Það hefur ekki farið framhjá neinum að bjórmenningin hér heima er á blússandi siglingu um þessar mundir, ný brugghús spretta upp um allt land, sérhæfðum bjórbörum með tugi bjórkrana fjölgar ört og bjórframboðið hefur aldrei verið betra. Það er bara dásamlegt að vera bjórnörd á Íslandi í dag. Tap-room er hugtak sem við munum sjá meira í umræðinni á næstunni því það er einfaldlega bara rökrétt næsta skref í þessari þróun. En hvað er þá „tap-room“ annars? Bein þýðing væri krana herbergi eða krana rými, eða dælu rými sem ekki hljómar alveg nógu sannfærandi að okkar mati, sumir tala um bruggstofu eins og þeir hjá RVK Brewing t.d. og við hér höfum notast við bjórstofu.
Það er svo sem ekkert rétt í þessu, ég held að orðið sé bara ekki til á íslensku sem er svo sem ekki skrítið. Pöbbar og barir eru í sjálfu sér bjórstofur eða krana rými þannig séð því þar má vissulega finna bæði bjór og bjórdælur. Bruggstofa er kannski betra orð því þar er komin tengingin við brugghús en það er dálítið lykilatriði hér. Tap room er í okkar huga svæði, herbergi eða rými, ekki allt of stórt, sem tengt er við brugghús, í sama húsnæði. Þetta er staður þar sem maður getur fengið bjór viðkomandi brugghúss beint af krana eins ferskan og unt er. Sem sagt maður nýtur bjórsins sem bruggaður er á staðnum. Yfirbyggingin er oftast frekar látlaus og við erum ekkert endilega að tala um mat, kannski smá snarl eða snakk. Sem sagt hugtakið nær ekki yfir bari og veitingastaði. Helsti kosturinn við bruggstofur er að þar fær maður bjórinn eins ferskan og hægt er sem er oft mjög mikilvægt en fer vissulega eftir stíl en svo er úrvalið oftast mun meira á bruggstofunni því sjaldnast er öll framleiðsla brugghúsa sett á flöskur eða dósir. T.d. fer flest frá íslenskum brugghúsum bara á kúta.
Brewpub eða bruggbar er svo annað, kannski aðeins flóknara að aðgreina og jafnvel ekkert víst að menn vilji greina þarna á milli. Bruggbar er staður sem bruggar bjór og býður svo uppá bjórinn á staðnum en hér erum við komin með „bar“ eða „pub“ aftan við og við erum að tala um stærra rými. Á bruggbar fær maður svo oftast bjór frá öðrum framleiðendum og annað áfengi og jafnvel er eldhús tengt við. Bryggjan brugghús er dæmi um bruggbar eða réttara bruggveitingahús því staðurinn er mjög stór og er í raun full búinn veitingastaður sem bruggar sinn eigin bjór. Bryggjan er klárlega ekki bruggstofa. Önnur dæmi um bruggbari mv okkar skilgreiningu er Bjórsetur Íslands á Hólum, Ölverk í Hveragerði, Jón Ríki á Höfn, Brothers Brewing í Eyjum sem reyndar er alveg á mörkunum að vera bruggstofa frekar en hitt. Svo er það Beljandi á Breiðdalsvík og svo var Austri að opna bruggbar fyrir austan. Smiðjan Brugghús er svo enn eitt brugghúsið sem nýlega opnaði dyr sínar en þeir eru einnig með brewpub og munu bjóða upp á bjór og veitingar skilst mér. Loks má benda á að Gæðingur hyggst opna bruggbar í Kópavogi á árinu sem verður að teljast afar spennandi.
