Blog

Illiblóma Martini, hrærður ekki hrisstur!

Ég hef stöku sinnum sett inn hér uppskriftir fyrir hanastél þegar ég dett inn á eitthvað sérstaklega skemmtilegt að mínu mati. Bjóráhuginn er nefnilega pínu að fjara út því miður. Vonandi er það bara tímabil. En alla vega, ég hef reynt að fíla martini en það hefur bara reynst mér erfitt, allt of mikill vínandi líklega? Reyndar fannst mér Vesper Martini pælingin sem ég og Ragnar Freyr nafni minn duttum í hjá Marberg hér um árið dálítið skemmtileg. Líklega tengist það James Bond, eitthvað við það að smakka kokteilinn sem hann “bjó til”.

En ok, hér er ég með martini sem ég er virkilega ánægður með. Helvíti gott stöff. Hann er smá sætur og smá sterkur en alls ekki of og svo þessi sérstaki illiblómakeimur. Ég fann uppskrift á netinu en fór ekki alveg eftir henni en ég mun klárlega nota mína útgáfu næst. Og til að gefa smá skít í James Bond þá er þessi útgáfa hrærð en ekki hrisst eins og hann vildi hafa martini. Hrærð útgáfa gefur betra bragð og meira.

Það sem þarf í einn drykk

  • St Germain líkjör 40 ml
  • Himbrimi Old Tom Gin (dökkt) 40ml
  • Vermouth Antica Formula 20ml
  • Límónusafi 20ml

Aðferð

Taktu til fallegt martini glas. Settu svo klaka í kokteil hrisstara eða hátt glas. Settu svo öll hráefnin í hrisstarann og hrærðu vel þar til orðið vel kalt.

Svo er bara að “streina” í martini glas og njóta!

Djúpsteiktar Eldfjallarisarækjur Með Sætri Chilly Majósósu

Ok, þessar eru algerlega geggjaðar! Tekur nokkrar mínutúr að gera. Djúpsteikt vissulega en það er bara allt í lagi, smá spari bara. Allt sem er djúpsteikt er bara gott held ég svei mér þá. Ég væri jafnvel til í að prófa djúpsteiktan þorramat. Maður borðar bara salat á móti ekki satt?

En ok vindum okkur í þetta.

Það sem þarf

  • Risarækjur, ekki foreldaðar. Magn fer eftir græðgi
  • Maíshveiti til að velta rækjunum uppúr
  • AB mjólk eða súrmjólk til að velta rækjunum uppúr
  • Ca 1 dl gott majones
  • Ca 0,5 – 1 dl sriracha sósa
  • Ca 1 dl sæt chillisósa
  • Salt og pipar
  • Hvítlauksduft
  • Olía til að djúpsteikja uppúr
  • Smá ferskur kóríander

Aðferðin

Hitið olíu í djúpsteikingarpotti, eða djúpri pönnu. Saltið rækjurnar, smá hvítlauksduft líka og piprið. Setjið svo rækjurnar í skál og veltið uppúr AB mjólk eða súrmjólk. Þegar olían er orðin heit þá veltið þið rækjunum uppúr maíshveitinu, hér viljum við hjúpa rækjurnar vel af hveitinu. Ég hef fengið maíshveiti í Fiska en Sigrún mín segir að það sé nú til víða. ATH, þetta er ekki maizenamjöl sósujafnari.

Djúpsteikið í 3-4 mínútúr, saltið svo strax á eftir og látið aðeins kólna. Blandið saman ca 1 dl majonesi, 1 dl sætri chillisósu og 0,5-1 dl sriracha sósu. Smakkið þetta bara til. Veltið svo rækjunum uppúr sósunni og berið fram með ferskum kóríander.

Dóttir mín var alveg í skýjunum þegar hún smakkaði þetta og sagði þetta minna mikið á eldfjalla sushirúllurnar ef þið þekkið þær frá Tokyosushi. Við ákváðum því að skýra þessar rækjur eldfjallarækjur.

Pörunin

Hér kemur margt til greina, það er t.d. Geggjað að para þetta við West coast IPA en brakandi ferskur lager eða pilsener er líka geggjaður með þessu. Jafnvel spicy saison.

Geggjuð sænsk/indversk chilly klessukaka með spicy karamellu ganace topping

Þessa köku smakkaði ég fyrst þegar við Yesmine Olsson elduðum saman inverska veislu fyrir vini okkar. Mindblowing skal ég segja ykkur, ég hef margoft smakkað sænska klessuköku en þessi er með smá auka krúsídúllum, chilly, myntu og pistasiuhnetum og þessi karamellu hjúpur yfir er bara rugl. Uppskriftin er sem sagt í grunninn frá Eldhússögum og svo hefur hún verið tekið á næsta level af Yesmine. Þessi kaka er fullkominn endir á dásamlegri indverskri veislu.

Við Sigrún vorum með gesti í gær, við elduðum besta kjúklingarétt veraldar, Chicken 65 og svo vorum við með sturlaðar aloo kartöflur með. Í lokin buðum við uppá þessa köku sem sló rækilega í gegn.

Það sem þarf

Fyrir botninn

  • 100 g smjör
  • 2 egg
  • 1 og 1/2 dl Hveiti
  • 5 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • Hnífsoddur salt

Fyrir chilly karamellukremið

  • 2 dl rjómi
  • 1 dl sykur
  • 1 dl síróp
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 100 g smjör
  • 1/4 tsk sjávarsalt
  • 1/4 tsk chilly flögur (vorum með extra hot flögur)

Fyrir cruncy kornflex topping

  • 100 g suðusúkkulaði, brætt
  • 1 bolli kornflex
  • 1 tsk rifinn engifer
  • 1/4 tsk chilly flögur
  • Smá salt
  • Pistasíuhnetur, saxaðar
  • Fersk mynta, skorið smátt
  • 1/4 peli rjómi, þeyttur

Aðferðin

Ok það gæti vel verið að Yesmine geri þetta öðruvísi, en svona gerðum við þetta. Höfum gert þetta nokkrum sinnum og alltaf komið vel út.

