Blog

Bragðmikil Tómatsúpa með steiktri Ostasamloku

Þessi súpa er í miklu uppáhaldi hjá börnunum okkar enda er hún geggjuð.  Bragðmikil og mettandi og afar einföld í framkvæmd!  Pönnusteiktu ostasamlokurnar fullkomna máltíðina. Þessa er gott að grípa í þegar maður veit ekkert hvað á að elda. Fínt að eiga alltaf nokkrar dósir af mutti tómötum inní skáp.

Það sem þarf fyrir 4

  • 3 dósir Mutti tómatar (heilir), maukað í blandara
  • 3 mtsk tómatpúrra
  • 1 L nautasoð, má vera kjúklinga eða grænmetis
  • 300 ml eða meira
  • Salt og pipar
  • Súrdeigsbrauð í sneiðum
  • Ostur, t.d. Tindur og Hávarður
  • Hunangs dijon sinnep
  • Majones til að pennsla brauðið
  • Fersk basillika
  • Góð ólífuolía

Aðferð

Maukið tómatana í blandara (3 dósir), gerið 1L nautasoð og blandið saman í pott. Bætið við 3 mtsk tómatpúrru samanvið. Látið malla á meðalhita í dágóða stund. Hrærið í annað slagið. Bætið salt og pipar saman við og smakkið til. Þetta mallar í amk klukkustund. Bætið svo rjóma saman við undir lokin, 300ml til 500ml. Þið finnið þá áferð sem þið viljið. Látið malla áfram á meðan þið græjið brauðin.

Súrdeigsbrauðið er penslað með hunangs dijon sinnepi, setjið svo ostinn á brauðið, slatta sko og gerið samlokur. Penslið svo úthliðarnar með majonesi. Steikjið samlokurnar á pönnu á báðum hliðum í ólífuolíu þangað til osturinn er bráðnaður. Skerið svo hverja samloku til helminga og berið fram með súpunni.

Ausið súpunni í skálar, dreypið nokkrum ólífuolíudropun yfir og skreytið með basilliku. Berið fram með ostasamlokunum til að dýfa í súpuna.


Philly Cheesesteak, rib-eye steikarsamloka

Ég hef einu sinni smakkað það sem menn kalla philly cheesesteak í Bandaríkjunum en það er nautasteik og ostur ásamt steiktu grænmeti borið fram á ristuðu langbrauði. Þessi samsetning er ættuð frá Philadelphia USA og má kannski segja að sé forveri eða fyrirmynd Hlöllabátanna? Ég veit ekki en þetta minnir mikið á minn uppáhalds Hlölla, Sýslumanninn! Alla vega, sonur minn spurði mig um daginn hvernig philly steik bragðast, hann langaði að smakka og þar sem það er mjög langt að ferðast til Philadelphiu þá ákvað ég að skoða uppskriftir og henda saman í þetta. Ég var staddur í bústaðnum okkar og því með takmarkaða vinnuaðstöðu en þetta gekk og var hrikalega gott.

Við Sigrún höfum gaman að því að finna drykki sem passa vel við matinn okkar. Paranir þar sem drykkurinn bætir við eða upphefur matinn og líka öfugt, það er ótrúlega gaman að upplifa þetta. Að þessu sinni sáum við fyrir okkur öflugan IPA með sinni humlabeiskju og bit en jafnframt sætu. Úlfur Úlfur er frábær double IPA frá Borg Brugghús en hann paraðist fullkomlega við þennan rétt.

Það sem þarf fyrir 5

Kjötið og osturinn er í aðalhlutverki hér og því þarf að velja gott hráefni. Ég náði mér í tvær fallegar rib-eye steikur en það má samt nota annað kjöt svo lengi sem það er fitusprengt og djúsí. T.d. Chuck flap steik, ég hefði notað hana en hún var ekki til hjá Sælkerabúðinni þar sem ég kaupi allt mitt kjöt.

Sonur minn valdi ostinn, Hávarður sem er flottur havarti ostur og svo völdum við góðan þroskaðan cheddar ost fyrir bechamel ostasósuna. Svo er það brauðið, ég veit ekki hvernig brauð er best í þetta en ég notaði Hlöllabrauð en það fæst í Nettó, stundum!

  • Gott kjöt, ca 720 grömm
  • Havarti ostur, ég notaði vel rúmlega hálft stykki
  • Cheddar fyrir sósuna
  • Paprikur, 2 stk.
  • Laukur, 1 stór skorinn í sneiðar
  • Hlöllabrauð, 5 stk ristuð í ofni
  • Sveppir, sneiddir og steiktir. Er ekki klassískt á philly steik samt
  • Smjör, hveiti, salt og pipar. Önnur krydd að vild

Aðferðin

Ok, nú verða kjötvinir kannski smá sárir en ég byrjaði á að setja steikurnar inn í frysti. Já því það þarf að skera það niður í örþunnar sneiðar og það er best gert með kaldar steikur. Passa að frysta samt ekki steikurnar.

Á meðan steikurnar eru í frystinum er fínt að græja grænmetið. Sneiðið papríkurnar og laukinn og auðvitað sveppina ef þið eruð með þá. Mýkjið papríku og lauk á pönnu í ólífuolíu, ég nota alltaf smjör líka, það verður bara betra þannig. Salt og pipar og annað krydd að vild. Ég var með ferskt rósmarín sem ég skar smátt. Látið þetta malla. Sveppina steiki ég sér í miklu smjöri, salt og pipar, smá estragon og svo er alltaf gott að nota eitthvað áfengi eins og púrtvín til að poppa þetta upp.

Ekki gleyma kjötinu, tékkið á því, þegar það er orðið vel kalt og stíft finnið þið hárbeittan hníf og skerið steikurnar í þunnar sneiðar, eins þunnt og þið getið. Trimmið samt fitu og sinar af fyrst. Saltið og piprið kjötið og látið standa þar til allt er klárt.

Gerið bechamel ostasósuna. 50g smjör sett í pott og látið bráðna, bætið svo 50 g hveiti samanvið og hrærið, látið malla aðeins, svo þarf að þynna þetta með mjólk þannig að þetta verði kannski eins og súrmjólk, salt og pipar eftir smekk, smakkið til. Bætið svo rifnum osti samanvið, t.d. Cheddar eða eitthvað annað spennandi. Ca 100 – 150 g ostur en þið bara smakkið það til. Látið ostinn bráðna vel saman við, þynnið þetta með mjólk eða vatni. Smakkið til með salti. Leggið til hliðar.

