Jólabjórhugleiðingar 2019

Ég hef oft verið tímanlegri í jólaskrifum en nú eru jólin bara rétt handan við hornið, ég hef greinilega verið og upptekinn af lífinu.  Jólabjórinn er farinn að flæða og sumt reyndar búið nú þegar í vínbúðunum sem mér finnst alltaf jafn sorglegt., t.d. Jólakisi frá Malbygg.  Jólabjórinn kemur svo snemma í verslanir og oft í svo litlu magni að hann klárast fyrir Desember mánuð.  Ég tók samt eftir því að margir lásu frá mér vangavelturnar um jólabjórinn frá 2018 núna fyrir þessi jól enda er mikið af því sama ár eftir ár í boði.  Ég er því kannski meira að skrifa þessar pælingar mínar núna fyrir næsta ár, 2020?

Í gegnum tíðina hef ég reynt að smakka allt sem í boði er hver jól en síðustu 2-3 ár hefur verið svo mikið í boði að ég hef bara ekki boðið lifrinni né buddunni uppá að smakka það allt. Enda er maður eiginlega hættur að vera spenntur fyrir jólabjór, þetta er meira eða minna frekar óspennandi hér heima því miður.  Það er þó eitthvað sem vert er að taka eftir. Reynslan hefur svo sem kennt mér ýmislegt og ég er farinn að vita hvað ber að forðast, hvað er forvitilegt og hvað er gott fyrirfram.  En það verður aldrei of oft sagt, smekkur manna er misjafn, sem betur fer og ætla ég því ekki að reyna að segja ykkur hvað ykkur finnst gott!

En hvað er jólabjór?  Ég hef oft velt þessu fyrir mér og varpað fram spurningunni og í raun ekki komist að einni ákv niðurstöðu, eitt er þó víst að jólabjór er ekki til sem skilgreindur bjórstíll heldur er þetta bara bjór sem menn framleiða sérstaklega fyrir hátíðarnar, ja eða fyrir Nóvember mánuð í sumum tilvikum (Jólakisi).   Jólabjór getur því verið alla vega og í raun getur enginn sagt til um hvernig hann á að vera eða bragðast.  Við hér á Bjór & Matur höfum hins vegar ákveðnar skoðanir á þessu málefni sem mig langar að fara aðeins yfir.

Jólabjórinn fyrir okkur á að vera dálítið sérstakur, ekki bara sami IPA bjórinn eða lagerinn með nýjum miða og nafni eins og oft er.  Ef við tökum þetta saman hér í nokkra flokka gæti þetta verið einhvern veginn svona:

 1. 20191201_164529-01.jpegJÓLALEGUR! Jólabjór getur verið bjór sem er sérlega „jólalegur“, þ.e. tengir mann einhvern veginn við jólin. Það er auðvitað persónubundið hvernig menn upplifa jól og jólalegt en fyrir okkur eru það jólakryddin eins og negull, kanill og stjörnuanis, og svo auðvitað minnir greni mikið á jólin líka. Reyktur keimur, mandarínur, súkkulaði er líka eitthvað sem vert er að nefna í þessu samhengi.  Ristaðar möndlur, hnetur og jafnvel kókos eins og í margfrægum Macintosh mola sem alltaf er hluti af jólum.  Eitthvað Fallegt frá RVK Brewing Co. er dæmi um svona jólalegan jólabjór enda bruggaður með greni, mandarínum og Macintosh svo eitthvað sé nefnt og það kemur meira að segja fram í bragði.  Við erum afar hrifinn af þessum bjór hér en þessi bjór er jólalegasti jólabjórinn í ár hvað þetta varðar.
  .
  Giljagaur (10%) frá Borg Brugghús er annað dæmi, hér eru engum sérstökum jólakryddum bætt í bjórinn heldur gefur gerið og humlar af sér bragð sem minna okkur á jólin.  Í nefi er eins og randabrjóstsykur og á tungu er notaleg sæta sem minnir á mandarínur og svo gefa humlarnir ákveðinn furunálakeim.  Giljagaur er einn af okkar uppáhalds jólabjórum síðustu ár.
  Loks vil ég nefna einn að jólabjórunum frá Steðja, ég er í raun lítið fyrir Steðja öllu jafna en þessi finnst mér skemmtilegur og minnir mig á lakkrístoppana sem Sigrún gerir fyrir jólin, Lakkrís Porter Almáttugur Jólaöl sem er 6% porter bragðbættur með lakkrís.