Hitið bakarofn í 175 gráður, bræðið svo 100g smjör í potti. Takið fram skál, setjið í hana tvö egg, 1,5 dl hveiti, 5 mtsk kakó, 2 tsk vanillusykur og smá salt. Bætið svo smjörinu samanvið og blandið vel. Smyrjið lausbotna form, ca 22-24 cm þvermál. Hellið deiginu ofaní og bakið í ca 20 mínútur. Takið svo kökuna út og látið kólna.

Þá er það kremið. Setjið allt saman í pott nema kryddunum, sem sagt 2 dl rjóma, 1 dl sykur, 1 dl síróp og 100g suðusúkkulaði. Hrærið saman og latið svo suðuna koma upp. Látið svo blönduna malla á lægri hita þar til hún þykknar. Hrærið í annað slagið. Þeta tekur um 10 mínútur. Þegar þetta er orðið dálítið þykkt takið þið pottinn af og bætið smjörinu út í. Blandið vel saman. Bætið svo saman við chilly og saltinu. Smakkið þetta til, það fer auðvitað eftir hversu sterkt chilly þið eruð með. Þetta á samt að rífa dálítið í.

Látið standa þar til það hefur kólnað vel niður. Þetta er reyndar ansi veglegt, mætti jafnvel helminga uppskriftina. Hellið svo yfir kökuna og látið kólna áfram inn í ískáp.

Bræðið 100 g suðusúkkulaði, blandið chilly og fínt rifnumn engifer saman við. Smá salt líka. Hellið kornflex flögum (1 bolli) í skál og hellið súkkulaðinu yfir, blandið vel þannig að flögurnar hjúpist vel. Drefið svo úr þessu á smjörpappír og kælið í frysti.

Svo er bara að taka kökuna úr kæli, mylgja súkkulaðikornflexið yfir, saxið svo pistasíuhnetur og dreifið yfir, ekki spara hneturnar. Svo er ágætt að klippa niður smá ferska myntu. Við hentum bláberjum yfir þetta síðast, kom vel út. Þetta er frábært með mynturjóma. Setjið rjomann bara í skál, klippið niður smá búnt af myntu og þeytið þar til orðið stíft. Ekki flókið

Djúpsteikt Maísrif með chipotle majo

Þetta er skemmtilegur biti sem Björk og Maggi í næsta húsi gáfu okkur að smakka um daginn. Algerlega frábært nasl t.d. fyrir matinn eða bara eitt og sér yfir leiknum. Mér finnst líka gaman hversu framandi og óvenjulegt þetta lítur út á diskinum, manni gæti dottið í hug kolkrabbi eða álíka.

Það sem þarf

  • 4 maískólfar skornir til helminga svo aftur í fernt eftir endilöngu
  • Olía til djúpsteikingar
  • Ca 1 mtsk chilliduft
  • ca 1 mtsk hvítlauksduft
  • Hálf til ein mtsk reykt papríka
  • Salt og pipar
  • Nokkrar límónur
  • 1 bolli majones
  • 1-1,5 tsk chipotle paste
  • Límónusafi
  • salt og pipar

Aðferð

Notaðu beittan hníf annars er hætt á því að missa nokkra putta. Skerðu hvern maískólf til helminga, svo stillirðu helmingunum upp á rönd og skerð niður til helminga endilangt og svo aftur til helminga endilangt þannig að þú endar með 4 rif úr hverjum hálfum maískólfi. Sem sagt úr einum maískólfi færðu 8 rif.

Gerðu kryddblönduna, chilliduft ca matskeið, hvítlauksduft ca matskeið og svo reykt papríka. Líklega er hálf matskeið nóg. Smá salt og pipar, þetta er dálítið slump. Smakkaðu þig aðeins áfram.

Djúpsteiktu rifin við um 170 gráður í 7-8 mínútur. Takktu rifin uppúr olíunni og veltu þeim uppúr kryddblöndunni. Kreistu svo límónusafa yfir rifin.

Svo er það 1 bolli majones í skál, hrærðu saman við 1 til 1,5 tsk chipotle paste, kreistu smá límónusafa saman við eftir smekk. Smakkaðu þig svo til með salti og pipar.

Berðu fram með límónubátum.

Heimagert Ravioli fyllt með Appelsínu Butternut squash með Brúnuðu Salvíusmjöri og Feyki.

Maður sækir innblásturinn víða, ósjaldan á einhverjum veitingastaðnum hér heima eða á ferðalögum erlendis. Við Sigrún mín prófuðum um daginn OTO á Hverfisgötu en um er að ræða frekar nýlegan veitingastað í annars skrautlegri flóru veitingastaða í borginni. Upplifunin var sannarlega góð, maturinn frábær. Einn rétturinn vakti mikla lukku hjá mér, Ravioli með salvíusmjöri með kanil, ostaflögum, hunangsristuðum valhnetum og fyllingin butternut squash með appelsínukeim. Þetta var bara rosalegt. Auðvitað ákvað ég daginn eftir að prófa að leika þetta eftir heima í eldhúsinu.
Ég verð bara að segja að þetta tókst vel til, ég veit auðvitað ekki hvað er nákvæmlega í þessu hja OTO en við Sigrún reyndum að líkja eftir þessu út frá því sem við smökkuðum.

Það sem þarf fyrir um það bil 4

  • Eitt Butternut Squash grasker, afhýtt og skorið í litla bita
  • Um 100g rjómaostur
  • 300 g O O hveiti
  • 3 stór egg
  • Rifinn appelsínubörkur af hálfri appelsínu
  • 150-200 g smjör
  • Fersk salvía, um 20 blöð
  • 200 g Valhnetur
  • Feykir, skorinn í þunnar sneiðar
  • 1/4 tsk Cayenne pipar
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Parmesanostur, rifinn.

