Dukkah lambalæri á kebab vísu

Mér finnst lambalæri fínn matur en dálítið óspennandi. Um daginn þegar ég var að bíða eftir útkalli á vaktinni rak ég augun í þessa aðferð. Þetta var einhver þáttur með meistara Jamie Oliver sem fjallar um góðan mat með fáum hráefnum og sem hægt er að gera á nokkrum mínútum. Mér leist svo vel á þetta að ég ákvað að prófa. Hann seldi mér þetta eiginlega með dukkah dæminu en það er kryddblanda ættuð frá Egyptalandi og sem inniheldur alls konar krydd á borð við kóríanderfræ, fennel, herslihnetur ofl.

Ég fékk svo gefins smá bjór um daginn frá Borg Brugghús og datt í hug að prófa að para við lambið. Garún imperial stout vissi ég að kæmi vel út með svona ofngrilluðu lambakjöti en mér fannst spennandi að sjá hvernig Úlfur Úlfur kæmi út, double IPA, sætur en þróttmikill með mikla beiskju. Venjulega nota ég belgískan tripel eða blond með lambakjöti en það væri líka alveg fullkomin pörun hér, t.d. Westmalle Tripel. En nóg um það, sjáum hvernig þetta gekk!

En alla vega, þetta var í raun furðu fljótlegt að gera og kom svakalega vel út. Vertu samt viðbúin smá subbi og hafðu bréfþurrkur við hendina. Þetta er í raun svona street food!!!

Það sem þarf í þetta

 • Lambalæri með beini, ekki kryddað. Stærð fer eftir fjölda í mat
 • Dukkah kryddblanda. Herslihnetur saxaðar, kóríanderfræ, fennelfræ, kúmen og sesamfræ, smá salt. Hlutföll, ca sama magn af öllu
 • Eggaldin, 3-4 stk, ég var með 3, fyrir 4 persónur
 • Hvítlaukur 2 heilir skornir til helminga
 • Fersk mynta, heilt búnt
 • Fersk steinselja, heilt búnt
 • Pæklaður chilli eða jalapeno í krukku. 10 til 15 stk
 • Fetaostur, um 150g
 • Hvítlauksgeirar, 3 -4
 • Rauðvínsedik, 2-3 mtsk
 • Olífuolía, 2-3 mtsk
 • Naan brauð, heimagert eða t.d. Stonefire brauðin í Bónus.
 • Hlynsíróp, 3 mtsk
 • Lamba eða nautakraftur, 1 teningur
 • Bjórinn með

Aðferð

Byrjið á að gera Dukkah ef þið eigið það ekki til. Saxið herslihnetur smátt, blandið saman kóríanderfræum, sesamfræum, kúmen og fennel í stórt mortél. Hlutföllin hjá mér voru nokkurn veginn allt í sama magni, ég hafði reyndar heldur meira af herslihnetunum miðað við rest. Steytið þetta saman. Setjið smá salt og pipar með.

Notið svo ca 60 g af þessari blöndu, setjið í mortélið aftur, 3-4 hvítlauksgeirar, merjið það saman við dukkah, bætið svo 2-3 mtsk rauðvínsediki og 2-3 mtsk ólífuolíu saman við og steytið áfram þar til þið eruð komin með þykka marineringu. Allt í lagi að smakka þetta aðeins til, bæta við hvítlauk ef þarf eða salt og pipar.

Takið fram lambalærið, skerið rákir í lærið, þvert á stefnu beinsins. Skerið alveg inn að beininu með 2 cm millibili. Gerið eins á hinni hliðinni. Smyrjið svo marineringunni á lærið og látið það fara ofan í alla skurðina líka. Takið fram eggaldin (3-4 stk) og stingið gat á þau svo þau springi ekki í ofninum. Setjið í djúpa ofnskúffu eða bakka, takið fram hvítlaukinn (2 heila) og skerið í tvennt og setjið inn á milli eggaldinanna með skurðsárið upp.

Stillið ofninn á 240 gráður, setjið lærið á ofngrind inn í ofn, setjið svo bakkann með eggaldinu og hvítlauknum fyrir neðan lærið. Þannig rignir safinn úr kjötinu yfir eggaldinið og hvítlaukinn þegar þetta bakast. Þetta tekur um 45 mínútur. Það mætti líklega hafa ofninn í 200 gráðum og elda þá lengur. Þannig kemur meiri safi í bakkann. Við viljum safann.

Á meðan lærið er í ofninum gerum við fetaostasósuna. Setjið um 150 g fetaost í mortélið, steytið og maukið þetta, bæti svo við safanum úr fetaostaumbúðunum, ef það er enginn safi þá notið þið bara vatn. Slettið líka smá vökva af chilli eða jalapeno saman við. Steytið þar til verður eins og þunnfljótandi sósa. Bætið vatni við þar til þetta er orðið ásættanlegt. Í lokin blandið þið svo smá olífuolíu saman við.

Þegar lærið er tilbúið þá takið þið eggaldinið og hvítlaukinn úr skúffunni. Leggið lærið til hliðar undir álpappír. Nú er það soðið í bakkanum. Hellið heilli flösku af Garún eða öðrum imperial stout yfir og reynið að losa upp það sem er fast í botninn. Fínt að henda þessu aðeins í ofninn aftur til að leysa allt upp. Hellið svo yfir í pott og komið upp suðu. Allt í lagi að bullsjóða. Bætið 3 mtsk hlynsírópi saman við, einn tening af lamba eða nautakrafti. Lækkið svo hitann og látið malla.

Takið eggaldinin og skerið endana af, skerið svo eftir endilöngu til að opna. Kreistið hvítlaukinn úr hýðinu og skerið þetta svo smátt. Slatti af salti og pipar yfir. Blandið svo myntunni og steinselju saman við og saxið áfram. Blandið öllu saman, dreifið úr þessu á fallegt trébretti, leggið lambalærið ofan á þetta. Raðið chilli eða jalapeno eftir smekk í kring og drussið yfir smá af fetasósunni.

Berið allt á borð, lambið á brettinu, fetaostasósuna í skál og svo soðsósuna í aðra skál eða könnu. Hitið naanbrauðin í ofninum og svo er bara að hóa í mat. Það kemur helvíti vel út að gera þetta svona. Þegar allir eru sestir til borðs finnur þú beittasta hnífinn í skúffunni, reisir lærið á rönt með legginn upp og svo eins og kebab skerðu kjötið niður í þunnar sneiða eða bita, alveg svo inn að beini. Svo raðar hver og einn í brauðið sitt, lambakjöti, eggaldin/hvítlauks salatið, fetaostasósu og soðsósu. Geggjað.

Pörunin

Eins og ég sagði í upphafi þá er belgískur tripel eða blond frábær með svona lambalæri en mig langaði að prófa annað. Garún kom ofsalega vel út, mikill og þéttur með nokkra beiskju sem vinnur vel með fitunni í lambinu. Það er einnig mikil rist og kaffikeimur sem tengir vel við karmeliseringuna á lærinu. Það er einnig nokkur sæta í þessum bjór sem er velkomin á móti öllum kryddunum og kemur vel út á móti fetasósunni. Loks kemur Garún vel fram í soðsósunni sem vissulega er skemmtileg tenging.

Úlfur Úlfur var líka skemmtilegur, hann fór í allt aðra átt. Mikil réttinn alveg upp á gátt, hreinsar fituna af gómbogum og gerir allt klárt fyrir næsta bita. Sítrusinn tengir vel við fetasósuna líka, súrt og beiskt gengur stundum vel saman. Bjórinn er líka sætur því það þarf mikinn sykur til að ná prósentunni upp í 9%. Sætan hjálpar til að létta á þungu jörðinni í eggaldin/hvítlauks salatinu en bjórinn er í heild sinni kannski aðeins of öflugur fyrir þennan rétt. Ég veit það ekki alveg samt, þarf að prófa aftur. En alla vega ég myndi klárlega fara í Garúnu með þessu til að vera öruggur. Við vorum t.d. öll með gott rauðvín í glasi en það gekk engan veginn með þessum mat.

Jólaleg matarpörun með Lækninum í Eldhúsinu. „Stund milli stríða“!

Á dögunum hittumst við Bytturnar 3 og Læknirinn í Eldhúsinu heima hjá þeim síðarnefnda og prófuðum okkur áfram með mat og bjór. Sjá myndbandið hér að neðan. Þetta kom mjög vel út, maturinn einfaldur en stórkostlegur og bjórinn geggjaður með. Gott þarf svo sannarlega ekki að vera flókið.

Ragnar gerði 5 rétti fyrir okkur, er eru þeir og bjórinn sem passaði með.

Heit dönsk lifrarkæfa á rúgbrauði með beikon og smjörsteiktum sveppum toppað með pækluðum rauðlauk.

Hitið lifrarkæfu í ofni, steikið beikon á pönnu eða í ofni þannig að verði stökkt. Smjörsteikið sveppi og pæklið rauðlauk. Raðið svo kæfunni á gott rúgbrauð og svo beikon og sveppi ofan á það lokst skreytt með rauðlauknum.

