Bjór- og súkkulaðipörun með Omnom og Borg brugghús, craft on craft!

Það geta held ég allir verið sammála því að súkkulaði er gott, sérstaklega ef það er vandað handverks súkkulaði eða craft súkkulaði eins og ég kalla það. Omnom er einmitt þekkt fyrir frumlegt og afar ljúffengt handgert súkkulaði.  Fyrir mína parta þá er nánast allt sem ég hef smakkað frá þeim til þessa gott.  Ég reyndar elska súkkulaði, er eiginlega fíkill og er því  kannski ekki alveg hlutlaus en ég er reyndar líka mjög kröfuharður á súkkulaði sem kannski vegur upp á móti?  Annað sem ég elska er auðvitað bjórinn og þegar kemur að honum þá stendur Borg brugghús mjög framarlega hér heima.  Þeir eru endalaust að koma fram með eitthvað nýtt og spennandi sem oftast er hrein unun að renna niður.  Það vita það kannski ekki margir en bjór gengur oft mjög vel við súkkulaði, það fer vissulega eftir bjórstíl og súkkulaðinu hverju sinni og maður þarf auðvitað aðeins að spá í hvað fer vel saman.  Við hjá Bjór & Matur höfum oft leikið okkur með klassískar paranir á þessu sviði eins og t.d. dökkt mikið súkkulaði með bleksvörtum imperial stout, eða súkkulaði með ögn chilli parað við létt  humlaðan amerískan porter.   Hér mætti kannski hugsa sér að við værum að skipta kaffibollanum út fyrir kaffiristinni sem einkennir bæði porterninn og stoutinn.  Humlarnir eru svo góðir móti chilli-inu, lyfta því aðeins upp og gera meira áberandi.  Eins og alltaf þá er gaman að skoða áferð og þyngd ásamt bragðinu sjálfu og vinna ýmist með andstæður eða sameiginlega eiginleika og sjá hvað virkar best. Súrt með súru, létt á móti þungu, sætt með söltu og svo framvegis.  Nú orðið er súkkulaði orðið svo fjölbreytt og margar braðgflækjur í gangi að það er endalaust hægt að leika sér með þessa hluti.  Maður þarf því að skoða aðeins hvað maður er með í höndunum til að átta sig á hvernig bjór passar best við.  Þetta á samt ekki að vera stressandi og flókið verkefni því maður á að hafa gaman að þessu og prófa sig áfram.  Ég held að allir geta tekið undir það að það getur ekki verið slæmt að þurfa að prófa sig áfram með alls konar súkkulaði á móti alls konar bjór!

Fyrirtæki hér heima eru aðeins byrjuð að átta sig á hve magnað það er að sjá hvernig réttur bjór breytir mat og öfugt.  Maður er farinn að sjá einn og einn viðburðinn skjóta upp kollinum undanfarin ár.   Við Sigrún fórum á einn svona viðburð núna bara vikunni, þar sem snillingarnir hjá Omnom og meistarar bjórsins frá Borg brugghús leiddu saman hesta sína í stórfenglegri súkkulaði bjórpörun.  Þetta var í senn mikil fræðsla um súkkulaðiplöntuna og gerð súkkulaðis sem og „mini“ bjórskóli og svo auðvitað tilraunir með paranirnar.  Ég verð að segja að eftir þessa kvöldstund þá lít ég súkkulaði allt öðrum augum.  Þetta er nánast eins og með bjórinn, það er hægt að búa til svo mikið af mismunandi bragðprófílum og áferð allt eftir hvaða súkkulaðibaunir eru valdar og hvernig gerjun og ristun er háttað og það er sko ekki sama hvort við erum að tala um fjöldaframleitt súkkulaði eða handgert eins og Omnom gerir það.   Þetta er alveg magnað.  Pörunin var líka stórksemmtileg, þeir Borgarmenn höfu gert eina pörun og Omnom fólkið aðra, sumt alveg frábært og eitthvað sem maður á klárlega eftir að leika sér með áfram.

Það voru fimm bjórar í boði þetta kvöld allir mismunandi á sinn hátt, Askasleikir amber ale, Brjánsi súröl, Giljagaur barley wine, Garún imperial stout og loks einn magnaðasti bjór brugghússins til þessa Hurðaskellir imperial porter tunnuþroskaður en þessi herramaður er fyrir alls löngu uppseldur hér heima.  Á móti þessu var heill haugur af mismunandi súkkulaði sem maður gat leikið sér með og prófað.  Ég ætla nú ekki að kafa í sauma á þessum bjórum hér eða súkkulaðinu sem slíku því það er efni í mjög langan og erfiðan pistil.  Það voru samt nokkar paranir sem vert er að fjalla um og prófa heima.

