Íslenskt á Bjórhátíð 2019

Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum sem rambar inn á Bjór & Matur að framundan er einn stærsti bjórviðburður ársins hér á fróni, en ef svo er þá má lesa nánar um komandi árlegu bjórhátíð á KEX hér. Ég hef einblínt dálítið á erlendu brugghúsin til þessa sem er svo sem ekkert undarlegt, það er erfitt að komast yfir bjór frá mörgum þeirra og því magnað að geta smakkað bjór frá þeim hér heima á klakanum og í raun algjörlega einstakt tækifæri í svona litlu samfélagi sem Ísland er. Það er hins vegar fjöldi af íslenskum brugghúsum á hátíðinni í ár og sum voru í fyrra líka. Mig langar að rúlla aðeins í gegnum þau hér.

Staðfest eru eftirfarandi, Borg Brugghús, Malbygg, RVK Brewing Co., The Brothers Brewery, Smiðjan Brugghús, IDE Brugghús, Lady Brewing, Álfur, Og Natura, Ægir Brugghús, Mono, Ölgerðin og Vífilfell. Það gætu auðvitað fleiri boðað komu sína áður fram líða stundir. KEX Brewing verður auðvitað á staðnum líka.

Borg Brugghús

Ég þarf ekki að fjalla mikið um þessa snillinga en þeir hafa verið að marg sanna sig síðustu ár með mögnuðum bjórum af ýmsum toga. Nú undanfarið hafa þeir fylgt tíðarandanum og fært okkur hverja safabombuna (NEIPA) á fætur annari en ég held að óhætt sé að segja að hinir skýjuðu New England IPA bjórar hafa verið gríðarlega vinsælir hér heima sem og erlendis síðustu misseri. En Borg kann sannarlega að brugga annað en NEIPA en þeir sýndu okkur það með skemmtilegu twisti í lok árs með frábærum bjór af gerðinni wild ale sem bar nafnið Esja og markar upphaf af súrbjóralínu vonandi frá þeim snillingum. Það verður spennandi að sjá hvað þeir tefla fram á bjórhátíð í ár.

Malbygg

Bergur, Andri og Ingi eru bjórperrar af líf og sál en þeir eru gaurarnir á bak við Malbygg. Ég hef fjallað um þá nokkrum sinnum áður og ætla ég ekki að skrifa hér einhverjar langlokur en hér má lesa nánar um Malbygg. Malbygg sem hóf göngu sína á síðasta ári hefur á sínum stutta líftíma stimplað sig rækilega inn í íslenska bjórmenningu með frábærum og aðgengilegum bjór og vil ég meina að hér sé eitt besta brugghús landsins um þessar mundir. Þessir guttar munu sko sannarlega mæta með gott á bjórhátíð. Fyrir þau ykkar sem ekki geta beðið þá hvet ég ykkur til að taka forskot á sæluna en þeir eru með alla vega 5 tegundir til sölu í vínbúðum landsins, ma Galaxy IPA sem er frábær um þessar mundir.

20180909_180933-01.jpeg

RVK Brewing Co.

Hér er enn eitt brugghúsið sem hóf göngu sína á síðasta ári og hefur verið að gera frábæra hluti á árinu. Það eru þeir Sigurður Snorra og Valli brugg sem sjá um að semja bjórinn sem menn geta notið í fyrstu formlegu bruggstofu borgarinnar. RVK Brewing hefur verið að gera alls konar skemmtilegt síðustu misserin, ss bakkelsisbjór með snúðum frá Brauð & Co, flippaðan morgunverðar stout með cocopuffs, höfrum, pönnukökum ofl og svo var jólabjórinn þeirra ansi jólalegur með heilu jólatré og með því í bruggferlinu. Já það er óhætt að segja að RVK Brewing sé bæði lifandi og skemmtilegt brugghús sem þorir að fara skrítnar leiðir. Það besta er að útkoman er oftast helvíti góð. Hvað fáum við að smakka á bjórfest? Mögulega tunnuþroskaða útgáfu af Co & Co? Reyndar þykir mér líklegt að það verði meira í súrum dúr hjá þeim í anda Þorrans.

The Brothers Brewery

Strákarnir frá Eyjum hafa verið að gera fína hluti síðustu ár. Lengi vel var erfitt að smakka nokkuð frá þeim nema í Eyjum en nú er bjórinn þeirra farinn að detta inn á bari borgarinnar hér og þar og á flöskur í vínbúðirnar. Bjórinn þeirra er þægilegur og aldrei neinar öfgar í neinu. Það besta frá Brothers til þessa að mati B&M var páskabjórinn þeirra í fyrra sem var alveg frábær mjólkur stout sem smellpassaði með páskaeggjum frá Hafliða súkkulaðikarli. Brothers virðast vera helvíti flinkir í þessum stíl því hinn bjórinn þeirra sem var í miklu uppáhaldi hjá okkur var jólabjórinn þeirra í ár, Leppur sem líka var milk stout. Hver veit nema við fáum enn einn magnaða mjólkur stoutinn á hátíðinni í ár?

