Ljómandi “fluffy” frönsk ommiletta

Egg eru líklega það hráefni sem við hér á Bjór og Matur gætum ekki verið án. Það er hægt að gera svo ótal margt með þeim, eins og dásamleg hleypt egg, eða alvöru eggjahræru að hætti Gordon Ramsay, já eða bara gamla góða linsoðna eggið með salti og ekki má gleyma bakstrinum eða sósunum eins og silkimjúka hollandais sósuna eða bennann. Þegar ég var lítill þá fékk ég oft ommilettu hjá pabba. Það var í raun ekkert sem ég man sérstaklega eftir sem einhverja lúxus máltíð heldur bara eggjaköku með pylsubitum og einhverju slíku. En þetta þjónaði sínum tilgangi á þeim tíma svo sem, að metta mallakút þegar lítill áhugi eða tími var fyrir að stússa í eldhúsinu.

Ég hef svo tekið eftir því í öllum kvikmyndum um mat og í þessum matreiðsluþáttum eins og MasterChef ofl að ommiletta er einhver svona marker eða viðmið fyrir hversu fær maður er í eldhúsinu. Ég tek það fram nú eins og oft áður að ég er enginn snillingur í matargerð en ég hef gaman af áskorunum og prófa mig áfram. Ég ákvað að fara í smá rannsóknarleiðangur í þessu og hef verið að prófa mig áfram og lesið mig til um ommilettur. Franska aðferðin heillaði mig og það er hún sem ég er að reyna að apa eftir. Ég er orðinn bara mjög sáttur við útkomuna en líklega er alltaf hægt að gera betur? Hér er alla vega eins og ég geri þetta.

Það sem þarf í eina ommilettu

  • 3 egg (fer reyndar eftir stærð pönnunnar), þetta miðast við pönnu hjá mér sem er lítil, ca 20 cm í þvermál. Stærri panna, fleiri egg.
  • Smjöklípa á pönnuna
  • Salt
  • Krydd eftir smekk, ég nota chilli flögur, oregano og smá papriku krydd
  • Parmesan, rifinn, ca 2 mtsk
  • Trufflu Aioli, ca 2-3 tsk, fer algerlega eftir smekk
  • Eitthvað “meðlæti” t.d. Bara tómatar, avocado, graslaukur eða eitthva sem ykkur dettur í hug.

Aðferð

Brjótið 3 egg í skál, ekki brjóta þau á kanti skálarinnar heldur á flötu undirlagi því annars er hætta á að fá skurn inn í eggið. Saltið með ca hálfri tsk af salti. Hrærið svo vel, mjög vel til að fá loft vel inn í eggin.

Takið til kryddin og rífið parmesan. Hitið “non stick” pönnu, það er mikilvægt, það gengur ekkert með venjulegar pönnu. Við viljum hafa þetta aðeins yfir meðalhita.

Setjið smá olíu á pönnun og myndarlega smjörklípu og látið bráðna. Passið að smjör og olía þeki alla pönnuna.

Hellið eggjahrærunni á pönnuna og hrærið með sleikju eða þunnum spaða sem má nota á teflon pönnu. Ég vil hafa þetta örþunnan plastspaða. Hrærið í þessu þar til eggin eru farin að verða eins og eggjahræra á forstigi. Alls ekki gera alveg eggjahræru. Sléttið svo úr þessu þannig að þekji alla pönnuna. Lækkið hitann undir. Dreifið svo rifnum parmesan osti yfir allan flötinn, kryddið svo eftir smekk og fylgist með. Losið ommilettuna meðfram köntunum með spaðanum. Um leið og það er hægt að byrja að rúlla ommilettunni upp þá hallið þið pönnunni frá ykkur og rúllið ommilettunni upp með spaðaun.

Yfirborðið á að vera alveg slétt og heiðgult. Ommilettan á helst að vera dálítið blaut ofaná, sem sagt ekki alveg fulleldað í gegn. Rúllið ommilettunni alveg upp rennið henni af pönnunni á disk og látið standa aðeins. Eggin halda áfram að eldast í miðjunni.

Ef ommilettan er of blaut inní, eins og óelduð egg þá þarf að hafa hana aðeins lengur á pönnunni næst. Ef hins vegar ommilettan er stíf og leiðinleg þá hafið þig haft hana of lengi á pönnunni. Það er í raun ekki hægt að segja til ákveðinn tíma þetta er tilfinning og smá æfing.

Loks er bara að skreyta með t.d. Avocado og tómötum. Eg ríf líka parmesan yfir og svo má hafa klessu af trufflu aioli til hliðar, það er svoooo gott með þessu. Njótið og endilega taggið mig ef þetta gengur upp hjá ykkur.

