Jólabjórarnir eru farnir að flæða á markaðinn og um nóg að velja. Flest allt frekar vont samt eða afar óspennandi. Það eru þó nokkrir bjórar þarna úti sem eru áhugaverðir. Kexmas er fyrsti jólabjórinn frá KEX brewing og hann flokkast hér formlega sem áhugaverður. Þegar við tölum um jólabjór þá er vissulega engin regla í þeim efnum. Hvað er jólabjór, það er alls ekki auðveld spurning og líklega ekki neitt svar til. Fyrir mörgum er jólabjór bara bjór sem kemur út um jólin og bara um jólin og er í sjálfu sér nóg til að vera flokkaður sem jólabjór. Fyrir aðra, t.d. mér persónulega, þá er jólabjór líka dálítið sætur og öflugur og helst má hann hafa einhverja jólatóna í bragði.
Kexmas er virkilega flottur og vandaður 4.8% session IPA bruggaður með slatta af mosaic og citra humlum sem hafa verið dálítið inn undanfarin ár enda geggjaðir. Þetta eru humlar sem gefa okkur dálítið suðræna ávaxtatóna og svo auðvitað notalegan sítrus keim sem minnir oft á furunálar…..sem er jólalegt ekki satt? Session þýðir einfaldlega bjór sem er auðdrekkanlegur, maður getur sem sagt hæglega þambað marga í röð. Session bjór á það stundum til að vera dálítið óspennandi ef menn vanda ekki til verks, en KEX mönnum tekst hins vegar að gera þennan bjór bæði þægilegan, einfaldan en samt spennandi. Þetta er bjór fyrir fjöldann en samt mun hann held ég kæta hörðustu bjórnerðina. Eftirbragðið er svo alveg dásamlegt, þar koma humlarnir fram þurrir og beiskir og gæla við bragðlaukana. Ég er virkilega sáttur við þennan bjór en það eina sem truflar mig er að ekki er hægt að fá hann með sér heim. Hann ku aðeins vera fáanlegur á krana á helstu börum og pöbbum borgarinnar næstu vikurnar, ss Kex, Mikkeller & Friends, Skúla Craft Bar, Skál ofl.
Kex Brewing
Það er tímabært að fjalla aðeins um Kex Brewing og alveg tilvalið að gera það hér undir umfjöllun um fyrsta jólabjór brugghússins. Mér finnst alltaf dálítið óþægilegt að tala um „brugghús“ þegar ég fjalla um bjórgerð af þessum toga því í raun er ekki um brugghús að ræða í þeim skilningi. Kex Brewing er nefnilega ekki með neina fastformaða yfirbyggingu þar sem þeir brugga bjórinn sinn heldur fá þeir afnot af tækjabúnaði í öðrum brugghúsum víða um land. Svo kallaðir farands bruggarar eða gipsy brewers. Þekktasta farandsbjórgerðin er án efa Mikkeller sem nú er orðið eitt stærsta bjórveldi heims bara svona til að setja hlutina í samhengi.
Kex brewing var stofnað árið 2016 og er í eigu Kex og Bjórakademíunnar en heilarnir á bak við bjórgerðina eru þeir Hinrik, Eymar og Steini, allt miklir bjórnördar með svakalegan bakgrunn í gourmet heiminum. Steini er gamall félagi sem við þekkjum öll frá Microbar á sínum tíma en er nú sá sem öllu stjórnar á Mikkeller & Friends Reykjavík. Steini er mikill bjórperri með flotta pallettu sem alltaf er hægt að treysta þegar á reynir. Eymar er líklega viðkunnulegasti náungi sem ég hef hitt og líklega með flinkustu heimabruggurum landsins áður en hann fór í „pro“ brewing, menn geta ekki klikkað með svona mann innanborðs. Svo er það Hinni matreiðslumeistarinn með bjórvitið en Hinni er sá sem stendur í brúnni á Kex Brewing um þessar mundir auk þess að vera rekstrarstjóri á Hverfisgötu 12. Hinni er einfaldlega snillingur í eldhúsinu með svakalega pallettu og þessi maður kann sko bjórinn sinn líka. Ef einhver getur parað bjór og mat þá er það svona gaur.
Kex Brewing er fyrsta farandsbrugghús Íslands, þeir hafa bruggað hér og þar og með hinum og þessum á þessum fáu árum sem þeir hafa verið til staðar. Þetta flakk þeirra byrjaði eiginlega með „legendary“ samstarfsbruggi (Collab) með Surly brewing í skúr einhverstaðar útí bæ í tengslum við Bjórhátíðina á Kex 2015. Síðan hafa þeir bruggað á flestum brugtækjum landsins og gert ótal samstarfsbrugg með stjörnum á borð við WarPigs, Collective Arts, Brus, Brewski og 18th Street svo eitthvað sé nefnt. Lítil fluga í formi Hinna laumaði svo að mér að meira samstarf væri í sjónmáli og má þar nefna eitt af mínum uppáhalds, The Other Half brewing frá Brooklyn New York. Ef þið þekkið ekki þessi frábæru brugghús þá er um að gera að kíkja á Bjórhátíð á Kex 2018 en flest ef ekki öll þessi nöfn verða meðal brugghúsa á hátíðinni á næst ári.
Já það er óhætt að segja að Kex Brewing sé eitt af mínum uppáhalds íslensku bruggúsum um þessar mundir og spennandi að sjá hvað framundan er og vonandi verður hægt að fá eitthvað af þessum samstarfsbruggum heim á klakann….t.d. Other Half dæmið maður minn!
4 athugasemdir við “Kexmas session IPA frá Kex Brewing!”