IMG_7202

Smiðjan Brugghús

B&M hefur verið að fylgjast með fæðingu Smiðjunnar í Vík á síðasta ári og jafnvel lengur. Vonir stóðu til þess á síðustu bjórfest að fá að smakka frá þeim bjór en það náðist ekki því þau eru ekki enn farin að brugga sinn eigin bjór. Brugghúsið er hins vegar klárt og brewpöbbinn þeirra líka þar sem er hægt að gæða sér á ýmsu spennandi úr eldhúsinu og drekka bjór frá bestu brugghúsum landsisn af krana. Bjór & Matur þekkir annars lítið til þeirra Þórey og Svenna sem reka staðinn en við erum samt spennt að smakka bjórinn þeirra þegar þar að kemur. Það var mikill metnaður í póstum þeirra á instagram við tilurð brugghússins sem kveikti áhuga okkar á þeim. B&M stefnir á að heimsækja Smiðjuna á árinu en líklega verður fyrsti bjórinn frá þeim fyrst smakkaður á komandi Bjórhátíð. Við vonum svo sannarlega að þau standist væntingar.

Vífilfell og Ölgerðina þekkja allir og mun ég ekki fjalla frekar um þau hér

Álfur

Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekkert til þeirra nema að þeir virðast hafa byrjað að brugga á síðasta ári og að þeir eða réttara þau virðast hafa gaman af því að brugga bjór úr kartöflum! Hér má lesa umfjöllun um Álf á mbl.

IDE Bruggús

IDE hefur verið að brugga fyrir almennan markað síðan 2016 held ég. Þegar ég tók þá tali síðast fyrir ansi löngu síðan voru þeir farandsbruggarar, þ.e.a.s ekki með eigið brugghús heldur brugga hér og þar sem þeir fá inn eins og algengt er, t.d. hóf Mikkeller sinn feril þannig. Það eru 3 félagar sem standa þarna að baki og eins og algengt er hófst þetta allt í heimabruggi fyrir nokkrum árum síðan. Síðar unnu þeir til verðlauna í Bjórkeppni FÁGUnnar árið 2014, en undirritaður var einmitt dómari í þeirri keppni, einn af mörgum reyndar. Ég man eftir bjórnum svei mér þá, ylliblóma IPA. Þetta var þeim mikil hvatning og Brugghúsið var svo formlega stofnað 2016. Síðar gáfu þeir út sinn fyrsta bjór, nefnilega Vinur Vors og Ylliblóma , IPA með ylliblómum sem fékkst m.a. á Mikkeller & Friends, Skúla Craft Bar , Skál og víðar. Þetta var stórfínn IPA verð ég að segja. Ég hef þó lítið smakkað frá þeim eftir þetta. Það verður gaman að tékka á þeim á bjórhátíð og ná langþráðu spjalli við þá yfir góðum bjór.

20180223_183716.jpg
Af Bjórhátíð 2018

Lady Brewing

Lady er fyrsta og eina brugghús landsins sem rekið er af einungis konum, þeim Þóreyu Björku og Ragn­heiði Axel en eins og margir vita þá var bjórgerð til forna einungis í höndum kvenna þannig að þetta er dálítið back to the roots. Það er í raun ekki svo langt síðan karlar fóru að fikta við bjórgerð. Fyrsti bjórinn frá Lady, First Lady var virkilega flottur, heiðarlegur IPA, ekkert grugg, ekkert frútt, bara humlaður vel jafnvægisstilltur gamaldags amerískur IPA. Ég hef smakkað nokkra bjóra frá þeim stöllum, allt flottir bjórar en ég verð að segja, First Lady er sá besti. Reyndar verður það að segjast að nýlega hef ég lítið verið að skoða bjórinn frá þeim…það er bara svo mikið að gerast að maður nær ekki yfir þetta allt. Það er einmitt þess vegna sem bjórhátíðar eru svo sniðugar. Lady er líkt og IDE, sígunabrugg og síðast þegar ég vissi brugguðu þær bjór sinn hjá Ægi Brugghús.

Mono

Mono er eitt ef þessum nýju bruggsmiðjum frá 2018 og þeir voru með á síðustu bjórhátíð en eftir það hefur lítið til þeirra spurst. 2/3 þeirra Maggi og Villi eru hins vegar á fullu að ferja í okkur bjór á Session Craft Bar sem þeir eiga og reka. Það verður vonandi meira að frétta frá þeim á þessu ári en eitt er víst, þessir menn kunna bjór, þeir eru bjórnördar í húð og hár og þess vegna viljum við smakka meira frá þeim. Byrjum á Bjórfest 2019!

