkprufur af Ástríki og Aycayia og ákv að prófa þá með lambinu.  Hugmyndin er svo sem ekki galin, belgískur blond með tropical humlum sem smellpassa við ávaxtaþemað i salatinu og svo þessi geggjaði Aycayia sem er hlaðinn af djúsí framandi suðrænum humlum sem gefa okkur keim af  mango, ferskjum, ástaraldin ofl.  Ég verð að viðurkenna að ég varð bara nokkuð spenntur fyrir þessu.  Mynta, granatepli, sítróna og kirsuber með öllum þessum suðrænu ávaxtatónum frá ölinu hljómar næstum jafn vel á blaði og í munni.


Það sem þarf (fyrir 4):

Pækill
250ml Oud Beersel Kriek eða annar kriek
3 mtsk sykur
3 mtsk salt
12 kóríander fræ, mulin
1/2 tsk mulinn kanill
2 lárviðarlauf
3 hvítlauksgeirar
Lambakjöt að eigin vali, kótilettur eða lambasteikur t.d.

Salatið
Kinoa mv 4 (ca 60g á mann)
Fræ úr einu granatepli (varðveitið safann ef hægt)
100g ristaðar pistashnetur (án skeljar)
Rjómageitaostur eftir smekk
Lúka af ferskri myntu, skorin fínt

Dressing

4 mtsk Oud Beersel Kriek eða annar kriek
2 mtsk sítrónusafi
2 mtsk safi úr granatepli ef einhver er
4 mtsk olífuolía
1 mtsk hunang
1/2 tsk salt

Bjórinn
Ástríkur belgískur pale ale eða Aycayia IPA eru mjög skemmtilegir með þessu en aðrir góðir möguleikar eru stout eða gueuze (t.d. Oud Beersel Gueuze).

Aðferð

Daginn fyrir eldun er pækill undirbúinn.  Setjið allt í skál og hrærið.  Geymið rest af bjórnum til morguns.  Hellið yfir í ílát með loki og látið kjötið ofan í þannig að það fljóti yfir kjötið.  Bætið vatni ef þarf.

Þegar elda á kjötið, takið lambið úr pæklinum og þerrið með viskastykki eða bréfi.  Saltið og piprið aðeins og grillið á heitu grilli í nokkrar mín á hvorri hlið.  Látið hvíla í 5 mín áður en borið fram.

Sjóðið kinoa eins og stendur á pakkningu og látið kólna.  Blandið svo í skál eða á fat. Dreifið svo granateplafræjum, hnetunum, geitaosti og myntu yfir á smekklegan hátt. Búið til dressing með að blanda öllu saman í skál og hræra vel.  Dreifið svo yfir bæði lambið og salatið.  Það munar öllu að hafa svoldið vel blautt salatið.


 

BJÓRINN

20170615_180513ÁSTRÍKUR frá Borg brugghús er sem fyrr segir hinn óopinberi Gay Pride bjór okkar Íslendinga.  Hann kemur út í regnbogalitum ár hvert í kringum Gay Pride og áletrunin á merkimiðanum er öfug miðað við það sem við eigum að venjast.  Hingað til hefur Ástríkur verið öflugur belgískur tripel eða strong ale í krinum 10% áfengis en að þessu sinni er hann aðeins 4.6%.  Bjórinn er bruggaður með úrvals amerískum humlum sem þekktir eru fyrir suðrænan bragðprófíl.  Útkoman er notalegur belgískur blond með þægilega beiskju og milda suðræna ávaxtastemningu.  Mjög notalegur og auðveldur bjór.