Þessi réttur kom best út með Skyrjarmi bláberja súrbrjór sem gefur þessa berjasætu og sýru sem vantaði dálítið í réttinn en Askasleikir virkaði líka en gerði samt ekki mikið fyrir réttinn.

Ástarpungur með heimagerðu hangikjötssalati og tvíreyktu lambakjöti

Ástarpungar er vanmetið brauð, þessi samsetning er með því jólalegra sem gerist, algerlega frábær biti. Bakið ástarpunga eins og þið kunnið best. Skerið svo niður hangikjöt og mikið af því. Hrærið saman 1/3 hluta majones og 2/3 sýrðan rjóma og niðursoðnar gulrætur og baunir, smakkið til með salt og pipar. Setjið salatið ofan á ástarpung og skreytið með þunnum sneiðum af tvíreyktu lambakjöti.

Þessi réttur mun slá í gegn hjá ykkur. Báðir bjórarnir sem við prófuðum komu mjög vel út. Surtur 30 frá Borg er taðreyktur imperial stout. Hér er reykurinn í aðalhlutverki en einnig lúmsk sæta og beiskjubit. Reykurinn tengir hér vel við reykinn í lambinu. Giljagaur barley wine var svo svakalega flottur með þessum rétt. Þróttmikill bjór með sætum tónum, en beiskju sem klýfur upp þennan feita rétt. Þessi bjór samtvinnast inn í réttinn og breytir dálítið áherslunum.

Rúgbrauð með kryddsíld, eggi, kartöflum og rjómaosti

Síld er klassískt á jólunum. Hér þarf að nota góða síld. T.d. frá Klädesholmen. Útbúið síldina nokkrum dögum áður en þið notið hana.

 • 1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
 • 1 dós sýrður rjómi 
 • 3 msk majónes 
 • handfylli hakkað dill
 • 1 msk hlynsíróp
 •  1 1/2 msk Edmont Fallot dijon sinnep 
 • salt og pipar eftir smekk. 

Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Færa yfir í fallega krukku. Setja í ísskáp á meðan unnið er í næstu síldarréttum. 

Smyrjið gott rúgbrauð með smjöri, miklu smjöri, raðið svo sneiddum soðnum eggjum ofaná, kartöflu og svo síldinni og toppið með feitum sýrðum rjóma, 34%

Bjórinn með. Hér vorum við ekki alveg sammála, en þeir tveir bjórar sem stóðu uppúr voru Hurðaskellir 11.5% imperial porter aldraður á rúgvískítunnu. Hér datt mér í hug að nota Hurðaskelli sem staðgengil brennivínsins sem klassískt er með síldinni. Mjög skemmtilegt combo, en sumum okkar fannst of mikill þróttur í bjórnum sem er skiljanlegt.

Bjúgnakrækir pale ale féll mönnum betur í geð enda afar ljúfur og þægilegur bjór með sætum ávaxtatónum og léttri beiskju. Beiskjan hjálpar til við að opna upp fituna í réttinum og ljúfir sætutónar pakka síldinni dásamlega vel inn.

Våsterbottenostasíld á sænsku hrökkbrauði með dilli

Þessi réttur er magnaður. Hér notar Ragnar ost með síld sem hljómar reyndar ekki vel en er svakalega gott. Osturinn þarf að vera góður, Ragnar var með hinn sænska Västerbottenost sem er ofsalega flottur ostur.

 • 1 pk Klädesholmen 5-minuterssild
 • 1 dós sýrður rjómi 
 • 2 harðsoðin egg
 • 1/2 dl majónes 
 • handfylli hökkuð steinselja
 • hnífsoddur af chilidufti
 • 1 1/2 dl rifinn Västerbottenostur 
 • salt og pipar eftir smekk

Síldin er undirbúin eins og að ofan. Svo er að sjóða eggin og skera niður og rífa niður ostinn. Hella af síldinni, skola undir köldu vatni. Skera í munnbitastóra bita. Hræra saman öllum hráefnum, smakka til með salti og pipar. Setjið þetta svo ofan á gróft hrökkbrauð og berið fram með dillgrein.

Þetta er ofsalega gott, osturinn kemur lúmskt í gegn en maður finnur hann ekki nema vita af honum. Hér notuðum við Sölkunr 81 frá Borg sem er nýjasti villibjórinn þeirra og er þroskaður á Chardonnay og Sauvignon Blanc tunnum. Bjórinn er svakalegur, beittur, kolsýrður með þægilegum belgískum kryddum og svo þessum funky villikeim. Tengingin hér við réttin var alveg fullkomin, hér tvinnaðist réttur og bjór saman í fullkomna heild. Magnað. Askasleikir red ale kom líka frábærlega út með þessum rétti en fer með hann í allt aðra átt. Hér koma lúmskir malttónar vel fram og það er eins osturinn verði meira áberandi hér en með hinn bjórinn.

Lax grafinn í Marberg gini á ristuðu brauði með heimalagaðri graflaxsósu

Margerg er frábært alíslenskt gin sem er gott til drykkju en það er líka hægt að nota það í að grafa lax.

Grafið lax. Nú veit ég ekki hvernig Ragnar gerði þetta en hér er góð uppskrift af gröfnum urriða sem hefur reynst mér vel. Þá myndi maður svo dassa Marberg gini yfir fiskinn áður en hann er grafinn.

 • 1/2 msk hvítur pipar
 • 1,5 tsk fennel krydd
 • 1,5 msk gróft salt
 • 2 msk dill
 • 1,5 tsk aromat
 • ½ msk sykur
 • 1 lítill skallotlaukur fínt skorinn

Flakið laxinn og úrbeinið, og þerrið flökin og leggið svo í t.d. eldfast mót eða annað hentugt ílát.  Saxið laukinn smátt og blandið saman kryddunum í skál og dreifið jafnt yfir flökin. Slettið smá gini yfir.  Plastfilma yfir og svo í kæli í 4 sólarhringa. Snúið flökunum daglega. Hafið smá farg ofan á flökunum.  Fínt að frysta svo flökin og taka út rétt áður en þið skerið niður í þunnar sneiðar.

Ristið hvítt brauð, skerið út í hringi og raðið laxinum ofan ásamt graflaxsósu (heimagerð helst) og skreytið með dillgrein.

Hér algerlega negldi Giljagaur þetta. Það er eitthvað við Giljagaur og grafinn lax, fullkomið combo. Ginkeimurinn kom líka skemmtilega í gegn og tengdist við áfengið í bjórnum. Mögnuð pörun. Skyrjarmur tók svo þennan rétt í aðra átt með bláberjakeim sem kom æðislega vel út með laxinum. Sýran í bjórnum er líka kærkomin með þessu.

Heimagerðar piparkökur með gráðaosti og heimagerðri bláberjasultu

Bakið ykkar uppáhalds piparkökur. Raðið ofan á þær íslenskum gráðaosti og efst heimagerðri bláberjasultu. Þessi réttur er með þeim einfaldari en kemur alltaf jafn mikið á óvart. Við hins vegar gjörsamlega lyftum þessum rétti upp með Emblu imperial porter sem bruggaður er með sykurpúðum, hlynsírópi og appelsínum. Þessi blanda er sjúklega góð.

Við prófuðum að fara í allt aðra átt og reyndum Bjúgnakræki líka. Hér er mildur og þægilur pale ale með sætum ávaxtatónum sem koma þægilega á móti söltum ostinum en tengir svo við sætuna í piparkökunni.

Bakkelsisbjór/salgætisbjór, hvað er í boði um þessar mundir?

Ég hef áður skrifað hér um bakkelsisbjór eða það sem kallast pastry beer á erlendri tungu. Oftast heyrir maður þetta í tengslum við stout sem sé, pastry stout, en nú orðið eru menn farnir að leika sér með fleiri stíla þannig að pastry beer eða bakkelsisbjór gengur bara vel sem orð yfir þetta. Salgætisbjór gæti líka gengið eða hvað? Þegar ég fjallaði um þetta fyrirbæri fyrir ári síðan voru menn að byrja að leika sér með þetta hér heima. Nú eru menn komnir meira á flug og ég fagna því sérstaklega því ég er ofsalega hrifinn af þessum stíl ef stíl má kalla.

Sumir nota þetta orð yfir bjór sem bruggaður er með einhverju sætabrauði ss snúðum, kleinuhringjum, vínarbrauði eða álíka sem þá er sett í annað hvort í meskingu eða eftir gerjun, já eða jafnvel í suðuna sjálfa.  Aðrir tala um bakkelsisbjór ef bjórinn líkist bakkelsi eða sætum eftirréttum og er hann þá bragðbættur með einhverju ss súkkulaði, hnetusmjöri, vanillu, sykurpúðum eða hvað það kann að vera.  Svo eru sumir sem bara þola ekki þetta hugtak en það sem fer fyrir brjóstið á þeim eru allar þessar viðbætur (adjuncts) og þeir vilja meina að svona drykki sé ekki hægt að flokka sem bjór.  Hvenær hættir bjór þá að vera bjór annars?  Ef hann er gerður úr vatni, byggi, humlum og geri þá er það bjór, sama hvað menn reyna að segja, punktur.  Það má til gamans benda á að hér áður var ekki notast við humla í bjórgerð, humlar í bjór er tiltölulega nýtt fyrirbæri, eða þannig en tilkoma humlanna hefur umbylt bjórnum og gert hann mun meira aðlaðandi og drekkanlegri.

