Jólaleg matarpörun með Lækninum í Eldhúsinu. „Stund milli stríða“!

Á dögunum hittumst við Bytturnar 3 og Læknirinn í Eldhúsinu heima hjá þeim síðarnefnda og prófuðum okkur áfram með mat og bjór. Sjá myndbandið hér að neðan. Þetta kom mjög vel út, maturinn einfaldur en stórkostlegur og bjórinn geggjaður með. Gott þarf svo sannarlega ekki að vera flókið.

Ragnar gerði 5 rétti fyrir okkur, er eru þeir og bjórinn sem passaði með.

Heit dönsk lifrarkæfa á rúgbrauði með beikon og smjörsteiktum sveppum toppað með pækluðum rauðlauk.

Hitið lifrarkæfu í ofni, steikið beikon á pönnu eða í ofni þannig að verði stökkt. Smjörsteikið sveppi og pæklið rauðlauk. Raðið svo kæfunni á gott rúgbrauð og svo beikon og sveppi ofan á það lokst skreytt með rauðlauknum.

Þessi réttur kom best út með Skyrjarmi bláberja súrbrjór sem gefur þessa berjasætu og sýru sem vantaði dálítið í réttinn en Askasleikir virkaði líka en gerði samt ekki mikið fyrir réttinn.

Ástarpungur með heimagerðu hangikjötssalati og tvíreyktu lambakjöti

Ástarpungar er vanmetið brauð, þessi samsetning er með því jólalegra sem gerist, algerlega frábær biti. Bakið ástarpunga eins og þið kunnið best. Skerið svo niður hangikjöt og mikið af því. Hrærið saman 1/3 hluta majones og 2/3 sýrðan rjóma og niðursoðnar gulrætur og baunir, smakkið til með salt og pipar. Setjið salatið ofan á ástarpung og skreytið með þunnum sneiðum af tvíreyktu lambakjöti.

Þessi réttur mun slá í gegn hjá ykkur. Báðir bjórarnir sem við prófuðum komu mjög vel út. Surtur 30 frá Borg er taðreyktur imperial stout. Hér er reykurinn í aðalhlutverki en einnig lúmsk sæta og beiskjubit. Reykurinn tengir hér vel við reykinn í lambinu. Giljagaur barley wine var svo svakalega flottur með þessum rétt. Þróttmikill bjór með sætum tónum, en beiskju sem klýfur upp þennan feita rétt. Þessi bjór samtvinnast inn í réttinn og breytir dálítið áherslunum.

Rúgbrauð með kryddsíld, eggi, kartöflum og rjómaosti

Síld er klassískt á jólunum. Hér þarf að nota góða síld. T.d. frá Klädesholmen. Útbúið síldina nokkrum dögum áður en þið notið hana.

  • 1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
  • 1 dós sýrður rjómi 
  • 3 msk majónes 
  • handfylli hakkað dill
  • 1 msk hlynsíróp
  •  1 1/2 msk Edmont Fallot dijon sinnep 
  • salt og pipar eftir smekk. 

Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Færa yfir í fallega krukku. Setja í ísskáp á meðan unnið er í næstu síldarréttum. 

Smyrjið gott rúgbrauð með smjöri, miklu smjöri, raðið svo sneiddum soðnum eggjum ofaná, kartöflu og svo síldinni og toppið með feitum sýrðum rjóma, 34%

Bjórinn með. Hér vorum við ekki alveg sammála, en þeir tveir bjórar sem stóðu uppúr voru Hurðaskellir 11.5% imperial porter aldraður á rúgvískítunnu. Hér datt mér í hug að nota Hurðaskelli sem staðgengil brennivínsins sem klassískt er með síldinni. Mjög skemmtilegt combo, en sumum okkar fannst of mikill þróttur í bjórnum sem er skiljanlegt.

Bjúgnakrækir pale ale féll mönnum betur í geð enda afar ljúfur og þægilegur bjór með sætum ávaxtatónum og léttri beiskju. Beiskjan hjálpar til við að opna upp fituna í réttinum og ljúfir sætutónar pakka síldinni dásamlega vel inn.

Våsterbottenostasíld á sænsku hrökkbrauði með dilli

Þessi réttur er magnaður. Hér notar Ragnar ost með síld sem hljómar reyndar ekki vel en er svakalega gott. Osturinn þarf að vera góður, Ragnar var með hinn sænska Västerbottenost sem er ofsalega flottur ostur.

  • 1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
  • 1 dós sýrður rjómi 
  • 2 harðsoðin egg
  • 1/2 dl majónes 
  • handfylli hökkuð steinselja
  • hnífsoddur af chilidufti
  • 1 1/2 dl rifinn Västerbottenostur 
  • salt og pipar eftir smekk

Síldin er undirbúin eins og að ofan. Svo er að sjóða eggin og skera niður og rífa niður ostinn. Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Setjið þetta svo ofan á gróft hrökkbrauð og berið fram með dillgrein.