Hinn bjórinn er svo hinn dásamlegi AYCAYIA, sem einnig er frá Borg, vægast sagt stórkostlegur bjór með aðdáunarverðan humalprófíl, Equinox, El Dorado, Eureka, Calypso, Mandarina Bavaria ásamt þekktum félögum Citra, Mosaic og Magnum. Þessi samsetning gefur af sér suðræna hamingjubombu á formi 6.4% IPA.  Í glasi er hann gylltur og mattur með dúnamjúkan froðuhaus.   Um leið og maður hellir honum finnur maður tælandi angan af suðrænum ávöxtum á borð við ananas, perur og mango til að nefna eitthvað.  Í munni er hann hreint út sagt dásamlegur, spriklandi gosið lífgar strax upp á bragðlaukana og gerir þá klára fyrir humlaseríuna sem mynda flókið samspil ávaxta, beiskju og blóma.  Hér má finna heila ávaxtakörfu af suðrænum ávöxtum af öllum stærðum og gerðum.  Ég fer ekki nánar út í það því hér verða menn að lofa sínum eigin bragðlaukum að ákveða nákvæmlega hvaða ávexti þeir pikka upp en það er einmitt svo einstaklingsbundið.  Sætan er langt í frá að vera of mikil því bjórinn er nokkuð þurr á móti.  Eftirbragð er langt og seyðandi og manni einhvern veginn er alveg sama þó maður eigi eftir að tapa áttum.  Hver sopi kallar á þann næsta en þannig á það líka að vera.

PÖRUNIN

Þessi réttur er mildari en mann grunar.  Bragðið af lambakjötinu fær að njóta sín til fulls þar sem engar þungar sósur eru að trufla, ég mæli samt með að menn noti ríkulega af dressingu til að fá þennan flotta súra berjakeim sem kemur mjög flott út með myntunni.  Seltan frá pistashnetunum, sýran frá granateplafræjunum og svo þessi funky jörð og rúnaða áferð frá geitaostinum vinna vel saman með myntunni og kirsuberjakeimnum frá ölinu og lífga hressilega upp á lambakeiminn og skapa dálítið „öðruvísi“ stemningu.

Hér verðum við að spá í regluna um að para létt með léttu því við viljum ekki gera lítið úr kjötinu.  Bjórinn þarf að lyfta undir réttinn og draga fram skemmtilega bragðtóna sem maður jafnvel myndi missa af annars.  Belgískur blond er flottur í þetta og ég tala nú ekki um ÁSTRÍK sem er með amerískum humalprófil sem gefa bragð af þekktum suðrænum ávöxtum.  Hér passar nefnilega að hafa ávaxtasætuna með til að draga fram ber og ávexti í dressingunni.  Belgíski gerkeimurinn á einnig alltaf vel við lambið sem er dálítið jarðbnundið ef svo má segja.  Myntan og krydd frá gerinu vinna mjög skemmilega saman.

20170617_192709 (1)

Klassískur IPA er kannski ekki fyrsta val með svona mildum lambarétti en beiskjan frá humlunum koma reyndar alltaf vel út með grilluðu kjöti og eins er beiskjan þægileg móti fitunni í kjötinu.  AYCAYIA er vissulega IPA en með tropical humlum sem gefa bragð af framandi suðrænum ávöxtum á borð við það sem maður fær í Ástríki nema bara mun meira áberandi. Humlarnir vinna einnig vel með myntunni og draga hana meira fram. Bjórinn gerir þennan milda rétt nokkuð bragðmeiri og skapar meiri dýpt og ávextirnir eiga vel við eins og fyrr segir.

Ég var með lambasteikur hér en ég held að grillað þurrkryddað lambalæri kæmi ofsalega vel út líka, mig langar amk að prófa það næst.  Skál, svo hlakka ég til að skrifa næstu snilld frá Borg sem er bara rétt handan við hornið.  Lifið heil!

Hvít súkkulaði- og ástaraldin mús með ávaxtabjór!

Ég held að Nigella Lawson elski súkkulaði álíka mikið og ég, hún er alla vega með ansi margar súkkulaðiuppskriftir á sínum vefsíðum.  Hér er eins sáraeinföld, falleg og svo sannarlega ljúffeng.   Algjör dásemd með vönduðum ávaxtabjór á borð við OUD BEERSEL KRIEK.


MÚS (fyrir 4): 150g hvítt súkkulaði, 3 stór egg, 5 ástaraldin og slatti af ferskum hindberjum.

BJÓRINN: Vandaður súrbjór með ávöxtum, t.d. kirsuberjum (kriek), hindberjum (framboise) eða einhverju öðru.  Passa þarf að um alvöru ávaxtabjór sé að ræða, ekki þessa með viðbættu ávaxtaþykkni.  Gott dæmi er OUD BEERSEL KRIEK eða LIEFMANS KRIEK BRUT.