Ef maður vill vera að flækja þetta er spurning hvar maður setur mörkin, við getum þá kannski talað um alvröu bakkelsisbjór og svo bragðbættann bjór eða adjunct beer? Þá er ég að meina að bragðbættur bjór er bjór sem er bragðbættur þ.e.a.s. allt sem er bætt í bjór annað en ger, vatn, humlar,korn og gerjanleg sterkja, en það er komin dálítið löng hefð fyrir að nota í bjór t.d. kaffibaunir, súkkulaði, appelsínubörk, kóríander og viðlíka. Ég nefni sem dæmi Hoegaarden hveitibjórinn sem er svo sannarlega ekki nýr af nálinni og inniheldur kóríander og appelsínubörk. Alvöru bakkelsisbjór væri þá bjór þar sem menn nota t.d. snúða, vínarbrauð kókosbollur, kleinuhringi, vanillustangir, konfektmola eða hin ýmsu síróp til að kalla fram bragð eins og hnetusmjör,kókos og annað gúmmilaði. ‘

En þetta er kannski óþarfa flækjustig, stíllinn er svo sem ekki skilgreindur að mínu viti og því er kannski bakkelsisbjór fyrir mér eitthvað annað en fyrir þér. Þegar ég tala um bakkelsisbjór þá er það bjór sem bæði minnir mig á eitthvað sætabrauð eða bakkelsi og er bragðbættur með einhverju sem ekki er gerjanlegt.

En tökum stöðuna hér heima í dag þegar aðeins nokkrir dagar eru til jóla það er nefnilega dálítið gaman í kringum jólin en það er svo sannarlega tími bakkelsisbjóra því menn setja alls konar krydd og krásir í bjórinn til að jóla bjórinn sinn upp.

Þegar þetta er ritað þá sit ég með minn uppáhalds bakkelsisbjór um þessar myndir, sá heitir Doppa og er imperial stout (10.5%) með hnetusmjöri og er frá Malbygg. Malbygg er eitt af mínum uppáhalds íslensku brugghúsum en þeir virðast bara gera góðan bjór. Þessi bjór er alveg magnaður og fyrir mína parta er hann fyllilega gjaldgengur sem jólabjór, hnetukeimurinn er alls ráðandi ofan á sætan undirtón og rist. Hér er maður kominn dálítið í hunangsristaðar möndlur fílinginn svei mér þá. Malbygg gerir reyndar jóla bakkelsisbjór fyrir þessi jól sem heitir hnetubrjótur og er mildur herslihnetu mjólkur stout og er afar vel lukkaður sem slíkur. Aftur þarna þessi hnetu jólakeimur. En fyrst við erum komin í jólin, þá eru nokkrir jólabjórar sem tilheyra flokki bakkelsisbjóra að mínu mati.

 • Gluggagægir (9%) frá Borg er nýjasti jólbabjórinn þeirra í ár og er alveg frábær ef maður er fyrir svona gúmmilaði bjór. Við erum að tala hér um Lemon Cake DIPA, sem sagt bjór sem er ofsalega ferskur og svalandi og með áberandi sítrónu og vanillukeim. Eins og sítrónu ostakaka. Magnað.
 • Jóla Jóra (9.2%) frá Ölvisholti er svakalegur. Við erum að tala um gömlu góðu lagkökuna hennar ömmu í flösku. Hér erum við með imperial stout kryddaður með vanillu, negul, kanil og allra handa. Svo sem ekki óalgegn krydd í jólabjór en það er hér bragðið sem minnir svakalega á lagkökuna sem gerir þennan bjór að bakkelsisbjór fyrir mér.
 • Choc Ho Ho 2020 (4.7%) frá Smiðjunni í Vík. Choc Ho Ho er léttur mjólkur stout með hnetusmjöri. Hann er furðulega þéttur og flottur mv styrk og hnetusmjörið er mjög áberandi. Virkilega þægilegur jólabjór.
 • Eitthvað fallegt (5%) frá RVK Brewing company. Þessi var í miklu uppáhaldi hjá mér í fyrra, við erum að tala um eins mikinn bakkelsisbjór og þeir gerast þarna úti. Í grunninn sennilega IPA eða Pale Ale en svo sjóða menn heilt jólatré í þennan bjór. Að auki er bætt í Machintosh molum, mandarínum og smákökum. Mjög jólalegur bjór svo ekki sé meira sagt.
 • Ris A La Sour Gose (5) er látlaus súrbjór eða gose frá Smiðjunni. Hugmyndin er bjór sem minnir á eftirréttinn Ris a La Mande. Bjórinn er ofsalega fínn og minnir mikið á réttinn. Þessi verður flottur sem dressing á grautinn á aðfangadag.

Það eru eflaust fleiri jólabjórar sem flokka má sem bakkelsisbjór en ég hef ekki smakkað þá alla svo sem. Svo er ég ekki að taka hér með bjór sem er bara bragðbættur með negul, kanill eða álíka jólakryddum, svoleiðis bjór flokka ég einfaldlega sem jólabjór!

En það eru sannarlega fleiri íslenskir bakkelsisbjórar á markaðinum. Hér læt ég þá flakka ekki í nenni sérstakri röð. Ath þetta er alls ekki tæmandi list. Ég er líklega að gleyma einhverjum….það er þá spurning hvað það segir um þá bjóra?

 • Bjössi Bolla (11%) frá Malbygg er frábær fyrir sælkera. Hér erum við með rosalegan imperial stout sem bruggaður er með kókosbollum. Þróttmikill en svakalega sætur á tungu. Alls ekki fyrir alla en sannarlega fyrir mig. Maður drekkur einn svona í mesta lagi á kvöldi. Hálfur er reyndar passlegt. Svo er reyndar til spariútgáfa af þessum líka, sem er látinn þroskast á kókos/romm tunnum, hann er svakalegur.
 • Kaffibolla (11%) er svo mögnuð útgáfa af Bjössa Bollu en hann er bruggaður með súkkulaði, kaffi og kókosbollu. Þessi er svakalega ljúfur, sætur með beisku kaffi í bland. Fæst eins og staðan er í svakalega litlu magni í Vínbúðinni.
 • Co & Co (10.1%) er með þeim fyrstu hér á landi í flokki bakkelsisbjóra og er frá RVK Brewing company. Ég er ekki að segja sá fyrsti en með þeim fyrstu. Þessi er russian imperial stout bruggaður með snúðum frá Brauð & Co. Svo hefur hann komið í lúxus útgáfu þar sem hann fær að liggja á bourbon tunnu. Vonandi kemur það gotterí aftur. Magnaður bjór. Já og ef þið komist í að prófa hann á nitrokrana í bruggstofunni hjá RVK brewing þá er það mögnuð upplifun.
 • Morning Glory (7%) er svo annar skemmtilegur. Þetta er nettur imperial milk stout frá RVK Brewing. Þetta er sannkallaður bakkelsisbjór sem sameinar allt það besta í morgunmat, Cocoa Puffs, nýmalað kaffi, pönnukökur og hlynsíróp og svo meira að segja smá bacon líka. Allt er þetta notað í bjórinn. Fullkominn morgunmatur á laugardagsmorgni, ef maður er ekki á leið í vinnu.
 • Embla (9.2%) er nýjasti bakkelsisbjórinn og er vetrarbjór sem kemur frá Borg. Þetta er magnaður bjór og er þegar kominn í topp 3 yfir bestu bakkelsisbjóra Íslands hjá mér. Frábær imperial porter með sykurpúðum, hlynsírópi og appelsínum. Bjórinn er í senn mildur og léttur en mjög mikill og djúsí.
 • Askur (11.6%) kom á sama tíma og Embla, þessi er nokkuð þróttmeiri en Embla enda 11% imperial stout. Hér erum við enn með sykurpúða og hlynsíróp en engar appelsínur. Flottur bjór en mér finnst appelísnan koma svo svakalega vel í gegn í Emblu.
 • Surtur (x%) ég get í raun ekki klárað þessa yfirferð nema nefna Surt bjórana frá Borg á nafn. Þeir eru alls ekki allir bakkelsisbjór en oft er inn á milli að finna bjór með einhverju gúmmilaði. Surtur 61 í fyrra var t.d. með  Gunnars kleinuhringjum og hlynsýrópi  í ríkulegu magni og svo látinn eldast á bourbon tunnum og rúg whiskey tunnum  í einhverja mánuði.

En já, látum staðar numið hér, endilega sendið á mig ábendingu ef ég er að gleyma uppáhalds bakkelsisbjórnum ykkar hér og ég get þá bara bætt þeim við!