Þetta er ofsalega gott, osturinn kemur lúmskt í gegn en maður finnur hann ekki nema vita af honum. Hér notuðum við Sölkunr 81 frá Borg sem er nýjasti villibjórinn þeirra og er þroskaður á Chardonnay og Sauvignon Blanc tunnum. Bjórinn er svakalegur, beittur, kolsýrður með þægilegum belgískum kryddum og svo þessum funky villikeim. Tengingin hér við réttin var alveg fullkomin, hér tvinnaðist réttur og bjór saman í fullkomna heild. Magnað. Askasleikir red ale kom líka frábærlega út með þessum rétti en fer með hann í allt aðra átt. Hér koma lúmskir malttónar vel fram og það er eins osturinn verði meira áberandi hér en með hinn bjórinn.

Lax grafinn í Marberg gini á ristuðu brauði með heimalagaðri graflaxsósu

Margerg er frábært alíslenskt gin sem er gott til drykkju en það er líka hægt að nota það í að grafa lax.

Grafið lax. Nú veit ég ekki hvernig Ragnar gerði þetta en hér er góð uppskrift af gröfnum urriða sem hefur reynst mér vel. Þá myndi maður svo dassa Marberg gini yfir fiskinn áður en hann er grafinn.

  • 1/2 msk hvítur pipar
  • 1,5 tsk fennel krydd
  • 1,5 msk gróft salt
  • 2 msk dill
  • 1,5 tsk aromat
  • ½ msk sykur
  • 1 lítill skallotlaukur fínt skorinn

Flakið laxinn og úrbeinið, og þerrið flökin og leggið svo í t.d. eldfast mót eða annað hentugt ílát.  Saxið laukinn smátt og blandið saman kryddunum í skál og dreifið jafnt yfir flökin. Slettið smá gini yfir.  Plastfilma yfir og svo í kæli í 4 sólarhringa. Snúið flökunum daglega. Hafið smá farg ofan á flökunum.  Fínt að frysta svo flökin og taka út rétt áður en þið skerið niður í þunnar sneiðar.

Ristið hvítt brauð, skerið út í hringi og raðið laxinum ofan ásamt graflaxsósu (heimagerð helst) og skreytið með dillgrein.

Hér algerlega negldi Giljagaur þetta. Það er eitthvað við Giljagaur og grafinn lax, fullkomið combo. Ginkeimurinn kom líka skemmtilega í gegn og tengdist við áfengið í bjórnum. Mögnuð pörun. Skyrjarmur tók svo þennan rétt í aðra átt með bláberjakeim sem kom æðislega vel út með laxinum. Sýran í bjórnum er líka kærkomin með þessu.

Heimagerðar piparkökur með gráðaosti og heimagerðri bláberjasultu

Bakið ykkar uppáhalds piparkökur. Raðið ofan á þær íslenskum gráðaosti og efst heimagerðri bláberjasultu. Þessi réttur er með þeim einfaldari en kemur alltaf jafn mikið á óvart. Við hins vegar gjörsamlega lyftum þessum rétti upp með Emblu imperial porter sem bruggaður er með sykurpúðum, hlynsírópi og appelsínum. Þessi blanda er sjúklega góð.

Við prófuðum að fara í allt aðra átt og reyndum Bjúgnakræki líka. Hér er mildur og þægilur pale ale með sætum ávaxtatónum sem koma þægilega á móti söltum ostinum en tengir svo við sætuna í piparkökunni.

Jólabjórhugleiðingar 2019

Ég hef oft verið tímanlegri í jólaskrifum en nú eru jólin bara rétt handan við hornið, ég hef greinilega verið og upptekinn af lífinu.  Jólabjórinn er farinn að flæða og sumt reyndar búið nú þegar í vínbúðunum sem mér finnst alltaf jafn sorglegt., t.d. Jólakisi frá Malbygg.  Jólabjórinn kemur svo snemma í verslanir og oft í svo litlu magni að hann klárast fyrir Desember mánuð.  Ég tók samt eftir því að margir lásu frá mér vangavelturnar um jólabjórinn frá 2018 núna fyrir þessi jól enda er mikið af því sama ár eftir ár í boði.  Ég er því kannski meira að skrifa þessar pælingar mínar núna fyrir næsta ár, 2020?