Aðferð

Ég byrjaði á að gera pasta. Það er mun einfaldara en maður heldur. Settu 300g hveiti á hreint borð, búðu til holu í miðjuna eða eins og hreiður. Settu svo 3 egg í miðjuna og hrærðu þeim saman með gaffli. Notaðu svo hendurnar og byrjaðu að blanda eggjahrærunni smám saman við hveitið.

Svo er bara að ná þessu saman og hnoða vel. Þetta tekur tíma. Þú þarft að taka dálítið á því, nota upphandleggsvöðvana og allt hitt. Það er mikilvægt að hnoða vel, hér ertu að á glúteininu í hveitinu og eitthvað mikilvægt skv Jamie Oliver. Þegar deigið er orðið slétt og mjúkt og ekki þurrt þá pakkar þú því inn í matarfilmu, passa að loka vel. Þetta geymir þú í ískáp í alla vega 30 mínútur.

Brúnt smjör

Það er ágætt að græja brúna smjörið núna. Settu um 200g smjör í pott, bættu saman við 4-5 salvíublöðum og brúnaðu smjörið. Passaðu að brenna ekki smjörið, það er tilbúið þegar það er orðið gyllt og farið að mynda froðu ofaná. Lyktin minnir á hnetur og karamellu. Taktu til hliðar.

Fyllingin

Hentu fyllingu af stað. Skerðu niður graskerið og sjóddu í potti. Salta dálítið vatnið líka. Svo hellir þú vatninu af og stappar saman við 100g rjómaosti, smá salvíusmjöri, salt og pipar. Ég setti líka ögn cayenne pipar, líklega um 1/2 tsk, ekki meira. Svo reif ég börk af ca hálfri appelsínu samanvið. Blandaði vel. Ég sigtaði þetta líka í gegnum sigti, en þá varð blandan aðeins of þunnfljótandi þannig að ég reif slatta af parmesan osti saman við.

Þegar hér var komið sögu steikti ég nokkur salvíublöð eldsnöggt í smjöri og lét þorna á eldhúsbréfi þannig að þau urðu stökk. Ég ristaði líka valhneturnar létt á pönnu og skvetti smá hunangi yfir.

Heimagert pasta

Loks var það pastað. Takið pastadeigið úr kælinum, fletjið út með höndunum. Búð til kúlu á stærð við appelsínu. Sáldrið smá OO hveiti yfir ef þarf. Finnið borðpláss, við viljum eins langt borð og hægt er, það auðveldar allt, trúið mér. Ég mæli með pastavél en það er hægt að gera þetta án hennar eins og allar ítölsku móðurkartöflurnar, þeim dytti ekki í hug að nota vél. Hef samt ekki hugmynd um hvernig það er gert því ég er með vél.

Festið vélina kyrfilega við enda borðsins og stillið á víðustu stillingu (hjá mér er það 9). Fletjið deigið út með höndunum og rúllið í gegnum vélina. Ef þetta er eitthvað að festast við þá smá hveiti yfir.

Stillið svo á næstu stillingu fyrir neðan og rúllið deiginu aftur í gegn. Brjótið deigið saman til helminga, færið stillinguna aftur upp í víðustu stillingu og rúllið í gegn. Endurtakið þetta 5-6 sinnum, já þetta virðist tilgangslaust en hér erum við að “vinna deigið”. Þið munið finna hvernig deigið verður mun meðfærilegra og fallegra eftir þetta.

Nú er svo bara að vinna deigið í gegnum vélina niður allar stillingarnar frá víðasta niður í það þrengsta. Sáldrið smá hveiti yfir deigið í hvert sinn sem þið rúllið því í gegn.

Svo vildi Jamie gera þetta, ég hlýddi því bara og endaði með frábært pasta. Sem sagt nú brjótið þið deigið saman fyrst eftir endilöngu, svo til helminga og aftur til helminga. Snúið 90 gráður og rúllið deiginu í gegnum vélina eftur frá víðasta og niður í þrengsta eða þar til deigið er það þunnt að það sjást línurnar í lófanum ykkar í gegn.

Nú getið þið græjað ravioli. ATH deigið þornar hratt svona þannig að það er ekki hægt að fara gera eitthvað annað á þessum tímapunkti. Finnið til glas í hentugri stærð eða ef þið eigið ravioli stimpil. Skerið út hringi í deigið, setjið butternut fyllinguna í miðjuna og leggið svo annan pastahring yfir. Pressið saman jaðrana með gaffli eða stimplinum og sjóðið í söltu vatni í nokkrar mínútur.

Borið fram

Skerðu þunnar skífur af Feyki, raðaðu ravioli pastanu á fallegan disk. Settu ostaskífurnar yfir Helltu brúna smjörinu yfir, bleyttu vel í þessu og hentu svo yfir valhnetunum og stökku salvíublöðunum. Loks er gott að rífa parmesan yfir þetta allt. Njótið í botn.

Geggjuð krydduð / spicy Bearnaise sósa

Það er svo skemmtilegt að fá innblástur þegar maður fer út að borða eða í matarboð hjá góðum vinum. Við höfum gert bearnaise sósu margoft, alltaf þessa klassísku bara sem er ofsalega góð. Maður stundum festist bara í klassíkinni og gleymir að þróa réttina sína áfram. En alla vega, við vorum á Brand um daginn, Brand er frábær staður í Mathöll Hafnartorgi en þar fengum við okkur algerlega frábæra spicy bearnaise sósu og áttuðum okkur á að auðvitað má leika sér með þessa sósu. Einu sinni sem oftar þá fór ég heim, náði mér í steik og prófaði að gera kryddaða útgáfu af þessum klassíker. Þvílík snilld bara, þetta er geggjuð sósa með nautalund, lambalund og alls konar. Svona gerði ég þetta.

Það sem þarf fyrir ca 4

  • 3 eggjarauður
  • 150 g smjör
  • 2-3 tsk bearnaise essense
  • 1 tsk sítrónusafi
  • 1 mtsk fáfnisgras (estragon)
  • 1/2 til 1 tsk Cayenne pipar, eftir smekk
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð

Ok þetta er mun minna mál en þú heldur, andaðu bara rólega, fáðu þér sopa af góðu rauðvíni og helltu þér út í þetta.

