Dagur 3 á bjórhátíð, allt bú!

Allt tekur enda, líka hin árlega íslenska bjórhátíð, það er bara þannig.  Síðasti dagurinn var frábær, undirritaður var bara nokkuð heill heilsu sem er plús á svona hátíð.  Það var ekki eins troðið og hina dagana, líklega af því að einhverjir láu heima með sárt ennið eftir gærdaginn?

‘Eg ákvað að taka bara einn stíl fyrir síðasta kvöldið, IPA en það varð svo sem úr að ég fór í einn og einn súrbjórinn og auðvitað imperial stout líka til að enda gott kvöld!   Malbygg átti dálítið sviðið um stund þegar þeir hófu legendary bottle pour af Brewhaha á slaginu kl 18:00.  Það hafði meira að segja myndast smá röð við básinn þeirra 10 mín í. Auðvitað varð maður að taka einn imperial stout þá.
20190223_175835.jpg

Tired Hands héldu svo áfram að gleðja undirritaðan með frábærum IPA og verulega vönduðum Saison.  DIPAinn frá KCBC var flottur en flottastur IPA bjóra var Orange Crush frá Finback, verulega næs NEIPA með blóðappelsínum og mandarínu, menn voru greinilega sammála því hann kláraðist fljótt.  Aslin var reyndar með álíka magnaðan DIPA og svo var Imperial Stoutinn þeirra svakalegur, Mexican Hot Chocolate og líklega sá besti í sínum flokki þetta kvöld.  Orðið á götunni var dálítið að Aslin hefði neglt þessa hátíð með frábærum bjór alla dagana. Other Half voru svo líka með ofsalega ljúfan NEIPA en kölschinn þeirra var skrítinn, með ananas ofl og minnti bara á frostpinna úr fortíðinni, ekki gott.  Menn voru margir ósammála mér hér.

Lamplighter frá Boston voru líka með solid lineup alla hátíðina, ekkert mindblowing en bara allt gott en í gær voru þeir með alveg magnaðan belgískan quadrupel þroskaður á púrtvís tunnum, klikkað stöff.  Ég dundaði mér aðeins á Omnom básnum í gær en þeir voru með svakalegt súkkulaði, 100% súkkulaði.  það var vægast sagt svakalegt og alls ekki allra, beiskt eins og ég veit ekki hvað.  Þetta súkkulaði kom vel út með quadrupelnum frá Lamplighter.

20190223_170749.jpg

Íslensku brugghúsin voru á sínum stað, sumt alveg ágætt, annað skrítið og jafnvel vont en sumt ansi gott.  T.d. smakkaði ég mjög góðan bláberja súrbjór frá Brothers Brewing, ég er oftast ekkert spenntur fyrir ketilsýrðum bjór en þessi vara mjög nettur og myndi sóma sér vel í dósum eða flöskum.  DIPAinn frá Ölverk var líka dálítið spes en gekk alveg upp, mjög þurr með saison geri, um að gera að prófa hann ef þú átt leið framhjá Hveragerði.  Smiðjan var svo með NEIPA sem ég verð að segja að var  bara alls ekkert galinn, ég myndi alveg fá mér hann aftur, frábært hvað frumraunir þeirra á stóru græjunum komu fínt út á þessari hátíð

Það var svo eitt sem ég gleymdi að nefna og ég vona að menn hafi ekki farið illa út úr því en alla hátíðardagana var hægt að rölta upp á eins konar svalir innanhúss og fá sér húðflúr, spurning hvort einhverjiur hafi vaknað upp með nýtt og skemmtilegt húðflúr sem þeir mundu ekki eftir að hafa fengið sár?  Skemmtilegt.

En já nú er þetta bara búið, heilt ár í næstu gleði en lífið heldur áfram held ég, fullt af bjór framundan frá okkar frábæru íslensku brugghúsum og líka spennandi nano/Lamplighter collab sem ég fjalla um síðar.

B&M mun svo taka alla bjórhátíðina saman á næstu dögum.  Skál í bili!

20190221_194901-01.jpeg

 

Dagur 2 á bjórhátíð 2019

Það verður að viðurkennast að dagur tvö er aldrei eins sjarmerandi og dagur 1 á bjórhátíð enda flestir dálítið rykugir og maginn í rugli eftir gærdaginn.  Bjórinn var samt á sínum stað í kvöld og flæddi út um allt vel og vandlega, Omnom og Ostarnir voru á sínum stað og tveir matarvagnar fyrir utan.  Svo var plötusnúður á staðnum með dúndrandi techno og house músík sem ég fílaði reyndar mjög en margir töluðu um að það hafi verið of hátt stillt og ekki rétt tónlist.  Það verður svo sem aldrei hægt að gleðja alla.  Þrengslin voru áfram að trufla undirritaðan hins vegar, það var í raun varla hægt að rölta milli bása fyrir fólki.  Kannski er það bara ég sem er viðkvæmur sérstaklega á degi tvö? En verður líklega að teljast jákvætt fyrir hátíðina þegar vel er mætt.

Ef við skoðum bjórinn þá er það mín tilfinning að súrbjórinn sé dálítið ríkjandi á þessari hátíð, þegar maður spyr fólk hvað menn mæla með þá var það alltaf súrbjór eða imperial stout sem nefndur var til sögunnar.  Ekkert IPA eins og á síðasta ári þar sem haze æðið var alls ráðandi.  Súrbjórarnir eru svo sannarlega víða og gæðin eru rosaleg.  Fonta Flora var með tvo virkilega flotta í kvöld og Black Project með geggjað bottle pour, wild ale sem legið hefur á whisky tunnum og svo blandað í nektarínum annars vegar og ferskjum hins vegar.  Þessir báðir voru geggjaðir og líklega það besta í kvöld í súrbjórunum.   Brekeriet var reyndar með alveg frábæran súrbjór líka, Vild Krikon sem er súrbjór með Damson ávexti (eitthvað plómu dæmi) og svo þroskaður á French Wine Foeders í 10 mánuði.   Borg frumsýndi svo Rauðhettu og Úlfinn í kvöld en það er samstarfsverkefni Brekeriet og Borgar.   Þetta er í raun blanda af Rauðhettu sem er red wild ale og svo Úlfi sem er IPA þannig að úr verður wild IPA ekki satt?  Þessi bjór er mjög skemmtilegur og maður veit bara ekki alveg hvar maður á að staðsetja hann, fyrir mér er þetta meira wild ale en IPA alla vega.