Hin árlega lagköku og bjórkeppni Nollanna 2019

„hugmynd kviknaði einmitt í góðra vina hópi fyrir ári síðan“

Bjór er hægt að para við nánast hvaða rétt sem er og er þá jólalagkaka, randalína, vínarkaka eða hvaða nöfnum hún nefnist, engin undantekning, aðal málið er bara að fá hugmyndina.
…..Þessi hugmynd kviknaði einmitt í góðra vina hópi fyrir ári síðan þar sem nokkrir góðir nágrannar í Norðlingaholti voru saman komnir yfir öli heima hjá Bjór & Matur. Einhverjir byrjuðu að monta sig af lagkökum sínum, menn töldu auðvitað sína köku bestu lagkökuna og gerðu mikið úr eigin hæfileikum í bakstri og það lá því beinast við að sannreyna það fyrir næstu jól sem eru einmitt þessi jól 2019.
…..Það voru þó einhverjir sem ekki voru eins roggnir enda er kökubakstur er alls ekki allra.  Því kom upp sú hugmynd að tefla líka fram bjór með kökunum, einhvern magnaðan sem líka parast vel við þá köku sem menn reiddu fram.

Í upphafi var þetta að mestu leiti í gríni gert en þegar líða fór á árið fóru menn að huga að þessum viðburði og að endingu ákveðið að gera þetta að veruleika enda voru menn farnir að draga heim í bú alls konar furðulega og spennandi bjóra á ferðalögum sínum um heiminn, eitthvað sem gæti gengið með lagköku.

Til að gera mjög langa loku frekar stutta þá varð úr að núna þann 19.12.19 mættu 12 sigursælar sálir með kökuna og bjór í fyrstu lagköku bjórkeppni sögunnar.  Menn voru ekkert að grínast með þetta, menn mættu með ýmist ævafornar uppskriftir sem gengið hafa milli kynslóða í fjölskyldunum eða glænýjar og spennandi tilraunir með ný hráefni.
…..Það voru jafnvel tár á hvörmum þegar sumar kökurnar voru kynntar til leiks með hugljúfum sögum um hvernig uppskriftin kom til.  Auðvitað veit maður ekkert hvort sögurnar voru sannar eða ekki en það var algjört aukaatriði.

„kakan þarf að vera lagkaka, fjöldi laga er frjáls og í raun útlit líka..“

Reglurnar voru einfaldar að þessu sinni enda í fyrsta sinn sem þessi keppni er haldin og líklega fyrsta sinn í veröldinni líka ef út í það er farið?  Regluverkið mun fínpússast á komandi árum enda var ákveðið að gera þetta að árlegum viðburði í kringum jólin því allir voru á eitt sáttir, þetta var ofsalega skemmtilegt.
…..Ein af reglunum er að kakan þarf að vera lagkaka, fjöldi laga er frjáls og í raun útlit líka en auðvitað getur það komið niður á dómum ef menn fara of frjálst með túlkun sína á lagköku.  Í raun veit enginn skilgreininguna á lagköku en ákveðnar hugmyndir voru vissulega uppi.
…..Kakan má heldur ekki vera bökuð af neinum nema þeim sem taka þátt í keppninni.  Bjórinn er alveg frjáls, menn þurfa bara að reyna að finna bjór sem gleður, er spennandi og spes en samt gengur með þeirri köku sem menn tefla fram.  Menn geta ekki dæmt sína köku eða sinn bjór.

wp-1576926060062.jpg

Dæmt er á eftirfarandi hátt, stig eru gefin fyrir bragð kökunnar og útlit.  Bjórinn er dæmdur eftir bragði en líka hversu framandi og spennandi hann er.  Bjór sem t.d. er vondur getur fengið fullt af stigum fyrir exotic flokkinn t.d. ef hann er bruggaður á botni eldfjalls á Galapagos eyjum eða hann er bruggaður einu sinni á ári af nunnum og seldur í litlu fjallaþorpi í Nepal einn dag á ári eða eitthvað álíka. Loks voru gefin mikilvæg stig fyrir bestu pörunina líka.

„maður hefði einhvern veginn ekki trúað að lagkaka gæti verið svona mismunandi“

Það kom á óvart hve fjölbreytnin var mikil, maður hefði einhvern veginn ekki trúað að lagkaka gæti verið svona mismunandi.  Formið var svipað í flestum tilvikum og var rétthyrningurinn vinsælastur enda það sem menn hafa kannski oftast séð og tengt við lagköku.
…..Lögin voru mismörg, sá sem var með flest lög var með 7 lög en flestir voru með 5 lög.  Ein kakan var með blandaðri berjasultu á milli, önnur var gerð úr guinnes bjór, enn önnur var með saltkaramellu smjörkremi á milli og svona mætti lengi telja.  Sumar kökurnar voru ljósar og aðrar dökkar eins og nóttin.

Útliðið telur og því er vissara að vanda til verksins, sumir pössuðu sig á að hafa öll lögin jafn þykk og öll horn rétt og yfirborð með réttum vatnshalla á meðan aðrir földu óvönduð vinnubrögð með glæsilegum skreytingum.  Sumir nenntu ekkert að spá í þessu og treystu á bragð og bjórinn með.

Keppnin fór þannig fram að menn byrjuðu á að kynna til leiks bjór og köku.  Hér gefst mönnum tækifæri á að segja frá því hvaðan uppskriftin er komin og hvaða humyndir voru á bak við val á hráefnum ofl.  Það var hér sem sumir kusu að reyna að skora stig með hjartnæmum frásögnum um tilurð uppskrifta.
…..Bjórinn er ekki minna mikilvægur enda höfðu menn haft ár til að grúska í þessu og næla sér í eitthvað spennandi.  Menn fengu hér tækifæri á að segja frá hvernig þeir náðu í bjórinn og hvað er merkilegt við hann.  Eins afhverju þessi bjór var valinn með þeirri köku sem þeir reiddu fram.   Þetta kom skemmtilega út og var ákveðið að á næsta ári væru gefin auka stig fyrir framsetningu.

„Möguleikarnir eru margir, þessar kökur eru í grunninn dálítið kryddaðar, negull, kanil og engifer“

Hvernig er annars best að para lagköku og bjór saman?  Er vænlegast að treysta á andstæður, súrt á móti söltu, sætt á móti beiskju og svo frameftir götum eða kemur best út að leika sér með samstæður, tengja eiginleika í bjór við hráefni í kökunni?  Það er erfitt að svara þessu og þess vegna er svo gaman að prófa sig áfram og sjá árangurinn.
….. Möguleikarnir eru margir, þessar kökur eru í grunninn dálítið kryddaðar, negull, kanil og engifer er oftast áberandi, sumir setja sýróp í deigið líka sem gefur ákv sætu, kremlögin geta svo verið margslungin og mismunandi.  Maður getur líka séð fyrir sér að vera með bjór sem minnir á það sem maður drekkur með kökum, kaffi t.d. eða ísköld mjólk jafnvel.  Hér sé ég strax fyrir mér milk stout t.d.!

wp-1576925281192.jpgVið Sigrún vorum t.d. með hlynsíróp í deiginu okkar og höfðum svo saltkaramellu smjörkrem á milli.  Við ákváðum að prófa geggjaðan bjór með, bæði af því að hann er svakalega góður og gæti halað inn stigum bara á bragðinu, eins er hann nokkuð exotic því hann er sjaldan bruggaður og erfitt að fá hann þegar hann kemur út einu sinni ári í mesta lagi.  Við erum að tala um Maplesaurus Rex sem er 14% massífur imperial stout með hlynsírópi og vanillu.   Bruggaður af Pure Project í San Diego og fæst í raun bara þar á bæ þegar hann kemur út.
….. Bjórinn er 14% en það kemur ekki fram í bragði, hann er mjúkur og þéttur með notalegum keim af hlynsírópi og svo vanillu í restina.  Mjög mild kaffirist af maltinu.  Þetta kom vel út með randalínunni okkar, sírópið tengdist við sírópið í kökunni og dró það meira fram, mýktin í bjórnum pakkaði inn kökubitanum og gerði hann meira djúsí.  Vanillan bættist við kökuna á skemmtilegan máta, en sætan í bjórnum var mögulega aðeins of mikil því kakan var líka dálítið sæt.  Þetta varð því dálítið þungt.  Saltkaramellan í kreminu naut sín vel með vanillunni og svo tengdi karamelluseraða maltið vel við kremið.

wp-1576926491009.jpg

 Eitt parið var með blandað sultulag á sinni randalínu og svo ávaxta gose með frá Dogfish Head.  Super Eight Super Gose heitir bjórinn en hann er pakkaður af alls konar berjum og ávöxtum, og er dálítið súr á tungu en þó má greina ögn saltkeim í bakgrunni.  Bjórinn einn og sér svona la la að mínu mati, en pörunin var virkilega flott, sýran og berin léttu vel á öllu og tónuðu sætuna í kökunni niður.  Sultan tengdist líka við berin og varð þannig meira áberandi.   Hér er gott dæmi um andstæður, sýran og léttleikinn í bjórnum koma til móts við þunga sætu kökuna og gerir allt svo létt og skemmtilegt.

