Klístraðir kóreskir kjúklingavængir

Ég ætla nú ekki að taka neinn sérstakan heiður af þessari uppskrift, ég fór bara á netið og fann eitthvað. Þær eru nú samt allar frekar svipaðar. Ég fylgdi samt ekki uppskriftinni alveg og ég breytti aðeins hlutföllum. Útkoman var alveg mögnuð.

Það sem þarf fyrir 4-5

 • Kjúklingavængir, 3 bakkar
 • Stórt stykki af ferskum engifer, rifinn fínt
 • Maíshveiti, 100 g
 • Jurtaolía til steikingar
 • Sesam fræ og niðurskorinn vorlaukur

fyrir sósuna

 • Púðursykur, 12 mtsk
 • Soyasósa 5 mtsk
 • 5 mtsk gochujan eða kóresk chili pasta
 • 3-4 hvítlauksgeirar, pressaðir
 • Lítill ferskur engifer biti, rifinn (stærð eftir smekk bara)
 • Sesamolía 4 tsk

Aðferð

Takið vængina og skerið krípí skrítna endann af sem líkist litla fingri af hverjum væng fyrir sig. Fargið þessum afskurði.

Setjið vængina í stóra skál, saltið og piprið og blandið rifna engiferinu saman við. Veltið svo vængjunum uppúr maíshveitinu (um 100 g) þannig að það hjúpi vel vængina.

Komdu svo olíunni af stað í djúpsteikingapotti, ef þú átt það ekki er hægt að nota pönnu. En þá þarf olían að ná um 2 cm upp á hliðarnar.

Nú er ágætt að byrja á sósunni. Takið fram pönnu, stillið á meðalhita. Setjið 12 mtsk púðursykur, 5 mtsk soyasósu, 5 mtsk chili pasta, 4 tsk semsamolíu og 3 pressaða hvítlauksgeira á pönnuna. Blandið vel saman og látið malla.

Svo er það steikingin. Djúpsteikið kjúklinginn á 190 gráður í ca 11 mínotur. Takið stöðuna á einum bita, mögulega þarf 12-13 mín. Ef þið eruð með pönnu þá steikið þið kjúklinginn í olíunni í um 4-6 mín og snúið svo bitunum og steikið í aðrar 4-6 mín.

Látið bitana kólna á eldhúsbréfi í um tvær mín. Nú ætti sósan að vera orðin dálítið eins og síróp. Veltið bitunum uppúr sósunni og setjið í skál. Skreytið með vorlauknum og sesamfræum og rífið þetta svo í ykkur. Notið puttana, anna er erfitt.

Með þessu þarf að vera einhver nettur, létt beiskur bjór, eins og pale ale eða amerískur IPA. Úlfur frá Borg er t.d. Svakalega næs með þessu!

Kartöflur, alls konar uppáhalds

Kartaflan er skemmtilegt grænmeti og ómissandi hluti í matarmenningu flestra þjóða. Kartaflan er í dag fjórða mikilvægasta uppskeran í heiminum á eftir hrísgrjónum, hveiti og maís. Mér finnst reyndar að byggið mætti vera ofar á lista þar sem það er jú undirstaða alls bjórs en það er bara ég.

Kartöflur eru gott meðlæti og oftast flottar soðnar bara, einfalt og gott en það er svo hægt að leika sér endalaust með þær og töfra fram dásamlega rétti. Stundum jafnvel stela kartöflurnar senunni og eru betri en sjálfur rétturinn sem þær eiga að bæta upp. Af og til dett ég niður á svona geggjaðan kartöflurétt en til þessa hef ég svo alltaf bara gleymt þessum réttum skömmu eftir að ég smakka eða elda. Nú langar mig að skrá þetta niður hér svo ég geti gripið í það þegar ég þarf. Ykkur er að sjálfsögðu frjálst að nota þetta líka 🙂

Ofnbakaðar kryddkartöflur að hætti Sigrúnar

Ég ætla að byrja á afar einföldum rétt, reyndar eru þessir réttir allir einfaldir ef út í það er farið. Þennan rétta lærði ég að gera af Sigrúnu minni sem er snillingur í eldhúsinu.

Litlar fallegar smælki kartöflur, eins nýjar og hægt er, helst nýupptekið. Það er þannig að nýrri kartöflur eru betri en eldri. Það þarf ekkert að skræla þessar. Skerið í tvennt og setjið í eldfast mót. Það er svo sem í lagi að nota bara venjulegar kartöflur, þá þarf að passa að skera þær í bita sem eru svipaðir að stærð.

Ólífuolía yfir, slatti, salt og pipar og ferskt timían og rósmarín. Svo er ofsalega gott að skera heilan hvítlauk í tvennt og setja með. Við setjum líka pressaðan hvítlauk yfir. En ofnbakaður heill hvítlaukur verður fáránlega góður og frábær með kartöflunum.

Þetta fer svo bara í ofninn við 200 gráður og bakað þangað til þær eru orðnar stökkar og dálítið krumpaðar. Gott að hræra í þessu annað slagið. Þetta er geggjað og mun slá í gegn.

Stökkt parmesan smælki í skírðu smjöri

Þessar eru alveg magnaðar. Aftur erum við með smælki. Nýrri betri en eldri. Ég held að Beta mágkona Sigrúnar hafi kennt okkur þetta á sínum tíma en man ekki alveg samt!

Við ætlum að gera skírt smjör (ghee) en það viljum við nota svo smjörið brenni ekki þegar við bökum kartöflurnar. Setjið ca 150g smjör í pott á móti 1 kg af smælki. Hitið smjörið á meðal hita í potti í ca 10 mín eða þar til það byrja að falla út gyltir/brúnir bitar og farið að myndast froða á yfirborðinu. Ef þið gerið óvart brúnt smjör þá er það bara allt í lagi, það er þá bara enn meiri karamella og hneta í bragði.

Finnið svo eitthvað ílát og búið til síu úr handþurku. Síið svo smjörið í gegn. Þið ættuð að fá tæran fallegan gulan vökva.

