öLogLager

Fjölbreytileiki bjórs er nánast ótæmandi.  Til er aragrúi af mismunandi bjór sem hægt er að flokka eftir stíl, bjórstíl.  Þannig er hægt að deila bjór gróflega í lager annars vegar og öl hins vegar.  Hvorn flokkinn eða fjölskyldu má svo flokka enn frekar í aragrúa af undirstílum.  Hér áður fyrr var alla vega hægt að tala um bjórstíla hreint og beint en í dag eru menn farnir að brjóta allar reglur og mörkin á milli stíla eru orðin mun óljósari.  Það er þó enn hægt að notast við stílana til að vísa manni í áttina í það minnsta. Þjóðir á borð við Belga og Þjóðverja eru hins vegar nokkuð íhaldssamir þegar kemur að bjórstílum og má því treysta á stílaflokkunina þar.

Nánar um muninn á Lager og Öli hér (nano Bjór 101)

Myndaniðurstaða fyrir beer style chart
Kort sem sýnir til gamans tengsl stílanna og fjölbreytileikann

Hér að neðan mun ég skauta yfir helstu stílana sem menn eru að komast í tæri við hér heima á Íslandi og svo kannski eitthvað meira til.  Það er vonlaust að ætla að taka fyrir þá alla.  Hér á eftir eru þeir stílar sem okkur finnst að menn verði bara að vita eitthvað um til að geta leikið sér með bjór og mat.

PILSNER / LAGER (LAGER)

urquellHér heima notum við oft orðið pilsner yfir áfengislausan bjór sem er alrangt og eiginlega óvirðing við þennan stíl.  Pilsner er alvöru bjór af gerðinni lager og er ljós og tær og með þau sérkenni að vera dálítið þurr og „krispí“, smá grösugur með ögn beiskju en þó allt stillt í hóf. Léttur í áfengi en alls ekki áfengislaus, oft á bilinu 4-5 %. Pilsner er fyrsti ljósi lagerinn sem kom fram á sjónarsviðið í bænum Pilsen í Tékklandi árið 1842 og allur ljós lager sem við þekkjum er eftiröpun þaðan.  Gott dæmi um stílinn er Pilsner Urquell sem fæst hér heima og er hinn upphaflegi pilsner bjór.   Hér á síðunni munum við nota pilsner og ljós lager dálítið saman þegar við ræðum matarparanir.  Önnur þekkt dæmi er Kaldi ljós og Brio frá Borg sem reyndar er þýsk túlkun á stílnum.


BOCK/DOPPEL BOCK (LAGER)

img_5613Af einhverjum ástæðum hafa íslensk brugghús, sértaklega Víking, bruggað mikið að bock fyrir jólin.  Þeir virðast aldrei þreytast á að koma með nýjan og nýjan bock ár hvert.  Gott og blessað.  Bock er lager en töluvert bragðmeiri, dekkri og sterkari en menn eiga að venjast af lager. Oftast er bock í kringum 6% og uppúr og er þá talað um doppel bock ef hann nær miklum hæðum í áfengi.  Einkennandi er mikill maltkarakter, sæta og rist en ger og miklir humlar eru fjarverandi.  Góður bock er frábær matarbjór og gaman að leika sér með sætuna og ristina í bjórnum.  Dæmi hér heima er Boli frá Ölgerðinni,  Víking Bock (páska, jóla ofl) og svo er Einstök með bock líka.  La Trappe bock er líka skemmtilegur.


PALE ALE (ÖL)

Í upphafi var allur bjór dökkur eða svartur því menn gátu illa stjórnað þurrkuninni á maltkorninu.  Eftir því sem tækninni fleytti fram gátu menn farið að þurrka malt án þess að brenna það og fyrsti ljósi bjórinn leit dagsins ljós undir miðbik 18. aldar.  Pale þýðir fölur og stíllinn var öl og því notuðu menn pale ale yfir stílinn.  Upphaflega enskur stíll en í dag eru alls konar útgáfur til af honum.  Það sem við þekkjum líklega best eru amerísku afbrigðin sem jafnan eru dálítið beiskari en maður er alldayvanur frá lagernum.  Þannig eru humlar og humalkarakter áberandi í pale ale án þess þó að vera of beiskur  Verandi öl þá er bragð einnig mun meira og gerið með sínum gerkryddum kemur vel fram.  Pale ale er einnig oft nokkuð sætur með stundum eins og kramellukeim. Það fallega við pale ale er þetta fína jafnvægi milli sætu, beiskju og gerkeims.  Áfengi er í kringum 6%.
Góður amerískur pale ale er með því betra sem maður fær á góðum degi og er gríðarlega vinsæll bjórstíll um heim allan.  Dæmi hér heima er Gæðingur Pale Ale, Einstök Pale Ale og Founders All day Session IPA (sem að mínu mati er pale ale) ofl flottir.


