Súkkulaði hnetusmjörs ostakaka, svakalega gott!

Ég hef aldrei gert alvöru ostaköku áður, mig langaði að prófa, það er fyrsti febrúar 2020, janúar verið algert helvíti, alls konar slys og snjóflóð ofl.  Nú er kominn tími til að njóta og hafa það gott.  Ég skoðaði nokkrar uppskriftir og datt inn á þessa, súkkulaði hnetusmjörs ostakaka frá Nigella Lawson.  Ég elska hnetusmjör, sérstaklega þegar það er tengt við súkkulaði og því ákv ég að prófa.  Ath, þessa þarf að baka deginum áður en á að njóta.

Það sem þarf í þetta

Fyrir botnin

  • 200 g digestive kex
  • 50 g salthnetur
  • 100 g sökkt súkkulaði (t.d. dropar)
  • 50 g ósaltað mjúkt smjör

Fyrir fyllinguna

  • 500 g rjómaostur
  • 3 stór egg
  • 3 eggjarauður aukalega
  • 200 g sykur
  • 125 g sýrður rjómi
  • 250 g fínt hnetusmjör

Fyrir kremið

  • 250 g sýrður rjómi
  • 100 g rjómasúkkulaði dropar
  • 30 g mjúkur ljóst púðursykur

wp-1580730874813.jpg

Aðferðin

Setjið kexið (200g), 50g salthnetur, dökka súkkulaðið (100g) og 50g mjúkt smjör í matvinnsluvél og maukið þar til þetta er orðið eins og rakur sandur og klumpast saman.

Finnið til hringlaga springform, 23cm í þvermál, dreifið úr deiginu í botninn, pressið niður í botninn og aðeins upp með hliðum. Setjið þetta í kæli meðan þið græjið annað. ATH ég smurði formið vel með smjöri en það er líklega betra að hafa bökunarpappír í botninn?

Takið til skál fyrir hrærivél, setjið allt í sem fer í fyllinguna, 500g rjómaostur, 200g sykur, 3 egg, 3 eggjarauður, 125g sýrður rjómi, 250g hnetusmjör og hrærið vel saman þar til orðið mjúkt og án kekkja. Hellið þessu svo yfir kexbotninn og inn í ofn.  170 gráður í um 50 mín.

Kakan á að vera eins og bökuð í yfirborðinu en ekki í gegn, dálítið eins og himna sem hægt er að rjúfa með skeið.  Takið kökuna út og látið standa meðan þið gerið kremið.

Í lítinn pott setjið þið 100g rjómasúkkulaði, 250g sýrðan rjóma og 30 g púðursykur.  Kveikið undir, og látið bráðna saman á vægum hita.  Hrærið stöðugt með sleikju td þannig að ekkert brenni við botn.  Muna, vægur hiti.  Þegar þetta er bráðnað vel saman takið þið pottinn af og hellið þessu varlega yfir kökuna.

Þetta ætti að fljóta vel yfir kökuna en ef það er þykkt má nota skeið til að dreifa yfir en passið þá að rjúfa ekki yfirborðið á kökunni, þá blandast kremið dálítið við deigið undir yfirborðinu.  Þetta fer svo inn í ofn í svona 7-10 mín.

Svo látið þið kökuna kólna í forminu og setjið matarfilmu eða álpappír yfir og inn í ísskáp í sólarhring.  Kakan er nú klár í slaginn.

wp-1580732178204.jpg

Pörunin

Hér erum við með ofsalega þunga og mikla köku.  Ein lítil sneið er meira en nóg.  Með þessu væri gott að hafa stout eða jafnvel porter sem er mildari og léttari.  Ekki skemmir ef notað er kaffi í bjórinn en oft er bara kaffikeimur af brennda maltinu sem notað er í þessa stíla.  Nettir humlar rífa aðeins upp þetta mikla þunga og kaffiristin tónar vel við kökuna og súkkulaðið í kexbotninum.   Hnetusmjör og stout er líka vel þekkt blanda enda mörg brugghús sem gera hnetusmjörs kaffistout.  Imperial stout er líklega of þungt en mig langaði samt að prófa og fór því í Bjössa Bollu frá Malbygg  en þessi bjór er frábær ef þú fílar bakkelsisbjór (pastry beer) yfir höfuð.  Í bjórinn nota strákarnir ma. kókosbollur sem skapa sætuna og fyllingu líka.  Þetta er mikill bjór og dálítið þungur, sætan í bjórnum gæti reynst mönnum of mikið með kökunni en ég elska sætt og mér fannst þetta algjört gúmmilaði saman.   Ég var samt alveg búinn á því eftir eina sneið.

