Þetta byrjaði allt fyrir um 30 árum með minnispunktum í lítilli stílabók sem ég kallaði bjórbókina sem var fyrir mig eins konar bókhald yfir þann bjór sem ég hafði verið að smakka. Ég var svo hvattur til að setja þetta á netið og úr varð bjorbok.net. Hrá og klaufaleg síða en gerði sitt gagn svo sem. Í gegnum árin hafa svo áherslur verið að breytast. Það fór að kvikna áhugi hjá okkur skötuhjúum að elda spennandi mat og para við bjórinn, bjórpörun! Bjórpörun er langt frá því að vera nýtt fyrirbæri, menn hafa löngu áttað sig á því að bjór býður upp á mun fleiri möguleika í þessum efnum en t.d. léttvín, fjölbreytileikinn er einfaldlega svo mikill.  Góður, vel valinn bjór getur umturnað góðum rétti og lyft honum upp á annað plan, það sama má segja um réttinn sem getur breytt bjórnum til hins betra.  

Titill vefsíðunnar breyttist því í Bjór & Matur (B&M) og var megin áhersla hjá okkur lögð á matargerð og bjórpörun, sem sagt hvaða bjór hentar best með þeim mat sem við vorum að elda heima. Einnig reyndum við dálítið að elda úr bjór en bjór er frábært hráefni í ýmsa rétti, sósur, súpur og marineringar. Áfram hélt umfjöllun um bjórinn samt velli. Við fórum að lauma líka uppskriftum með sem fóru að vekja mikla lukku.

Í dag hafa áherslur aðeins breyst aftur, við erum farin að fjalla um aðra drykki líka sem eru í uppáhaldi hjá okkur svo sem freyðivín, náttúruvín og jafnvel rauðvín líka. Bjórinn er og verður samt alltaf í aðalhlutverki hér hjá okkur enda er svo mikið að gerast í bjórmenningunni í kringum okkur og heiminum öllum reyndar. Matur, eldamennska, veitingastaðir og uppskriftir hafa hins vegar orðið þungamiðja síðunnar. Við elskum að prófa okkur áfram heima og fá hugmyndir af réttum bæði hjá vinum okkar, frá matarbloggurum, matreiðsluþáttum og á veitingastöðum. Það er fátt skemmtilegra en þegar manni tekst að endurskapa eitthvað sem maður sá í sjónvarpinu eða prófaði á einhverjum veitingastaðnum og svo deila því með ykkur hér.

Nokkur orð um okkur, ég heiti Freyr Rúnarsson, heimilislæknir, líffræðingur og mikill bjóráhugamaður.  Sumir þekkja mig sem Bjórbókin eða frá eldri vefsíðum ss www.bjorspeki.com eða nano.  Einhverjir hafa jafnvel hitt mig þegar ég átti hlut í Skúla Craft Bar og stjórnaði þar öllu bjórflæði og uppákomum á sínum tíma en það var skemmtilegur tími og algjör forrétindi að fá að standsetja einn flottasta bjórbar landsins og koma honum á kortið.
Ég hef stundað bjórsmökkun og stúderað bjórmenningu í áraraðir og nú í seinni tíð fiktað við bjórgerð sjálfur í bílskúrnum mínum. Matur er eins og hjá svo mörgum mikið áhugamál, ég hafði hins vegar ekki mikinn áhuga á að elda hann sjálfur þar til bara fyrir nokkrum árum. Það var alltaf betri helmingurinn, Sigrún Ása, mikill matgæðingur og snillingur í eldhúsinu sem sá um að töfra fram hina ýmsu rétti handa okkur. Eftir að ég uppgötvaði gleðina í því að geta skapað eitthvað gott og spennandi að borða og ég áttaði mig á því hversu einfalt það í raun og veru er þá erum við Sigrún saman í þessu, þetta er okkar stærsta áhugamál.

Ég hef alltaf átt erfitt með að lesa uppskriftir, mér finnst þær oft svo kaotískar, maður þarf að fletta upp og niður til að átta sig á hlutföllum t.d. Ég hef reynt hér að deila með ykkur uppskriftum sem við erum að gera á þann hátt sem mér finnst gott að lesa þær, t.d. með hlutföllum í aðferðatextanum líka, ekki bara efst í innihaldi uppskriftarinnar. Það er von okkar að þið getið hér apað eftir okkur og upplifað þessa ljúffengu rétti og drykki sem vekja athygli okkar.

Verði ykkur að góðu!