Nú er allt klárt fyrir kjötið. Hitið ofn í 180 gráður, verið tilbúin með brauðið, það má ekki fara of fljótt inn í ofn svo það brenni ekki. Nú er það spurning með pláss. Ég gat bara gert tvo skammta af kjöti í einu en ef þið eruð með stærri pönnu þá gerið þið meira í einu. Ég skipti kjötinu í 5 skammta, sama með papríkuna og laukinn. Svo er það bara olía á pönnu, stillið á meðal til háan hita. Skellið kjötinu á, þetta tekur mjög stuttan tíma. Ekki ofelda. Ágætt að henda brauðinu inn í ofn núna.

Steikið kjötið í ca mínútu, hrærið svo í því aðeins og bætið grænmetinu ofan á, lækkið hitann eða takið pönnuna aðeins af. Blandið kjöti og grænmetinu saman. Skellið ostinum á, margar sneiðar, þetta er ostasteik. Þegar osturinn er bráðnaður þá blandið þið öllu saman. Setjið pönnuna á hita ef þarf en ekki hafa þetta of lengi á hitanum. Í raun bara á meðan osturinn er að bráðna inn í blönduna. Það má krækja í einn kjötbita til að smakka og kanna ástandið.

Takið brauðin út og skammtið ostakjötblöndunni á hvert brauð. Ekki gleyma sveppunum. Setjið svo bechamel ostasósuna yfir og berið fram með góðum double IPA já eða bara ísköldu kók glasi!

Það má svo auðvitað bæta þetta stökkt kál, tómata eða eitthvað annað ef maður vill en þá er maður kominn út fyrir conceptið philly cheesesteak!

Dukkah lambalæri á kebab vísu

Mér finnst lambalæri fínn matur en dálítið óspennandi. Um daginn þegar ég var að bíða eftir útkalli á vaktinni rak ég augun í þessa aðferð. Þetta var einhver þáttur með meistara Jamie Oliver sem fjallar um góðan mat með fáum hráefnum og sem hægt er að gera á nokkrum mínútum. Mér leist svo vel á þetta að ég ákvað að prófa. Hann seldi mér þetta eiginlega með dukkah dæminu en það er kryddblanda ættuð frá Egyptalandi og sem inniheldur alls konar krydd á borð við kóríanderfræ, fennel, herslihnetur ofl.

Ég fékk svo gefins smá bjór um daginn frá Borg Brugghús og datt í hug að prófa að para við lambið. Garún imperial stout vissi ég að kæmi vel út með svona ofngrilluðu lambakjöti en mér fannst spennandi að sjá hvernig Úlfur Úlfur kæmi út, double IPA, sætur en þróttmikill með mikla beiskju. Venjulega nota ég belgískan tripel eða blond með lambakjöti en það væri líka alveg fullkomin pörun hér, t.d. Westmalle Tripel. En nóg um það, sjáum hvernig þetta gekk!

En alla vega, þetta var í raun furðu fljótlegt að gera og kom svakalega vel út. Vertu samt viðbúin smá subbi og hafðu bréfþurrkur við hendina. Þetta er í raun svona street food!!!

Það sem þarf í þetta

  • Lambalæri með beini, ekki kryddað. Stærð fer eftir fjölda í mat
  • Dukkah kryddblanda. Herslihnetur saxaðar, kóríanderfræ, fennelfræ, kúmen og sesamfræ, smá salt. Hlutföll, ca sama magn af öllu
  • Eggaldin, 3-4 stk, ég var með 3, fyrir 4 persónur
  • Hvítlaukur 2 heilir skornir til helminga
  • Fersk mynta, heilt búnt
  • Fersk steinselja, heilt búnt
  • Pæklaður chilli eða jalapeno í krukku. 10 til 15 stk
  • Fetaostur, um 150g
  • Hvítlauksgeirar, 3 -4
  • Rauðvínsedik, 2-3 mtsk
  • Olífuolía, 2-3 mtsk
  • Naan brauð, heimagert eða t.d. Stonefire brauðin í Bónus.
  • Hlynsíróp, 3 mtsk
  • Lamba eða nautakraftur, 1 teningur
  • Bjórinn með

Aðferð

Byrjið á að gera Dukkah ef þið eigið það ekki til. Saxið herslihnetur smátt, blandið saman kóríanderfræum, sesamfræum, kúmen og fennel í stórt mortél. Hlutföllin hjá mér voru nokkurn veginn allt í sama magni, ég hafði reyndar heldur meira af herslihnetunum miðað við rest. Steytið þetta saman. Setjið smá salt og pipar með.

Notið svo ca 60 g af þessari blöndu, setjið í mortélið aftur, 3-4 hvítlauksgeirar, merjið það saman við dukkah, bætið svo 2-3 mtsk rauðvínsediki og 2-3 mtsk ólífuolíu saman við og steytið áfram þar til þið eruð komin með þykka marineringu. Allt í lagi að smakka þetta aðeins til, bæta við hvítlauk ef þarf eða salt og pipar.

Takið fram lambalærið, skerið rákir í lærið, þvert á stefnu beinsins. Skerið alveg inn að beininu með 2 cm millibili. Gerið eins á hinni hliðinni. Smyrjið svo marineringunni á lærið og látið það fara ofan í alla skurðina líka. Takið fram eggaldin (3-4 stk) og stingið gat á þau svo þau springi ekki í ofninum. Setjið í djúpa ofnskúffu eða bakka, takið fram hvítlaukinn (2 heila) og skerið í tvennt og setjið inn á milli eggaldinanna með skurðsárið upp.

Stillið ofninn á 240 gráður, setjið lærið á ofngrind inn í ofn, setjið svo bakkann með eggaldinu og hvítlauknum fyrir neðan lærið. Þannig rignir safinn úr kjötinu yfir eggaldinið og hvítlaukinn þegar þetta bakast. Þetta tekur um 45 mínútur. Það mætti líklega hafa ofninn í 200 gráðum og elda þá lengur. Þannig kemur meiri safi í bakkann. Við viljum safann.

Á meðan lærið er í ofninum gerum við fetaostasósuna. Setjið um 150 g fetaost í mortélið, steytið og maukið þetta, bæti svo við safanum úr fetaostaumbúðunum, ef það er enginn safi þá notið þið bara vatn. Slettið líka smá vökva af chilli eða jalapeno saman við. Steytið þar til verður eins og þunnfljótandi sósa. Bætið vatni við þar til þetta er orðið ásættanlegt. Í lokin blandið þið svo smá olífuolíu saman við.

Þegar lærið er tilbúið þá takið þið eggaldinið og hvítlaukinn úr skúffunni. Leggið lærið til hliðar undir álpappír. Nú er það soðið í bakkanum. Hellið heilli flösku af Garún eða öðrum imperial stout yfir og reynið að losa upp það sem er fast í botninn. Fínt að henda þessu aðeins í ofninn aftur til að leysa allt upp. Hellið svo yfir í pott og komið upp suðu. Allt í lagi að bullsjóða. Bætið 3 mtsk hlynsírópi saman við, einn tening af lamba eða nautakrafti. Lækkið svo hitann og látið malla.