MÚSIN: Súkkulaðið er brotið niður í litla bita, og svo sett í glerskál yfir potti með vatni. Látið vatnið sjóða.  Súkkulaðið á ekki að bráðna alveg í samfellda sósu eins og dökkt súkkulaði heldur er nóg að það sé farið að afmyndast og er orðið mjúkt. Passa vel að ekkert vatn fari i súkkulaðið. Of mikil bráðnun skemmir líka súkkulaðið.  Takið skálina svo til hliðar og látið kólna aðeins.

Þeytið eggjahvíturnar þar til orðið stíft.  Á að haldast í skálinni þegar henni er hvolft. Blandið svo eggjarauðunum (ekki hvítunum, passið ykkur á því, ég gerði það nefnilega óvart fyrst) saman við súkkulaðið sem hefur náð að kólna aðeins.  Varlega!  Skerið svo ástaraldinin í helminga og skóflið innvolsinu út, öllu saman, fræ, kjöt og alles, út í súkkulaðiblönduna.  Veltið þeim varlega saman við súkkulaðið.  Loks blandið þið ofurvarlega hvítunum saman við þetta allt þar til vel blandað saman.

Loks veljið þið einhver falleg glös, setjið hindberin í botnin, fínt að láta standa aðeins þannig að þau kremjist aðeins og myndi safa.  Hellið svo músinni yfir og setjið inn í kæli þar til orðið stíft.  4 tímar ættu að duga.

IMG_6195-001

BJÓRINN: Þessi eftirréttur er vissulega flottur bara einn og sér en frábær með góðum ávaxtabjór.  Kaffi er ekki málið hér, það rústar dálítið fallegum og viðkvæmum bragðflækjunum í þessum milda eftirrétt.  Hvítt súkkulaðið er dásamlegt með eggjunum og skapar mjúka notalega áferð og svo kemur sýran frá hindberjunum og ástaraldininum og klippir upp áferðina og gerir heildina létta og frískandi.  Sætan í súkkulaðinu bindst svo vel við sætuna í ástaraldinunum.  Bjórinn með þessu þarf að lyfta undir þetta allt saman og ekki yfirgnæfa neitt.  Ávaxtabjór er kjörinn í þetta og í raun það eina raukrétta.  Belgískur kriek er súrbjór sem þroskaður er með ferskum kirsuberjum í einhverja mánuði.  Bjórinn er léttur og súr og svo með berjakeiminn auðvitað.  Frábær bjórstíll og geggjaður með svona efirrétt.  Það er auðvelt að sjá hvernig sýran í bjórnum tengir við og styður berjasýruna í eftirréttinum á sama tíma og hún skapar dásamlegt mótvægi við þrúgandi sætuna.   Þetta er eiginlega of góð pörun til að reyna að lýsa í rituðu máli.  Prófið t.d. OUD BEERSEL KRIEK.

Hvað er gott með Sushi?

Það er langt síðan ég gerði sushi en ég var nokkuð duglegur hér fyrir nokkrum árum að gera sushi frá grunni við mikinn fögnuð fjölskyldunnar.  Þetta var nánast hverja helgi á tímabili.  Við elskum nefnilega gott sushi á þessu heimili (hver gerir það ekki?). Ég hef hins vegar legið í dvala núna í nokkur ár.  Í gær ákvað ég hins vegar að rjúfa múrinn og dusta rykið af sushi töktunum og prófa nokkra bjóra með sem við Sigrún höfum verið að skoða mtt einmitt sushi.   Sushi gerð er dálítið dútl og tekur tíma en það er alveg kjörið að hóa í nokkra vini og setjast saman yfir þetta með gott vín eða góðan bjór við hönd og spjalla, þá er bara allt í lagi að eyða tíma í þetta.