Egg Benedicts á belgískri vöfflu með hægeldaðri önd og karamellu eplum

Það er gaman að gera hleypt egg þó það sé dálítið dútl. Það er bara einhvern veginn skemmtilegra og meira grand að borða hleypt egg vs linsoðin eða spæld egg. Egg Benedicts er klassískur réttur þar sem hleyptu eggin fá að njóta sín.

Um daginn prófaði ég brunch á Apotekinu en á laugardögum og sunnudögum bjóða þeir uppá alls konar geggjaðar útgáfur af Egg Benedicts, ég prófaði humarinn sem ég verð að mæla með og svo var það rifna öndin sem var geggjuð. Eins og svo oft áður þá fær maður hugmyndir þegar maður fer út að borða og svo prófar maður að apa eftir í eldhúsinu heima. Við ákvæðum að prófa öndina og viti menn, við negldum þetta. Já svakalega gott þó ég segi sjálfur frá.

Hérna er þetta eins og við gerðum þetta

Það sem þarf fyrir fjóra:

  • Confit de Canard í dós (fæst í Bónus t.d.)
  • Teryaki sósa, 3 mtsk
  • Hoisin sósa, ca 2 mtsk
  • 2 græn epli skorið í báta
  • 3 eggjarauður í Hollandaise sósu
  • 8 egg, hleypt (poached)
  • sykur og smjör fyrir karamlellu
  • Vöffludeig, heimagert eða tilbúið
  • Kóríander til skrauts

Aðferðin:

Takið andalærin úr fitunni, endilega geymið fituna t.d. fyrir stökkar kartöflur eða álíka. Setjið öndina í eldfast mót og látið malla bara. Við erum í raun bara að hita þetta vel upp.

Fínt að græja eggin, sjá aðferð hér. Geymið svo eggin í ísbaði þar til rétt áður en þið berið fram. Þá hitið þið þau upp í sjóðandi vatni í 15 sek.

Fínt líka að græja eplin, gerið karamellu eftir þeirri aðferð sem þið kjósið og látið eplin krauma í þessu þar til þau eru orðin mjúk og hálf maukuð. Leggið til hliðar.

Takið öndina svo úr ofninum og rífið niður eins mikið og þið getið. Blandið teryiaki og hoisin sósu vel saman við, smakkið þetta bara til. Þið hafið þetta eins og þið viljið. Ég notaði smá salt til að rífa aðeins upp bragðið.

Svo er það bara að henda sér í hollandais sósuna og baka vöfflurnar.

Setjið svo heitar vöfflurnar á disk, eina á hvern disk. Rifna öndin fer svo ofan á. Hitið upp eggin í 15 sekúndur, þerrið með þurrku og raðið ofan á öndina. Ef hollandais sósan er farin að þykkna má hræra smá heitu vatni samanvið, ausið svo sósunni yfir eggin, og ekki gleyma karamellu eplunum. Loks skreytið þið með ferskum kóríander og ég reyndar held að pæklaður rauðlaukur væri geggjaður með þessu. Geri það næst. Svo er bara að njóta!

Hleypt „poached“ egg og með því!

Egg eru góð og það er hægt að gera svo ótal margt við þau. Eitt af því er að gera hleypt egg. Það er bara svo elegant og svo gefandi þegar þetta tekst og maður sér guluna flæða út og yfir undirlagið þegar skorið er á eggið. Þetta er aðeins meira dútl en að sjóða egg en samt ekki mikið meira vesen. Ég skrifaði inn þessa færslu fyrir nokkrum árum með alls konar tilfæringum, vesen með að búa til vortex og eitthvað. Þetta hefur gengið vel svo sem til þessa en svo benti nafni minn Læknirinn í Eldhúsinu mér á einhvern gaur á Youtube sem blæs á allt þetta. Hann var með aðferð sem er bara algerlega solid. Ég hef prófað nokkrum sinnum og þetta svínvirkar. Ég hef því uppfært færslu mína hér með. Hér er sem sagt eins og ég geri þetta núna! Svo er auðvitað eitthvað meðlæti með, t.d. klassískt að setja þetta ofan á pönnuristað brauð með einhverju álgeggi en þið finnið út úr því. Hollandaise sósa er líka fyrir mitt leiti afskaplega gott með þessu en samt þarf hana ekki, en er samt betra. Bara helvítis ves að gera hana.

Það sem þarf:

  • Egg, mv ca 1 – 2 á mann
  • eplaedik, x 2 mtsk
  • Vatn í djúpan pott

Aðferðin:

Það er smá kúnst að gera eggin fullkomin, þau þurfa svo sem ekki að líta þannig út, aðallega að þau bragðist vel en það er bara svo flott þegar maður nær þeim hnöttóttum og laus við tægjur.

