Hættulega góð súkkulaði truflu romm marens kaka með imperial stout

Enn ein mögnuð uppskrift frá Nigella Lawson.  Þvílíkur unaður…segi ég sem er háður súkkulaði, kannski ekki alveg hlutlaus.  Þessi uppskrift er frekar einföld (t.d. gat ég gert hana nokkuð slysalaust) en það erfiða við hana er að maður þarf að bíða í einn jafnvel tvo daga eftir að hún verði klár.   Þegar ég skellti í þessa uppskrift var ég í súkkulaði fráhvarfi og ætlaði að bæta heldur betur úr því, ég hafði ekki lesið uppskriftina til enda þegar ég byrjaði.  Ég reyndar strandaði fljótt þegar ég komst að því að ég átti ekki romm sem er algjörlega ómissandi í þessu.  Hreimur nágranni minn bjargaði mér hins vegar fyrir rest og ég gat haldið áfram en svo rak ég augnun í að kakan á að standa í einn til tvo sólarhringa í ísskáp!  Jább ég mæli sem sagt með því að fólk hafi eitthvað súkkulaðigott að maula á meðan þessi kúrir í kælinum.

Það sem þarf:

Fyrir botninn

1-2 eggjahvítur (fer eftir stærð)
50 g hvítur sykur
2 tsk bökunar kakó
1-2 dropar hvítvíns edik

Fyrir músina sjálfa

400 g dökkt súkkulaði (70%)
60 ml Romm
60 ml gyllt síróp
500 ml þeyttur rjómi
Bökunar kakó til skreytingar

Bjórimperial stout, helst eitthvað tunnuþroskað, ég tala nú ekki um rommtunnuþroskað.  Founders KBS er snilld með þessu sem og Borg Surtur nr. 38 vanillu stout.  Ég prófaði fleiri sem komu mjög vel út líka, Founders Imperial Stout og Borg Garún.  Ef hins vegar þið viljið létta á þessu þá er kriek (kirsuberja súrbjór) alveg geggjaður með, tékkið á því líka.

Aðferð:

1) Ofn í 180 gráður á blástur.  Smyrjið svo hliðarnar á 20cm spring formi og smjörpappír í botninn.

2) Þeytið eggjahvíturnar þar til þær eru orðnar froðukenndar og þið getið myndað toppa.  Mér finnst best að nota handþeytara því þá fæ ég meiri tilfinningu fyrir þessu.  Bætið svo sykrinum í smá skömmtum og þeytið áfram á lægri stillingu.  Þið eigið að enda með þykka glansandi blöndu.   Sáldrið kakói yfir og edikið og þeytið aðeins áfram til að sameina þetta allt.  Loks dreifið þið þessu í formið og reynið að slétta þetta út eins og þið getið.

3) Bakið þetta í ofninum í 15-20 mín.  Takið svo út og látið standa þar til orðið kalt.

4) Takið fram skál og setjið vatn í pott.  Ekki láta vatnið snerta skálina, látið malla, ekki sjóða.  Bræðið svo súkkulaðið ásamt sýrópi og romminu.  Passa að enginn raki komist í þetta því þá fellur þetta allt saman út og klumpast saman. Takið svo skálina af hitanum og látið standa í 5 mín eða svo til að kólna.

5) Þeytið rjóman þar til hann er farinn að verað aðeins fluffy og þéttur.  Ekki þeyta um of samt.  Blandið svo rjómanum varlega saman við súkkulaðið þar til þetta er orðið að dásamlegri súkkulaði romm blöndu.  Reynið að standast það að smakka þetta, ég mana ykkur, það er ekki séns.

6) Hellið þessu svo í formið ofan á marens botninn.  Sléttið úr og setjið svo plastfilmu yfir og inn í ískáp í alla vega sólarhring, helst tvo.  Jább sorry þannig er það bara!

7) Þegar þið loksins ætlið að bjóða uppá herlegheitin þá er gott að taka formið út úr ísskápnum og látið standa aðeins áður en þið losið úr forminu.  Ég myndi ekki reyna að taka kökuna af form botninum nema þið séuð rosalega klár, hann kurlast upp auðveldlega.

IMG_7293

Ok kakan er geggjuð, þetta er án gríns alveg „trufflað“ dæmi 🙂  Passið ykkur bara á að fá ykkur ekki of stóra sneið því þetta er mjög þungt í mallakút.  En fyrir súkkulaðifólk þá er þetta líklega eitt það besta sem hægt er að bjóða uppá.  Í raun held ég að við eigum að líta á þetta sem konfekt eftir góða málsverð, ekki köku.  Kaffi væri fínt með eeeen við erum að spá í ölinu sem er mun skemmtilegra ekki satt?   Hér langaði mig að máta þungan mikinn og djúsí imperial stout við, helst einhvern sem hefur legið á rommtunnu en slíkt fæst auðvitað ekki hér en ef við ættum t.d. Pirate Bomb frá Prairie Artisan Ales þá væri það skemmtileg pæling því þar fáum við aðeins rommið í gegn.   Bourbon þroskaður bjór verður að duga og það er sko aldeilis ekki slæmt val.  KBS frá Founders er frábær með þessu en hér erum við með þungt á móti þungu þannig að við þurfum að fara varlega.  KBS er bruggaður með kaffi m.a. og látinn þroskast á bourbon tunnum í marga mánuði.  Útkoman er mjúkur mikill bjór með ristuðu korni sem gefur m.a. súkkulaðikeim, svo er espresso og loks bruninn frá boubon tunnunni.  Stundum má finna notalega vanillu og jafnvel kókos í geng frá eikartunnunni.  KBS er annars mjög merkilegur bjór og alls ekki sjálfsagt að komast yfir hann.