Takið eggaldinin og skerið endana af, skerið svo eftir endilöngu til að opna. Kreistið hvítlaukinn úr hýðinu og skerið þetta svo smátt. Slatti af salti og pipar yfir. Blandið svo myntunni og steinselju saman við og saxið áfram. Blandið öllu saman, dreifið úr þessu á fallegt trébretti, leggið lambalærið ofan á þetta. Raðið chilli eða jalapeno eftir smekk í kring og drussið yfir smá af fetasósunni.

Berið allt á borð, lambið á brettinu, fetaostasósuna í skál og svo soðsósuna í aðra skál eða könnu. Hitið naanbrauðin í ofninum og svo er bara að hóa í mat. Það kemur helvíti vel út að gera þetta svona. Þegar allir eru sestir til borðs finnur þú beittasta hnífinn í skúffunni, reisir lærið á rönt með legginn upp og svo eins og kebab skerðu kjötið niður í þunnar sneiða eða bita, alveg svo inn að beini. Svo raðar hver og einn í brauðið sitt, lambakjöti, eggaldin/hvítlauks salatið, fetaostasósu og soðsósu. Geggjað.

Pörunin

Eins og ég sagði í upphafi þá er belgískur tripel eða blond frábær með svona lambalæri en mig langaði að prófa annað. Garún kom ofsalega vel út, mikill og þéttur með nokkra beiskju sem vinnur vel með fitunni í lambinu. Það er einnig mikil rist og kaffikeimur sem tengir vel við karmeliseringuna á lærinu. Það er einnig nokkur sæta í þessum bjór sem er velkomin á móti öllum kryddunum og kemur vel út á móti fetasósunni. Loks kemur Garún vel fram í soðsósunni sem vissulega er skemmtileg tenging.

Úlfur Úlfur var líka skemmtilegur, hann fór í allt aðra átt. Mikil réttinn alveg upp á gátt, hreinsar fituna af gómbogum og gerir allt klárt fyrir næsta bita. Sítrusinn tengir vel við fetasósuna líka, súrt og beiskt gengur stundum vel saman. Bjórinn er líka sætur því það þarf mikinn sykur til að ná prósentunni upp í 9%. Sætan hjálpar til að létta á þungu jörðinni í eggaldin/hvítlauks salatinu en bjórinn er í heild sinni kannski aðeins of öflugur fyrir þennan rétt. Ég veit það ekki alveg samt, þarf að prófa aftur. En alla vega ég myndi klárlega fara í Garúnu með þessu til að vera öruggur. Við vorum t.d. öll með gott rauðvín í glasi en það gekk engan veginn með þessum mat.

Klístraðir kóreskir kjúklingavængir

Ég ætla nú ekki að taka neinn sérstakan heiður af þessari uppskrift, ég fór bara á netið og fann eitthvað. Þær eru nú samt allar frekar svipaðar. Ég fylgdi samt ekki uppskriftinni alveg og ég breytti aðeins hlutföllum. Útkoman var alveg mögnuð.

Það sem þarf fyrir 4-5

  • Kjúklingavængir, 3 bakkar
  • Stórt stykki af ferskum engifer, rifinn fínt
  • Maíshveiti, 100 g
  • Jurtaolía til steikingar
  • Sesam fræ og niðurskorinn vorlaukur

fyrir sósuna

  • Púðursykur, 12 mtsk
  • Soyasósa 5 mtsk
  • 5 mtsk gochujan eða kóresk chili pasta
  • 3-4 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • Lítill ferskur engifer biti, rifinn (stærð eftir smekk bara)
  • Sesamolía 4 tsk

Aðferð

Takið vængina og skerið krípí skrítna endann af sem líkist litla fingri af hverjum væng fyrir sig. Fargið þessum afskurði. Skerið svo vængina aftur í sundur við næstu liðamót þannig að þið endið með tvo bita úr hverjum væng.

Setjið vængina í stóra skál, saltið og piprið og blandið rifna engiferinu saman við. Veltið svo vængjunum uppúr maíshveitinu (um 100 g) þannig að það hjúpi vel vængina.

Komdu svo olíunni af stað í djúpsteikingapotti, ef þú átt það ekki er hægt að nota pönnu. En þá þarf olían að ná um 2 cm upp á hliðarnar.

Nú er ágætt að byrja á sósunni. Takið fram pönnu, stillið á meðalhita. Setjið 12 mtsk púðursykur, 5 mtsk soyasósu, 5 mtsk chili pasta, 4 tsk semsamolíu, rifna engiferið og 3 pressaða hvítlauksgeira á pönnuna. Blandið vel saman og látið malla.

Svo er það steikingin. Djúpsteikið kjúklinginn á 190 gráður í ca 11 mínotur. Takið stöðuna á einum bita, mögulega þarf 12-13 mín. Ef þið eruð með pönnu þá steikið þið kjúklinginn í olíunni í um 4-6 mín og snúið svo bitunum og steikið í aðrar 4-6 mín.

Látið bitana kólna á eldhúsbréfi í um tvær mín. Nú ætti sósan að vera orðin dálítið eins og síróp. Veltið bitunum uppúr sósunni og setjið í skál. Skreytið með vorlauknum og sesamfræum og rífið þetta svo í ykkur. Notið puttana, anna er erfitt.

Með þessu þarf að vera einhver nettur, létt beiskur bjór, eins og pale ale eða amerískur IPA. Úlfur frá Borg er t.d. Svakalega næs með þessu!

Kartöflur, alls konar uppáhalds

Kartaflan er skemmtilegt grænmeti og ómissandi hluti í matarmenningu flestra þjóða. Kartaflan er í dag fjórða mikilvægasta uppskeran í heiminum á eftir hrísgrjónum, hveiti og maís. Mér finnst reyndar að byggið mætti vera ofar á lista þar sem það er jú undirstaða alls bjórs en það er bara ég.

Kartöflur eru gott meðlæti og oftast flottar soðnar bara, einfalt og gott en það er svo hægt að leika sér endalaust með þær og töfra fram dásamlega rétti. Stundum jafnvel stela kartöflurnar senunni og eru betri en sjálfur rétturinn sem þær eiga að bæta upp. Af og til dett ég niður á svona geggjaðan kartöflurétt en til þessa hef ég svo alltaf bara gleymt þessum réttum skömmu eftir að ég smakka eða elda. Nú langar mig að skrá þetta niður hér svo ég geti gripið í það þegar ég þarf. Ykkur er að sjálfsögðu frjálst að nota þetta líka 🙂

Ofnbakaðar kryddkartöflur að hætti Sigrúnar

Ég ætla að byrja á afar einföldum rétt, reyndar eru þessir réttir allir einfaldir ef út í það er farið. Þennan rétta lærði ég að gera af Sigrúnu minni sem er snillingur í eldhúsinu.