Fyllið meðalstóran pott með vatni þannig að dýpi sé um ca 6 cm eða svo.  Náðið upp suðunni og lækkið svo hitann þannig að búblurnar hverfa og það nánast bærist ekki vatnið.

Eggin brjótið þið í bolla, eitt í hvern. Setjið svo 2 mtsk edik í pottinn og hrærið. Þetta hjálpar til við að halda eggjunum saman á hnattlaga formi. Það er einnig mikilvægt að nota fersk egg en þau virðast halda betur þessari fallegu lögun sem við erum að leita eftir því það er minna af þunnu vatnkenndu hvítunni í fersku eggjunum. Takið svo fram sigti og gleymið öllu tali um hringiðu (vortex). Setjið eggið í sigtið og látið renna af egginu þessari lausu vatnskenndu hvítu (það er þetta sem myndar tægjurnar í pottinum) og rennið því svo ofan í pottinn. Látið svo liggja þarna í 3 mín eða svo. Ekkert að hræra neitt. Tíminn fer dálítið eftir hversu linsoðin eggin eiga að vera hjá ykkur. Ef þið notið gömul egg, trúið mér ég tala af reynslu, þá er svo mikið af þessari lausu vatnskenndu eggjahvítu að það er sáralítið eftir af hvítunni til að hjúpa guluna. Kemur ekki vel út.

Hér er svo sem í lagi að hafa grunnann pott en þá verða egginn meira svona flöt eins og spælegg. Ef potturinn er djúpur þá sekkur eggið til botns og hjúpar guluna og verður meira dropalaga, það er það sem er svo fallegt.

Lyftið svo varlega egginu upp með götóttri skeið og látið renna vel af, það má þerra með pappír. Svona gerið þið við hvert egg, fer auðvitað eftir fyrir hve marga er eldað. Ef þið eruð með mörg egg eða þið þurfið að græja eitt og annað má geyma eggin í ísbaði þar til klárt til að bera fram, þá látið þig eggin vera í pottinum í 2 mín og 40 sek, þetta er alla vega tími sem er að virka fyrir mig. Ísbaðið stöðvar eldunina á eggjunum.

Þegar þið eruð svo klár í að nota eggin, þá setjið þið hvert egg í sjóðandi vatn, varlega samt og látið liggja bara í 15 sek eða svo. Fínt að prófa bara eitt egg og sjá hvaða tími hentar. Við gerum þetta til að hita eggin upp aftur. Svo er bara að raða ofan á eitthvað spennandi og njóta.

Hollandaise sósa

Ég set þessa inn sem sér færslu. Það er auðveldara að finna hana þannig. En mér finnst þetta ómissandi með.

Hér er linkur beint inn á hvernig ég geri þessa sósu.

Páskar og bjór!

Páskar eru að bresta á með öllu tilheyrandi en eitt af því er vissulega súkkulaðið, þ.e. páskaeggin sem reyndar hafa flest staðið í matvörubúðunum núna síðustu þrjá mánuði þannig að það væri auðvelt að vera kominn með hundleið á þeim þegar hátíðin gengur loks í garð.  Í sjónvarpinu eru þau samt auglýst „páskaeggin voru að detta í hús“ en það er önnur saga.

Annað er svo páskabjórinn en að venju koma mörg brugghús með páskabjór fyrir þessi tímamót.  Ég veit ekki hvað margir páskabjórar standa til boða þetta árið, maður hefur stundum farið í það að smakka þetta allt og reyna að dæma hvað sé best en við erum eiginlega hætt að nenna því.  Mikið af þessu er bara ekkert sérstakt og það eina sem er öðruvísi við bjórinn er oft bara að það er sett „páska“ í nafnið á bjórnum.  Klassískt er að gera páskabjór dálítið dekkri og með meiri karamellukeim en vanalega en það er svo sem ekkert til sem heitir páskabjór í þeim skilningi, hann má vera hvernig sem er.

Hvað er þá besti páskabjórinn kann einhver að spyrja, eða hvernig bjór er bestur sem páskabjór?  Fyrir okkur hér á B&M er páskabjór eitthvað sem tengir við Páskana, það getur t.d. verið bjór sem gengur vel með klassískum páskaréttum, lambi t.d. eða bjór sem bragðast eins og Páskar á einhvernig hátt?  Ég skal ekki segja, nú er súkkulaðið samt stór hluti af Páskunum og við elskum súkkulaði og því finnst okkur bjór sem passar vel með súkkulaði kjörinn páskabjór.  Það má þá vera bjór eins og stout sem hefur súkkulaðikeim eða kaffi sem tengir vel við súkkulaði en það getur líka verið eitthvað annað sem vegur á móti súkkulaðinu, t.d. súr hindberjabjór með léttum chilibruna?  Belgískur blond ,triple eða saison gengur svo vel með flestu lambi og svona mætti spá í þetta endalaus.  En látum þessar pælingar aðeins til hliðar.

