Íslenskt á Bjórhátíð 2019

Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum sem rambar inn á Bjór & Matur að framundan er einn stærsti bjórviðburður ársins hér á fróni, en ef svo er þá má lesa nánar um komandi árlegu bjórhátíð á KEX hér. Ég hef einblínt dálítið á erlendu brugghúsin til þessa sem er svo sem ekkert undarlegt, það er erfitt að komast yfir bjór frá mörgum þeirra og því magnað að geta smakkað bjór frá þeim hér heima á klakanum og í raun algjörlega einstakt tækifæri í svona litlu samfélagi sem Ísland er. Það er hins vegar fjöldi af íslenskum brugghúsum á hátíðinni í ár og sum voru í fyrra líka. Mig langar að rúlla aðeins í gegnum þau hér.

Staðfest eru eftirfarandi, Borg Brugghús, Malbygg, RVK Brewing Co., The Brothers Brewery, Smiðjan Brugghús, IDE Brugghús, Lady Brewing, Álfur, Og Natura, Ægir Brugghús, Mono, Ölgerðin og Vífilfell. Það gætu auðvitað fleiri boðað komu sína áður fram líða stundir. KEX Brewing verður auðvitað á staðnum líka.

Borg Brugghús

Ég þarf ekki að fjalla mikið um þessa snillinga en þeir hafa verið að marg sanna sig síðustu ár með mögnuðum bjórum af ýmsum toga. Nú undanfarið hafa þeir fylgt tíðarandanum og fært okkur hverja safabombuna (NEIPA) á fætur annari en ég held að óhætt sé að segja að hinir skýjuðu New England IPA bjórar hafa verið gríðarlega vinsælir hér heima sem og erlendis síðustu misseri. En Borg kann sannarlega að brugga annað en NEIPA en þeir sýndu okkur það með skemmtilegu twisti í lok árs með frábærum bjór af gerðinni wild ale sem bar nafnið Esja og markar upphaf af súrbjóralínu vonandi frá þeim snillingum. Það verður spennandi að sjá hvað þeir tefla fram á bjórhátíð í ár.

Malbygg

Bergur, Andri og Ingi eru bjórperrar af líf og sál en þeir eru gaurarnir á bak við Malbygg. Ég hef fjallað um þá nokkrum sinnum áður og ætla ég ekki að skrifa hér einhverjar langlokur en hér má lesa nánar um Malbygg. Malbygg sem hóf göngu sína á síðasta ári hefur á sínum stutta líftíma stimplað sig rækilega inn í íslenska bjórmenningu með frábærum og aðgengilegum bjór og vil ég meina að hér sé eitt besta brugghús landsins um þessar mundir. Þessir guttar munu sko sannarlega mæta með gott á bjórhátíð. Fyrir þau ykkar sem ekki geta beðið þá hvet ég ykkur til að taka forskot á sæluna en þeir eru með alla vega 5 tegundir til sölu í vínbúðum landsins, ma Galaxy IPA sem er frábær um þessar mundir.

20180909_180933-01.jpeg

RVK Brewing Co.

Hér er enn eitt brugghúsið sem hóf göngu sína á síðasta ári og hefur verið að gera frábæra hluti á árinu. Það eru þeir Sigurður Snorra og Valli brugg sem sjá um að semja bjórinn sem menn geta notið í fyrstu formlegu bruggstofu borgarinnar. RVK Brewing hefur verið að gera alls konar skemmtilegt síðustu misserin, ss bakkelsisbjór með snúðum frá Brauð & Co, flippaðan morgunverðar stout með cocopuffs, höfrum, pönnukökum ofl og svo var jólabjórinn þeirra ansi jólalegur með heilu jólatré og með því í bruggferlinu. Já það er óhætt að segja að RVK Brewing sé bæði lifandi og skemmtilegt brugghús sem þorir að fara skrítnar leiðir. Það besta er að útkoman er oftast helvíti góð. Hvað fáum við að smakka á bjórfest? Mögulega tunnuþroskaða útgáfu af Co & Co? Reyndar þykir mér líklegt að það verði meira í súrum dúr hjá þeim í anda Þorrans.

