5 bestu jólabjórar ársins (2018) að okkar mati!

Nú erum við búin að liggja dálítið yfir jólabjórum 2018 og komin að niðurstöðu. Þetta var ekki auðvelt en þegar allt er tekið saman, þá er útkoman þessi. Hér tökum við allt saman í einn pott, erlenda, íslenska, létta og þungaviktabjóra í sömu yfirferð. Við trúum ekki á að velja bestu bjóra í hverjum flokki fyrir sig en það er bara þannig hjá okkur. Hér eru yfir allt fimm bestur bjórar sem fást í vínbúðunum þetta árið að okkar mati og nokkur orð um afhverju okkur finnst það. Það skal tekið fram að við tökum ekki með frábæra bjóra eins og Ákaflega Gaman Þá frá RVK Brewing Company sem er alveg stórbrotinn double IPA með eins miklum humlum og hægt er að koma í einn bjór held ég svei mér þá, þessi fæst aðeins á krana í bruggstofu RVK Brewing og á völdum börum borgarinnar. Svo eru það bjórarnir frá frá KEX Brewing sem eru þrír að þessu sinni en allir bara fáanlegir á börum borgarinnar og eru þeir því ekki með í þessu mati.

Loks má geta þess að við smökkuðum ekki alla 60 jólabjóra sem í boði eru því mikið af þessu höfum við smakkað áður í gegnum tíðina, og annað bara höfðaði alls ekki til okkar.

ATH hér erum við að velja jólabjór og því tökum sérstaklega eftir því ef bjórinn færir okkur eitthvað jólalegt á tungu eða parast vel með jólamat og hefur það jákvæð áhrif á dómana. Tekið skal fram að þetta er ekki blindsmakk!

En ok fimm bestu jólabjórar sem í boði eru þetta árið koma hér:

  1. Skyrjarmur (4.3%) frá Borg. Ég vissi að þessi myndi verða flottur þegar ég smakkaði hann á gertankinum hjá þeim félögum í Borg á sínum tíma en ég bjóst ekki við að hann kæmi svona svakalega vel út. Þetta er einstaklega ljúffengur bjór, mildur og þægilegur með alveg hreint glás af bláberjum, hann er nánast þykkur eins og skyr. Þó hann sé súrbjór þá er hann í svo hárfínu jafnvægi að hann verður í raun ekki súr því berjasætan kemur á móti og mildar allt saman. Það er þannig súrsætur keimur sem gælir við bragðlaukana og já bláberin eru ekkert að fela sig. Skyrjarmur er líka fullkominn í útliti fyrir jólabjór, dimmrauður eins og blóð úr fallinni rjúpu! Þessi er stórkostlegur og parast í raun asnalega vel við villigæsapaté með klettasalati og bláberja eða hindberjavinagrette. Þvílíkt jólakombo.
    .
  2. Ginger Brett IPA (6.9%) frá Mikkeller. Þessi var hér í fyrra og árið þar á undan einnig. Hann hefur verið ofarlega á lista hjá okkur síðustu ár enda frábær jólabjór. Engifer er jú jólakrydd ekki satt og það er nóg af því í þessum. Reyndar meira engiferrót frekar en kryddið. Í grunninn er um að ræða IPA þannig að það er líf og fjör í bjórnum með notalega beiskju sem rétt aðeins tekur í og svo er ákveðin beiskja frá engiferrótinni sem tengist ofsalega vel við hið svokallað „funk“ frá villigerinu brettanomyces. Þessu bragði er ekki hægt að lýsa en menn reyna að líkja við háaloft, moldargólf, leður, fúkka ofl. Hvað sem því líður, þessi blanda með engifer og humlunum er mögnuð. Frábær einn og sér en gerir líka ofsalega skemmtilega hluti með mat hvers konar. T.d. gröfnu lambi með graflaxsósu og klettasallati.
    .
  3. Leppur (6.5%) frá Brothers Brewery. Þessi kom okkur mjög á óvart en hann er alveg magnaður frá strákunum í Vestmannaeyjum. Hér erum við með svo kallaðan mjólkur stout (milk stout) en slíkur bjór er jafnan með mikla mýkt og fyllingu en í þennan stíl nota menn laktósa eða mjólkursykur sem skapar þessa skemmtilegu mjólkurkenndu áferð. Í Lepp eru auk þess settir hafrar og hveitikorn sem gefa enn meiri fyllingu. Ofan á þetta er Leppur bruggaður með kaffi sem kemur vel fram í bragði eins og ristaðar kaffibaunir og svo er hellingur af súkkulaði sem menn ná fram úr maltaða bygginu. Bjórinn er dálítið á sætu nótunum en humlar koma þó dálítið inn á móti og tóna niður sykursæluna, en jólin eiga eignlega að vera dálítið sæt ekki satt? Þetta er frábær jóladrykkur sem er flottur sem bara desert einn og sér eftir jólasteikina eða sem meðlæti með heimlagaða toblerone ísnum og ekki væri verra að nota bjórinn sem flot á ísinn. Fæ vatn í munn við tilhugsunina.
    .
  4. Giljagaur (10%) frá Borg. Nú skulum við fá það á hreint, Giljagaur er alltaf á listanum okkar, nema það komi fram 5 nýjir alveg geggjaðir jólabjórar sem lenda ofar. Þessi bjór er bara ómissandi hluti af jólunum okkar B&M. Við erum að tala um 10% kraftmikinn bjór af gerðinni byggvín eða barleywine sem er bjórstíll með mikinn þrótt og háar áfengisprósentur. Oft með ávaxtanótum eða sætu frá vínandanum og korninu en hann getur einnig verið ansi beiskur og beittur. Stíllinn er dálítið þykkur, þéttur og yfirleitt með notalegum áfengishita. Giljagaur er að okkar mati dálítið sætbeiskur með ögn ávaxtakeim sem minnir á mandarínur eða appelsínubörk og það er mikill þróttur í honum. Með tímanum missir hann beitta bitið og verður mýkri en flóknari. Við skulum svo hafa annað á hreinu, Borg bruggar alltaf sama Giljagaurinn og ætti munur milli ára að vera óverulegur jafnvel þótt menn telji sig líka misvel við hann milli ára. Mögulega er það bara stemning smakkarans sem er mismunandi á milli ára og svo má ekki gleyma bragðlaukum sem stöðugt eru að þroskast og breytast, ég skal ekki segja? Þessi er magnaður með tvíreyktu lambi og með því. Tékkið á þessu!
    .
  5. Jólakisi (7%) frá Malbygg. Malbygg er hér með fyrsta jólabjórinn sinn í vínbúðir sem er af gerðinni India Pale Ale sem í raun mætti flokka sem New England IPA eða NEIPA. Bjórinn hefur samt ekkert jólalegt uppá að bjóða, nema þá ef menn tengja við furunálarnar sem oft má finna af humlunum sérsaklega simcoe. Merkimiðinn er jólalegur og nafnið, hins vegar er þessi bjór bara svo ofsalega góður ef maður þolir beiskju og safaríka tóna frá humlunum að það er ekki hægt annað en að hafa hann á lista. Citra, simcoe og mosaic tröllríða bragðlaukunum á góðan máta samt. Humlahausar, þið eigið eftir að elska þennan.

Ef við værum með 6 sæti þá er Eitthvað Fallegt (5%) fyrsti jólabjórinn frá RVK Brewing næstur inn. Þessi bjór er ofsalega skemmtilegur og sérstaklega jólalegur. Hér má eiginlega segja að menn séu búnir að koma jólum í flösku en bjórinn er bruggaður með heilu jólatré ásamt mandarínum, negulnöglum, loftkökum, vanilluhringjum og machintos sælgæti úr heilli dós, vondu og góðu molarnir allt saman í einn pott. Já þessi bjór fær sko jólaprik frá okkur. Við köllum stílinn bakkelsis IPA eða pastry IPA Valli og Siggi kalla hann season IPA sem sagt ekki session IPA. Í bragði má finna greninálar, hvort sem það er frá trénu eða simcoe humlunum er ekki gott að segja, það er alla vega notaleg beiskja í honum og svo kemur mandarínukeimurinn vel í gegn, sérstaklega í nefi. Í eftirbragði er svo þægilegur kryddkeimur sem líkast til er frá negulnöglunum en þetta er látlaust sem betur fer því negull getur algjörlega rústað góðum bjór. Fyrir okkur gengur þetta upp og við erum ægilega ánægð með hann hér á B&M. Mér skilst að lítið sé til af honum þannig að það er um að gera að næla sér í flöskur.