Bakkelsisbjór/salgætisbjór, hvað er í boði um þessar mundir?

Ég hef áður skrifað hér um bakkelsisbjór eða það sem kallast pastry beer á erlendri tungu. Oftast heyrir maður þetta í tengslum við stout sem sé, pastry stout, en nú orðið eru menn farnir að leika sér með fleiri stíla þannig að pastry beer eða bakkelsisbjór gengur bara vel sem orð yfir þetta. Salgætisbjór gæti líka gengið eða hvað? Þegar ég fjallaði um þetta fyrirbæri fyrir ári síðan voru menn að byrja að leika sér með þetta hér heima. Nú eru menn komnir meira á flug og ég fagna því sérstaklega því ég er ofsalega hrifinn af þessum stíl ef stíl má kalla.

Sumir nota þetta orð yfir bjór sem bruggaður er með einhverju sætabrauði ss snúðum, kleinuhringjum, vínarbrauði eða álíka sem þá er sett í annað hvort í meskingu eða eftir gerjun, já eða jafnvel í suðuna sjálfa.  Aðrir tala um bakkelsisbjór ef bjórinn líkist bakkelsi eða sætum eftirréttum og er hann þá bragðbættur með einhverju ss súkkulaði, hnetusmjöri, vanillu, sykurpúðum eða hvað það kann að vera.  Svo eru sumir sem bara þola ekki þetta hugtak en það sem fer fyrir brjóstið á þeim eru allar þessar viðbætur (adjuncts) og þeir vilja meina að svona drykki sé ekki hægt að flokka sem bjór.  Hvenær hættir bjór þá að vera bjór annars?  Ef hann er gerður úr vatni, byggi, humlum og geri þá er það bjór, sama hvað menn reyna að segja, punktur.  Það má til gamans benda á að hér áður var ekki notast við humla í bjórgerð, humlar í bjór er tiltölulega nýtt fyrirbæri, eða þannig en tilkoma humlanna hefur umbylt bjórnum og gert hann mun meira aðlaðandi og drekkanlegri.

Ef maður vill vera að flækja þetta er spurning hvar maður setur mörkin, við getum þá kannski talað um alvröu bakkelsisbjór og svo bragðbættann bjór eða adjunct beer? Þá er ég að meina að bragðbættur bjór er bjór sem er bragðbættur þ.e.a.s. allt sem er bætt í bjór annað en ger, vatn, humlar,korn og gerjanleg sterkja, en það er komin dálítið löng hefð fyrir að nota í bjór t.d. kaffibaunir, súkkulaði, appelsínubörk, kóríander og viðlíka. Ég nefni sem dæmi Hoegaarden hveitibjórinn sem er svo sannarlega ekki nýr af nálinni og inniheldur kóríander og appelsínubörk. Alvöru bakkelsisbjór væri þá bjór þar sem menn nota t.d. snúða, vínarbrauð kókosbollur, kleinuhringi, vanillustangir, konfektmola eða hin ýmsu síróp til að kalla fram bragð eins og hnetusmjör,kókos og annað gúmmilaði. ‘

En þetta er kannski óþarfa flækjustig, stíllinn er svo sem ekki skilgreindur að mínu viti og því er kannski bakkelsisbjór fyrir mér eitthvað annað en fyrir þér. Þegar ég tala um bakkelsisbjór þá er það bjór sem bæði minnir mig á eitthvað sætabrauð eða bakkelsi og er bragðbættur með einhverju sem ekki er gerjanlegt.

En tökum stöðuna hér heima í dag þegar aðeins nokkrir dagar eru til jóla það er nefnilega dálítið gaman í kringum jólin en það er svo sannarlega tími bakkelsisbjóra því menn setja alls konar krydd og krásir í bjórinn til að jóla bjórinn sinn upp.

Þegar þetta er ritað þá sit ég með minn uppáhalds bakkelsisbjór um þessar myndir, sá heitir Doppa og er imperial stout (10.5%) með hnetusmjöri og er frá Malbygg. Malbygg er eitt af mínum uppáhalds íslensku brugghúsum en þeir virðast bara gera góðan bjór. Þessi bjór er alveg magnaður og fyrir mína parta er hann fyllilega gjaldgengur sem jólabjór, hnetukeimurinn er alls ráðandi ofan á sætan undirtón og rist. Hér er maður kominn dálítið í hunangsristaðar möndlur fílinginn svei mér þá. Malbygg gerir reyndar jóla bakkelsisbjór fyrir þessi jól sem heitir hnetubrjótur og er mildur herslihnetu mjólkur stout og er afar vel lukkaður sem slíkur. Aftur þarna þessi hnetu jólakeimur. En fyrst við erum komin í jólin, þá eru nokkrir jólabjórar sem tilheyra flokki bakkelsisbjóra að mínu mati.

  • Gluggagægir (9%) frá Borg er nýjasti jólbabjórinn þeirra í ár og er alveg frábær ef maður er fyrir svona gúmmilaði bjór. Við erum að tala hér um Lemon Cake DIPA, sem sagt bjór sem er ofsalega ferskur og svalandi og með áberandi sítrónu og vanillukeim. Eins og sítrónu ostakaka. Magnað.
  • Jóla Jóra (9.2%) frá Ölvisholti er svakalegur. Við erum að tala um gömlu góðu lagkökuna hennar ömmu í flösku. Hér erum við með imperial stout kryddaður með vanillu, negul, kanil og allra handa. Svo sem ekki óalgegn krydd í jólabjór en það er hér bragðið sem minnir svakalega á lagkökuna sem gerir þennan bjór að bakkelsisbjór fyrir mér.
  • Choc Ho Ho 2020 (4.7%) frá Smiðjunni í Vík. Choc Ho Ho er léttur mjólkur stout með hnetusmjöri. Hann er furðulega þéttur og flottur mv styrk og hnetusmjörið er mjög áberandi. Virkilega þægilegur jólabjór.
  • Eitthvað fallegt (5%) frá RVK Brewing company. Þessi var í miklu uppáhaldi hjá mér í fyrra, við erum að tala um eins mikinn bakkelsisbjór og þeir gerast þarna úti. Í grunninn sennilega IPA eða Pale Ale en svo sjóða menn heilt jólatré í þennan bjór. Að auki er bætt í Machintosh molum, mandarínum og smákökum. Mjög jólalegur bjór svo ekki sé meira sagt.
  • Ris A La Sour Gose (5) er látlaus súrbjór eða gose frá Smiðjunni. Hugmyndin er bjór sem minnir á eftirréttinn Ris a La Mande. Bjórinn er ofsalega fínn og minnir mikið á réttinn. Þessi verður flottur sem dressing á grautinn á aðfangadag.

Það eru eflaust fleiri jólabjórar sem flokka má sem bakkelsisbjór en ég hef ekki smakkað þá alla svo sem. Svo er ég ekki að taka hér með bjór sem er bara bragðbættur með negul, kanill eða álíka jólakryddum, svoleiðis bjór flokka ég einfaldlega sem jólabjór!

En það eru sannarlega fleiri íslenskir bakkelsisbjórar á markaðinum. Hér læt ég þá flakka ekki í nenni sérstakri röð. Ath þetta er alls ekki tæmandi list. Ég er líklega að gleyma einhverjum….það er þá spurning hvað það segir um þá bjóra?