Íslenskt á Bjórhátíð 2019

Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum sem rambar inn á Bjór & Matur að framundan er einn stærsti bjórviðburður ársins hér á fróni, en ef svo er þá má lesa nánar um komandi árlegu bjórhátíð á KEX hér. Ég hef einblínt dálítið á erlendu brugghúsin til þessa sem er svo sem ekkert undarlegt, það er erfitt að komast yfir bjór frá mörgum þeirra og því magnað að geta smakkað bjór frá þeim hér heima á klakanum og í raun algjörlega einstakt tækifæri í svona litlu samfélagi sem Ísland er. Það er hins vegar fjöldi af íslenskum brugghúsum á hátíðinni í ár og sum voru í fyrra líka. Mig langar að rúlla aðeins í gegnum þau hér.

Staðfest eru eftirfarandi, Borg Brugghús, Malbygg, RVK Brewing Co., The Brothers Brewery, Smiðjan Brugghús, IDE Brugghús, Lady Brewing, Álfur, Og Natura, Ægir Brugghús, Mono, Ölgerðin og Vífilfell. Það gætu auðvitað fleiri boðað komu sína áður fram líða stundir. KEX Brewing verður auðvitað á staðnum líka.

Borg Brugghús

Ég þarf ekki að fjalla mikið um þessa snillinga en þeir hafa verið að marg sanna sig síðustu ár með mögnuðum bjórum af ýmsum toga. Nú undanfarið hafa þeir fylgt tíðarandanum og fært okkur hverja safabombuna (NEIPA) á fætur annari en ég held að óhætt sé að segja að hinir skýjuðu New England IPA bjórar hafa verið gríðarlega vinsælir hér heima sem og erlendis síðustu misseri. En Borg kann sannarlega að brugga annað en NEIPA en þeir sýndu okkur það með skemmtilegu twisti í lok árs með frábærum bjór af gerðinni wild ale sem bar nafnið Esja og markar upphaf af súrbjóralínu vonandi frá þeim snillingum. Það verður spennandi að sjá hvað þeir tefla fram á bjórhátíð í ár.

Malbygg

Bergur, Andri og Ingi eru bjórperrar af líf og sál en þeir eru gaurarnir á bak við Malbygg. Ég hef fjallað um þá nokkrum sinnum áður og ætla ég ekki að skrifa hér einhverjar langlokur en hér má lesa nánar um Malbygg. Malbygg sem hóf göngu sína á síðasta ári hefur á sínum stutta líftíma stimplað sig rækilega inn í íslenska bjórmenningu með frábærum og aðgengilegum bjór og vil ég meina að hér sé eitt besta brugghús landsins um þessar mundir. Þessir guttar munu sko sannarlega mæta með gott á bjórhátíð. Fyrir þau ykkar sem ekki geta beðið þá hvet ég ykkur til að taka forskot á sæluna en þeir eru með alla vega 5 tegundir til sölu í vínbúðum landsins, ma Galaxy IPA sem er frábær um þessar mundir.

20180909_180933-01.jpeg

RVK Brewing Co.