Bræddu 150 g smjör í potti, Ekki verra að gera brúnt smjör en það er bara bónus. Láttu það svo kólna aðeins.

Settu vatn í pott, settu skál yfir sem þolir hita. Ekki láta vatnið snerta skálina. Hitaðu vatnið þannig að það nær nánast að sjóða. Settu 3 eggjarauður í skálina og pískaðu stöðugt þar til rauðurnar fara að þykkna. Fylgstu með hitanum á eggjunum með því að dýfa fingur í. Ef þetta er að verða heitt þá tekur þú skálina af aðeins.

Þegar þér finnst eggjarauðurnar orðnar dálítið þykkar þá bætir þú um 2-3 tsk bearnaise essense saman við. Ekki hætta að píska. Svo byrjar þú að hella smjörinu í mjórri bunu saman við á meðan þú pískar stöðugt. Bættu svo um 1 tsk af sítrónusafa samanvið og smakkaðu þig svo til bara. Í lokin bætir þú kryddunum við, 1 mtsk af estragon, 1/2 – 1 tsk Cayenne pipar eftir smekk og svo salt og pipar. Smakkið þetta bara til.

Nú er svo bara að njóta. Mundu að ef sósan fer að þykkna meðan þú bíður eftir öðru þá getur þú alltaf bætt heitu vatni saman við og pískað til þannig að verði þunnfljótandi aftur.

Hægelduð Bleikja í Kampavínssósu með Fennel Sellerírótarsalati

Ok, bleikja er góð en þessi er alveg mögnuð. Við Sigrún mín vorum í matarboði um daginn hjá Hreim og Tobbu nágrönnum okkar og þar var elduð ofan í okkur 6 rétta máltíð sem sló svo sannarlega í gegn. Meðal rétta var hægelduð bleikja. Þetta er eitthvað sem manni hafði aldrei dotti í hug að gera en þetta var bara alveg geggjað. Þetta bara dettur í sundur í munni og bráðnar. Það var Erla Þóra Bergmann Landsliðskokkur sem töfraði þetta fram fyrir okkur og vil ég hér með þakka kærlega fyrir mig.

Við vorum ekki með uppskrift en prófuðum okkur áfram. Þetta heppnaðist fullkomlega.

Það sem þarf fyrir 6

  • 600 g bleikja
  • Ólífuolía sem dekkar bleikjuna
  • Hálf sítróna í bátum
  • 1 skarlottulaukur skorinn fínt
  • 2 hvítlauksgeirar fínt skornir
  • Smjör og ólífuolía til steikningar
  • 2 – 2,5 dl kampavín
  • 1 til 1,5 dl rjómi
  • Safi úr hálfri sítrónu
  • Ca 300 g sellerírót rifin í strimla
  • Eitt epli rifið í strimla
  • 1 mtsk fennel fræ kramin
  • 2 mtsk japanskt majones
  • 2 mtsk ristaðar möndluflögur
  • Smá dill til að skreyta eða fennelgreinar

Aðferð

Setjið bleikjuna í eldfast mót saltið flökin og bætið fennelfræjum yfir og hellið svo olífuolíu yfir þannig að hún þekji fiskinn. Skerið sítrónu í báta og leggið í olíuna, setjið inn í ofn við 60 gráður í 50 mín. Takið út og hellið olíunni af.

Á meðan bleikjan er í ofninum þá takið þið til við salatið. Þetta átti að vera fennel salat en við búum á Íslandi og aldrei hægt að ganga að hráefnum vísum. Fann sem sagt ekki fennel þannig að úr varð sellerirótar salat með fennel kryddi.
Rífið sellerírót niður í strimla, setjið í skál. Rífið svo epli niður líka í strimla, kreistið sítrónu yfir, aðeins minna en hálf sítróna. Kremjið um tsk af fennel fræjum og bætið við þetta ásamt majonesi. Svo um 2 mtsk ólífuolía samanvið og blandið vel.

Kampavínssósa, hljómar voða flókið en er það alls ekki. Skerið skarlottulauk og hvítlauk í smátt, mýkið í smjöri og olíu í potti. Bætið svo 2-2,5 dl kampavíni útí pottinn og sjóðið niður. Loks er það um 1,5 dl rjómi, lækkið hita undir og látið malla aðeins. Smakkið til með sítrónusafa.

Skerið bleikjuna í hæfilega stóra bita og setjið á fallegan disk. Toppið bleikjuna með salatinu, ristuðum möndluflögum og smá dilli. Setjið kampavínssósuna við hliðina og appelsínubát. Berið fram kalt!

Tenerife, matur og drykkur

Tene er orðinn einn af þessum stöðum sem við Íslendingar sækjum mikið allt árið um kring enda þægilegt og einfalt að eyða fríinu sínu hér. Loftslag er þægilegt, alltaf sama veðrið nánast, ekki of kalt og ekki of heitt. Moskítóflugurnar í algeru lágmarki og viti menn matarmenning á góðu plani ef maður veit hvar á að leita.
Ég hef aldrei verið Tene maður, hef í gegnum tíðina fundist þessi áfangastaður óspennandi og hallærislegur og bara á lágu plani. Það er ekkert spennandi hér að skoða. Engin forn saga eða menning, engin spennandi þorp eða bæir eða falleg náttúruundur (að mínu mati, svo ég særi ekki neinn) en það er það sem ég sækist í þegar ég ferðast, oftast. Það er þó svo sannarlega hægt að segja að Tenerife sé fullkominn fyrir að gera ekki neitt, slappa af, sleikja sól og gera vel við sig í mat og drykk. Já það er nefnilega þetta síðasta sem fær mig til að endurskoða álit mitt á Tene.

Nú er ég hér í 3. sinn á 8 árum og nú ákváðum við Sigrún mín að kafa dálítið í matarkúltúrinn hér, lesa okkur til og safna að okkur meðmælum fólks sem við treystum ágætlega í mat. Þannig að ef þetta kemur vel út og við erum sátt þá er Tene kannski orðinn hinn fullkomni áfangastaður þegar maður vill bara vinda ofan af sér og hlaða batteríið án þess að hafa móral yfir því að vera ekki að skoða og skoða og drekka í sig sögu og menningu?