Í gegnum tíðina hef ég reynt að smakka allt sem í boði er hver jól en síðustu 2-3 ár hefur verið svo mikið í boði að ég hef bara ekki boðið lifrinni né buddunni uppá að smakka það allt. Enda er maður eiginlega hættur að vera spenntur fyrir jólabjór, þetta er meira eða minna frekar óspennandi hér heima því miður.  Það er þó eitthvað sem vert er að taka eftir. Reynslan hefur svo sem kennt mér ýmislegt og ég er farinn að vita hvað ber að forðast, hvað er forvitilegt og hvað er gott fyrirfram.  En það verður aldrei of oft sagt, smekkur manna er misjafn, sem betur fer og ætla ég því ekki að reyna að segja ykkur hvað ykkur finnst gott!

En hvað er jólabjór?  Ég hef oft velt þessu fyrir mér og varpað fram spurningunni og í raun ekki komist að einni ákv niðurstöðu, eitt er þó víst að jólabjór er ekki til sem skilgreindur bjórstíll heldur er þetta bara bjór sem menn framleiða sérstaklega fyrir hátíðarnar, ja eða fyrir Nóvember mánuð í sumum tilvikum (Jólakisi).   Jólabjór getur því verið alla vega og í raun getur enginn sagt til um hvernig hann á að vera eða bragðast.  Við hér á Bjór & Matur höfum hins vegar ákveðnar skoðanir á þessu málefni sem mig langar að fara aðeins yfir.

Jólabjórinn fyrir okkur á að vera dálítið sérstakur, ekki bara sami IPA bjórinn eða lagerinn með nýjum miða og nafni eins og oft er.  Ef við tökum þetta saman hér í nokkra flokka gæti þetta verið einhvern veginn svona:

  1. 20191201_164529-01.jpegJÓLALEGUR! Jólabjór getur verið bjór sem er sérlega „jólalegur“, þ.e. tengir mann einhvern veginn við jólin. Það er auðvitað persónubundið hvernig menn upplifa jól og jólalegt en fyrir okkur eru það jólakryddin eins og negull, kanill og stjörnuanis, og svo auðvitað minnir greni mikið á jólin líka. Reyktur keimur, mandarínur, súkkulaði er líka eitthvað sem vert er að nefna í þessu samhengi.  Ristaðar möndlur, hnetur og jafnvel kókos eins og í margfrægum Macintosh mola sem alltaf er hluti af jólum.  Eitthvað Fallegt frá RVK Brewing Co. er dæmi um svona jólalegan jólabjór enda bruggaður með greni, mandarínum og Macintosh svo eitthvað sé nefnt og það kemur meira að segja fram í bragði.  Við erum afar hrifinn af þessum bjór hér en þessi bjór er jólalegasti jólabjórinn í ár hvað þetta varðar.
    .
    Giljagaur (10%) frá Borg Brugghús er annað dæmi, hér eru engum sérstökum jólakryddum bætt í bjórinn heldur gefur gerið og humlar af sér bragð sem minna okkur á jólin.  Í nefi er eins og randabrjóstsykur og á tungu er notaleg sæta sem minnir á mandarínur og svo gefa humlarnir ákveðinn furunálakeim.  Giljagaur er einn af okkar uppáhalds jólabjórum síðustu ár.
    Loks vil ég nefna einn að jólabjórunum frá Steðja, ég er í raun lítið fyrir Steðja öllu jafna en þessi finnst mér skemmtilegur og minnir mig á lakkrístoppana sem Sigrún gerir fyrir jólin, Lakkrís Porter Almáttugur Jólaöl sem er 6% porter bragðbættur með lakkrís.