Tökum fyrst Askasleikir, sem er frekar milt og einfalt amber öl, hér má súkkulaðið ekki vera það öflugt að bjórinn hverfi, við erum alltaf að reyna að skapa aðstæður þar sem bæði matur og drykkur hagnast á pöruninni.  Mér fannst Milk and cookies súkkulaðið koma vel út því súkkulaðið er skemmtilega kryddað með alls konar jólalegum kryddum.  Hér nær súkkulaðið að „spika“ bjórinn og gera hann bragðmeiri og jólalegri og bjórinn gefur svo súkkulaðinu karamellu sætu á móti.  Annað súkkulaði sem kom mjög vel út var Spiced White + Caramel sem hefur ögn appelsínu og kanil og svo er það með áberandi karamellukeim.  Hér ná humlar í bjórnum og appelsínan í súkkulaðinu vel saman.   Þetta súkkulaði má eiginlega heita sigurvegari kvöldsins því það passaði við alla bjórana nánast en á mismunandi hátt hverju sinni. Frábært súkkulaði !!!

IMG_6697
Ein áhugaverðasta pörun kvöldsins var hins vegar að mínu mati með Brjánsa.  Bjórinn er töluvert súr en þó léttur og þægilegur.  Alls ekki bjór fyrir alla en afhverju ætti hann svo sem að vera það?  Hér er vel hægt að nota Spiced White + Caramel en það sem kom mér verulega á óvart var hversu magnað var að fara í Lakkrís + Sea Salt súkkulaðið.  Hér eru það andstæður sem koma svona vel út, salt á móti súru, og þungt á móti léttu, algjörlega frábær pörun. Hér gæti bjórnördinn sagt að við værum að breyta Brjánsa súröl í gose sem er þýskur súrbjórsstíll með söltuðum bakgrunni en það er önnur saga.  Annað súkkulaði sem kom mér í algjörlega opna skjöldu en kom stórkostlega vel út var Madagascar sem er 66% súkkulaði með áberandi sýrukeim.  Nú erum við ekki með andstæður heldur samstæður, súrt með súru.  Þetta small algjörlega, bjór og súkkulaði magna upp sýru hvors annars og svo er notalegur sætur bakgrunnur frá korninu í bjórnum og súkkulaðisætunni.

Giljagaur er mikill bjór en þó ekki of þungur og það er töluverð sæta og karamella í bragði.  Mér finnst svo alltaf einhver appelsínukeimur þarna líka.  Hér höfðu menn valið Milk of Madagascar með sem er nokkuð sætt og mjúkt og með ögn karamellu og sítrus.  Fín tengin við bjórinn.  Við Sigrún fórum hins vegar í Spiced White + Caramel sem algjörlega negldi þetta.  Við erum með látlausan appelsínubörk í súkkulaðinu og áberandi karamellu sem passar jú vel við það sem við erum að upplifa í bjórnum, svo er þarna ögn bruni eins og chilli eða eitthvað sem kemur í veg fyrir allt of væmið combo.  Þetta var eiginlega besta pörun kvöldsins að okkar mati takk fyrir!!!

IMG_6699

Garún pörunin var mjög klassísk, við þurfum eiginlega ekki að ræða það í smáatriðum, en gerum það samt, það er svo gaman.  Hér komu tvö súkkulaði strax til greina, bæði Borg og Omnom voru á sömu línu.  Dökkt og mikið súkkulaði með dökkum og miklum bjór.  Garún þarf nefnilega eitthvað sem heldur velli, ekkert vesælt og aumt.  Nicaragua er þróttmikið 73% dökkt súkkulaði með ögn sýru og töluverðri beiskju.  Það er ekkert kaffi notað hvorki í gerð bjórsins né súkkulaðis en þegar þessu er blandað saman þá framkallast lúmsk kaffirist, eins kemur ögn kaffikeimur frá ristuðu maltinu í bjórnum.  Þetta er frábær pörun, ekki síðri pörun er svo Coffee + Milk súkkulaðið sem er dökkt mjólkursúkkulaði með kaffi.  Þetta súkkulaði er helvíti magnað en það er ekkert notað af kakónibbum við gerð þess heldur bara kakófeitin úr kakóbauninni, sykur, mjólkurduft og svo kaffibaunir.  Þetta súkkulaði er mjúkt með mikla fyllingu og svo organdi kaffibragð.  Þegar þetta kemur saman við Garúnu verður úr eins konar imperial kaffi stout, skemmtilegt.