Og Natura

Bj&M hefur lítið skoðað Og Natura en þeir eru eitt af mörgum nýju bjórgerðum landsins. Þeir gefa sig út fyrir að brugga bjór úr íslenskum hráefnum á borð við krækiber og bláber. Þeir gera reyndar líka vín og allt á eins náttúrlegan máta og hægt er. Erum við kannski komin hér með fyrstu náttúruvíngerð landsins? Pæling. Fyrsti bjór þeirra er Liljar Már 6.5% bláberja öl sem hægt er að nálgast í Vínbúðunum. Þetta er líklega eitt forvitnilegasta brugghús Íslands um þessar myndir myndi ég segja. Skoðumetta!

20190124_205907-01.jpeg

Ægir Brugghús

Ægir Brugghús út á Granda hefur verið í gangi núna í ein tvö eða þrjú ár en þar á bæ er það Óli Þorvaldz sem ræður ríkjum. Óli er mikill öðlings piltur og þægilegur heim að sækja, hann lofar meira að segja hinum og þessum að brugga hjá sér bjór og það hafa nokkur íslensk brugghús nýtt sér ss Lady, KEX Brewing ofl. Ægir er eitt af þeim brugghúsum sem B&M ætlar að taka vel út á þessu ári en við höfum gert allt of lítið af því að prófa bjórinn þeirra til þessa. Óli gaf okkur um jólin þessa mögnuðu flösku (sjá mynd) af bjór sem ber nafnið Hó Hó Hólísjitt sem glöggir menn átta sig á að er jólabjór. Bjórinn er um 8.8% tunnuþroskaður imperial brown ale með kakónibbum og appelsínum, þorskaður í 9 mán. á Woodford Reserve bourbun ámum og var tappað á flöskur í afar, afar takmörkuðu upplagi og ef marka má miðann var flaskan okkar númer 21 af 60! Þessi bjór er eins geggjaður og hann hljómar, jább svona er það bara.

KEX Brewing

KEX Brewing verður líka á staðnum í einhverri mynd en segja má að þeir séu í raun gestgjafarnir á bjórhátíð. Hinni hjá KEX Brewing var síðast þegar ég spjallaði við hann ekki búinn að negla neitt niður en hver veit hvað þeir lauma á krana fyrir okkur á hátíðinni. Þeir hafa jú verið að brugga bjór með hinum og þessum brugghúsum um alla veröld allt síðasta ár. Ég er persónulega spenntur fyrir samstarfi þeirra og Black Project sem er eitt af mörgum erlendum brugghúsum á hátíðinni í ár.

Það er svo bara um að gera að mæta, smakka bjór og ræða við höfunda þeirra á meðan. Maður lærir heilmarkt nýtt þannig og upplifuninn verður allt önnur. Sjáumst!

Það verður lágskýjað um helgina því geggjað Borg, Lamplighter, KEX collab er að lenda á börum borgarinnar.

BOREALIS BABY nr. C14 er 7% New England IPA frá ekki minni mönnum en Borg Brugghús, Lamplighter og KEX brewing.  Jább, C merkið stendur fyrir „collab“ eða svo kallað samstarf þriggja brugghúsa sem kunna sko heldur betur að brugga bjór.  KEX Brewing eru að gera stórgóðan bjór þessi misserin og Borg er auðvitað búið að marg sanna sig en svo er hið „Bostoníska“ Lamplighter í sérlega sérstöku uppáhaldi þessa dagana en þeir eru snillingar í skýjuðum (hazy) IPA bjór sem hefur verið að tröllserða bjórheiminn undanfarin misseri. Sumir tala um að þeir séu á pari við Trillium sem segja má að séu Guðir í NEIPA bruggun.  Þeir slóu sannarlega í gegn á nýafstaðinni Bjórhátíð á KEX.

IMG_7320
Borealis Baby!!!

Borg hefur verið að svara kallinu síðustu misserin og verið að færa sig æ nær þessum vinsæla bjórstíl sem pöpullinn kallar eftir, með bjórum á borð við Midt om Natten, Best Fyrir 2018, Partyþokan og Hin Hliðin á Kodda sem mér fannst persónulega komast næst því sem mér finnst vera NEIPA , amk í íslenskri bjórgerð.  Áður en ég smakkaði Borealis Baby var Hin Hliðin á Kodda eitt af því besta frá Borg í langan tíma að mínu mati en þessi bjór hefur gjörbreytt því.   Borealis er einfaldlega stórbrotinn!  Bruggaður af alúð með citra, mosaic og idaho 7 humlum og algjörlega „true to the style“ hvernig sem maður segir það nú á íslenskunni?  Þessi frábæri karl kemur á helstu bari borgarinnar á föstudaginn skilst mér, tékkið á honum, munið ferskt ferskt ferskt.  Hann er að skemmast hægt og rólega í þessum töluðu….eða allt að því!

Þess má geta að Borg skellti sér til Boston á dögunum þar sem þeir brugguðu annan samstarfsbjór með Lamplighter á heimavelli í Cambridge!  Þessi bjór verður tilbúinn líklega í kringum lok næsta mánaðar ef einhverjir verða staddir í Boston!  Bjór & Matur verður á staðnum til að taka þetta allt saman út!!!