Við prófuðum einnig Surt 38 frá Borg sem er enn til í Vínbúðunum.  Hér erum við með öflugan en sætan imperial stout sem bruggaður er með vanillu.  Við erum þannig með ofsalga flott mótvægi við beiskjuna og þunganum í kökunni, hér kemur sætan í bjórnunm og vanillan ofsalega vel út.  Beiskjan frá humlunum í þessum bjór létta á á öllu og opna upp fyrir næstu bita.  Mjög flott combo.  Prófið einnig Garúnu frá Borg, hún gerir það sama nema gefur meira kaffi og beiskju í þetta allt.

Ef ykkur finnst þetta of mikið af því góða, prófið þá að létta á þessu með ferskum hindberjum ofaná kökuna eða smá þeyttan rjóma.  Eins er hægt að nota spriklandi súrbjór á borð við Kriek eða Frambozen til að gera það sama.

Páskaegg frá HR konfekt með rétta bjórnum, er til eitthvað betra?

Fyrir okkur hjá Bjór & Matur eru páskarnir tími til að njóta, við erum að tala um frí frá vinnu og svo allt hnossgætið, súkkulaði í stórum stíl, páskabjórinn og svo má ekki gleyma blessuðu lambinu.  Það eru margir sem framleiða páskaegg hér á landi, hillurnar í búðunum eru þegar farnar að fyllast af þessu. Fyrir súkkulaðifíkil eins og mig þá eru hins vegar til páskaegg og svo eru til PÁSKAEGG!   Já ég segi það bara, súkkulaði er ekki bara súkkulaði, þetta er svona rétt eins og með bjórinn, það er til fjöldaframleitt óspennandi súkkulaði og svo erum við með vandað hanverks súkkulaði.  Minn uppáhalds súkkulaðikarl hér heima er Hafliði Ragnarsson frá HR konfekt / Mosfellsbakarí,en þar á bæ kunna menn sko að gera súkkulaði og þegar kemur að páskaeggjum þá erum við að tala um hrein listaverk.  Eggin eru svo falleg að maður vill eiginlega ekki borða þau, bara horfa.  Það er samt hluti af þessu öllu saman og gleymist oft, maður á að nota öll skilningarvitin þegar maður er að njóta sælkeravöru ekki bara bragðskynið.

Súkkulaði og bjór á vel saman, menn virðast eiga erfitt með að sjá það fyrir sér en það er svo sannarlega málið.  Við höfum áður leikið okkur með bjór og súkkulaði með mjög góðum árangri.   Þetta árið ákváðum við að prófa helling af bjór og finna hina fullkomnu pörun með eggjunum frá Hafliða en hann gerir þrjár gerðir, dökkt 70% súkkulaði, mjólkursúkkulaði 38% og dulcey blond 32% súkkulaði.  Reyndar líka eitthvað af eggjum úr hvítu súkkulaði.  Ég get sagt ykkur það að mér leið eins og krakka í leikfangabúð þegar ég fékk túrinn í súkkulaðigerðinni þeirra!  Ég gæti sennilega ekki unnið þarna án þess að lenda í stórkostlegum vanræðum.

Ár hvert dettur haugur af páskabjór í vínbúðirnar, flest allt frekar óspennandi en það er þó einn og einn góður.  Við ákváðum að vera ekkert sérstaklega að einbeita okkur að páskabjór með páskaeggjunum en það slæddust þó nokkrir inn í prufurnar.  Hér er svo afraksturinn.

Glæsilegt gullið Dulcey Blond egg.