Hér er enn eitt brugghúsið sem hóf göngu sína á síðasta ári og hefur verið að gera frábæra hluti á árinu. Það eru þeir Sigurður Snorra og Valli brugg sem sjá um að semja bjórinn sem menn geta notið í fyrstu formlegu bruggstofu borgarinnar. RVK Brewing hefur verið að gera alls konar skemmtilegt síðustu misserin, ss bakkelsisbjór með snúðum frá Brauð & Co, flippaðan morgunverðar stout með cocopuffs, höfrum, pönnukökum ofl og svo var jólabjórinn þeirra ansi jólalegur með heilu jólatré og með því í bruggferlinu. Já það er óhætt að segja að RVK Brewing sé bæði lifandi og skemmtilegt brugghús sem þorir að fara skrítnar leiðir. Það besta er að útkoman er oftast helvíti góð. Hvað fáum við að smakka á bjórfest? Mögulega tunnuþroskaða útgáfu af Co & Co? Reyndar þykir mér líklegt að það verði meira í súrum dúr hjá þeim í anda Þorrans.

The Brothers Brewery

Strákarnir frá Eyjum hafa verið að gera fína hluti síðustu ár. Lengi vel var erfitt að smakka nokkuð frá þeim nema í Eyjum en nú er bjórinn þeirra farinn að detta inn á bari borgarinnar hér og þar og á flöskur í vínbúðirnar. Bjórinn þeirra er þægilegur og aldrei neinar öfgar í neinu. Það besta frá Brothers til þessa að mati B&M var páskabjórinn þeirra í fyrra sem var alveg frábær mjólkur stout sem smellpassaði með páskaeggjum frá Hafliða súkkulaðikarli. Brothers virðast vera helvíti flinkir í þessum stíl því hinn bjórinn þeirra sem var í miklu uppáhaldi hjá okkur var jólabjórinn þeirra í ár, Leppur sem líka var milk stout. Hver veit nema við fáum enn einn magnaða mjólkur stoutinn á hátíðinni í ár?

IMG_7202

Smiðjan Brugghús

B&M hefur verið að fylgjast með fæðingu Smiðjunnar í Vík á síðasta ári og jafnvel lengur. Vonir stóðu til þess á síðustu bjórfest að fá að smakka frá þeim bjór en það náðist ekki því þau eru ekki enn farin að brugga sinn eigin bjór. Brugghúsið er hins vegar klárt og brewpöbbinn þeirra líka þar sem er hægt að gæða sér á ýmsu spennandi úr eldhúsinu og drekka bjór frá bestu brugghúsum landsisn af krana. Bjór & Matur þekkir annars lítið til þeirra Þórey og Svenna sem reka staðinn en við erum samt spennt að smakka bjórinn þeirra þegar þar að kemur. Það var mikill metnaður í póstum þeirra á instagram við tilurð brugghússins sem kveikti áhuga okkar á þeim. B&M stefnir á að heimsækja Smiðjuna á árinu en líklega verður fyrsti bjórinn frá þeim fyrst smakkaður á komandi Bjórhátíð. Við vonum svo sannarlega að þau standist væntingar.

Vífilfell og Ölgerðina þekkja allir og mun ég ekki fjalla frekar um þau hér

Álfur

Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekkert til þeirra nema að þeir virðast hafa byrjað að brugga á síðasta ári og að þeir eða réttara þau virðast hafa gaman af því að brugga bjór úr kartöflum! Hér má lesa umfjöllun um Álf á mbl.

IDE Bruggús

IDE hefur verið að brugga fyrir almennan markað síðan 2016 held ég. Þegar ég tók þá tali síðast fyrir ansi löngu síðan voru þeir farandsbruggarar, þ.e.a.s ekki með eigið brugghús heldur brugga hér og þar sem þeir fá inn eins og algengt er, t.d. hóf Mikkeller sinn feril þannig. Það eru 3 félagar sem standa þarna að baki og eins og algengt er hófst þetta allt í heimabruggi fyrir nokkrum árum síðan. Síðar unnu þeir til verðlauna í Bjórkeppni FÁGUnnar árið 2014, en undirritaður var einmitt dómari í þeirri keppni, einn af mörgum reyndar. Ég man eftir bjórnum svei mér þá, ylliblóma IPA. Þetta var þeim mikil hvatning og Brugghúsið var svo formlega stofnað 2016. Síðar gáfu þeir út sinn fyrsta bjór, nefnilega Vinur Vors og Ylliblóma , IPA með ylliblómum sem fékkst m.a. á Mikkeller & Friends, Skúla Craft Bar , Skál og víðar. Þetta var stórfínn IPA verð ég að segja. Ég hef þó lítið smakkað frá þeim eftir þetta. Það verður gaman að tékka á þeim á bjórhátíð og ná langþráðu spjalli við þá yfir góðum bjór.