Litlar fallegar smælki kartöflur, eins nýjar og hægt er, helst nýupptekið. Það er þannig að nýrri kartöflur eru betri en eldri. Það þarf ekkert að skræla þessar. Skerið í tvennt og setjið í eldfast mót. Það er svo sem í lagi að nota bara venjulegar kartöflur, þá þarf að passa að skera þær í bita sem eru svipaðir að stærð.

Ólífuolía yfir, slatti, salt og pipar og ferskt timían og rósmarín. Svo er ofsalega gott að skera heilan hvítlauk í tvennt og setja með. Við setjum líka pressaðan hvítlauk yfir. En ofnbakaður heill hvítlaukur verður fáránlega góður og frábær með kartöflunum.

Þetta fer svo bara í ofninn við 200 gráður og bakað þangað til þær eru orðnar stökkar og dálítið krumpaðar. Gott að hræra í þessu annað slagið. Þetta er geggjað og mun slá í gegn.

Stökkt parmesan smælki í skírðu smjöri

Þessar eru alveg magnaðar. Aftur erum við með smælki. Nýrri betri en eldri. Ég held að Beta mágkona Sigrúnar hafi kennt okkur þetta á sínum tíma en man ekki alveg samt!

Við ætlum að gera skírt smjör (ghee) en það viljum við nota svo smjörið brenni ekki þegar við bökum kartöflurnar. Setjið ca 150g smjör í pott á móti 1 kg af smælki. Hitið smjörið á meðal hita í potti í ca 10 mín eða þar til það byrja að falla út gyltir/brúnir bitar og farið að myndast froða á yfirborðinu. Ef þið gerið óvart brúnt smjör þá er það bara allt í lagi, það er þá bara enn meiri karamella og hneta í bragði.

Finnið svo eitthvað ílát og búið til síu úr handþurku. Síið svo smjörið í gegn. Þið ættuð að fá tæran fallegan gulan vökva.

Nú skerið þið smælkið í tvent, hellið skírða smjörinu yfir ofnplötu. Magn smjörs ræðst að stærð plötunnar sem aftur ræðst af fjölda kartaflna. Hafið smjörið þannig að það rétt nái að hylja yfirborðið. Rífið svo parmesan yfir, slatta þannig að osturinn þeki alla plötuna algerlega, raðið þá kartöflunum yfir með sárið niður. Saltið svo yfir og smá timian líka, það er geggjað. Bakið loks í ofni við 200 gráður þar til kartöflurnar eru orðnar stökkar en mjúkar að innan. Þetta er alveg klukkutími! Ef osturinn virist hafa gufað upp sár meginn, ég hef nefnilega lent í því, þá má alveg snúa kartöflunum þannig að sárið snúi upp og bætið svo rifnum parmisan osti yfir og inn í ofninn í smá stund. Pínu svindl en samt betra en að henda kartöflunum.

Auðvitað hægt að krydda þetta að vild, t.d með rósmarín, oregano, timian eða hvað það nú er sem kætir ykkur.

Stökkar hjúpaðar parmesan kartöflur

Þessar eru alveg geggjaðar, ég held ég hafi smakkað þetta fyrst hjá nágranna okkar Björk Snorra!

Skrælið kartöflurnar og sjóðið í potti. Setjið ca 300 grömm hveiti í poka. Hér fer auðvitað eftir hve mikið af kartöflum þið eruð með. En við viljum að hveitið hjúpi vel kartöflurnar. Kryddið hveiti með salti og pipar og mikið af rifnum parmesan, ég hef líka prófað örlítið af reyktri papríku með, ofsa gott.

Slítið svo kartöflurnar til helminga með höndunum og setjið í pokann með hveitinu. Lokið pokanum og hrisstið vel þannig að kartöflurnar fái á sig hveitihjúp.

Setjið kartöflurnar í eldfast mót, setjið svo stórar smjörklípur yfir hér og þar og inn í ofn við 200 gráður. Fylgist með þessu í ofninum. Bætið smjörklípum ofan á ca einu sinni til tvisvar og látið bráðna niður. Þegar kartöflurnar eru orðnar stökkar og gullbrúnar þá er þetta klárt.

Rugl, þetta er dálítið eins og djúpsteikt en samt ekki!

Brakandi andafitu konfekt

Þessar kartöflur kenndi mér að gera Ragnar Freyr Ingavarsson, eða Læknirinn í eldhúsinu eins og hann kallar sig líka. Eins og með hinar uppskriftirnar þá er þetta frekar einfalt. Lykillinn hér er andafitan. Þú færð fituna t.d. í dós af Confit de Canard sem þú færð í Bónus eða Krónunni. Afgangs fitu frystið þið í poka þangað til næst.

Þetta er einfalt, svo einfalt reyndar að mig langar næstum til að semja eitthvað bull til að láta þetta hljóma flókið. En ég geri það ekki samt, við erum saman í þessu.

Sem sagt, skrælið kartöflur, sjóðið svo í vatni með smá salti í ca 7 mín. Ég gleymdi mér auðvitað og tók ekki tíman en þetta á ekki sjóða þar til þær eru tilbúnar.

Setjið svo slatta af hveiti í poka ásamt salti og pipar. Bara svona eftir höfðinu. Setjið svo kartöflurnar í pokann og hristið þannig að hveitið hjúpi kartöflurnar.

Setjið andafitu á pönnu og hitið upp, steikið svo kartöflurnar í fitunni á dálítið háum hita. Við erum ekkert að eltast við að brúna þær en gott að velta kartöflunum aðeins um þannig að það komi aðeins litur á þær og fitan hjúpi allar hliðar (auðvitað eru í raun ekki hliðar á kartöflum, þær eru hnettir en þið vitið hvað ég á við).

Hitið bakarofn í 180 gráður. Svo setjið þið pönnuna í ofninn ef pannan þolir það, annars er það bara að henda þessu í eldfast mót en látið fituna á pönnunni fylgja með. Bakið svo í ca 50 mínútur. Tékkið bara á kartöflunum, þegar þær eru orðnar stökkar og vel litaðar þá eru þær klárar (sjá mynd t.d.). Fólk á eftir að gapa yfir þessu hjá ykkur!

Groddaralega kartöflumúsin sem Máninn minn elskar

Ok kartöflumús er ekki bara kartöflumús. Hér læt ég eina uppskrift með sem sonur minn sem venjulega er ekkert fyrir kartöflur eða kartöflumús elskar. Enn aftur erum við með eins ferskar kartöflur og við finnum.