  • Bjössi Bolla (11%) frá Malbygg er frábær fyrir sælkera. Hér erum við með rosalegan imperial stout sem bruggaður er með kókosbollum. Þróttmikill en svakalega sætur á tungu. Alls ekki fyrir alla en sannarlega fyrir mig. Maður drekkur einn svona í mesta lagi á kvöldi. Hálfur er reyndar passlegt. Svo er reyndar til spariútgáfa af þessum líka, sem er látinn þroskast á kókos/romm tunnum, hann er svakalegur.
  • Kaffibolla (11%) er svo mögnuð útgáfa af Bjössa Bollu en hann er bruggaður með súkkulaði, kaffi og kókosbollu. Þessi er svakalega ljúfur, sætur með beisku kaffi í bland. Fæst eins og staðan er í svakalega litlu magni í Vínbúðinni.
  • Co & Co (10.1%) er með þeim fyrstu hér á landi í flokki bakkelsisbjóra og er frá RVK Brewing company. Ég er ekki að segja sá fyrsti en með þeim fyrstu. Þessi er russian imperial stout bruggaður með snúðum frá Brauð & Co. Svo hefur hann komið í lúxus útgáfu þar sem hann fær að liggja á bourbon tunnu. Vonandi kemur það gotterí aftur. Magnaður bjór. Já og ef þið komist í að prófa hann á nitrokrana í bruggstofunni hjá RVK brewing þá er það mögnuð upplifun.
  • Morning Glory (7%) er svo annar skemmtilegur. Þetta er nettur imperial milk stout frá RVK Brewing. Þetta er sannkallaður bakkelsisbjór sem sameinar allt það besta í morgunmat, Cocoa Puffs, nýmalað kaffi, pönnukökur og hlynsíróp og svo meira að segja smá bacon líka. Allt er þetta notað í bjórinn. Fullkominn morgunmatur á laugardagsmorgni, ef maður er ekki á leið í vinnu.
  • Embla (9.2%) er nýjasti bakkelsisbjórinn og er vetrarbjór sem kemur frá Borg. Þetta er magnaður bjór og er þegar kominn í topp 3 yfir bestu bakkelsisbjóra Íslands hjá mér. Frábær imperial porter með sykurpúðum, hlynsírópi og appelsínum. Bjórinn er í senn mildur og léttur en mjög mikill og djúsí.
  • Askur (11.6%) kom á sama tíma og Embla, þessi er nokkuð þróttmeiri en Embla enda 11% imperial stout. Hér erum við enn með sykurpúða og hlynsíróp en engar appelsínur. Flottur bjór en mér finnst appelísnan koma svo svakalega vel í gegn í Emblu.
  • Surtur (x%) ég get í raun ekki klárað þessa yfirferð nema nefna Surt bjórana frá Borg á nafn. Þeir eru alls ekki allir bakkelsisbjór en oft er inn á milli að finna bjór með einhverju gúmmilaði. Surtur 61 í fyrra var t.d. með  Gunnars kleinuhringjum og hlynsýrópi  í ríkulegu magni og svo látinn eldast á bourbon tunnum og rúg whiskey tunnum  í einhverja mánuði.

En já, látum staðar numið hér, endilega sendið á mig ábendingu ef ég er að gleyma uppáhalds bakkelsisbjórnum ykkar hér og ég get þá bara bætt þeim við!

Geggjaður Ribeye Sælkeraborgari, með pækluðum rauðlauk, púrtvíns sveppum, chipotle mayo ofl.

Ég er fyrir löngu kominn með leið á heimagerðum hamborgara, hann verður alltaf einhvern veginn einsm, sama heimabragðið.  Líklega er maður bara alltaf með sama eða svipað álegg. Ég hef reyndar stundum dottið niður á eitthvað alveg spes og ljúffengt en gleymi alltaf hvað ég gerði.  Í kvöld var svona dagur sem enginn nennti að elda neitt sérstakt og við vorum alls ekki í stuði fyrir eitthvað heimsent.  Það varð úr að gera hamborgara og ég verð að segja að útkoman var frábær.  Hrikalega var þetta gott.

Við fórum í krónuna og hentum alls konar í körfuna og ég ætla að reyna hér að muna hvað það var.  Við ákváðum að kaupa ribeye steikarborgara sem fæst í Krónunni, við höfum gert hamborgara með þessu kjöti áður og vorum mjög ánægð.  Kvöldið áður vorum við með kjöt og ostaveislu og áttum því alls konar osta til að moða úr. Við ákváðum að prófa Guinnes cheddar og Castello Havarti Jalapeno en báðir þessir ostar eru ægilega góðir, fást í ostaborðinu í Hagkaup.  Guinnes osturinn inniheldur Guinnes bjór og maður finnur það vel í gegn, hrikalega gott, svo er Havarti osturinn dálítið spicy og rífur ögn í en í senn mjúkur og fullur.

Auk þessara osta vorum við með eftirfarandi álegg:

  • sneiddan Avocado
  • sneidd gúrka (gæti verið frábært að pækla hana)
  • kettasalat
  • heimagert chipotle mayo (sjá að neðan)
  • BBQ sósa Hamborgarafabrikkunnar, bragðbætt með reyktu paprikudufti og Sriracha sósu
  • rauð paprika,sneidd niður
  • tómatur stór og safaríkur, sneiddur niður
  • pæklaður hálfur rauðlaukur (sjá að neðan)
  • smjörsteiktir sveppir með smá púrtvíni
  • pönnuristuð chorizopylsa
  • salt og pipar
  • smá sykur
  • rauðvínsedik
  • hamborgarabrauð Fabrikkunnar

Aðferðin

Þetta er svo sem sára sára einfalt.  Best að byrja á að pækla rauðlaukinn svo hann nái nú að verða pæklaður.  Skerið hálfan rauðlauk í eins þunnar sneiðar og þið getið án þess að skera ykkur.  Leggið í litla skál sem hægt er að loka.  ‘Eg mældi þetta svo sem ekki en ég sauð um 1 dl af vatni og 2 tsk sykur til að leysa upp sykurinn.  Svo hellti ég 2 dl af rauðvínsediki yfir laukinn og loks sykurvatninu.  Bætti nokkrum rauðum piparkornum saman við og lét svo standa þar til hamborgarinn var tilbúinn.

Svo er það Chipotle mayo, 4-5 msk majones, ca 2 tsk sriracha (fer eftir hversu sterkt þetta á að vera) og um 1 tsk reykt paprikuduft.  Hrært saman og sett í sprautuflösku.

BBQ sósan frá Hamborgarafabrikkunni er ofsalega góð en mig langaði í aðeins reyktari og meira spicy útgáfu og bætti því sriraca og reyktri papriku við. Ofsalega gott.

Svo er það bara að sneiða niður grænmetið, skola klettasalatið og gera allt klárt.

Sveppirnir eru steiktir í smjöri, miklu af smjöri.  Kryddað með Estragon, salt og rauðum pipar.  Ég notaði líka smá hvítlaukssalt og örlítið af reyktri papriku.  Í lokin bætti ég smá púrtvín á pönnuna og kláraði steikinguna.  Þetta gefur ofsalega ljúfan keim í sveppina.

Chorizo pylsa er góð fersk en mig langaði að fá stökka áferð og bragðmeiri.  Ég prófaði því að steikja sneiðarnar á pönnu þar til þær urðu stökkar. Ofsalega gott með.

Loks er að steikja hamborgarana, salt og pipar og leggja svo ostinn yfir þegar búið er að snúa kjötinnu einu sinni.

Pennslið svo neðri hluta af brauðinu með BBQ sósunni, raðið svo álegginu bara á, t.d. chorizo pylsu, papriku og tómat, svo kjötið, klettasalat og avocado, piklaði rauðlaukurinn og sveppirnir efst.  Sprautið svo fallega slatta af chipotle mayo yfir og lokið með efra brauðinu.

Berið fram með bökuðum frönskum t.d.  Geggjað gott.

wp-1580068082326.jpg

Ég átti svo til Þorrabjór frá Gæðingi en þessi bjór er að koma mér virkilega skemmtilega á óvart.  Um er að ræða 5% brown ale á bourbon eik.  Ofsalega þægilegur bjór, mjúkur með léttri karamellurist og svo notalegum eikar bourbon keim.  Frábær matarbjór og alveg smellpasaði með þessum hamborgara.  Maltið í bjórnum tengir svakalega vel við t.d. BBQ sósuna og brauðið, einnig fínt mótspil við sterku kryddunum í ostinum og chipotle mayo ofl.  Mér fannst líka þessi bourbon keimur koma vel út með kjötinu og púrtvínssveppunum.

Þetta er bjór sem ég mun kaupa núna yfir Þorra, vel gert Gæðingur!