    IMG_20191117_221217_531.jpg

  2. SÉRSTAKUR! Jólabjór getur líka verið bjór sem aldrei er bruggaður á öðrum árstíma, eitthvað alveg sérstak og eftirsóknarvert frá viðkomandi brugghúsi sem aðeins fæst í kringum hátíðarnar. Það má líta á það sem eins og jólagjöf frá brugghúsinu til neytandans ár hvert. Í þessu tilviki þarf bjórinn ekki að vera sérstaklega „jólalegur“ en hann þarf þó að vera eitthvað spes, eitthvað sem maður fær ekki hjá öðrum brugghúsum á öðrum árstímum.  Hér heima veit ég ekki um neitt sérstakt dæmi, nema kannski Jólakisa frá Malbygg en það er bara af því að ég elska þennan bjór.  Hann er ekkert jólalegur en hann er bara svo hrikalega góður, humlaður í drasl með citra, mosaic ofl sem gerir hann djúsí eins og ávaxtasafa.  Að mínu mati það besta sem komið hefur frá Malbygg í flokki pale ale eða IPA.  Ég lít á þetta sem gjöf Malbyggs til okkar sem elska  New England IPA.  Í fyrra kláraðist hann það fljótt að ég náði bara einni dós, í ár var ég undirbúinn og náði í slatta en ekki nóg, enda hvenær er nóg komið af góðum bjór?
    .
    IMG_20191121_222329_158.jpg
    .
  3. VERMANDI! Vetur er yfirleitt kaldur árstími, amk okkar meginn á hnettinum, snjór og kósíheit helst. Á svona tímum vill maður ekki einhvern léttan lagerbjór, session IPA eða mildan blond, við viljum eitthvað öflugt og notalegt til að hita okkur upp með.  Jólabjór getur verið fyrir okkur bjór sem virkilega rífur í og bræðir allan snjó af líkama og sál svo sem barley wine, tripel, imperial stout, strong ale og hvað þetta heitir allt saman.
    .Myndaniðurstaða fyrir hibernation aleEinn af mínum uppáhalds jólabjór er t.d. Hibernation Ale frá Great Devide Brewing CO í Denver.  Þessi bjór er af gerðinni English Old Ale sem er stíll sem ég fæ afar sjaldan, hann er tæp 9% og með jólalegri merkimiðum sem fyrirfinnst.  Þetta er bjór sem maður opnar og nýtur í einrúmi eða með elskunni sinni helst á gæruskinni fyrir framan arineldinn (ATH fæst ekki hér heima).  Giljagaur kemur vel til greina í þessum flokki líka, hann er þó ekkert allt of þungur í munni en prósenturnar hefur hann og hann gefur af sér yl!  Gouden Carolus Christmas er belgískt sterköl (10,5%) sem er sannarelga vermandi og skemmtilegur.  Þetta er ekta kósíbjór sem gefur hita en er í senn nokkuð sætur, það er mild beiskja og svo stjörnuanis og ristað malt og jafnvel karamellu epli?  Þessi fíni jólabjór sómir sér í raun líka í flokki Jólalegur!
    .
    20191130_184740-01.jpeg
  4. MATARBJÓR! Jólin snúast um mat að miklu leiti, jólakræsingar af ýmsum toga, oft erum við með á borðum eitthvað sem við aldrei borðum nema í kringum jólin, hangikjöt t.d. rjúpur,kalkún, alls konar paté ofl. Jólabjór getur vel verið bjór sem er einkar vel til þess fallinn að drekka með þessum jólamat okkar, fullkominn matarbjór sem dregur fram eiginleika í matnum eða bætir við! Skemmtilegt dæmi er Skyrjarmur frá Borg en hér erum við með bláberja súrbjór sem kemur mjög vel út með villibráðinni og reykta kjötinu og kalkúnn steinliggur líka með þessum skemmtilega bjór.  Annar skemmtilegur matarbjór er nýji bjórinn frá RVK Brewing þetta árið, Eftir Sex en um er að ræða villigerjaðan amber sem í raun er í fínu jafnvægi og því ekkert sérlega súr því sætur er hann á móti og svo þetta skemmtilega villibragð eða „funk“ eins og það er kallað.  Þetta er léttur bjór sem kemur vel út með flestu sem við höfum á borðun um jólin.
    .
    Bock er svo bjórstíll sem er frábær með mat, það er mikil karamella og rist í honum og nokkur sæta á móti.  Bock er hins vegar ekki sérstaklega jóla, hann er algengur allt árið um kring og er mikið notaður sem páskabjór líka.
    .
    Ég vil líka nefna hér til sögunnar Lepp frá The Brothers  Brewery í Vestmannaeyjum  en hann er mjög skemmtilegur, svo kallaður mjólkur stout (milk stout) en slíkur bjór er jafnan með mikla mýkt og fyllingu en í þennan stíl nota menn laktósa eða mjólkursykur sem skapar þessa skemmtilegu mjólkurkenndu áferð. Í Lepp eru auk þess settir hafrar og hveitikorn sem gefa enn meiri fyllingu. Ofan á þetta er Leppur bruggaður með kaffi sem kemur vel fram í bragði eins og ristaðar kaffibaunir og svo er hellingur af súkkulaði sem menn ná fram úr maltaða bygginu. Þessi er t.d. flottur sem meðlæti með heimlagaða toblerone ísnum eftir matinn og ekki væri verra að nota bjórinn sem flot út á ísinn.

20191205_193017-01.jpeg

5 bestu jólabjórar ársins (2018) að okkar mati!