IMG_7174
Byrjum á Dulcey en þetta er uppáhalds egg konunnar.  Dulcey súkkulaði er elegant ljós karamellubrúnt og lungnamjúkt með rjómakenndri áferð í munni.  Það er nokkur sæta á tungu en ekki eins sætt og hvítt súkkulaði eða mjólkursúkkulaðið.  Við finnum svo ögn karamellukeim og smákökur og það örlar fyrir kókos.
Eftir smakk kvöldsins komumst við að því að Dulcey eggið passaði við nánast alla bjórstílana en það sem stóð uppúr voru súru ávaxtabjórarnir.  Það er vel þekkt hjá súkkulaðigerðum að tengja ávexti/ber við súkkulaðið, maður sér það t.d. í sumum molunum sem eru inní eggjunum frá HR.  Sumir eru með jarðaberjafyllingu eða ástaraldin ofl.
Oud Beesel Kriek er með betri kirsuberjabjórum sem við höfum aðgang að hér heima og gengur mjög vel með súkkulaði.  Kriek er belgískur villigerjaður bjór, bruggaður með örverum úr andrúmsloftinu sem gefa frá sér súran funky keim, svo er bjórinn látinn þroskast á kirsuberjum í mánuði og drekkur hann þannig í sig dásamlegan berjakeiminn.  Bjórinn er þannig aðeins súr og svo með áberandi kirsuberjabragði.  Svona bjór er líka nokkuð kolsýrður en kolsýran hjálpar til með að hreinsa palletuna og létta á öllu milli bita. Súkkulaðið þekur nefnilega dálítið góminn með dásamlegum rjómakenndum súkkulaðihjúp sem kolsýran skefur svo af milli bita.  Sýran í bjórnum dregur ögn úr sætunni í súkkulaðinu og kirsuberin tengjast mjög vel við súkkulaðið og gefa ákveðin elegans ofan á elegant.   Þetta alveg stein lá.

IMG_7148.JPG

Við prófuðum fleiri súrbjóra með þessu eggi og kom nýji collab bjórinn frá Borg stórkostlega út með þessu eggi líka.  Kalsari Kannit sem er ketilsýrður bjór með ástaraldin og ferskjum. Þessi bjór er bruggaður með einhverju finnsku brugghúsi sem ég bara þekki ekki neitt til. Verst að þessi kemur ekki í búðir hér heima en bjórinn er virkilega flottur og fæst á helstu börum borgarinnar um þessar myndir.

Dökkt 70% lífrænt súkkulaði frá Perú (Fairtrade).

Uppáhalds súkkulaðið mitt persónulega er þetta hér, dökkt, mikið og geggjað með kakó og svo ögn beiskju í bland við sýru. Eggið er ofsalega fallegt svona undið og snúið með kopargyllingu.   Hér koma ávaxtabjórarnir vel út, Oud Beersel Kriek er t.d. mjög flottur hér líka en bjórinn bæði léttir á öllu og gefur svo frísklegan ávaxtakeim ofaná.  Það sem okkur fannst hins vegar enn betri pörun var nýji páskabjórinn frá The Brothers Brewing í Vestmannaeyjum sem heitir einfaldlega Páska Bjór Milk Stout 8% og er svo kallaður imperial milk stout.

IMG_7202

Stout er kolsvartur bjór sem bruggaður er með brenndu byggi sem gefur bæði lit og svo ristað bragð sem oft minnir á expresso og dökkt súkkulaði.  Milk stout er svo samskonar nema að í hann er notaður mjólkursykur, lactosi sem gerfrumurnar geta ekki notað í gerjunina og því situr hann eftir í loka afurðinni og gerir bjórinn sætari og meira djúsí.  Páska Bjór Milk Stout er einmitt það, mjúkur og rjómakenndur í munni með sætum nótum en einnig þessa notalegu kaffirist og svo er smá lakkrís.  Hver kannast ekki við kaffi og súkkulaði annars?  Þetta kemur í staðinn og er enn betra.  Hér er tengingin augljós,  kaffirist og súkkulaði, sætan í bjórnum tónar svo beiskjuna frá súkkulaðinu niður og þetta verður bara æðisleg upplifun.  Páskabjór með páskaeggi, bæði dæmi um handverk af bestu gerð.

Við prófuðum alla bjórana með öllum eggjunum og komumst að því að Páska Bjór frá The Brothers gengur vel með þeim öllum.  Hér er líklega bara hinn fullkomni páskabjór á ferðinni?

Mjólkursúkkulaði 38%

Loks vorum við með klassískt páskaegg úr mjólkursúkkulaði, mjög sætt súkkulaði sem bráðnar í munni og þekur góm og tungu með feitri kakóskán.  Ekki svo að skilja að það sé neikvætt samt.  Fyrir mína parta er þetta aðeins of sætt en krakkarnir elskuðu það.  Hér komu súru bjórarnir vel út og tóna vel niður sætuna, porter og stout koma vel út líka með þessu og bæta rist og ögn beiskju við upplifunina.  Myrkvi frá Borg og Páska Bjór Milk Stout frá Brothers voru flottir með t.d.  Hins vegar er belgískt öl alltaf skemmtilegt með súkkulaði, belgíska ölið er oftast lítið sem ekkert beiskt og svo erum við með ávaxtalega sætu, oft karamellu og gerkrydd sem gaman er að leika sér með við mat. Belgískur bjór er oft einnig nokkuð kolsýrður en það er einmitt þægilegur eiginleiki þegar við erum með feita áferð í mat. Páskabjórinn þetta árið frá Borg brugghúsBarabas nr 57 (8%) er einmitt skemmtilegur belgískur dubbel sem fer blíðum höndum um tunguna með snefil af dökkum ávöxtum og notalegum belgískum kryddum.  Barabas kom vel út með mjólkursúkkulaðinu og kolsýran er mjög hentug hér því hún léttir skánina af gómnum og hreinsar alveg palletuna og gerir klára í næsta skammt.