The Brothers Brewery

Strákarnir frá Eyjum hafa verið að gera fína hluti síðustu ár. Lengi vel var erfitt að smakka nokkuð frá þeim nema í Eyjum en nú er bjórinn þeirra farinn að detta inn á bari borgarinnar hér og þar og á flöskur í vínbúðirnar. Bjórinn þeirra er þægilegur og aldrei neinar öfgar í neinu. Það besta frá Brothers til þessa að mati B&M var páskabjórinn þeirra í fyrra sem var alveg frábær mjólkur stout sem smellpassaði með páskaeggjum frá Hafliða súkkulaðikarli. Brothers virðast vera helvíti flinkir í þessum stíl því hinn bjórinn þeirra sem var í miklu uppáhaldi hjá okkur var jólabjórinn þeirra í ár, Leppur sem líka var milk stout. Hver veit nema við fáum enn einn magnaða mjólkur stoutinn á hátíðinni í ár?

IMG_7202

Smiðjan Brugghús

B&M hefur verið að fylgjast með fæðingu Smiðjunnar í Vík á síðasta ári og jafnvel lengur. Vonir stóðu til þess á síðustu bjórfest að fá að smakka frá þeim bjór en það náðist ekki því þau eru ekki enn farin að brugga sinn eigin bjór. Brugghúsið er hins vegar klárt og brewpöbbinn þeirra líka þar sem er hægt að gæða sér á ýmsu spennandi úr eldhúsinu og drekka bjór frá bestu brugghúsum landsisn af krana. Bjór & Matur þekkir annars lítið til þeirra Þórey og Svenna sem reka staðinn en við erum samt spennt að smakka bjórinn þeirra þegar þar að kemur. Það var mikill metnaður í póstum þeirra á instagram við tilurð brugghússins sem kveikti áhuga okkar á þeim. B&M stefnir á að heimsækja Smiðjuna á árinu en líklega verður fyrsti bjórinn frá þeim fyrst smakkaður á komandi Bjórhátíð. Við vonum svo sannarlega að þau standist væntingar.

Vífilfell og Ölgerðina þekkja allir og mun ég ekki fjalla frekar um þau hér

Álfur

Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekkert til þeirra nema að þeir virðast hafa byrjað að brugga á síðasta ári og að þeir eða réttara þau virðast hafa gaman af því að brugga bjór úr kartöflum! Hér má lesa umfjöllun um Álf á mbl.

IDE Bruggús

IDE hefur verið að brugga fyrir almennan markað síðan 2016 held ég. Þegar ég tók þá tali síðast fyrir ansi löngu síðan voru þeir farandsbruggarar, þ.e.a.s ekki með eigið brugghús heldur brugga hér og þar sem þeir fá inn eins og algengt er, t.d. hóf Mikkeller sinn feril þannig. Það eru 3 félagar sem standa þarna að baki og eins og algengt er hófst þetta allt í heimabruggi fyrir nokkrum árum síðan. Síðar unnu þeir til verðlauna í Bjórkeppni FÁGUnnar árið 2014, en undirritaður var einmitt dómari í þeirri keppni, einn af mörgum reyndar. Ég man eftir bjórnum svei mér þá, ylliblóma IPA. Þetta var þeim mikil hvatning og Brugghúsið var svo formlega stofnað 2016. Síðar gáfu þeir út sinn fyrsta bjór, nefnilega Vinur Vors og Ylliblóma , IPA með ylliblómum sem fékkst m.a. á Mikkeller & Friends, Skúla Craft Bar , Skál og víðar. Þetta var stórfínn IPA verð ég að segja. Ég hef þó lítið smakkað frá þeim eftir þetta. Það verður gaman að tékka á þeim á bjórhátíð og ná langþráðu spjalli við þá yfir góðum bjór.

