Það er ágætt að hafa nokkrar þumalfingurs reglur bak við eyrað áður en lagt er af stað.  Það er þó ekki þar með sagt að þetta séu einhver ófrávíkjanleg lög síður en svo.  Helst viljum við ekki tala neitt um reglur við hvetjum frekar til þess að fólk reyni eitthvað nýtt og prófi sig áfram eftir smekk og blási á allar reglur, það er jú það sem gerir þetta spennandi.  Smekkur manna er sem betur fer misjafn og því er ekki hægt að segja neitt um hvað öðrum finnst gott í þessum efnum.  Það skal tekið fram að við hér erum heldur ekki alvitur í þessum efnum eða sérmenntuð í pörun bjórs og matar ef það er á annað borð hægt.  Hér erum við aðeins að miða af áralangri reynslu okkar í þessu.

Það er gott að hafa í huga nokkrar grunn bragðgerðir sem við erum oftast með í höndunum, eða réttara sagt munninum.  Salt, súrt, sætt, beiskt, reykt og kannski heitt (eins og chilly t.d.).  Umami má einnig fljóta með en það er dálítið erfitt að skilgreina það.   Áferðin (texture) á réttnum skiptir einnig máli, mjúkur, þunnur, hvass, rjómakenndur og svo fram eftir götunum.

Í raun er frekar einfalt að para bjór við mat ef maður spáir aðeins í þetta.  Hér eru nokkrar reglur.

Regla #1 – hugsa rökrétt

Byrjaðu að ákveða hvort þú vilt para matinn við bjórinn eða öfugt.  Það er auðvitað mikilvægt að vita eitthvað um bjórinn sem þú vilt prófa með matnum. Taktu þér tíma til að kynnast bjórnum, hverjir eru eiginleikar bjórsins?  Lykt gefur miklar upplýsingar um helstu eiginleika bjórsins, eru ávextir í nefi, gras, rist, krydd og þar fram eftir götunum? Bragð er auðvitað hluti af þessu líka, er bjórinn súr á tungu, er hann þungur og mikill, sætur er hann mjög kolsýrður og svo framvegis?  Hvað finnst þér líklegt að muni ganga?  Hafðu ekki áhyggjur, prófaðu þig bara áfram, það er enginn að fara fella þig ef þú gerir eitthvað vitlaust, það er reyndar líka gaman að prófa bjór sem engann veginn er að ganga, það er ákv upplifun út af fyrir sig, t.d. beiskur IPA með viðkvæmum ostum.

Regla #2 – þyngd

Gott er að vega og meta bjórinn mtt þess megin hráefnis í þeim rétti sem þú ert að leika þér með.  Það er mikilvægt að bjórinn steli ekki senunni frá máltíðinni og öfugt.  Öflugur Barley Wine eða Imperial Stout er t.d. ekki sniðugt val með viðkvæmu sjávarfangi eins og hörpuskel eða humar, bjórinn myndi yfirgnæfa fíngerðar braðgflækjur sjávarfangsins.  Eins viljum við ekki að rétturinn jarði bjórinn, eins og t.d. elegant Kölsch með grillaðri BBQ nautalund.  Bjórinn myndi einfaldlega deyja og gera akkúrat ekkert fyrir máltíðina, þá er betra að drekka vatn með.  Þetta snýst bara um jafnvægi!

Regla #3 – Andstæður

Oft getur maður endað með frábæra pörun þegar andstæðum er teflt saman, rétt eins og í tilhugalífinu.  Hér tekur maður aðeins áhættu því það er auðveldara að klúðra pörun með þessum hætti en þegar hún gengur upp eru verðlaunin oft ríkuleg.  Reyndu súran bjór eins og Gueuze eða Lambic á móti sætum rétti eða beiskan hvassan bjór á borð við IPA eða Pale Ale á móti feitum rjómakenndum réttum t.d.  Skoðaðu hvaða bragð eða áferð er yfirgnæfandi í réttinum og tefldu bjór með andstæða eiginleika á móti.  Þannig getur t.d. beittur og beiskur IPA virkað vel á móti rétt með feitum og miklum sósum.  Beiskjan „sker“ sósuna og dregur úr fyrirferðinni og mildar þannig réttinn eða „opnar“ hann upp.  Bjórinn getur þannig skapað jafnvægi og dregið úr allsráðandi eiginleikum máltíðarinnar. Önnur skemmtileg pæling er reyktur bjór á móti sætum rétt, t.d. eftirrétt.

Regla #4 – Samstæður

Það er tilvalið að tefla saman líkum eiginleikum í mat og bjór sem þá upphefja hvort annað svo lengi sem það verði ekki of mikið af því góða.  Oft er þó meðlæti og annað slíkt sem skapar jafnvægi í pöruninni.  Í bjórheiminum eru til yfir hundruð mismunandi bjórstíla og því hægt að finna nánast allar þær bragðtegundir sem þú fær í matnum í einhverjum bjór.
Nánast of klassískt kombo er t.d. að para súkkulaðikeimnum í sætum Imperial Stout við súkkulaðikökuna, beiskjan og ristin í bjórnum passar uppá að þetta verði ekki of mikil súkkulaðisprengja.  Eins er skemmtilegt að nota reykbjór með reyktum réttum, eins og hangikjöti, reyktum pylsum eða kolagrilluðum kjötréttum t.d.  Maður getur líka spáð í marineringunni t.d. á kjötréttunum, við eldun þá breytist sykurinn í sumum marineringum í karamelluhjúp sem skemmtilegt er að lyfta undir með flottum bjór með karamellukarakter eða sætum maltkeim.  T.d. Scotch Ale eða Bock.  Sumir Pale Ale bjórar eru einnig með karamellukeim frá korninu.  Steiktur karamellulaukur t.d. með fiski gæti orðið enn skemmtilegri með þessum bjórum svo fremi sem þeir stela ekki senunni frá fiskinum.  Svo sé ég fyrir mér súran Berliner Weisse eða Gueuze með sallati með sýrðri dressingu.  Svona má lengi spá og spekúlera.  Aðal atriðið er að prófa.

Regla #5 – Ekki fleiri reglur

Æ það er hægt að tala um fleiri reglur en ég held að við blásum þeim af borðinu.  Hættum að spá í reglum og prófum okkur bara áfram.  Lærðu líka af öðrum, t.d. eru sumir veitingastaðir farnir að bjóða bjór og matarpörun, prófaðu það t.d. og láttu koma þér á óvart.