Við þurfum 1 kg nýjar kartöflur helst smælki , 100 til 150g íslenskt smjör, 1 dl rjóma ca. salt, ekki pipar og 1 dl rifinn parmesan ost

Sjóðið kartöflur með hýði í vel söltu vatni. Sigta mest allt vatnið frá. Stappa kartöflurnar með kartöflustappara. Bætið smjöri saman við og stappið vel saman við kartöflurnar. Bætið svo rjómanum saman við smám saman. Rjóminn er til viðmiðunnar, má vera meira eða minna. Passið bara að músin verði ekki of þunn. Salta eftir smekk og rífið svo parmesan ost í lokin. Þetta er ofsalega ljúffeng kartöflumús!

Kartöflu demantar drekktir í smjöri

Ég fékk þetta hjá félaga mínum og kollega Lækninum í Eldhúsinu fyrir skemmstu, þetta var alveg magnað, drengurinn var með minnir mig lambalundir og alls konar en ég bara man það ekki almennilega því kartöflurnar stálu senunni. Ég spurði Ragnar hvernig hann gerði þetta og hann sagði mér að þessar kartöflur hefðu aldrei komið svona vel út hjá honum áður. Hann var í raun ekki alveg viss hvað hann gerði öðruvísi þessu sinni.

Ég ákvað að láta á reyna og viti menn, þetta kom vel út, líklega með betri kartöflu meðlæti sem maður fær.

Fyrir þennan rétt er best að hafa stórar kartöflur, ekki þó bökunarkartöflur. Afhýðið kartöflurnar, skerið þær svo þannig að þær líti út eins og demantar, sem sagt þannig að þið fáið fram marga fleti á hverri kartöflu. Stærstu hliðarnar eiga að vera yfirborðið og undirlagið, svo skerið þið hliðarnar líka. Sjá mynd!

Skerið allar hliðar þannig að þið myndið eins konar demant.

Setjið kartöflurnar svo á pönnu ásamt heilmiklu smjöri, við erum að tala um amk 100g til að byrja með á pönnu sem er full af kartöflum. Ferskt timian og rósmarín með ásamt 5-6 hvítlauksgeirum.

Látið þetta malla á meðal hita, snúð þeim reglulega þannig að allar hliðarnar brúnist, já smá dútl. Bætið smjöri á pönnuna, kartöflurnar sjúga í sig smjörið, við viljum hafa nóg. Þegar allar hliðar eru brúnaðar þá búið þið til kjúklingasoð og hellið yfir kartöflurnar þannig að það næstum flýtur yfir kartöflurnar. Hér kemur smá twist.

Skv Ragnari á að setja þetta inn í ofn svona, bæta smjöri yfir og baka þangað til vökvinn er uppurinn. Ég gerði þetta svona en mér fannst kartöflurnar ekki verða stökkar eins og hjá Ragnari en þær voru svakalega góðar. Þetta voru munnleg fyrirmæli og mögulega misskildi ég eitthvað?

Ég ætla þó næst að gera þetta svona. ATH hef vissulega ekki prófað sjálfur að gera þetta svona. Sjóðið kjúklingasoðið alveg niður, bætið svo slatta af smjöri yfir, 2-3 hvítlauksgeira og bakið við 200 gráður í ofni þangað til kartöflurnar eru orðnar stökkar og fallegar.

Fylltar bakaðar bacon kartöflur

Þessar eru dásamlegar með t.d. góðri steik. Við duttum fyrst inn á þetta frá Kjötkompaníinu en þessar kartöflur kosta ansi mikið þar og því fórum við í tilraunir heima eins og svo oft áður. Viti menn, við erum komin með jafn ef ekki betri kartöflur fyrir mun minni kostnað,
Finnið til myndarlegar bökunarkartöflur, bakið þær í ofni við 200 gráður þar til þær eru orðnar bakaðar. Við notum 4 kartöflur fyrir 6 manneskjur.

Skerið skallottulauk og hvítlauk smátt og mýkið á pönnu í smjöri. Magnið fer eftir smekk og magn af kartöflum. Takið laukinn af pönnunni en ekki skola pönnuna. Steikið bacon á sömu pönnu þar til orðið stökkt. Skerið svo baconið smátt og setjið til hliðar. Takið kartöflurnar út úr ofni skerið til helminga og skafið kartöflurnar innan úr hýðinu en passið að gera ekki gat á hýðið. Geymið hýðið. ATH við náum ekki að fylla öll hýðin því vi viljum kúffylla hýðin.

Stappið kartöflurnar í smjöri, mikið af smjöri, blandið við bacon, lauk og hvítlauk á pönnunni. Rífið heilan hvítlauksost yfir og kryddið með salt og pipar. Blandið þessu saman. Þynnið með rjómaosti og smá rjóma ef þarf. Við notuðum ca 1/2 til heilan dl rjóma og tvær kúfaðar mtsk rjómaost á 4 kartöflur. Fyllið svo aftur hýðin með “kartöflustöppunni”, rífið rest af hvítlauksostinum yfir eða einhvern annan ost og kryddið með smá reyktri papríku. Setjið svo inn í ofn aftur til að hita aðeins upp og bræða ostinn. Berið svo fram. Svakalega gott með góðri ribbeye steik t.d.

Kúffyllið hýðin, athugið að það verður ca einn hýðishelmingur afgangs! Bakið svo aftur til að hita þetta upp og bræða ost.

Ég er að safna svona kartöflu töfrum, ef þið lumið á einhverju geggjuðu þá endilega sendið á mig línu og ég prófa!

Ítölsk geitaostaeðla með ristuðu súrdeigsbrauði, endurfundir

Ég veit ekki hvað skal kalla þennan rétt, þetta er eins konar marinara geitaostadýfa eða einfaldlega “feelgood” ítölsk geitaostaeðla? Alla vega það er smá saga á bak við þessa uppskrift. Við Sigrún höfum farið nokkrum sinnum til New York en eins og fólk veit sem þangað hefur komið er gríðarlega mikið af veitingastöðum þar í borg og gæðin allt frá að vera mjög lítil yfir í 3 stjörnu Michelin staði. Það getur því verið dálítið snúið að finna góðan stað að borða á.
Við Sigrún römbuðum inn á lítinn skemmtilegan ítalskan stað þegar við vorum að þvælast þarna árið 2014, þetta var lítill og kósí eins konar vínbar þar sem veggir voru hlaðnir ítölskum vínflöskum af öllum stærðum og gerðum og girnilegum flöskum af ólífuolíum ýmis konar. Við fengum þarna frábær vín en líka rétt sem sat í okkur lengi á eftir. Þetta var selt sem forréttur, heit marinarasósa með geitaosti borið fram með ristuðu súrdeigsbrauði, alveg geggjað í minningunni. Við klikkuðum á að skrifa hjá okkur nafnið á staðnum sem voru mikil mistök.