Lokahnikkurinn var svo Hurðaskellir sem er gríðarlega magnaður bjór.  Nánar um hann hér.  Hér er er bjór sem að mínu mati er dálítið erfitt að para við, tillögur Omnom og Borgar voru ágætar en ekki eitthvað sem small að okkar mati en það er það sem svo skemmtilegt.  Það er enginn með eins pallettu, það sem einum finnst gott finnst öðrum kannski skrítið.  Við duttum hins vegar niður á skemmtilega pörun með Hazelnut súkkulaðinu en það er súkkulaði sem mér fannst reyndar ekkert sérstakt þegar ég smakkaði það eitt og sér.  Þetta súkkulaði gekk heldur ekki með neinum öðrum bjór en það vakti lukku hjá okkur með Hurðaskelli.  Það er mikil jörð í súkkulaðinu og hnetur, mild sæta og mýkt.  Þessi bragðprófíll kom með skemmtilegan hnetukeim í bjórinn sem bætist við súkkuklaði, kókos, vanillu og rúgviskí í bjórnum.  Súkkulaðið dregur einnig úr sætunni í bjórnum sem jaðrar við að vera of mikil.

Þetta var einfaldlega geggjað kvöld og þökkum við Omnom og Borg fyrir frábærar stundir.

Borg/Tanker collab, Chocosourus

Gaurarnir í Borg brugghús sitja ekki auðum höndum þessa dagana, þeir eru á stöðugum þeytingi bruggandi bjór út um allar jarðir.  Hér er það Tanker Brewery í Tallin Eistlandi. Bjórinn kalla þeir Chocosourus C8 og já það er líklega gert með vilja að skrifa „sourus“ en ekki „saurus“ þrátt fyrir risaeðluna á merkimiðanum því um er að ræða súrbjór.  Í bjórinn nota þeir svo  kakóhismi frá Omnon súkkulaðigerð sem skýrir fyrri hluta nafnsins dálítið.  Já við erum að tala um spriklandi ferskan súkkulaðisúrbjór, ekki klassísk túlkun á stílnum en svo sannarlega skemmtileg.  Súkkulaði og ber, er það ekki eitthvað?  Súkkulaðihúðuð hindber eða jarðaber eru t.d. oooofsalega flott.

Bjórinn er ferskur og spriklandi á tungu með súrum undirtón og alls konar mildum ávöxtum.  Það má svo finna örlítið súkkulaði í bakgrunni, það hjálpar reyndar að vita af
því í bjórnum samt. Bjórinn er ofsalega fallegur í glasi en froðan staldrar stutt við.
Mjög skemmtilegur súrbjór sem gengur svo IMG_6253.JPGsannarlega sem sumarbjór.   Nú er um að gera að fylgjast með ef menn vilja næla sér í flösku en hann dettur í Vínbúðir og bari á næstu dögum.  Venja er að um mjög takmarkað magn sé að ræða þegar kemur að collab!

MATARPÆLING: Þetta er bara skemmtilegur bjór einn og sér en ég veit að hann myndi elska djúsí súkkulaðieftirrétti með ferskum berjum á borð við hindber eða brómber t.d.  Besta súkkulaðimús í heimi kemur sterklega til greina en þar erum við jú bæði með hindber,brómber og jarðaber í djúsí dökkri súkkulaðimús, þvílík pörun, ætli maður prófi þetta ekki bara um helgina?  Svo gengur hvíta súkkulaðifrauðið með fersku ástaraldin einnig mjög vel með þessum.  Já það er svo sannarlega gaman að vera til.

Besta súkkulaðimús í heimi með hindberjum og funky hindberja saison!

Nú er konudagur og þá þarf sko að gæla við konurnar í lífi okkar.  Mér dettur ekkert betra í hug en að skella í dásamlegt súkkulaðitrít fyrir mína í tilefni dagsins.  Ég er mikill súkkulaðifíkill og ég ætla ekkert að reyna að fela það en það er bara fátt betra í þessu lífi en góður súkkulaði eftirréttur.  Súkkulaðimús er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég hef sko prófað marga slíka rétti trúið mér en það er bara engin mús eins góð og þessi hér sem upprunanlega kemur frá eldhúsgyðjunni Nigella Lawson.  Það versta við þessa mús er að ég get bara ekki stoppað þegar ég byrja og það kemur ekki vel út þegar gestir þurfa að berjast við mig um síðustu bitana, Sigrún þarf samt ekkert að óttast á konudaginn.  Ég er svo ekki alveg að fara eftir Nigellu hér því mig langaði í smá berjasætu, hindber og sýru til að létta aðeins réttinn og gera hann meira svona konudags, ég fékk því mágkonu mína Elínu sem er snillingur í gúmmilaðigerð til að koma með hugmyndir og hún kom með hugmynd af dásamlegu hindberjagumsi sem smellpassar við bæði réttinn og bjórinn sem ég ætla að bjóða frúnni með þessu.


