Nú eru hátíðarnar um garð gengnar og nýtt ár runnið upp og ekkert virðist framundan nema myrkir kaldir vetrarmánuðir, en þá sjáum við ljós í svartnættinu, nýja von, Bjórhátíðin á Kex! Já Bjórhátíð á Kex er orðin einn af þessum föstu punktum í tilverunni hjá nautnaseggjum og bjórvinum þessa lands og ætti í raun að vera hátíð allra sem áhuga hafa á sjálfstæði einstaklingsin og frjálsræðishyggju. Bjórhátíð er nefnilega haldin að tilefni „afmæli bjórs á Íslandi“ eins og dagurinn 1. Mars er oft kallaður en það er sá dagur þegar við Íslendingar máttum aftur kaupa okkur bjór árið 1989 eftir langt og heimskulegt bjórbann. Hátíðin verður nú haldin í 7 sinn dagana 22. – 24. Febrúar 2018 en hún hefur verið að vaxa ört síðustu ár. Hvert árið hefur slegið árinu á undan út í glæsileika og fjölda brugghúsa og núna 2018 verður hátíðin algjörlega snar geggjuð ef marka má langan og fallegan lista brugghúsa sem munu mæta með bjórinn sinn að þessu sinni. Þetta er bara eitthvað sem enginn, með einhvern snefil af áhuga á að gera vel við sig, má missa af.
Bjórhátíðin á Kex er eins og bjórhátíðir eru flestar í heiminum í kringum okkur, brugghús mæta með alls konar fljótandi kræsingar, oft eitthvað sem er sérlagað fyrir hátíðina og svo er drukkið og spjallað og haft gaman. Svona hátíð er kjörið tækifæri til að smakka nýjungar og ögra bragðlaukunum og oft á tíðum uppgötva eitthvað alveg nýtt bragð eða nýjan bjór sem maður vissi bara ekki að væri til. Það er líka frábært að geta svo rætt við bjórsmiðina sjálfa um hvernig bjórinn varð til eða hvaða hráefni eru notuð ofl en oft er heilmikil saga á bak við bjórinn sem maður er með í glasinu sem stundum er ótrúleg og spennandi. Upplifunin gjörbreytist þegar maður veit vinnuna á bak við drykkinn. Ekki nóg með góðan bjór þá verður einnig boðið upp á lifandi músík og snarl.
Þegar þetta byrjaði allt saman fyrir 7 árum þá voru örfá íslensk brugghús sem kynntu til leiks bjórinn sinn en íslenskum brugghúsum hefur fjölgað töluvert síðan og áhugi erlendra bjórsmiða á að koma á Bjórhátíð er orðinn gríðarlegur. Við erum að tala um að núna í febrúar getur maður smakkað hér á litla Íslandi erlendan bjór sem á stundum er bara ekki hægt að smakka nema kannski beint frá viðkomandi brugghúsi í takmörkuðu magni. Mörg þessara brugghúsa eru með stærstu nöfnum í bjórveröldinni og bjór þeirra svakalega eftirsóttur.

Við megum svo ekki gleyma íslensku brugghúsunum en þau eru að verða verulega áhugaverð og gera mörg hver stórkostlegan bjór. Í ár erum við að sjá flotta mætingu, við erum með snillingana frá Borg brugghús sem hafa verið með frá upphafi held ég en það er alltaf eitthvað kyngimagnað frá þeim á krana, svo er virkilega spennandi að fylgjast með KEX brewing sem að mínu mati eru meðal þeirra bestu í íslenskum bjór enda virðast þeir bara brugga bjór sem er eins og sniðinn fyrir mig? The Brothers Brewery hafa hingað til verið að gera skemmtilegan og vandaðan bjór sem vert er að skoða og svo verða glæný brugghús á Bjórhátíð svo sem Lady Brewery sem alveg negldu fyrsta bjórinn, First Lady IPA. Við munum svo einnig sjá brugghús sem hafa ekki einu sinni hafið göngu sína svo sem Reykjavík Brewing Company og Malbygg en þessi brugghús eru mjög lofandi og munu án efa umturna íslenskri bjórsenu ef ég þekki þessa kappa rétt. Reykjavík Brewing Company stefnir á að opna núna á fyrstu mánuðum ársins og Malbygg kemur þar fljótt á eftir með opnun í kringum mars apríl ef ég hef það rétt eftir. Smiðjan Brugghús er einnig í smíðum í Vík og mér sýnist þeir vera að stefna á opnun ú sumar. Ég verð að viðurkenna að ég þekki lítið til þeirra sem standa á bak við brugghúsið en það verður gaman að fá að smakka fyrsta bjórinn frá þeim á Bjórhátíð.
Eins og fyrr segir þá er listi brugghúsa langur og spennandi og mörg stór nöfn hafa boðað komu sína. Það væri ómögulegt að fara yfir þau öll hér svo vel sé enda er stundum bara skemmilegra að vita sem minnst, þannig verða oft skemmilegustu uppgötvanirnar. Mig langar þó aðeins að skoða erlendu bjórgerðirnar betur. Hér má sjá listann í heild sinni, 48 brugghús!