Nú skerið þið smælkið í tvent, hellið skírða smjörinu yfir ofnplötu. Magn smjörs ræðst að stærð plötunnar sem aftur ræðst af fjölda kartaflna. Hafið smjörið þannig að það rétt nái að hylja yfirborðið. Rífið svo parmesan yfir, slatta þannig að osturinn þeki alla plötuna algerlega, raðið þá kartöflunum yfir með sárið niður. Saltið svo yfir og smá timian líka, það er geggjað. Bakið loks í ofni við 200 gráður þar til kartöflurnar eru orðnar stökkar en mjúkar að innan. Þetta er alveg klukkutími! Ef osturinn virist hafa gufað upp sár meginn, ég hef nefnilega lent í því, þá má alveg snúa kartöflunum þannig að sárið snúi upp og bætið svo rifnum parmisan osti yfir og inn í ofninn í smá stund. Pínu svindl en samt betra en að henda kartöflunum.

Auðvitað hægt að krydda þetta að vild, t.d með rósmarín, oregano, timian eða hvað það nú er sem kætir ykkur.

Stökkar hjúpaðar parmesan kartöflur

Þessar eru alveg geggjaðar, ég held ég hafi smakkað þetta fyrst hjá nágranna okkar Björk Snorra!

Skrælið kartöflurnar og sjóðið í potti. Setjið ca 300 grömm hveiti í poka. Hér fer auðvitað eftir hve mikið af kartöflum þið eruð með. En við viljum að hveitið hjúpi vel kartöflurnar. Kryddið hveiti með salti og pipar og mikið af rifnum parmesan, ég hef líka prófað örlítið af reyktri papríku með, ofsa gott.

Slítið svo kartöflurnar til helminga með höndunum og setjið í pokann með hveitinu. Lokið pokanum og hrisstið vel þannig að kartöflurnar fái á sig hveitihjúp.

Setjið kartöflurnar í eldfast mót, setjið svo stórar smjörklípur yfir hér og þar og inn í ofn við 200 gráður. Fylgist með þessu í ofninum. Bætið smjörklípum ofan á ca einu sinni til tvisvar og látið bráðna niður. Þegar kartöflurnar eru orðnar stökkar og gullbrúnar þá er þetta klárt.

Rugl, þetta er dálítið eins og djúpsteikt en samt ekki!

Brakandi andafitu konfekt

Þessar kartöflur kenndi mér að gera Ragnar Freyr Ingavarsson, eða Læknirinn í eldhúsinu eins og hann kallar sig líka. Eins og með hinar uppskriftirnar þá er þetta frekar einfalt. Lykillinn hér er andafitan. Þú færð fituna t.d. í dós af Confit de Canard sem þú færð í Bónus eða Krónunni. Afgangs fitu frystið þið í poka þangað til næst.

Þetta er einfalt, svo einfalt reyndar að mig langar næstum til að semja eitthvað bull til að láta þetta hljóma flókið. En ég geri það ekki samt, við erum saman í þessu.

Sem sagt, skrælið kartöflur, sjóðið svo í vatni með smá salti í ca 7 mín. Ég gleymdi mér auðvitað og tók ekki tíman en þetta á ekki sjóða þar til þær eru tilbúnar.

Setjið svo slatta af hveiti í poka ásamt salti og pipar. Bara svona eftir höfðinu. Setjið svo kartöflurnar í pokann og hristið þannig að hveitið hjúpi kartöflurnar.

Setjið andafitu á pönnu og hitið upp, steikið svo kartöflurnar í fitunni á dálítið háum hita. Við erum ekkert að eltast við að brúna þær en gott að velta kartöflunum aðeins um þannig að það komi aðeins litur á þær og fitan hjúpi allar hliðar (auðvitað eru í raun ekki hliðar á kartöflum, þær eru hnettir en þið vitið hvað ég á við).

Hitið bakarofn í 180 gráður. Svo setjið þið pönnuna í ofninn ef pannan þolir það, annars er það bara að henda þessu í eldfast mót en látið fituna á pönnunni fylgja með. Bakið svo í ca 50 mínútur. Tékkið bara á kartöflunum, þegar þær eru orðnar stökkar og vel litaðar þá eru þær klárar (sjá mynd t.d.). Fólk á eftir að gapa yfir þessu hjá ykkur!

Groddaralega kartöflumúsin sem Máninn minn elskar

Ok kartöflumús er ekki bara kartöflumús. Hér læt ég eina uppskrift með sem sonur minn sem venjulega er ekkert fyrir kartöflur eða kartöflumús elskar. Enn aftur erum við með eins ferskar kartöflur og við finnum.

Við þurfum 1 kg nýjar kartöflur helst smælki , 100 til 150g íslenskt smjör, 1 dl rjóma ca. salt, ekki pipar og 1 dl rifinn parmesan ost

Sjóðið kartöflur með hýði í vel söltu vatni. Sigta mest allt vatnið frá. Stappa kartöflurnar með kartöflustappara. Bætið smjöri saman við og stappið vel saman við kartöflurnar. Bætið svo rjómanum saman við smám saman. Rjóminn er til viðmiðunnar, má vera meira eða minna. Passið bara að músin verði ekki of þunn. Salta eftir smekk og rífið svo parmesan ost í lokin. Þetta er ofsalega ljúffeng kartöflumús!

Kartöflu demantar drekktir í smjöri

Ég fékk þetta hjá félaga mínum og kollega Lækninum í Eldhúsinu fyrir skemmstu, þetta var alveg magnað, drengurinn var með minnir mig lambalundir og alls konar en ég bara man það ekki almennilega því kartöflurnar stálu senunni. Ég spurði Ragnar hvernig hann gerði þetta og hann sagði mér að þessar kartöflur hefðu aldrei komið svona vel út hjá honum áður. Hann var í raun ekki alveg viss hvað hann gerði öðruvísi þessu sinni.

Ég ákvað að láta á reyna og viti menn, þetta kom vel út, líklega með betri kartöflu meðlæti sem maður fær.

Fyrir þennan rétt er best að hafa stórar kartöflur, ekki þó bökunarkartöflur. Afhýðið kartöflurnar, skerið þær svo þannig að þær líti út eins og demantar, sem sagt þannig að þið fáið fram marga fleti á hverri kartöflu. Stærstu hliðarnar eiga að vera yfirborðið og undirlagið, svo skerið þið hliðarnar líka. Sjá mynd!

Skerið allar hliðar þannig að þið myndið eins konar demant.

Setjið kartöflurnar svo á pönnu ásamt heilmiklu smjöri, við erum að tala um amk 100g til að byrja með á pönnu sem er full af kartöflum. Ferskt timian og rósmarín með ásamt 5-6 hvítlauksgeirum.