 

Jólabjórhugleiðingar 2019

Ég hef oft verið tímanlegri í jólaskrifum en nú eru jólin bara rétt handan við hornið, ég hef greinilega verið og upptekinn af lífinu.  Jólabjórinn er farinn að flæða og sumt reyndar búið nú þegar í vínbúðunum sem mér finnst alltaf jafn sorglegt., t.d. Jólakisi frá Malbygg.  Jólabjórinn kemur svo snemma í verslanir og oft í svo litlu magni að hann klárast fyrir Desember mánuð.  Ég tók samt eftir því að margir lásu frá mér vangavelturnar um jólabjórinn frá 2018 núna fyrir þessi jól enda er mikið af því sama ár eftir ár í boði.  Ég er því kannski meira að skrifa þessar pælingar mínar núna fyrir næsta ár, 2020?

Í gegnum tíðina hef ég reynt að smakka allt sem í boði er hver jól en síðustu 2-3 ár hefur verið svo mikið í boði að ég hef bara ekki boðið lifrinni né buddunni uppá að smakka það allt. Enda er maður eiginlega hættur að vera spenntur fyrir jólabjór, þetta er meira eða minna frekar óspennandi hér heima því miður.  Það er þó eitthvað sem vert er að taka eftir. Reynslan hefur svo sem kennt mér ýmislegt og ég er farinn að vita hvað ber að forðast, hvað er forvitilegt og hvað er gott fyrirfram.  En það verður aldrei of oft sagt, smekkur manna er misjafn, sem betur fer og ætla ég því ekki að reyna að segja ykkur hvað ykkur finnst gott!

En hvað er jólabjór?  Ég hef oft velt þessu fyrir mér og varpað fram spurningunni og í raun ekki komist að einni ákv niðurstöðu, eitt er þó víst að jólabjór er ekki til sem skilgreindur bjórstíll heldur er þetta bara bjór sem menn framleiða sérstaklega fyrir hátíðarnar, ja eða fyrir Nóvember mánuð í sumum tilvikum (Jólakisi).   Jólabjór getur því verið alla vega og í raun getur enginn sagt til um hvernig hann á að vera eða bragðast.  Við hér á Bjór & Matur höfum hins vegar ákveðnar skoðanir á þessu málefni sem mig langar að fara aðeins yfir.

Jólabjórinn fyrir okkur á að vera dálítið sérstakur, ekki bara sami IPA bjórinn eða lagerinn með nýjum miða og nafni eins og oft er.  Ef við tökum þetta saman hér í nokkra flokka gæti þetta verið einhvern veginn svona:

  1. 20191201_164529-01.jpegJÓLALEGUR! Jólabjór getur verið bjór sem er sérlega „jólalegur“, þ.e. tengir mann einhvern veginn við jólin. Það er auðvitað persónubundið hvernig menn upplifa jól og jólalegt en fyrir okkur eru það jólakryddin eins og negull, kanill og stjörnuanis, og svo auðvitað minnir greni mikið á jólin líka. Reyktur keimur, mandarínur, súkkulaði er líka eitthvað sem vert er að nefna í þessu samhengi.  Ristaðar möndlur, hnetur og jafnvel kókos eins og í margfrægum Macintosh mola sem alltaf er hluti af jólum.  Eitthvað Fallegt frá RVK Brewing Co. er dæmi um svona jólalegan jólabjór enda bruggaður með greni, mandarínum og Macintosh svo eitthvað sé nefnt og það kemur meira að segja fram í bragði.  Við erum afar hrifinn af þessum bjór hér en þessi bjór er jólalegasti jólabjórinn í ár hvað þetta varðar.
    .
    Giljagaur (10%) frá Borg Brugghús er annað dæmi, hér eru engum sérstökum jólakryddum bætt í bjórinn heldur gefur gerið og humlar af sér bragð sem minna okkur á jólin.  Í nefi er eins og randabrjóstsykur og á tungu er notaleg sæta sem minnir á mandarínur og svo gefa humlarnir ákveðinn furunálakeim.  Giljagaur er einn af okkar uppáhalds jólabjórum síðustu ár.
    Loks vil ég nefna einn að jólabjórunum frá Steðja, ég er í raun lítið fyrir Steðja öllu jafna en þessi finnst mér skemmtilegur og minnir mig á lakkrístoppana sem Sigrún gerir fyrir jólin, Lakkrís Porter Almáttugur Jólaöl sem er 6% porter bragðbættur með lakkrís.

    IMG_20191117_221217_531.jpg

  2. SÉRSTAKUR! Jólabjór getur líka verið bjór sem aldrei er bruggaður á öðrum árstíma, eitthvað alveg sérstak og eftirsóknarvert frá viðkomandi brugghúsi sem aðeins fæst í kringum hátíðarnar. Það má líta á það sem eins og jólagjöf frá brugghúsinu til neytandans ár hvert. Í þessu tilviki þarf bjórinn ekki að vera sérstaklega „jólalegur“ en hann þarf þó að vera eitthvað spes, eitthvað sem maður fær ekki hjá öðrum brugghúsum á öðrum árstímum.  Hér heima veit ég ekki um neitt sérstakt dæmi, nema kannski Jólakisa frá Malbygg en það er bara af því að ég elska þennan bjór.  Hann er ekkert jólalegur en hann er bara svo hrikalega góður, humlaður í drasl með citra, mosaic ofl sem gerir hann djúsí eins og ávaxtasafa.  Að mínu mati það besta sem komið hefur frá Malbygg í flokki pale ale eða IPA.  Ég lít á þetta sem gjöf Malbyggs til okkar sem elska  New England IPA.  Í fyrra kláraðist hann það fljótt að ég náði bara einni dós, í ár var ég undirbúinn og náði í slatta en ekki nóg, enda hvenær er nóg komið af góðum bjór?
    .
    IMG_20191121_222329_158.jpg
    .
  3. VERMANDI! Vetur er yfirleitt kaldur árstími, amk okkar meginn á hnettinum, snjór og kósíheit helst. Á svona tímum vill maður ekki einhvern léttan lagerbjór, session IPA eða mildan blond, við viljum eitthvað öflugt og notalegt til að hita okkur upp með.  Jólabjór getur verið fyrir okkur bjór sem virkilega rífur í og bræðir allan snjó af líkama og sál svo sem barley wine, tripel, imperial stout, strong ale og hvað þetta heitir allt saman.
    .Myndaniðurstaða fyrir hibernation aleEinn af mínum uppáhalds jólabjór er t.d. Hibernation Ale frá Great Devide Brewing CO í Denver.  Þessi bjór er af gerðinni English Old Ale sem er stíll sem ég fæ afar sjaldan, hann er tæp 9% og með jólalegri merkimiðum sem fyrirfinnst.  Þetta er bjór sem maður opnar og nýtur í einrúmi eða með elskunni sinni helst á gæruskinni fyrir framan arineldinn (ATH fæst ekki hér heima).  Giljagaur kemur vel til greina í þessum flokki líka, hann er þó ekkert allt of þungur í munni en prósenturnar hefur hann og hann gefur af sér yl!  Gouden Carolus Christmas er belgískt sterköl (10,5%) sem er sannarelga vermandi og skemmtilegur.  Þetta er ekta kósíbjór sem gefur hita en er í senn nokkuð sætur, það er mild beiskja og svo stjörnuanis og ristað malt og jafnvel karamellu epli?  Þessi fíni jólabjór sómir sér í raun líka í flokki Jólalegur!
    .
    20191130_184740-01.jpeg
  4. MATARBJÓR! Jólin snúast um mat að miklu leiti, jólakræsingar af ýmsum toga, oft erum við með á borðum eitthvað sem við aldrei borðum nema í kringum jólin, hangikjöt t.d. rjúpur,kalkún, alls konar paté ofl. Jólabjór getur vel verið bjór sem er einkar vel til þess fallinn að drekka með þessum jólamat okkar, fullkominn matarbjór sem dregur fram eiginleika í matnum eða bætir við! Skemmtilegt dæmi er Skyrjarmur frá Borg en hér erum við með bláberja súrbjór sem kemur mjög vel út með villibráðinni og reykta kjötinu og kalkúnn steinliggur líka með þessum skemmtilega bjór.  Annar skemmtilegur matarbjór er nýji bjórinn frá RVK Brewing þetta árið, Eftir Sex en um er að ræða villigerjaðan amber sem í raun er í fínu jafnvægi og því ekkert sérlega súr því sætur er hann á móti og svo þetta skemmtilega villibragð eða „funk“ eins og það er kallað.  Þetta er léttur bjór sem kemur vel út með flestu sem við höfum á borðun um jólin.
    .
    Bock er svo bjórstíll sem er frábær með mat, það er mikil karamella og rist í honum og nokkur sæta á móti.  Bock er hins vegar ekki sérstaklega jóla, hann er algengur allt árið um kring og er mikið notaður sem páskabjór líka.
    .
    Ég vil líka nefna hér til sögunnar Lepp frá The Brothers  Brewery í Vestmannaeyjum  en hann er mjög skemmtilegur, svo kallaður mjólkur stout (milk stout) en slíkur bjór er jafnan með mikla mýkt og fyllingu en í þennan stíl nota menn laktósa eða mjólkursykur sem skapar þessa skemmtilegu mjólkurkenndu áferð. Í Lepp eru auk þess settir hafrar og hveitikorn sem gefa enn meiri fyllingu. Ofan á þetta er Leppur bruggaður með kaffi sem kemur vel fram í bragði eins og ristaðar kaffibaunir og svo er hellingur af súkkulaði sem menn ná fram úr maltaða bygginu. Þessi er t.d. flottur sem meðlæti með heimlagaða toblerone ísnum eftir matinn og ekki væri verra að nota bjórinn sem flot út á ísinn.