Ég lendi oft í því að missa mig í hráefnum og enda með allt of margar tegundir af sushi bitum (Maki) og allt of fáa af hverri tegund og svo man maður bara ekkert hvað var í hverju, möguleikarnir eru auðvitað nánast endalausir.  Mitt ráð til ykkar er því að ákveða t.d. bara  3 gerðir af rúllum og gera þær vel.  Í gær var ég með spicy þema en spicy krabbasallat bitarnir mínir eru uppáhald fjölskyldunnar og mér heyrist eftir gærdaginn að Lovísa Ósk vinkona okkar sé hjartanlega sammála.  En skoðum þetta á eftir, fyrst er það undirbúningurinn, ss grjónin.


SUSHI GRJÓNIN: maður verður að nota sushi grjón (fæst í Bónus og Hagkaup t.d.), einn poki (500g) ætti að duga fyrir 3 svanga fullorðna.

1. Setjið grjónin í stóra skál, helst úr gleri eða plasti.  Skolið svo varlega með fersku vatni.  Hér viljum við skola alla sterkju af grjónunum.   Fínt að hella af reglulega vatninu af sem í fyrstu er hvítt en verður svo tærara og tærara.  Tilbúið þegar skolvatn er alveg tært.

2. Látið grjónin standa í fersku vatni í klst.  Svo færir maður grjónin yfir í sigti og lætur renna af þeim í 15 mín.

3. Setjið grjónin í pott, bætið 7 dl af vatni útí og látið suðu koma upp með lokið á.  Lækkið svo hita í lægsta hita og látið malla í 10 mín.  Svo er potturinn tekinn af hellunni og látinn standa í aðrar 10 mín.

4. Færið grjónin loks yfir í tréskál, má vera úr plasti eða gleri reyndar.  Sumir reyna að þerra grjónin, ég sleppti því.  Látið kólna niður í stofuhita með handklæði yfir.

DRESSING á GRJÓNIN: Þið fáið grjóna edik á sama stað og grjónin. 0.75 dl af ediki með 0.75dl sykri.  Setjið í pott og hitið þar til sykurinn er uppleystur í edikinu.  Ef þið notið meira af grjónum þarf meira af þessari dressingu.  Svo er bara að blanda þessu saman varlega við grjónin.

SPICY KRABBASALLAT: Ok ég datt bara niður á þessa blöndu með fikti og tilraunum en þetta er alveg geggjað í sushi.  Spicy krabbasallat bitarnir eru lang vinsælastir á heimilinu.  Það er því góð hugmynd að gera nóg af þessu sallati.

– Majones, ca 5 mtsk (fer alveg eftir hve mikið þið ætlið að gera)
– Surimi („krabbakjöt“), t.d. 5-6 lengjur.  Skorið mjög fínt.
– Vorlaukur eða blaðlaukur, skorið mjög fínt.  Magn fer bara eftir smekk.

– Safi úr hálfum til heilum lime

– Chilli krydd, eða ferskur fíntskorinn chilli.  Eftir smekk, má alveg taka vel í

– Reykt paprikuduft, eftir smekk. 

Hrærið bara öllu saman í skál og látið standa aðeins áður en sett á maki bitana.  Fín að græja þetta t.d. á meðan grjónin liggja í bleyti.


IMG_6231Þegar grjónin eru tilbúin þá er eftirleikurinn auðveldur, að raða hráefnum saman og rúlla vefjurnar.  Fínt er að gera krabbasallatið á meðan grjónin standa í bleyti og svo á meðan grjónin kólna er tilvalið að skera niður grænmetið og gera allt klárt.

Ég ætla svo ekki að segja ykkur hvað á að setja í rúllurnar, þar kemur að ykkar eigin ímyndunarafli.  Ég læt þó hérna með hugmyndir af þeim rúllum sem ég var með í gær en þær komu ofsalega vel út.   Það sem þið þurfið að hafa eru nori blöð (þangblöð) sem undirlag fyrir grjónin og svo bambusmottu til að rúlla með.  Fyrir „inside out“ vefjurnar þarf plastfilmu.  Meðlæti er klassískt, soya sósa, sýrður engifer og wasabi.

Spicy krabbasallat (maki): Hér nota ég hálft noriblað, glansandi hliðin niður.  Set svo þunnt lag af grjónum yfir allt blaðið, þunnt lag af krabbasallati ofan á fyrir miðju og rúlla svo upp.  Bitarnir verða dálítið mjóir og háir.  Flott að setja svo smá sallat ofan á bitana þegar búið að skera niður.