20190222_190352.jpg

Dugges var svo með imperial stout sem margir voru að tala um, banana toffee chocolate stout, en þó ég sé hrifinn af bakkelsisbjór þá var ég ekki að fíla þennan . Of væminn og skrítinn bara.  Other Half var með mjög flottan imperial stout sem var dálítið umtalaður, mér fannst hann ágætur en ekkert í líkingu við monsterið frá Malbygg í gær, Brewhaha.  Malbygg strákarnir ætla mögulega að bjóða Brewhaha á morgun en hann er annars kominn í vínbúðir í mjög takmörkuðu magni.  Malbygg var með helvíti skemmtilegan brut IPA sem kom mjög vel út.  Brut þýðir í raun að hann er eins og freyðivínið, gerjaður til fullst þannig að allur sykur eða því sem næst er gerjaður úr bjórnum.  Tilvalinn fyrir þá sem eru t.d. á keto fæði.   Smiðjan brugghús var líka með brut IPA, sá var heldur sætari en Malbygg útgáfan en samt skemmtilegur, mætti kannski þurrhumla aðeins lengur?

Tired Hands hélt áfram að heilla í kvöld, þeir voru með frábæra IPA bjóra og svo Saison sem mikið var talað um, flestir sem ég hitti mæltu með honum alla vega.  Geggjaður, Rustic Pentagram, súrbjór með mango og amarillo humlum, bruggaður með hveitimalti og látinn þroskast á french oak fouders!  Verulega gott.  Tired Hands hefur til þessa verið með fullt hús stiga.  Geggjað brugghús.

20190221_170842.jpg

Ég fór annars ekkert í NYC brugghúsin að þessu sinni nema í stoutinn frá OH.  Ég heyrði menn hins vegar tala vel um KCBC bjórinn, þeir voru með geggjaðan DIPA víst.  Á morgun held ég að ég hvíli súrbjórinn og vinni meira í IPA og imp stout.  Sjáumst þá!

Hin árlega íslenska bjórhátíð 2019, Dagur 1

Nú er ballið byrjað, fyrsti dagur á bjórhátíð búinn en það er svo sem engin ástæða til að örvænta, gleðin heldur áfram á ýmsum börum borgarinnar með alls konar viðburðum.  Haukur Heiðar félagi minn tók það saman um daginn.  Undirritaður pakkaði hins vegar í vörn og hélt heim að lokinni session í Ægisgarði enda þarf að passa sig að halda heilsu til að geta mætt til leiks á nýjan leik á morgun.

Að þessu sinni var hátíðin haldin sem fyrr segir í Ægisgarði sem er nokkuð minna rými en kjallarinn á KEX og því var heldur þröngt á þingi. Þetta truflaði mig dálítið því mér finnst ekki spennandi velkjast um í mannmergð.  Þetta gekk þó nokkurn veginn en hefði ekki mátt vera meira fólk.

IMG_8260.JPG
Eins og í fyrra var Omnom fólkið á staðnum með súkkulaðið sitt sem gaman er að para við bjórinn.  Komdu bara með glasið þitt til þeirra og þeir leiðbeina þér með súkkulaðið sem passar við það sem þú ert með, þú getur auðvitað líka bara prófað þig áfram sjálfur.  MS var líka þarna með virkilega skemmtilega osta af ýmsum toga sem allir höfðu legið í mismunandi bjór.  Hér er sko gaman að leika sér með paranir.  Það var þarna ostur sem bragðaðist nánast eins og djúsí humlar, geggjað. Nýtt þetta árið eru matarvagnarnir eða food trucks eins og þeir kallast á enskunni. En alla hátíðina munu mismunandi matarvagnar standa fyrir utan en það er alveg ómetanlegt að geta borðað á svona hátíð, fóðrað meltingarveginn og taka inn sölt og fitu til að vinna á móti vökvatapinu og verja aðeins slímhúðir í meltingarvegi.   Frábært.

Ég ákvað að reyna að smakka sem flest, ekki bara fara í þau brugghús sem eru snillingar í þeim bjórstíl sem er í uppáhaldi hjá mér persónulega.   En það sem stóð uppúr í gær er eftirfarandi.

Í súrbjórnum, þá held ég að ég verði að segja De Garde bjórinn, þeir voru báðir svakalegir hjá þeim.  Fonta Flora var líka með ofsalega flottan súrbjór en svo lærði ég að þeir gera alls konar bjór, ekki bara súrbjór.  T.d. eru þeir mikið í lager og þeir voru einmitt með 8.5% steinbock í gær líka.  Þetta var mjög skemmtilegur bock en þeir nota grjót úr grjótnámu skammt frá brugghúsinu og hita það yfir eldi og svo henda þeir grjótinu út í bjórinn og ná þannig upp suðunni eins og gert var í árdaga.  Bjórinn tekur vissulega í sig einhvern keim frá grjótinu.  Frábær bjór og þessi 8.5% voru algjörlega hulin. Aslin var með mjög flottan laktósa súrbjór líka sem var helvíti magnaður en svo náði ég bara ekki að komast yfir Black Project eða Brekeriet í gær, þetta er bara svo mikið.

20190221_174736.jpg

Talandi um lager, þá er þetta stíll sem menn eru dálítið hættir að drekka finnst manni, það snýst einhvern veginn allt um súrt, ofur beiskt, heavy stout eða skrítna nammibjóra.  Ég held að það sé komin dálítil þreyta í mann og kannski tímabært líta aftur á hina gömlu góðu rótgrónu bjórstíla aftur.  Það voru nokkrir helvíti góðir lagerbjórar í boði í gær, Ölverk var með mjög flottan lager, krispí og clean og To Öl var með skemmtilegan Kölsch sem reyndar var DDH, sem sagt þurrhumlaður þannig að hann minnti dálítið á pale ale.   Svo var það steinbockinn frá Fonta Flora auðvitað.

NYC brugghúsin voru svo að gera frábært mót, KCBC, Finback, Interboro og Other Half.  Þeir negldu IPA stílinn og voru öll með flotta bæði NEIPA, IPA og DIPA.  Ég reyndar smakkaði ekkert frá Other Half í gær.   Tired Hands var líka með frábæra bjóra en þeir voru með dósir og flöskur til að hella.   Lagerinn þeirra Prayer Group var mjög spes vægast sagt, hveiti lager bruggaður með þýsku pilsner malti og hveiti og svo gerjaður með lager geri.  Loks er bjórinn látinn liggja í 5 vikur á örlitlu magni af sítrónusafa, mjög skemmtilegt og nánast funky bragð.