20191205_193017-01.jpeg

Systir hjá Dill Restaurant

Hér á síðunni tökum við stundum fyrir staði sem okkur finnast sérstaklega markverðir fyrir þær sakir að þar er hægt að fá framúrskarandi bjór og/eða náttúrúvín ásamt góðum mat. Þetta eru staðir sem okkur finnst frábært að koma á og við getum dekrað við öll skilningarvitin. Listinn okkar hér á B&M er ekki langur enda erum við bara mjög vandlát í þessum efnum.
Systir hjá Dill Restaurant er nýr staður hér í borg og okkur finnst hann eiga heima á listanum. Systir er þar sem gamli ónefndi pizzastaðurinn var við Hverfisgötu 12, fyrir ofan Dill Restaurant og fyrir neðan Mikkeller & Friends Reykjavík. Þið þekki flest staðinn, lítill en mjög heimilislegur og notalegur með geggjuðum pizzum. Nú er þessi staður allur en í staðinn er búið að lyfta staðnum aðeins upp og gera hann meira gourmet með tengingu við Dill. Hanastél og eðal vín virðast í forgrunni og svo er hægt að fá allan bjórinn sem í boði er að ofan frá Mikkeller & Friends og taka með niður sem fordrykk eða til að para með matnum að vild. Maturinn er settur saman og eldaður í Dill eldhúsinu á neðri hæðinni, Dill er auðvitað kapituli útaf fyrir sig en við ætlum ekki fjalla um hann frekar hér að þessu sinni en það verður samt sagt hér að hann verðskuldar svo sannarlega Michelin stjörnuna sína aftur.

Við Sigrún kíktum við á Systir fyrir nokkrum vikum í einn drykk eftir góða kvöldstund í bænum og vorum mjög ánægð. Kampavínsglasið var ofsalega gott og á frábæru verði, 2000kr og vel í látið. Hanastélin litu líka ofsalega vel út og greinilegt að það var fagmaður að verki á barnum. Matseðillinn lofaði góðu og við ákváðum því að koma aftur og skoða þetta betur sem við svo gerðum núna um helgina.

Matseðillinn á Systir er lítill en virðist vel skipulagður og úthugsaður. Þarna er eitthvað fyrir alla! Mér skilst líka að seðillinn taki breytingum annað slagið. Réttirnir eru skapaðir af kokkunum á Dill og eldaður þar í eldhúsinu undir vökulum augum Gunnars Karls matreiðslumeistara sem er kominn aftur heim eftir sigurför í New York borg þar sem hann ásamt teyminu á Agern lönduðu einni verðskuldaðri Michelin stjörnu hér um árið. Gunni er álíka hógvær og hann er snjall í eldhúsinu en ég leyfi mér að fullyrða hér að hann er dásamlegur kokkur og líklega einn af okkar bestu. Ég viðurkenni að ég hef smá „foodcrush“ á honum eftir að hafa upplifað matinn hans bæði á Dill og Agern í New York og svo núna á Systir.

20190717_194843.jpg

Það er fullkomið að byrja kvöldið á einum fordrykk, t.d. spennandi hanastél af barnum eða trítla upp á Mikkeller & Friends sem er einn af bestu bjórstöðum borgarinnar og næla sér ljúfan 9% Nelson Sauvin Brut Mango Passion súrbjór t.d. á meðan matseðillin er skoðaður. Þegar maður er á nýjum stað og þekkir ekki réttina er sniðugt að fara í smakkseðlana (tasting menu) ef slíkt er í boði því þá fær maður nasaþefinn af því sem menn eru að gera í eldhúsinu. Ekki er svo verra að taka vínpörunina (eða bjórpörun ef það er í boði) með ef maður treystir því að menn kunni sitt fag í þeim efnum. Það er nefnilega afar ánægjulegt að upplifa vandaða vín eða bjórpörun og fá þannig dálítið aðra og betri upplifun af réttunum.

Hafandi farið í gegnum bjórpörunina á Agern þegar Gunni réði þar ríkjum þá vissi ég að við værum í góðum málum hér. Við Sigrún fórum því í vínpörunina og sáum sko ekki eftir því. Hver réttur var bæði fallegur og vandaður og dálítið sérstakur. Þetta voru litlir en hæfilegir réttir, sem sagt minni útgáfur af réttunum ef þeir væru pantaðir stakir.

Við fórum samt frá borði nákvæmlega eins og maður vill fara frá svona borði, mettur en alls ekkert að springa. Maður vill svo ekkert fara frá svona borðum ef út í það er farið. Við eigum mjög erfitt með að tala hér um uppáhalds rétti eftir þetta kvöld en ef ég mætti bara panta einn rétt myndi ég taka gröfnu bleikjuna með fennel majo og engifer, þetta var svakalegt, reyndar myndi ég eiga erfitt með að panta ekki grísasíðuna sem var svo fáránlega mjúk og ljúf en þó stökk og mikil og í fullkomnu jafnvægi. Sigrún myndi panta sér þorskinn á kálbeði og helling af smjöri. Vínin með voru alveg „spot on“ og það leyndi sér ekki að þessar paranir voru alveg úthugsaðar. Við fengum freyðandi náttúruvín með fyrstu tveim réttunum og með þeim þriðja kom dásamlegt hvítvín. Nú er ég lítið fyrir hvítvín nema þau séu eitthvað spes og spennandi en ég get sagt ykkur að þetta vín, Isolano by Valdibella, var svakalegt og myndi ég kaupa það aftur og aftur og aftur ef ég gæti. Rauðvínið í lokin, Agape var líka frá Valdibella og álíka magnað og hvíta vínið en þetta vín steinlá með grísasíðunni, þvílík hamingja í munni. Við fengum svo ábót á það vín í lokin.

Þjónustan var vinaleg og heimilisleg en það er auðvelt að gleyma sér og gera meiri kröfur þegar maður er byrjaður að borða því maturinn er eitthvað sem maður gæti hafa fengið á Michelin stað. Systir er hins vegar ekki glerfínn Michelin staður, enda er það ekki meiningin, og því má ekki dæma hann sem slíkan þegar t.d. hnífapör gleymast með matnum, eða einn drykkurinn kom ekki á borðið. Í heildina var þetta stórkostlegt kvöld hjá okkur með nóg af spennandi verkefnum fyrir bragðlaukana. Við munum svo sannarlega koma þarna aftur bæði í ljúfan kvöldverð eða bara til að tilla okkur við barinn í smáréttina og drykki.

Takk fyrir okkur Systir!

Hin íslenska bjórhátíð 2019 tekin saman!