Hér að neðan tek ég saman það sem okkur fannst vert að skoða í mat og drykk í 10 daga ferð okkar.

La Vieja í Caleta

Fyrsta kvöldið okkar á Tene þá hittum við góða vini sem bókuðu þetta borð fyrir okkur. Þau höfðu borðað hér nokkrum sinnum og fannst “óhætt” að hitta okkur hér eins og þau orðuðu það. Þetta var home run, mjög glæsilegur sjávarréttastaður sem stendur hér við litla vík í La Caleta sem er lítið eins konar þorp eða hverfi við ströndina. Þetta er eins og eitthvað allt annað en Tenerife, minnir mig helst á lítið sjávarþorp á Krít. Útsýnið frá veitingastaðnum var algerlega geggjað, sérstaklega ef maður passar að vera á staðnum við sólsetur. Maturinn var líka frábær og þjónusta góð. Sumt sjávarfangið var meira að segja lifandi og beið þess að vera valið til átu.
Ég fékk mér skötuselinn sem var mjög góður en látlaus og smakkaði svo sandhverfuna hjá nafna mínum Ragnari Frey (Læknirinn í Eldhúsinu), virkilega gott. Humar linguine rétturinn var hins vegar alveg geggjaður, mögulega það besta þetta kvöldið. Já ef maður er fyrir sjávarfang þá er þetta staðurinn.

Ef þú ert eins og dóttir mín sem gat bara ekki hugsað sér að borða humarinn eða krabba eftir að hafa séð þá rölta um í fiskabúrinu við innganginn þá getur þú bara valið allt hitt sem “sem er dautt” en var veitt sama dag samt. T.d. túnfisksteikin, ummmm með hvítlauksolíu og smá salti, geggjuð!

The Ginger Pig

Þegar við vorum hér síðast duttum við inn á lítinn breskan sportbar sem hét Thirsty Turtle. Við vorum ekki að búast við miklu en þetta var undir lok covid bylgju tvö minnir mig og bara 50% af börum og veitingahúsum opinir. Við enduðum á að koma þarna ítrekað því maturinn var frábær og kokteilarnir geggjaður. Ég smakkaði t.d. Amaretto Sour þarna í fyrsta sinn.

Alla vega, þessi staður er farinn en um 10m ofar i götunni er kominn annar staður, sömu eigendur skilst mér, The Ginger Pig. Þetta er frábær staður, ögn stærri en skjaldbakan, við erum að tala um grillað og brasað enskt/amerískt fusion (eða það finnst mér amk) og já kokteilarnir eru á sínum stað. Músík er hávær en truflaði mig ekki, þetta passaði bara vel við stemninguna og það er vel hægt að tala saman þarna. Matseðillinn er skemmtilega villtur og mikið að gerast á honum og fær munnvatn til að flæða.

Mælum með The Piggy Platter fyrir tvo en hér færð þú blöndu af þvi helsta sem er í boði af kjöti. Reyndar var ostakjötlokan (philly cheese steak) algerlega frábær. Hér er mín útgáfa af þessari steik. Það kom okkur á óvart hvað allt kjötið á plattanum var gott, nautarifaugað (ribeye) var frábært og rifni grísinn (pulled pork) með því betra sem ég hef smakkað í þeim flokki. Já óhætt að segja að þessi staður hafi hitt í mark. Við erum að tala um “mega pint” ef þú pantar rauðvín eða hvítt sko! Svo er líka hægt að fá hér frábæran morgun brunch!

Bianco á amerísku ströndinni

Þessi er á amerísku ströndinni, ítalskur dálítið fine dining en ekkert samt of hátíðlegur. Hér er fín stemning, mikið að gerast, fólk fer greinilega mikið hingað á afmælisdaginn sinn því það voru blöðrur hér og þar og stjörnuljós með klöppum og fagnaðarlátum, Dóttir mín var reyndar ein af þessum., 9 ára dama takk fyrir.

Það er músík, soft techno eða house sem plötusnúðurinn á staðnum töfraði fram. Maturinn, klassískt ítalskt, allt geggjað sem við smökkuðum. Ég smakkaði arancini bollurnar hjá nafna mínum í Eldhúsinu, svakalega gott, nauta carpaccioið klikkar heldur aldrei, nema stundum, en ekki í kvöld. Svo vorum við frúin með grillaðar kóngarækjur með ætiþirstlum í mjög bragðmikilli spicy sósu. Þetta dansaði mjög vel saman og paraðist vel við þétt smá sætt rauðvínið sem þjónninn okkar mælti með.

Dóttir mín fékk svo afmælis eftirrétt í boði hússins, furðu góður ítalskur súkkulaðiís. En hún var alsæl. Við fengum okkur öll svo limoncello í eftirrétt til að tempra af meltinguna. Reyndar fékk einn í hópnum sér espresso martini og sá var svo sannarlega ekki af verri endanum. Loks komu þeir með auka limoncello fyrir okkur Ragnar og hvöttu okkur til að mæla með staðnum en þá var ég svo sem búinn að henda inn á instagrammið :). Ja ég held ég gæti vel mælt með þessum stað. Kæmi kárlega aftur. Ein athugasemd reyndar, limoncello er aldrei borið fram ískalt hér á Tene, ekki á einum einasta stað sem við heimsóttum, skrítið því það er svo miklu miklu betra þannig.

Rosso Sul Mare í Caleta

Þessi staður er algjört möst ef maður hefur ánægju af fullkomnum ítölskum mat og óaðfinnanlegu útsýni yfir hafið. Ég held að þessi staður standi uppúr hjá okkur í þessari yfirferð okkar. Mikilvægt að panta borð fyrirfram, flott að óska eftir borði við gluggann eða veröndina eftir því hvað maður kallar þetta og passa að bóka ekki borð of seint. Í október/nóvember er kl 18:00 heppilegur tími því þá er maður þarna í ljósaskiptunum þegar hafið og himininn breytist í bleikt og svo rautt áður en myrkur skellur á. Dásamlegt sjónarspil.