„Sterkasti bjór veraldar?“

Fleiri bjórar þetta kvöld voru Sam Adams Utopias, 29% barley wine sem er með sterkari bjórum veraldar og kemur út einu sinni á ári ca og er aldrei eins.  Hér er mörgum lögunum af bjórnum sem legið hafa mislengi á mismunandi eikartunnum blandað saman í þennan eina bjór.  Flaskan kostar augun úr en við förum svo sem ekki út í verðið en ég gert sagt að flaskan er undir 50.000 kr.
….. Hér var það augljóslega exotic dómurinn sem menn voru að sækjast eftir en einnig kom hann mjög vel út með randalínunni.  Hér er það eins og gott koníak með eftirréttinum.  Þessi bjór er magnaður og það skrítna er, 29% koma ekki fram í bragði sem spritt eða bruni.

wp-1576925700004.jpg

Fleiri skemmtilegir bjórar voru á borðum, t.d. hinn glæsilegi Duchesse de Bourgogne frá Brouwerij Verhaeghe sem er frábært flæmst rauðöl og fæst neira að segja hér í Vínbúðum landsins, Svo var það áramótabjórinn frá Reykjavík Brewing, Kosmós 2020 sem er virkilega snoturt  sterkt belgískt öl með stokkrós og súraldin.   Þessi bjór kom með þeirri lagkögu sem vann keppnina í ár fyrir bestu kökuna en útlitið átti þar stóran þátt.  Pörunin kom líka nokkuð vel út með kökunni, dálítið súr, ávaxtaríkur og þægilegur á móti dökkri guinnes lagkökunni.

Já þessi keppni heppnaðist svona líka vel og verður klárlega endurtekin að ári.  Menn eru þegar farnir að huga að því sem betur mætti fara næst og nú er svo heilt ár til að finna þennan eina sanna bjór með kökunni.  Undirritaður ætlar að reyna að fá eitthvað af okkar frábæru brugghúsum til að brugga lagkökubjór fyrir næstu keppni.  Ég er þó ekkert allt of viss um að það takist en samt skemmtileg pæling.    En til lukku Kjartan og Beta, þið unnuð núna, við tókum annað sætið en þetta verður öruggur sigur á næsta ári.

wp-1576925995394.jpg

Hey Kanína IPL frábært collab frá Borg og Lamplighter í Boston..komdí partí!

Skömmu eftir Hina íslensku bjórhátíð 2019 fengum við Íslendingar að njóta samverkefnis þeirra Borg manna og Lamplighter í Boston.  Hey Kanína hét sá bjór og kom hann út sem C bjór eða bjór úr svo kallaðri collab seriu Borg Brugghúss. Þó það hafi ekki verið T bjór eða tilraunabjór þá var útgáfan amk í T línu stíl.  Þ.e.a.s tilraunaverkefni sem koma einungis á kúta í takmörkuðu upplagi og þeir berast á útvalda bari sama dag og þeim er tappað á kúta.  Hugmyndin er væntanlega sú að prófa sig áfram, þreifa á markaðinum og þá jafnvel þróa í framhaldinu bjór sem gæti komið á flöskur eða dósir.  Til þessa hefur enginn T bjór komið í vínbúðir svo ég best veit.  Hey Kanína er nú kominn aftur og í þetta skiptið á dásamlega fallegar dósir og mun berast í vínbúðir vonandi núna á morgun.   Þeir sem ekki þekkja til þá er Lamplighter með betri brugghúsum í Boston um þessar mundir.  Þeir eru staðsettir í Cambridge í Boston í rólegu lágreistu studentahverfi og er afar ljúft að vera þarna og sötra öl og fylgjast með verðandi stórmennum vinna heima vinnu sína yfir kollu.  Bjórinn er afar fjölbreyttur, þeir brugga alls konar, ekki bara hazy new england bjór þrátt fyrir staðsetninguna og það sem einkennir allan bjórinn þeirra er að hann er sérlega vandaður.  Tyler vinur minn og yfir bruggmeistari  hjá Lamplighter leggur nefnilega mikla alúð í bjórinn og er mikið í mun að gera bjórstílum hátt undir höfði og vanda til verks. Það er ofsalega gaman að spjalla við hann því eins fróðan mann um brugg, ger, bjórgerð og bjórstíla er erfitt að finna. Nánar um Lamplighter hér og fyrra collab þeirra með Borg Brugghús.

20190606_213602-012021750225.jpeg

Hey Kanína er ekki páskabjór þrátt fyrir afar páskalegt yfirbragð, um er að ræða lager með skemmtilegri fléttu því hann er óvenju þurrhumlaður og djúsí.  Þetta er eiginlega einhvers konar samflétta lagers og new england pale ale.  Hann nær nefnilega ekki að vera nægilega beiskur til að líkja honum við IPAIPL eða india pale lager kalla þeir þennan stíl (sem ekki er til formlega) og held ég að þeir hitti alveg naglan á höfuðið þar.
Fyrir mig er þetta kærkominn bjór því ekki bara er hann dásamlega ljúfur heldur er ég persónulega pínu að fá leið á þessum skýjuðu NEIPA bjórum, ekki misskilja mig, þeir eru dásamlegir oftast en ég er aðeins farinn að þreifa aftur fyrir mér í lager fjölskyldunni.  Ljúfur vel gerður lager er bara svo góður.   Hey Kanína tengir þessa tvo heima saman, hann er skýjaður eins og NEIPA, angar af djúsí humlum en einnig má finna lager heytugguna í nefi sem er dálítið skemmtilegt.  Humlarnir, citra, el dorado, idaho 7 og simcoe sem maður tengir oftast við IPA eða NEIPA koma vel út og gefa safaríka ávaxtatóna en svo kemur þessi lager bragur í gegn, heytuggan sem ég kannast svo við frá hinum gyllta lager, og breytir dálítið heildarmyndinni, mögulega er það lager ger sem gerir þetta?  Fylling er góð enda er í þessum bjór hveitimalt og maltaðir hafrar og slatti af lactosa en allt þetta er afar klassískt í NEIPA bjór.  Eftirbragð er ljúft, mjúkt í byrjun með ávaxtablæ en svo tekur einhver lagertónn yfir.  Þessi bjór er í raun það sem hann gefur sig út fyrir að vera, lager og öl.
Merkimiðinn eða í raun dósin sjálf, það er enginn merkimiði, er fáránlega falleg með hoppandi kanínum með hendur fyrir höfuð.  Kanínurnar eru tenging við einn frægasta bjór Lamplighter, Rabbit Rabbit sem jafnframt er einn besti NEIPA bjór á markaði í dag.

Látið ykkur hlakka til að njóta langrar Hvítasunnuhelgar með þessu góðgæti!

Í fyrsta sinn á Íslandi, Cask bjór á RVK Brewing Co og meira til!

B&M leit við hjá RVK Brewing Co í gær smakk og stuð. Við sendum þetta út í beinni á fésbókinni í gær og er enn hægt að sjá þetta hér.  Það var bara kominn tími á að smakka nitrogen bjór af nitro krananum þeirra, reyndar eru þeir með tvo slíka.  Já nitro krana, hvað er nú það?  Júbb það er fyrirbæri sem vert er að skoða nánar og er orðið ansi vinsælt úti í hinum stóra heimi í dag.  Nitrogen bjór er kolsýrður með blöndu af köfnunarefni (70%) og kolsýru (um 30%) en venjulega er þessi blanda í öfugum hlutföllum, 30% köfnunarefni og 70% kolsýra.  Köfnunarefni leysist illa eða ekki upp í bjórnum þannig að bjórinn verður ögn flatari en mun mýkri fyrir vikið.  Nitro kraninn er einnig hannaður á þann máta að þegar bjórnum er þrýst í gegnum örfínar holur þá tapast mest öll kolsýran úr bjórnum og það myndast dúnamjúkur og þéttur froðuhaus með áferð líkt og þeyttur rjómi. Bjórinn allur tekur á sig aðra mynd og verður ekki svona kitlandi og hvass eins og venjulega kolsýrður bjór. Virkilega gaman að prófa sama bjór sem annars vegar er nitro útgáfa og hins vegar hefbundinn.

20190315_172137-01.jpegÍ gær smakkaði ég Co & Co sem er imperial bakkelsis stout sem ég áður fjallað um, stórkostlegur bjór en algjörlega geggjaður af nitro krananum, þetta þarf ég að komast í aftur sem fyrst.  Ég smakkaði líka annan og kannski þekktari bjór af nitro krananum þeirra en það er enginn annar en sir Guinnes sem kom bara til landsins í fyrradag beint frá heimahögum í Írlandi.   Ég er venjulega ekki sérlega hrifinn af Guinnes en þegar hann er serveraður svona er hann dásamlegur, come and getit, ekki viss um að sé til meira en kútur af þessu.