Ég hef komist að því í gegnum tíðina að það er nánast vonlaust að taka heila bjórhátíð saman svo vel sé. Maður gleymir alltaf einhverju og svo auðvitað missir maður af helling á svona hátíð.  Það er bara ekki hægt að smakka allt sem er í boði alla dagana.  Það eru 37+ brugghús með 2-3 bjóra hvert og alltaf nýjir bjórar á degi hverjum.  Vonlaust verkefni.   Ég reyndi því að vera duglegur að hlera bæði hjá gestum og bruggurum hvað stæði uppúr hvert kvöld og auðvitað smakkaði ég líka helling sjálfur, guð minn góður, í raun of mikið.  Það stendur uppúr hvað gæði bjórsins á þessari hátíð voru mikil, maður lenti sjaldan á vondum bjór þó svo að þeir hafi verið þarna inn á milli.  Það skal svo hafa í huga að venjulega mælir maður með því að smakkaðir séu max 6-8 bjórar hverju sinni, eftir það verður allt frekar svipað og erfitt að dæma.  Það segir sig sjálft að maður fer langt út fyrir þessi mörk á svona hátíð.  Spurningin er, er eitthvað að marka svona dóma?  Svo er það hitt, maður er með sinn uppáhalds stíl og það hefur áhrif ef maður dæmir öll brugghúsin út frá því, t.d. á flottur klassískur vandaður lager ekki séns ef þú drekkur bara imperial stout eða gallsúra villibjóra.  Þessa hátíð henti ég öllu svona út um gluggann og reyndi að prófa alls konar stíla með opnum hug.  Eins og staðan er í dag er það New England IPA sem heillar mig hvað mest sem og bakkelsis stout en ég er þó kominn með pínu leið á þessu.  Súrt er alltaf gott en ég fæ oft leið á þeim stíl samt líka.

20190221_172411.jpg

Alla vega, hér er einhvers konar samantekt.  Í stuttu máli, frábær bjórhátíð með frábærum brugghúsum sem stóðu sig öll með prýði.  Það neikvæða, bara til að klára þann pakka voru þrengsli og mannmergð, það var bara of mikið af fólki fyrir þennan stað.  En það var svo sem annað hvort Ægisgarður eða ekkert og við kjósum að sjálf sögðu Ægisgarð og þökkum Hinna, Óla og co fyrir að gera þetta að veruleika enn einu sinni.   Hitt sem truflaði mig var fjarlægðin, ég persónulega var rúmlega klukkutima að komast á áfangastað með strætó, þetta er í rassgati þarna á Granda!  Annað var það svo ekki, kannski of margir dagar?  Tveir dagar væru líklega meira en nóg.

Það er frábært að hafa eitthvað annað en bjór á svona hátíð, matarvagnarnir fyrir utan voru algjör snilld og í raun nauðsynlegt til að draga úr heilsuleysi næsta dag og ölvun ef út í það er farið.  Nasl eins og allir bjórlegnu ostarnir frá MS og svo sérvalda súkkulaðið frá Omnom sem hægt var að para við bjórinn voru líka kærkomin viðbót og við vonumst til þess að þetta verði áfram hefð á komandi hátíðum.  Tónlistin var vel til fundin þó svo að sumir kvörtuðu undan tónlistarstefnunni og hávaða.  Ég get reyndar tekið undir að á föstudeginum var plötusnúðurinn með allt of hátt stillt, maður gat ekki rætt við bruggara eða félaga um bjórinn fyrir hávaða en house/techno er svo sannarlega viðeigandi að mínu mati og ekkert undan því að kvarta.  Smekkur manna á tónlist er svo sem alltaf misjafn og algjörlega vonlaust að negla þetta.  Dagur 3 var betri hvað þetta varðar og held ég allir sáttir bara.  Svo var þarna húðflúrari sem tók að sér að skreyta fólk ef það vildi, pínu risky þegar ölvun er annars vegar en samt skemmtilegur valmöguleiki.  Ég er samt feginn að hafa ekki fengið einhverja flugu í haus fyrsta kvöldið en það vita það allir sem hittu mig að ég var í stuði fyrir alls konar!

IMG_8257

En ok, reynum að taka þetta saman.  Ég segi það bara strax í upphafi að ég smakkaði ekkert frá Stigbergets eða Garage brewing en bæði þessi brugghús voru á lista yfir þá bása sem ég ætlaði að mæta á öll kvöldin. Þegar ég skoðaði básana voru þeir bara ekki með bjór sem mig langaði að smakka, súrbjór t.d. vil ég fá frá þeim sem virkilega kunna til verka og þegar úrvalið er svona sturlað þá ákvað ég að eyða mínum prósentum í þessa stóru.  New England IPA er bjórinn sem ég þekki frá þessum brugghúsum en það var bara ekki í boði.  Ég lét líka To Öl og Mikkeller vera, það er svo sem ekkert nýtt þar á bæ í rauninni.  Þeir gera þó alltaf solid bjór, ekki misskilja mig, en ég skoða þessi brugghús á öðrum vettvangi.  Cloudwater voru svo vonbrygði hátíðarinnar eins og í fyrra að mínu mati.  Ég fann ekkert gott frá þeim.  Reyndar rokka þeir í IPA stílnum en það var svo sem lítið frá þeim í þessum stíl að þessu sinni, mér skilst þó að þeir hafi rúllað upp tap takover á Mikkeller & Friends.  Sem fyrr segir þá fór ég ekki í súrbjórinn þeirra en það var mikið af því í boði hjá þeim.  Heyrði heldur engan tala um þá á þessari hátíð.

En ok ég ætla að prófa að taka þetta saman með því að flokka þetta dálítið. Þannið að ég set þetta fram svona:

IMG_8277.JPG

Bestir í IPA á hátíðinni.   Hér eru það án efa amerísku brugghúsin, NYC brugghúsin voru öll að rúlla þessu upp bæði í hazy NEIPA sem og hefðbundum IPA stíl.  Ég smakkaði lítið frá Other Half en það er í miklu uppáhaldi, ég vissi bara að hverju ég myndi ganga þar og eyddi því magaplássi og ölvunarstigum í hin brugghúsin sem ég hafði ekki prófað áður.  KCBC stóð uppúr vegna þess að allt sem ég smakkaði frá þeim var geggjað, líka imperial stoutarnir þeirra.  Það sama má reyndar segja um Tired Hands sem voru með fullkomna IPA bjóra og Saison pour alla helgina, ekki einn einasti bjór frá þeim sem klikkaði.  Svo kom Aslin verulega á óvart, það var líka mikið talað um þá á hátíðinni og var þetta að margra mati besta brugghús hátíðarinnar.  Ég smakkaði alls ekki allt frá þeim en þeir áttu geggjaðan lactose súrbjór, fullkominn NEIPA og sturlaðan Imperial Stout sem ég smakkaði.

Ef við skoðum súrbjórinn þá voru ansi mörg brugghús með súrbjór sem hluta af sínu framlagi en aðeins nokkur sem nánast bara tefldu fram súrbjór eða wild ale.  Hér voru efst á blaði kunnugleg nöfn, De Garde og Black Project stóðu uppúr að mínu mati en það var misjafnt milli daga hvort þeirra var að standa sig betur.  Fonta Flora var að mínu mati alveg consistent alla hátíðina með sturlað stöff.  Þeir eru enn að flakka um landið þegar þetta er skrifað og lítil sæt fluga laumaði því að mér að þeir væru að brugga með Ölverk á næstunni!

20190223_175241-01-01.jpegHvað kom mest á óvart? Ég verð að segja að Brewhaha frá Malbygg var einn af þessum wow factorum, ég vissi að þetta myndi verða góður bjór enda Cycle brewing með puttana í þessu en bjórinn kom mun betur út en ég þorði að vona.  Svakalegur. Jinga Brewing Company frá Peking Kína kom mér líka verulega á óvart, þeir voru með alveg frábæran freyðandi hrísgrjóna súrbjór sem hefur verið þroskaður á „mulberries“ og döðlum.  Geggjaður bjór, What Abour Me?.   Freyðandi og frískandi með sætum undirtón frá berjum og döðlum en í senn sýrður með ögn edik keim.  Þetta var með skemmtilegustu bjórum hátíðarinnar að mínu mati.  Svo kom ég eiginlega sjálfum mér á óvart yfir því hve mikið ég var hrifinn af steinbock bjórnum frá Fonta Flora.  Ég er venjulega núll spenntur fyrir bock en þessi var ofsalega skemmtilegur.