Svo er bara svo róandi að horfa á öldurnar og heyra sjávarniðinn á meðan maður sötrar góðan drykk eða borðar eitthvað gott. Við erum að tala um dálítið elegant stað en samt enginn rembingur eða snobb. Þú getur alveg mætt bara í stullum og bol. Verðlag í hærri kantinum en þú ert hér að borga fyrir staðsetningu og gæðin.

Við smökkuðum nokkra rétti, allt frábært. Tuna tartar með lárperumauki sem var ljómandi gott þó svo að dóttir okkar tilkynnti okkur að okkar heimalagaða tuna tartar væri enn betra. Svo var það nauta carpaccio sem klikkar bara ekki, einn í hópnum fékk sér gráðosta gnocchi sem var með því betra sem maður hefur smakkað í þeim geira, svo ríkulegt bragð af ostinum og gnocchi koddarnir svo lungna mjúkir og dásamlegir. Svo var það white duck ragu með pappardelle pasta, þvílíkt ljúfmeti, ég hafði ekki smakkað þennan frábæra rétt áður. Loks fékk ég mér nauta filet með foi gras og púrtvíns demiglace. Ég er ekki að ýkja þegar ég segi, besta nautasteik sem ég hef fengið sem ég man eftir. Vá!!!

Welcome India

Hér höfum við borðað áður og vorum gríðarlega ánægð með matinn og við höfum mælt með þessum stað við marga og allir þeir sem hafa prófað eru á sama máli. Við erum að tala um ekta indverskan mat í frekar látlausri yfirbyggingu, við erum að tala um plaststóla og hallærislega dúka og skreytingar og það er blikkandi marglit jólasería í blómabeðinu fyrir utan, en þjónustan er vinaleg, afgreiðsla hröð og eins og ég sagði maturinn óaðfinnanlegur og verðlagi er stillt í hóf. Ekkert bullshit, þú ert kominn hingað til að borða góðan mat og það er nákvæmlega það sem þú færð, ekkert meira eða minna.

Já hér er svo sannarlega öruggt að maður eigi skemmtilega stund með vinum og vandamönnum, Ég notaði tækifærið og dró Darra minn á staðinn því hann elskar indverskt. Sjáið bara hversu sáttir við erum með þetta 🙂

Hér erum við að borða alvöru indverskan mat sem er langt frá því í gæðum sem við eigum að venjast heima á Islandi. Það er í raun ekki hægt að bera saman matinn hér á Welcome við matinn á stóru indversku stöðunum heima. Þetta er svo miklu mun betra og margfalt ódýrara. Hér ætla ég samt að undanskilja Funky Bhangra í Pósthúsinu Mathöll því þar fær maður sannarlega góðan indverskan mat.

Við pöntuðum marga rétti á Welcome India, allt algerlega magnað, öll þessi krydd og þessar bragðflækjur sem ómögulegt er að reyna að lýsa hér. Kókos naanbrauðið algerlega úr þessum heimi og svo Bombay Aloo kartöflurnar ótrúlegar. Við reyndum að fá upplýsingar um kryddin í sósunum en fengum ekkert að vita, fjölskylduleyndarmál auðvitað!

Já ég held að ég gæti borðað hér öll kvöld vikunnar án þess að fá leið á því.

Habibi Los Christianos

Það voru margir sem mæltu með þessum stað og því ákváðum við að skoða hann. Líbanskur staður hljómar of vel. Í stuttu máli hins vegar þá var ég ekki sérstaklega upprifinn. Kannski vorum við óheppin þetta kvöld eða ég illa fyrir kallaður en mér fannst þetta ekki eitthvað sem ég myndi eltast sérstaklega við.

Umhverfið er flott og spennandi, maður upplifir alveg þessa Vestur Asísku stemningu og því var ég mjög spenntur að smakka. Mér fannst matseðillinn dálítið flókinn en það er svo sem ekkert sem dregur staðinn niður, hann er líka flókinn á Welcome India t.d. Þjónustan var hins vegar frekar óspennandi, stúlkan sem reyndi að afgreiða okkur var pirruð og óþolinmóð og það reyndist ótrúlega mikið flækjustig að ákvarða hve mörg vínglös átti að koma með á borð.

Maturinn sem við pöntuðum var alveg góður, og spennandi bragðflækjur en bragðið var bara ekki mikið. Ég get bara ekki komist hjá því að bera saman við Welcome India þar sem bragðið er svo ríkt og magnað og öll krydd vel merkjanleg.

Svo var þarna þetta kvöld magadansmær sem dúkkaði upp annað slagið og dansaði á milli borða. Ég veit ekki hvort það er þannig öll kvöld en einhvern veginn fannst manni þetta óþægilegt. Fáklædd ung kona að dilla sér…æ ég veit ekki með það.

Winebar nr55, lítið sætt ævintýri

Ég má til með að nefna þennan litla skemmtilega vínbar. Jafnvel þótt ég hafi ekki náð að borða þarna þá tek ég hann með hér í upptalningunni af því að ég heillaðist dálítið af sögunni.

Staðurinn er pínulítill, eiginlega bara hola í vegg. Eigendurnir eru þau Roxanne frá Danmörku og Leandro frá Ítalíu. Já ég verð að viðurkenna að ég fékk pínu útrás að spjalla við Roxanne á dönsku en það var mjög erfitt að ræða við Leandro hins vegar því hann er ekki sá færasti í enskunni, og hann viðurkennir það alveg. Ég skildi bara svona 55% af því sem hann sagði en það var allt í lagi, handahreyfingar og íslítalska virkaði alveg og hann kann vel á vínin sem þau bjóða uppá en þau hjónin flytja inn mörg af vínunum sjálf. Bæði ítölsk og spænsk rauðvín og þó þau séu með franciacorta á boðstólum þá eru þau líka mjög stolt af prosecco víninu sem þau eru með. Við Leandro áttum gott spjall um prosecco en það er freyðivín sem ég forðast eins og heitan eldinn enda hef ég ekki til þessa fundið prosecco sem hægt er að drekka.