20180223_183716.jpg
Af Bjórhátíð 2018

Lady Brewing

Lady er fyrsta og eina brugghús landsins sem rekið er af einungis konum, þeim Þóreyu Björku og Ragn­heiði Axel en eins og margir vita þá var bjórgerð til forna einungis í höndum kvenna þannig að þetta er dálítið back to the roots. Það er í raun ekki svo langt síðan karlar fóru að fikta við bjórgerð. Fyrsti bjórinn frá Lady, First Lady var virkilega flottur, heiðarlegur IPA, ekkert grugg, ekkert frútt, bara humlaður vel jafnvægisstilltur gamaldags amerískur IPA. Ég hef smakkað nokkra bjóra frá þeim stöllum, allt flottir bjórar en ég verð að segja, First Lady er sá besti. Reyndar verður það að segjast að nýlega hef ég lítið verið að skoða bjórinn frá þeim…það er bara svo mikið að gerast að maður nær ekki yfir þetta allt. Það er einmitt þess vegna sem bjórhátíðar eru svo sniðugar. Lady er líkt og IDE, sígunabrugg og síðast þegar ég vissi brugguðu þær bjór sinn hjá Ægi Brugghús.

Mono

Mono er eitt ef þessum nýju bruggsmiðjum frá 2018 og þeir voru með á síðustu bjórhátíð en eftir það hefur lítið til þeirra spurst. 2/3 þeirra Maggi og Villi eru hins vegar á fullu að ferja í okkur bjór á Session Craft Bar sem þeir eiga og reka. Það verður vonandi meira að frétta frá þeim á þessu ári en eitt er víst, þessir menn kunna bjór, þeir eru bjórnördar í húð og hár og þess vegna viljum við smakka meira frá þeim. Byrjum á Bjórfest 2019!

Og Natura

Bj&M hefur lítið skoðað Og Natura en þeir eru eitt af mörgum nýju bjórgerðum landsins. Þeir gefa sig út fyrir að brugga bjór úr íslenskum hráefnum á borð við krækiber og bláber. Þeir gera reyndar líka vín og allt á eins náttúrlegan máta og hægt er. Erum við kannski komin hér með fyrstu náttúruvíngerð landsins? Pæling. Fyrsti bjór þeirra er Liljar Már 6.5% bláberja öl sem hægt er að nálgast í Vínbúðunum. Þetta er líklega eitt forvitnilegasta brugghús Íslands um þessar myndir myndi ég segja. Skoðumetta!

20190124_205907-01.jpeg

Ægir Brugghús

Ægir Brugghús út á Granda hefur verið í gangi núna í ein tvö eða þrjú ár en þar á bæ er það Óli Þorvaldz sem ræður ríkjum. Óli er mikill öðlings piltur og þægilegur heim að sækja, hann lofar meira að segja hinum og þessum að brugga hjá sér bjór og það hafa nokkur íslensk brugghús nýtt sér ss Lady, KEX Brewing ofl. Ægir er eitt af þeim brugghúsum sem B&M ætlar að taka vel út á þessu ári en við höfum gert allt of lítið af því að prófa bjórinn þeirra til þessa. Óli gaf okkur um jólin þessa mögnuðu flösku (sjá mynd) af bjór sem ber nafnið Hó Hó Hólísjitt sem glöggir menn átta sig á að er jólabjór. Bjórinn er um 8.8% tunnuþroskaður imperial brown ale með kakónibbum og appelsínum, þorskaður í 9 mán. á Woodford Reserve bourbun ámum og var tappað á flöskur í afar, afar takmörkuðu upplagi og ef marka má miðann var flaskan okkar númer 21 af 60! Þessi bjór er eins geggjaður og hann hljómar, jább svona er það bara.

KEX Brewing

KEX Brewing verður líka á staðnum í einhverri mynd en segja má að þeir séu í raun gestgjafarnir á bjórhátíð. Hinni hjá KEX Brewing var síðast þegar ég spjallaði við hann ekki búinn að negla neitt niður en hver veit hvað þeir lauma á krana fyrir okkur á hátíðinni. Þeir hafa jú verið að brugga bjór með hinum og þessum brugghúsum um alla veröld allt síðasta ár. Ég er persónulega spenntur fyrir samstarfi þeirra og Black Project sem er eitt af mörgum erlendum brugghúsum á hátíðinni í ár.