Bestir í stout
voru nokkur bruggús eins og von var vísa, flestir geta jú gert góðan stout eða imperial stout. KCBC var með alveg magnað stöff, ég smakkaði 3 mismunandi frá þeim og myndvinnslan á merkimiðunum er sturluð, Brewhaha þurfum við ekki að ræða frekar, spot on.  Aslin var svo með líklega einn besta imperial stoutinn á hátíðinni, Mexican Hot Chocolate, 5 stjörnur!  Það skal tekið fram að maður fór í imperial stoutinn alltaf undir lokin en þá er maður dálítið sósaður orðinn og ekki alveg 100% að marka það sem maður er að upplifa.  En samt, þrátt fyrir það er ofanritað niðurstaðan.

Lagerinn að koma aftur?  Það voru nokkur brugghús með lager á hátíðinni sem er frábært, við þurfum að passa okkur að gleyma ekki klassískum elegant og vönduðum bjórstílum á borð við lagerinn.  B&M hefur ákveðið að dusta rykið af lagernum þetta árið og læra aftur að meta þennan flotta stíl.  Ég verð samt að segja að ég hoppaði ekki hæð mína yfir þessum lagerum sem ég smakkaði en þeir voru samt sumir hverjir helvíti ljúffengir.  Það ber þá helst að nefna lagerinn frá Ölverk sem var bara mjög „true to the style“ krispí og clean lager sem rann vel niður.  Ég var svo mjög hrifinn af Prayer Group frá Tired Hands, hann var mjög spes vægast sagt, hveiti lager bruggaður með þýsku pilsner malti og hveiti og svo gerjaður með lager geri.  Loks er bjórinn látinn liggja í 5 vikur á örlitlu magni af sítrónusafa, mjög skemmtilegt og nánast funky bragð. To Öl var líka með skemmtilegan Kölsch sem reyndar var DDH, sem sagt þurrhumlaður þannig að hann minnti dálítið á pale ale, pínu svindl.   Svo var það steinbockinn frá Fonta Flora auðvitað,en þetta var mjög skemmtilegur bock en þeir nota grjót úr grjótnámu skammt frá brugghúsinu og hita það yfir eldi og svo henda þeir grjótinu út í bjórinn og ná þannig upp suðunni eins og gert var í árdaga.  Bjórinn tekur vissulega í sig einhvern keim frá grjótinu.  Frábær bjór og þessi 8.5% voru algjörlega hulin.  Yuzu lagerinn frá RVK Brewing Co. var líka skemmtilegur en svo sem ekki beint klassískur lager.

20190221_174736.jpg

Íslensku Brugghúsin, ég verð bara að viðurkenna að ég smakkaði alls ekki allt á íslensku básunum, bara það sem menn voru að ræða sín á milli eða ef mér þótti eitthvað sérlega spennandi.  Ég lagði þetta fram fyrir sjálfan mig þannig að ég ætti meiri möguleika á að smakka íslenska bjórinn hér heima síðar á meðan mikið af þessum erlenda bjór er bara erfitt að komast í.  Af sömu ástæðu lét ég Other Half eiginlega alveg vera, sem og Mikkeller og To Öl.   Röng nálgun?  Ég veit ekki en svona var þetta hjá mér þetta árið.

Flest var samt vandað og gott sem ég smakkaði frá íslensku brugghúsunum.  Frá Malbygg var t.d. allt gott og flest allt sem ég hef áður smakkað, Brewhaha sló í gegn og svo voru þeir með skemmtilegan kiwi saison eða súrbjór sem var notalegur.  Það sem vakti athygli mína var svo brut IPA frá þeim en það er IPA þar sem gerið sem ég held að hafi verið kampavínsger er látið gerja sykurinn alveg úr bjórnum þannig að final gravity (sykurþéttnin) í bjórnum er 0 sem er sama og vatn.  Bjórinn var virkilega góður, kom mér á óvart, aðeins þurr en vel humlaður og þannig beiskur og fruity.  Þetta vil ég fá á dósir, ég meina þetta er fullkominn bjór fyrir Keto fólkið smbr búblukúrinn sem ég hef áður skrifað um.

20190221_172930.jpgÉg smakkaði annan brut IPA á þessari hátíð, sá var frá Smiðjunni Brugghús sem er glænýtt brugghús á Vík.  Þau voru á sinni fyrstu hátíð með fyrsta bjórinn sem kemur frá brugghúsinu þeirra, vel felst var nokkuð vel gert og ljúffengt til marks um frábæra byrjun.  Brut IPAinn þeirra var góður en kannski ögn of sætur sem er skrítið þar sem final gravity er 0.  B&M mun fylgjast áfram vel með þessu nýja brugghúsi.

Borg Brugghús kom mér lítið á óvart, allt gott frá þeim nánast og allt sem ég hef smakkað áður nema sambrugg þeirra með Ölverk sem var mjög næs.   Svo var gaman af yuzu línunni frá RVK Brewing Co. en ég smakkaði lítið annað þar.  Ölverk var sem fyrr segir með skemmtilegan lager og svo var þarna DIPA sem kom helvíti vel út, þurr og magnaður.  Ég var líka virkilega ánægður með bláberja súrbjórinn hjá Brothers Brewing.  Loks verð ég að nefna krækiberjabjórinn frá Og Natura en þeir gera vín og bjór sem nánast má kalla náttúruvín.  Krækiberjabjórinn er fáanlegur í Vínbúðunum og er alls ekkert svo galinn.  Vínið þeirra var líka skemmtilegt.  Endilega tékkið á þessu í næstu ferð í Vínbúðina.

En ég bara get ekki haft þetta lengra að sinni.  Ég er pottþétt að gleyma einhverju líka.  En nú er þessu lokið og við bíðum í ár eftir næstu hátíð.  Það er þó engin ástæða fyrir örvæntingu því íslensku brugghúsin okkar brugguðu helling af bjór með erlendu gestunum sem er væntanlega eitthvað sem við fáum að smakka hér heima á næstunni.   Þannig brugguðu RVK Brewing Co. með Braw og svo öllum NYC brugghúsunum, Borg bruggaði amk með KCBC (ég er viiiiirkilega spenntur) og Lamplighter, KEX Brewing og Ægir Brugghús gerðu bjór með Other Half, KCBC og Lamplighter svo eitthvað sé nefnt.  Og Malbygg léku sér með Dugges. Það er nóg að gerast sem sagt.

Paradísarfuglinn með Pekko humlum var að detta inn á barina!

Borg Brugghús heldur áfram með tilraunalínuna sína (T-línuna) og kemur hér með Paradísarfuglinn Nr T15, 5.2% Pale Ale af skýjuðu gerðinni.  Þetta  er helvíti skemmtilegur pale ale.  Fyrir það fyrsta er hann bruggaður með íslensku byggi eða bygg- yrki til að hafa þetta rétt. Bygg yrki þetta sem ber nafnið Kría, var ræktað í Noregi og svo maltað þar líka hjá  Bonsak gårdsmalteri .  Að auki erum við hér að fá að prófa alveg glænýjan humal hjá Borg sem kallast Pekko.  Pekko er amerískur humall sem kom fram á sjónarsviðið í kringum 2016 eða svo.  Nafnið er komið af einhverjum finnskum landbúnaðar Guði afhverju sem það nú er?  Líkt og svo algengt er með amerísku humlana þá er þessi nokkuð blómlegur og djúsí með suðrænum ávöxtum og sítrónugrasi skv lýsingum.  Við höfum aldrei smakkað þetta afbrygði áður hér á B&M og því skemmtilegt tækifæri að fá hann í bjór einan og sér en Paradísarfuglinn er „single hop“ bjór sem þýðir bara að það er einungis ein tegund af humlum í bjórnum og því fær hann að njóta sín til fulls.