Malbygg mættir til leiks!

Malbygg er eitt af þessum nýju íslensku brugghúsum sem eru að hefja göngu sína um þessar mundir.  Þeir áttu góðan leik á nýafstaðinni Bjórhátíð á Kex þar sem þeir frumsýndu bjór sinn sem kom bara helvíti vel út, eitthvað er enn hægt að fá af þessum bjór á bestu bjórbörum borgarinnar.  En nú eru þessir þremenningar, Andri, Ingi og Bergur sem sagt komnir á fullt til að gleðja okkur hin og það besta við þetta er að þessir menn bæði kunna að brugga bjór og þeir eru með svipaðan smekk og ég á bjór.  Þetta er borðleggjandi.

Ég tók púlsinn á þeim í dag og leit við í brugghúsið þeirra í Skútuvoginum.  Þeir félagar voru í óða önn að ljúka við að brugga einhverjar nýjar kræsingar þegar ég bankaði uppá.  Ég fékk svo að smakka aðeins það sem væntanlegt er frá þeim, sumt bara alveg á næstu dögum.  Til að byrja með eru þeir langt komnir með ljúfan session IPA (4.7%), SOPI,  sem þurrhumlaður er með Citra og svo Mosaic humlum og ögn Colombus.   Ég smakkaði þennan ljúfling ókolsýrðan og það átti eftir að þurrhumla með Mosaic en hann var ansi nettur og lofar virkilega góðu.  Þessi á eftir að slá í gegn held ég en hans er að vænta Á DÓS í Vínbúðirnar bara líklega í næstu viku eða svo.  Mikið hlakka ég til.  Tókuð þið eftir, Á DÓS? Já og var ég búinn að minnast á að allt IPA stöffið frá Malbygg er í raun New England style IPA (NE IPA) þó þeir séu ekkert sérstaklega að upphrópa það á vörum sínum.  Ég fékk að sjá merkimiðana sem eru að koma og þeir koma sko þrusu vel út.  Hlakka til að fá að sýna ykkur hér á næstu dögum.

IMG_7247Ég fékk líka að smakka frábæran DIPA (ca 8%), sem mun heitra GUTLARI, hann er í raun tilbúinn en þeir eru bara að bíða eftir hárrétta augnablikinu til að henda honum á kúta og svo beint á barina, líklega bara um helgina.  Svakalega flottur NEIPA með Citra og Mosaic.  Svo kúrir þarna hjá þeim Galaxy IPA sem er dálítið óþroskaður enn sem komið er.  Hann lofaði góðu en þó lítið að marka svona flatur og óþroskaður.  Þessi mun líka fara á dósir veiiii!

Loks er virkilega spennandi imperial stout í gerjun hjá þeim sem er afrakstur samstarfsbruggunar með Cycle Brewing og KEX Brewing, en þeir félagar skelltu í þessa lögun nú á dögunum þegar Bjórfest stóð sem hæst.  Cycle er 5. besta brugghús veraldar skv Ratebeer um þessar mundir.  Virkilega spennandi amerískt brugghús sem gerir „killer“ imperial stout og porter bjóra. KEX Brewing er svo með betri brugghúsum landsins um þessar mundir sem hefur bruggað með ótal stórlöxum í bruggheiminum.  Þessi samstarfs stout, BREWHAHA, er virkilega flottur, líklega ein 13% en hann mun svo fara á einhverjar spennandi tunnur skilst mér á næstu vikum.  Spennandi!

Meira um Bjórhátíð á Kex! Cycle Brewing, KEX Brewing collab ofl spennandi!

Nú er tæpur mánuður í stærstu bjórhátíð Íslandssögunnar, hina árlegu Bjórhátíð á KEX.  Ég hef þegar fjallað um hátíðina og skoðað nokkur af þeim 50 brugghúsum sem munu mæta á hátíðina með bjórinn sinn.  Mikkeller, To Øl og BRUS, Lord Hobo, Brewsky, Other Half, The Vail, Bokkereyder, Alefarm, De Garde Brewing, Cloudwater Brewing, Civil Society Brewing og People Like Us hef ég þegar fjallað um og má lesa um þessi stórkostlegu brugghús hér.   Þess má geta að nýr best of listi Ratebeer er kominn út og má sjá aðeins breytingar á top 10.  Cloudwater er komið í 2. sæti úr 5. sæti, sem sagt annað besta brugghús veraldar, og Other Half er nú komið úr 10. sæti í 7. sæti.  Mikkeller er núna í 9. sæti en þeir eru svo sem ekki óvanir þessum lista.  Nýtt á listanum er svo Cycle Brewing sem er um þessar mundir 5. Besta brugghús veraldar skv Ratebeer.  Þetta er magnað, það má svo alltaf deila um Ratebeer og þessa lista en það er efni í aðra umfjöllun.