Eins og fyrr segir þá elskum við súkkulaði hér á B&M og mig langaði að minna á bestu páskaegginn sem í boði eru hér heima en það eru án efa páskaeggin frá Hafliða súkkulaðigerðarmanni sem er sá besti í bransanum hér að okkar mati.  Við lékum okkur aðeins í fyrra með að para saman páskaeggjunum hans við valda páskabjóra, það var virkilega gaman.   Ein besta pörunin og einn besti páskabjórinn í fyrra var mjólkur stoutinn Páska Bjór frá The Brothers Brewing sem kom æðislega vel út með súkkulaði og það góða er að sá bjór er kominn aftur þetta árið og mælum við eindregið með því að fólk prófi þennan bjór.  Frábær með dökku súkkulað t.d.

img_7152-01316355110.jpeg

En já þetta er alla vega valmöguleiki, við höfum svo sem ekki skoðað í kjölinn hvað annað er í boði þetta árið það er reyndar María hveitibjór frá Borg sem er nýr þetta árið en hann nettur og þægilegur og líklega flottur með grilluðu lambi eða eitthvað slíkt.  Við munum samt hafa augun opin og láta í okkur heyra hér ef við sjáum páskabjór sem vert er að skoða nánar!

Skemmtileg djúpsteikt Skota-egg með nettum IPA

Ég sá þetta á instagram um daginn, þ.e.a.s menn voru að para scotch egg við american pale ale.  Ég heillaðist af frábærum myndum af eggjunum.   Ég hef svo sem aldrei spáð í það hvað Skota egg eru en nú veit ég það.  Ég ákvað að prófa því þetta hljómaði bara ansi blátt áfram í rauninni en ég komst að því að þetta er dálítið dútl og vesen.  Venjulega tala ég um hvað einfalt er að gera þessar uppskriftir sem ég tek fyrir hér en nú verð ég að viðurkenna að þetta er bara ansi snúið.  En gott er það og pörunin frábær.

Það sem þarf í þetta (fyrir 2):

  • 2 egg, linsoðin
  • 1 egg, hrært
  • 2 msk mjólk
  • 4 msk Gölli IPA eða álíka bjór
  • 400g ca nautahakk
  • 400g ca svínahakk
  • graslaukur, smátt skorinn
  • steinselja, smátt skorin
  • timían ca tvær greinar
  • salt og pipar
  • 1 bolli Panko brauðrasp
  • 1/2 bolli hveiti
  • 1,5 L djúpsteikingarolía

Bjórinn:

  • Hér viljum við dálítið humlaðan/beiskan bjór sem getur borað sig í gegnum fituna í matnum og opnar allt upp.  Bjórinn þarf líka að tóna vel við áferð og bragð í matnum.  Hér er ekkert annað en American Pale Ale (APA) eða India Pale Ale (IPA) sem kemur til greina.  Ég valdi Gölla IPA frá Brothers Brewery en þetta er stórfínn IPA með áberandi maltkeim.  Það má vel vera einhver annar IPA eða APA samt.

IMG_8429-01.jpeg

Aðferð

Ok ég sagði í upphafi að þetta væri ekki einfalt.  Fyrir mér hljómaði þetta samt afar einfalt og það gerir það svo sem en svo eru nokkur atriði sem alla vega vöfðust fyrir mér.  Við borðuðum kl 21:00 þetta kvöld!