  IMG_20191117_221217_531.jpg

 2. SÉRSTAKUR! Jólabjór getur líka verið bjór sem aldrei er bruggaður á öðrum árstíma, eitthvað alveg sérstak og eftirsóknarvert frá viðkomandi brugghúsi sem aðeins fæst í kringum hátíðarnar. Það má líta á það sem eins og jólagjöf frá brugghúsinu til neytandans ár hvert. Í þessu tilviki þarf bjórinn ekki að vera sérstaklega „jólalegur“ en hann þarf þó að vera eitthvað spes, eitthvað sem maður fær ekki hjá öðrum brugghúsum á öðrum árstímum.  Hér heima veit ég ekki um neitt sérstakt dæmi, nema kannski Jólakisa frá Malbygg en það er bara af því að ég elska þennan bjór.  Hann er ekkert jólalegur en hann er bara svo hrikalega góður, humlaður í drasl með citra, mosaic ofl sem gerir hann djúsí eins og ávaxtasafa.  Að mínu mati það besta sem komið hefur frá Malbygg í flokki pale ale eða IPA.  Ég lít á þetta sem gjöf Malbyggs til okkar sem elska  New England IPA.  Í fyrra kláraðist hann það fljótt að ég náði bara einni dós, í ár var ég undirbúinn og náði í slatta en ekki nóg, enda hvenær er nóg komið af góðum bjór?
  .
  IMG_20191121_222329_158.jpg
  .
 3. VERMANDI! Vetur er yfirleitt kaldur árstími, amk okkar meginn á hnettinum, snjór og kósíheit helst. Á svona tímum vill maður ekki einhvern léttan lagerbjór, session IPA eða mildan blond, við viljum eitthvað öflugt og notalegt til að hita okkur upp með.  Jólabjór getur verið fyrir okkur bjór sem virkilega rífur í og bræðir allan snjó af líkama og sál svo sem barley wine, tripel, imperial stout, strong ale og hvað þetta heitir allt saman.
  .Myndaniðurstaða fyrir hibernation aleEinn af mínum uppáhalds jólabjór er t.d. Hibernation Ale frá Great Devide Brewing CO í Denver.  Þessi bjór er af gerðinni English Old Ale sem er stíll sem ég fæ afar sjaldan, hann er tæp 9% og með jólalegri merkimiðum sem fyrirfinnst.  Þetta er bjór sem maður opnar og nýtur í einrúmi eða með elskunni sinni helst á gæruskinni fyrir framan arineldinn (ATH fæst ekki hér heima).  Giljagaur kemur vel til greina í þessum flokki líka, hann er þó ekkert allt of þungur í munni en prósenturnar hefur hann og hann gefur af sér yl!  Gouden Carolus Christmas er belgískt sterköl (10,5%) sem er sannarelga vermandi og skemmtilegur.  Þetta er ekta kósíbjór sem gefur hita en er í senn nokkuð sætur, það er mild beiskja og svo stjörnuanis og ristað malt og jafnvel karamellu epli?  Þessi fíni jólabjór sómir sér í raun líka í flokki Jólalegur!
  .
  20191130_184740-01.jpeg
 4. MATARBJÓR! Jólin snúast um mat að miklu leiti, jólakræsingar af ýmsum toga, oft erum við með á borðum eitthvað sem við aldrei borðum nema í kringum jólin, hangikjöt t.d. rjúpur,kalkún, alls konar paté ofl. Jólabjór getur vel verið bjór sem er einkar vel til þess fallinn að drekka með þessum jólamat okkar, fullkominn matarbjór sem dregur fram eiginleika í matnum eða bætir við! Skemmtilegt dæmi er Skyrjarmur frá Borg en hér erum við með bláberja súrbjór sem kemur mjög vel út með villibráðinni og reykta kjötinu og kalkúnn steinliggur líka með þessum skemmtilega bjór.  Annar skemmtilegur matarbjór er nýji bjórinn frá RVK Brewing þetta árið, Eftir Sex en um er að ræða villigerjaðan amber sem í raun er í fínu jafnvægi og því ekkert sérlega súr því sætur er hann á móti og svo þetta skemmtilega villibragð eða „funk“ eins og það er kallað.  Þetta er léttur bjór sem kemur vel út með flestu sem við höfum á borðun um jólin.
  .
  Bock er svo bjórstíll sem er frábær með mat, það er mikil karamella og rist í honum og nokkur sæta á móti.  Bock er hins vegar ekki sérstaklega jóla, hann er algengur allt árið um kring og er mikið notaður sem páskabjór líka.
  .
  Ég vil líka nefna hér til sögunnar Lepp frá The Brothers  Brewery í Vestmannaeyjum  en hann er mjög skemmtilegur, svo kallaður mjólkur stout (milk stout) en slíkur bjór er jafnan með mikla mýkt og fyllingu en í þennan stíl nota menn laktósa eða mjólkursykur sem skapar þessa skemmtilegu mjólkurkenndu áferð. Í Lepp eru auk þess settir hafrar og hveitikorn sem gefa enn meiri fyllingu. Ofan á þetta er Leppur bruggaður með kaffi sem kemur vel fram í bragði eins og ristaðar kaffibaunir og svo er hellingur af súkkulaði sem menn ná fram úr maltaða bygginu. Þessi er t.d. flottur sem meðlæti með heimlagaða toblerone ísnum eftir matinn og ekki væri verra að nota bjórinn sem flot út á ísinn.

