Á dögunum hittumst við Bytturnar 3 og Læknirinn í Eldhúsinu heima hjá þeim síðarnefnda og prófuðum okkur áfram með mat og bjór. Sjá myndbandið hér að neðan. Þetta kom mjög vel út, maturinn einfaldur en stórkostlegur og bjórinn geggjaður með. Gott þarf svo sannarlega ekki að vera flókið.
Ragnar gerði 5 rétti fyrir okkur, er eru þeir og bjórinn sem passaði með.
Heit dönsk lifrarkæfa á rúgbrauði með beikon og smjörsteiktum sveppum toppað með pækluðum rauðlauk.
Hitið lifrarkæfu í ofni, steikið beikon á pönnu eða í ofni þannig að verði stökkt. Smjörsteikið sveppi og pæklið rauðlauk. Raðið svo kæfunni á gott rúgbrauð og svo beikon og sveppi ofan á það lokst skreytt með rauðlauknum.
Þessi réttur kom best út með Skyrjarmi bláberja súrbrjór sem gefur þessa berjasætu og sýru sem vantaði dálítið í réttinn en Askasleikir virkaði líka en gerði samt ekki mikið fyrir réttinn.

Ástarpungur með heimagerðu hangikjötssalati og tvíreyktu lambakjöti
Ástarpungar er vanmetið brauð, þessi samsetning er með því jólalegra sem gerist, algerlega frábær biti. Bakið ástarpunga eins og þið kunnið best. Skerið svo niður hangikjöt og mikið af því. Hrærið saman 1/3 hluta majones og 2/3 sýrðan rjóma og niðursoðnar gulrætur og baunir, smakkið til með salt og pipar. Setjið salatið ofan á ástarpung og skreytið með þunnum sneiðum af tvíreyktu lambakjöti.
Þessi réttur mun slá í gegn hjá ykkur. Báðir bjórarnir sem við prófuðum komu mjög vel út. Surtur 30 frá Borg er taðreyktur imperial stout. Hér er reykurinn í aðalhlutverki en einnig lúmsk sæta og beiskjubit. Reykurinn tengir hér vel við reykinn í lambinu. Giljagaur barley wine var svo svakalega flottur með þessum rétt. Þróttmikill bjór með sætum tónum, en beiskju sem klýfur upp þennan feita rétt. Þessi bjór samtvinnast inn í réttinn og breytir dálítið áherslunum.
Rúgbrauð með kryddsíld, eggi, kartöflum og rjómaosti
Síld er klassískt á jólunum. Hér þarf að nota góða síld. T.d. frá Klädesholmen. Útbúið síldina nokkrum dögum áður en þið notið hana.
- 1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
- 1 dós sýrður rjómi
- 3 msk majónes
- handfylli hakkað dill
- 1 msk hlynsíróp
- 1 1/2 msk Edmont Fallot dijon sinnep
- salt og pipar eftir smekk.
Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Færa yfir í fallega krukku. Setja í ísskáp á meðan unnið er í næstu síldarréttum.
Smyrjið gott rúgbrauð með smjöri, miklu smjöri, raðið svo sneiddum soðnum eggjum ofaná, kartöflu og svo síldinni og toppið með feitum sýrðum rjóma, 34%
Bjórinn með. Hér vorum við ekki alveg sammála, en þeir tveir bjórar sem stóðu uppúr voru Hurðaskellir 11.5% imperial porter aldraður á rúgvískítunnu. Hér datt mér í hug að nota Hurðaskelli sem staðgengil brennivínsins sem klassískt er með síldinni. Mjög skemmtilegt combo, en sumum okkar fannst of mikill þróttur í bjórnum sem er skiljanlegt.
Bjúgnakrækir pale ale féll mönnum betur í geð enda afar ljúfur og þægilegur bjór með sætum ávaxtatónum og léttri beiskju. Beiskjan hjálpar til við að opna upp fituna í réttinum og ljúfir sætutónar pakka síldinni dásamlega vel inn.