Nú erum við búin að liggja dálítið yfir jólabjórum 2018 og komin að niðurstöðu. Þetta var ekki auðvelt en þegar allt er tekið saman, þá er útkoman þessi. Hér tökum við allt saman í einn pott, erlenda, íslenska, létta og þungaviktabjóra í sömu yfirferð. Við trúum ekki á að velja bestu bjóra í hverjum flokki fyrir sig en það er bara þannig hjá okkur. Hér eru yfir allt fimm bestur bjórar sem fást í vínbúðunum þetta árið að okkar mati og nokkur orð um afhverju okkur finnst það. Það skal tekið fram að við tökum ekki með frábæra bjóra eins og Ákaflega Gaman Þá frá RVK Brewing Company sem er alveg stórbrotinn double IPA með eins miklum humlum og hægt er að koma í einn bjór held ég svei mér þá, þessi fæst aðeins á krana í bruggstofu RVK Brewing og á völdum börum borgarinnar. Svo eru það bjórarnir frá frá KEX Brewing sem eru þrír að þessu sinni en allir bara fáanlegir á börum borgarinnar og eru þeir því ekki með í þessu mati.

Loks má geta þess að við smökkuðum ekki alla 60 jólabjóra sem í boði eru því mikið af þessu höfum við smakkað áður í gegnum tíðina, og annað bara höfðaði alls ekki til okkar.

ATH hér erum við að velja jólabjór og því tökum sérstaklega eftir því ef bjórinn færir okkur eitthvað jólalegt á tungu eða parast vel með jólamat og hefur það jákvæð áhrif á dómana. Tekið skal fram að þetta er ekki blindsmakk!

En ok fimm bestu jólabjórar sem í boði eru þetta árið koma hér:

  1. Skyrjarmur (4.3%) frá Borg. Ég vissi að þessi myndi verða flottur þegar ég smakkaði hann á gertankinum hjá þeim félögum í Borg á sínum tíma en ég bjóst ekki við að hann kæmi svona svakalega vel út. Þetta er einstaklega ljúffengur bjór, mildur og þægilegur með alveg hreint glás af bláberjum, hann er nánast þykkur eins og skyr. Þó hann sé súrbjór þá er hann í svo hárfínu jafnvægi að hann verður í raun ekki súr því berjasætan kemur á móti og mildar allt saman. Það er þannig súrsætur keimur sem gælir við bragðlaukana og já bláberin eru ekkert að fela sig. Skyrjarmur er líka fullkominn í útliti fyrir jólabjór, dimmrauður eins og blóð úr fallinni rjúpu! Þessi er stórkostlegur og parast í raun asnalega vel við villigæsapaté með klettasalati og bláberja eða hindberjavinagrette. Þvílíkt jólakombo.
    .
  2. Ginger Brett IPA (6.9%) frá Mikkeller. Þessi var hér í fyrra og árið þar á undan einnig. Hann hefur verið ofarlega á lista hjá okkur síðustu ár enda frábær jólabjór. Engifer er jú jólakrydd ekki satt og það er nóg af því í þessum. Reyndar meira engiferrót frekar en kryddið. Í grunninn er um að ræða IPA þannig að það er líf og fjör í bjórnum með notalega beiskju sem rétt aðeins tekur í og svo er ákveðin beiskja frá engiferrótinni sem tengist ofsalega vel við hið svokallað „funk“ frá villigerinu brettanomyces. Þessu bragði er ekki hægt að lýsa en menn reyna að líkja við háaloft, moldargólf, leður, fúkka ofl. Hvað sem því líður, þessi blanda með engifer og humlunum er mögnuð. Frábær einn og sér en gerir líka ofsalega skemmtilega hluti með mat hvers konar. T.d. gröfnu lambi með graflaxsósu og klettasallati.
    .
  3. Leppur (6.5%) frá Brothers Brewery. Þessi kom okkur mjög á óvart en hann er alveg magnaður frá strákunum í Vestmannaeyjum. Hér erum við með svo kallaðan mjólkur stout (milk stout) en slíkur bjór er jafnan með mikla mýkt og fyllingu en í þennan stíl nota menn laktósa eða mjólkursykur sem skapar þessa skemmtilegu mjólkurkenndu áferð. Í Lepp eru auk þess settir hafrar og hveitikorn sem gefa enn meiri fyllingu. Ofan á þetta er Leppur bruggaður með kaffi sem kemur vel fram í bragði eins og ristaðar kaffibaunir og svo er hellingur af súkkulaði sem menn ná fram úr maltaða bygginu. Bjórinn er dálítið á sætu nótunum en humlar koma þó dálítið inn á móti og tóna niður sykursæluna, en jólin eiga eignlega að vera dálítið sæt ekki satt? Þetta er frábær jóladrykkur sem er flottur sem bara desert einn og sér eftir jólasteikina eða sem meðlæti með heimlagaða toblerone ísnum og ekki væri verra að nota bjórinn sem flot á ísinn. Fæ vatn í munn við tilhugsunina.
    .
  4. Giljagaur (10%) frá Borg. Nú skulum við fá það á hreint, Giljagaur er alltaf á listanum okkar, nema það komi fram 5 nýjir alveg geggjaðir jólabjórar sem lenda ofar. Þessi bjór er bara ómissandi hluti af jólunum okkar B&M. Við erum að tala um 10% kraftmikinn bjór af gerðinni byggvín eða barleywine sem er bjórstíll með mikinn þrótt og háar áfengisprósentur. Oft með ávaxtanótum eða sætu frá vínandanum og korninu en hann getur einnig verið ansi beiskur og beittur. Stíllinn er dálítið þykkur, þéttur og yfirleitt með notalegum áfengishita. Giljagaur er að okkar mati dálítið sætbeiskur með ögn ávaxtakeim sem minnir á mandarínur eða appelsínubörk og það er mikill þróttur í honum. Með tímanum missir hann beitta bitið og verður mýkri en flóknari. Við skulum svo hafa annað á hreinu, Borg bruggar alltaf sama Giljagaurinn og ætti munur milli ára að vera óverulegur jafnvel þótt menn telji sig líka misvel við hann milli ára. Mögulega er það bara stemning smakkarans sem er mismunandi á milli ára og svo má ekki gleyma bragðlaukum sem stöðugt eru að þroskast og breytast, ég skal ekki segja? Þessi er magnaður með tvíreyktu lambi og með því. Tékkið á þessu!
    .
  5. Jólakisi (7%) frá Malbygg. Malbygg er hér með fyrsta jólabjórinn sinn í vínbúðir sem er af gerðinni India Pale Ale sem í raun mætti flokka sem New England IPA eða NEIPA. Bjórinn hefur samt ekkert jólalegt uppá að bjóða, nema þá ef menn tengja við furunálarnar sem oft má finna af humlunum sérsaklega simcoe. Merkimiðinn er jólalegur og nafnið, hins vegar er þessi bjór bara svo ofsalega góður ef maður þolir beiskju og safaríka tóna frá humlunum að það er ekki hægt annað en að hafa hann á lista. Citra, simcoe og mosaic tröllríða bragðlaukunum á góðan máta samt. Humlahausar, þið eigið eftir að elska þennan.