Til að gera langa sögu aðeins styttri þá fundum við ekki þennan stað aftur þegar við leituðum á netinu eða í næstu heimsókn okkar til borgarinnar sem aldrei sefur. Ég flaug meira að segja um svæðið í Google Earth en fann ekki staðinn. Við vorum því ekkert að spá í þessum stað núna þegar við vorum í New York 8 árum síðar, við vorum bara búin að sætta okkur við að staðurinn hefði farið á hausinn. En okkur langaði í ítalsk og fórum því að leita á netinu og viti menn, þarna blasti allt í einu við staðurinn, Aria Winebar Hells Kitchen, með myndum og öllu. Bara poppar þarna inn allt í einu eftir alla þessa leit? Við vorum svo sannarlega glöð með þetta en pínu stressuð yfir að gæði staðarins væru meira tengt minninngunni um það sem var. Svo hefur smekkur og palletta líka þróast dálítið.

Án þess að lengja þetta frekar þá er skemmst frá því að segja að við vorum mjög ánægð með réttinn, reyndar svo mjög að við ákváðum að mastera þetta heima. Við prófuðum það svo þegar heim var komið og viti menn, þetta tókst það vel að við ákváðum að deila hér.

Það sem þarf (fyrir ca 4-5)

  • 2 dósir Mutti heilir tómatar í dós. (fæst í Krónunni) Maukað í höndunum eða með gaffli
  • Alveg lúkufylli af ferskri basillicu. Skorið mjög fínt
  • Parmesan ostur, rifinn mjög fínt
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Chavroux rjómageitaostur, alveg heil dól, ef ekki meira
  • Hvítlauksgeirar, nokkrir
  • Gott súrdeigsbrauð, niðursneitt

Aðferð

Maukið Mutti tómata með höndunum eða gaffli. blandið saman ferskri basilliku sem þið skerið niður fínt. Salt og pipar. Smakkið þetta bara til. Ég reif smá parmisan ost saman við, ca 2 mtsk eða svo.

Þegar þið eruð ánægð með útkomuna þá setjið þið þetta í eldfastar skálar eða mót. Setjið geitaostinn í miðjuna og svo bakið þið þetta í ofni, við 180 gráður þar til sósan er orðin heit og osturinn farinn að bráðna.

Á meðan þetta er í ofni, þá takið þið fram súrdeigsbrauðið, ristið á pönnu í smá smjöri eða í brauðrist bara. Skerið hvílauksgeira þannig að þið fáið sár og nuddið svo yfir brauðið

Takið tómatsósuna út, og skreytið með ferskum basilliku laufum. Rífið smá parmesan yfir og berið fram með ristuðu súrdeigsbrauði.

Þetta er einfaldlega geggjað með rauðvíni. Hef ekki reynt bjórinn með en það væri helst wild ale eða kannski belgískur tripel eða blond!

Parmaskinka með geitaostasósu á eldbakaðri pizzu

Já já pizzatilraunir halda áfram, það er bara svo gaman. Að þessu sinni er ég að prófa frábæran rétt sem reyndar er einn af vinsælustu réttunum á síðunni okkar. Parmaskinka með geitaostasósu á glóðuðu brauði, réttur sem er stolinn beint frá La Primavera. Þetta er borðleggjandi pizzaálegg!

Ef þið hafið ekki prófað þennan rétt nú þegar þá hvet ég ykkur til að gera það hið snarasta en hér er það pizzaútgáfan.

Það sem þarf

  • Gott pizzadeig, helst súrdeig, það er best
  • Rifinn parmesanostur
  • Hvítlauksolía
  • Heimagerð geitaostasósa, uppskrift hér
  • Góð parmaskinka
  • Fersk basillica
  • Góð ólífuolía

Aðferð

Byrjið á að gera geitaostasósuna, gerið helmingi minni uppskrift en í uppskriftinni. Fínt að þykkja hana svo aðeins með hveitibollu.

Fletjið út deigið, munið aldrei kökukefli. Dreifið hvítlauksolíu yfir botninn, hellingur af rifnum parmesan sem þið notið til að teppaleggja botninn, svo geitaostasósan yfir.

Inn í ofn. Þegar pizzan er bökuð þá hyljið þið hana með parmaskinku, má vera alveg gott lag af skinku. Hellingur af ferskri basillicu yfir og loks góð ólífuolía. Það má líka toppa með aðeins rifnum parmesan.

Berið fram og bíðið eftir hrósinu, njótið!

Magnað geitaostasalat með ristuðum pecanhnetum og fleira

Ég hélt ég væri löngu búinn að skrifa þessa uppskrift hér inn en rak bara augun í það í gær þegar ég var að skrifa um pizzatilraunir mínar að svo var ekk. Ég laga það hér með. Þetta salat er geggjað, jafnvel fyrir þá sem eru ekki mikið fyrir geitaost því osturinn hér er frekar látlaus.

Það sem þarf fyrir ca 4-5

  • Klettasalat, um það bil tveir pokar
  • Rauðrófur, forsoðnar. 2-3 stk, fer eftir stærð
  • Pecanhnetur, heill poki, bakaðar í ofni
  • Rjómageitaostur, Chavroux ein dós
  • Ólífuolía
  • Hunang
  • Salt og pipar
  • Timian og rósmarín
  • Chiliflögur
  • Jarðaber – ef maður vill
  • Pæklaður rauðlaukur – ef maður vill
  • Balsamic edic – ef maður vill

Aðferðin

Skerið rófurnar í grófa bita eftir smekk. Ekki sneiðar samt. Setjið í eldfast mót, veltið uppúr ólífuolíu og kryddið með salt og pipar, timian og rósmarín. Það er eiginlega möst að nota líka chiliflögur, fer eftir styrk þeirra hvað mikið en það má rífa aðeins í. Bakið þetta svo í ofni þar til komið er smá “crust”. Ef þið eruð ekki með forsoðnar þá þarf auðvitað lengri tíma.

Veltið pecanhnetunium, uppúr ólífuolíu og sömu kryddum. Sleppa hér chiliflögunum. Bakið í ofni, alveg í lokin takið þið hneturnar út og veltið uppúr hunangi og aftur inn í smá stund þannig að komi smá karamellu myndun á þetta.

Svo er bara að raða saman salatinu á fallegum disk eða stórri skál. Klettasalat, rauðrófubitar, geitaostaklessur og svo dreifa pecanhnetunum yfir. Loks ólífuolía yfir allt! Við höfum líka prófað að nota balsamic edik í staðinn fyrir ólífuolíu og koma það mjög vel út. Það er nefnilega eiginlega nauðsynlegt að fá smá sýru á móti allri þessari jörð.