20180223_183716.jpg
Af Bjórhátíð 2018

Lady Brewing

Lady er fyrsta og eina brugghús landsins sem rekið er af einungis konum, þeim Þóreyu Björku og Ragn­heiði Axel en eins og margir vita þá var bjórgerð til forna einungis í höndum kvenna þannig að þetta er dálítið back to the roots. Það er í raun ekki svo langt síðan karlar fóru að fikta við bjórgerð. Fyrsti bjórinn frá Lady, First Lady var virkilega flottur, heiðarlegur IPA, ekkert grugg, ekkert frútt, bara humlaður vel jafnvægisstilltur gamaldags amerískur IPA. Ég hef smakkað nokkra bjóra frá þeim stöllum, allt flottir bjórar en ég verð að segja, First Lady er sá besti. Reyndar verður það að segjast að nýlega hef ég lítið verið að skoða bjórinn frá þeim…það er bara svo mikið að gerast að maður nær ekki yfir þetta allt. Það er einmitt þess vegna sem bjórhátíðar eru svo sniðugar. Lady er líkt og IDE, sígunabrugg og síðast þegar ég vissi brugguðu þær bjór sinn hjá Ægi Brugghús.

Mono

Mono er eitt ef þessum nýju bruggsmiðjum frá 2018 og þeir voru með á síðustu bjórhátíð en eftir það hefur lítið til þeirra spurst. 2/3 þeirra Maggi og Villi eru hins vegar á fullu að ferja í okkur bjór á Session Craft Bar sem þeir eiga og reka. Það verður vonandi meira að frétta frá þeim á þessu ári en eitt er víst, þessir menn kunna bjór, þeir eru bjórnördar í húð og hár og þess vegna viljum við smakka meira frá þeim. Byrjum á Bjórfest 2019!

Og Natura

Bj&M hefur lítið skoðað Og Natura en þeir eru eitt af mörgum nýju bjórgerðum landsins. Þeir gefa sig út fyrir að brugga bjór úr íslenskum hráefnum á borð við krækiber og bláber. Þeir gera reyndar líka vín og allt á eins náttúrlegan máta og hægt er. Erum við kannski komin hér með fyrstu náttúruvíngerð landsins? Pæling. Fyrsti bjór þeirra er Liljar Már 6.5% bláberja öl sem hægt er að nálgast í Vínbúðunum. Þetta er líklega eitt forvitnilegasta brugghús Íslands um þessar myndir myndi ég segja. Skoðumetta!

20190124_205907-01.jpeg

Ægir Brugghús

Ægir Brugghús út á Granda hefur verið í gangi núna í ein tvö eða þrjú ár en þar á bæ er það Óli Þorvaldz sem ræður ríkjum. Óli er mikill öðlings piltur og þægilegur heim að sækja, hann lofar meira að segja hinum og þessum að brugga hjá sér bjór og það hafa nokkur íslensk brugghús nýtt sér ss Lady, KEX Brewing ofl. Ægir er eitt af þeim brugghúsum sem B&M ætlar að taka vel út á þessu ári en við höfum gert allt of lítið af því að prófa bjórinn þeirra til þessa. Óli gaf okkur um jólin þessa mögnuðu flösku (sjá mynd) af bjór sem ber nafnið Hó Hó Hólísjitt sem glöggir menn átta sig á að er jólabjór. Bjórinn er um 8.8% tunnuþroskaður imperial brown ale með kakónibbum og appelsínum, þorskaður í 9 mán. á Woodford Reserve bourbun ámum og var tappað á flöskur í afar, afar takmörkuðu upplagi og ef marka má miðann var flaskan okkar númer 21 af 60! Þessi bjór er eins geggjaður og hann hljómar, jább svona er það bara.