Látið þetta malla á meðal hita, snúð þeim reglulega þannig að allar hliðarnar brúnist, já smá dútl. Bætið smjöri á pönnuna, kartöflurnar sjúga í sig smjörið, við viljum hafa nóg. Þegar allar hliðar eru brúnaðar þá búið þið til kjúklingasoð og hellið yfir kartöflurnar þannig að það næstum flýtur yfir kartöflurnar. Hér kemur smá twist.

Skv Ragnari á að setja þetta inn í ofn svona, bæta smjöri yfir og baka þangað til vökvinn er uppurinn. Ég gerði þetta svona en mér fannst kartöflurnar ekki verða stökkar eins og hjá Ragnari en þær voru svakalega góðar. Þetta voru munnleg fyrirmæli og mögulega misskildi ég eitthvað?

Ég ætla þó næst að gera þetta svona. ATH hef vissulega ekki prófað sjálfur að gera þetta svona. Sjóðið kjúklingasoðið alveg niður, bætið svo slatta af smjöri yfir, 2-3 hvítlauksgeira og bakið við 200 gráður í ofni þangað til kartöflurnar eru orðnar stökkar og fallegar.

Fylltar bakaðar bacon kartöflur

Þessar eru dásamlegar með t.d. góðri steik. Við duttum fyrst inn á þetta frá Kjötkompaníinu en þessar kartöflur kosta ansi mikið þar og því fórum við í tilraunir heima eins og svo oft áður. Viti menn, við erum komin með jafn ef ekki betri kartöflur fyrir mun minni kostnað,
Finnið til myndarlegar bökunarkartöflur, bakið þær í ofni við 200 gráður þar til þær eru orðnar bakaðar. Við notum 4 kartöflur fyrir 6 manneskjur.

Skerið skallottulauk og hvítlauk smátt og mýkið á pönnu í smjöri. Magnið fer eftir smekk og magn af kartöflum. Takið laukinn af pönnunni en ekki skola pönnuna. Steikið bacon á sömu pönnu þar til orðið stökkt. Skerið svo baconið smátt og setjið til hliðar. Takið kartöflurnar út úr ofni skerið til helminga og skafið kartöflurnar innan úr hýðinu en passið að gera ekki gat á hýðið. Geymið hýðið. ATH við náum ekki að fylla öll hýðin því vi viljum kúffylla hýðin.

Stappið kartöflurnar í smjöri, mikið af smjöri, blandið við bacon, lauk og hvítlauk á pönnunni. Rífið heilan hvítlauksost yfir og kryddið með salt og pipar. Blandið þessu saman. Þynnið með rjómaosti og smá rjóma ef þarf. Við notuðum ca 1/2 til heilan dl rjóma og tvær kúfaðar mtsk rjómaost á 4 kartöflur. Fyllið svo aftur hýðin með “kartöflustöppunni”, rífið rest af hvítlauksostinum yfir eða einhvern annan ost og kryddið með smá reyktri papríku. Setjið svo inn í ofn aftur til að hita aðeins upp og bræða ostinn. Berið svo fram. Svakalega gott með góðri ribbeye steik t.d.

Kúffyllið hýðin, athugið að það verður ca einn hýðishelmingur afgangs! Bakið svo aftur til að hita þetta upp og bræða ost.

Ég er að safna svona kartöflu töfrum, ef þið lumið á einhverju geggjuðu þá endilega sendið á mig línu og ég prófa!

Ítölsk geitaostaeðla með ristuðu súrdeigsbrauði, endurfundir

Ég veit ekki hvað skal kalla þennan rétt, þetta er eins konar marinara geitaostadýfa eða einfaldlega “feelgood” ítölsk geitaostaeðla? Alla vega það er smá saga á bak við þessa uppskrift. Við Sigrún höfum farið nokkrum sinnum til New York en eins og fólk veit sem þangað hefur komið er gríðarlega mikið af veitingastöðum þar í borg og gæðin allt frá að vera mjög lítil yfir í 3 stjörnu Michelin staði. Það getur því verið dálítið snúið að finna góðan stað að borða á.
Við Sigrún römbuðum inn á lítinn skemmtilegan ítalskan stað þegar við vorum að þvælast þarna árið 2014, þetta var lítill og kósí eins konar vínbar þar sem veggir voru hlaðnir ítölskum vínflöskum af öllum stærðum og gerðum og girnilegum flöskum af ólífuolíum ýmis konar. Við fengum þarna frábær vín en líka rétt sem sat í okkur lengi á eftir. Þetta var selt sem forréttur, heit marinarasósa með geitaosti borið fram með ristuðu súrdeigsbrauði, alveg geggjað í minningunni. Við klikkuðum á að skrifa hjá okkur nafnið á staðnum sem voru mikil mistök.

Til að gera langa sögu aðeins styttri þá fundum við ekki þennan stað aftur þegar við leituðum á netinu eða í næstu heimsókn okkar til borgarinnar sem aldrei sefur. Ég flaug meira að segja um svæðið í Google Earth en fann ekki staðinn. Við vorum því ekkert að spá í þessum stað núna þegar við vorum í New York 8 árum síðar, við vorum bara búin að sætta okkur við að staðurinn hefði farið á hausinn. En okkur langaði í ítalsk og fórum því að leita á netinu og viti menn, þarna blasti allt í einu við staðurinn, Aria Winebar Hells Kitchen, með myndum og öllu. Bara poppar þarna inn allt í einu eftir alla þessa leit? Við vorum svo sannarlega glöð með þetta en pínu stressuð yfir að gæði staðarins væru meira tengt minninngunni um það sem var. Svo hefur smekkur og palletta líka þróast dálítið.

Án þess að lengja þetta frekar þá er skemmst frá því að segja að við vorum mjög ánægð með réttinn, reyndar svo mjög að við ákváðum að mastera þetta heima. Við prófuðum það svo þegar heim var komið og viti menn, þetta tókst það vel að við ákváðum að deila hér.