  1. fyrst þarf að sjóða eggin, gerið það sem þið eruð vön til að fá linsoðin egg, t.d. egg sett varlega í pott með köldu vatni, látið suðu koma upp og sjóðið í um 5 mín.  Takið svo eggin varlega upp og látið í ísbað til að stöðva eldunina. Ég myndi gera eitt auka egg, svona tester!
    .
  2. Saxið ferska kryddið í smátt, blandið því svo við nauta og svínahakkið t.d. í hrærivél.  Saltið og piprið þetta líka.  Hér má alveg leika sér með krydd, sumir nota Worcestershire sósu eða álíka til að fá meira bragð.  Svo setjið þið bjórinn í, 5msk eða svo og hnoðið allt saman.  Plastfilma yfir og svo látið stífna aðeins í ískáp.
    .
  3. Hingað til nokkuð einfalt ekki satt?  Svo kemur að því að ná bévítans skurninum af eggjunum, þetta er snúið, linsoðin ekki vilja detta í sundur og eða hvítan fer bara með skurninum.  Hvernig sem þið gerið þetta þá er þetta líklega mesta dútlið.  (ég var með 6 egg og því ansi lengi, sem skýrir kannski afhverju við borðuðum seint.
    .
  4. Nú er að koma kjötinu utan um eggin.  Setjið matarfilmu á borð og takið kjötklessu og setjið á filmuna.  Fletjið út með puttunum og myndið disk sem er töluvert stærri en eggið þegar það liggur í miðjunni.  Ca 5 cm í allar áttir.  Lokið svo varlega filmunni með kjötinu í utan um eggið þannig að það þeki eggið alveg.  Fínt að vinda upp á báða endana á filmunni en þannig herðist utan um kjötið og eggið.  Gerið þetta við öll 3 eggin og látið svo standa í 10 mín í ískáp til að stífna.
    .
  5. Náði í tvo diska og eina skál eða eldfast mót eða álíka til að píska saman egg og 2 msk mjólk.   Setjið hveiti á fyrsta diskinn, eggjamjólkina í skálina og á 3. diskinn panko brauðrasp.
    .
  6. Setjið olíu (td vegetable oil) í pott eða djúpsteikingarpott og hitið upp.  Olían á að ná 176 gráðum.  Hér byrjaði ég að lenda í vandræðum, ég er bara með venjulegan pott og engan mæli þannig að ég vissi ekkert hver hitinn var.  Ég veit þó núna að ég var með of mikinn hita því brauðraspið var fljótt mjög dökkt og nánast brennt en kjötið óeldað.   Svo lækkaði ég hitann og beið þar til olían var orðin  töluvert kaldari og þá gekk þetta betur.  Skv uppskrift á að djúpsteikja þetta í 7-8 mín við 176 gráður og líklega best að fara eftir því.  T.d. fínt að prófa testerinn og sjá hvort vanti uppá steikinguna eða hvort það sé of mikið (eggið harðsoðið).
    .
  7. Alla vega, veltið eggjunum upp úr hveiti, svo eggjamjólk og loks brauðraspinu og djúpsteikið svo varlega.

IMG_20190309_185315_308.jpg
Pörunin

Það er virkilega flott að kljúfa eggin í tvent og bera þannig fram með sinnepi (ég notaði hunangs Dijon sinnep) og steiktan lauk eða bara eitthvað sem ykkur finnst passa.  Klettasallat kemur líka mjög vel út með þessu.  Svo er það IPA eða APA.  Þessir bjórstílar eru beittir og öflugir og ráða vel við þennan rétt.  Humlabitið klýfur fituna og opnar upp réttinn og kolsýran skefur góminn og gerir klárt fyrir næsta bita.  Karamellumaltið tengir fullkomlega við djúpsteikta brauðraspið og virkar nánast eins og eðlilegt framhald af því í munni.  Svo er þessi stíll dálítið stökkur ef svo má segja, beiskur og hvass sem passar vel við stökka brauðhjúpinn á kjötinu.  Mér fannst beiskjan koma skemmtilega út sem andsvar við eggjarauðunni og tvinnaði andstæður saman á einhvern hátt. Þetta er alveg mögnuð pörun og Gölli frá þeim bræðrum í Eyjum er frábær í þetta.

Sturlaður morgunverðar stout frá RVK Brewing Company með „poached“ eggi í morgunmat!

RVK Brewing Company er eitt af okkar nýju brugghúsum hér á Íslandi og þeir virðast komnir til að vera.  Það er allt á fullu hjá þeim í alls konar og spennandi tímar framundan.  B&M leit við hjá þeim um helgina í spjall og smakk.  Þeir Siggi og Valli voru hressir þegar ég bankaði á gluggann og ekki vantaði gestrisnina.  Þeir voru að stússast eitthvað í jólabjórnum þegar ég kom og ég fékk að smakka jafnvel þó hann sé ekki tilbúinn eins og sakir standa.   Um er að ræða jóla IPA með alls konar kræsingum og mætti kannski flokka sem pastry IPA miðað við innihald en hann er þó alls ekki sætur á tungu eins og bakkelsis bjór jafnan er.  Það er kannski af því að Valli tróð heilu jólatré með seríum og öllu í suðuna, reyndar tók hann seríuna af rétt áður en það hljómar ekki eins skemmtilega.  Svo er hellingur af humlum í þessu auðvitað sem gefur beiskjuna á móti sætunni.  Auk jólatrés settu þeir mandarínur með negulnöglum í, gömlu góðu loftkökurnar sem sumum finnst ómissandi á jólunum og svo heila dós af Mackintosh’s með góðu molunum og þeim vondu,  sem sagt innihaldið án umbúða.  Útkoman er þessi skemmtilegi og mildi IPA þar sem finna má ögn sætu í bakgrunni og eitthvað lúmst krydd sem hlýtur að vera negulinn en svo eru furunálar líklega bæði frá trénu en líka humlunum.  Hlakka til að smakka þegar hann verður tilbúinn, lofar mjög góðu og mun jafnvel, en ég veit það þó ekki, koma í flöskur í vínbúðina?