20191205_193017-01.jpeg

Jólabjórinn 2018, hvað mun fara í bjórkælinn okkar?

Þá er bjórskápurinn á nano kominn í smá jólabúning en það vantar auðvitað allan jólabjórinn. Giljagaur og Hurðaskellir 2017 eru reyndar að koma sér fyrir þarna auðvitað en annað þarf að fara kaupa inn. Sala jólabjórs hefst núna á morgun 15.nóv og það er sko um nóg að velja, reyndar eiginlega of mikið en um 60 tegundir hafa boðað komu sína þessi jólin. Nú hefur Bjór & Matur ekki lagt í það að fara að smakka þetta allt fyrir útgáfudag því við bara nennum því ekki, megnið af þessu er einfaldlega lítt spennandi fyrir fólk sem gerir kröfur, smekkur manna er svo auðvitað mismunandi sem betur fer.

Hér ætla ég að renna yfir það sem mun fara í minn bjórskáp yfir hátíðarnar, margt hef ég smakkað í gegnum tíðina og lært að forðast en mikið á þessum lista mínum, sérstaklega íslenski bjórinn, eru samt spádómar og spennandi verður að sjá hvort bjórinn standist kröfur eftir að hann er kominn í hús.

Það má byrja á því að taka fram að ekki allt sem er á listanum í Vínbúðinni (sjá hér) mun komast til byggða en það geta verið ýmsar ástæður fyrir því. Menn ná ekki að koma bjórnum í umbúðir eða hann einfaldlega er ekki tilbúinn fyrir jólin eða útkoman var ekki það sem ætlast var til.

Það sem fer í skápinn minn verður eftirfarandi:

Borg jólabjórinn. Góðkunningjar frá Borg eru alltaf á sínum stað, auk Giljagaurs og Hurðaskellis frá því í fyrra mun ég næla mér í Giljagaur (barley wine) og Hurðaskellir 2018 ( rúgvínstunnuþroskaður imperial porter) og passa að taka inn nóg til að geyma fram til næstu jóla. Ég hef smakkað þá báða þetta árið og var ég sérstaklega ánægður með Giljagaur, Hurðaskellir var flottur líka á krana alla vega. Ég smakkaði líka Skyrjarm sem er nýjasti jólabjórinn þeirra og er bláberja súrbjór og auðvitað með skyri. Þó ég smakkaði hann bara af gertanki ekki full kláraðan þá lofaði hann mjög góðu. Askasleikir er svo kominn í dósir og með breyttu geri. Flottur session bjór sem gengur vel með flestum jólamat. Ætli maður hafi ekki nokkrar dósir fyrir gesti og gangandi.

Ölgerðin. Fyrst við erum að tala um Borg þá má skoða bjórinn frá Ölgerðinni en það er einn bjór frá þeim sem vert er að skoða, Boli Doppel Bock en þessi bjór er furðulega ljúfur og algjörlega stórkostleg pörun við flest sem við borðum um jólin. Allt annað frá þeim mun ég láta vera. Bara ekki minn tebolli.