Svo var það stout flokkurinn en það er alveg klárt að Malbygg tók hann í nefið með Brewhaha sem þeir brugguðu í fyrra með Cycle og KEX brewing.  Bjór þessi er vægast sagt magnaður, þvílík sprengja.  Það er alls konar skemmtilegt í honum, kaffi, kakónibbur, kókos ofl.  Svo hefur hann legið á bourbon tunnum í marga mánuði.   Eftir að hafa smakkað þennan í gær þá urðu allir aðrir imperial stoutar frekar bara svona venjulegir.  Ég vona að þið náið að smakka í kvöld því í gær stíflaðist eitthvað kerfið og þeir urðu að loka dælunni.

20190221_182020.jpg

Það voru svo mörg önnur íslensk brugghús á hátíðinni t.d. Smiðjan Brugghús sem kemur hér með sína allra fyrstu bjóra en þeir verða með 6 bjóra í heildina sem þeir hafa aldrei bruggað áður í stóra brugghúsinu.  Í gær voru þeir með 3% session IPA sem var bara alls ekki svo galinn og svo 4.7% Porter sem var virkilega ljúffengur.  Það verður gaman að skoða þetta nýja brugghús næstu daga.  Og Natura var líka á hátíð í fyrsta sinn með eina bjórinn sem þeir gera bláberjabjór sem var bara nokkuð skemmtilegur.  Í kvöld verður það svo vín og á morgun kokteill eða eitthvað slíkt skilst mér.

En nóg þvaður, heilsan er að lagast og tími að fara rúlla á session 2.  Sjáumst

Íslenskt á Bjórhátíð 2019

Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum sem rambar inn á Bjór & Matur að framundan er einn stærsti bjórviðburður ársins hér á fróni, en ef svo er þá má lesa nánar um komandi árlegu bjórhátíð á KEX hér. Ég hef einblínt dálítið á erlendu brugghúsin til þessa sem er svo sem ekkert undarlegt, það er erfitt að komast yfir bjór frá mörgum þeirra og því magnað að geta smakkað bjór frá þeim hér heima á klakanum og í raun algjörlega einstakt tækifæri í svona litlu samfélagi sem Ísland er. Það er hins vegar fjöldi af íslenskum brugghúsum á hátíðinni í ár og sum voru í fyrra líka. Mig langar að rúlla aðeins í gegnum þau hér.

Staðfest eru eftirfarandi, Borg Brugghús, Malbygg, RVK Brewing Co., The Brothers Brewery, Smiðjan Brugghús, IDE Brugghús, Lady Brewing, Álfur, Og Natura, Ægir Brugghús, Mono, Ölgerðin og Vífilfell. Það gætu auðvitað fleiri boðað komu sína áður fram líða stundir. KEX Brewing verður auðvitað á staðnum líka.

Borg Brugghús

Ég þarf ekki að fjalla mikið um þessa snillinga en þeir hafa verið að marg sanna sig síðustu ár með mögnuðum bjórum af ýmsum toga. Nú undanfarið hafa þeir fylgt tíðarandanum og fært okkur hverja safabombuna (NEIPA) á fætur annari en ég held að óhætt sé að segja að hinir skýjuðu New England IPA bjórar hafa verið gríðarlega vinsælir hér heima sem og erlendis síðustu misseri. En Borg kann sannarlega að brugga annað en NEIPA en þeir sýndu okkur það með skemmtilegu twisti í lok árs með frábærum bjór af gerðinni wild ale sem bar nafnið Esja og markar upphaf af súrbjóralínu vonandi frá þeim snillingum. Það verður spennandi að sjá hvað þeir tefla fram á bjórhátíð í ár.

Malbygg

Bergur, Andri og Ingi eru bjórperrar af líf og sál en þeir eru gaurarnir á bak við Malbygg. Ég hef fjallað um þá nokkrum sinnum áður og ætla ég ekki að skrifa hér einhverjar langlokur en hér má lesa nánar um Malbygg. Malbygg sem hóf göngu sína á síðasta ári hefur á sínum stutta líftíma stimplað sig rækilega inn í íslenska bjórmenningu með frábærum og aðgengilegum bjór og vil ég meina að hér sé eitt besta brugghús landsins um þessar mundir. Þessir guttar munu sko sannarlega mæta með gott á bjórhátíð. Fyrir þau ykkar sem ekki geta beðið þá hvet ég ykkur til að taka forskot á sæluna en þeir eru með alla vega 5 tegundir til sölu í vínbúðum landsins, ma Galaxy IPA sem er frábær um þessar mundir.

20180909_180933-01.jpeg

RVK Brewing Co.

Hér er enn eitt brugghúsið sem hóf göngu sína á síðasta ári og hefur verið að gera frábæra hluti á árinu. Það eru þeir Sigurður Snorra og Valli brugg sem sjá um að semja bjórinn sem menn geta notið í fyrstu formlegu bruggstofu borgarinnar. RVK Brewing hefur verið að gera alls konar skemmtilegt síðustu misserin, ss bakkelsisbjór með snúðum frá Brauð & Co, flippaðan morgunverðar stout með cocopuffs, höfrum, pönnukökum ofl og svo var jólabjórinn þeirra ansi jólalegur með heilu jólatré og með því í bruggferlinu. Já það er óhætt að segja að RVK Brewing sé bæði lifandi og skemmtilegt brugghús sem þorir að fara skrítnar leiðir. Það besta er að útkoman er oftast helvíti góð. Hvað fáum við að smakka á bjórfest? Mögulega tunnuþroskaða útgáfu af Co & Co? Reyndar þykir mér líklegt að það verði meira í súrum dúr hjá þeim í anda Þorrans.

The Brothers Brewery

Strákarnir frá Eyjum hafa verið að gera fína hluti síðustu ár. Lengi vel var erfitt að smakka nokkuð frá þeim nema í Eyjum en nú er bjórinn þeirra farinn að detta inn á bari borgarinnar hér og þar og á flöskur í vínbúðirnar. Bjórinn þeirra er þægilegur og aldrei neinar öfgar í neinu. Það besta frá Brothers til þessa að mati B&M var páskabjórinn þeirra í fyrra sem var alveg frábær mjólkur stout sem smellpassaði með páskaeggjum frá Hafliða súkkulaðikarli. Brothers virðast vera helvíti flinkir í þessum stíl því hinn bjórinn þeirra sem var í miklu uppáhaldi hjá okkur var jólabjórinn þeirra í ár, Leppur sem líka var milk stout. Hver veit nema við fáum enn einn magnaða mjólkur stoutinn á hátíðinni í ár?