Våsterbottenostasíld á sænsku hrökkbrauði með dilli
Þessi réttur er magnaður. Hér notar Ragnar ost með síld sem hljómar reyndar ekki vel en er svakalega gott. Osturinn þarf að vera góður, Ragnar var með hinn sænska Västerbottenost sem er ofsalega flottur ostur.
- 1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
- 1 dós sýrður rjómi
- 2 harðsoðin egg
- 1/2 dl majónes
- handfylli hökkuð steinselja
- hnífsoddur af chilidufti
- 1 1/2 dl rifinn Västerbottenostur
- salt og pipar eftir smekk
Síldin er undirbúin eins og að ofan. Svo er að sjóða eggin og skera niður og rífa niður ostinn. Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Setjið þetta svo ofan á gróft hrökkbrauð og berið fram með dillgrein.
Þetta er ofsalega gott, osturinn kemur lúmskt í gegn en maður finnur hann ekki nema vita af honum. Hér notuðum við Sölkunr 81 frá Borg sem er nýjasti villibjórinn þeirra og er þroskaður á Chardonnay og Sauvignon Blanc tunnum. Bjórinn er svakalegur, beittur, kolsýrður með þægilegum belgískum kryddum og svo þessum funky villikeim. Tengingin hér við réttin var alveg fullkomin, hér tvinnaðist réttur og bjór saman í fullkomna heild. Magnað. Askasleikir red ale kom líka frábærlega út með þessum rétti en fer með hann í allt aðra átt. Hér koma lúmskir malttónar vel fram og það er eins osturinn verði meira áberandi hér en með hinn bjórinn.

Lax grafinn í Marberg gini á ristuðu brauði með heimalagaðri graflaxsósu
Margerg er frábært alíslenskt gin sem er gott til drykkju en það er líka hægt að nota það í að grafa lax.
Grafið lax. Nú veit ég ekki hvernig Ragnar gerði þetta en hér er góð uppskrift af gröfnum urriða sem hefur reynst mér vel. Þá myndi maður svo dassa Marberg gini yfir fiskinn áður en hann er grafinn.
- 1/2 msk hvítur pipar
- 1,5 tsk fennel krydd
- 1,5 msk gróft salt
- 2 msk dill
- 1,5 tsk aromat
- ½ msk sykur
- 1 lítill skallotlaukur fínt skorinn
Flakið laxinn og úrbeinið, og þerrið flökin og leggið svo í t.d. eldfast mót eða annað hentugt ílát. Saxið laukinn smátt og blandið saman kryddunum í skál og dreifið jafnt yfir flökin. Slettið smá gini yfir. Plastfilma yfir og svo í kæli í 4 sólarhringa. Snúið flökunum daglega. Hafið smá farg ofan á flökunum. Fínt að frysta svo flökin og taka út rétt áður en þið skerið niður í þunnar sneiðar.
Ristið hvítt brauð, skerið út í hringi og raðið laxinum ofan ásamt graflaxsósu (heimagerð helst) og skreytið með dillgrein.
Hér algerlega negldi Giljagaur þetta. Það er eitthvað við Giljagaur og grafinn lax, fullkomið combo. Ginkeimurinn kom líka skemmtilega í gegn og tengdist við áfengið í bjórnum. Mögnuð pörun. Skyrjarmur tók svo þennan rétt í aðra átt með bláberjakeim sem kom æðislega vel út með laxinum. Sýran í bjórnum er líka kærkomin með þessu.
Heimagerðar piparkökur með gráðaosti og heimagerðri bláberjasultu
Bakið ykkar uppáhalds piparkökur. Raðið ofan á þær íslenskum gráðaosti og efst heimagerðri bláberjasultu. Þessi réttur er með þeim einfaldari en kemur alltaf jafn mikið á óvart. Við hins vegar gjörsamlega lyftum þessum rétti upp með Emblu imperial porter sem bruggaður er með sykurpúðum, hlynsírópi og appelsínum. Þessi blanda er sjúklega góð.
Við prófuðum að fara í allt aðra átt og reyndum Bjúgnakræki líka. Hér er mildur og þægilur pale ale með sætum ávaxtatónum sem koma þægilega á móti söltum ostinum en tengir svo við sætuna í piparkökunni.
You must be logged in to post a comment.