Mikkeller, To Øl og BRUS
Þegar við skautum yfir listann sjáum við þarna góðkunningja á borð við Mikkeller, To Øl og BRUS sem flestir ættu nú að þekkja enda hafa þessi dönsku brugghús verið á Kex í nokkur ár, og svo eru þessir gaurar auðvitað á bak við Mikkeller & Friends Reykjavík. Mikkeller er einfaldlega eitt stærsta nafn bjórheimsins, ætla ég að leyfa mér að segja, og mun ég ekki fjalla nánar um þá hér enda má lesa um þá víða. Það sama má segja um To Øl og BRUS (bjórrestaurant rekinn af To Øl) sem hafa verið að vaxa mikið síðustu ár, ég held bara varla að ég hafi smakkað vondan bjór frá þeim?
Lord Hobo
Svo sjáum við hetjur sem voru líka á síðustu Bjórhátíð eins og Lord Hobo, Brewski, Other Half, Collective Arts og Alefarm. Ég man að öll þessi brugghús slóu í gegn síðast, karlarnir frá Lord Hobo sem koma alla leið frá Boston USA eru álíka skemmtilega ruglaðir og bjórinn þeirra er góður en þeir voru með nokkrar perlur í fyrra, ég man t.d eftir fáránlega djúsí og ljúfum DIPA. Prófið að ræða við þá, þeir eru kolruglaðir.
Alefarm
Svo var hið danska Alefarm að koma mér verulega á óvart síðast en þeir eru virkilega flínkir í að brugga sveitabjór (saison) og safaríka IPA bjóra sem sæta mikilla vinsælda um þessar mundir. Þó svo að vera frekar nýtt brugghús þá eru þeir að rísa hratt í bjórheiminum og mikill áhugi er fyrir bjór þeirra á öllum stærstu bjórhátíðum veraldar. Á síðu Mikkeller segir orðrétt „one of the best things that have happened to the Danish Beer scene the past few years.“. Stór orð frá stórri bruggstjörnu!

Brewsky
Fyrst við vorum að tala um norræn brugghús hér að ofan er rétt að nefna til sögunnar Brewsky sem er sænskst örbrugghús sem vert er að hafa auga með en þeir eru eitt af þessum brugghúsum sem eru að stækka ört og þeir gera fáránlega ljúfa og ávaxtaríka IPA bjóra. Þeir mættu í fyrra og slóu í gegn. Þó svo að þeir séu ekki á lista yfir top 100 bestu brugghúsa heims á Ratebeer 2016 þá kæmi mér ekki á óvart að sjá þá þar á 2017 listanum sem en er ekki kominn út. Brewsky stendur m.a. á bak við bjórhátíðina Brewskyval í Helsingborg en þangað mættu mörg flottustu brugghúsa veraldar á síðasta ári.
Talandi um Ratebeer lista, þá er 100 bestu brugghús heims ansi flottur listi til að vera á en valið stendur á milli rúmlega 22.500 brugghúsa víðs vegar um heiminn. Ef þið skoðið listann á Ratebeer þá sjáið þið að stór hluti þeirra brugghúsa sem eru að koma á bjórhátíð eru á listanum yfir 100 bestu brugghús heims. Flott ekki satt?
Other Half Brewing
frá Brooklyn New York er mér sérstaklega sönn ánægja að fá að kynna til leiks en þetta er eitt af þeim brugghúsum þessa veraldar sem ég er hvað mest spenntur fyrir þessi misserin. Bjórinn frá þessum meisturum er algjör draumur en þeir gera mikið af safaríkum og þægilegum IPA bjór eða NE IPA eins og menn vilja flokka þá, sem er einmitt sá stíll sem er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana. Ég er því kannski ekki hlutlaus, hins vegar er bjórheimurinn sammála mér í þessu en þess má geta að Other Half voru valdir 7. besta nýja brugghús heims á meðal rúmlega 3800 brugghúsa á Ratebeer 2015 og núna sitja þeir í 10. sæti yfir bestu brugghús veraldar á Ratebeer (2016 listinn). Það verður að teljast nokkuð gott ekki satt? Hvort sem það er safaríkur IPA, spriklandi saison eða ögrandi súrbjór þá er það allt saman gott. Já það er vert að smakka bókstaflega allt sem þessir gaurar koma með á Bjórhátíð 2018, þetta er sjaldgæft tækifæri.
Cloudwater Brewing
Á þessum sama lista liggur breskt brugghús í 5. sæti, Cloudwater brewing sem staðsett er í Manchester UK. Þessir gaurar hófu starfsemi sína á sama tíma og Other Half árið 2014 og hafa náð álíka árangri. Sjálfur hef ég smakkað lítið frá þeim en það sem ég hef komist yfir hefur verið virkilega vandað og gott. Ég mun klárlega mynda röð við Cloudwater básinn á komandi hátíð og vera með læti, mikið hlakka ég til.