IMG_7202

Smiðjan Brugghús

B&M hefur verið að fylgjast með fæðingu Smiðjunnar í Vík á síðasta ári og jafnvel lengur. Vonir stóðu til þess á síðustu bjórfest að fá að smakka frá þeim bjór en það náðist ekki því þau eru ekki enn farin að brugga sinn eigin bjór. Brugghúsið er hins vegar klárt og brewpöbbinn þeirra líka þar sem er hægt að gæða sér á ýmsu spennandi úr eldhúsinu og drekka bjór frá bestu brugghúsum landsisn af krana. Bjór & Matur þekkir annars lítið til þeirra Þórey og Svenna sem reka staðinn en við erum samt spennt að smakka bjórinn þeirra þegar þar að kemur. Það var mikill metnaður í póstum þeirra á instagram við tilurð brugghússins sem kveikti áhuga okkar á þeim. B&M stefnir á að heimsækja Smiðjuna á árinu en líklega verður fyrsti bjórinn frá þeim fyrst smakkaður á komandi Bjórhátíð. Við vonum svo sannarlega að þau standist væntingar.

Vífilfell og Ölgerðina þekkja allir og mun ég ekki fjalla frekar um þau hér

Álfur

Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekkert til þeirra nema að þeir virðast hafa byrjað að brugga á síðasta ári og að þeir eða réttara þau virðast hafa gaman af því að brugga bjór úr kartöflum! Hér má lesa umfjöllun um Álf á mbl.

IDE Bruggús

IDE hefur verið að brugga fyrir almennan markað síðan 2016 held ég. Þegar ég tók þá tali síðast fyrir ansi löngu síðan voru þeir farandsbruggarar, þ.e.a.s ekki með eigið brugghús heldur brugga hér og þar sem þeir fá inn eins og algengt er, t.d. hóf Mikkeller sinn feril þannig. Það eru 3 félagar sem standa þarna að baki og eins og algengt er hófst þetta allt í heimabruggi fyrir nokkrum árum síðan. Síðar unnu þeir til verðlauna í Bjórkeppni FÁGUnnar árið 2014, en undirritaður var einmitt dómari í þeirri keppni, einn af mörgum reyndar. Ég man eftir bjórnum svei mér þá, ylliblóma IPA. Þetta var þeim mikil hvatning og Brugghúsið var svo formlega stofnað 2016. Síðar gáfu þeir út sinn fyrsta bjór, nefnilega Vinur Vors og Ylliblóma , IPA með ylliblómum sem fékkst m.a. á Mikkeller & Friends, Skúla Craft Bar , Skál og víðar. Þetta var stórfínn IPA verð ég að segja. Ég hef þó lítið smakkað frá þeim eftir þetta. Það verður gaman að tékka á þeim á bjórhátíð og ná langþráðu spjalli við þá yfir góðum bjór.

20180223_183716.jpg
Af Bjórhátíð 2018

Lady Brewing

Lady er fyrsta og eina brugghús landsins sem rekið er af einungis konum, þeim Þóreyu Björku og Ragn­heiði Axel en eins og margir vita þá var bjórgerð til forna einungis í höndum kvenna þannig að þetta er dálítið back to the roots. Það er í raun ekki svo langt síðan karlar fóru að fikta við bjórgerð. Fyrsti bjórinn frá Lady, First Lady var virkilega flottur, heiðarlegur IPA, ekkert grugg, ekkert frútt, bara humlaður vel jafnvægisstilltur gamaldags amerískur IPA. Ég hef smakkað nokkra bjóra frá þeim stöllum, allt flottir bjórar en ég verð að segja, First Lady er sá besti. Reyndar verður það að segjast að nýlega hef ég lítið verið að skoða bjórinn frá þeim…það er bara svo mikið að gerast að maður nær ekki yfir þetta allt. Það er einmitt þess vegna sem bjórhátíðar eru svo sniðugar. Lady er líkt og IDE, sígunabrugg og síðast þegar ég vissi brugguðu þær bjór sinn hjá Ægi Brugghús.

Mono

Mono er eitt ef þessum nýju bruggsmiðjum frá 2018 og þeir voru með á síðustu bjórhátíð en eftir það hefur lítið til þeirra spurst. 2/3 þeirra Maggi og Villi eru hins vegar á fullu að ferja í okkur bjór á Session Craft Bar sem þeir eiga og reka. Það verður vonandi meira að frétta frá þeim á þessu ári en eitt er víst, þessir menn kunna bjór, þeir eru bjórnördar í húð og hár og þess vegna viljum við smakka meira frá þeim. Byrjum á Bjórfest 2019!

Og Natura

Bj&M hefur lítið skoðað Og Natura en þeir eru eitt af mörgum nýju bjórgerðum landsins. Þeir gefa sig út fyrir að brugga bjór úr íslenskum hráefnum á borð við krækiber og bláber. Þeir gera reyndar líka vín og allt á eins náttúrlegan máta og hægt er. Erum við kannski komin hér með fyrstu náttúruvíngerð landsins? Pæling. Fyrsti bjór þeirra er Liljar Már 6.5% bláberja öl sem hægt er að nálgast í Vínbúðunum. Þetta er líklega eitt forvitnilegasta brugghús Íslands um þessar myndir myndi ég segja. Skoðumetta!

20190124_205907-01.jpeg

Ægir Brugghús

Ægir Brugghús út á Granda hefur verið í gangi núna í ein tvö eða þrjú ár en þar á bæ er það Óli Þorvaldz sem ræður ríkjum. Óli er mikill öðlings piltur og þægilegur heim að sækja, hann lofar meira að segja hinum og þessum að brugga hjá sér bjór og það hafa nokkur íslensk brugghús nýtt sér ss Lady, KEX Brewing ofl. Ægir er eitt af þeim brugghúsum sem B&M ætlar að taka vel út á þessu ári en við höfum gert allt of lítið af því að prófa bjórinn þeirra til þessa. Óli gaf okkur um jólin þessa mögnuðu flösku (sjá mynd) af bjór sem ber nafnið Hó Hó Hólísjitt sem glöggir menn átta sig á að er jólabjór. Bjórinn er um 8.8% tunnuþroskaður imperial brown ale með kakónibbum og appelsínum, þorskaður í 9 mán. á Woodford Reserve bourbun ámum og var tappað á flöskur í afar, afar takmörkuðu upplagi og ef marka má miðann var flaskan okkar númer 21 af 60! Þessi bjór er eins geggjaður og hann hljómar, jább svona er það bara.

