Það er að koma október og það þýðir oktoberfest með bjór, pylsum og læti ekki satt? Reyndar er hin upprunanlega oktoberfest byrjuð en hún byrjar ár hvert síðustu vikuna í September í Munchen Þýskalandi. Í ár hófst veislan reyndar bara í dag þann 22.9.18 og ef þið hafið ekki þegar prófað þessa veislu í Munchen þá eigið þið mikið eftir. Sturlun í allri merkingu þessa orðs.
En hér heima erum við með októberstemningu í smættaðri mynd víðs vegar um land, skólar, fyrirtæki og vinahópar halda uppá þessi tímamót um allt land í ýmsum stærðum og myndum. Hér á landi miðum við við október fyrir þessi veisluhöld enda hljómar það bara rökrétt ekki satt? En það er drukkinn bjór á októberfest og mikið af honum. Í upprunalandinu Þýskalandi er þessi bjór alltaf lager og frekar á léttari nótunum en þó oft dálítið maltaður líka, stíllinn er stundum kallaður Marzen en ekki má kalla bjór alvöru oktoberfest bier nema hann sé bruggaður í Munchen í tengslum við þessa hátíð.
Hér heima eru brugghúsin sum hver farin að framleiða sérstakan bjór fyrir október „októberfestbjór“ eins og þeir kalla hann og við munum sjá þessa bjóra detta í vínbúðir núna einn af öðrum. Borg Brugghús hefur verið að gera þetta síðustu árin og er alltaf um lager að ræða en yfirleitt er eitthvað skemmtilegt tvist á þeim en þó alltaf einhver tengsl við Þýskaland. Hver man ekki eftir baltic porternum Grétu eða reykbjórnum Hans t.d? Allir oktoberfest bjórar frá Borg eru með fjólubláum miða og í ár er það engin undantekning. Húgó er nr 58 í röð Borg bjóra og kemur hann í verslanir í næstu viku, hann er reyndar þegar kominn á krana á Skál, Session Craft bar ofl stöðum og er um að gera að prófa hann ferskan því í ár þarf að drekka hann eins ferskan og hægt er, hann er bara bestur þannig. Við erum að tala um stórkostlega 7.2% humla ávaxtabombu í anda New England IPA bjóra. Þetta er þó lager fyrir þær sakir að hann er gerjaður með lagergeri en hann minnir í raun ekkert á lager, ekki í þeim skilningi sem flestir tengja við. Ef ég væri að blindsmakka þennan bjór myndi ég gíska á NEIPA af bestu sort enda er hann þurrhumlaður í hengla með citra og mosaic humlum sem gefa þessa stórbrotnu ávaxtatóna og nett humlabit og svo er í honum lactosi sem skapar ákveðna mýkt og fyllingu. Borg kallar þennan bjór reyndar India Pale Lager til að tengja við humlana og beiskjuna. Magnaður bjór vægast sagt.
Tengingin við Þýskaland er kannski hér mest fólgin í nafngiftinni því stíllinn er fyrir mér alla vega eins amerískur og hann gerist! Sem er frábært. En nafnið er vísun til fatahönnuðsins Hugo Boss sem allir ættu að þekkja. Hugo Boss stofnaði fyrirtækið í Þýskalandi árið 1924 og einbeitti sér upphaflega að því að hanna og framleiða einkennisbúninga fyrir þýska herinn. Eftir síðari heimsstyrjöld hins vegar snéri fyrirtækið sér alfarið að því að hanna jakkaföt fyrir karlmenn. Þar hafið þið það.
Bjórinn er væntanlegur eftir helgina í vínbúðir, vá hvað ég mun hamstra þetta!