INDIA PALE ALE (ÖL)

Óhætt er að segja að India Pale Ale eða IPA sé vinsælasti bjórstíll bjóráhugamanna, það er einnig sá stíll sem flestir heimabruggarar ná góðum tökum á að brugga.  IPA er upphaflega enskur bjórstíll en í dag er ameríska útgáfan líklega mun þekktari.  Saga IPA stílsins er skemmtileg eins og hún er oftast sögð og má rekja aftur til nýveldistíð heimsveldisins Englands en þeir þurftu á þeim tíma að tryggja hermönnum sínum í Indlandi stöðugt streymi af góðum bjór til að halda þeim kátum.  Á þeim tíma var kælitækni ekki til staðar og siglingar langar og allur bjór kom skemmdur á leiðarenda.  Menn brugðu þá á það ráð að nota óvenju mikið af humlum í bjórinn því humlar hafa rotvarnareiginleika.  Úr varð bjór sem hélt „lífi“ alla leið til indlands og hann var töluvert beiskari (vegna humlanna) en menn áttu að venjast.  India Pale Ale varð til.  Í dag er IPA stíllinn orðinn mun beiskari.
Þtumihumallannig að ef menn sjá bjór sem er af gerðinni IPA þá þýðir það beiskja og humlar.  ATH humlar geta einnig gefið af sér ávaxtakeim og sæta blómlega tóna.  Vandamál við humlana er hins vegar að olíurnar og sýrurnar sem gefa beiskjuna og bragð eru töluvert rokgjarnar og hverfa úr bjórnum með tímanum.  Þetta gerist óþarflega hratt og því er IPA einn af þessum bjórstílum sem á að drekka ferskan.   Hér heima höfum við t.d. aðgang að Úlfi IPA frá Borg eða Tuma Humal frá Gæðingi sem báðir eru virkilega flottir IPA.  Erlendir bjórar í þessum stíl eru einnig fjölmargir, prófið frá Founders, To Øl og Mikkeller t.d.

DIPA, Double IPA, IIPA, Imperial IPA (öl)

Bara til að hafa það með hér, DIPA er skammstöfun fyrir double IPA eða imperial IPA sem þýðir bara öflugur eða stór IPA.  Hér erum við með IPA sem er sterkari í áfengi, frá 8% og uppúr og svo er hann með mun meira af humlum en venjulegur IPA.  DIPA er því oft töluvert beiskur en einnig sætur því til að ná upp áfenginu þarf meiri sykur.  Þetta er dásamlegur bjórstíll í alla staði þegar maður lærir að meta hann.   Þeir sem hafa smakkað Úlf Úlf frá Borg t.d. vita hve góður DIPA getur orðið.  Svo er ekki hægt að tala um IIPA án þess að nefna til leiks einn besta bjór á Íslandi um þessar mundir Dangerously Close to Stupid.


WHEAT BEER / WIT/ WEISSER / WEIZEN (ÖL)

weihenstephan-bier1Hveitibjór er bjór sem inniheldur hveitimalt, þ.e.a.s auk byggmalts þá er notað hveitimalt að hluta til en það er þó alltaf undir 50% af kornreikningi bjórsins.  Í raun er hægt að nota alls konar korn í bjór, hafra og rúg t.d., eins nota menn hrísgrjón, maís ofl.  Allt sem gefur sykur gengur svo lengi sem menn hafa bygg líka því þaðan kemur megnið af sykrinum sem þarf.  Hveitibjór er þekktastur frá Þýskalandi og Belgíu en hann er þó bruggaður víða.  Það er mikill misskilningur að hveitibjór sé þungur bjór, eins og að „drekka brauð“ segja sumir en í sannleika sagt er hveitibjór með mest svalandi bjórstílum sem gott er að drekka á heitum sumardegi.  Einkennandi fyrir hveitibjór er áberandi gerbragðið og esterar frá gerinu gefa ýmsa bragðtóna ss banana, melónu, epli, peru ofl.  Í Belgíu bæta menn svo oft t.d. kóríander og öðrum kryddum í bjórinn og appelsínubörkur er vinsæll (t.d. Hoegaarden).  Humlar og beiskja eru venjulega alveg fjarverandi í hefðbundnum hveitibjór. Hveitið gerir það einnig að bjórinn freyðir mjög mikið og þarf að gera ráð fyrir því þegar bjórnum er hellt í glas.
Hér heima er hægt að fá ofsalega flotta hveitibjóra, Weihenstephaner er t.d. einn besti hveitibjór veraldar frá elsta starfandi brugghúsi heims sem nú er rúmlega 1000 ára gamalt.  Íslensk dæmi eru svo Gæðingur Hveitibjór og Freyja frá Ölvisholti.