KEX Brewing

KEX Brewing verður líka á staðnum í einhverri mynd en segja má að þeir séu í raun gestgjafarnir á bjórhátíð. Hinni hjá KEX Brewing var síðast þegar ég spjallaði við hann ekki búinn að negla neitt niður en hver veit hvað þeir lauma á krana fyrir okkur á hátíðinni. Þeir hafa jú verið að brugga bjór með hinum og þessum brugghúsum um alla veröld allt síðasta ár. Ég er persónulega spenntur fyrir samstarfi þeirra og Black Project sem er eitt af mörgum erlendum brugghúsum á hátíðinni í ár.

Það er svo bara um að gera að mæta, smakka bjór og ræða við höfunda þeirra á meðan. Maður lærir heilmarkt nýtt þannig og upplifuninn verður allt önnur. Sjáumst!

Bjórhátíð, lokahnykkurinn!

Þá er parTíið búið, loka dagur Bjórhátíðar var í gær og nú er heilt ár í næstu veislu.  Það eru dálítið blendnar tilfinningar sem bærast í manni í dag, að hluta til er ég dálítið feginn að þessu sé lokið, það er bara takmarkað hvað hægt er að leggja á sig en á hinn bóginn þá er maður dálítið tómur inní sér.  Hvað á maður að gera næstu daga t.d.? Enginn bjór? Það er reyndar alveg leyfilegt að opna dós af góðu öli í dag t.d. frá Lamplighter, svona til að trappa sig aðeins niður (þ.e.a.s ef maður var pínu séður og verslaði nesti á Bjórhátíð).

En tökum lokadaginn saman hér eldsnöggt en svo kemur heildar samantekt innan skamms.   Gærdagurinn var dálítið erfiðari en fyrstu tveir, ég held að palletan hafi verið orðinn mettuðm bragðlaukar dálítið dofnir og svo er hitt að maður verður svo vanur góðum bjór að kröfurnar aukast með degi hverjum.  Ég held að 3 dagar séu alveg max í svona fest.  Ég fann amk að ég átti erfitt með að finna virkilega góðan bjór í gær en mér tókst það nú samt.

IMG_6993
Ég smakkaði lítið af því íslenska í gær, en ég leit við hjá KEX brewing, Borg, Malbygg og Ölverk en ég bara gleymdi að smakka spennandi bjór frá Ör Brewing Project sem þeir kölluðu How Hi Are You og er IPA með bourbon, vanillu og laktósa.  Frekar súrt að missa af þessum skrítna karli, en ég er nokkuð viss um að ég geti laumast í smakk á næstunni eða hvað?  Malbygg var hins vegar með besta bjórinn þennan daginn að mínu mati, helvíti nettann skýjaðan pale ale með Galaxy.  Þetta er greinilega allt á réttri leið hjá þeim.  Borg var ekki með neitt spennandi þennan daginn, þ.e.a.s ekkert sem ég hafði ekki smakkað áður nema tuttugu og eitthvað rúmlega % kolsvarta monsterið á litlu tunnunni, hann fór alveg með mig svona á 3. degi í þynnku.  Ég ætla bara ekkert að tjá mig frekar um hann.

Ég var mest ánægður með það sem var að gerast á efri hæðinni í gær,  The Other Half héldu áfram að töfra mann upp úr skónum 3. daginn í röð.  Báðir IPA bjórarnir þeirra voru geggjaðir en mér fannst samt Space Cadet (9.1%) hazy citra DIPA frá Voodoo Brewing alveg sturlaður, einmitt það sem mig vantaði til að lifna aðeins við.  Black Magic, 13% imperial stoutinn frá Voodoo var einnig magnaður, þroskaður á four roses bourbon tunnum, hins vegar heldur snemmt að fara í svona karl kl 16:00 á laugardegi.  The Veil voru líka með mjög gott mót í gær, en ekkert nýtt  samt fyrir mig (hafði smakkað þetta á tap takeover á miðvikudaginn á Mikkeller).  Tripel IPAinn þeirra sem var undir alla dagana var reyndar með betri bjóruim hátíðarinnar.    Bokkereyder var með áhugaverðan bjór,  einn fyrsti bjórinn sem þeir gerðu, gueuze sem tappað var á flösku 2014.  Raf hafði gleymt þessum flöskum en fann þær bara nýlega og ákvað að kippa þeim með til Íslands.  Verulega flottur gueuze.

20180224_163845
Voodoo gaurarnir hafa verið að standa sig vel alla hátíðina

Civil Society (5 besta nýja brugghús á Ratberr 2017) þarf að nefna hér en þeir hafa verið með arfa góðan bjór alla hátíðina.  Safaríku DIPA bjórarnir standa uppúr hjá þeim og í gær var engin undantekning.  Mjög flott.  Besti bjór gærdagsins, þeir voru reyndar tveir, kom hins vegar frá Mikkeller.  Já ég veit pínu klisja? Samt, þessir voru algjörlega mindblowing.  Eftir helling af bjór í gær sem mér fannst bara góður þá kom þessi, Spontanpentadrupelrasperry 13% ávaxtasprengja sem kom mér bara í opna skjöldu.  Eftir þennan bjór var ég í raun bara tilbúin að fara heim og segja þetta gott, ég gerði það reyndar ekki, fékk mér fyrst annað glas ef þessu sælgæti og kláraði svo daginn á Mikkeller Beer Geek Vanilla Maple Shake barrel aged (13%) og þvílíkur endir á góðri hátíð.

20180224_175022_001-01.jpeg
Mikkeller Spontanpentadrupel rasperry (13%)

Meira um Bjórhátíð á Kex! Cycle Brewing, KEX Brewing collab ofl spennandi!

Nú er tæpur mánuður í stærstu bjórhátíð Íslandssögunnar, hina árlegu Bjórhátíð á KEX.  Ég hef þegar fjallað um hátíðina og skoðað nokkur af þeim 50 brugghúsum sem munu mæta á hátíðina með bjórinn sinn.  Mikkeller, To Øl og BRUS, Lord Hobo, Brewsky, Other Half, The Vail, Bokkereyder, Alefarm, De Garde Brewing, Cloudwater Brewing, Civil Society Brewing og People Like Us hef ég þegar fjallað um og má lesa um þessi stórkostlegu brugghús hér.   Þess má geta að nýr best of listi Ratebeer er kominn út og má sjá aðeins breytingar á top 10.  Cloudwater er komið í 2. sæti úr 5. sæti, sem sagt annað besta brugghús veraldar, og Other Half er nú komið úr 10. sæti í 7. sæti.  Mikkeller er núna í 9. sæti en þeir eru svo sem ekki óvanir þessum lista.  Nýtt á listanum er svo Cycle Brewing sem er um þessar mundir 5. Besta brugghús veraldar skv Ratebeer.  Þetta er magnað, það má svo alltaf deila um Ratebeer og þessa lista en það er efni í aðra umfjöllun.