IMG_7213

Það þarf svo alltaf að hafa í huga við svona lesningu að hér ræður smekkur manna öllu.  Ofanritað er einungis ætlað sem leiðbeiningar fyrir þá sem vilja prófa sig áfram.  Við vorum þrjú í þessum pælingum (takk Ólafur Darri fyrir aðstoðina) og eru þetta niðurstöður okkar þriggja en segir í raun ekkert um hvað þér þykir best.  Njótið heil!

 

Founders CBS, einn eftirsóttasti bjór veraldar?

Þið þekkið vonandi öll KBS og velgengni þessa magnaða bjórs, ef ekki þá er um að gera að drífa sig í að bæta úr því.  CBS er svo enn eitt ævintýrið frá Founders, sem lengi vel hefur verið eitt af mínum uppáhalds. Oft er talað um hvíta hvali í þessum efnum (white whale) sem mér finnst í raun ekki réttnefni því hvítir hvalir eru í raun bara alls ekkert sjaldgæfir.  Menn eru líklega að tengja við Moby Dick sem var jú einstakur, hins vegar eru Beluga Hvalir alls ekkert sjaldgæfir og þeir eru hvítir eins og hveiti.  Ég kýs að kalla svona bjór Geirfugl sem kannski er heldur ekki rétt því Geirfulgar eru alls ekki til.  Nóg um það, þessi bjór er alla vega nógu andskoti sjaldgæfur og einn eftirsóttasti bjór veraldar vilja menn meina.   Founders bruggaði þennan bjór fyrst fyrir ansi mörgum árum og varð hann „instant success“.

Sagan segir að þeir hafi bara dottið niður á þessa blöndu þegar þeir komust yfir eikartunnur sem notaðar höfu verið undir þroskun hlyndsýróps og svo bourbon.  Þeir Founders menn ákváðu að prófa að gera KBS uppskriftina (tunnuþroskaður imperial stout), sem þá var orðinn meðal rómuðustu bjórum veraldar, og skella þeim á tunnurnar.   Úr varð þessi magnaði konfektmoli sem þeir kölluðu Canadian Breakfast Stout eða bara CBS.  Bjórinn sló rækilega í gegn.  Founders bruggaði bjórinn síðast árið 2011 og þá í litlu upplagi og kláraðis hann strax og menn börðust hreinlega um síðustu flöskurnar.  Nú 6 árum síðar ákvað Founders, ekki síst vegna mikils þrýstings frá fylgjendum sínum um heim allan, að gera loksins annað batch sem hluta af svo kallaðri Barrel Aged seríu sinni, sem inniheldur tunnuþroskaðan bjór af ýmsum toga.  Bjórinn kom út í lok síðasta árs og var hægt að fá í öllum fylkjum Bandaríkjanna í afar, afar takmörkuðu upplagi og þurftu menn að forpanta aðgang að röðum fyrir útgáfu bjórins á hverjum stað.  Sem sagt, nánast ómögulegt að fá þetta helvíti.   Þessu hefur svo skolað hér á strendur okkar Íslendinga fyrir tilstuðlan Andra og Inga hjá Járn og Gler og verður að teljast álíka undalegt og þegar menn uppgötva á næstu árum að maðurinn hefur aldrei lent á tunglinu.

Þetta er sturlun, CBS mun detta í almenna en takmarkaða, býst ég við, sölu á næstunni en í fyrsta sinn í sögunni hér ætla ég ekki að gefa upp tímapunktinn því ég í minni einskærri græðgi og eigingirni ætla að kaupa þetta allt sjálfur þegar þetta kemur í Vínbúðirnar!

Þess má geta að þessi bjór er svakalega flottur með bóndadags kökunni frá Mosfellsbakaríi þetta árið enda hefur uppáhalds súkkulaðikarlinn minn Hafliði haft hönd í bagga með gerð þessa kræsinga.  Þvílíkt combo!!!