Þetta var upphaflega útgáfan, svo má alveg leika sér áfram með þetta. Síðast þegar við gerðum þetta höfuðm við pæklaðan rauðlauk og jarðaber með. Þetta kom alveg svakalega vel út þannig og mun ég líklega halda mig við þá útgáfu í framtíðinni

Pizza tilraunir, nokkrar vel lukkaðar

Það eru flestir sammála mér að pizzur eru alltaf góður matur, eða oftast. Flestir elska pizzur. Maður getur samt fengið smá leið á að fá alltaf sama áleggið, ok segir ekki leið en það er gaman að prófa eitthvað nýtt! Undanfarið hef ég verið að skoða hvort ég geti breytt réttum sem ég elska yfir pizzu. Það jú hægt að setja hvað sem er á pizzuna, spurningin er bara hvort það komi vel út.

Hér er ég með nokkrar sem hafa komið ofsalega vel út. Endilega prófið og ef þið kunnið að meta mætti tagga mig einhvers staðar. Þið þurfið ekki að vera með pizzaofn, þó það sé best þá má ná góðum árangri með öðrum leiðum. Sjá nánar hér.

Geitaostasalat pizzan

Við erum mjög hrifin af geitaosti á þessum bæ, reyndar vil ég bara hafa hann mjög látlausan, ekki of mikla geit sem sagt. Geitaostasalatið okkar er geggjað og ég hvet ykkur til að prófa það við tækifæri. En hér er það sem sagt pizza útgáfan. Magnið af hverju hráefni fer bara eftir ykkar smekk.

Það sem þarf fyrir eina pizzu

  • Gott pizzadeig, ekkert miðlungs neitt hér
  • Hvítlauksolía í stað pizzasósu
  • Rjómasostur, nokkrar klessur
  • Geitarjómaostur, nokkrar klessur
  • Rifinn parmesan
  • Mozzarella, slitinn í smátt
  • Forsoðnar rauðrófur, nokkrar sneiðar
  • Döðlur, í bitum
  • Ristaðar pecanhnetur
  • Klettasalat
  • Hunang

Aðferðin

Byrjið að græja pecanhneturnar, setjið þær í lítið eldfast mót, veltið uppúr ólífuolíu, salti og pipar og svo ferskt timian. Ég nota líka smá chilliflögur en það þarf ekki. Ristið þetta í ofni og saxið svo hneturnar aðeins í smærri einingar. Fletjið svo út deigið, setjið hvítlauksolíuna yfir, ekki allt á floti samt. Rífið parmesanostinn yfir þetta, dreifið svo rjómaosta- og geitaostaklessum yfir allt. Raðið svo skífum af rauðrófum hér og þar, dreifið döðlubitunum yfir allt og loks mozzarella tægjum.

Inn í ofn. Þegar pizzan er klár, þá setjið þið helling af klettasalati yfir, stráið ristuðum pecanhnetum yfir og toppið svo með hunangi. Þetta er kreisí pizza! Njótið!!!

Suður amerísk “corn dip” ostapizza

Þessi er sprottin upp af geggjaðri mexikanskri maís ostadýfu sem ég mæli svo sannarlega með að þið prófið við tækifæri. Parast fáránlega vel með West Coast IPA. Bara að skrifa um þessa ostadýfu hér fær mig til að vilja hendast í að gera hana og njóta. En það má bíða betri tíma. En alla vega þessi dýfa er svo geggjuð að mig langaði til að láta hana skína á pizzu. Ég lét bara vaða og viti menn, “home run”. Rosaleg pizza, ég er mjög feginn að ég ákvað að prófa!

Það sem þarf fyrir eina pizzu (rúmlega reyndar)

  • Gott pizzadeig
  • 1 mtsk chili duft
  • 1 tsk reykt papríka
  • 1 tsk cayenne pipar
  • Hálfur laukur skorinn smátt
  • 3 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • 2 ferskir maískólfar
  • Salt og pipar
  • 80 g smjör
  • Rjómaostur eftir smekk
  • 1/2 bolli majones
  • 1 mtsk safi úr límónu
  • Ferskur kóríander
  • Rifinn parmesan, ca bolli
  • 1 dós Mutti tómatar (þetta dugar reyndar í rúmlega tvær pizzur)
  • Fersk basillika, ef þið eigið
  • Rifinn cheddar ostur
  • 1 kúla af MozzarellaNachos ostaflögur

Aðferðin

Blandið saman kryddunum, 1 mtsk chili duft, 1 tsk reykt paprika, 1 tsk cayenne pipar, salt, og má nota smá chili korn til að fá smá power í þetta. Græjið svo brúnt smjör, setjið 80 – 100g smjör í pott og látið malla þar til orðið brúnt og farið að freyða. Þið eigið líka að finna þessa notalegu hnetu karamellu lykt af smjörinu. Bætið þá alveg tsk af kryddblöndunni saman við og smá salt og leggið til hliðar.

Skerið hálfan lauk smátt og mýkið á pönnu í smjöri og olíu. Pressið svo 3 hvítlauksgeira og bætið á pönnuna. Takið utan af maískólfunum, skerið kornin af, þið eigið að vera með alveg bolla af kornum, ef þið eruð á hraðferð þá má nota maís í dós, en það er samt ekki eins magnað. Bætið þessu við laukinn og látið malla þar til maís er orðinn mjúkur. Bleytið í þessu með brúna smjörinu. Smakkið þetta svo til og kryddið eftir smekk.

Gerið svo pizzasósuna eins og þið eruð vön. Blandið saman 1/2 bolla af majonesi við 1 mtsk límónusafa og setjið í sprautuflösku. Fletjið út deigið. Dreifið pizzasósu yfir, ekkert of mikið samt. Slítið í sundur mozzarella og dreifið yfir, dreifið svo maísblöndunni yfir deigið líka. Magn fer eftir hvað deigið þolir, of blautt getur skapað vandræði, ég var með vel blautt álegg en gott deig svo það slapp vel. Rífið slatta af parmesan yfir þetta og loks rjómaostaklípur eftir smekk.

Eldið pizzuna eins og þið gerið venjulega, þar til álegg er bráðnað og botninn kominn með fallegt hlébarðamynstur. Takið pizzuna út, helling af ferskum kóríander yfir og loks sprautið þið límónumajonesinu yfir. Myljið loks Nachos flögur yfir og njótið. Flögurnar gera þetta stökkt og nett því þessi pizza er dálítið blaut og safarík annars.

Pizza Tómat Vinaigrette með ferskjum

Þetta er svo borðleggjandi, að breyta bruschetta í pizzu, afhverju ekki? Þetta er í raun bara það sama ekki satt? Þessi pizza er komin frá þessum rétti, bruschetta með kirsuberjatómata vinaigrette og ferskjum. Reynið að nota ferskar ferskjur ef hægt er, annars er það niðursoðnar í dós, kemur reyndar mjög vel út þannig.

