Mér finnst lambalæri fínn matur en dálítið óspennandi. Um daginn þegar ég var að bíða eftir útkalli á vaktinni rak ég augun í þessa aðferð. Þetta var einhver þáttur með meistara Jamie Oliver sem fjallar um góðan mat með fáum hráefnum og sem hægt er að gera á nokkrum mínútum. Mér leist svo vel á þetta að ég ákvað að prófa. Hann seldi mér þetta eiginlega með dukkah dæminu en það er kryddblanda ættuð frá Egyptalandi og sem inniheldur alls konar krydd á borð við kóríanderfræ, fennel, herslihnetur ofl.
Ég fékk svo gefins smá bjór um daginn frá Borg Brugghús og datt í hug að prófa að para við lambið. Garún imperial stout vissi ég að kæmi vel út með svona ofngrilluðu lambakjöti en mér fannst spennandi að sjá hvernig Úlfur Úlfur kæmi út, double IPA, sætur en þróttmikill með mikla beiskju. Venjulega nota ég belgískan tripel eða blond með lambakjöti en það væri líka alveg fullkomin pörun hér, t.d. Westmalle Tripel. En nóg um það, sjáum hvernig þetta gekk!

En alla vega, þetta var í raun furðu fljótlegt að gera og kom svakalega vel út. Vertu samt viðbúin smá subbi og hafðu bréfþurrkur við hendina. Þetta er í raun svona street food!!!
Það sem þarf í þetta
- Lambalæri með beini, ekki kryddað. Stærð fer eftir fjölda í mat
- Dukkah kryddblanda. Herslihnetur saxaðar, kóríanderfræ, fennelfræ, kúmen og sesamfræ, smá salt. Hlutföll, ca sama magn af öllu
- Eggaldin, 3-4 stk, ég var með 3, fyrir 4 persónur
- Hvítlaukur 2 heilir skornir til helminga
- Fersk mynta, heilt búnt
- Fersk steinselja, heilt búnt
- Pæklaður chilli eða jalapeno í krukku. 10 til 15 stk
- Fetaostur, um 150g
- Hvítlauksgeirar, 3 -4
- Rauðvínsedik, 2-3 mtsk
- Olífuolía, 2-3 mtsk
- Naan brauð, heimagert eða t.d. Stonefire brauðin í Bónus.
- Hlynsíróp, 3 mtsk
- Lamba eða nautakraftur, 1 teningur
- Bjórinn með
Aðferð
Byrjið á að gera Dukkah ef þið eigið það ekki til. Saxið herslihnetur smátt, blandið saman kóríanderfræum, sesamfræum, kúmen og fennel í stórt mortél. Hlutföllin hjá mér voru nokkurn veginn allt í sama magni, ég hafði reyndar heldur meira af herslihnetunum miðað við rest. Steytið þetta saman. Setjið smá salt og pipar með.
Notið svo ca 60 g af þessari blöndu, setjið í mortélið aftur, 3-4 hvítlauksgeirar, merjið það saman við dukkah, bætið svo 2-3 mtsk rauðvínsediki og 2-3 mtsk ólífuolíu saman við og steytið áfram þar til þið eruð komin með þykka marineringu. Allt í lagi að smakka þetta aðeins til, bæta við hvítlauk ef þarf eða salt og pipar.