„fyrsti cask bjórinn á Íslandi?“

En svo er það handpumpaði tunnubjórinn eða cask bjórinn, já þetta er eitthvað sem fólk hefur kannski lítið verið að spá í hér heima enda hefur þetta form á bjór ekki verið til á Íslandi þar til nú!   Já í gær voru menn nefnilega á vígja fyrsta (svo vitað sé) cask pumpuna á klakanum.  Þeir voru með heldur óhefðbundinn bjór undir eða svo kallaðan classic pretzel saison að nafni Is This It? sem er bjórinn sem RVK Brewing bruggaði með New York brugghúsunum sem komu hingað til lands í febrúar fyrir bjórhátíðina árlegu.  Venja er að cask bjór sé stout, pale ale, brown ale eða álíka en ekki kannski saison þó svo að allt sé leyfilegt í þessu.   Mér heyrist á Valla að menn muni leika sér áfram með þetta og setja alltaf eitthvað skemmtilegt á caskið.  En hvað er þá cask bjór?  Ég lét Valla útskýra þetta í gær, Valli og Cask ale!  Í stuttu máli, handpumpaður bjór sem er ekki undir þrýstingi í tunnunni og dálítið flatur en dásamelga mjúkur og notalegur.  Ég hef aldrei verið spenntur fyrir þessum stíl til þessa en þetta er skemmtileg tilbreyting og ég held að ég sé loksins orðinn nægilega þroskaður fyrir þetta, mörg ár síðan ég smakkaði þetta síðast.  Þetta er alla vega möguleiki og ég hvet ykkur til að koma á RVK Brewing og smakka!

20190315_175818.jpg

En það var heilmikil stemning í gær, staðurinn fullur af fólki og góðum bjór og svo stóð Siggi í brúnni og þeytti skífur þar til DJ Katla mætti til leiks með enn meira stuð.  En ég smakkaði fleiri bjóra í gær, ekki bara nitro og caskið, t.d. var Killer Bunny helvíti magnaður, samstarf við Bonn, titlaður imperial ESB en fyrir mér er þetta DIPA.  Svo hef ég verið að tala dálítið um lagerinn undanfarið en Valli lét mig fá helvíti skemmtilegan 4.6% Yuzu hrísgrjóna lager sem hann kallar Arigato.  Fólk hefur kannski smakkað hann á nýafstaðinni bjórhátíð en hann var þar á dælu alla dagana.  Þetta er léttur og ofsanelga þægilegur lager með ögn sítrónublæ.  Frábær viðbót í lagerflóruna.  Takk fyrir mig Siggi og Valli!

20190315_174727.jpg

Rauðhetta og Úlfurinn, klassískt ævintýri komið í vínbúðirnar

Ég vil endilega benda á þetta meistaraverk sem stendur og bíður eftir þér í vínbúðunum.  Bæði í stórri og minni flösku með fallegum korktappa sem haldið er í vírnetsfjötrum.  Merkimiðinn er með þeim skemmtilegri sem maður hefur séð í langan tíma en það er svo sem ekki nóg, innihaldið er það sem máli skiptir ekki satt.

Í þessari flösku er dásamlega skemmtilegur bjór sem flokka mætti sem red wild IPA því hér hafa menn tekið höndum saman, þ.e.a.s Borg Brugghús og hið sænska Brekeriet sem frægt er fyrir súrbjór og wild aleRauðhetta er red sour frá Brekeriet sem ku vera helvíti næs einn og sér og Úlfinn þekkjum við landsmenn öll ekki sett enda stórfínn IPA.  Borg og Brekeriet ákváðu að sulla þessu saman þannig að bruggaður var Úlfur og svo hleypt inn á gertankinn villigerið sem Brekeriet notar við gerjun á Rauðhettu og látið gerjast í tvö ár takk fyrir.  Þetta er skemmtileg tilraun því menn vissu jú ekkert hvernig þetta myndi fara, myndi villigerið yfirtaka öll völd og skyggja á Úlfinn eða öfugt.  Borg talar um á síðu sinni baráttu Rauðhettu og Úlfsins, hver gleypir hvern?

Bjórinn er glæsilegur og klárlega með miklu funk og villibragði og að mínu mati hefur hér Rauðhetta snúið á Úlfinn og hámað hann í sig.  Það eru áberandi ber og sætir ávextir í nefi, ferskjur jafnvel?  Í munni er bjórinn mjög bragðmikill og nokkuð kryddaður með miklum gerkeim.  Hann er nokkuð súr en engin beiskja merkjanleg.  Þetta er einfaldlega frábær villibjór og staðfesting á að Borg er komið á gott flug í villibjórgerð en Esja nr 60 markaði frábært upphaf á því ævintýri.

Bjór! C18 frá Borg og Fræbbblunum, er lagerinn að koma aftur?

Lífið gengur í endalausa hringi og það sama má segja um tískustrauma og stefnur og smekk manna held ég.  Í upphafi (fyrir 20 árum) var maður sjálfur bara í lager bjór, bara þessum klassíska ljósa lager sem á rætur sínar að rekja til hins gullna pilseners frá Tékklandi fyrir ansi mörgum áratugum.   Svo fór maður að fikta í ölinu, færði sig yfir í belgíska ölið enda ljúft og milt og ekki svo krefjandi.  Þaðan lá leiðin yfir í ameríska ölið, pale ale og india pale ale og svo varð fjandinn laus, maður fór að elska humlabombur og rótsterka bjórstíla á borð við DIPA, tripel IPA, og imperial stout og barley wine helst tunnuþroskað í drasl á alls konar áfengis tunnum.  Svo hefur funkið alltaf verið líka „on the side“ þ.e.a.s funky villibjórarnir og gallsúru súrölin.  Þetta hefur mallað svona síðustu árin þar til New England IPA stíllinn kom fram og algjörlega heltók mig.  Bakkelsis bjórinn með öllu sínu gotteríi á líka hug minn allan um þessar mundir.  Lagerinn er fyrir löngu dauður hjá mér en þegar ég fór að hugsa um það síðustu vikur finnst mér það miður.  Það var alltaf staður og stund fyrir góðan lager en góður lager er alls ekki eitthvað sem auðvelt er að gera.  Við heimabruggarar höfum lítið fyrir að brugga pale ale eða IPA en lagerinn er snúnari.  Ég hef enn ekki smakkað góðan heimagerðan lager.

Craft brugghúsin úti í hinum stóra heimi hafa sum hver reynt að halda stílnum lifandi fyrir bjórnördunum en það reynist oft erfitt þegar menn hrópa eftir meiri djús, meiri beiskju eða meiri sýru og svo fram eftir götum.  Það eru hins vegar til virkilega flottir pilsner bjórar og lager af ýmsum toga þarna úti.   B&M hefur ákveðið að nota árið 2019 í að endurvekja lagerinn í hjartanu og koma honum aftur á blað.   Það var því sönn ánægja þegar Borg Brugghús kom með þennan nýja bjór sinn sem bruggaður er með Fræbbblunum í tilefni 30 ára afmæli bjórs á Íslandi en Fræbbblarnir voru eins og margir harðir gagnrýnendur bjórbannsins og kom það stundum fram í lagatextum hljómsveitarinnar.   Bjórinn heitir bara því lýsandi nafni Bjór! NrC18 og er skv merkimiðanum india pale lager en undirritaður kýs að kalla hann hoppy pilsner eða premium lager.  Bjór þessi er svo sannarlega kærkomin tilbreyting frá öllum skýjabjórnum sem reyndar er unaðslegur en stundum þarf maður hlé.  Þetta er frábær bjór, kristal tær, hreinn á tungu með krispí humlum og þó nokkurri sætu frá korninu.  Svo er hann vel humlaður með citra humlum þannig að hann verður ekstra safaríkur en nær þó alls ekki að verða þannig að kalla mætti pale ale eða IPA.  Bjór er held ég bjór sem allir ættu að eiga auðvelt með að elska.  Svona þegar ég hugsa út í það þá minnir hann dálítið á American Dream frá Mikkeller sem fæst í vínbúðunum.

Frábært, takk fyrir mig Borg og Fræbbblar!

Hin íslenska bjórhátíð 2019 tekin saman!