Djúpsteiktur teriyaki kjúlli (maki): Hér fékk ég smá hjálp frá Nings, ég bara nenni ekki að standa í að gera djúpsteiktan kjúkling.  Pantaði lítinn skammt og fékk mjög ljúft létt sýrt hrásallat með.  Flott að gera inside out rúllur líka, sem sagt grjónahliðin snýr út.
Til að gera þetta þarf plastfilmu líka.  Setjið grjón á noriblað (heilt blað), glans hliðin snýr niður.  Flott að sáldra sesamfæjum yfir grjónin, eða rauð hrogn en þetta lookar bara svo vel.  Leggið svo plastfilmuna yfir grjónin og snúið öllu við þannig að glanshliðin á noriblaðinu snúi upp.  Leggið þetta á bambusmottuna og svo er fyllingin sett beint á norihliðina.   Kjúklingurinn, hrásallatið, og Teriyaki sósan.  Einnig gott að lauma línu af spicy majonesi (fæst í Bónus t.d.).  Svo er rúllað upp og plastfilma tekin undan jafn óðum. Þegar búið er að skera bitana niður er flott að skreyta með chillisósu.

Spicy majo laxarúlla (maki): Við verðum að hafa fisk í sushi ekki satt?  Ferskur lax er málið.  Hér var ég með lax með spicy majonesi sem ég fékk í annað hvort Hagkaup eða Bónus, man bara ekki hvar.  Þetta er mjög gott með laxinum.  Ég geri alltaf „inside out“ rúllur fyrir laxinn, mér finnst það bara það eina rétta, rauð hrogn eru mjög viðeigandi skraut hér.  Ég fékk lítinn bita af laxi hjá Fiskikonginum, þetta þarf ekki að vera stór biti.  Svo er þetta bara eins og hér að ofan, laxinn settur í ræmum á nori blaðið, vel af spicy majo með, rauð paprika í ræmum og ferskar avocado lengjur.  Rúllið upp og skerið í bita.

Spicy majo laxa nigiri: Mér finnst alltaf flott að hafa nigiri bita með.  Þeir eru fljótgerðir og setja svip á bakkann.  Takið grjónaklípu og leggið í lóann og hálfkreppið lóann.  Þjappið svo grjónum og myndið lítinn bragga.  Svo er gott að smyrja spicy majonesi ofan á.  Skerið lax í þunnar fallegar sneiðar, og leggið ofan á.

IMG_6235

BJÓRINN MEÐ: Flestir eru vanir hvítvíni með sushi og það er bara ekkert að því, gott hvítvín getur verið frábært með sushi, bjórinn hins vegar býður upp á mun fleiri möguleika.  Megin reglan er að bjórinn taki ekki völdin, sushi er ekki ódýrt að gera og maður er búinn að eyða svo miklum tíma í að gera það, það væri mikil synd að finna svo ekki almennilegt bragð af því.  Bjórinn verður samt að vera merkjanlegur, við viljum heldur ekki bjór sem maður finnur ekki bragð af fyrir sushi-inu þá er alveg eins hægt að drekka vatn.  Hinn gullni millivegur, bjór og réttur verða að gera eitthvað fyrir hvort annað.

Það eru í raun margir möguleikar þegar bjórinn er valinn, það fer nefnilega dálítið eftir því sem maður setur í rúllurnar, en svo er nokkrir fastir punktar sem þarf að hafa í huga, eins og seltan frá soya sósunni og sætan frá grjónunum.  Wasabi er svo auðvitað mjög sterkt og tekur vel í og engiferið er sýrt og spicy.  Að þessu sinni var þemað „spicy“, maður gæti því hugsað sér IPA eða Pale Ale þar sem við erum með seltu og chilli hins vegar er beiskjan frá humlunum alls ekki að passa við stemninguna í sushi.  Belgískur blond er aftur á móti alveg málið t.d. LEFFE BLOND.  Þessi bjór er alveg laus við beiskjuna en býr yfir áberandi ávaxtasætu og skemmtilegum krydduðum tónum frá gerinu.  Bjórinn er ofsalega flottur á móti öllu þessu sterka frá réttinum og hann tengir vel við sæt grjónin og magnar upp bragðið. Bjórinn pakkar hann einhvern veginn inn sterkt chilli-ið og wasabi brunanum og mildar þetta allt saman og svo blandast þetta allt, sætt, salt og sterkt í rúnaða heild í gómnum.  Ljómandi gott.