Valli lofaði mér svo að smakka alveg svakalega flotta humlabombu, double IPA með alveg hreint haug af Idaho 7 humlum, þessi var eiginlega alveg tilbúinn, kolsýrður og kaldur og í raun bara að detta í sölu hjá þeim.  Svakalega ljúfur.   Það eru fleiri flottir á krana hjá þeim sem vert er að nefna, Le Bon Grisette er frábær létt frískandi saison með Kalamansi & Guava sem kom verulega á óvart og svo er ketilsýrður súrbjór, Verum bara vinir með ástaraldin sem er alveg svakalega ljúffengur, mæli með þeim báðum.

20181102_152023-01.jpeg
Að lokum vil ég nefna Morning Glory af því að ég var að fjalla um bakkelsis bjór (Pastry beer) hér um daginn en þessi er ansi flippaður.  Við erum að tala um kjarngóðan amerískan morgunverð í glasi, hann hefur allt sem Mikkeller Beer Geek Breakfast hafði ekki enda er það bara venjulegur stout að mínu mati, alveg fínn samt.  Bjórinn er um 8% imperial stout bruggaður með höfrum og lactósa sem er þá staðgengill mjólkur og svo kassavís af Cocopuffs, amerískar pönnukökur og ristað bacon og svo er líka hellingur af hlynsýrópi til að toppa þetta allt saman.  Þetta er heldur betur rugluð innihaldslýsing en það góða er að hann gengur alveg upp, alla vega fyrir þá sem á annað borð hafa gaman af bakkelsis stout.   Það er rist og ögn reykur frá baconinu og ristaða maltinu, lactosinn og hafrar gefa fyllingu og mýkt, nánast mjólkurkennd áferð og svo finnur maður sýrópið skemmtilega í gegn.  Þetta er þannig ögn sætur stout en þó með þessa léttu rist og reyk.   Ég sagði við Valla að það eina sem vantaði í þennan bjór væri Lýsi og egg!  Það kom einhver prakkarasvipur yfir hann þegar ég sagði þetta, hver veit hvað gerist næst?  Þetta er alla vega skemmtilegt og menn geta prófað þetta bara núna í þessari viku en nánari yfirlýsing mun koma á síðu þeirra hjá RVK Brewing á næstunni.

Þennan bjór væri ég til í að fá í umbúðir til að taka með heim því ég hef verið að leika mér með poached egg undanfarið, ég veit ekki hvað það kallast á íslensku, en þessi morgunverðarbjór myndi parast vel með eggjunum…eða alla vega að nafninu til.

Ég er kominn hálfa leið með að ná tækninni og ákvað því að lauma smá uppskrift með hér.

IMG_7688Poached egg með ferskum létt ristuðum aspas, hráskinku og parmesan

Það sem þarf:

  • Ferskur aspas, eitt búnt ca
  • Parmesan ostur eða álíka
  • Egg miðað við hve svangur þú ert
  • Sítróna 1 stk
  • Hráskinka 1 pakki
  • Epla edik eða annað ljóst edik 2 mtsk
  • Olífuolía 3 mtsk
  • Hvítlaukur, 3 geirar

Aðferðin:

Það er smá kúnst að gera eggin fullkomin, þau þurfa svo sem ekki að líta þannig út, aðallega að þau bragðist vel en það er bara svo flott þegar maður nær þeim hnöttóttum og laus við tægjur.

Fyllið meðalstóran pott með vatni þannig að dýpi sé um ca 6 cm eða svo.  Náðið upp suðunni og lækkið svo hitann þannig að búblurnar hverfa og það nánast bærist ekki vatnið.

Egginn brjótið þið í litlar þröngar skálar eða bolla, eitt í hvert ílát.  Setjið svo 2 mtsk edik í pottinn og hrærið. Þetta hjálpar til við að halda eggjunum saman á hnattlaga formi.  Það virðist einnig mikilvægt að nota fersk egg en þau virðast halda betur þessari fallegu lögun sem við erum að leita eftir.  Notið skeið til að skapa sterka iðu (vortex) og látið svo eitt egg renna niður í miðjan vortexinn.   Látið svo liggja í þessu í 3 mín eða svo.  Fer dálítið eftir hversu linsoðin eggin eiga að vera.

Lyftið svo varlega egginu upp með götóttri skeið og látið renna vel af, það má þerra með pappír.   Svona gerið þið við hvert egg, fer auðvitað eftir fyrir hve marga er eldað.   Ef þið eruð með mörg egg  eða þið þurfið að græja eitt og annað má geyma eggin í ísbaði þar til klárt til að bera fram.  Annars halda eggjarauðurnar áfram að eldast.