Leandro var sannfærður um að ég myndi elska þetta ákveðna prosecco og ég viðurkenni það að eftir að hafa hlustað á hann tala af mikilli innlifun um þennan vínbónda og framleiðsluna þá var ég orðinn smá spenntur. Ég náði þó aldrei að koma aftur í 3. Sinn til að klára þessa pælingu en ég á það bara inni. Öll rauðvínin sem þau hjónin mæltu með fyrir okkur voru alveg spot on, mjög flott vín og auðvitað hægt að taka með heim á hótel ef maður vill.

En ævintýrið, ja Roxanne tjáði mér að hún hafi fyrir einhverjum mánuðum (eða árum) verið hér í fríi á Tenerife og líkað það svo vel að hún framlengdi ferðinni og ákvað svo að setjast hér að. Hún flaug heim til Danmerkur, pakkaði öllu sínu saman og seldi íbúðina og flutti svo hingað á Tene. Hún hitti svo ítalska sjarminn, Leandro hér á ströndinni og þau enduðu svo saman. Ákváðu að opna þennan vínbar hér sem varð loks að veruleika fyrir 4 vikum síðan. Já, skemmtilegt.

Endilega skoðið þennan stað ef ykkur vantar gott vín í kropp og eitthvað nasl. Ég get vel mælt með Fontezoppa Pepato sem er mjúkt og létt með ögn piparkeim, svo er það Torre Orti Valpolicella Ripasso sem er þétt og braðmikið vín með skemmtilegan karakter.

Char í La Caleta

Já svo er það Char. Þessi er líklega sá fínasti og dýrasti sem við fórum á í ferðinni. Gríðarlega vinsæll greinilega því við reyndum tvisvar að droppa inn en það var ekki séns. Svo náðum við að panta borð og á meðan við vorum þarna var alltaf einhver að kanna hvort væri laust. Á siðunni þeirra er dress code þannig að ég mætti í skyrtu, vesti og síðum buxum en ég var algerlega að örmagnast úr hita. Náði samt að klæða mig úr einhverju. Tók svo eftir að fólk var bara í stullum og bol þarna inni ekkert mál. En það er gaman að vera fínn.

Þetta er lítill staður, opið eldhús sem mér finnst alltaf jákvætt, ekkert að fela. Lyktin dásamleg, grillað kjöt og alls konar. Í glerskáp við eldhúsið má sjá svakalega flottar hangandi steikur, fitusprengdar og safaríkar. Ég veit reyndar ekki hvort þetta sé bara mont eða hvort maður geti valið steikina sína þarna? Þjónustan óaðfinnanleg, á Michelin leveli finnst mér. Maturinn passaði líka við allt þetta. Ég sá á matseðlinum minn uppáhalds rétt, ef hægt er að segja það en ég hef bara smakkað einu sinni áður, kongakrabba (king crab). Ég lét það samt ekki eftir mér að þessu sinni því þetta er eitt af þessum allra dýrustu hráefnum, einnig er hægt að fá wagyu hamborgara og reyndar alls konar wagyu steikur ef maður vill klára yfirdráttinn fljótt og rugglega.

Ég elska þegar maður fær svona óvænt smakk frá kokkinum í byrjun, eitthvað skrítið og spennandi en gott. Viti menn, við fengum einmitt svoleiðis, þeytta eggjarauðu með einhvers konar lauksmjöri. Mjög skemmtilegt. Kemur manni einhvern veginn í gírinn.

Við Sigrún dæmum dálítið staðina eftir hvort og þá hvernig brauð er boðið uppá í upphafi. Það segir okkur kannski meira við hverju við eigum að búast með rest. Við köllum þetta brauðtestið, ef brauðið er vont eða bara svona la la þá er yfirleitt restin af matseðlinum í þeim dúr. Char stóðst svo sannarlega brauðtestið, brauðið var nýbakað, lungnamjúkt að innan en stökkt að utan og svo kom með þessu tvenns konar smjör, eitt gert úr fiturönd af wagyu kjöti en það var geggjað. Hitt var eitthvað reykt og brúnað smjör, svakalegt. Svo kom geggjuð ólífuolía með, salt og heimalagað vinaigrette.

Það sem við borðuðum var algerlega frábært, nauta carpaccioið, galacian carpaccio goya gjörsamlega bráðnaði í munni. Svo prófuðum við grillaða eggaldinið með reyktum osti, tahini myntu sósu og ferskum límónusafa. Geggjað. Í aðalrétt vorum við öll þrjú frekar samstíga, ég fékk mér grillað Angus filet 250g á meðan Sigrún og dóttir mín fengu sér sama nema 180g. Steikur. Svo völdum við sósu og meðlæti sem var geggjað.

Þessi staður fær okkar bestu meðmæli en maður verður samt að vera búin undir það að eyða smá pening þarna.

La Caleta

Fyrir mér hefur Tenerife alltaf verið menningarsnautt gervisamfélag sem smíðað er fyrir túrismann. Maður sér bara hótel, bari, veitingahús, endalausar búðir sem selja bara sund varning og annað drasl. Allt sem maður kaupir hér er eiginlega bara einnota. Svo rambaði ég inn í Caleta. Hér er allt önnur stemning, virkilega huggulegt svæði í kringum litla vík sem er umlukin sætum veitingahúsum. Mér fannst ég vera kominn á Krít þegar við röltum þarna um fyrst. Þrír af ofantöldum veitingastöðum eru í La Caleta.