RVK Brewing Company. Hér erum við nokkuð örugg með góðan jólabjór. Co & Co er á listanum en hann mun ekki koma í Vínbúðina ef ég skildi þá félaga Valla og Sigga rétt. Hann er bara ekki tilbúinn í það ævintýri. Hins vegar ætla þeir að koma öðrum jólabjór í sölu, Eitthvað Fallegt heitir hann, sá er kominn á kút hjá þeim á bruggstofuna en kemur í næstu viku í Vínbúðina. Þessi er mjög skemmtilegur, bakkelsis IPA vil ég kalla hann, en þeir hentu í hann heilu jólatré, machintosh dollu og mandarínum með negulnöglum svo eitthvað sé nefnt. Já hljómar undarlega en hann bragðaðist virkilega vel, reyndar var hann ekki tilbúinn þegar ég smakkaði hann um daginn. Þessi mun rata rakleiðis í minn bjórkæli þegar hann dettur í sölu.

Malbygg. Malbygg hefur sannarlega sannað sig frá opnun fyrr á þessu ári með sérdeilis ljúffengum bjórum af ýmsum toga. Fyrsti jólabjórinn þeirra Jólakisi (7% DDH IPA) er kannski ekkert sérstaklega jólalegur bjór en hann er sannarlega ljúffengur og umbúðirnar eru skemmtilegar og jólalegar. Jólakisi mun klárlega taka nokkuð pláss í bjórkælinum yfir hátíðarnar. Malbygg er svo reyndar með annan jólabjór þetta árið sem er sérlagaður fyrir Skúla Craftbar og fæst þar á krana. Sá heitir Djús Kristur og er súrbjór með mango og vanillu sem vert er að kanna.

KEX Brewing. Það voru 3 jólabjórar boðaðir þetta árið en því miður koma þeir ekki í búðir. Tæknilegir örðugleikar. Hins vegar munu þeir fara á dælur á helstu bari borgarinnar í litlu upplagi þó. Conceptið er skemmtilegt, eins konar „malt og appelsín“ pæling, en auðvitað ekki malt og appelsín heldur Forbidden Christmas Fruit sem er af gerðinni gose (4% súrbjór) með helling af mandarínum og ögn vanillu og svo Afi María sem er mjólkur porter. Hugmyndin er að blanda þessu saman og mynda þannig alveg nýjan bjór og í raun bjórstíl ef út í það er farið. Spennandi. Svo verða þeir með KEX Mas sem er jólaútgáfa af Thunder IPA. Því miður verður ekkert af þessu í bjórkælinum mínum þetta árið þar sem ekkert er til á dósum eða gleri.

Brothers Brewing í Eyjum. Ég er dálítið spenntur fyrir Lepp sem ku vera ljúffengur. Lýsingin er góð í það minnsta, kaffi rjóma stout. Ég náði ekki að smakka þennan í fyrra en þá kom hann einungis á dælu. Nú er hann endurbættur og í flöskum. Þegar þetta er ritað er ég ekki búinn að smakka en ég ætla að lauma eins og 2 – 3 flöskum í kælinn.

Steðji. Steðji brugghús hefur ekki tekist að fanga mig til þessa. Þeir gerðu þó einn jólabjór hér um árið sem var nokkuð skemmtilegur. Jólasteðji eða álíka, með lakkrís. Ef hann er í sölu í ár er vert að prófa hann. Steðji fær hins vegar ekki inngöngu í skápinn minn þetta árið.

Annað á lista Vínbúðarinnar vekur ekki áhuga minn, ég mun samt klárlega smakka eitt og annað.

Svo er það erlendi bjórinn. Þar er eru nokkrir stórkostlegir sem munu fara í skápinn.

Mikkeller Hoppy Luvin er geggjaður IPA sem ég tek alltaf inn, sama má segja um BrewDog Hoppy Christmas en báðir þessir eru beiskir og hressandi IPA bjórar. Svo er Mikkeller Brett IPA með þeim betri og mjög næs matarbjór með funky brettkeim ofan á milda en hressandi beiskju. To Öl Snowball er alltaf með þeim betri, en hér er frábær saison á ferð en saison er bjórstíll sem nánast passar með öllu. To Öl er einnig með annan bjór þetta árið sem menn verða að prófa, Santa Gose Fuck it All sem er súrbjór af bestu sort. Vá hvað þetta verður gaman!