Ef þú ert forvitinn um pörun bjórs og matar þá ertu á réttum stað.  Þetta uppátæki er um þessar mundir að verða æ vinsælla hér heima.  Bjórpörun er hins vegar langt frá því að vera nýtt af nálinni, menn hafa löngu áttað sig á því að bjór býður upp á mun fleiri möguleika í þessum efnum en t.d. léttvín, fjölbreytileikinn er bara svo mikill.  Góður og vel valinn bjór getur umturnað góðum rétti og lyft honum upp á annað plan, það sama má segja um réttinn sem getur breytt bjórnum til hins betra.  Hér munum við fjalla aðeins um bjór en meginn áhersla verður lögð á hvernig má para bjór sem fæst hér heima við rétti sem við Íslendingar þekkjum vel eða eigum auðvelt með að elda.  Við munum einnig lauma uppskriftum með og reynum að fá til liðs við okkur þekkta matgæðinga þegar fram líða stundir.

Ég heiti Freyr Rúnarsson, læknir, líffræðingur og mikill bjóráhugamaður.  Sumir þekkja mig sem Bjórbókin eða frá eldri vefsíðum ss www.bjorspeki.com eða nano.  Einhverjir hafa jafnvel hitt mig þegar ég átti hlut í Skúla Craft Bar og stjórnaði þar öllu bjórflæði og uppákomum á sínum tíma en það var skemmtilegur tími og algjör forrétindi að fá að standsetja einn flottasta bjórbar landsins og koma honum á kortið.
Ég hef stundað bjórsmökkun og stúderað bjórmenningu í áraraðir og nú í seinni tíð fiktað við bjórgerð sjálfur í bílskúrnum mínum (nano brewpub).  Matur er eins og hjá svo mörgum mikið áhugamál en ég er hins vegar ekkert sérlega flinkur að elda.  Betri helmingurinn, Sigrún Ása er hins vegar mikill matgæðingur og snillingur í eldhúsinu auk þess mikil bjóráhugakona.  Þannig getum við í sameiningu sinnt stóra áhugamáli okkar, að para saman bjór og mat. Það er von okkar að lesendur geti haft bæði gagn og gaman af skrifum okkar hér.  Við höfum stundað bjór/matar pörun lengi en síða þessi er hins vegar ný þannig að hún mun halda áfram að stækka.

Verði ykkur að góðu!