KEX Brewing

KEX Brewing verður líka á staðnum í einhverri mynd en segja má að þeir séu í raun gestgjafarnir á bjórhátíð. Hinni hjá KEX Brewing var síðast þegar ég spjallaði við hann ekki búinn að negla neitt niður en hver veit hvað þeir lauma á krana fyrir okkur á hátíðinni. Þeir hafa jú verið að brugga bjór með hinum og þessum brugghúsum um alla veröld allt síðasta ár. Ég er persónulega spenntur fyrir samstarfi þeirra og Black Project sem er eitt af mörgum erlendum brugghúsum á hátíðinni í ár.

Það er svo bara um að gera að mæta, smakka bjór og ræða við höfunda þeirra á meðan. Maður lærir heilmarkt nýtt þannig og upplifuninn verður allt önnur. Sjáumst!

Sumir kjúklingar eru betri en aðrir, Massaður Kjúklingur er bestur!!!

Veður hefur verið vægast sagt ógeðslegt hér á Fróni í allt sumar, allt sumar sko en þá er gott að hafa góða menn sem gera handa manni góðan bjór.  Að undanförnu hafa sérstaklega tvö brugghús hér heima séð um að hjálpa okkur að gleyma viðbjóðnum fyrir utan gluggana okkar með frábærum bjór sem er algjörlega í takt við tíðarandann, sem sagt skýjaður en ofsalega ferskur og safaríkur bjór.  Við erum að auðvitað að tala um Borg Brugghús og Malbygg sem hafa verið skýjum ofar undanfarið og raðað út New England IPA eins og enginn sé morgundagurinn.  Úff þvílíkur orðaleikur.

Síðustu NEIPA bjórar frá Borg hafa verið framúrskarandi og allt frá upphafi hefur Malbygg verið að gera betri og betri bjór.  Sá nýjasti frá Malbygg, sem var bara að fara á dósir ÁÐAN, heitir Massaður Kjúklingur og er 8% double New England IPA með haug og helling af humlum, Citra, Mosaic og svo Columbus held ég, þurrhumlaður fjórum sinnum takk fyrir.  Bjórinn kemur í dósir í vínbúðir vonandi strax eftir helgi en eitthvað fyrr á  dælur á næsta bar.  Vá hvað þetta er gott, það besta frá Malbygg til þessa að mínu mati.IMG_7567-01.jpeg

Malbygg mættir til leiks!

Malbygg er eitt af þessum nýju íslensku brugghúsum sem eru að hefja göngu sína um þessar mundir.  Þeir áttu góðan leik á nýafstaðinni Bjórhátíð á Kex þar sem þeir frumsýndu bjór sinn sem kom bara helvíti vel út, eitthvað er enn hægt að fá af þessum bjór á bestu bjórbörum borgarinnar.  En nú eru þessir þremenningar, Andri, Ingi og Bergur sem sagt komnir á fullt til að gleðja okkur hin og það besta við þetta er að þessir menn bæði kunna að brugga bjór og þeir eru með svipaðan smekk og ég á bjór.  Þetta er borðleggjandi.

Ég tók púlsinn á þeim í dag og leit við í brugghúsið þeirra í Skútuvoginum.  Þeir félagar voru í óða önn að ljúka við að brugga einhverjar nýjar kræsingar þegar ég bankaði uppá.  Ég fékk svo að smakka aðeins það sem væntanlegt er frá þeim, sumt bara alveg á næstu dögum.  Til að byrja með eru þeir langt komnir með ljúfan session IPA (4.7%), SOPI,  sem þurrhumlaður er með Citra og svo Mosaic humlum og ögn Colombus.   Ég smakkaði þennan ljúfling ókolsýrðan og það átti eftir að þurrhumla með Mosaic en hann var ansi nettur og lofar virkilega góðu.  Þessi á eftir að slá í gegn held ég en hans er að vænta Á DÓS í Vínbúðirnar bara líklega í næstu viku eða svo.  Mikið hlakka ég til.  Tókuð þið eftir, Á DÓS? Já og var ég búinn að minnast á að allt IPA stöffið frá Malbygg er í raun New England style IPA (NE IPA) þó þeir séu ekkert sérstaklega að upphrópa það á vörum sínum.  Ég fékk að sjá merkimiðana sem eru að koma og þeir koma sko þrusu vel út.  Hlakka til að fá að sýna ykkur hér á næstu dögum.