Paradísarfuglinn er þægilegur, léttur með frískandi safaríkum humlum sem koma mjög vel út.  Kornið er dálítið erfitt að meta en það alla vega virkar helvíti vel hérna.   Þessi gaur var að lenda á sérvöldum börum borgarinnar fyrr í kvöld.  Tékkið á honum á meðan hann er ferskur.

One Love – Ommi Nr. 62

Surtarnir 2019 eru komnir í búðir og eru í nokkrum ólíkum útgáfum að vanda. Við erum að tala um þrjá mismunandi að þessu sinni, m.a. Surt 61 sem er frábær en verður líklega umdeildur bakkelsis stout og má lesa nánar um hann hér. Það sem er hins vegar öðruvísi þetta árið er að það er auka bjór með Surtunum að þessu sinni og er sá ekki Surtur heldur old school og heiðarlegur russian imperial stout með nafnið Ommi NR. 62.

Bjórstíll þessi einkennist af þrótt og þéttleika oft með keim af dökku súkkulaði, kaffi og dökkum þurrkuðum ávöxtum. Beiskja getur verið áberandi en þessi bjórstíll er jafnan nokkuð sætur á tungu en allt er þetta í góðu jafnvægi. Tengingin við Rússland er að stíllinn var fyrst bruggaður í Englandi fyrir Rússlands keisara fyrir ansi ansi mörgum árum síðan. En það er ekki það sem er merkilegt við Omma.

„einstakur og sögulegur bjór leyfi ég mér að segja“

Ommi NR. 62 er algjörlega einstakur og sögulegur bjór leyfi ég mér að segja fyrir þær sakir að hann er bruggaður til heiðurs og minningar um ljúfan og elskulegan karakter, Omma eða Ómar Friðleifsson sem féll frá á síðasta ári allt allt of snemma. Ég veit ekki til þess að íslenskt brugghús hafi áður bruggað bjór til minningar um fallna félaga sem segir ansi margt um hann Omma. Ég var svo lánsamur að kynnast Omma aðeins í tengslum við sameiginlegan áhuga á bjór og ljúfum stundum. Bjórinn var kynntur til leiks 25.1.19 á Session craft bar á sérstöku Omma kvöldi til heiðurs Ómari Friðleifssyni. Það var vel mætt og ljúf stemning og ég held að allir hafi verið mjög sáttir við þetta frábæra öl. Allur ágóði sölunnar á Omma rennur svo til Líknardeildar Landspítalans!

Ommi NR. 62 er skemmtilegur 9.1% bjór sem ekki bullar neitt í manni. Ekkert glys og glimmer, ekkert bakkelsi eða skýjahnoðrar heldur bara heiðarlegur gamaldags russian imperial stout sem kemur til dyranna nákvæmlega eins og hann er klæddur. Frábært að fá svona bjór sem togar mann aftur niður á jörðina og minnir mann á gömlu góðu bjórstílana sem maður féll fyrir hér á árum áður.

Ekki missa af þessum kæru vinir og takk fyrir fallegan bjór Borg Brugghús. Á flöskunni stendur…

„Lífið er dýrt, dauðinn þess borgun. Drekkum í kveld, iðrumst á morgun. – One Love.“

Þorrabjórinn 2019, Surtur 61 með súkkulaði-blóðmör!

Þorrinn 2019 er hinumegin við hornið með öllum þeim óbjóði sem honum fylgir, hins vegar er líka margt gott við Þorrann, við bóndarnir fáum blóm sumir hverjir og Surtsdagar ganga í garð en það er þá sem Surtinum frá Borg er sleppt lausum.  Ár hvert koma nokkrir nýjir Surtar frá  þeim, hver með sínu sniði en allir eru þeir af gerðinni imperial stout.  Einn ef þeim þetta árið er Surtur 61 sem er dálítið öðruvísi en flestir Surtarnir til þessa.  Hér erum við að tala um imperial stout,  sem einfaldlega er stout sem er nokkuð hár í áfengi, jafnan vel yfir 8%, getur farið upp í 15% eða hærra. Surtur 61 er 12.1%, já ekki gera lítið úr þessu 0,1% það telur.  Bjórstíll þessi einkennist af þrótt og þéttleika með keim af  dökku súkkulaði og ristuðu kaffi og getur verið ýmist nokkuð beiskur eins og hin ameríska túlkun en jafnan er hann nokkuð sætur á tungu og jafnast þetta þannig ágætlega út.

Surtur 61 er ekki bara imperial stout því hann er  bruggaður með Gunnars kleinuhringjum og hlynsýrópi  í ríkulegu magni og svo látinn eldast á bourbon tunnum og rúg whiskey tunnum  í einhverja mánuði en svona bjór getum við kallað „pastry stout“ eða einfaldlega bakkelsis bjór.  Oftast er um að ræða stout eða imperial stout eins og hér þó svo að aðrir grunnstílar komi vel til greina. Bakkelsis bjór er svo sem ekki til sem viðurkenndur stíll og ekki er til nein ein rétt túlkun á hvað flokkast sem bakkelsis bjór.  Sumir nota þetta orð yfir bjór sem bruggaður er með einhverju sætabrauði ss snúðum, kleinuhringjum, vínarbrauði eða álíka sem þá er sett í annað hvort við meskingu eða eftir gerjun, já eða jafnvel í suðuna sjálfa, reynið svo að fá uppúr Valla og Snorra (RVK Brewing) hvar í ferlinu þeir settu snúðana frá Brauð og co í Co & Co bjórinn sinn, lokuð bók en reyndar önnur saga!  Aðrir tala um bakkelsis bjór ef bjórinn líkist bakkelsi eða sætum eftirréttum og er hann þá bragðbættur með einhverju ss súkkulaði, hnetusmjöri, vanillu, sykurpúðum eða hvað það kann að vera.

„Bjórstíll“ þessi er orðinn dálítið áberandi erlendis en menn eru aðeins farnir að leika sér hér heima með þetta sem er mikið fagnaðarerendi (sjá nánar hér).  Bakkelsis bjór fellur hins vegar misvel í kramið hjá fólki, sumir einfaldlega hata þetta á meðan aðrir elska hann.  Svo allt þar á milli.  Sumir vilja meina að ekki sé um bjór að ræða sem að mínu mati er bara bull. Það sem fer fyrir brjóstið á mönnum eru allar þessar viðbætur (adjuncts) og þeir vilja meina að svona drykkir sé ekki hægt að flokka sem bjór en hvenær hættir bjór að vera bjór annars?  Ef hann er gerður úr vatni, byggi, humlum og geri þá er það bjór, sama hvað menn reyna að segja, punktur.  Það má til gamans benda á að hér áður var ekki notast við humla í bjórgerð, humlar í bjór er tiltölulega nýtt fyrirbæri, eða þannig en tilkoma humlanna hefur umbylt bjórnum og gert hann mun meira aðlaðandi og drekkanlegri.

En þetta er bara skemmtilegt, pastry bjór er amk valmöguleiki fyrir fólk sem vill salgæti á fljótandi formi og er ekki fast í fortíðinni.  Surtur 61 er skínandi dæmi um bakkelsis bjór en hann er þéttur og mikil og með mikla sætu.  Hér fer lítið fyrir ristuðu kaffi eða beiskju sem er í góðu lagi þegar maður veit út í hvað maður er að fara.  Konan mín elskar þennan bjór t.d.

Súkkulaði Blóðmör á Þorranum

En ok, BLÓÐMÖRIN!  Það er Þorri og þá borða menn vont, ég hata Þorramat, eitt af þessu vonda er slátur ekki satt?  Við ákváðum að reyna að bæta úr matarvenjum okkar á Þorranum og reiða fram súkkulaði „Þorra“ blóðmör af bestu sort og prófa að para við Surt 61.  Þetta kemur afskaplega vel út og gæti jafnvel orðið uppáhalds Þorramatur sumra með tímanum.   Mögulega er hér á ferð fyrsta  og eina súkkulaði blóðmör veraldar? Ég verð að viðurkenna það að í grunninn er þetta uppskrift frá Nigella Lawson, chocolate salami.  Ég gerði þetta fyrir jólin og gestir mínir töluðu allir um að þetta væri eins og slátur.  Ég ákvað því að endurgera þetta fyrir Þorrann og móta á annan hátt þannig að útkoman er blóðmör úr súkkulaði.  Mér finnst þetta koma vel út, ekkert voðalega lystugt að sjá en samt, hvað er lystugt á Þorra?