Ef við værum með 6 sæti þá er Eitthvað Fallegt (5%) fyrsti jólabjórinn frá RVK Brewing næstur inn. Þessi bjór er ofsalega skemmtilegur og sérstaklega jólalegur. Hér má eiginlega segja að menn séu búnir að koma jólum í flösku en bjórinn er bruggaður með heilu jólatré ásamt mandarínum, negulnöglum, loftkökum, vanilluhringjum og machintos sælgæti úr heilli dós, vondu og góðu molarnir allt saman í einn pott. Já þessi bjór fær sko jólaprik frá okkur. Við köllum stílinn bakkelsis IPA eða pastry IPA Valli og Siggi kalla hann season IPA sem sagt ekki session IPA. Í bragði má finna greninálar, hvort sem það er frá trénu eða simcoe humlunum er ekki gott að segja, það er alla vega notaleg beiskja í honum og svo kemur mandarínukeimurinn vel í gegn, sérstaklega í nefi. Í eftirbragði er svo þægilegur kryddkeimur sem líkast til er frá negulnöglunum en þetta er látlaust sem betur fer því negull getur algjörlega rústað góðum bjór. Fyrir okkur gengur þetta upp og við erum ægilega ánægð með hann hér á B&M. Mér skilst að lítið sé til af honum þannig að það er um að gera að næla sér í flöskur.

Jólabjórinn 2018, hvað mun fara í bjórkælinn okkar?

Þá er bjórskápurinn á nano kominn í smá jólabúning en það vantar auðvitað allan jólabjórinn. Giljagaur og Hurðaskellir 2017 eru reyndar að koma sér fyrir þarna auðvitað en annað þarf að fara kaupa inn. Sala jólabjórs hefst núna á morgun 15.nóv og það er sko um nóg að velja, reyndar eiginlega of mikið en um 60 tegundir hafa boðað komu sína þessi jólin. Nú hefur Bjór & Matur ekki lagt í það að fara að smakka þetta allt fyrir útgáfudag því við bara nennum því ekki, megnið af þessu er einfaldlega lítt spennandi fyrir fólk sem gerir kröfur, smekkur manna er svo auðvitað mismunandi sem betur fer.

Hér ætla ég að renna yfir það sem mun fara í minn bjórskáp yfir hátíðarnar, margt hef ég smakkað í gegnum tíðina og lært að forðast en mikið á þessum lista mínum, sérstaklega íslenski bjórinn, eru samt spádómar og spennandi verður að sjá hvort bjórinn standist kröfur eftir að hann er kominn í hús.