Það sem þarf (fyrir ca 4-5)

 • 2 dósir Mutti heilir tómatar í dós. (fæst í Krónunni) Maukað í höndunum eða með gaffli
 • Alveg lúkufylli af ferskri basillicu. Skorið mjög fínt
 • Parmesan ostur, rifinn mjög fínt
 • Salt og pipar eftir smekk
 • Chavroux rjómageitaostur, alveg heil dól, ef ekki meira
 • Hvítlauksgeirar, nokkrir
 • Gott súrdeigsbrauð, niðursneitt

Aðferð

Maukið Mutti tómata með höndunum eða gaffli. blandið saman ferskri basilliku sem þið skerið niður fínt. Salt og pipar. Smakkið þetta bara til. Ég reif smá parmisan ost saman við, ca 2 mtsk eða svo.

Þegar þið eruð ánægð með útkomuna þá setjið þið þetta í eldfastar skálar eða mót. Setjið geitaostinn í miðjuna og svo bakið þið þetta í ofni, við 180 gráður þar til sósan er orðin heit og osturinn farinn að bráðna.

Á meðan þetta er í ofni, þá takið þið fram súrdeigsbrauðið, ristið á pönnu í smá smjöri eða í brauðrist bara. Skerið hvílauksgeira þannig að þið fáið sár og nuddið svo yfir brauðið

Takið tómatsósuna út, og skreytið með ferskum basilliku laufum. Rífið smá parmesan yfir og berið fram með ristuðu súrdeigsbrauði.

Þetta er einfaldlega geggjað með rauðvíni. Hef ekki reynt bjórinn með en það væri helst wild ale eða kannski belgískur tripel eða blond!

Parmaskinka með geitaostasósu á eldbakaðri pizzu

Já já pizzatilraunir halda áfram, það er bara svo gaman. Að þessu sinni er ég að prófa frábæran rétt sem reyndar er einn af vinsælustu réttunum á síðunni okkar. Parmaskinka með geitaostasósu á glóðuðu brauði, réttur sem er stolinn beint frá La Primavera. Þetta er borðleggjandi pizzaálegg!

Ef þið hafið ekki prófað þennan rétt nú þegar þá hvet ég ykkur til að gera það hið snarasta en hér er það pizzaútgáfan.

Það sem þarf

 • Gott pizzadeig, helst súrdeig, það er best
 • Rifinn parmesanostur
 • Hvítlauksolía
 • Heimagerð geitaostasósa, uppskrift hér
 • Góð parmaskinka
 • Fersk basillica
 • Góð ólífuolía

Aðferð

Byrjið á að gera geitaostasósuna, gerið helmingi minni uppskrift en í uppskriftinni. Fínt að þykkja hana svo aðeins með hveitibollu.

Fletjið út deigið, munið aldrei kökukefli. Dreifið hvítlauksolíu yfir botninn, hellingur af rifnum parmesan sem þið notið til að teppaleggja botninn, svo geitaostasósan yfir.

Inn í ofn. Þegar pizzan er bökuð þá hyljið þið hana með parmaskinku, má vera alveg gott lag af skinku. Hellingur af ferskri basillicu yfir og loks góð ólífuolía. Það má líka toppa með aðeins rifnum parmesan.

Berið fram og bíðið eftir hrósinu, njótið!

Magnað geitaostasalat með ristuðum pecanhnetum og fleira

Ég hélt ég væri löngu búinn að skrifa þessa uppskrift hér inn en rak bara augun í það í gær þegar ég var að skrifa um pizzatilraunir mínar að svo var ekk. Ég laga það hér með. Þetta salat er geggjað, jafnvel fyrir þá sem eru ekki mikið fyrir geitaost því osturinn hér er frekar látlaus.

Það sem þarf fyrir ca 4-5

 • Klettasalat, um það bil tveir pokar
 • Rauðrófur, forsoðnar. 2-3 stk, fer eftir stærð
 • Pecanhnetur, heill poki, bakaðar í ofni
 • Rjómageitaostur, Chavroux ein dós
 • Ólífuolía
 • Hunang
 • Salt og pipar
 • Timian og rósmarín
 • Chiliflögur
 • Jarðaber – ef maður vill
 • Pæklaður rauðlaukur – ef maður vill
 • Balsamic edic – ef maður vill

Aðferðin

Skerið rófurnar í grófa bita eftir smekk. Ekki sneiðar samt. Setjið í eldfast mót, veltið uppúr ólífuolíu og kryddið með salt og pipar, timian og rósmarín. Það er eiginlega möst að nota líka chiliflögur, fer eftir styrk þeirra hvað mikið en það má rífa aðeins í. Bakið þetta svo í ofni þar til komið er smá “crust”. Ef þið eruð ekki með forsoðnar þá þarf auðvitað lengri tíma.

Veltið pecanhnetunium, uppúr ólífuolíu og sömu kryddum. Sleppa hér chiliflögunum. Bakið í ofni, alveg í lokin takið þið hneturnar út og veltið uppúr hunangi og aftur inn í smá stund þannig að komi smá karamellu myndun á þetta.

Svo er bara að raða saman salatinu á fallegum disk eða stórri skál. Klettasalat, rauðrófubitar, geitaostaklessur og svo dreifa pecanhnetunum yfir. Loks ólífuolía yfir allt! Við höfum líka prófað að nota balsamic edik í staðinn fyrir ólífuolíu og koma það mjög vel út. Það er nefnilega eiginlega nauðsynlegt að fá smá sýru á móti allri þessari jörð.

Þetta var upphaflega útgáfan, svo má alveg leika sér áfram með þetta. Síðast þegar við gerðum þetta höfuðm við pæklaðan rauðlauk og jarðaber með. Þetta kom alveg svakalega vel út þannig og mun ég líklega halda mig við þá útgáfu í framtíðinni

Pizza tilraunir, nokkrar vel lukkaðar

Það eru flestir sammála mér að pizzur eru alltaf góður matur, eða oftast. Flestir elska pizzur. Maður getur samt fengið smá leið á að fá alltaf sama áleggið, ok segir ekki leið en það er gaman að prófa eitthvað nýtt! Undanfarið hef ég verið að skoða hvort ég geti breytt réttum sem ég elska yfir pizzu. Það jú hægt að setja hvað sem er á pizzuna, spurningin er bara hvort það komi vel út.

Hér er ég með nokkrar sem hafa komið ofsalega vel út. Endilega prófið og ef þið kunnið að meta mætti tagga mig einhvers staðar. Þið þurfið ekki að vera með pizzaofn, þó það sé best þá má ná góðum árangri með öðrum leiðum. Sjá nánar hér.