Það er svo bara um að gera að mæta, smakka bjór og ræða við höfunda þeirra á meðan. Maður lærir heilmarkt nýtt þannig og upplifuninn verður allt önnur. Sjáumst!

Sumir kjúklingar eru betri en aðrir, Massaður Kjúklingur er bestur!!!

Veður hefur verið vægast sagt ógeðslegt hér á Fróni í allt sumar, allt sumar sko en þá er gott að hafa góða menn sem gera handa manni góðan bjór.  Að undanförnu hafa sérstaklega tvö brugghús hér heima séð um að hjálpa okkur að gleyma viðbjóðnum fyrir utan gluggana okkar með frábærum bjór sem er algjörlega í takt við tíðarandann, sem sagt skýjaður en ofsalega ferskur og safaríkur bjór.  Við erum að auðvitað að tala um Borg Brugghús og Malbygg sem hafa verið skýjum ofar undanfarið og raðað út New England IPA eins og enginn sé morgundagurinn.  Úff þvílíkur orðaleikur.

Síðustu NEIPA bjórar frá Borg hafa verið framúrskarandi og allt frá upphafi hefur Malbygg verið að gera betri og betri bjór.  Sá nýjasti frá Malbygg, sem var bara að fara á dósir ÁÐAN, heitir Massaður Kjúklingur og er 8% double New England IPA með haug og helling af humlum, Citra, Mosaic og svo Columbus held ég, þurrhumlaður fjórum sinnum takk fyrir.  Bjórinn kemur í dósir í vínbúðir vonandi strax eftir helgi en eitthvað fyrr á  dælur á næsta bar.  Vá hvað þetta er gott, það besta frá Malbygg til þessa að mínu mati.IMG_7567-01.jpeg

Það verður lágskýjað um helgina því geggjað Borg, Lamplighter, KEX collab er að lenda á börum borgarinnar.

BOREALIS BABY nr. C14 er 7% New England IPA frá ekki minni mönnum en Borg Brugghús, Lamplighter og KEX brewing.  Jább, C merkið stendur fyrir „collab“ eða svo kallað samstarf þriggja brugghúsa sem kunna sko heldur betur að brugga bjór.  KEX Brewing eru að gera stórgóðan bjór þessi misserin og Borg er auðvitað búið að marg sanna sig en svo er hið „Bostoníska“ Lamplighter í sérlega sérstöku uppáhaldi þessa dagana en þeir eru snillingar í skýjuðum (hazy) IPA bjór sem hefur verið að tröllserða bjórheiminn undanfarin misseri. Sumir tala um að þeir séu á pari við Trillium sem segja má að séu Guðir í NEIPA bruggun.  Þeir slóu sannarlega í gegn á nýafstaðinni Bjórhátíð á KEX.

IMG_7320
Borealis Baby!!!

Borg hefur verið að svara kallinu síðustu misserin og verið að færa sig æ nær þessum vinsæla bjórstíl sem pöpullinn kallar eftir, með bjórum á borð við Midt om Natten, Best Fyrir 2018, Partyþokan og Hin Hliðin á Kodda sem mér fannst persónulega komast næst því sem mér finnst vera NEIPA , amk í íslenskri bjórgerð.  Áður en ég smakkaði Borealis Baby var Hin Hliðin á Kodda eitt af því besta frá Borg í langan tíma að mínu mati en þessi bjór hefur gjörbreytt því.   Borealis er einfaldlega stórbrotinn!  Bruggaður af alúð með citra, mosaic og idaho 7 humlum og algjörlega „true to the style“ hvernig sem maður segir það nú á íslenskunni?  Þessi frábæri karl kemur á helstu bari borgarinnar á föstudaginn skilst mér, tékkið á honum, munið ferskt ferskt ferskt.  Hann er að skemmast hægt og rólega í þessum töluðu….eða allt að því!

Þess má geta að Borg skellti sér til Boston á dögunum þar sem þeir brugguðu annan samstarfsbjór með Lamplighter á heimavelli í Cambridge!  Þessi bjór verður tilbúinn líklega í kringum lok næsta mánaðar ef einhverjir verða staddir í Boston!  Bjór & Matur verður á staðnum til að taka þetta allt saman út!!!