IMG_7247Ég fékk líka að smakka frábæran DIPA (ca 8%), sem mun heitra GUTLARI, hann er í raun tilbúinn en þeir eru bara að bíða eftir hárrétta augnablikinu til að henda honum á kúta og svo beint á barina, líklega bara um helgina.  Svakalega flottur NEIPA með Citra og Mosaic.  Svo kúrir þarna hjá þeim Galaxy IPA sem er dálítið óþroskaður enn sem komið er.  Hann lofaði góðu en þó lítið að marka svona flatur og óþroskaður.  Þessi mun líka fara á dósir veiiii!

Loks er virkilega spennandi imperial stout í gerjun hjá þeim sem er afrakstur samstarfsbruggunar með Cycle Brewing og KEX Brewing, en þeir félagar skelltu í þessa lögun nú á dögunum þegar Bjórfest stóð sem hæst.  Cycle er 5. besta brugghús veraldar skv Ratebeer um þessar mundir.  Virkilega spennandi amerískt brugghús sem gerir „killer“ imperial stout og porter bjóra. KEX Brewing er svo með betri brugghúsum landsins um þessar mundir sem hefur bruggað með ótal stórlöxum í bruggheiminum.  Þessi samstarfs stout, BREWHAHA, er virkilega flottur, líklega ein 13% en hann mun svo fara á einhverjar spennandi tunnur skilst mér á næstu vikum.  Spennandi!

Malbygg, góðar fréttir fyrir bjórunnendur

2018 mun verða ár mikilla breytinga í bjórlandslagi Íslands það er öruggt, því nokkrar nýjar og mjög svo spennandi bjórsmiðjur munu hefja framleiðslu á komandi mánuðum.  Malbygg er eitt af þeim og vert er að hafa sérstaklega vakandi augu með þeim því þar eru við stjörnvölin bórunnendur af líf og sál og miklir reynsluboltar í bjórheiminum.  Það eru þeir bræður Andri og Ingi, sem við þekkjum best sem kátu bjórnördana hjá Járn og Gler, en þeir eiga ríkan þátt í bættri bjórmenningu okkar Íslendinga síðustu árin með innfluttningi á heimsklassa „craft“ bjór.  Með þeim í þessu er svo bruggmeistarinn Bergur, gaurinn sem kom Bryggjunni Brugghús á koppinn ekki alls fyrir löngu þar sem hann færði okkur vandaðan og elegant bjór af ýmsum toga.  Þetta trio er að mínu mati fullkomið hráefni í frábæran bjór og ég er sannfærður um að það á bara eftir að koma geggjað stöff frá þeim.

20180115_132357Brugghús hefja oft göngu sína og hverfa svo á braut án þess að nokkur maður muni eftir þeim, (sjáum t.d. Ölgerð Reykjavíkur 2008), enda engin metnaður í gangi, menn fókusera nefnilega of oft á að brugga eitthvað ákveðið fyrir fjöldann, eitthvað sem þeir vita að ganga td í ferðamennina ofl.  Eitthvað bragðlaust sull sem hægt er að selja sem „alvöru íslenskan“ bjór.  Ég veit að Malbygg trioið er ekki á þessum buxunum, þegar menn fara að bugga bjór af líf og sál þá er afraksturinn litaður af því, einfaldlega góður og spennandi.   Malbygg mun fókusera á IPA, hazy NEIPA, imperial stout og tunnuþroskaðan súrbjór, og verður með þetta á kútum helst en einnig eru þeir með flotta dósapökkunarvél.

Þegar ég ræddi við þá félaga á dögunum voru þeir langt komnir með uppsetninguna og leyfi og þess háttar.  Vonir standa til að hefja framleiðslu á næstu mánuðum en það verður hægt að sjá frumsýningu á bjór þeirra á komandi Bjórhátíð á KEX í febrúar og hvet ég ykkur til að kaupa miða og smakka þetta hjá þeim.