Eins og staða er í dag er líklega aðeins ein bruggstofa á landinu skv okkar skilgreiningu (leiðréttið mig ef ég hef rangt fyrir mér), Ölvisholt Brugghús sem nú er rekin af Steina fyrrum Mikkeller & Friends Reykjavík. Bjór & Matur mun líta við þangað á næstunni og taka pleisið út. Reykjavík Brewing Company eru svo að opna bara á næstu andartökum en þeir verða með alvöru bruggstofu sem mun taka um 20 manns í sæti, reyndar má skilgreina Segul 67 á Siglufirði sem bruggstofa, annars veit ég ekki um fleiri bruggstofur, eða jú við erum að gleyma minnstu bruggstofu landsins, nano tap room sem er litla bruggstofan í bílskúrnum mínum, þar eru tvær dælur og 4 stólar 😊
Að okkar mati hér á Bjór & Matur vantar svo sárlega bruggstofur á eftirfarandi stöðum, Borg og Malbygg. Við vonum að því verði kippt í liðinn sem fyrst! Það má alveg vona!
Það er svo sem ekki aðal atriðið hvort um ræðir bruggbar eða bruggstofu svo lengi sem bjórinn er góður. Hins vegar finnst mér persónulega hugmyndin bruggstofa frábær og er ég mun hrifnari af því en að fara á bar. Það er bara einhvern veginn persónulegra og meira alvöru finnst mér. Uppáhalds tap roomin sem ég hef komið í til þessa eru Monkish Brewing í LA, Pure Project í San Diego, Alesmith í San Diego, Trillium Boston, Modern Times í San Diego og að ógleymdu Cigar City í Tampa.
Bruggstofan RVK Brewing Company.
En nóg komið af upptalningum og skilgreiningum. Á dögunum renndi ég við hjá Sigga og co í RVK Brewing Company í Skipholtinu. Um brugghúsið má lesa hér. Eins og áður hefur komið fram eru þeir með bruggstofu á staðnum (skipholti 31) þar sem fólk getur mætt og tillt sér og smakkað bjórinn þeirra beint af gerkútunum, eða svona nánast, bjórinn er alla vega eins ferskur og hann gerist. Eins og staðan er í dag eru 8 dælur sem von bráðar munu geyma 8 ferska bjóra frá brugghúsinu en formleg opnun er bara rétt handan við hornið. Bruggstofan er einföld og stílhrein, ekkert glamor og glys, bara einfaldar innréttingar, bar í einu horninu og svo heill glerveggur sem snýr inn að brugghúsinu sjálfu þar sem maður getur séð bjórinn verða til fyrir framan nefið á sér. Eins og bruggstofum sæmir þá eru ekki miklar veitingar í boði en þó verður líklega hægt að grípa í snakk og annað léttmeti.
Þegar ég rak inn nefið sat Siggi og var að horfa á HM á sjónvarpsskjá sem stóð á miðju gólfinu. Borð og stólar voru ekki komnir en þeir eru víst í smíðum. Það er víst ekki planið að vera með sjónvarpsskjá þarna enda ekki um háværan íþróttabar að ræða. Hins vegar sagði Siggi mér að þeir verða með græjur þar sem hægt er að bjóða plötusnúðum að þeyta skífur þegar svo ber undir.
Það voru 5 bjórar á dælunum þegar ég kíkti við, tilraunir flest allt. Ég smakkaði þá auðvitað alla, allt frá Bjór 101 sem er afar þægilegur og látlaus 4.8% pale ale sem mun sennilegast verða húsbjórinn þeirra eða amk einn af þeim, að Co og Co sem er 10.1% „bakkelsis“ imperial stout með snúðum frá Brauð og co. Já og auðvitað smakkaði ég líka Debut IPA sem er kominn á nokkra bari borgarinnar nú þegar. Hér er um að ræða nokkuð heiðarlegan 6.2% west coast IPA sem vel er hægt að mæla með. Já það verður spennandi að fylgjast með RVK Brewing í framtíðinni, fylgist með á fésinu þeirra en opnun mun líklegast verða tilkynnt von bráðar.
Ein athugasemd við “Reykjavík Brewing bruggstofa opnar innan skamms!”