Esja nr. 60, kaflaskipti í bjórgerð?

Við höfum séð mikið af IPA bjórum frá íslenskum brugghúsum undanfarin ár enda ekkert skritíð, IPA er líklega einn vinsælasti bjórstíll veraldar alla vega meðal bjórunnenda.  Borg hefur verið að gera mjög gott mót í þeim efnum undanfarið með sérdeilis ljúffengum New England IPA bjórum og er þá skemmst að minnast Áramótastaupsins sem kom bara út í fyrradag.  Nú hins vegar hefur brugghúsið brotið ákveðið blað í íslenskri bjórsögu með tilkomu Esju nr 60 (5.7%) sem er tilkomumikill villibjór eða wild ale svo kallað.  Esja er í grunninn líklega belgískur saison gerjaður með villigerjablöndu af belgískum toga og má þar nefna til sögunnar brettanomyces sem er líklega þekktasta villigerið.  Bjórinn hefur svo verið að þroskast í Chardonnay tunnum í nær 3 ár.  Villigerið gerir bjórinn dálítið sýrðan án þess að gera hann súran og svo er áberandi hið margslungna „funk“ frá m.a. brettanomyces gerinu sem stundum er kallað „brett keimur“ og er afar erfitt að lýsa með orðum.  Chardonnay tunnan gæðir bjórinn dálítið æðra flækjustigi og útkoman er með betri villibjórum sem maður hefur fengið í langan tíma og án efa það allra besta í þessum flokki hér heima fyrir.  Að gera bjór á svona háu stigi er alls ekki auðvelt og sýnir mikinn metnað og hæfileika bjórgerðarmanna, en það krefst mikils skilnings á hvernig villiger og önnur hráefni vinna saman og þroskast með tímanum, og ekki síst mikillar þolinmæði að enda með bjór 3 árum síðar sem er svona fágaður og í flottu jafnvægi.  Hér er ekkert of mikið af neinu, sætu, sýru, beiskju, kolsýru, brett eða hvað það kann nú að kallast.  Ég verð að viðurkenna að þegar ég heyrði af þessum bjór fyrst fyrir þremur árum þá var ég ekkert sérlega spenntur því ég er mjög vandlátur þegar kemur að villibjór og treysti ég yfirleitt engum nema Belgunum til að gera þetta rétt.  Ég ætla hins vegar á þessum fína aðfangadegi að éta það allt ofan í mig og ég verð að segja að fyrir mér þá er Borg með þessum bjór að sýna okkur að það er orðið fullorðið, alvörugefið brugghús á heimsklassa!

Jafnvel þó Borg gefi þennan bjór ekki út sem sérstakan áramótabjór þá myndi ég segja að hér sé alveg fullkominn áramótabjór á ferð.  Bjórinn kemur í fallegum 750ml flöskum með korktappa og vírneti eins og kampavín enda töluvert mikið af búblum og þrýstingur í honum.  Bjórinn er einnig dálítið súr og þurr eins og freyðivín og nógu mildur til að ganga með flestum mat.  Ég held að hann muni passa vel með fylltum kalkúni og með því en þannig verður það amk á okkar borðum hér.   Bjórinn kemur í búðir skilst mér á fimmtudag eða föstudag og í takmörkuðu upplagi, einar 1300 flöskur þannig að verið vakandi.

Gleðileg jól og áramót!

2 athugasemdir við “Esja nr. 60, kaflaskipti í bjórgerð?

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s