Loksins alvöru safaríkur NEIPA á Íslandi í Vínbúðirnar, Midt Om Natten frá Borg og Flying Couch

Ég hef verið að bíða eftir þessu núna í nokkarar vikur og nú er hann loksins kominn á flöskur.  Midt om Natten frá Borg og Flying Couch í Kaupmannahöfn, sumir  sjá hér tenginguna strax við nafnið ekki satt? Ég ætla bara að taka það fram strax að ég er afar hrifinn af New England bjórstílnum um þessar mundir og því hefur biðin eftir þessum verið þrungin spennu og dálitlu stressi líka því ég geri miklar kröfur á þennan stíl.  Ég smakkaði svo loksins bjórinn beint af gertanki fyrir að verða tveim vikum og þá var hann rosalegur, ferskur og spriklandi með þennan ljúfa safaríka ávaxtakeim frá humlunum í nefi og svo einstaklega hressandi og ánetjandi humalbragð í munni með haug af ávöxtum og hamingju.

Ég fór hins vegar strax að hafa áhyggjur því þessi bjórstíll er mjög viðkvæmur fyrir tímans tönn, bjórinn er eiginlega nánast byrjaður að, ég segi ekki skemmast en, tapa gæðum um leið og hann er kominn á flöskur.   Humlarnir eru nefnilega í aðalhlutverki í þessum stíl og er það sem gerir þennan bjórstíl svo magnaðan, humlarnir gefa af sér alla þessa safaríku og flottu ávexti sem er það sem við elskum við stílinn en vandinn er bara sá að humlarnir eru viðkvæmir og missa „mátt“ sinn mjög fljótt.  Það þarf því að drekka þennan bjór eins fljótt og hægt er.   Sumir myndu segja lúxusvandamál ekki satt?  Ég var sem sagt hræddur um að þegar Midt Om Natten loksins kæmi á flöskur að þá væri ballið búið en ég er svo ánægður með að svo er aldeilis ekki.  Bjórinn er enn svona flottur og ferskur og hefur ekki tapað neinum gæðum.

Það er því um að gera að drífa sig í Vínbúðina þegar bjórinn kemur út á næstu dögum og næla sér í þetta salgæti, þ.e.a.s ef planið er að smakka, og Guð minn góður ekki geyma og láta þroskast.

Bleiki Fíllinn, sögulegt samstarf

img_5691

Bjór þessi markar tvímælalaust tímamót í bjórveröld okkar hér heima að mínu mati því hér eru komnir saman tveir toppar í handverks bjór á Íslandi, Borg og Gæðingur sem aldrei hafa unnu saman áður.  Já við erum að tala um samstarfsbjór eða „collab“ sem er löngu orðið tímabært hjá þessum öðlingum.  Nafnið er dálítið flippað, miðinn er vægast sagt skemmtilega skreyttur af Hugleiki Dagssyni sem reyndar sér um miðaskreytingarnar hjá Gæðingi alla jafna og bjórinn sjálfur er gríðarlega fallegt sjónarspil.  Stíllinn er í grunninn IPA en hann hefur verið peppaður upp í áramótabúning með framandi furðukryddum, rauðrófusafa og djúsí tropical humlum ásamt belgísku geri.
Í nefi er haugur af suðrænum ávöxtum, belgískt ger og aðeins humlar eða eitthvað sem gæti verið rauðrófusafinn.  Í munni er þægileg beiskja en alls ekkert sem rífur of mikið í.  Miklir ávextir og krydd og svo eins og ögn pipar í restina.  Sætan er stoppuð dálítið af með þurrum humlunum og líklega kemur rauðrófusafinn aðeins með þarna líka sem jafnan er aðeins beiskur og þurr og „earthy“ ef svo má segja.  Virkilega tilkomumikill í glasi svona dásamlega bleikur og mattur  og sómir hann sér vel á borðum um áramótin þar sem allt snýst jú um ljós og skæra liti ekki satt?