RÉTTUR: Besta súkkulaðimús í heimi með fersku hindberjamauki.  Það besta við þessa mús er að það er fljótlegt að gera hana og auðvelt.  

– 150 g sykurpúðar
– 50 g smjör
– 250 g gæðasúkkulaði (125 g suðusúkkulaði og 125 g 70% súkkulaði)
– 60 ml heitt vatn (soðið vatn)
– 285 ml rjómi, þeyttur.
– 1 tsk vanilludropar

Sykurpúðar, smjör og saxað súkkulaði er sett í stóran pott og svo er 60ml heitu vatni bætt við.  Látið svo malla á mjög lágum hita, rétt til að bræða súkkulaðið og púðana. Hrærið reglulega þar til allt er bráðnað og látið svo kólna.  Þeytið rjómann með vanilludropunum og blandið varlega saman við rest.

Hindberjamaukið:

– 300 g hindber (frosin er algjörlega í lagi)
– 1/4 bolli sykur
– 1 mtsk súrbjór eða bara sítrónusafi
– 1/4 tsk nýmulinn pipar (má sleppa samt)

Setjið þetta allt í matvinnsluvél og maukið þar til berin eru orðin að mauki. Svo er gott að sigta maukið til að losna við steinana og svo sjóða í ööörlitla stund á vægum hita en þetta gerir maukið silkimjúkt og aðeins hlaupkennt.

BJÓRINN: Með þessum rétt væri hægt að fara í imperial stout en það er bara of klassískt og ég held að það yrði líka of „heavy“.  Hér viljum við frekar fara í frískandi súrbjór til að létta á öllu og lyfta upp sýruna í berjamaukinu.  ROSES ARE BRETT frá To Øl er fullkominn hér, því hann er bruggaður með hindberjum m.a.  Við gætum líka reynt aðra súrbjóra, kriek, frambozen, t.d. MIKKELLER SPONTANTFRAMBOOS en báða þessa bjóra þarf að sérpanta í ÁTVR.   LIEFMANS KRIEK og OUD BEERSEL KRIEK eða GUEUZE sem fást allir í Vínbúðinni er líklega frábært val líka.


img_5985
AÐFERÐ: 
Það er hægt að fara tvær leiðir í framsetningu, annars vegar að hafa eldrautt hindberjamaukið ofan á súkkulaðimúsinni eins og á myndinni að ofan en það kemur ofsalega fallega út, svo er bjórinn rauður í stíl en hins vegar setur maður maukið í botninn þannig að dásamleg músin fær að njóta sín (mynd að neðan).  Ef þið veljið að setja rautt ofan á þá þarf fyrst að láta músina storkna í kæli í svona 2 klst og svo bara hella maukinu ofaná.  Ef hin leiðin er valin þá er fínt að setja maukið í skálarnar og inn í frysti í smá stund.  Svo er súkkulaðimúsinni hellt yfir og látin storkna í kæli í ca tvo tíma.  Loks er skreytt með ferskum hindberjum og brómberjum t.d.

BJÓRINN
: Þetta er ein magnaðasta pörun okkar til þessa held ég, kannski er það bara af því að hér erum við að leika okkur með súkkulaðirétt sem er mitt uppáhald og svo „funky“súrbjór sem ég held líka mikið uppá.  Ég veit það ekki, hitt er þó víst, bjórinn einn og sér geggjaður en með súkkulaðimúsinni er hann algjörlega magnaður.   Súkkulaðimúsin er mjög saðsöm og þung en hindberjagumsið í botninum opnar þetta upp með ferskum súrum berjablæ.  Ég valdi þennan bjór ROSES ARE BRETT frá To Øl einmitt vegna þess að hann er súr og bruggaður með hindberjum og svo er hann bara svo fallegur svona rauður og elegant.  Hindberin og sýran í bjórnum tengja gjörsamlega við hindberjamaukið í músinni og gerir það að verkum að bjór og eftirréttur framlengja hvort annað.   Fyrst fær maður dásemlegt súkkulaðið, svona silkimjúkt og ljúft en dálítið þungt svo opnast allt uppá gátt með súrsætum hindberjum í botninum og þetta tvinnast allt saman, loks kemur bjórsopinn og framlengir hindberin og súra keiminn en með skemmtilegu „funky“ twisti sem einhvern veginn dregur súkkulaðið aftur fram.  Þetta er algjörlega geggjað saman.  Roses are brett fæst aðeins via sérpöntun ÁTVR en það er í raun lítið mál að panta svona, maður sendir bara póst á Vínbúðina og óskar eftir sérpöntun.  Það er þó vel hægt að mæla með LIEFMANS KRIEK og OUD BEERSEL KRIEK eða GUEUZE  sem fást allir í Vínbúðunum.