Mig langar aðeins að skoða þetta nánar og nefna til sögunnar nokkur íslensk brugghús sem menn verða að tékka á á hátíðinni.

Cycle Brewing
Image may contain: drink5. Besta brugghús veraldar er staðsett í St. Petersburg Florida í Bandaríkjunum. Þeir hófu göngu sína formlega árið 2013 undir nafninu Cycle Brewing en fyrir þann tíma vöktu þeir mikla athygli með ögrandi bjór sinn sem ónefnt brugghús innan veggja barsins Peg‘s Cantina. Það var sonur eigandans, Doug Dozark sem hóf að brugga á staðnum bjór eftir að hafa lært bjórsmíðar hjá ekki minni brugghúsum en Oscar Blues og Cigar City sem nú er t.d. 8. besta brugghús veraldar á ofantöldum lista.  Nafnið er skýrskotun í ást Dougs á hjólreiðum, ekki flókið það en Doug ku fara allar sínar ferðir á hjóli.  Brugghúsið byrjaði í flottum vönduðum IPA bjórum en síðla árs 2016 fóru þeir að einbeita sér meira að tunnuþroskuðum bjór af ýmsum toga og eru líklega hvað þekktastir fyrir þá bjóra í dag.  Þetta verður eitthvað geggjað!

KEX Brewing,
er fyrsta farandsbrugghús Íslands, þeir hafa bruggað hér og þar og með hinum og þessum á þessum fáu árum sem þeir hafa verið til staðar.  Þetta flakk þeirra byrjaði eiginlega með „legendary“ samstarfsbruggi (Collab) með Surly brewing í skúr einhverstaðar útí bæ í tengslum við Bjórhátíðina á Kex 2015.  Síðan hafa þeir bruggað á flestum brugtækjum landsins og gert ótal samstarfsbrugg með stjörnum á borð við WarPigsCollective ArtsBrusBrewski og 18th Street svo eitthvað sé nefnt.  Nýlega voru þeir svo í heimsókn í Brooklyn NY hjá stórstjörnumum The Other Half brewing og gerðu með þeim dularfullan berliner weisse sem fékk nafnið Nothing To Declare sem er því miður eitthvað sem hálf vonlaust verður að smakka held ég.  Þetta er í raun ansi magnað, að vera að skapa bjór með svona miklum listamönnum í bjórgerð, ekki sjálfgefið!!!

Það verður hins vegar hægt að smakka annan bjór á Bjórhátíð sem KEX Brewing bruggaði með Collective Arts nú á dögunum en það er spennandi imperial stout sem bruggaður er með Omnon caconibbum og salti frá Saltverk og er eins konar tilraun til að gera fljótandi útgáfu af saltkaramellu súkkulaði.  Dósirnar líta geðveikt vel út og bjórinn hljómar svakalega spennandi.  Collective Arts er svo enn eitt brugghúsið sem menn geta tékkað á á Bjórhátíð einnig.

Lady Brewing
er skemmtilegt nýtt farandsbrugghús sem kom með sinn fyrsta bjór á síðasta ári minnir mig, First Lady sem er virkilega elegant og „down to earth“ IPA.  Lady Brewing er eina bjórgerð landsins sem samanstendur einungis af konum en gaman er að minnast þess að það voru í raun konur sem voru brautryðjendur í greininni á sínum tíma en allt frá tímum Egypta hafa konur verið í fararbroddi í bjórgerð þar til tiltölulega nýlega.  Lady bruggar bjórinn sinn að mestu í Ægisgarði líkt og KEX gerir um þessar mundir.  Flottar dömur hér á ferð.

Malbygg og Ör Brewing Project
eru svo bruggsmiðjur sem enn eru ekki farnar að brugga bjór en verða með frumsýningar á Bjórhátíð 2018.  Báðar þessar bjórsmiðjur eru virkilega áhugaverðar og bind ég mjög miklar vonir við þær enda bara topp lið sem stendur á bak við þær.  Hér má lesa nánar um Malbygg og Ör.

Reykjavík Brewing Company
eða RVK Brewing er enn eitt brugghúsið sem mun opna dyr sínar á næstu vikum líklega.  Hér er spennandi verkefni í gangi sem stefnir í að verða jafnvel fyrsta brugghús landsins með „taproom“ sem er bara geggjað.  Hér má lesa um heimsókn mína í verðandi brugghúsið á síðasta ári.

Það eru fleiri íslensk brugghús á Bjórhátíð en ég mun koma að þeim síðar!

Stærsta bjórsamkoma Íslandssögunnar, Bjórhátíð á Kex dagana 22.-24.2.2018

Nú eru hátíðarnar um garð gengnar og nýtt ár runnið upp og ekkert virðist framundan nema myrkir kaldir vetrarmánuðir, en þá sjáum við ljós í svartnættinu, nýja von, Bjórhátíðin á Kex!  Já Bjórhátíð á Kex er orðin einn af þessum föstu punktum í tilverunni hjá nautnaseggjum og bjórvinum þessa lands og ætti í raun að vera hátíð allra sem áhuga hafa á sjálfstæði einstaklingsin og frjálsræðishyggju.  Bjórhátíð er nefnilega haldin að tilefni „afmæli bjórs á Íslandi“ eins og dagurinn 1. Mars er oft kallaður en það er sá dagur þegar við Íslendingar máttum aftur kaupa okkur bjór árið 1989 eftir langt og heimskulegt bjórbann.   Hátíðin verður nú haldin í 7 sinn dagana 22. – 24. Febrúar 2018 en hún hefur verið að vaxa ört síðustu ár.  Hvert árið hefur slegið árinu á undan út í glæsileika og fjölda brugghúsa og núna 2018 verður hátíðin algjörlega snar geggjuð ef marka má langan og fallegan lista brugghúsa sem munu mæta með bjórinn sinn að þessu sinni.  Þetta er bara eitthvað sem enginn, með einhvern snefil af áhuga á að gera vel við sig, má missa af.

Bjórhátíðin á Kex er eins og bjórhátíðir eru flestar í heiminum í kringum okkur, brugghús mæta með alls konar fljótandi kræsingar, oft eitthvað sem er sérlagað fyrir hátíðina og svo er drukkið og spjallað og haft gaman.  Svona hátíð er kjörið tækifæri til að smakka nýjungar og ögra bragðlaukunum og oft á tíðum uppgötva eitthvað alveg nýtt bragð eða nýjan bjór sem maður vissi bara ekki að væri til.  Það er líka frábært að geta svo rætt við bjórsmiðina sjálfa um hvernig bjórinn varð til eða hvaða hráefni eru notuð ofl en oft er heilmikil saga á bak við bjórinn sem maður er með í glasinu sem stundum er ótrúleg og spennandi.   Upplifunin gjörbreytist þegar maður veit vinnuna á bak við drykkinn.  Ekki nóg með góðan bjór þá verður einnig boðið upp á lifandi músík og snarl.