Við vorum svo með annan skemmtilegan með þessu.  Súrbjórinn OUD BEERSEL GUEUZE sem er framúrskarandi belgískur gueuze.  Þessi bjór er léttur en í senn mildur og bragðmikill.  Súr á tungu með ögn sætu og svo þetta „funky“ bragð sem erfitt er að lýsa.  Þessi bjór léttir vel á spicy themainu með kitlandi gosinu og sýrða bragðinu.  Bjórinn breytir aðeins matnum en á skemmtilegan og funky máta!  Það er svo virkilega gaman að finna hvernig hann er með engiferinu en hann virkar hér eins og brú, bragðið af engiferinu, rífur aðeins í með sýru og spice og svo er bjórinn bara eins og fullkomið framhald og bragðið heldur áfram óbreytt nema bara meira áberandi.  Svo endar þetta í smá funky kveðju.

Geggjað….væri gaman að heyra ykkar álit!

Besta súkkulaðimús í heimi með hindberjum og funky hindberja saison!

Þegar ég skrifaði þessa færslu fyrst þá var konudagur og þá talaði ég um hversu mikilvægt það er að gæla við konurnar í lífi okkar. Mér dettur ekkert betra í hug en að skella í dásamlegt súkkulaðitrít fyrir mína í tilefni dagsins. Ég er mikill súkkulaðifíkill og ég ætla ekkert að reyna að fela það en það er bara fátt betra í þessu lífi en góður súkkulaði eftirréttur. Súkkulaðimús er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég hef sko prófað margar slíkar, trúið mér en það er bara engin mús eins góð og þessi hér sem upprunanlega kemur frá eldhúsgyðjunni Nigella Lawson. Það versta við þessa mús er að ég get bara ekki stoppað þegar ég byrja og það kemur ekki vel út þegar gestir þurfa að berjast við mig um síðustu bitana, Sigrún þarf samt ekkert að óttast á konudaginn. Ég er svo ekki alveg að fara eftir Nigellu hér því mig langaði í smá berjasætu, hindber og sýru til að létta aðeins réttinn og gera hann meira svona konudags, ég fékk því mágkonu mína Elínu sem er snillingur í gúmmilaðigerð til að koma með hugmyndir og hún kom með hugmynd að dásamlegu hindberjagumsi sem smellpassar við bæði réttinn og bjórinn sem ég ætla að bjóða frúnni með þessu.

Viðbót júlí 2022. Það er langt síðan ég skrifaði þessa færslu inn og margt vatn runnið til sjávar síðan. Hún heldur sannarlega velli þessi mús en mér datt í hug að prófa að gera Dulce súkkulaðimús líka því dulce súkkulaði er bara svo geggjað gott. Þið hafið vonandi smakkað litlu dulce páskaeggin frá Nóa…klikk! Ég reyndar keypti vitlaust súkkulaði og endaði með saltkaramellu rjómasúkkulaði en það kom samt mjög vel út.

.

Það sem þarf (fyrir ca 5-6 skálar)

Fyrir dökku klassísku músina

  • 150 g sykurpúðar
  • 50 g smjör
  • 250 g gott súkkulaði (125 g suðusúkkulaði og 125 g 70% súkkulaði)
  • 60 ml heitt vatn (soðið vatn)
  • 285 ml rjómi, þeyttur
  • 1 tsk vanilludropar

Fyrir saltkaramellu súkkulaði músina

  • Allt eins nema í stað suðusúkkulaði er 250 saltkaramellu rjómasúkkulaði
  • Smá salt
  • Rifinn límónubörkur
  • Rifsber og hindber til að skreyta

Fyrir hindbarjamaukið (best á dökku músina)

  • 300 g hindber (frosin er alveg i lagi)
  • 1/4 bolli sykur
  • 1 mtsk súrbjor, eða bara sítrónusafi
  • 1/4 tsk nýmulinn pipar (má sleppa)

.