Mig langar aðeins að skoða þetta nánar og nefna til sögunnar nokkur íslensk brugghús sem menn verða að tékka á á hátíðinni.

Cycle Brewing
Image may contain: drink5. Besta brugghús veraldar er staðsett í St. Petersburg Florida í Bandaríkjunum. Þeir hófu göngu sína formlega árið 2013 undir nafninu Cycle Brewing en fyrir þann tíma vöktu þeir mikla athygli með ögrandi bjór sinn sem ónefnt brugghús innan veggja barsins Peg‘s Cantina. Það var sonur eigandans, Doug Dozark sem hóf að brugga á staðnum bjór eftir að hafa lært bjórsmíðar hjá ekki minni brugghúsum en Oscar Blues og Cigar City sem nú er t.d. 8. besta brugghús veraldar á ofantöldum lista.  Nafnið er skýrskotun í ást Dougs á hjólreiðum, ekki flókið það en Doug ku fara allar sínar ferðir á hjóli.  Brugghúsið byrjaði í flottum vönduðum IPA bjórum en síðla árs 2016 fóru þeir að einbeita sér meira að tunnuþroskuðum bjór af ýmsum toga og eru líklega hvað þekktastir fyrir þá bjóra í dag.  Þetta verður eitthvað geggjað!

KEX Brewing,
er fyrsta farandsbrugghús Íslands, þeir hafa bruggað hér og þar og með hinum og þessum á þessum fáu árum sem þeir hafa verið til staðar.  Þetta flakk þeirra byrjaði eiginlega með „legendary“ samstarfsbruggi (Collab) með Surly brewing í skúr einhverstaðar útí bæ í tengslum við Bjórhátíðina á Kex 2015.  Síðan hafa þeir bruggað á flestum brugtækjum landsins og gert ótal samstarfsbrugg með stjörnum á borð við WarPigsCollective ArtsBrusBrewski og 18th Street svo eitthvað sé nefnt.  Nýlega voru þeir svo í heimsókn í Brooklyn NY hjá stórstjörnumum The Other Half brewing og gerðu með þeim dularfullan berliner weisse sem fékk nafnið Nothing To Declare sem er því miður eitthvað sem hálf vonlaust verður að smakka held ég.  Þetta er í raun ansi magnað, að vera að skapa bjór með svona miklum listamönnum í bjórgerð, ekki sjálfgefið!!!

Það verður hins vegar hægt að smakka annan bjór á Bjórhátíð sem KEX Brewing bruggaði með Collective Arts nú á dögunum en það er spennandi imperial stout sem bruggaður er með Omnon caconibbum og salti frá Saltverk og er eins konar tilraun til að gera fljótandi útgáfu af saltkaramellu súkkulaði.  Dósirnar líta geðveikt vel út og bjórinn hljómar svakalega spennandi.  Collective Arts er svo enn eitt brugghúsið sem menn geta tékkað á á Bjórhátíð einnig.

Lady Brewing
er skemmtilegt nýtt farandsbrugghús sem kom með sinn fyrsta bjór á síðasta ári minnir mig, First Lady sem er virkilega elegant og „down to earth“ IPA.  Lady Brewing er eina bjórgerð landsins sem samanstendur einungis af konum en gaman er að minnast þess að það voru í raun konur sem voru brautryðjendur í greininni á sínum tíma en allt frá tímum Egypta hafa konur verið í fararbroddi í bjórgerð þar til tiltölulega nýlega.  Lady bruggar bjórinn sinn að mestu í Ægisgarði líkt og KEX gerir um þessar mundir.  Flottar dömur hér á ferð.

Malbygg og Ör Brewing Project
eru svo bruggsmiðjur sem enn eru ekki farnar að brugga bjór en verða með frumsýningar á Bjórhátíð 2018.  Báðar þessar bjórsmiðjur eru virkilega áhugaverðar og bind ég mjög miklar vonir við þær enda bara topp lið sem stendur á bak við þær.  Hér má lesa nánar um Malbygg og Ör.

Reykjavík Brewing Company
eða RVK Brewing er enn eitt brugghúsið sem mun opna dyr sínar á næstu vikum líklega.  Hér er spennandi verkefni í gangi sem stefnir í að verða jafnvel fyrsta brugghús landsins með „taproom“ sem er bara geggjað.  Hér má lesa um heimsókn mína í verðandi brugghúsið á síðasta ári.

Það eru fleiri íslensk brugghús á Bjórhátíð en ég mun koma að þeim síðar!

Sumarlegur áramótabjór frá Kex brewing

Ég smakkaði nýjan fallegan bjór frá Kex brewing í gær sem þeir kalla Forbidden Fruit eða Forboðnir ávextir.  Um er að ræða 4% bjór af gerðinni gose sem er „ketilsýrður með helling af íslensku skyri.