KBS sjaldgæfur gullmoli á ótrúlegum stað

Founders brewing hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá mér, saga brugghússins er ein af þessum fallegu ævintýrum sem enduðu vel.  Það voru tveir áhugasamir heimabruggarar sem ákváðu að segja störfum sínum lausum og snúa sér alfarið að bjórgerð fyrir almennan markað.  Þeir helltu sér út í svimandi há bankalán og stofnuðu svo brugghúsið árið 1997.  Þetta var í Grand Rapids í Michigan.  Í upphafi brugguðu þeir bara hefðbundinn bjór, ekki vondan en ekkert sem menn tóku sérstaklega eftir, þeir voru á barmi gjaldþrots þegar þeir félagar Mike Stevens og Dave Engbers ákváðu að venda kvæðum í kross og skapa bjór eins og þeir vildu í raun sjálfir sjá bjórinn.  Bjór með hortugheit, eitthvað sem var ekki fyrir fjöldan heldur meira fyrir alvöru bjórnörda.  Þetta gekk svona líka vel upp hjá þeim félögum.  Vinsældir bjórsins jukust ár frá ári og nú er brugghúsið metið meðal bestu brugghúsa veraldar.  Á stærsta brjórsamfélagi veraldar Ratebeer.com hefur brugghúsið verið í efstu þremur sætunum undan farin ár.  Þeir eiga einnig nokkra bjóra á lista yfir 50 bestu bjóra veraldar og bjór þeirra hefur unnið margoft til verðlauna á hinum ýmsu bjórkeppnum.

Image result for founders breakfast stoutKBS eða Kentucky Breakfast Stout er í dag meðal eftirsóttustu bjóra í veröldinni og er í raun ekki hlaupið af því að ná sér í flösku.  Saga bjórsins hefst árið 2001 þegar Dave Engbers er staddur á barnum sínum og einn gestanna gefur honum súkkulaðihúðaða espresso kaffibaun til að smakka.  Það vildi svo til að Dave var þarna með Founders Porter við hönd sem hann skolaði bauninni niður með.  Þarna varð hann fyrir hugljómun, afhverju ekki að blanda súkkulaði, kaffi og bjór saman?  Þetta varð kveikjan af  einum vinsælasta stout veraldar, Founders Breakfast Stout sem kemur út ár hvert milli september og desember og er stundum hægt að finna þenna bjór hér heima.   Meira fikt og pælingar leiddu svo til þess að þeir félagar ákváðu að prófa dálítið galna hugmynd að sjá hvað myndi gerast ef bjór myndi liggja á notuðum bourbon tunnum en þá þessum tíma voru menn ekki farnir að gera þetta.  Þeir sömdu við Jack Daniels um að fá nokkrar notaðar tunnur, eitthvað sem þótti frekar undaleg bón á þessum tíma, og fylltu þær með Breakfast Stout.   Þarna duttu menn niður á eitthvað alveg nýtt og eftir nokkrar fínstillingar leit KBS dagsins ljós.  Bjórinn var og er fáanlegur í mjög takmörkuðu magni því það eru takmörk fyrir því hve mörgum tunnum maður getur komið fyrir á lager.  Bjórinn liggur nefnilega þarna í heilt ár.   Útkoman er stórkostlegur  mjúkur og djúsí imperial stout (11.8%) með vanillukeim, kaffi, súkkulaði og svo auðvitað áberandi bourbon.  Þetta er bara eitthvað sem menn verða að prófa.  Nú er svo komið að þessi bjór er fáanlegur í ÁTVR.  Eitthvað sem er í raun galið þar sem fólk stendur í röðum til að ná sér í flöksu þegar KBS dettur í sölu ár hvert í kringum apríl.

KBS er dásamlegur til að njóta einn og sér á síðkvöldi til að innsigla góðan dag eða með nokkrum vel völdum súkkulaðimolum eftir góða máltíð.

„Mindblowing“ pörun á Spontan

Ég var í Kaupmannahöfn í vikunni og kíkti að sjálfsögðu á Spontan aftur.  Að þessu sinni valdi ég 4 rétti og bjórpörun með 4 bjórum.  Ég fékk allt annan mat en síðast en hann var algjörlega stórkostlegur eins og við var að búast.  Hver rétturinn algjört lystaverk, já ég setti „y“ hér með vilja!  Bjórinn var fínn og passaði vel við matinn en síðasta pörunin fór alveg með mig.  Rétturinn var eftirréttur og heitir á seðlinum „Cloudberry, Sea Buckthorn, Ymer, Honey“ en til að lýsa þessu þá er þetta eins og kalt sorbet með berjasósu, (cloudberry og Sea Buckthorn) sem var sætsúr og berjuð og svo næfurþunn kristalliseruð hunangsplata ofan á með fíngerðu lakkrískurli og claudberry dufti.  Skemmtileg blanda Cloudberryaf berjum, sýru og svo sætu hunangi með ögn seltu frá lakkrísnum.   Bjórinn sem var serveraður með var Yule mælk frá To Øl en þetta er 15.5% imperail stout.  Venja er að drekka imperial stout frekar volga en þessi var serveraður ískaldur.  Í fyrstu var ég pínu hissa á þessu, ætti þessir snillingar ekki að vita þetta?  Svo rann það upp fyrir mér að þetta hlyti að vera með vilja gert.  Ég spurði því þjóninn sem sagði mér að bjórinn ætti einmitt að vera kaldur þegar maður fær hann á borðið því þannig verður hann ekki eins „overpowering“ og stelur ekki senunni frá þessum dálítið viðkvæma eftirrétt.  Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei látið mér detta í hug að tefla svona öflugum bjór á móti svona berjuðum og viðkvæmum eftirrétti.  Hins vegar þegar bjórinn er svona kaldur þá virkar þetta frábærlega.  Bjórinn er líka mjög sætur og mjúkur þrátt fyrir 15.5% og tengir þannig rosalega vel við hunangssætuna og svo kemur allt þetta súra og ferska alveg svakalega vel á móti ristinni og aðeins kaffitónunum í bjórnum.   Það er bara erfitt að lýsa þessu en þessi blanda var algjörlega „mindblowing“.   Maður þarf að reyna eitthvað svipað hér heima…..hmmmm veit samt ekki með þessi ber og hunangsplötuna, verður pínu snúið 🙂