img_5713Svo er spurningin, hvaða matur passar við þennan flippaða bjór?  Bleiki fíllinn er vissulega stórskemmtilegur einn og sér sem fordrykkur, liturinn gerir það að verkum að bjórinn getur vel „púllað“ elegant freyðivínsglas fyrir matinn en ég veit þó ekki með miðnæturbjórinn, hann þarf alltaf að vera meira pótent í áfengi að mínu mati.   En vilji maður máta þennan við mat þá eru líklega margir möguleikar því hann er sætur með ávaxtablæ sem hægt er að leika sér með, svo er hann hæfilega beiskur og getur þannig „klippt“ í sundur feitar sósur og meðlæti, rauðrófurnar koma svo vel út í bakgrunni þegar bjórinn nær aðeins að volgna og þær koma vel út með ýmsum réttum ekki satt og loks er aðeins pipar í honum og svo belgíski kryddblærinn.  En bjórinn er það nýr að maður hefur bara ekki náð að prófa hann með nokkrum rétti og því eru hér bara getgátur á ferð.
Við Sigrún ætlum hins vegar að prófa hann með kalkúninum okkar (segir maður það?). En það er nokkuð látlaust kjöt en fyllingin og sósan spilar oftast höfuðrulluna.  Fyllingin er t.d. með svínahakki, brauðkubbum, sellerí, eplabitum og jafnvel beikoni en vissulega getur hún verið margs konar.  Ég held að ávextirnir komi vel út með fyllingunni, létti aðeins á þungu svínahakkinu og beikoninu og tvinnist saman við eplin.  Beiskjan opnar svo og léttir á fitunni í svínahakkinu og sósunni með.  Svo held ég að tönuberjasultan sem við slettum oft með þessu öllu til að rífa upp stemninguna komi rosalega vel út með þessum ávaxtabjór.  En það er bara um að gera að prófa ekki satt?  Eitt er víst að það verður alltaf gaman og gleðilegt nýtt ár!

Piparkökur með gráðosti og Garúnu

img_5640


RÉTTUR: Piparkökur, best djúsí heimabakaðar piparkökur.  Blámygluostur, vel valinn t.d. úr Búrinu hennar Eirnýjar.
BJÓR MEÐ: Imperial Stout eins og t.d. Garún frá Borg , hann er geggjaður með, eins og sérbruggaður fyrir þetta combo.


Hafið þið smakkað piparkökur með gráðosti?  Þetta hljómar kannski ekki mjög vel en þegar þið smakkið það þá opnast ykkur alveg nýr heimur, þetta er bara algjör snilld saman. Ég veit ekkert hvað Eirný í Búrinu myndi segja við þessu, mögulega að hér værum við að skemma góðan blámygluost en mér er í raun alveg sama, við erum í raun að laga sæmilegar piparkökur og ef það er gott þá er það bara gott og stundum verður maður bara að synda á móti straumnum ekki satt?  Við Eirný eigum annars vel saman, bæði dálítið klikkuð í því sem við erum að gera, bjór vs ostar.  En hvað er svona gott? Sætan og kryddið í piparkökunum blandast hér mjög skemmtilega vel við seltuna og þróttinn í blámygluostinum og skapar dálítið jólalega ostastemningu….hvað sem það svo þýðir?
Ég og Sigrún grípum stundum í þetta í jólamánuðinum þegar okkur langar í smá jólalegt nart en viljum lyfta piparkökunum aðeins upp á æðra plan.  Svo er það rúsínan í pylsuendanum, já það er vel þekkt að blámygluostur á vel við sætan þróttmikinn imperial stout og þar sem við eigum alltaf til Garúnu frá Borg í ískápnum ákváðum við að prófa þetta saman.  Viti menn, þetta er svo borðleggjandi að maður setur hljóðan, getur það verið að Garún hafi verið brugguð einmitt með þetta combo í huga?  Ég skal ekki segja en þetta er svo gott saman að það nær engri átt.  Vissulega er hægt að notast við hvaða imperial stout sem er en hér tölum við um það sem er alltaf til á heimilinu og er alveg rakin pörun.