Næst er það matarolía á pönnu, ca 3-4 mtsk.  Pressið svo 3 hvítlauksgeira og setjið á pönnuna, kreistið sítrónusafa úr heilli sítrónu yfir og rífið svo börkinn ofan í pönnuna.  Náið upp hita og bætið svo aspasinum útí og látið malla í 7-8 mín á meðan þið veltið stöngunum um með töng.  Aspasinn á að verða mjúkur en ekki detta í sundur.

Raðið svo aspas á diska, setjið sneið af hráskinku yfir og svo eitt egg ofan á þetta.  Nú eru eggin líklega köld ef þið hafið verið með þau í ísbaðinu.  Gott er að hita eggin upp aftur  fyrir framreiðslu með því að lauma þeim í skál með soðnu vatni í 30 sek.   Rífið svo parmesan ost yfir og njótið.  Þetta er bara geggjað og sætur , létt reyktur imperial stout með kórónar allt.  Ég reyndar bauð uppá þetta sem kvöldverð þannig að það er ekkert mál.  Þarf ekkert að vera morgunmatur.

Páskaegg frá HR konfekt með rétta bjórnum, er til eitthvað betra?

Fyrir okkur hjá Bjór & Matur eru páskarnir tími til að njóta, við erum að tala um frí frá vinnu og svo allt hnossgætið, súkkulaði í stórum stíl, páskabjórinn og svo má ekki gleyma blessuðu lambinu.  Það eru margir sem framleiða páskaegg hér á landi, hillurnar í búðunum eru þegar farnar að fyllast af þessu. Fyrir súkkulaðifíkil eins og mig þá eru hins vegar til páskaegg og svo eru til PÁSKAEGG!   Já ég segi það bara, súkkulaði er ekki bara súkkulaði, þetta er svona rétt eins og með bjórinn, það er til fjöldaframleitt óspennandi súkkulaði og svo erum við með vandað hanverks súkkulaði.  Minn uppáhalds súkkulaðikarl hér heima er Hafliði Ragnarsson frá HR konfekt / Mosfellsbakarí,en þar á bæ kunna menn sko að gera súkkulaði og þegar kemur að páskaeggjum þá erum við að tala um hrein listaverk.  Eggin eru svo falleg að maður vill eiginlega ekki borða þau, bara horfa.  Það er samt hluti af þessu öllu saman og gleymist oft, maður á að nota öll skilningarvitin þegar maður er að njóta sælkeravöru ekki bara bragðskynið.

Súkkulaði og bjór á vel saman, menn virðast eiga erfitt með að sjá það fyrir sér en það er svo sannarlega málið.  Við höfum áður leikið okkur með bjór og súkkulaði með mjög góðum árangri.   Þetta árið ákváðum við að prófa helling af bjór og finna hina fullkomnu pörun með eggjunum frá Hafliða en hann gerir þrjár gerðir, dökkt 70% súkkulaði, mjólkursúkkulaði 38% og dulcey blond 32% súkkulaði.  Reyndar líka eitthvað af eggjum úr hvítu súkkulaði.  Ég get sagt ykkur það að mér leið eins og krakka í leikfangabúð þegar ég fékk túrinn í súkkulaðigerðinni þeirra!  Ég gæti sennilega ekki unnið þarna án þess að lenda í stórkostlegum vanræðum.

Ár hvert dettur haugur af páskabjór í vínbúðirnar, flest allt frekar óspennandi en það er þó einn og einn góður.  Við ákváðum að vera ekkert sérstaklega að einbeita okkur að páskabjór með páskaeggjunum en það slæddust þó nokkrir inn í prufurnar.  Hér er svo afraksturinn.

Glæsilegt gullið Dulcey Blond egg.

