Þá er hann kominn í verslanir, áramótabjórinn frá Borg brugghús 2017 sem að þessu sinni er samstarf milli Borg og The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum sem er spennandi lítið brugghús á uppleið. Bjórinn heitir Best fyrir 2018 eða BF2018 Nr. C12 og er númer 12 í röð samstarfsverkefna Borgar. Nafngiftin er skemmtileg og bráðsniðug því hún auðveldar manni allar ákvarðanatökur á borð við hvort maður eigi að spara bjórinn og hvenær eigi að drekka hann. Boðskapurinn er í raun bara að drekka þetta sem fyrst því það eru gæði í húfi, vilji maður svo fara alveg eftir ábendingunum þá hefur maður sem sagt 5 daga til stefnu.
Stíllinn er ávaxtaríkur skýjaður IPA sem sumir myndu kalla New England IPA (NEIPA) og er bara alls ekki galið því að mínu mati er þetta einmitt í anda þess konar bjóra, „djúsí“, „hazy“ og humlaður. Þetta er virkilega flottur bjór og minnir dálítið á Midt Om Natten sem kom út bara rétt fyrir um tveim vikum eða svo nema hvað að þessi er aðeins meiri af styrkleika með sín 7.6% áfengis, enda er þetta áramótabjór ekki satt? Skreytingarnar á merkimiðanum eru einnig vel lukkaðar og smell passa við áramótastemninguna, svona glansandi með áberandi litum og silfri. Mér fannst t.d. eins og bjórinn væri hluti af borðskreytingunni á myndinni hér að ofan. Það er Perla nokkur Kristins sem á heiðurinn að þessu en ég þekki svo sem engin deili á henni frekar nema hvað að hún er augljóslega fær á sínu sviði.
Bjórinn er ljúfur og mildur og maður finnur lítið fyrir áfenginu. Safaríkir og blómlegir humlar gefa notalegan ávaxtakeim og áferð. Þægilegt gos og svo alveg hæfileg beiskja, alls ekki mikil. Þetta er bjór sem ég held að margir verði ástfangnir af. Það er hins vegar ekkert víst að allir fái að smakka því bjórinn er framleiddur í takmörkuðu magni. Maður verður samt að passa sig á að hamstra ekki í Vínbúðinni því það þarf jú að drekka þetta sem fyrst…ekki geyma!
Varðandi matarpörun! Ég held að þessi karl komi vel út með öllu þessu þunga og fituga sem við erum með á áramótunum. Beiskjan og humlarnir vinna vel á móti fitu og djúsí sósum og svo er þessi létti ávaxtablær skemmtilegur með t.d. kalkúninum eða hamborgarhryggnum. Ég ætla amk sjálfur að prófa með áramótakalkúninum!
Gleðilegt ár!