Geitaostasalat pizzan

Við erum mjög hrifin af geitaosti á þessum bæ, reyndar vil ég bara hafa hann mjög látlausan, ekki of mikla geit sem sagt. Geitaostasalatið okkar er geggjað og ég hvet ykkur til að prófa það við tækifæri. En hér er það sem sagt pizza útgáfan. Magnið af hverju hráefni fer bara eftir ykkar smekk.

Það sem þarf fyrir eina pizzu

 • Gott pizzadeig, ekkert miðlungs neitt hér
 • Hvítlauksolía í stað pizzasósu
 • Rjómasostur, nokkrar klessur
 • Geitarjómaostur, nokkrar klessur
 • Rifinn parmesan
 • Mozzarella, slitinn í smátt
 • Forsoðnar rauðrófur, nokkrar sneiðar
 • Döðlur, í bitum
 • Ristaðar pecanhnetur
 • Klettasalat
 • Hunang

Aðferðin

Byrjið að græja pecanhneturnar, setjið þær í lítið eldfast mót, veltið uppúr ólífuolíu, salti og pipar og svo ferskt timian. Ég nota líka smá chilliflögur en það þarf ekki. Ristið þetta í ofni og saxið svo hneturnar aðeins í smærri einingar. Fletjið svo út deigið, setjið hvítlauksolíuna yfir, ekki allt á floti samt. Rífið parmesanostinn yfir þetta, dreifið svo rjómaosta- og geitaostaklessum yfir allt. Raðið svo skífum af rauðrófum hér og þar, dreifið döðlubitunum yfir allt og loks mozzarella tægjum.

Inn í ofn. Þegar pizzan er klár, þá setjið þið helling af klettasalati yfir, stráið ristuðum pecanhnetum yfir og toppið svo með hunangi. Þetta er kreisí pizza! Njótið!!!

Suður amerísk “corn dip” ostapizza

Þessi er sprottin upp af geggjaðri mexikanskri maís ostadýfu sem ég mæli svo sannarlega með að þið prófið við tækifæri. Parast fáránlega vel með West Coast IPA. Bara að skrifa um þessa ostadýfu hér fær mig til að vilja hendast í að gera hana og njóta. En það má bíða betri tíma. En alla vega þessi dýfa er svo geggjuð að mig langaði til að láta hana skína á pizzu. Ég lét bara vaða og viti menn, “home run”. Rosaleg pizza, ég er mjög feginn að ég ákvað að prófa!

Það sem þarf fyrir eina pizzu (rúmlega reyndar)

 • Gott pizzadeig
 • 1 mtsk chili duft
 • 1 tsk reykt papríka
 • 1 tsk cayenne pipar
 • Hálfur laukur skorinn smátt
 • 3 hvítlauksgeirar, pressaðir
 • 2 ferskir maískólfar
 • Salt og pipar
 • 80 g smjör
 • Rjómaostur eftir smekk
 • 1/2 bolli majones
 • 1 mtsk safi úr límónu
 • Ferskur kóríander
 • Rifinn parmesan, ca bolli
 • 1 dós Mutti tómatar (þetta dugar reyndar í rúmlega tvær pizzur)
 • Fersk basillika, ef þið eigið
 • Rifinn cheddar ostur
 • 1 kúla af MozzarellaNachos ostaflögur

Aðferðin

Blandið saman kryddunum, 1 mtsk chili duft, 1 tsk reykt paprika, 1 tsk cayenne pipar, salt, og má nota smá chili korn til að fá smá power í þetta. Græjið svo brúnt smjör, setjið 80 – 100g smjör í pott og látið malla þar til orðið brúnt og farið að freyða. Þið eigið líka að finna þessa notalegu hnetu karamellu lykt af smjörinu. Bætið þá alveg tsk af kryddblöndunni saman við og smá salt og leggið til hliðar.

Skerið hálfan lauk smátt og mýkið á pönnu í smjöri og olíu. Pressið svo 3 hvítlauksgeira og bætið á pönnuna. Takið utan af maískólfunum, skerið kornin af, þið eigið að vera með alveg bolla af kornum, ef þið eruð á hraðferð þá má nota maís í dós, en það er samt ekki eins magnað. Bætið þessu við laukinn og látið malla þar til maís er orðinn mjúkur. Bleytið í þessu með brúna smjörinu. Smakkið þetta svo til og kryddið eftir smekk.

Gerið svo pizzasósuna eins og þið eruð vön. Blandið saman 1/2 bolla af majonesi við 1 mtsk límónusafa og setjið í sprautuflösku. Fletjið út deigið. Dreifið pizzasósu yfir, ekkert of mikið samt. Slítið í sundur mozzarella og dreifið yfir, dreifið svo maísblöndunni yfir deigið líka. Magn fer eftir hvað deigið þolir, of blautt getur skapað vandræði, ég var með vel blautt álegg en gott deig svo það slapp vel. Rífið slatta af parmesan yfir þetta og loks rjómaostaklípur eftir smekk.

Eldið pizzuna eins og þið gerið venjulega, þar til álegg er bráðnað og botninn kominn með fallegt hlébarðamynstur. Takið pizzuna út, helling af ferskum kóríander yfir og loks sprautið þið límónumajonesinu yfir. Myljið loks Nachos flögur yfir og njótið. Flögurnar gera þetta stökkt og nett því þessi pizza er dálítið blaut og safarík annars.

Pizza Tómat Vinaigrette með ferskjum

Þetta er svo borðleggjandi, að breyta bruschetta í pizzu, afhverju ekki? Þetta er í raun bara það sama ekki satt? Þessi pizza er komin frá þessum rétti, bruschetta með kirsuberjatómata vinaigrette og ferskjum. Reynið að nota ferskar ferskjur ef hægt er, annars er það niðursoðnar í dós, kemur reyndar mjög vel út þannig.