IMG_20190101_170727_584.jpg

Það sem þarf í þetta er:

  • 250 g gott súkkulaði, helst 70%, má vera suðusúkkulaði að hluta til.
  • 250 g  Bastogne Duo kex frá Lu
  • 100 g mjúkt ósaltað smjör
  • 150 g sykur (meðhöndlaður sjá að neðan)
  • 3 egg
  • 2 mtsk amaretto
  • 2 mtsk ósætt bökunar kakó
  • 75 g hýðislausar möndlur, gróft skornar
  • 75 g herslihnetur, gróft skornar
  • 50 g pistas hnetur gróft skornar

Aðferð:

Setjið vatn í pott, leggið hitaþolna skál yfir, ekki láta vatnið snerta skálina.  Komið upp suðu en alls ekki bullsjóða.  Bræðið svo súkkulaðið í skálinni.  Á meðan súkkulaðið bráðnar er fínt að gróf saxa allar hneturnar og mylja Bastogne kexið niður, ekki þannig að það verði að dufti samt.

Þegar súkkulaðið er bráðnað er skálin sett á kaldan stað, ekki þó í ískáp.  Því næst þurfum við að breyta strásykri í aðeins fíngerðari sykur.  Setjið sykurinn í matvinnsluvél og „malið“ sykurinn dálítið.  Hann verður fíngerðari og meira eins og „caster sugar“.

Setjið svo smjörið út í matvinnsluvélina, það þarf að vera dálítið mjúkt.  Maukið vel og færið yfir í hrærivél.  Setjið svo þeytara haus á vélina og þeytið létt, bætið eggjunum einu í einu saman við.  Svo bætið þið við Amaretto og blandið áfram.  Næst sigtið þið bökunarkakó saman við kælda súkkulaðið og blandið vel saman.  Þegar þetta er orðið falleg blanda þá hrærið þið þessu saman við eggjablönduna í hrærivélinni.

Þegar þið eruð komin með flotta mjúka blöndu þá  bætið þið hnetunum saman við og kexinu.  Hrærið vel saman þannig að allt sé þakið súkkulaði.  Hendið svo skálinni í ískáp í 30 mín.  Ekki lengur.  Setjið svo blönduna á matarfilmu og rúllið og mótið að vild.  Ef þið viljið fá þetta eins og blóðmör þá gerið þið nánast eins og kúlu, pakkið inn í plastfilmu og setjið í frysti.   Til að fá þetta blóðmörsútlið þá keypti ég blóðmör og klippti sauminn af og klessti á súkkulaði blóðmörina.  Passa bara að borða þetta ekki, þetta er bara fyrir myndina!  Geymið í frysti og takið út rétt áður en þetta er borið fram.  Njótið.!

Esja nr. 60, kaflaskipti í bjórgerð?

Við höfum séð mikið af IPA bjórum frá íslenskum brugghúsum undanfarin ár enda ekkert skritíð, IPA er líklega einn vinsælasti bjórstíll veraldar alla vega meðal bjórunnenda.  Borg hefur verið að gera mjög gott mót í þeim efnum undanfarið með sérdeilis ljúffengum New England IPA bjórum og er þá skemmst að minnast Áramótastaupsins sem kom bara út í fyrradag.  Nú hins vegar hefur brugghúsið brotið ákveðið blað í íslenskri bjórsögu með tilkomu Esju nr 60 (5.7%) sem er tilkomumikill villibjór eða wild ale svo kallað.  Esja er í grunninn líklega belgískur saison gerjaður með villigerjablöndu af belgískum toga og má þar nefna til sögunnar brettanomyces sem er líklega þekktasta villigerið.  Bjórinn hefur svo verið að þroskast í Chardonnay tunnum í nær 3 ár.  Villigerið gerir bjórinn dálítið sýrðan án þess að gera hann súran og svo er áberandi hið margslungna „funk“ frá m.a. brettanomyces gerinu sem stundum er kallað „brett keimur“ og er afar erfitt að lýsa með orðum.  Chardonnay tunnan gæðir bjórinn dálítið æðra flækjustigi og útkoman er með betri villibjórum sem maður hefur fengið í langan tíma og án efa það allra besta í þessum flokki hér heima fyrir.  Að gera bjór á svona háu stigi er alls ekki auðvelt og sýnir mikinn metnað og hæfileika bjórgerðarmanna, en það krefst mikils skilnings á hvernig villiger og önnur hráefni vinna saman og þroskast með tímanum, og ekki síst mikillar þolinmæði að enda með bjór 3 árum síðar sem er svona fágaður og í flottu jafnvægi.  Hér er ekkert of mikið af neinu, sætu, sýru, beiskju, kolsýru, brett eða hvað það kann nú að kallast.  Ég verð að viðurkenna að þegar ég heyrði af þessum bjór fyrst fyrir þremur árum þá var ég ekkert sérlega spenntur því ég er mjög vandlátur þegar kemur að villibjór og treysti ég yfirleitt engum nema Belgunum til að gera þetta rétt.  Ég ætla hins vegar á þessum fína aðfangadegi að éta það allt ofan í mig og ég verð að segja að fyrir mér þá er Borg með þessum bjór að sýna okkur að það er orðið fullorðið, alvörugefið brugghús á heimsklassa!

Jafnvel þó Borg gefi þennan bjór ekki út sem sérstakan áramótabjór þá myndi ég segja að hér sé alveg fullkominn áramótabjór á ferð.  Bjórinn kemur í fallegum 750ml flöskum með korktappa og vírneti eins og kampavín enda töluvert mikið af búblum og þrýstingur í honum.  Bjórinn er einnig dálítið súr og þurr eins og freyðivín og nógu mildur til að ganga með flestum mat.  Ég held að hann muni passa vel með fylltum kalkúni og með því en þannig verður það amk á okkar borðum hér.   Bjórinn kemur í búðir skilst mér á fimmtudag eða föstudag og í takmörkuðu upplagi, einar 1300 flöskur þannig að verið vakandi.

Gleðileg jól og áramót!

Ertu klár í Áramótastaupið í ár?

Undanfarið höfum við verið að sjá mikla fjölgun í flokki jólabjóra hér á markaði sem er mikið fagnaðarerendi enda er fjölbreytileikinn mikill þar sem finna má eitthvað gott fyrir alla.  Menn hafa svo líka verið að prófa sig áfram með áramótabjór hér heima og hefur þá mest farið fyrir Borg Brugghúsi sem hefur síðustu árin bruggað áramótabjór með einhverju af íslensku brugghúsunum.  Þetta árið eru það strákarnir í Malbygg sem láta ljós sitt skína með þeim Árna og co hjá Borg og útkoman er stórkostleg.  Malbygg hóf göngu sína í upphafi árs og hefur sko heldur betur stimplað sig inn enda er bjórinn frá þeim vandaður og úthugsaður og í sérlegu uppháldi B&M.  Borg hefur líka verið að slá í gegn hjá okkur þetta árið með endalausum safaríkum skýjabombum sem hafa hitt okkur beint í hjartastað þetta samstarfsbrugg er því í raun bara eðlilegt næsta skref ekki satt?  Áramótaskaupið er einmitt af gerðinni New England DIPA sem segja má að sé sérsvið þessara brugghúsa.  Hann er skýjaður og safaríkur með dásamlegum humlum og hamingju og skilur mann eftir agndofa.  Svo nota menn hunang í bjórinn en það fer þó lítið fyrir því í bragði en gerir samt dálítið fyrir áferðina.  Þetta er sko eitthvað sem menn verða að smakka og þá helst yfir áramótaskaupinu í ár.

Bjórinn ku vera kominn í vínbúðir!