Gose stíllinn er í sinni hreinu mynd ævaforn þýskur bjórstíll sem jafnan er töluvert súr en með söltum undirtón.  Bjórinn minnir þannig nokkuð á belgísku súrbjórana gueuze og lambic eða þýska Berliner weisse

Forboðnir ávextir er hins vegar hlaðinn ávöxtum af bestu sort, ástaraldin, yuzu og mangó og erum við því að tala um algjöra ávaxatombu sem sumum gæti þótt líkari ávaxtasafa en bjór.  Súri keimurinn sem einkennir gose stílinn er mjög látlaus líklega vegna ávaxtasætunnar sem tónar þetta niður. Bjórinn verður þannig auðdrekkanlegri fyrir fjöldann en á sama tíma ekki eins krassandi fyrir hörðustu bjórnördana þar sem mottoið er oft á tíðum  „því súrara því betra“.  Bjórinn er hins vegar ofsalega þægilegur, algjör svaladrykkur eða session bjór eins og stundum er sagt og maður finnur alveg fyrir látlausum skyr undirtón.  Fyrir mína parta er þetta geggjaður sumarbjór en gengur einnig sem flottur fordrykkur t.d. í áramótaveislunni.  Svo er spurning hvað myndi gerast ef hann væri notaður í kokdilli?

Forbidden Fruit er held ég ekki titlaður sérstakur áramótabjór en hann er að koma núna út rétt fyrir áramótin og hvað er það þá annað en áramótabjór? Mér skilst að þetta sé fyrsti bjórinn í „ávaxtalínu“ brugghússins og því er spennandi að sjá hvað kemur í framhaldinu frá þeim.  Ætti að vera fáanlegur á krana á Kex Hostel og Mikkeller & Friends frá og með deginum í dag!!!

Kexmas session IPA frá Kex Brewing!

Jólabjórarnir eru farnir að flæða á markaðinn og um nóg að velja.  Flest allt frekar vont samt eða afar óspennandi.  Það eru þó nokkrir bjórar þarna úti sem eru áhugaverðir.  Kexmas er fyrsti jólabjórinn frá KEX brewing og hann flokkast hér formlega sem áhugaverður.  Þegar við tölum um jólabjór þá er vissulega engin regla í þeim efnum.  Hvað er jólabjór, það er alls ekki auðveld spurning og líklega ekki neitt svar til.  Fyrir mörgum er jólabjór bara bjór sem kemur út um jólin og bara um jólin og er í sjálfu sér nóg til að vera flokkaður sem jólabjór.  Fyrir aðra, t.d. mér persónulega, þá er jólabjór líka dálítið sætur og öflugur og helst má hann hafa einhverja jólatóna í bragði.

Kexmas er virkilega flottur og vandaður 4.8% session IPA bruggaður með slatta af mosaic og citra humlum sem hafa verið dálítið inn undanfarin ár enda geggjaðir.  Þetta eru humlar sem gefa okkur dálítið suðræna ávaxtatóna og svo auðvitað notalegan sítrus keim sem minnir oft á furunálar…..sem er jólalegt ekki satt?   Session þýðir einfaldlega bjór sem er auðdrekkanlegur, maður getur sem sagt hæglega þambað marga í röð.  Session bjór á það stundum til að vera dálítið óspennandi ef menn vanda ekki til verks, en KEX mönnum tekst hins vegar að gera þennan bjór bæði þægilegan, einfaldan en samt spennandi.  Þetta er bjór fyrir fjöldann en samt mun hann held ég kæta hörðustu bjórnerðina.  Eftirbragðið er svo alveg dásamlegt, þar koma humlarnir fram þurrir og beiskir og gæla við bragðlaukana.  Ég er virkilega sáttur við þennan bjór en það eina sem truflar mig er að ekki er hægt að fá hann með sér heim.  Hann ku aðeins vera fáanlegur á krana á helstu börum og pöbbum borgarinnar næstu vikurnar, ss Kex, Mikkeller & Friends, Skúla Craft Bar, Skál ofl.

Kex Brewing
Það er tímabært að fjalla aðeins um Kex Brewing og alveg tilvalið að gera það hér undir umfjöllun um fyrsta jólabjór brugghússins.  Mér finnst alltaf dálítið óþægilegt að tala um „brugghús“ þegar ég fjalla um bjórgerð af þessum toga því í raun er ekki um brugghús að ræða í þeim skilningi.  Kex Brewing er nefnilega ekki með neina fastformaða yfirbyggingu þar sem þeir brugga bjórinn sinn heldur fá þeir afnot af tækjabúnaði í öðrum brugghúsum víða um land.  Svo kallaðir farands bruggarar eða gipsy brewers.  Þekktasta farandsbjórgerðin er án efa Mikkeller sem nú er orðið eitt stærsta bjórveldi heims bara svona til að setja hlutina í samhengi.

