Ekki má rugla Gosa, litlu hraðlygnu strengjabrúðunni með langa nefið, við gose sem er sérkennilegur og forn bjórstíll sem hefur síðustu ár verið að fá mikla athygli í bjórheiminum. Kaninn er sérstaklega hrifinn af þessum bjórstíl og við erum farin að sjá hann í mun meira mæli hér heima líka undanfarið. Gose á rætur sínar að rekja til Þýskalands fyrir einhverjum þúsundum árum síðan. Hann dregur nafn sitt af ánni Gose sem rennur í gegnum miðaldarbæinn Goslar þaðan sem bjórinn er talinn hafa komið. Gose er súr hveitibjór bruggaður með ögn söltu vatni úr ánni (sem reyndar er meiri lækur) Gose á sínum tíma en í dag bæta men auðvitað salti í bjórinn. Gose er svo jafnan kryddaður með kóríander og mildum humlum. Bjórstíllinn, sem var vinsælasti bjór í Leipzig og nágrenni í kringum 1900, dó næstum því út á stríðsárunum en í kringum árið 2000 var honum sem betur fer komið til bjargar og stíllinn endurlífgaður.

Haustrunk Nr.C17 sem líklega má bera fram “hásdrúnk” á germönsku er nýr collab bjór frá Borg brugghús og þýska brugghúsinu Wacken Brauerei og er einmitt af gerðinni gose. Hér hafa menn svo poppað bjórinn aðeins upp með apríkósum, hafþyrnum og vanillu sennilega til að gera hann meira íslendingavænni? Það er svo skemmtileg staðreynd að Helge frá Wacken mætti á klakann með vatn úr Gose sem sett var í suðuna, svona meira til að tengja bjórinn við lækinn á táknrænan máta.
En þessi herlegheit er nú komin í sölu, ég hef ekki smakkað hann ennþá en klassískt er gose súr á tungu, vel kolsýrður, léttur og mildur með öööörlítilli seltu sem svo sem finnst ekki mikið. Haustrunk er svo með áhugaverðum ávöxtum sem munu líka setja sinn svip á þetta allt. Hlakka til að prófa!