PORTER (ÖL)

Porter er einn af þessum ævafornu bjórstílum sem á rætur sínar að rekja til Englands í kringum 1600.  Í upphafi brugguðu menn ekki porter heldur var hann búinn til á pöbbunum með því að blanda saman mismunandi bjór, oftast þrjár gerðir.  Á þeim tíma töluðu menn ekki um neina stíla.  Þetta var ódýr bjór, bjór verkafólksins og er talið að nafnið sé komið til vegna vinsælda stílsins meðal vinnumanna „porters“á þessum tíma.  Í dag brugga menn hins vegar Porterinn beint úr ristuðu malti.  Stíllinn er þrátt fyrir útlitið frekar mildur og alls ekki þungur og nær hefðbundfið ekki meira en 6% áfengis. Hann er brúnn til svartur á litinn og áberandi eru ristaðir og brenndir tónar þar sem kaffi, espresso og dökkt súkkulaði eru algengar lýsingar.  Beiskju er oftast stillt í hóf en í dag eru reyndar ýmsar útgáfur af þessum stíl, enskur porter, amerískur porter (þar sem oft má finna beiskari bjór) og baltic porter (sjá að neðan).  Í dag eru menn svo auk þess farnir að brugga verulega út fyrir stíla og má þannig finna afbakanir á borð við imperial porter sem að mínu mati er nær stout og black IPA sem erfitt er að segja hvort er meira IPA, porter eða stout.
Gott dæmi um stílinn hér heima er Myrkvi frá Borg sem er alveg magnaður porter svo má ég til með að nefna Founders Porter sem stundum fæst hér heima en það er algjört listaverk.

BALTIC PORTER (LAGER)

greta
Baltic porter er upphaflega kominn frá hinum baltnesku ríkjum svo sem Lettlandi, Eistlandi, Litháen, Póllandi og jafnvel Rússlandi og Svíar hafa einnig verið bendlaðir við stílinn. Á 18. öld barst hinn enski porter til þessara ríkja og svo hafa menn farið að gera sína eigin útgáfu.  Þannig varð baltic porter til sem túlkun þessara ríkja á stílnum.  Stíllinn er þó ólíkur hinum enska porter hvað varðar áfengismagn sem getur orðið töluvert og er því kannski frekar hægt að líkja stílnum við hinn rómaða Russian Imperial Stout.  Baltic porter þarf alls ekki að vera af gerðinni öl eða yfirgerjaður heldur er eiginlega algengara að um lager sé að ræða.  Ég veit, þetta hljómar ekki alveg rétt eða hvað?  Þetta er mjög maltaður stíll, mikið af korni í honum og því oft nokkuð sætur og þægilegur.  Þrátt fyrir háa áfengisprósentu  þá skortir hann þróttinn sem maður fær í frændum hans imperial stout.
Ég kemst ekki upp með annað en að nefna Grétu frá Borg sem gott dæmio um stílinn en þessi bjór fæst reyndar bara mjög takmarkað og ekki víst að hann komi nokkurn tíman aftur.


STOUT / IMPERIAL STOUT (ÖL)

garunmyndStout er einn þekktasti bjórstíll veraldar og sá bjórstíll sem oftast er í efstu sætum í bjórkeppnum um heim allan.  Stout er enskur bjórstíll sem eiginlega er stóri bróðir Portersins en stout merkir eiginlega stór eða mikill.  Við erum að tala um kolsvartan andskota með mikinn karakter.  Maltið er ristað líkt og kaffi og
því verður bjórinn svartur og einkennandi eru ristaðir stundum brenndir bragðtónar og mikil fylling.  Imperial útgáfan er svo enn öflugari og er oftast frá 8% og upp í 12-13%.  Stout getur verið þurr eða sætur og oft töluvert beiskur, sér í lagi amerísku útgáfurnar.  Imperial útgáfan er þéttur og þróttmikill bjór með mikinn persónuleika.
    Guinnes sem flestir þekkja er dæmi um þurran stout en er alls ekki einkennandi fyrir stílinn í heild sinni, hvað þá „dökka“ bjóra.  Það er allt of oft þannig að menn hafa smakkað Guinnes og ekki líkað við hann (ég skil það vel, er sjálfur lítið fyrir Guinnes) og dæma svo alla „dökka“ bjóra úr leik.  Það má alls ekki falla í þessa gryfu.  Stout er kannski ekki sá stíll sem þú prófar næst á eftir lagernum ef þú þekkir ekkert annað því hann er dálítið krefjandi fyrir byrjendur.
Dæmi um dásamlegan imperial stout hér heima er auðvitað Garún frá Borg sem er algjört sælgæti.  Founders imperial stout er svo annað dásamlegt dæmi.  Gæðingur stout er svo dæmi um íslenskan stout.


