Eins og menn vita orðið (sem lesa þessar færslur mínar) þá er ég algjörlega forfallinn New England IPA (NEIPA) fíkill þessa stundina. Það breytist sennilega einhvern tíman eins og allt en akkúrat núna er þetta málið en þess má geta að fleiri eru sammála mér þar sem NEIPA stíllinn er vinsælasti bjórstíll veraldar um þessar mundir. Ég hef kvartað í gegnum tíðina yfir NEIPA leysi hér heima en loksins eru íslensku brugghúsin farin að reyna fyrir sér í hinum safaríku NEIPA stíl. Það er auðvitað alls ekki til að þóknast mér samt bara svo það sé skjalfært!
Tilrunir brugghúsanna hafa að mestu verið svona la la til þessa og í raun ekki alveg náð þeim hæðum sem ég persónulega er að leita eftir. Reyndar eru Malbygg guttar nánast búnir að mastera þetta og ég veit að það mun halda áfram að berast einhver snilld frá þeim! Ég viðurkenni það samt, mín viðmið eru Trillium í Boston, eða NEIPA bjórinn frá Lamplighter í sömu borg. Þessi brugghús hafa neglt þennan stíl algjörlega. Það er í raun ekki fyrr en núna….akkúrat í dag sem ég hugsaði Boston hvað? Þegar ég smakkaði nýjasta NEIPA bjórinn á klakanum ÁST Á PÖBBNUM frá Borg, en þeir hafa undanfarið verið að ferja í okkur NEIPA bjóra sem hafa verið stórgóðir nokkrir hverjir. Bjórinn tilheyrir svo kallaðri T línu sem þýðir því miður að hann kemur bara á kúta í litlu magni á helstu bari borgarinnar. Ást á pöbbnum er nr 6 í röðinni en nafnið er vísun í lagatexta okkar einu sönnu indversku prinsessu Leoncie sem eins og allir vita gerir stórbrotna og skemmtilega texta. Svei mér þá, eftir nokkra Ást Á Pöbbnum frá Borg þá er bara alveg hægt að hlusta á Leoncie….hún hljómar bara nokkuð sæmilega….magnað. Bjórinn er reyndar 7.1% sem hjálpar aðeins.
Alla vega, hér vil ég meina að menn hafi náð því sem að mínu mati er frábær safaríkur skýjaður New England IPA á pari við það sem maður kemst í tæri við í Boston. Þetta eru stór orð…ég veit en ég ætla að lofa bruggurum Borgar Brugghúss að eiga þau bara. Ég vona að fólk reyni að ná sér í smakk á börum borgarinnar en þetta þarf að drekkast sem fyrst því hér er um ferskvöru að ræða sem kemur í litlu upplagi. Fyrir mína parta myndi ég vilja fá þennan bjór á dósir. Líf mitt myndir bara breytast heilmikið við það að geta hvenær sem er rölt út í ÁTVR og fengið frábæran NEIPA þegar mér henntar. Draumar eru draumar þannig er það bara. Takk fyrir mig Leoncie og Borg.