Bjór og Ostar

20161106_141522.jpg
Valdir ostar úr Búrinu og bjór úr Vínbúðinni

 



RÉTTUR:
Ostabakki með völdum ostum (Gouda, Grámygluostur, Hvítmygluostur og Geita Rauðkítti) og meðlæti (hnetur, perur, ætiþyrstlar, hunang, gráfíkjusulta og súrsuð rauðlaukssulta.

PÖRUN: Belgískur/Hollenskur Tripel eða Trappist, bestur með bragðmiklum Gouda en flottur með hinum líka, Imperial Stout eða belgískur Kriek geggjaður með grámygluostinum og belgískur Saison kom einnig vel út með öllum ostunum.

DÆMI: La Trappe Tripel, Oud Beersel Kriek, Garún frá Borg og Saison svo sem Snorri, Skaði eða álíka.


Það kannast flestir við ljúfu stundirnar með góðum vinum yfir ostabakkanum, það getur verið dásamlegt trít fyrir bragðlaukana ef rétt er að öllu staðið.  Klassíkt er að opna góða rauðvín til að gæða sér á með ostunum , þetta er eitthvað sem maður bara lærir að sé rétt…..eða hvað?  Það er nefnilega mikill misskilningur að rauðvín sé góð pörun við osta, í raun er það afleit hugmynd í ljósi þess að ostarnir fara einfaldlega illa með flest rauðvín, þeir draga m.a. úr áhrifum tanníns í rauðvíninu auk þess fer saltið ekki vel með eikarkeiminn, ávextina og sýruna í víninu.  Með öðrum orðum þá er maður að skemma gott rauðvín.  Flest rauðvín eru líka bragðmikil og yfirgnæfa auðveldlega bragðið af mörgum ostum.  Það er vissulega hægt að finna ágætis rauðvíns-ostapörun en ef maður vill endilega vera í léttvíni þá væri það frekar hvítvín og ostar.  Nóg um það, við ætlum að tala um bjór.

Að margra mati er bjór það besta með ostum, mun betra en rauðvín alla vega.  Bjór og ostar eiga einfaldlega ýmislegt sameiginlegt, þeir eru af sama sauðarhúsinu ef svo má segja.  Hvortveggja er viðkvæm vara þar sem gerjun og þroski er lykil þáttur í framleiðslunni.  Bjór og ostar geta verið skemmtilegir ferskir og ungir en þurfa oft að fá að þroskast í róleheitum til að fá meiri dýpt og karakter.   Maður gæti einnig talað um skyldleika en bjór er gerður úr korni og jurtum (humlum) og ostar úr mjólk sem vissulega kemur frá grasbítandi kúm.  Þannig má segja að jörðin tengi bæði osta og bjór saman.  Það mætti einnig benda á að við erum flest vön að maula á kexi eða snittubrauði með ostunum ekki satt?  Bjór er í raun sami hluturinn, þ.e.a.s. fljótandi brauð/kex gerður úr korni, geri og vatni.  Það er því ekkert skrítið að bjór passi svona vel við.


„Bjór er mun betri ostapörun en rauðvín“


Þegar maður ætlar að prófa osta og bjór saman er best að byrja á að velja sér ostinn. Spjallaðu við einhvern sem kann sitt fag, t.d. afgreiðslufólkið í ostabúðunum, en ekki hvað? Ég hef t.d. góða reynslu af Búrinu úti á Granda.  Fáðu að vita eiginleika og bragð og hvaðan osturinn kemur.  Oft getur þetta gefið vísbendingar um hvernig bjór væri sniðugur með.  Ég held að best sé að velja ekki of marga osta til að byrja með því það flækir málin, það er nefnilega svo að oftast eru fleiri en ein tegund af bjór sem passar með sama ostinum en  það er virkilega skemmtilegt að sjá hvernig osturinn breytist með mismunandi bjór.  Byrjaðu á t.d tveim ostum. Svo er það meðlætið, maður laumar gjarnar sultu, hunangi, vínberjum og öðru góðgæti með á bakkann, allt til að auka auðvitað bragðupplifunina.  Þetta hefur vissulega áhrif á hvaða bjór gengur með.  Prófaðu fyrst ostinn „allsberan“ og finndu góðan bjór með og upplifðu áhrifin.  Bættu svo maukinu við eða hunangi t.d. og sjáðu hvað gerist, kannski er annar bjór allt í einu orðinn skemmtilegri með.  Þetta er allt hluti af skemmtuninni, að koma bragðlaukunum stöðugt á óvart.