Það sem þarf fyrir eina pizzu

 • Gott pizzadeig
 • Kirsuberjatómatar, ein askja
 • 1/4 bolli ólífuolía
 • 3 hvítlauksgeirar, smátt skornir
 • 2 mtsk ferskt timian
 • 1/2 tsk chiliflögur
 • 1/2 tsk sjávarsalt
 • Smá pipar
 • 1 mtsk hvítvínsedik
 • 1 mtsk balsamic edik
 • Mozzarellaostur, rifinn
 • Mozzarella, ferskur, slitinn í sundur
 • Basillica, fersk
 • Ferskjur, sneiddur í hæfilega stórar sneiðar
 • Balsamic krem

Aðferðin

Byrjum á vinaigrette, Setjið um 1/4 bolla ólífuolíu á pönnu, tómatana út á (1 askja), 1/2 tesk chiliflögur, 1/2 tsk sjávarsalt, smá pipar, 2 mtsk ferskt timian og 3 smátt skornir hvítlauksgeirar. Látið malla þar til tómatarnir eru farnir að opnast og maukast dálítið. Takið þá pönnuna af og látið kólna aðeins. Bætið svo 1mtsk balsamic edik og 1 mtsk hítvínsedik á pönnuna og blandið vel saman. Safnið þessu svo öllu saman í skál.

Græjið svo pizzuna, fletjið út deigið. Dreifið viniagrettinu yfir botninn, svo dreifið þið rifnum mozzarellaosti yfir allt. Inn í ofn með þetta. Þegar pizzan er fullelduð takið þið hana út, dreifið ferskum mozzarella yfir, raðið ferskjusneiðunum ofan á, svo slatta af ferskri basillicu og svo toppið þið þetta með balsamic crema. Þetta er bara svo geggjað!

Pizza Rosa, a la Binaco

Ok þessi er ekki frá mér en þessi fær að fljóta með af því að hún er bara svo mögnuð. Sjá nánar hér!

Suður amerísk corndip ostapizza

Pizza er mest borðaði matur á heimsvísu enda góður matur og möguleikarnir nánast endalausir þegar kemur að áleggi. Ég hef skrifað um pizzagerð áður og ætla ekki að kafa of mikið í það hér en það er þó mikilvægt að taka það fram að hráefnið sem þú notar er það allra mikilvægasta. Ef hráefnið er bara svona la la þá verður pizzan aldrei meira en það. Mér finnst deigið vera það mikilvægasta, það er svo stór hluti af pizzunni og þvi mikilvægt að gera gott deig eða kaupa gott tilbúið deig.

En svo er gaman að gera tilraunir, prófa eitthvað nýtt. Hér er ein sem ég gerði í vikunni, hún var geggjuð og mun ég klárlega gera hana aftur.

Það er gaman að gera pizzur sérstaklega þegar maður er búinn að koma sér upp góðum pizzaofni. Það eru nánast allir glaðir, alltaf þegar pizza er borin á borð. Ég nota pizzuna oft til að grisja úr ísskápnum, finn til það sem gæti gengið saman og hendi á pizzuna. Það er gott að eiga samt alltaf til Mutti tómata í dós en úr þeim má gera geggjaða pizzasósu, ekki nota tilbúna sósu það munar bara svo ofsalega miklu. Smá salt og pipar, kannski oregano og fersk basilica, hrærið þetta saman og ef þið eigið tómat púrré má nota það til að þykkja.

Ég kalla þessa suður amerísk corndip ostapizza því fyrirmyndin er Mexíkósk maís ostadýfa sem er algerlega mögnuð. Mig langaði að prófa að gera pizza útgáfu af þessari snilld og viti menn, “home run”.

Það sem þarf fyrir rúmlega 1 pizzu

 • 1 mtsk chili duft
 • 1 tsk reykt papríka
 • 1 tsk cayenne pipar
 • Hálfur laukur skorinn smátt
 • 3 hvítlauksgeirar, pressaðir
 • 2 ferskir maískólfar
 • Salt og pipar
 • 80 g smjör
 • Rjómaostur eftir smekk
 • 1/2 bolli majones
 • 1 mtsk safi úr límónu
 • Ferskur kóríander
 • Rifinn parmesan, ca bolli
 • 1 dós Mutti tómatar (þetta dugar reyndar í rúmlega tvær pizzur)
 • Fersk basillika, ef þið eigið
 • Pizzadeig
 • Rifinn cheddar ostur
 • 1 kúla af Mozzarella
 • Nachos ostaflögur

Aðferðin

Blandið saman kryddunum, 1 mtsk chili duft, 1 tsk reykt paprika, 1 tsk cayenne pipar, salt, og má nota smá chili korn til að fá smá power í þetta. Græjið svo brúnt smjör, setjið 80 – 100g smjör í pott og látið malla þar til orðið brúnt og farið að freyða. Þið eigið líka að finna þessa notalegu hnetu karamellu lykt af smjörinu. Bætið þá alveg tsk af kryddblöndunni samanvið og smá salt og leggið til hliðar.

Skerið hálfan lauk smátt og mýkið á pönnu í smjöri og olíu. Pressið svo 3 hvítlauksgeira og bætið á pönnuna. Takið utan af maískólfunum, skerið kornin af, þið eigið að vera með alveg bolla af kornum, ef þið eruð á hraðferð þá má nota maís í dós, en það er samt ekki eins magnað. Bætið þessu við laukinn og látið malla þar til maís er orðinn mjúkur. Bleytið í þessu með brúna smjörinu. Smakkið þetta svo til og kryddið eftir smekk.

Gerið svo pizzasósuna eins og þið eruð vön. Blandið saman 1/2 bolla af majonesi við 1 mtsk límónusafa og setjið í sprautuflösku. Fletjið út deigið. Dreifið pizzasósu yfir, ekkert of mikið samt. Slítið í sundur mozzarella og dreifið yfir, dreifið svo maísblöndunni yfir deigið líka. Magn fer eftir hvað deigið þolir, of blautt getur skapað vandræði, ég var með vel blautt álegg en gott deig svo það slapp vel. Rífið slatta af parmesan yfir þetta og loks rjómaostaklípur eftir smekk.

Eldið pizzuna eins og þið gerið venjulega, þar til álegg er bráðnað og botninn kominn með fallegt hlébarðamynstur. Takið pizzuna út, helling af ferskum kóríander yfir og loks sprautið þið límónumajonesinu yfir. Myljið loks Nachos flögur yfir og njótið. Flögurnar gera þetta stökkt og nett því þessi pizza er dálítið blaut og safarík annars.