Ég hef komist að því í gegnum tíðina að það er nánast vonlaust að taka heila bjórhátíð saman svo vel sé. Maður gleymir alltaf einhverju og svo auðvitað missir maður af helling á svona hátíð.  Það er bara ekki hægt að smakka allt sem er í boði alla dagana.  Það eru 37+ brugghús með 2-3 bjóra hvert og alltaf nýjir bjórar á degi hverjum.  Vonlaust verkefni.   Ég reyndi því að vera duglegur að hlera bæði hjá gestum og bruggurum hvað stæði uppúr hvert kvöld og auðvitað smakkaði ég líka helling sjálfur, guð minn góður, í raun of mikið.  Það stendur uppúr hvað gæði bjórsins á þessari hátíð voru mikil, maður lenti sjaldan á vondum bjór þó svo að þeir hafi verið þarna inn á milli.  Það skal svo hafa í huga að venjulega mælir maður með því að smakkaðir séu max 6-8 bjórar hverju sinni, eftir það verður allt frekar svipað og erfitt að dæma.  Það segir sig sjálft að maður fer langt út fyrir þessi mörk á svona hátíð.  Spurningin er, er eitthvað að marka svona dóma?  Svo er það hitt, maður er með sinn uppáhalds stíl og það hefur áhrif ef maður dæmir öll brugghúsin út frá því, t.d. á flottur klassískur vandaður lager ekki séns ef þú drekkur bara imperial stout eða gallsúra villibjóra.  Þessa hátíð henti ég öllu svona út um gluggann og reyndi að prófa alls konar stíla með opnum hug.  Eins og staðan er í dag er það New England IPA sem heillar mig hvað mest sem og bakkelsis stout en ég er þó kominn með pínu leið á þessu.  Súrt er alltaf gott en ég fæ oft leið á þeim stíl samt líka.

20190221_172411.jpg

Alla vega, hér er einhvers konar samantekt.  Í stuttu máli, frábær bjórhátíð með frábærum brugghúsum sem stóðu sig öll með prýði.  Það neikvæða, bara til að klára þann pakka voru þrengsli og mannmergð, það var bara of mikið af fólki fyrir þennan stað.  En það var svo sem annað hvort Ægisgarður eða ekkert og við kjósum að sjálf sögðu Ægisgarð og þökkum Hinna, Óla og co fyrir að gera þetta að veruleika enn einu sinni.   Hitt sem truflaði mig var fjarlægðin, ég persónulega var rúmlega klukkutima að komast á áfangastað með strætó, þetta er í rassgati þarna á Granda!  Annað var það svo ekki, kannski of margir dagar?  Tveir dagar væru líklega meira en nóg.

Það er frábært að hafa eitthvað annað en bjór á svona hátíð, matarvagnarnir fyrir utan voru algjör snilld og í raun nauðsynlegt til að draga úr heilsuleysi næsta dag og ölvun ef út í það er farið.  Nasl eins og allir bjórlegnu ostarnir frá MS og svo sérvalda súkkulaðið frá Omnom sem hægt var að para við bjórinn voru líka kærkomin viðbót og við vonumst til þess að þetta verði áfram hefð á komandi hátíðum.  Tónlistin var vel til fundin þó svo að sumir kvörtuðu undan tónlistarstefnunni og hávaða.  Ég get reyndar tekið undir að á föstudeginum var plötusnúðurinn með allt of hátt stillt, maður gat ekki rætt við bruggara eða félaga um bjórinn fyrir hávaða en house/techno er svo sannarlega viðeigandi að mínu mati og ekkert undan því að kvarta.  Smekkur manna á tónlist er svo sem alltaf misjafn og algjörlega vonlaust að negla þetta.  Dagur 3 var betri hvað þetta varðar og held ég allir sáttir bara.  Svo var þarna húðflúrari sem tók að sér að skreyta fólk ef það vildi, pínu risky þegar ölvun er annars vegar en samt skemmtilegur valmöguleiki.  Ég er samt feginn að hafa ekki fengið einhverja flugu í haus fyrsta kvöldið en það vita það allir sem hittu mig að ég var í stuði fyrir alls konar!

IMG_8257

En ok, reynum að taka þetta saman.  Ég segi það bara strax í upphafi að ég smakkaði ekkert frá Stigbergets eða Garage brewing en bæði þessi brugghús voru á lista yfir þá bása sem ég ætlaði að mæta á öll kvöldin. Þegar ég skoðaði básana voru þeir bara ekki með bjór sem mig langaði að smakka, súrbjór t.d. vil ég fá frá þeim sem virkilega kunna til verka og þegar úrvalið er svona sturlað þá ákvað ég að eyða mínum prósentum í þessa stóru.  New England IPA er bjórinn sem ég þekki frá þessum brugghúsum en það var bara ekki í boði.  Ég lét líka To Öl og Mikkeller vera, það er svo sem ekkert nýtt þar á bæ í rauninni.  Þeir gera þó alltaf solid bjór, ekki misskilja mig, en ég skoða þessi brugghús á öðrum vettvangi.  Cloudwater voru svo vonbrygði hátíðarinnar eins og í fyrra að mínu mati.  Ég fann ekkert gott frá þeim.  Reyndar rokka þeir í IPA stílnum en það var svo sem lítið frá þeim í þessum stíl að þessu sinni, mér skilst þó að þeir hafi rúllað upp tap takover á Mikkeller & Friends.  Sem fyrr segir þá fór ég ekki í súrbjórinn þeirra en það var mikið af því í boði hjá þeim.  Heyrði heldur engan tala um þá á þessari hátíð.

En ok ég ætla að prófa að taka þetta saman með því að flokka þetta dálítið. Þannið að ég set þetta fram svona:

IMG_8277.JPG

Bestir í IPA á hátíðinni.   Hér eru það án efa amerísku brugghúsin, NYC brugghúsin voru öll að rúlla þessu upp bæði í hazy NEIPA sem og hefðbundum IPA stíl.  Ég smakkaði lítið frá Other Half en það er í miklu uppáhaldi, ég vissi bara að hverju ég myndi ganga þar og eyddi því magaplássi og ölvunarstigum í hin brugghúsin sem ég hafði ekki prófað áður.  KCBC stóð uppúr vegna þess að allt sem ég smakkaði frá þeim var geggjað, líka imperial stoutarnir þeirra.  Það sama má reyndar segja um Tired Hands sem voru með fullkomna IPA bjóra og Saison pour alla helgina, ekki einn einasti bjór frá þeim sem klikkaði.  Svo kom Aslin verulega á óvart, það var líka mikið talað um þá á hátíðinni og var þetta að margra mati besta brugghús hátíðarinnar.  Ég smakkaði alls ekki allt frá þeim en þeir áttu geggjaðan lactose súrbjór, fullkominn NEIPA og sturlaðan Imperial Stout sem ég smakkaði.

Ef við skoðum súrbjórinn þá voru ansi mörg brugghús með súrbjór sem hluta af sínu framlagi en aðeins nokkur sem nánast bara tefldu fram súrbjór eða wild ale.  Hér voru efst á blaði kunnugleg nöfn, De Garde og Black Project stóðu uppúr að mínu mati en það var misjafnt milli daga hvort þeirra var að standa sig betur.  Fonta Flora var að mínu mati alveg consistent alla hátíðina með sturlað stöff.  Þeir eru enn að flakka um landið þegar þetta er skrifað og lítil sæt fluga laumaði því að mér að þeir væru að brugga með Ölverk á næstunni!

20190223_175241-01-01.jpegHvað kom mest á óvart? Ég verð að segja að Brewhaha frá Malbygg var einn af þessum wow factorum, ég vissi að þetta myndi verða góður bjór enda Cycle brewing með puttana í þessu en bjórinn kom mun betur út en ég þorði að vona.  Svakalegur. Jinga Brewing Company frá Peking Kína kom mér líka verulega á óvart, þeir voru með alveg frábæran freyðandi hrísgrjóna súrbjór sem hefur verið þroskaður á „mulberries“ og döðlum.  Geggjaður bjór, What Abour Me?.   Freyðandi og frískandi með sætum undirtón frá berjum og döðlum en í senn sýrður með ögn edik keim.  Þetta var með skemmtilegustu bjórum hátíðarinnar að mínu mati.  Svo kom ég eiginlega sjálfum mér á óvart yfir því hve mikið ég var hrifinn af steinbock bjórnum frá Fonta Flora.  Ég er venjulega núll spenntur fyrir bock en þessi var ofsalega skemmtilegur.


Bestir í stout
voru nokkur bruggús eins og von var vísa, flestir geta jú gert góðan stout eða imperial stout. KCBC var með alveg magnað stöff, ég smakkaði 3 mismunandi frá þeim og myndvinnslan á merkimiðunum er sturluð, Brewhaha þurfum við ekki að ræða frekar, spot on.  Aslin var svo með líklega einn besta imperial stoutinn á hátíðinni, Mexican Hot Chocolate, 5 stjörnur!  Það skal tekið fram að maður fór í imperial stoutinn alltaf undir lokin en þá er maður dálítið sósaður orðinn og ekki alveg 100% að marka það sem maður er að upplifa.  En samt, þrátt fyrir það er ofanritað niðurstaðan.