De Garde Brewing
Talandi um 10 bestu brugghús heims, þá er De Garde Brewing nr 7 á þeim lista. Hvað er í gangi hérna eiginlega, er þetta ekki litla Ísland sem við erum að tala um annars? De Garde bruggar bjór á eins náttúrulegan máta og hægt er. Þeir sérhæga sig í sjálfgerjuðum bjór (spontant fermented) af belgískum toga og nota aðeins villiger og þá er ég ekki að tala um einangrað ræktað villiger, nei ég er að tala um villiger sem fyrirfinnst í andrúmsloftinu í kringum brugghúsið í Oregon USA, rétt eins og menn gera í Cantillon í Brussel. Til þess notar þeir svo kallað kæliskip eða coolship þar sem soðinn kældur bjórvökvinn er látinn standa á meðan örverur allt í kring lenda í vökvanum og byrja að gerja hann. Við erum að tala um bakteríur og gersveppi sem gefa frá sér sérstakar bragðflækjur sem sumir kalla súrt og „funky“. Bjórinn er svo fluttur yfir í eikartunnur og látinn þroskast þar frá 3 mánuðum og upp í rúmlega 3 ár áður en hann fer á flöskur. Þar hefst svo önnur gerjun sem kolsýrir bjórinn á náttúrulegan máta. Já þetta er sannkallað „craft“.
Bokkereyder
Svo er það Bokkereyder, lítið belgískt ævintýri sem frábært er að fá að taka þátt í á komandi hátíð. Þetta er lítið brugghús, líklega það minnsta á komandi hátíð og nokkuð óþekkt þangað til bara nýlega þegar það var valið besta nýja brugghús heims 2016 á Ratebeer á meðal 6500 nýrra brugghúsa . Ég hef ekkert smakkað frá þeim fram til þessa en það mun breytast núna í febrúar. Það er Raf Souvereyns sem stendur fyrir Bokkereyder en hann er mikill áhugamaður um sjálfgerjaðan villibjór eða lambic sem Belgar eru svo frægir fyrir. Þekktustu lambic brugghús veraldar eru án efa Cantillon og 3 Fonteinen en Bokkereyder er smám saman að skipa sér sess meðal þeirra bestu. Þetta verður líklega það erlenda brugghús sem mun koma mest á óvart á Kex hátíðiðinni þetta árið?
The Veil Brewery
er svo annað nafn sem fær bjórnörda þessa heims til að nötra af spenningi, ég skelf alla vega. The Veil hófu framleiðslu sína í Richmond Virginia í Bandaríkjunum árið 2016 og voru svo valdir þriðja besta nýja brugghús heims á ofan töldum lista á Ratebeer. Þeir sérhæfa sig í og brugga eingöngu IPA og DIPA sem er sá bjórstíll sem vinsælastur er meðal bjóráhugafólks. Þetta er frábært, hér gengur maður að því vísu að fá góðan IPA og ekkert rugl. Ég skal segja ykkur að þó ég sé að fara mynda röð við Cloudwater básinn þá mun ég finna leið til að mynda enn lengri röð við The Veil básinn, þetta verður rosalegt. Hér er smá upphitun fyrir ykkur (https://theaudienceawards.com/films/the-veil-brewing-company-130253)
Civil Society Brewing
Ef við höldum áfram niður lista bestu nýju brugghúsa heims 2016 þá er í 5. sæti fjölskyldubrugghúsið Civil Society Brewing sem ætla mætti að væri frá öðrum hnetti en það er staðsett í Jupiter Florida, hvar sem það nú er? Brugghúsið einblínir á vel humlaðan bjór ss IPA og DIPA en það er jú það sem við viljum ekki satt? 80% af framleiðslunni fer alla vega undir humlaðan bjór. Þetta brugghús mun án efa verða eitthvað!
Mig langar svo að nefna hér til sögunnar í lokin People Like Us sem er nýtt danskt brugghús sem hefur þá sérstöðu að vera rekið af fólki með Einhverfu. Mikkel Borg (Mikkeller) hefur verið þeim mikill stuðningur og á stóran þátt í því að brugghúsið er komið á ról og farið að selja bjór sinn á danskan markað. Skemmtileg pæling og vonandi góður bjór!
Já þegar maður skoðar þetta nánar má sjá að viðburðurinn er ekkert minna en stórkostlegur og alveg á pari við flottustu bjórhátíðir heims. Þetta varður epískt. Ég tek það fram að það eru mörg önnur virkilega spennandi brugghús sem ég hef ekki nefnt hér, bara vegna tímaskorts. T.d. J Wakefield, Lamplighter, Surly, Collective arts ofl. Æ þetta er allt magnað. Hlakka til að sjá ykkur!!!
Ein athugasemd við “Stærsta bjórsamkoma Íslandssögunnar, Bjórhátíð á Kex dagana 22.-24.2.2018”