Það má byrja á því að taka fram að ekki allt sem er á listanum í Vínbúðinni (sjá hér) mun komast til byggða en það geta verið ýmsar ástæður fyrir því. Menn ná ekki að koma bjórnum í umbúðir eða hann einfaldlega er ekki tilbúinn fyrir jólin eða útkoman var ekki það sem ætlast var til.

Það sem fer í skápinn minn verður eftirfarandi:

Borg jólabjórinn. Góðkunningjar frá Borg eru alltaf á sínum stað, auk Giljagaurs og Hurðaskellis frá því í fyrra mun ég næla mér í Giljagaur (barley wine) og Hurðaskellir 2018 ( rúgvínstunnuþroskaður imperial porter) og passa að taka inn nóg til að geyma fram til næstu jóla. Ég hef smakkað þá báða þetta árið og var ég sérstaklega ánægður með Giljagaur, Hurðaskellir var flottur líka á krana alla vega. Ég smakkaði líka Skyrjarm sem er nýjasti jólabjórinn þeirra og er bláberja súrbjór og auðvitað með skyri. Þó ég smakkaði hann bara af gertanki ekki full kláraðan þá lofaði hann mjög góðu. Askasleikir er svo kominn í dósir og með breyttu geri. Flottur session bjór sem gengur vel með flestum jólamat. Ætli maður hafi ekki nokkrar dósir fyrir gesti og gangandi.

Ölgerðin. Fyrst við erum að tala um Borg þá má skoða bjórinn frá Ölgerðinni en það er einn bjór frá þeim sem vert er að skoða, Boli Doppel Bock en þessi bjór er furðulega ljúfur og algjörlega stórkostleg pörun við flest sem við borðum um jólin. Allt annað frá þeim mun ég láta vera. Bara ekki minn tebolli.

RVK Brewing Company. Hér erum við nokkuð örugg með góðan jólabjór. Co & Co er á listanum en hann mun ekki koma í Vínbúðina ef ég skildi þá félaga Valla og Sigga rétt. Hann er bara ekki tilbúinn í það ævintýri. Hins vegar ætla þeir að koma öðrum jólabjór í sölu, Eitthvað Fallegt heitir hann, sá er kominn á kút hjá þeim á bruggstofuna en kemur í næstu viku í Vínbúðina. Þessi er mjög skemmtilegur, bakkelsis IPA vil ég kalla hann, en þeir hentu í hann heilu jólatré, machintosh dollu og mandarínum með negulnöglum svo eitthvað sé nefnt. Já hljómar undarlega en hann bragðaðist virkilega vel, reyndar var hann ekki tilbúinn þegar ég smakkaði hann um daginn. Þessi mun rata rakleiðis í minn bjórkæli þegar hann dettur í sölu.

Malbygg. Malbygg hefur sannarlega sannað sig frá opnun fyrr á þessu ári með sérdeilis ljúffengum bjórum af ýmsum toga. Fyrsti jólabjórinn þeirra Jólakisi (7% DDH IPA) er kannski ekkert sérstaklega jólalegur bjór en hann er sannarlega ljúffengur og umbúðirnar eru skemmtilegar og jólalegar. Jólakisi mun klárlega taka nokkuð pláss í bjórkælinum yfir hátíðarnar. Malbygg er svo reyndar með annan jólabjór þetta árið sem er sérlagaður fyrir Skúla Craftbar og fæst þar á krana. Sá heitir Djús Kristur og er súrbjór með mango og vanillu sem vert er að kanna.

KEX Brewing. Það voru 3 jólabjórar boðaðir þetta árið en því miður koma þeir ekki í búðir. Tæknilegir örðugleikar. Hins vegar munu þeir fara á dælur á helstu bari borgarinnar í litlu upplagi þó. Conceptið er skemmtilegt, eins konar „malt og appelsín“ pæling, en auðvitað ekki malt og appelsín heldur Forbidden Christmas Fruit sem er af gerðinni gose (4% súrbjór) með helling af mandarínum og ögn vanillu og svo Afi María sem er mjólkur porter. Hugmyndin er að blanda þessu saman og mynda þannig alveg nýjan bjór og í raun bjórstíl ef út í það er farið. Spennandi. Svo verða þeir með KEX Mas sem er jólaútgáfa af Thunder IPA. Því miður verður ekkert af þessu í bjórkælinum mínum þetta árið þar sem ekkert er til á dósum eða gleri.

Brothers Brewing í Eyjum. Ég er dálítið spenntur fyrir Lepp sem ku vera ljúffengur. Lýsingin er góð í það minnsta, kaffi rjóma stout. Ég náði ekki að smakka þennan í fyrra en þá kom hann einungis á dælu. Nú er hann endurbættur og í flöskum. Þegar þetta er ritað er ég ekki búinn að smakka en ég ætla að lauma eins og 2 – 3 flöskum í kælinn.