Lagerinn að koma aftur?  Það voru nokkur brugghús með lager á hátíðinni sem er frábært, við þurfum að passa okkur að gleyma ekki klassískum elegant og vönduðum bjórstílum á borð við lagerinn.  B&M hefur ákveðið að dusta rykið af lagernum þetta árið og læra aftur að meta þennan flotta stíl.  Ég verð samt að segja að ég hoppaði ekki hæð mína yfir þessum lagerum sem ég smakkaði en þeir voru samt sumir hverjir helvíti ljúffengir.  Það ber þá helst að nefna lagerinn frá Ölverk sem var bara mjög „true to the style“ krispí og clean lager sem rann vel niður.  Ég var svo mjög hrifinn af Prayer Group frá Tired Hands, hann var mjög spes vægast sagt, hveiti lager bruggaður með þýsku pilsner malti og hveiti og svo gerjaður með lager geri.  Loks er bjórinn látinn liggja í 5 vikur á örlitlu magni af sítrónusafa, mjög skemmtilegt og nánast funky bragð. To Öl var líka með skemmtilegan Kölsch sem reyndar var DDH, sem sagt þurrhumlaður þannig að hann minnti dálítið á pale ale, pínu svindl.   Svo var það steinbockinn frá Fonta Flora auðvitað,en þetta var mjög skemmtilegur bock en þeir nota grjót úr grjótnámu skammt frá brugghúsinu og hita það yfir eldi og svo henda þeir grjótinu út í bjórinn og ná þannig upp suðunni eins og gert var í árdaga.  Bjórinn tekur vissulega í sig einhvern keim frá grjótinu.  Frábær bjór og þessi 8.5% voru algjörlega hulin.  Yuzu lagerinn frá RVK Brewing Co. var líka skemmtilegur en svo sem ekki beint klassískur lager.

20190221_174736.jpg

Íslensku Brugghúsin, ég verð bara að viðurkenna að ég smakkaði alls ekki allt á íslensku básunum, bara það sem menn voru að ræða sín á milli eða ef mér þótti eitthvað sérlega spennandi.  Ég lagði þetta fram fyrir sjálfan mig þannig að ég ætti meiri möguleika á að smakka íslenska bjórinn hér heima síðar á meðan mikið af þessum erlenda bjór er bara erfitt að komast í.  Af sömu ástæðu lét ég Other Half eiginlega alveg vera, sem og Mikkeller og To Öl.   Röng nálgun?  Ég veit ekki en svona var þetta hjá mér þetta árið.

Flest var samt vandað og gott sem ég smakkaði frá íslensku brugghúsunum.  Frá Malbygg var t.d. allt gott og flest allt sem ég hef áður smakkað, Brewhaha sló í gegn og svo voru þeir með skemmtilegan kiwi saison eða súrbjór sem var notalegur.  Það sem vakti athygli mína var svo brut IPA frá þeim en það er IPA þar sem gerið sem ég held að hafi verið kampavínsger er látið gerja sykurinn alveg úr bjórnum þannig að final gravity (sykurþéttnin) í bjórnum er 0 sem er sama og vatn.  Bjórinn var virkilega góður, kom mér á óvart, aðeins þurr en vel humlaður og þannig beiskur og fruity.  Þetta vil ég fá á dósir, ég meina þetta er fullkominn bjór fyrir Keto fólkið smbr búblukúrinn sem ég hef áður skrifað um.

20190221_172930.jpgÉg smakkaði annan brut IPA á þessari hátíð, sá var frá Smiðjunni Brugghús sem er glænýtt brugghús á Vík.  Þau voru á sinni fyrstu hátíð með fyrsta bjórinn sem kemur frá brugghúsinu þeirra, vel felst var nokkuð vel gert og ljúffengt til marks um frábæra byrjun.  Brut IPAinn þeirra var góður en kannski ögn of sætur sem er skrítið þar sem final gravity er 0.  B&M mun fylgjast áfram vel með þessu nýja brugghúsi.

Borg Brugghús kom mér lítið á óvart, allt gott frá þeim nánast og allt sem ég hef smakkað áður nema sambrugg þeirra með Ölverk sem var mjög næs.   Svo var gaman af yuzu línunni frá RVK Brewing Co. en ég smakkaði lítið annað þar.  Ölverk var sem fyrr segir með skemmtilegan lager og svo var þarna DIPA sem kom helvíti vel út, þurr og magnaður.  Ég var líka virkilega ánægður með bláberja súrbjórinn hjá Brothers Brewing.  Loks verð ég að nefna krækiberjabjórinn frá Og Natura en þeir gera vín og bjór sem nánast má kalla náttúruvín.  Krækiberjabjórinn er fáanlegur í Vínbúðunum og er alls ekkert svo galinn.  Vínið þeirra var líka skemmtilegt.  Endilega tékkið á þessu í næstu ferð í Vínbúðina.

En ég bara get ekki haft þetta lengra að sinni.  Ég er pottþétt að gleyma einhverju líka.  En nú er þessu lokið og við bíðum í ár eftir næstu hátíð.  Það er þó engin ástæða fyrir örvæntingu því íslensku brugghúsin okkar brugguðu helling af bjór með erlendu gestunum sem er væntanlega eitthvað sem við fáum að smakka hér heima á næstunni.   Þannig brugguðu RVK Brewing Co. með Braw og svo öllum NYC brugghúsunum, Borg bruggaði amk með KCBC (ég er viiiiirkilega spenntur) og Lamplighter, KEX Brewing og Ægir Brugghús gerðu bjór með Other Half, KCBC og Lamplighter svo eitthvað sé nefnt.  Og Malbygg léku sér með Dugges. Það er nóg að gerast sem sagt.

Dagur 3 á bjórhátíð, allt bú!

Allt tekur enda, líka hin árlega íslenska bjórhátíð, það er bara þannig.  Síðasti dagurinn var frábær, undirritaður var bara nokkuð heill heilsu sem er plús á svona hátíð.  Það var ekki eins troðið og hina dagana, líklega af því að einhverjir láu heima með sárt ennið eftir gærdaginn?

‘Eg ákvað að taka bara einn stíl fyrir síðasta kvöldið, IPA en það varð svo sem úr að ég fór í einn og einn súrbjórinn og auðvitað imperial stout líka til að enda gott kvöld!   Malbygg átti dálítið sviðið um stund þegar þeir hófu legendary bottle pour af Brewhaha á slaginu kl 18:00.  Það hafði meira að segja myndast smá röð við básinn þeirra 10 mín í. Auðvitað varð maður að taka einn imperial stout þá.
20190223_175835.jpg

Tired Hands héldu svo áfram að gleðja undirritaðan með frábærum IPA og verulega vönduðum Saison.  DIPAinn frá KCBC var flottur en flottastur IPA bjóra var Orange Crush frá Finback, verulega næs NEIPA með blóðappelsínum og mandarínu, menn voru greinilega sammála því hann kláraðist fljótt.  Aslin var reyndar með álíka magnaðan DIPA og svo var Imperial Stoutinn þeirra svakalegur, Mexican Hot Chocolate og líklega sá besti í sínum flokki þetta kvöld.  Orðið á götunni var dálítið að Aslin hefði neglt þessa hátíð með frábærum bjór alla dagana. Other Half voru svo líka með ofsalega ljúfan NEIPA en kölschinn þeirra var skrítinn, með ananas ofl og minnti bara á frostpinna úr fortíðinni, ekki gott.  Menn voru margir ósammála mér hér.

Lamplighter frá Boston voru líka með solid lineup alla hátíðina, ekkert mindblowing en bara allt gott en í gær voru þeir með alveg magnaðan belgískan quadrupel þroskaður á púrtvís tunnum, klikkað stöff.  Ég dundaði mér aðeins á Omnom básnum í gær en þeir voru með svakalegt súkkulaði, 100% súkkulaði.  það var vægast sagt svakalegt og alls ekki allra, beiskt eins og ég veit ekki hvað.  Þetta súkkulaði kom vel út með quadrupelnum frá Lamplighter.

20190223_170749.jpg

Íslensku brugghúsin voru á sínum stað, sumt alveg ágætt, annað skrítið og jafnvel vont en sumt ansi gott.  T.d. smakkaði ég mjög góðan bláberja súrbjór frá Brothers Brewing, ég er oftast ekkert spenntur fyrir ketilsýrðum bjór en þessi vara mjög nettur og myndi sóma sér vel í dósum eða flöskum.  DIPAinn frá Ölverk var líka dálítið spes en gekk alveg upp, mjög þurr með saison geri, um að gera að prófa hann ef þú átt leið framhjá Hveragerði.  Smiðjan var svo með NEIPA sem ég verð að segja að var  bara alls ekkert galinn, ég myndi alveg fá mér hann aftur, frábært hvað frumraunir þeirra á stóru græjunum komu fínt út á þessari hátíð

Það var svo eitt sem ég gleymdi að nefna og ég vona að menn hafi ekki farið illa út úr því en alla hátíðardagana var hægt að rölta upp á eins konar svalir innanhúss og fá sér húðflúr, spurning hvort einhverjiur hafi vaknað upp með nýtt og skemmtilegt húðflúr sem þeir mundu ekki eftir að hafa fengið sár?  Skemmtilegt.

En já nú er þetta bara búið, heilt ár í næstu gleði en lífið heldur áfram held ég, fullt af bjór framundan frá okkar frábæru íslensku brugghúsum og líka spennandi nano/Lamplighter collab sem ég fjalla um síðar.

B&M mun svo taka alla bjórhátíðina saman á næstu dögum.  Skál í bili!

20190221_194901-01.jpeg