Þegar þetta byrjaði allt saman fyrir 7 árum þá voru örfá íslensk brugghús sem kynntu til leiks bjórinn sinn en íslenskum brugghúsum hefur fjölgað töluvert síðan og áhugi erlendra bjórsmiða á að koma á Bjórhátíð er orðinn gríðarlegur.  Við erum að tala um að núna í febrúar getur maður smakkað hér á litla Íslandi erlendan bjór sem á stundum er bara ekki hægt að smakka nema kannski beint frá viðkomandi brugghúsi í takmörkuðu magni.  Mörg þessara brugghúsa eru með stærstu nöfnum í bjórveröldinni og bjór þeirra svakalega eftirsóttur.

KEXhatid3
Mynd af Bjórhátíð 2017,eftir Lilju Jóns.  Birt með góðfúsu leyfi Kex

Við megum svo ekki gleyma íslensku brugghúsunum en þau eru að verða verulega áhugaverð og gera mörg hver stórkostlegan bjór.  Í ár erum við að sjá flotta mætingu, við erum með snillingana frá Borg brugghús sem hafa verið með frá upphafi held ég en það er alltaf eitthvað kyngimagnað frá þeim á krana, svo er virkilega spennandi að fylgjast með KEX brewing sem að mínu mati eru meðal þeirra bestu í íslenskum bjór enda virðast þeir bara brugga bjór sem er eins og sniðinn fyrir mig?  The Brothers Brewery hafa hingað til verið að gera skemmtilegan og vandaðan bjór sem vert er að skoða og svo verða glæný brugghús á Bjórhátíð svo sem Lady Brewery sem alveg negldu fyrsta bjórinn, First Lady IPA.  Við munum svo einnig sjá brugghús sem hafa ekki einu sinni hafið göngu sína svo sem Reykjavík Brewing Company og Malbygg en þessi brugghús eru mjög lofandi og munu án efa umturna íslenskri bjórsenu ef ég þekki þessa kappa rétt.  Reykjavík Brewing Company stefnir á að opna núna á fyrstu mánuðum ársins og Malbygg kemur þar fljótt á eftir með opnun í kringum mars apríl ef ég hef það rétt eftir. Smiðjan Brugghús er einnig í smíðum í Vík og mér sýnist þeir vera að stefna á opnun ú sumar. Ég verð að viðurkenna að ég þekki lítið til þeirra sem standa á bak við brugghúsið en það verður gaman að fá að smakka fyrsta bjórinn frá þeim á Bjórhátíð.

Eins og fyrr segir þá er listi brugghúsa langur og spennandi og mörg stór nöfn hafa boðað komu sína.  Það væri ómögulegt að fara yfir þau öll hér svo vel sé enda er stundum bara skemmilegra að vita sem minnst, þannig verða oft skemmilegustu uppgötvanirnar.  Mig langar þó aðeins að skoða erlendu bjórgerðirnar betur.  Hér má sjá listann í heild sinni, 48 brugghús!

TaflaII

Mikkeller, To Øl og BRUS
Þegar við skautum yfir listann sjáum við þarna góðkunningja á borð við Mikkeller, To Øl og BRUS sem flestir ættu nú að þekkja enda hafa þessi dönsku brugghús verið á Kex í nokkur ár, og svo eru þessir gaurar auðvitað á bak við Mikkeller & Friends ReykjavíkMikkeller er einfaldlega eitt stærsta nafn bjórheimsins, ætla ég að leyfa mér að segja, og mun ég ekki fjalla nánar um þá hér enda má lesa um þá víða.  Það sama má segja um To Øl og BRUS (bjórrestaurant rekinn af To Øl) sem hafa verið að vaxa mikið síðustu ár, ég held bara varla að ég hafi smakkað vondan bjór frá þeim?

Lord Hobo
Svo sjáum við hetjur sem voru líka á síðustu Bjórhátíð eins og Lord Hobo, Brewski, Other Half, Collective Arts og Alefarm.  Ég man að öll þessi brugghús slóu í gegn síðast, karlarnir frá Lord Hobo sem koma alla leið frá Boston USA eru álíka skemmtilega ruglaðir og bjórinn þeirra er góður en þeir voru með nokkrar perlur í fyrra, ég man t.d eftir fáránlega djúsí og ljúfum DIPA.   Prófið að ræða við þá, þeir eru kolruglaðir.

Alefarm
Svo var hið danska Alefarm að koma mér verulega á óvart síðast en þeir eru virkilega flínkir í að brugga sveitabjór (saison) og safaríka IPA bjóra sem sæta mikilla vinsælda um þessar mundir.  Þó svo að vera frekar nýtt brugghús þá eru þeir að rísa hratt í bjórheiminum og mikill áhugi er fyrir bjór þeirra á öllum stærstu bjórhátíðum veraldar.  Á síðu Mikkeller segir orðrétt „one of the best things that have happened to the Danish Beer scene the past few years.“.  Stór orð frá stórri bruggstjörnu!

Kexhatid2
Mynd af Bjórhátíð 2017,eftir Lilju Jóns.  Birt með góðfúsu leyfi Kex

Brewsky
Fyrst við vorum að tala um norræn brugghús hér að ofan er rétt að nefna til sögunnar Brewsky sem er sænskst örbrugghús sem vert er að hafa auga með en þeir eru eitt af þessum brugghúsum sem eru að stækka ört og þeir gera fáránlega ljúfa og ávaxtaríka IPA bjóra. Þeir mættu í fyrra og slóu í gegn.  Þó svo að þeir séu ekki á lista yfir top 100 bestu brugghúsa heims á Ratebeer 2016 þá kæmi mér ekki á óvart að sjá þá þar á 2017 listanum sem en er ekki kominn út.  Brewsky stendur m.a. á bak við bjórhátíðina Brewskyval í Helsingborg en þangað mættu mörg flottustu brugghúsa veraldar á síðasta ári.

Talandi um Ratebeer lista, þá er 100 bestu brugghús heims ansi flottur listi til að vera á en valið stendur á milli rúmlega 22.500 brugghúsa víðs vegar um heiminn. Ef þið skoðið listann á Ratebeer þá sjáið þið að  stór hluti þeirra brugghúsa sem eru að koma á bjórhátíð eru á listanum yfir 100 bestu brugghús heims. Flott ekki satt?