Steðji. Steðji brugghús hefur ekki tekist að fanga mig til þessa. Þeir gerðu þó einn jólabjór hér um árið sem var nokkuð skemmtilegur. Jólasteðji eða álíka, með lakkrís. Ef hann er í sölu í ár er vert að prófa hann. Steðji fær hins vegar ekki inngöngu í skápinn minn þetta árið.

Annað á lista Vínbúðarinnar vekur ekki áhuga minn, ég mun samt klárlega smakka eitt og annað.

Svo er það erlendi bjórinn. Þar er eru nokkrir stórkostlegir sem munu fara í skápinn.

Mikkeller Hoppy Luvin er geggjaður IPA sem ég tek alltaf inn, sama má segja um BrewDog Hoppy Christmas en báðir þessir eru beiskir og hressandi IPA bjórar. Svo er Mikkeller Brett IPA með þeim betri og mjög næs matarbjór með funky brettkeim ofan á milda en hressandi beiskju. To Öl Snowball er alltaf með þeim betri, en hér er frábær saison á ferð en saison er bjórstíll sem nánast passar með öllu. To Öl er einnig með annan bjór þetta árið sem menn verða að prófa, Santa Gose Fuck it All sem er súrbjór af bestu sort. Vá hvað þetta verður gaman!

Hurðaskellir frá Borg kemur með látum! Svakalegur!!!

Það er orðin rík hefð meðal bjórframleiðenda hér heima að brugga eitthvað spennandi og gómsætt fyrir jólin, Jólabjórinn!  Já það er alltaf nokkuð tilhlökkunarefni bjórnördsins að sjá hvað eða hvernig bjór kemur í aðdragandi jóla.  Sumir fara öruggu leiðina og gera alltaf sama bjórinn, sem er í lagi ef hann er góður, á meðan aðrir eru stöðugt að koma okkur á óvart með nýjum uppátækjum.  Þetta er svo sem ekki íslensk uppfinning, síður en svo en það er bara algjört aukaatriði.  Borg Brugghús hefur til þessa alltaf gert nýjan jólabjór undan farin ár og skírt í höfuðið á jólasveinunum okkar 13.  Giljagaur muna sumir eftir en hann hefur fest sig í sessi sem árlegur jólabjór frá brugghúsinu og hjá mörgum, þmt undirrituðum, orðinn ómissandi hluti af jólahaldinu.  Ekki skemmir svo fyrir að mikið af Borg bjórum henta vel til geymslu og þroskunar og taka þannig skemmtilegum breytingum þegar árin færast yfir. Giljagaur er þannig bjór og er nú orðið hefð hjá mörgum að opna árs eða tveggja ára Giljagaur á jólunum og bera saman við nýja Giljagaurinn.   Ég á t.d. alltaf amk árs gamlan gaur í skáp.

gilli2

Hurðaskellir er svo nýjasti jólabjórinn frá Borg og margir geta reiknað út að það eru 7 eftir ókomnir frá brugghúsinu þannig að við eigum amk 7 spennandi ár framundan.  Hurðaskellir er svakalegur enda mikill jólasveinn sem kemur með látum.  Það er óhætt að segja að Hurðaskellir komi með látum.  Við erum að tala um 11.5% Imperial Porter sem er þroskaður á rúgvískítunnum.   Munurinn á porter og stout er svo efni í heilmiklar pælingar, imperial porter stendur á flöskunni og þá er þetta imperial porter frekar en stout.

Það fyrsta sem maður tekur eftir er þessi lykt, hún er hreint út sagt ótrúleg, það er mikil sæta og súkkulaði með dálitlum kókoskeim.  Rom og rúsínur koma upp í hugan þó svo að hvorugt sé í þessum bjór.  Æðislegt.  Í munni er bjórinn strax mikill með notalegum hita frá áfenginu án þess þó að maður finni truflandi spritt.  Þessi 11.5% koma því vel út og eru skemmtilega falin á bak við sætan rúgvískíkeim og svo er ögn vanilla og kókos líklega frá tunnunni sem þó ná engum hæðum því það kemur fram ögn kaffirist í restina.   Bjórinn er þó ekki eins mjúkur og mikill í munni eins og lyktin gefur dálítið til kynna.

Þetta er einfaldlega magnaður bjór sem kemur væntanlega í búðir 15.11. og þá sennilega í litlu magni.  Þetta er eins og Giljagaur kjörinn bjór til geymslu og verður gaman að sjá hvernig hann verður 2018 eftir ár í skápnum.