img_6001
Rósir, nei takk bjór og súkkulaðifrauð fyrir mína 🙂

Dökkt súkkulaði trít með stout eða porter

wp-1478339032382.jpg


Réttur: Dökkt súkkulaði
Pörun:
Imperial stout, stout eða porter.
Dæmi: Mikkeller Beer Geek Brunch Weasel, Borg Garún eða Borg Myrkvi


Það er viðeigandi að byrja þessa síðu á þessu klassíska „comboi“ súkkulaði og stout.  Ég er mikill sælkeri og ég einfaldlega elska súkkulaði, líklega er súkkulaði það eina sem ég ann meira en bjór. Dökkt súkkulaði er frábært eitt og sér, það hefur þægilega beiskju á móti sætunni og svo er ljómandi þegar menn bæta við sjávarsalti eða chilly t.d.  Hér heima fer ég helst í Omnom eða Lindt.  Sumir geyma súkkulaði í ískáp, mér finnst bara alls ekki gott að borða kalt súkkulaði, það þarf helst að vera næstum byrjað að bráðna þá verður það mýkra og bragðið nýtur sín meira.

Kaffi er vel þekktur fylgisveinn með góðu súkkulaði, hver þekkir ekki ljúfu stundina eftir jólamatinn svona rétt áður en pakkaflóðið er tæklað.  Þá sest maður niður í notalegt horn með ylmandi kaffi og nartar í nokkra vel valda mola áður en átökin hefjast á ný, ja eða sumir alla vega.

wp-1478338985305.jpgRauðvín er alveg afleitt með súkkulaði og hef ég aldrei skilið þá blöndu, bjórinn hins vegar gengur vel með og þá helst einhver mjúkur og ristaður bjór á borð við stout eða porter.  Persónulega vil ég hafa bjórinn með súkkulaðinu stóran og mikinn, eins og sterkann kaffibolla eða espresso.  Ég vel imperial stout því hann er gjarnan dálítið sætari en stout og porter og meiri þróttur í honum.  Allir þessir stílar ganga hins vegar en þeir eiga það sameiginlegt að vera ristaðir og minna oft á kaffi á tungu.  Ristað kornið getur einnig gefið af sér keim af dökku súkkulaði og stundum lakkrís.

Hér er ég með 70% Lindt súkkulaði með sjávarsalti og ég valdi Mikkeller Beer Geek Brunch Weasel sem er stóbrotinn 10.6% hafra stout í miklu uppáhaldi.  Ég fer í þennan þegar ég vil vera góður við mig.  Bjórinn fær 100 af 100 á Ratebeer sem er stærsta bjórsamfélag á veraldarvefnum. Í honum er dýrasta kaffi í heimi sem unnið er úr saur eins konar kattardýra í suðaustur Asíu.  Dýrin éta kaffibaunirnar og velja þær að kostgæfni, þau eru mjög vandlát.  Svo fara baunirnar í gegnum meltingarveginn og koma loks út um hinn endan tilbúnar til kaffibrennslu.  Það er sem sagt kaffi í þessum bjór og því ekki skrítið að finna keim af kaffi ásamt dökku súkkulaði og jafnvel vanillu.   Bjórinn kemur vel út með súkkulaðinu, hann hefur dálitla beiskju sem tónar vel með beiskjunni í súkkulaðinu en svo kemur sjávarsaltið með skemmtilegt mótspil við beiskjuna.  Það er einnig talsverð sæta í bjórnum sem gerir beiskjuna í hvortveggja viðráðanlegri og bakkar einnig upp sætuna í súkkulaðinu.   Hér er mikilvægt að hafa bjórinn ekki of kaldann því þá virkar hann dálítið hvass.

Ef maður er ekki alveg til í að splæsa í Mikkeller (hann kostar núna um 1360kr) þá er Garún frá Borg gott val einnig.  Eins má prófa Myrkva frá Borg eða einhvern annan porter.  Aðal atriðið er að byrja og prófa sig áfram.  Hvað með Barley Wine t.d?