Other Half Brewing
frá Brooklyn New York er mér sérstaklega sönn ánægja að fá að kynna til leiks en þetta er eitt af þeim brugghúsum þessa veraldar sem ég er hvað mest spenntur fyrir þessi misserin.  Bjórinn frá þessum meisturum er algjör draumur en þeir gera mikið af safaríkum og þægilegum IPA bjór eða NE IPA eins og menn vilja flokka þá, sem er einmitt sá stíll sem er í miklu uppáhaldi hjá mér þessa dagana.  Ég er því kannski ekki hlutlaus, hins vegar er bjórheimurinn sammála mér í þessu en þess má geta að Other Half voru valdir 7. besta nýja brugghús heims á meðal rúmlega 3800 brugghúsa á Ratebeer 2015 og núna sitja þeir í 10. sæti yfir bestu brugghús veraldar á Ratebeer (2016 listinn).  Það verður að teljast nokkuð gott ekki satt? Hvort sem það er safaríkur IPA, spriklandi saison eða ögrandi súrbjór þá er það allt saman gott.  Já það er vert að smakka bókstaflega allt sem þessir gaurar koma með á Bjórhátíð 2018, þetta er sjaldgæft tækifæri.

Cloudwater Brewing
Á þessum sama lista liggur breskt brugghús í 5. sæti, Cloudwater brewing sem staðsett er í Manchester UK.  Þessir gaurar hófu starfsemi sína á sama tíma og Other Half árið 2014 og hafa náð álíka árangri.   Sjálfur hef ég smakkað lítið frá þeim en það sem ég hef komist yfir hefur verið virkilega vandað og gott.  Ég mun klárlega mynda röð við Cloudwater básinn á komandi hátíð og vera með læti, mikið hlakka ég til.

De Garde Brewing
Talandi um 10 bestu brugghús heims, þá er De Garde Brewing nr 7 á þeim lista.  Hvað er í gangi hérna eiginlega, er þetta ekki litla Ísland sem við erum að tala um annars?  De Garde bruggar bjór á eins náttúrulegan máta og hægt er.  Þeir sérhæga sig í sjálfgerjuðum bjór (spontant fermented) af belgískum toga og nota aðeins villiger og þá er ég ekki að tala um einangrað ræktað villiger, nei ég er að tala um villiger sem fyrirfinnst í andrúmsloftinu í kringum brugghúsið í Oregon USA, rétt eins og menn gera í Cantillon í Brussel.  Til þess notar þeir svo kallað kæliskip eða coolship þar sem soðinn kældur bjórvökvinn er látinn standa á meðan örverur allt í kring lenda í vökvanum og byrja að gerja hann.  Við erum að tala um bakteríur og gersveppi sem gefa frá sér sérstakar bragðflækjur sem sumir kalla súrt og „funky“.   Bjórinn er svo fluttur yfir í eikartunnur og látinn þroskast þar frá 3 mánuðum og upp í rúmlega 3 ár áður en hann fer á flöskur.  Þar hefst svo önnur gerjun sem kolsýrir bjórinn á náttúrulegan máta.  Já þetta er sannkallað „craft“.

Bokkereyder
Svo er það Bokkereyder, lítið belgískt ævintýri sem frábært er að fá að taka þátt í á komandi hátíð.  Þetta er lítið brugghús, líklega það minnsta á komandi hátíð og nokkuð óþekkt þangað til bara nýlega þegar það var valið besta nýja brugghús heims 2016 á Ratebeer á meðal 6500 nýrra brugghúsa . Ég hef ekkert smakkað frá þeim fram til þessa en það mun breytast núna í febrúar.   Það er Raf Souvereyns sem stendur fyrir Bokkereyder en hann er mikill áhugamaður um sjálfgerjaðan villibjór eða lambic sem Belgar eru svo frægir fyrir.  Þekktustu lambic brugghús veraldar eru án efa Cantillon og 3 Fonteinen en Bokkereyder er smám saman að skipa sér sess meðal þeirra bestu.  Þetta verður líklega það erlenda brugghús sem mun koma mest á óvart á Kex hátíðiðinni þetta árið?

The Veil Brewery
er svo annað nafn sem fær bjórnörda þessa heims til að nötra af spenningi, ég skelf alla vega.  The Veil hófu framleiðslu sína í Richmond Virginia í Bandaríkjunum árið 2016 og voru svo valdir þriðja besta nýja brugghús heims á ofan töldum lista á Ratebeer.  Þeir sérhæfa sig í og brugga eingöngu IPA og DIPA sem er sá bjórstíll sem vinsælastur er meðal bjóráhugafólks.  Þetta er frábært, hér gengur maður að því vísu að fá góðan IPA og ekkert rugl.  Ég skal segja ykkur að þó ég sé að fara mynda röð við Cloudwater básinn þá mun ég finna leið til að mynda enn lengri röð við The Veil básinn, þetta verður rosalegt.  Hér er smá upphitun fyrir ykkur (https://theaudienceawards.com/films/the-veil-brewing-company-130253)

Civil Society Brewing
Ef við höldum áfram niður lista bestu nýju brugghúsa heims 2016 þá er í 5. sæti fjölskyldubrugghúsið Civil Society Brewing sem ætla mætti að væri frá öðrum hnetti en það er staðsett í Jupiter Florida, hvar sem það nú er?  Brugghúsið einblínir á vel humlaðan bjór ss IPA og DIPA en það er jú það sem við viljum ekki satt?  80% af framleiðslunni fer alla vega undir humlaðan bjór.  Þetta brugghús mun án efa verða eitthvað!

Mig langar svo að nefna hér til sögunnar í lokin People Like Us sem er nýtt danskt brugghús sem hefur þá sérstöðu að vera rekið af fólki með Einhverfu.  Mikkel Borg (Mikkeller) hefur verið þeim mikill stuðningur og á stóran þátt í því að brugghúsið er komið á ról og farið að selja bjór sinn á danskan markað.  Skemmtileg pæling og vonandi góður bjór!

Já þegar maður skoðar þetta nánar má sjá að viðburðurinn er ekkert minna en stórkostlegur og alveg á pari við flottustu bjórhátíðir heims.  Þetta varður epískt.  Ég tek það fram að það eru mörg önnur virkilega spennandi brugghús sem ég hef ekki nefnt hér, bara vegna tímaskorts.  T.d. J Wakefield, Lamplighter, Surly, Collective arts ofl.  Æ þetta er allt magnað. Hlakka til að sjá ykkur!!!