BARLEY WINE / BYGGVÍN (ÖL)

gilli2Hér erum við að tala um bjór í þungaviktar flokki en barley wine er í hópi þeirra allra öflugustu og ekki skrítið að stíllinn sé kallaður vín, eða byggvín ef við færum beint yfir á íslenskuna.  Barley wine er klassískt frá 9-10% upp í 13-15% og jafnvel hærra.  Sögur fara af stílnum í forn grískum sögum en í seinni tíð eru það líklega Englendingar sem brugguðu fyrst bjór sem formlega var sagður barley wine.  Það skiptir reyndar engu máli, í dag getum við talað um enska og ameríska útgáfur af stílnum.  Eins og oft áður eru amerísku afbrigðin oft töluvert humlaðari (og beiskari) en þeir ensku.  Sameiginlegt með þessum stílum er há áfengisprósenta, bjórinn er þéttur, mikill og flókinn ef svo má segja.  Oftast er um lifandi ger að ræða í barley wine (ósíaður) og því er hann mjög hentugur til geymslu og eru í raun engin takmörk fyrir hve mörg ár hann má dúsa í flöskunni.   Það er reyndar mjög magnað og gaman að sjá hvernig bjórinn breytist með árunum.  Þrátt fyrir háa áfengisprósentu er ekki þar með sagt að maður finni of mikið fyrir henni því þessi stíll á það til að búa yfir töluverðri sætu og getur stundum minnt á gott Púrtvín.  Líklega er þekktasta íslenska dæmið um stílinn Giljagaur frá Borg sem kemur nú ár hvert fyrir jólin.  Annar skemmtilegur í vínbúðinni er Old Foghorn frá Anchor Brewing sem jafnframt er elsti ameríski barley wine bjórinn.  Það er allt of lítið af þessum stíl í vínbúðinni en maður getur vel sérpantað t.d. via Járn og Gler.


TRAPPIST / KLAUSTUR ÖL / Abbey ale (ÖL)

bh005_1Munkabjór eins og ég kalla hann eða Trappist bjór er bjór sem þar til nýlega var aðeins bruggaður í Belgíu og Hollandi af Trappist munkum í alvöru munkaklaustrum.  Í dag hafa fleiri klaustur víða um heim farið að brugga munkabjór.  Sameiginlegt með þessum bjór er að hann er bruggaður af munkum innan veggja klaustursins og má þá bera Trappist merkið sem tryggir upprunann.  Bjórinn er reyndar einnig með svipuðum blæ frá öllum þessum bruggklaustrum, sem sagt með belgíska eiginleika eins og ég kalla það.  Trappist bjór er til sem blond (um 5-6%), dubbel (7-8%), tripel sem er í krignum 10% og loks quadrupel sem nær  enn hærri hæðum.  Beiskja er yfirleitt fjarverandi þar sem humlarnir sem notaðir eru eru mildir og látlausir.  Hér er belgíska gerið ríkjandi í bragði og einkennandi og svo ýmsir bragðtónar frá esterum sem gerið gefur frá sér.  Oft ber á ávaxtakeim, þurrkuðum suðræðnum ávöxtum, döðlum, púðursykur, karamellu ofl.   Eftir því sem áfengisprósentan verður hærri verður bjórinn þurrari og beittari án þess að verða beiskur þó. Oft ber dálítið á kolsýrunni.  Þessir bjórar eru virkilega flottir og vandaðir og þeir gagna gríðarlega vel með ýmsum ostum.
Dæmi um Trappist bjór hér heima er Chimay (blár og rauður), La Trappe (margar gerðir) og Westmalle dubbel eða tripel.

Bjór af sama toga sem ekki er bruggaður af munkum í klaustri er stundum kallaður Abbey eða klausturbjór og er vissulega svipaður Trappist bjórnum ef ekki eins.  Dæmi og abbey bjór er t.d. Leffe blond eða bruin.