Takið fram lambalærið, skerið rákir í lærið, þvert á stefnu beinsins. Skerið alveg inn að beininu með 2 cm millibili. Gerið eins á hinni hliðinni. Smyrjið svo marineringunni á lærið og látið það fara ofan í alla skurðina líka. Takið fram eggaldin (3-4 stk) og stingið gat á þau svo þau springi ekki í ofninum. Setjið í djúpa ofnskúffu eða bakka, takið fram hvítlaukinn (2 heila) og skerið í tvennt og setjið inn á milli eggaldinanna með skurðsárið upp.
Stillið ofninn á 240 gráður, setjið lærið á ofngrind inn í ofn, setjið svo bakkann með eggaldinu og hvítlauknum fyrir neðan lærið. Þannig rignir safinn úr kjötinu yfir eggaldinið og hvítlaukinn þegar þetta bakast. Þetta tekur um 45 mínútur. Það mætti líklega hafa ofninn í 200 gráðum og elda þá lengur. Þannig kemur meiri safi í bakkann. Við viljum safann.
Á meðan lærið er í ofninum gerum við fetaostasósuna. Setjið um 150 g fetaost í mortélið, steytið og maukið þetta, bæti svo við safanum úr fetaostaumbúðunum, ef það er enginn safi þá notið þið bara vatn. Slettið líka smá vökva af chilli eða jalapeno saman við. Steytið þar til verður eins og þunnfljótandi sósa. Bætið vatni við þar til þetta er orðið ásættanlegt. Í lokin blandið þið svo smá olífuolíu saman við.
Þegar lærið er tilbúið þá takið þið eggaldinið og hvítlaukinn úr skúffunni. Leggið lærið til hliðar undir álpappír. Nú er það soðið í bakkanum. Hellið heilli flösku af Garún eða öðrum imperial stout yfir og reynið að losa upp það sem er fast í botninn. Fínt að henda þessu aðeins í ofninn aftur til að leysa allt upp. Hellið svo yfir í pott og komið upp suðu. Allt í lagi að bullsjóða. Bætið 3 mtsk hlynsírópi saman við, einn tening af lamba eða nautakrafti. Lækkið svo hitann og látið malla.

Takið eggaldinin og skerið endana af, skerið svo eftir endilöngu til að opna. Kreistið hvítlaukinn úr hýðinu og skerið þetta svo smátt. Slatti af salti og pipar yfir. Blandið svo myntunni og steinselju saman við og saxið áfram. Blandið öllu saman, dreifið úr þessu á fallegt trébretti, leggið lambalærið ofan á þetta. Raðið chilli eða jalapeno eftir smekk í kring og drussið yfir smá af fetasósunni.
Berið allt á borð, lambið á brettinu, fetaostasósuna í skál og svo soðsósuna í aðra skál eða könnu. Hitið naanbrauðin í ofninum og svo er bara að hóa í mat. Það kemur helvíti vel út að gera þetta svona. Þegar allir eru sestir til borðs finnur þú beittasta hnífinn í skúffunni, reisir lærið á rönt með legginn upp og svo eins og kebab skerðu kjötið niður í þunnar sneiða eða bita, alveg svo inn að beini. Svo raðar hver og einn í brauðið sitt, lambakjöti, eggaldin/hvítlauks salatið, fetaostasósu og soðsósu. Geggjað.

Pörunin
Eins og ég sagði í upphafi þá er belgískur tripel eða blond frábær með svona lambalæri en mig langaði að prófa annað. Garún kom ofsalega vel út, mikill og þéttur með nokkra beiskju sem vinnur vel með fitunni í lambinu. Það er einnig mikil rist og kaffikeimur sem tengir vel við karmeliseringuna á lærinu. Það er einnig nokkur sæta í þessum bjór sem er velkomin á móti öllum kryddunum og kemur vel út á móti fetasósunni. Loks kemur Garún vel fram í soðsósunni sem vissulega er skemmtileg tenging.

Úlfur Úlfur var líka skemmtilegur, hann fór í allt aðra átt. Mikil réttinn alveg upp á gátt, hreinsar fituna af gómbogum og gerir allt klárt fyrir næsta bita. Sítrusinn tengir vel við fetasósuna líka, súrt og beiskt gengur stundum vel saman. Bjórinn er líka sætur því það þarf mikinn sykur til að ná prósentunni upp í 9%. Sætan hjálpar til að létta á þungu jörðinni í eggaldin/hvítlauks salatinu en bjórinn er í heild sinni kannski aðeins of öflugur fyrir þennan rétt. Ég veit það ekki alveg samt, þarf að prófa aftur. En alla vega ég myndi klárlega fara í Garúnu með þessu til að vera öruggur. Við vorum t.d. öll með gott rauðvín í glasi en það gekk engan veginn með þessum mat.
You must be logged in to post a comment.