20161106_141354.jpg
Hollenski La Trappe Tripel bjórinn er flottur ostabjór

Við Sigrún ákváðum núna um helgina að gera vel við okkur og prófa 4 mismunandi osta með nokkrum vel völdum bjórum og til að gera þetta enn skemmtilegra hóuðum við í góða vinkonu okkar Lovísu sem reyndar vann á sínum tíma í ostabúð og er dálítið kresin á ostana. Það er alltaf skemmtilegra að vera fleiri saman að spá í hlutunum. Við fórum einu sinn sem oftar í Búrið og völdum þar flottan Gouda ost, Oowe Jongens sem er ljómandi ostur, bragðmikill en mjúkur, svo var það geita rauðkítti Landana Rosso frá Hollandi og gamli góði Gullosturinn (Hagkaup) og svo fer ég ekki í ostabúð nema að taka einn blámygluost.  Að þessu sinni var það Fourme D’Ambert frá Frakklandi.  Þessi ljúflingur er bragðmikill með kremaða áferð og svo er dálítill sveppatónn í bakgrunni, algjört salgæti.  Með þessu vorum við svo með bragðmylda pylsu, heslihnetur, perur, hunang, hina dásamlegu gráfíkjusultu og svo súrsaða rauðlaukssultu sem er algjört salgæti.

Bjórana valdi ég að þessu sinni dálítið handahófskennt því ég vildi prófa eitthvað nýtt, ég tók þó með nokkra klassíska sem ég vissi að smellpassa með ákveðnum ostum á bakkanum.  La Trappe er Hollenskt Trappist klaustur sem gerir ofsalega flottan bjór.  Þeir eru með nokkrar tegundir.  Ég valdi Tripelinn (8%) sem er dálítið þróttmikill en þó dálítið mjúkur með ljúfa sæta ávaxtatóna og notalega kryddtóna, blond (6.5%) hefði líka alveg gengið hugsa ég.  Það góða við La Trappe er að bjórinn er á fínu verði hér heima í Vínbúðinni, við höfum nefnilega aðgang að tveim öðrum Trappist brugghúsum hér heima, Chimay og Westmalle sem væru stórgott val með ostunum einnig.  Trappist klaustrin gera flest sína eigin osta auk bjórsins og því er maður nokkuð öruggur um góða pörun með svona bjór.  Við prófuðum La Trappe með öllum ostunum og fór hann vel með þá alla en kom best út með Oowe Jongens Gouda ostinum en Gullosturinn var líka flottur með.  Sætu ávaxtatónarnir í bjórnum tónuðu vel með seltunni og mýktinni í Gouda ostinum og kolsýran heldur skemmtilega utan um rjómakennda áferðina og fituna í báðum þessum ostum og hreinsar hana af pallettunni.  Ég prófaði einnig þýskan hveitibjór með öllum ostunum en hann var ekkert að gera, ostarnir drápu hann bara niður sem dæmi um slæma pörun, við viljum jú ekki skemma bjórinn.  Porter var líka reyndur en kom ekki vel út með þessum ostum, hann tók pylsuna vissulega í flottan dans en það er önnur saga.

20161106_141241.jpg
Sigurvegari kvöldsins, Oud Beersel Kriek (6%) með Fourme D’Ambert blámyglu

Ég valdi svo Garúnu frá Borg með blámygluostinum.  Garún er flottur 11.5% Imperial Stout en sá stíll getur verið frábær með blámygluostum.  Bjórinn er mjúkur en stór með sætu og rist og svo kaffitóna með.  Slíkur bjór gengur samt ekki með öllum ostum, aðeins þeir öflugustu þola svona bjór eins og t.d. blámyglan.  Bjórinn stelur engu frá ostinum og öfugt heldur magna ostur og bjór bragðtóna hvers annars.  Þeir tvinnast einhvern veginn saman í gómnum í flotta heild, frábært.  Svo var ofsalega gaman þegar við prófuðum súrbjórinn með sama osti, Oud Beersel Kriek sem er belgískur kirsuberjabjór af bestu sort.  Bjórinn er í grunninn súrbjór eða Lambic sem svo hefur þroskast á eikartunnum með ferskum kirsuberjum og verður þannig kirsuberjabjór með ríkulegum kirsuberjakeim.  Bjórinn er einnig dálítið súr og þurr og svo er heilmikið gos í honum.  Ofsalega flottur einn og sér æðislega skemmtilegur með bragðmiklum blámygluostinum.  Þetta kombo kom skemmtilega á óvart og voru stúlkurnar báðar sammála að þetta væri skemmtilegasta blanda kvöldsins.  Osturinn fær að njóta sín í fyrstu og þekur góm og boga og svo kemur bjórsopinn með ferskan kirsuberjablæ og sýru sem sker fituna og hreinsar góminn.  Svo er þetta sveita, leður funk alltaf aðeins í bakgrunninum. Þannig byrjar maður með ost og endar með skemmtilegt súrt, ferskt twist.  Dásamlegt.

