ATH því miður er þessi staður ekki til lengur!

Það er alltaf best að skrifa um staði þegar maður er staddur á þeim, þá drekkur maður í sig umhverfið og stemninguna jafnóðum…já og bjórinn líka auðvitað ef svo ber undir.  Hér sit ég sem sagt á Haven bar í annað sinn í þessari ferð og sötra Mikkeller Pellet Palate Wrecker NE IPA og er að bíða eftir að kl verði 13:00 því þá hefst lunch matseðillinn.   Haven er, hvað eigum við að segja, eins konar „diner“?  Ég veit það ekki, alla vega þetta er staður sem opnaði bara hér fyrir nokkrum vikum (2017) í tengslum við svo kallað Haven Festival sem verður þann 11. og 12. Ágúst næstkomandi.  Þetta er hátíð skilningarvitanna þar sem fólki gefst tækifæri á að örva bragðlauka, heyrn og sjón en hátíðin er samkurl nokkurra snillinga á sviði tónlistar, bjórs og matarkúltúrs.  Við erum að tala um bræðurna Aaron og Bryce Dressner úr hljómsveitinni National, Michelin stjörnukokkinn Claus Meyer (Studio) og bjórgúrúið Mikkel Borg frá Mikkeller.  Haven bar var eiginlega bara opnaður í tengslum við þessa hátíð sem eins konar upphitun og þegar maður spyr staffið hér veit enginn hvort barinn lokar eða heldur áfram í einhverri mynd þegar hátíðin er yfirstaðin í lok sumars.  Barinn er staðsettur í öðrum enda Standard sem er fyrrverandi ferjustöð við höfnina (við enda á Nyhavn).  Staðurinn hýsir þrjá staði sem reknir eru af Claus Meyer, Standard, Studio (sem er stjörnustaðurinn) og Almanak, já og núna Haven bar.

20170426_194303.jpg

Haven er stílhreinn, látlaus og bjartur staður, það eru 10 Mikkeller kranar með ýmsu góðgæti og svo er lítill en vandaður „lunch“ seðill og hefðbundið barsnarl ef þú ert snemma á ferð.   Maturinn kemur að ofan, sem sagt frá kokkum Studio og er seðillinn að hluta til breytilegur.   Ég vil svo endilega mæla með eftirréttnum sem ég fékk hér um daginn áður en ég gleymi, Spring Donut sem er kúlulaga kleinuhringur fylltur með rabbabaramauki og svo er flórsykur og einhver glassúr ofan á.  Mjög gott t.d. með villibjórnum Mikkeller Mikropolis BA Bourbon með sítrónukjöti (10.7%).   Allt sem ég smakkaði af matseðlinum var vægast sagt geggjað.  Laxinn var stórbrotinn „Fried potato bread and smoked salmon, skyr cream, pickled fennel and chives„.    Ég fór í alveg hárétta bjórinn með þessu held ég, Alefarm Soft Spoken IPA með Citra og Mosaic.  Þetta er enn einn New England bjórinn, ég veit, en hann er bara svo ofsalega mjúkur og mildur með hæfilega miklu frútti og svo aðeins 20170429_142110beiskju sem virkar vel með feitum laxinum og meðlætinu.  Ég fékk mér líka „Crispy chicken skin with lumpfish roe & cress“ með reyktu baunasallatssmjöri sem small alveg við bjórinn.   Framsetningin á þessu er svo algjörlega mögnuð, hér fær maður svo sannarlega eitthvað fyrir augað, nef og bragðlauka.  Ég bara elska svona litríka rétti, það er eitthvað svo Michelin eitthvað!

Já ég gleymdi því næstum, þeir eru mikið með lifandi tónlist hér um helgar, þá er bara band inni á miðju gólfi í góðum fílíng.  Helvíti huggulegt.  Ég held að ef menn eru staddir í Kaupmannahöfn eða á leiðinni hingað að þá sé þetta alveg ómissandi stopp.  Ég meina, hver vill ekki láta gæla dálítið við sig á mörgum vígstöðvum í einu?  Grípið gæsina á meðan hún gefst á kannski hvergi eins vel við og hér!  Þetta ævintýri er kannski búið í september 2017.