Kex brewing var stofnað árið 2016 og er í eigu Kex og Bjórakademíunnar en heilarnir á bak við bjórgerðina eru þeir Hinrik, Eymar og Steini, allt miklir bjórnördar með svakalegan bakgrunn í gourmet heiminum.  Steini er gamall félagi sem við þekkjum öll frá Microbar á sínum tíma en er nú sá sem öllu stjórnar á Mikkeller & Friends Reykjavík. Steini er mikill bjórperri með flotta pallettu sem alltaf er hægt að treysta þegar á reynir.  Eymar er líklega viðkunnulegasti náungi sem ég hef hitt og líklega með flinkustu heimabruggurum landsins áður en hann fór í „pro“ brewing, menn geta ekki klikkað með svona mann innanborðs.  Svo er það Hinni matreiðslumeistarinn með bjórvitið en  Hinni er sá sem stendur í brúnni á Kex Brewing um þessar mundir auk þess að vera rekstrarstjóri á Hverfisgötu 12.  Hinni er einfaldlega snillingur í eldhúsinu með svakalega pallettu og þessi maður kann sko bjórinn sinn líka.  Ef einhver getur parað bjór og mat þá er það svona gaur.

Kex Brewing er fyrsta farandsbrugghús Íslands, þeir hafa bruggað hér og þar og með hinum og þessum á þessum fáu árum sem þeir hafa verið til staðar.  Þetta flakk þeirra byrjaði eiginlega með „legendary“ samstarfsbruggi (Collab) með Surly brewing í skúr einhverstaðar útí bæ í tengslum við Bjórhátíðina á Kex 2015.  Síðan hafa þeir bruggað á flestum brugtækjum landsins og gert ótal samstarfsbrugg með stjörnum á borð við WarPigs, Collective Arts, Brus, Brewski og 18th Street svo eitthvað sé nefnt.  Lítil fluga í formi Hinna laumaði svo að mér að meira samstarf væri í sjónmáli og má þar nefna eitt af mínum uppáhalds, The Other Half brewing frá Brooklyn New York. Ef þið þekkið ekki þessi frábæru brugghús þá er um að gera að kíkja á Bjórhátíð á Kex 2018 en flest ef ekki öll þessi nöfn verða meðal brugghúsa á hátíðinni á næst ári.

Já það er óhætt að segja að Kex Brewing sé eitt af mínum uppáhalds íslensku bruggúsum um þessar mundir og spennandi að sjá hvað framundan er og vonandi verður hægt að fá eitthvað af þessum samstarfsbruggum heim á klakann….t.d. Other Half dæmið maður minn!

Skýjaða NEPA æðið á Íslandi er það eitthvað?

New England IPA (NEIPA eða NEPA), er það sem allir eru að tala um, “The Haze Craze“ eins og sumir kalla það!  En hvað er í gangi?  NEIPA er bjórstíll sem er að gera allt vitlaust um þessar mundir, eða alla vega í nágrannalöndum okkar enda ekkert skrítið.  Stíllinn sem er tiltölulega nýr af nálinni er ný túlkun brugghúsa á New England svæðinu í Bandaríkjunum á hinum ástkæra india pale ale (IPA) stíl sem notið hefur mikilla vinsælda um heim allan um áraraðir. Sumir segja að stíllinn hafi byrjað með HEADY TOPPER frá Alchemist sem líklega er einn eftirsóttasti bjór veraldar?  Ég skal ekki segja en ég get þó sagt það að þessi bjórstíll er algjört hnossgæti.   Stíllinn er einkennandi mattur og oftast ljós eða heiðgulur og minnir um margt á djúsí ávaxtasafa.  Ávaxtasafi er í raun ekki fjarri lagi því það er heill hellingur af safaríkum, tropical humlum í þessum bjórum sem eru settir í bjórinn eftir að suðu er lokið í bruggferlinu.   Á þann máta er beiskju stillt í hóf en við fáum þess í stað allt þetta dásamlega ávaxtaríka humalbragð og þessa skýjuðu áferð.  Gerið skiptir alltaf máli þegar kemur að bjór og oftast nota menn breska eða ameríska stofna í NEIPA en það eru svo sem engin lög til um það .

20170513_123517Ég verð að segja að ég kolféll fyrir þessum stíl enda hef ég alla tíð hallast meira að ósíuðu útgáfunum af IPA og ég bara elska þetta dásamlega fruity humalbragð.  Sumir strangtrúaðir bjórspekulantar eru hins vegar ósáttir og vilja meina að hér sé verið að upphefja eiginleika í bjór sem hefur verið tengt við óvandaða framleiðslu, sem sagt gruggið og svo eru hin “hárnákvæmu“ vísindi að tímasetja humlaviðætur í suðunni fokin út um gluggann.   Óvandaður bjór þar sem enginn þarf að hugsa, bara sturta öllum humlunum útí eftir suðu og málið er dautt.   Ég skal ekki segja, en fyrir mitt leiti er aðal málið útkoman í lokin, ef bjórinn er góður þá er mér persónulega sama um hversu flókið bruggferlið var, ég get reyndar sagt ykkur að það er bara ekkert auðvelt að brugga þennan stíl, ég hef reynt nokkrum sinnum og ekki komist nálægt því sem þessir töframenn eru að ná fram sem vel kunna til verka.