Það sem þarf fyrir eina pizzu

  • Gott pizzadeig
  • Kirsuberjatómatar, ein askja
  • 1/4 bolli ólífuolía
  • 3 hvítlauksgeirar, smátt skornir
  • 2 mtsk ferskt timian
  • 1/2 tsk chiliflögur
  • 1/2 tsk sjávarsalt
  • Smá pipar
  • 1 mtsk hvítvínsedik
  • 1 mtsk balsamic edik
  • Mozzarellaostur, rifinn
  • Mozzarella, ferskur, slitinn í sundur
  • Basillica, fersk
  • Ferskjur, sneiddur í hæfilega stórar sneiðar
  • Balsamic krem

Aðferðin

Byrjum á vinaigrette, Setjið um 1/4 bolla ólífuolíu á pönnu, tómatana út á (1 askja), 1/2 tesk chiliflögur, 1/2 tsk sjávarsalt, smá pipar, 2 mtsk ferskt timian og 3 smátt skornir hvítlauksgeirar. Látið malla þar til tómatarnir eru farnir að opnast og maukast dálítið. Takið þá pönnuna af og látið kólna aðeins. Bætið svo 1mtsk balsamic edik og 1 mtsk hítvínsedik á pönnuna og blandið vel saman. Safnið þessu svo öllu saman í skál.

Græjið svo pizzuna, fletjið út deigið. Dreifið viniagrettinu yfir botninn, svo dreifið þið rifnum mozzarellaosti yfir allt. Inn í ofn með þetta. Þegar pizzan er fullelduð takið þið hana út, dreifið ferskum mozzarella yfir, raðið ferskjusneiðunum ofan á, svo slatta af ferskri basillicu og svo toppið þið þetta með balsamic crema. Þetta er bara svo geggjað!

Pizza Rosa, a la Binaco

Ok þessi er ekki frá mér en þessi fær að fljóta með af því að hún er bara svo mögnuð. Sjá nánar hér!

Suður amerísk corndip ostapizza

Pizza er mest borðaði matur á heimsvísu enda góður matur og möguleikarnir nánast endalausir þegar kemur að áleggi. Ég hef skrifað um pizzagerð áður og ætla ekki að kafa of mikið í það hér en það er þó mikilvægt að taka það fram að hráefnið sem þú notar er það allra mikilvægasta. Ef hráefnið er bara svona la la þá verður pizzan aldrei meira en það. Mér finnst deigið vera það mikilvægasta, það er svo stór hluti af pizzunni og þvi mikilvægt að gera gott deig eða kaupa gott tilbúið deig.

En svo er gaman að gera tilraunir, prófa eitthvað nýtt. Hér er ein sem ég gerði í vikunni, hún var geggjuð og mun ég klárlega gera hana aftur.

Það er gaman að gera pizzur sérstaklega þegar maður er búinn að koma sér upp góðum pizzaofni. Það eru nánast allir glaðir, alltaf þegar pizza er borin á borð. Ég nota pizzuna oft til að grisja úr ísskápnum, finn til það sem gæti gengið saman og hendi á pizzuna. Það er gott að eiga samt alltaf til Mutti tómata í dós en úr þeim má gera geggjaða pizzasósu, ekki nota tilbúna sósu það munar bara svo ofsalega miklu. Smá salt og pipar, kannski oregano og fersk basilica, hrærið þetta saman og ef þið eigið tómat púrré má nota það til að þykkja.

Ég kalla þessa suður amerísk corndip ostapizza því fyrirmyndin er Mexíkósk maís ostadýfa sem er algerlega mögnuð. Mig langaði að prófa að gera pizza útgáfu af þessari snilld og viti menn, “home run”.

Það sem þarf fyrir rúmlega 1 pizzu

  • 1 mtsk chili duft
  • 1 tsk reykt papríka
  • 1 tsk cayenne pipar
  • Hálfur laukur skorinn smátt
  • 3 hvítlauksgeirar, pressaðir
  • 2 ferskir maískólfar
  • Salt og pipar
  • 80 g smjör
  • Rjómaostur eftir smekk
  • 1/2 bolli majones
  • 1 mtsk safi úr límónu
  • Ferskur kóríander
  • Rifinn parmesan, ca bolli
  • 1 dós Mutti tómatar (þetta dugar reyndar í rúmlega tvær pizzur)
  • Fersk basillika, ef þið eigið
  • Pizzadeig
  • Rifinn cheddar ostur
  • 1 kúla af Mozzarella
  • Nachos ostaflögur

Aðferðin

Blandið saman kryddunum, 1 mtsk chili duft, 1 tsk reykt paprika, 1 tsk cayenne pipar, salt, og má nota smá chili korn til að fá smá power í þetta. Græjið svo brúnt smjör, setjið 80 – 100g smjör í pott og látið malla þar til orðið brúnt og farið að freyða. Þið eigið líka að finna þessa notalegu hnetu karamellu lykt af smjörinu. Bætið þá alveg tsk af kryddblöndunni samanvið og smá salt og leggið til hliðar.

Skerið hálfan lauk smátt og mýkið á pönnu í smjöri og olíu. Pressið svo 3 hvítlauksgeira og bætið á pönnuna. Takið utan af maískólfunum, skerið kornin af, þið eigið að vera með alveg bolla af kornum, ef þið eruð á hraðferð þá má nota maís í dós, en það er samt ekki eins magnað. Bætið þessu við laukinn og látið malla þar til maís er orðinn mjúkur. Bleytið í þessu með brúna smjörinu. Smakkið þetta svo til og kryddið eftir smekk.

Gerið svo pizzasósuna eins og þið eruð vön. Blandið saman 1/2 bolla af majonesi við 1 mtsk límónusafa og setjið í sprautuflösku. Fletjið út deigið. Dreifið pizzasósu yfir, ekkert of mikið samt. Slítið í sundur mozzarella og dreifið yfir, dreifið svo maísblöndunni yfir deigið líka. Magn fer eftir hvað deigið þolir, of blautt getur skapað vandræði, ég var með vel blautt álegg en gott deig svo það slapp vel. Rífið slatta af parmesan yfir þetta og loks rjómaostaklípur eftir smekk.

Eldið pizzuna eins og þið gerið venjulega, þar til álegg er bráðnað og botninn kominn með fallegt hlébarðamynstur. Takið pizzuna út, helling af ferskum kóríander yfir og loks sprautið þið límónumajonesinu yfir. Myljið loks Nachos flögur yfir og njótið. Flögurnar gera þetta stökkt og nett því þessi pizza er dálítið blaut og safarík annars.