Já þetta var bara byrjunin, svo var auðvitað enn skemmtilegra þegar við prófuðum allt meðlætið með.  Mismunandi bjórar gerðu mismunandi hluti fyrir bakkann, ostabakkinn lifnaði bókstaflega við.  Ég vil svo benda á í lokin að belgískur Saison er góð pæling með ostabakka og meðlætinu.  Saisoninn er dálítið jarðbundinn og oft nokkuð kryddaður með áberandi gertónum.  Ég prófaði minn eigin nano Saison sem kryddaður er með rósapipar ofl.  Þessi bjór var ofsalega flottur með t.d. Gouda ostinum og geitaostinum en gekk vel með hinum ostunum einnig. Við getum vel mælt með að menn prófi þennan stíl með.

Dökkt súkkulaði trít með stout eða porter

wp-1478339032382.jpg


Réttur: Dökkt súkkulaði
Pörun:
Imperial stout, stout eða porter.
Dæmi: Mikkeller Beer Geek Brunch Weasel, Borg Garún eða Borg Myrkvi


Það er viðeigandi að byrja þessa síðu á þessu klassíska „comboi“ súkkulaði og stout.  Ég er mikill sælkeri og ég einfaldlega elska súkkulaði, líklega er súkkulaði það eina sem ég ann meira en bjór. Dökkt súkkulaði er frábært eitt og sér, það hefur þægilega beiskju á móti sætunni og svo er ljómandi þegar menn bæta við sjávarsalti eða chilly t.d.  Hér heima fer ég helst í Omnom eða Lindt.  Sumir geyma súkkulaði í ískáp, mér finnst bara alls ekki gott að borða kalt súkkulaði, það þarf helst að vera næstum byrjað að bráðna þá verður það mýkra og bragðið nýtur sín meira.

Kaffi er vel þekktur fylgisveinn með góðu súkkulaði, hver þekkir ekki ljúfu stundina eftir jólamatinn svona rétt áður en pakkaflóðið er tæklað.  Þá sest maður niður í notalegt horn með ylmandi kaffi og nartar í nokkra vel valda mola áður en átökin hefjast á ný, ja eða sumir alla vega.

wp-1478338985305.jpgRauðvín er alveg afleitt með súkkulaði og hef ég aldrei skilið þá blöndu, bjórinn hins vegar gengur vel með og þá helst einhver mjúkur og ristaður bjór á borð við stout eða porter.  Persónulega vil ég hafa bjórinn með súkkulaðinu stóran og mikinn, eins og sterkann kaffibolla eða espresso.  Ég vel imperial stout því hann er gjarnan dálítið sætari en stout og porter og meiri þróttur í honum.  Allir þessir stílar ganga hins vegar en þeir eiga það sameiginlegt að vera ristaðir og minna oft á kaffi á tungu.  Ristað kornið getur einnig gefið af sér keim af dökku súkkulaði og stundum lakkrís.

Hér er ég með 70% Lindt súkkulaði með sjávarsalti og ég valdi Mikkeller Beer Geek Brunch Weasel sem er stóbrotinn 10.6% hafra stout í miklu uppáhaldi.  Ég fer í þennan þegar ég vil vera góður við mig.  Bjórinn fær 100 af 100 á Ratebeer sem er stærsta bjórsamfélag á veraldarvefnum. Í honum er dýrasta kaffi í heimi sem unnið er úr saur eins konar kattardýra í suðaustur Asíu.  Dýrin éta kaffibaunirnar og velja þær að kostgæfni, þau eru mjög vandlát.  Svo fara baunirnar í gegnum meltingarveginn og koma loks út um hinn endan tilbúnar til kaffibrennslu.  Það er sem sagt kaffi í þessum bjór og því ekki skrítið að finna keim af kaffi ásamt dökku súkkulaði og jafnvel vanillu.   Bjórinn kemur vel út með súkkulaðinu, hann hefur dálitla beiskju sem tónar vel með beiskjunni í súkkulaðinu en svo kemur sjávarsaltið með skemmtilegt mótspil við beiskjuna.  Það er einnig talsverð sæta í bjórnum sem gerir beiskjuna í hvortveggja viðráðanlegri og bakkar einnig upp sætuna í súkkulaðinu.   Hér er mikilvægt að hafa bjórinn ekki of kaldann því þá virkar hann dálítið hvass.

Ef maður er ekki alveg til í að splæsa í Mikkeller (hann kostar núna um 1360kr) þá er Garún frá Borg gott val einnig.  Eins má prófa Myrkva frá Borg eða einhvern annan porter.  Aðal atriðið er að byrja og prófa sig áfram.  Hvað með Barley Wine t.d?