Hvar getur maður svo komist í herlegheitin?  Jú erlendis auðvitað, t.d. fara menn mikið héðan til Boston en þar eru algjörir snillingar sem hafa masterað þennan bjórstíl ss Trillium Brewing og Tree House Brewing og mæli ég sterklega með að menn prófi þessa, í Kaupmannahöfn hafa snillingarnir Mikkeller og WarPigs náð algjörri fullkomnun í þessu líka og svo verð ég að nefna Other Half í Brooklyn New York en annars eru flest almennileg brugghús að reyna fyrir sér í þessum bjórstíl nú orðið.  Hér heima er hins vegar ekki auðvelt að komast í NEIPA bjór og ég furða mig eiginlega á því.   Það hafa vissulega verið event þar sem NEIPA bjór hefur dottið inn á bari eins og t.d. á Mikkeller & Friends Reykjavík en þetta er þó sára sára sjaldan.  Borg brugghús hefur reynt fyrir sér í þessu en þeir brugguðu New England bjór með Gæðingi á síðasta ári en sá bjór fór í örlitlu magni bara á kúta á einhverja fáa bari bæjarins.  Ég náði amk ekki að smakka.   Það má svo auðvitað alltaf deila dálítið um hvenær bjór er NEIPA eða ekki, ég er svo sem með ákveðnar skoðanir hvað það varðar og miðað við það þá hef ég ekki séð eða smakkað neinn NEIPA frá Borg (það má svo sannarlega vera mér ósammála, t.d. hvað með Lóu eða nýja Úlf Úlf?), vonum að það standi til bóta, það sama má segja um Gæðing.  The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum eru að gera virkilega góðan bjór almennt og þeir eru með bjór sem þeir kalla DIRTY JULIE sem þeir segja að sé New England IPA.  Ég hef ekki smakkað hann en sem komið er en það er svo sannarlega á “to do“ listanum.  Vandinn er að ég á aldrei leið til Vestmannaeyja en það er eina leiðin til að smakka þennan bjór eins og staðan er í dag.  Hins vegar hefur fluga á vegg sagt mér að við hér á meginlandinu getum átt von á að komast í Dirty Julie í höfuðborginni áður en um langt líður.  Hlakka til.   Svo eru það strákarnir Hinni, Steini og Eymar í Kex Brewing, þeir eru svo sannarlega að svara kallinu og hafa verið að gera ekki einn eða tvo heldur nokkra NEIPA bjóra undanfarna mánuði.  Ég hef smakkað nokkra hjá þeim og þeir eru alveg að ná þessu að mínu mati.  LESS IS NEVER MORE sem þeir gerðu með WarPigs fyrr á árinu var t.d. sérstaklega góður og finnst mér að þar hafi menn algjörlega neglt stílinn.  Ég þekki þessa stráka persónulega og veit að þeir eru svo sannarlega ekki hættir.  Ég verð svo að nefna Bryggjan Brugghús, þeir gerðu NEPA bjór sem líklega er enn hægt að fá hjá þeim.  Ég smakkaði hann fyrr á árinu en var ekki hrifinn, fínn bjór en ekki New England IPA eins og ég vil hafa þá.  Bergur bruggmeistari gerir annars mjög flottan bjór og hef ég oftast verið ánægður með Bryggju bjórinn til þessa.

18118487_10155392762454274_8415856751555779110_n

Það er sem sagt þannig að það er ekki hægt að fá þennan geggjaða bjórstíl út í búð og enn sem komið er þarf að fara til Vestmannaeyja í Dirty Julie (sagt með fyrirvara þar sem ég hef ekki smakkað bjórinn, kannski minnir hann ekkert á stílinn?) eða bíða eftir að Kex Brewing komi með kút undir á Mikkeller & Friends.  Það er reyndar stundum hægt að fá NEIPA dósir á Mikkeller & Friends frá brugghúsi þeirra í San Diego og þarf bara að fylgjast með á fésinu.  Fyrir mína parta þá er þetta samt óásættanlegt ástand, ég vil geta amk gengið að góðum NEIPA vísum á krana einhvers staðar, þetta er besti bjórstíllinn fyrir mig um þessar mundir.  Auðvitað væri enn betra að geta kippt með dós af þessu í vínbúðinni.  Vandinn er samt að hér er um gríðarlega viðkvæma ferskvöru að ræða og þá þarf rennslið að vera gott svo hann staðni ekki í hillunum og því skil ég svo sem vel að menn þori ekki alveg þangað enn sem komið er.

Það verður spennandi að sjá hvað gerist á næstu mánuðum.  Ég væri alveg sáttur við að sjá Borg NEIPA krana fast á Skúla Craft bar t.d.