SAISON/FARMHOUSE ALE/SVEITABJÓR (ÖL)

skadiSaison er orðinn mjög vinsæll á Íslandi enda stórskemmtilegur bjór sem er „örðuvísi“ ef maður miðar við lagerinn en ekki sérlega krefjandi stíll.  Saison kemur upphaflega frá hinum frönsku mælandi hluta Belgíu, eða Vallóníu og var áður bruggaður í litlum sveitabrugghúsum eða sveitabæjum yfir kaldari haustmánuði ársins. Bjórinn var ætlaður sem svalandi drykkur yfir sumarmánuðina og gjarnan notaður til að fagna uppskerunni á bæjunum og er það líklega þaðan sem viðurnefnið „sveitabjór“ er komið.  Bjórinn átti að vera svalandi og þægilegur en varð þó að vera nægilega sterkur til að lifa sumarmánuðina af. Saison stíllinn er gjarnan með áfengisprósentu í hærri kantinum 5-6.5%  án þess þó að vera of sterkur, hann er gulur eða orange að lit með flottan froðuhaus og vel kolsýrður og spriklandi. Humlar koma við sögu og gefa notalega beiskju og stundum er hann þurrhumlaður til að gæða hann meiri angann.  Bjórinn er oftast dálítið sýrður og þurr á tungu og kryddaðir tónar áberandi.
Frábært dæmi um stílinn hér heima er Leifur frá Borg sem er kryddaður með pipar og blóðbergi, stórskemmtilegur matarbjór.  Ölvisholt Brugghús gerir einnig flottan saison, Skaði Farmhouse Ale og svo verðum við að nefna þekktasta saison veraldar Saison Dupont sem fæst í víbúðinni okkar og er alveg magnaður ef hann er ferskur.


SÚRBJÓR/SOUR ALE (ÖL)

Hér erum við með skemmtilegan flokk bjórs (ale) sem inniheldur mismunandi gerðir af súrum bjór.  Við getum talað um belgísku gueuze, Flanders red, og lambic, þýsku Berliner weisse og gose og svo auðvitað hinar ýmsu túlkanir á þessum stílum sem eru orðnar verulega vinsælar í bjórheiminum í dag.  Þannig má finna súra bjóra með hinum ýmsu kryddum og ávöxtum, jafnvel súra humlaða bjóra sem mætti kalla sour IPA við sjáum líka súra hveitibjóra, sour wheat og jafnvel súra stout ofl ofl.
Það sem einkennir alla þessa bjóra er að þeir eru súrir og oft alveg gallsúrir.  Ástæða þessa eru örverurnar sem notaðar eru til að gerja bjórinn ss lactobacillus og pediococcus en þessar örverur gefa frá sér mjólkursýrur sem sýra bjórinn.  Brettanomyces er flokkur gersveppa sem oft er nefndur til sögunnar einnig þegar talað er um súrbjóra en hann gefur ekki þetta áberandi súra bragð heldur eitthvað svið við köllum „funky“ keim. Þetta er bragð sem erfitt er að lýsa og menn verða bara að smakka.  Sumir reyna þó og nefna „fúkka“, „háaloft“, „leður“ ofl.

tumblr_inline_noz3zghels1rhnf96_500Villibjór, wild ale eða spontant fermented beer er samnefnari bjóra sem gerjaðir eru með villtum „frjálsum“ örverum andrúmsloftsins.  Menn gera þetta enn í dag, t.d. í Cantillon í Brussel og víðar. Cantillon er líklega frægast allra brugghúsa þegar kemur að alvöru villibjór (lambic). Gæði bjórsins og bragð ræðst þá í raun á örverusamsetningu andrúmsloftsins á staðnum hverju sinni því menn geta ekkert stjórnað því hvaða örverur gerja bjórinn.  Hér erum við oftast að tala um lactobacillus tegundir og brettanomyces.  Í Ameríku og jafnvel hér heima t.d. eru menn meira að nota einangraða stofna og geta því stjórnað, tegundum, magni og fjölbreytileika örveranna sem fara í bjórinn.  Bjórinn er samt kallaður villigerjaður eða spontant fermented þó svo að hann sé það í raun ekki.

ÁVAXTABJÓR (ÖL)

 Í framhaldi af umfjölluninni um súrbjóra er rétt að nefna til sögunnar ávaxtabjórana.  Ávaxtabjór er svo sem bara bjór sem bragðbættur er með ávöxtum af ýmsum toga sem er þá oftast bætt við bjórinn við meskingu eða eftir suðu.  Hinir belgísku ávaxtabjórar sem líklega eru þeir frægustu eru oftast súrbjór í grunninn ss lambic eða gueuze.  Þá kallast þeir eftir þeim ávöxtum sem notaðir eru, t.d. kriek ef það eru kirsuber eða framboise (hindber).