Aðferð

Þetta er svo einfalt að það er pínu vandræðalegt. Dóttir mín er farin að gera þetta undir eftirliti. Takið 250g súkkulaði og saxið niður setjið í stóran pott, bætið 150 g af sykurpúðum og 50 g smjör í pottinn og bætið svo 60 ml heitt vatn yfir. Látið þetta malla á mjög lágum hita þannig að þetta bráðni saman. Hrærið nánast stöðugt. Látið svo kólna aðeins. Þeytið rjóma og 1 tsk vanilludropa saman og blandið svo varlega saman við rest.

Hindberjamaukið.

Setjið allt í matvinnsluvél og maukið þar til berin eru orðin að mauki. Svo er gott að sigta maukið til að losna við steinana. Sjóðið í örlitla stund á vægum hita en þetta gerir maukið silkimjúkt og aðeins hlaupkennt.

img_5985

AÐFERÐ: Varðandi dökku músina þá er hægt að fara tvær leiðir í framsetningu, annars vegar að hafa eldrautt hindberjamaukið ofan á súkkulaðimúsinni eins og á myndinni að ofan en það kemur ofsalega fallega út, svo er bjórinn rauður í stíl en hins vegar setur maður maukið í botninn þannig að dásamleg músin fær að njóta sín (mynd að neðan). Ef þið veljið að setja rautt ofan á þá þarf fyrst að láta músina storkna í kæli í svona 2 klst og svo bara hella maukinu ofaná. Ef hin leiðin er valin þá er fínt að setja maukið í skálarnar og inn í frysti í smá stund. Svo er súkkulaðimúsinni hellt yfir og látin storkna í kæli í ca tvo tíma. Loks er skreytt með ferskum hindberjum og brómberjum t.d.

Fyrir saltkaramellu „dulce“ músina þá er það bara að setja hana í skál og kæla yfir nótt og svo skreyta með t.d. rifsberjum og hindberjum. Stráið svo smá sjávarsalti yfir og prófið að rífa límónubörk yfir þetta allt. Mjöög næs.

BJÓRINN: Þetta er ein magnaðasta pörun okkar til þessa held ég, kannski er það bara af því að hér erum við að leika okkur með súkkulaðirétt sem er mitt uppáhald og svo „funky“súrbjór sem ég held líka mikið uppá. Ég veit það ekki, hitt er þó víst, bjórinn einn og sér geggjaður en með súkkulaðimúsinni er hann algjörlega magnaður. Súkkulaðimúsin er mjög saðsöm og þung en hindberjagumsið í botninum opnar þetta upp með ferskum súrum berjablæ. Ég valdi þennan bjór ROSES ARE BRETT frá To Øl einmitt vegna þess að hann er súr og bruggaður með hindberjum og svo er hann bara svo fallegur svona rauður og elegant. Hindberin og sýran í bjórnum tengja gjörsamlega við hindberjamaukið í músinni og gerir það að verkum að bjór og eftirréttur framlengja hvort annað. Fyrst fær maður dásemlegt súkkulaðið, svona silkimjúkt og ljúft en dálítið þungt svo opnast allt uppá gátt með súrsætum hindberjum í botninum og þetta tvinnast allt saman, loks kemur bjórsopinn og framlengir hindberin og súra keiminn en með skemmtilegu „funky“ twisti sem einhvern veginn dregur súkkulaðið aftur fram. Þetta er algjörlega geggjað saman. Roses are brett fæst aðeins via sérpöntun ÁTVR en það er í raun lítið mál að panta svona, maður sendir bara póst á Vínbúðina og óskar eftir sérpöntun. Það er þó vel hægt að mæla með LIEFMANS KRIEK og OUD BEERSEL KRIEK eða GUEUZE sem fást allir í Vínbúðunum.

Fyrir saltkaramellu músina þá gæti súrbjór komið vel út en ég held að gott kampavín væri alveg geggjað með þessu. En það er bara að prófa sig áfram.

img_6001

Rósir, nei takk bjór og súkkulaðifrauð fyrir mína 🙂