Pizza Rosa a la Chris Bianco

Pizza er mest borðaði matur á heimsvísu enda góður matur og möguleikarnir nánast endalausir þegar kemur að áleggi. Ég hef skrifað um pizzagerð áður og ætla ekki að kafa of mikið í það hér en það er þó mikilvægt að taka það fram að hráefnið sem þú notar er það allra mikilvægasta. Ef hráefnið er bara svona la la þá verður pizzan aldrei meira en það. Mér finnst deigið vera það mikilvægasta, það er svo stór hluti af pizzunni og þvi mikilvægt að gera gott deig eða kaupa gott tilbúið deig.

Hugmyndir okkar hér kvikna oft út frá matreiðsluþáttum, eitthvað sem við sjáum þar og reynum að endurgera í eldhúsinu okkar heima. Um daginn datt ég niður á þáttaröð á Netflix, Chef’s Table Pizza sem fjallar heimsins meistara í pizzagerð. Þetta eru skemmtilegir þættir sem vert er að skoða. Í fyrsta þættinum er fjallað um Chris Bianco sem ku hafa komið pizzunni á kortið og gagnrýnendur tala um að hann geri bestu pizzur í Veröldinni. Vandamálið fyrir okkur sem langar að sannreyna það er að hann er með staðina sína í Arizona.

Auðvitað verður maður forvitinn og þess vegna langar mig að prófa Pizza Rosa sem er ein af þessum frægu á matseðlinum hjá Chris. Þessi pizza hljómar látlaus en ku vera ofsalega góð. Já og ég get auðvitað sagt það núna, hún er frábær. Hér kemur lýsing á því hvernig ég gerði hana, ég veit auðvitað ekkert hvernig pizzan hans Chris á að bragðast en þessi er svakaleg.

Það sem þarf í eina pizzu

 • Gott deig, ekki eitthvað semi gott deig. Mikilvægt!
 • Rauðlaukur, fínt sneiddur í mandolini
 • Ferskt rósmarin, smátt skorið, ca 2 mtsk
 • Pistasiukjanar, muldar
 • Rifinn parmesan, 1 bolli eða meira
 • Ferskur mozzarella, slitinn í sundur
 • Hvítlauksolía

Aðferðin

Deigið þarf að vera fullkomið, það er það mikilvægasta við pizzugerð skal ég segja ykkur. Gerið allt klárt, rífið parmesan, sneiðið rauðlaukinn, saxið rósmarin og myljið pistasiuhneturnar. Hitið ofninn þannig að hann sé tilbúinn. Hjá mér er það 450 gráður!

Fletjið út deigið í höndunum, ekkert kefli takk. Dreifið hvítlauskolíu yfir og svo helling af rifnum parmesan (ca 1 bolli). Passa að skilja eftir ca 2-3 cm af pissujaðrinum sem fær ekkert álegg. Þetta á að vera eins og teppi nánast, pressið ostinn varlega ofan í deigið. Osturinn sýgur aðeins upp olíuna þannig að botninn verði ekki of blautur. Svo eru það rauðlaukhringirnir (hálfur rauðlaukur), slatti alveg en fer eftir smekk. Dreifið svo rósmaríni (2 mtsk) yfir pizzuna og mozzarella osti sem þið slítið í sundur.

Verið tilbúin með pistastiuhneturnar (ca 2 mtsk). Bakið pizzuna í ofninum, þegar hún er alveg að verða klár takið þið hana út og dreifið pistasiukjörnunum yfir. Aftur inn í ofn í smá stund. Berið á borð með góðri ólífuolíu yfir.

Rjómalöguð Tékknesk Dill Sveppa Súpa – Kulajda

Það er svo gaman að ferðast um heiminn og smakka á matarmenningu annarra þjóða og detta inn á eitthvað nýtt. Þannig spretta upp hugmyndir að réttum til að spreyta sig á heima við. Við vorum á dögunum í Prag sem er dásamleg borg og matarmenning mikil svo ég tali nú ekki um bjórinn. Þar smakkaði ég bestu súpu sem ég hef smakkað, já ég segi það bara, ég man alla vega ekki eftir að hafa smakkað betri súpu í langan tíma. Þetta var reyndar á mjög flottum veitingastað uppá þaki í 30 stiga hita með ægifagurt útsýni yfir þessa stórbrotnu borg, þannig að ég var dálítið hræddur um að öll þessi umgjörð hefði ahrif á upplifun mína. Ég mæli alla vega með að þið prófið þennan stað ef þið þvælist til Prag. Staðurinn heitir Coda og tilheyrir Aria lúxushótelinu sem er hið glæsilegasta.

Alla vega, súpa þessi er klassík í tékkneskum matarkúltúr og er í raun dill kartöflusúpa með gæðasveppum,. Mætti líka kalla hana sveppa dill kartöflusúpu? Svo er hefðbundið sett soðið egg í hana en á Coda var notað hleypt egg (poached egg) sem er auðvitað enn meira elegant.

Ég ákvað þegar heim var komið að prófa að gera mína eigin súpu, fullur neikvæðni reyndar því ég var viss um að ég ætti ekki séns að fanga þessa stemningu heima í eldhúsinu. En viti menn, og ég er alveg hreinskilin hér, þetta tókst svona alveg spot on. Geggjað. Uppskriftina fann ég á netinu en þar er aragrúi af uppskriftum af þessari súpu en ég valdi þá sem hljómaði sem líkust Coda súpunni. Ég fékk svo Gunnar Karl, (Dill Restaurant) sem er að mínu mati einn af okkar færustu, til að segja mér hvernig maður gerir Dill olíu. Svona þegar ég hugsa út í það þá skil ég ekki afhverju ég hef ekki gert þetta fyrr.

Það sem þarf (fyrir 4)

Ath þetta er heldur saðsöm súpa og mjg flott sem forréttur, alla vega skammtastærð ætti ekki að vera stór.