Við vorum fyrstu vikuna á íbúðarhóteli á Adeje, vel staðsett þannig, við vorum bara 3 mín að rölta niður á strönd og í lætin, alla pöbbana og lágkúrulegu veitingastaðina þar sem matseðillinn er blásinn upp með myndum af öllum réttunum og það er fólk fyrir utan að reyna veiða mann inn. Seinni hluta ferðar bókuðum við hótel eiginlega við La Caleta sem var frábært, mun rólegra umhverfi og einhvern veginn meira ekta. Ég mun klárlega vera á svipuðum slóðum í næstu ferð enda frábært að geta bara rölt á Rosso Sul Mare t.d. eða Char. Svo eru án efa fleiri flottir staðir þarna sem á eftir að uppgötva.

Hlakka til næstu ferðar svei mér þá!

Ekta Frönsk Lauksúpa með gómsætu kampavíni

Ég hef látið mig dreyma um franska lauksúpu síðan ég fékk þetta í París fyrir nokkrum árum síðan. Fyrir einhverja kann þetta að hljóma undarlega, lauksúpa! Já þannig er það bara, þetta er geggjað. Ég var reyndar pínu stressaður, mögulega var það bara umgjörðin og stemningin sem hreif mig á sínum tíma. Franskt kaffihús, 28 stiga hiti og sól, ísköld Gul Ekkja (kampavín) og dásamleg eiginkona. Allt verður gott við þessar aðstæður ekki satt?
Ég hef reynt að fá að elda þetta heima síðustu árin en konan mín hefur alltaf skotið það niður bæði vegna þess að börnin myndu sennilega ekki borða þetta og svo gæti þetta farið illa í maga. En loksins fékk ég grænt ljós um daginn. Ég fann uppskrift sem mér leist vel á og henti í þetta. Vá, svakalega gott…nú er næsta verkefni að fá að gera þetta aftur sem fyrst.

Það sem þarf fyrir 4

  • 70 g smjör
  • Ólífuolía til steikingar
  • 1 kg laukur, skornir í tvent og svo í þunnar sneiðar
  • 2 tsk sykur
  • 4 hvitlauksgeirar, skornir í þunnar sneiðar
  • 2 mtsk hveiti
  • 300 ml þurrt hvítvín
  • Um 1 L heitt mjög bragðmikið nautasoð
  • Súrdeigs eða venjulegt baguette skorið í snittur
  • 200 g gruyére ostur eða bara einhver bragðmikill ostur sem þið haldið uppá

Aðferð

Bræðið smjörið með ólífuolíu (ca 1 mtsk eða svo) á stórri pönnu. Skerið laukinn (1 kg) og látið malla undir loki í 10 mínútur þar til orðið mjúkt. Stráið svo sykrinum yfir og hrærið saman. Eldið áfram í amk 20 mín, Passa samt að brenni ekki. Hrærið stöðugt í þessu þar til laukurinn er orðinn “karmellaður”.

bætið útá pönnuna þunnu hvítlauks sneiðunum (4 hvítlauksgeirar) rétt í lokin og mýkið örlítið áfram. Dreifið svo 2 mtsk hveiti yfir og hrærið vel saman.

Hækkið nú hitann og hrærið áfram meðan þið hægt og rólega bætið um 300ml hvítvíni samanvið. Svo er það nautasoðið. Látið svo malla í 15-20 mín undir loki.

Skerið baguette niður í snittustærð. Ristið á pönnu í smjöri. Þar til orðið golden. Setjið lauksúpuna í eldfastar skálar og tvö snittubrauð í hverja skál. Rífið svo ostinn yfir, helling af osti, á að vera smá haugur alveg. Setjið inn í ofn við 200 gráður þar til osturinn hefur bráðnað. Berið fram, flott að rífa smá steinselju yfir eða graslauk til skrauts.

Það má líka bara grilla brauðið sér í ofninum með ostinum yfir og bæta brauðinu svo út í súpuna þegar hún er sett á borð.

Njótið með ísköldu kampavíni, helst Gulu Ekkjuna til að ná sömu stemningunni og var þarna í París um árið 🙂

Kjúklinga Saltimbocca

Stundum má gera einfalda rétti, sérstaklega þegar útkoman er svona gómsæt. Þessa uppskrift fundum við á Vínotek fyrir löngu síðan og höfum við stuðst nokkurn vegin við hana, síðan.

Það sem þarf fyrir 4

  • 3-4 kjúklingabringur
  • 3 pakkar af parmaskinku
  • 8 stk fersk salvíublöð
  • Hveiti
  • Salt og pipar
  • 3 dl þurrt hvítvín
  • Kjúklingasoð
  • 100 g smjör, kalt í litlum kubbum

Aðferð

Skerið kjúklingabringurnar eftir endilöngu og opnið þær eins og bók. Ekki skera alveg yfir því þá skemmum við bókina. Leggið kjúklinginn svo á smjörpappír og setjið aðra örk yfir og fletjið aðeins út með þungu kefli. Saltið og piprið, leggið tvö salvíublöð á hverja bringu. Setjið svo 2-3 sneiðar af parmaskinku yfir hverja bringu. Loks leikið þið sama leikinn og berjið bringurnar aftur á milli sjörpappírsarka með kefli þannig að þær verði örþunnar og skinkan merst inn í kjötið.

Setjið hveiti í skál og veltið bringunum upp úr hveitinu.

Steikið svo bringurnar í smjöri og olíu, fyrst með skinkuhliðinni niður svo á hinni hliðinni. 2-3 mín á hvorri hlið. Bætið við smjöri og smá olíu ef þarf. Setjið svo bringurnar í eldfast mót og bakið í ofni við 200 gráður. Ekki þrífa pönnuna.

Gerið svo sósuna á meðan kjötið er í ofninum. Hún er sára einföld. Notið pönnuna sem þið voruð með fyrir bringurnar. Bætið út á hana amk 3 dl hvítvín, ég enda oftast í rúmlega. Um mtsk bragðmikið kjúklingasoð líka og nokkur fersk salvíublöð. Látið sjóða niður til ca helminga. Bætið þá nokkrum köldum smjörteningum útí og hrærið. Smakkið til með salti og pipar.

Berið fram kjúklingabringur með kartöflumús t.d. og hellið sósunni yfir.

Njótið með kraftmiklu rauðvíni eða góðu eikuðu hvítvíni