 • 300g kartöflur
 • 40g smjör
 • 4 mtsk (40g) hveiti
 • 50g sykur
 • 15g (hálf dós) þurrkaðir chanterelle sveppir, þetta fæst í Netto og Hagkaup alla vega, ógeðslega dýrt. Má nota aðra þurrkaða sveppi í staðinn
 • 200ml rjómi
 • 3 mtsk edik, t.d. Hvítvínsedik
 • 100g ferskt dill, bara blöðin, ekki stönglar
 • 3 mtsk ferskt dill (blöin), fínt skorið
 • Um 720ml nautasoð
 • 480 ml vatn til að sjóða sveppina í
 • Salt og pipar
 • 4 hleypt egg
 • 200ml bragðlaus olía

Aðferðin

Það er ágætt að byrja á dill olíunni, t.d. bara daginn áður. Það eru til uppskriftir á netinu. Ég fór eftir ráðum Gunna, 100g ferskt dill, bara blöðin, ekki hörðu stönglarnir. Sett í blandara, 200g bragðlaus olía og svo bara blanda vel, 8-10 mínotur. Það á að rjúka uppúr þessu en ég náði ekki því stigi en það kom samt vel út hjá mér. Svo er þetta sigtað í gegnum klút. Tilbúið!

Skolið sveppina í volgu vatni. Setjið 480 ml vatn í pott, sveppina útí og náið upp suðu. Lækkið þá hita og látið malla í 15 mínotur og leggið til hliðar.

Svo er það hveitibollan, setjið 40-50g smjör í pott, bræðið smjör á meðalhita, setjið svo 40-50g hveiti útí og hrærið í ca 1-2 mín þar til þið eruð komin með mallandi massa. Bætið nautasoði (2-3 teningar leystir upp í 720ml vatni) hægt saman við og hrærið stöðugt. Haldið áfram þar til soðið er búið. Sigtið sveppina frá soðinu og bætið því saman við súpuna. Smakkið til með salti. Náið upp suðunni og lækkið svo hitann og látið malla undir loki.

Skrælið kartöflurnar, skerið þær svo í litla kubba, ca 1 cm á kant. Bætið þeim svo út í súpuna ásamt sveppunum. Sjóðið súpuna svo þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Á meðan þetta er að gerast saxið þið dillið fínt, ekki nota stönglana, bara mjúku blöðin og litlu stönglana á þeim. Þegar súpan er tilbúin lækkið þið hitann, hrærið saman við 200 ml rjóma, 3 mtsk edik, 50g sykur og smá pipar. Bíðið aðeins með dillið.

Hleypt egg

Fyllið glerskál með köldu vatni og ísmolum, setjið vatn í pott, ca 2 mtsk epla eða hvítvínsedik saman við og náið upp suðu. Brjótið 4 fersk egg í litla bolla. Þegar suðan er komin upp þá lækkið þið hitann þar til það rétt kraumar í. Takið svo fram sigti, setjið eitt egg í sigtið og látið renna aðeins af því. Rennið svo egginu ofan í pottinn og bíðið í 2 mín og 40 sekúndur. Veiðið eggið upp og rennið því í ísbaðið. þetta stoppar eldunina. Endurtakið fyrir hvert egg. Sjá nánar hér

Takið nú súpuna af hitanum, hrærið dillinu saman við, 3 mtsk. Takið fram 4 fallegar skálar, dreifið súpunni í hverja skál, passið að sveppirnir fari með en þeir vilja falla til botns í pottinum. Setijið eitt egg í hverja skál. Nú klárast eldunin á eggjunum. Skreytið með dillolíunni og ferskum dill greinum og berið fram strax.

Pörunin

Þessi súpa er æðisleg, hún er dálítið sæt en svo kemur réttur skammtur af sýru á móti, stillið þetta af með sykri eða ediki að vild. Súpan er í senn mjúk og þægileg en samt ekki of þung. Samt er hún matarmikil og seðjandi. Ekki hafa hana of heita samt. Með þessu kemur ískald rosé kampavín eða crémant ofsalega vel út. Búbblurnar skera á fituna í súpunni og létta á pallettunni. Ískaldur tékkneskur pilsner er líka frábær með þessu, Pilsner Urquell beint af stáltanki væri auðvitað best en hér heima höfum við jú ekki þann lúxus. Svo er bara að njóta.

Bruschetta með kirsuberjatómata vinaigrette og ferskjum

Þetta er einfalt og ofsalega gott. Uppskrift beint frá Halfbaked harvest. Frábær sem forréttur með góðu rosé freyðivíni! Þetta vinaigrette hef ég líka notað sem meðlæti, t.d. Hér með hörpudisk

Það sem þarf

 • 2 öskjur kirsuberjatómatar
 • 1/3 bolli olífuolía
 • 3 hvítlauksgeirar, saxaðir
 • 2 mtsk ferskt timian
 • Ca 1/2 tsk sterkar chiliflögur
 • Ca 1 tsk sjávarsalt
 • Ca 1/2 tsk pipar
 • 2 mtsk kampavíns- eða hvítt balsamic edik
 • Súrdeigsbrauð
 • Ferskar safaríkar ferskjur
 • 2 Mosarella kúlur
 • Fersk basillica

Aðferðin

Takið fram pönnu, setjið ólifuolíu (1/3 bolli) á pönnuna, meðal hiti. Tómatarnir (2 öskjur) út á ásamt 3 söxuðum hvítlauksgeirum, 2 mtsk ferskt timian, um 1/2 tsk chili flögur, 1 tsk salt og 1/2 tsk nýmulinn pipar. Blandið þessu saman á pönnunni og látið malla þar til tómatarnir eru farnir að opnast og mýkjast vel. Ca 10 mín.

Takið pönnuna af hitanum og látið aðeins kólna í þessu. Hrærið svo saman 2 mtsk kampavíns – eða hvítu balsamic ediki. Ég átti það ekki til og notaði 1 mtsk hvítvínsedik og 1 mtsk balsamic edik.

Skerið niður súrdeigsbrauð í snittustærð eða bara eins og þið viljið og steikið á sömu pönnu og þið notuðuð fyrir tómatana. Bæti smá olíu og smjör við. Þegar brauðið er orðið stökkt og gullin áferð komin á það er það tekið af. Skerið niður ferskar ferskjur, reynið að finna eins safaríkar og þið getið. Ef þær eru ekki djúsi og safaríkar (við búum nefnilega á Íslandi) þá er hægt að skera þær niður og mýkja þær aðeins á pönnu með ögn smjöri og sykri. Timian krydd kæmi líka vel út. Ég hef gert þetta reyndar líka bara með apríksósum, það kemur líka vel út en er vissulega ekki eins.

Svo er bara að raða þessu á brauðið, slítið í sundur mozzarella, og raðið þessu öllu á. Hellið svo safanum yfir og skreytið með ferskri basillicu. Berið þetta svo fram með góðu rosé kampavíni eða cremant.