IMG_7174
Byrjum á Dulcey en þetta er uppáhalds egg konunnar.  Dulcey súkkulaði er elegant ljós karamellubrúnt og lungnamjúkt með rjómakenndri áferð í munni.  Það er nokkur sæta á tungu en ekki eins sætt og hvítt súkkulaði eða mjólkursúkkulaðið.  Við finnum svo ögn karamellukeim og smákökur og það örlar fyrir kókos.
Eftir smakk kvöldsins komumst við að því að Dulcey eggið passaði við nánast alla bjórstílana en það sem stóð uppúr voru súru ávaxtabjórarnir.  Það er vel þekkt hjá súkkulaðigerðum að tengja ávexti/ber við súkkulaðið, maður sér það t.d. í sumum molunum sem eru inní eggjunum frá HR.  Sumir eru með jarðaberjafyllingu eða ástaraldin ofl.
Oud Beesel Kriek er með betri kirsuberjabjórum sem við höfum aðgang að hér heima og gengur mjög vel með súkkulaði.  Kriek er belgískur villigerjaður bjór, bruggaður með örverum úr andrúmsloftinu sem gefa frá sér súran funky keim, svo er bjórinn látinn þroskast á kirsuberjum í mánuði og drekkur hann þannig í sig dásamlegan berjakeiminn.  Bjórinn er þannig aðeins súr og svo með áberandi kirsuberjabragði.  Svona bjór er líka nokkuð kolsýrður en kolsýran hjálpar til með að hreinsa palletuna og létta á öllu milli bita. Súkkulaðið þekur nefnilega dálítið góminn með dásamlegum rjómakenndum súkkulaðihjúp sem kolsýran skefur svo af milli bita.  Sýran í bjórnum dregur ögn úr sætunni í súkkulaðinu og kirsuberin tengjast mjög vel við súkkulaðið og gefa ákveðin elegans ofan á elegant.   Þetta alveg stein lá.

IMG_7148.JPG

Við prófuðum fleiri súrbjóra með þessu eggi og kom nýji collab bjórinn frá Borg stórkostlega út með þessu eggi líka.  Kalsari Kannit sem er ketilsýrður bjór með ástaraldin og ferskjum. Þessi bjór er bruggaður með einhverju finnsku brugghúsi sem ég bara þekki ekki neitt til. Verst að þessi kemur ekki í búðir hér heima en bjórinn er virkilega flottur og fæst á helstu börum borgarinnar um þessar myndir.

Dökkt 70% lífrænt súkkulaði frá Perú (Fairtrade).

Uppáhalds súkkulaðið mitt persónulega er þetta hér, dökkt, mikið og geggjað með kakó og svo ögn beiskju í bland við sýru. Eggið er ofsalega fallegt svona undið og snúið með kopargyllingu.   Hér koma ávaxtabjórarnir vel út, Oud Beersel Kriek er t.d. mjög flottur hér líka en bjórinn bæði léttir á öllu og gefur svo frísklegan ávaxtakeim ofaná.  Það sem okkur fannst hins vegar enn betri pörun var nýji páskabjórinn frá The Brothers Brewing í Vestmannaeyjum sem heitir einfaldlega Páska Bjór Milk Stout 8% og er svo kallaður imperial milk stout.

IMG_7202

Stout er kolsvartur bjór sem bruggaður er með brenndu byggi sem gefur bæði lit og svo ristað bragð sem oft minnir á expresso og dökkt súkkulaði.  Milk stout er svo samskonar nema að í hann er notaður mjólkursykur, lactosi sem gerfrumurnar geta ekki notað í gerjunina og því situr hann eftir í loka afurðinni og gerir bjórinn sætari og meira djúsí.  Páska Bjór Milk Stout er einmitt það, mjúkur og rjómakenndur í munni með sætum nótum en einnig þessa notalegu kaffirist og svo er smá lakkrís.  Hver kannast ekki við kaffi og súkkulaði annars?  Þetta kemur í staðinn og er enn betra.  Hér er tengingin augljós,  kaffirist og súkkulaði, sætan í bjórnum tónar svo beiskjuna frá súkkulaðinu niður og þetta verður bara æðisleg upplifun.  Páskabjór með páskaeggi, bæði dæmi um handverk af bestu gerð.

Við prófuðum alla bjórana með öllum eggjunum og komumst að því að Páska Bjór frá The Brothers gengur vel með þeim öllum.  Hér er líklega bara hinn fullkomni páskabjór á ferðinni?

Mjólkursúkkulaði 38%

Loks vorum við með klassískt páskaegg úr mjólkursúkkulaði, mjög sætt súkkulaði sem bráðnar í munni og þekur góm og tungu með feitri kakóskán.  Ekki svo að skilja að það sé neikvætt samt.  Fyrir mína parta er þetta aðeins of sætt en krakkarnir elskuðu það.  Hér komu súru bjórarnir vel út og tóna vel niður sætuna, porter og stout koma vel út líka með þessu og bæta rist og ögn beiskju við upplifunina.  Myrkvi frá Borg og Páska Bjór Milk Stout frá Brothers voru flottir með t.d.  Hins vegar er belgískt öl alltaf skemmtilegt með súkkulaði, belgíska ölið er oftast lítið sem ekkert beiskt og svo erum við með ávaxtalega sætu, oft karamellu og gerkrydd sem gaman er að leika sér með við mat. Belgískur bjór er oft einnig nokkuð kolsýrður en það er einmitt þægilegur eiginleiki þegar við erum með feita áferð í mat. Páskabjórinn þetta árið frá Borg brugghúsBarabas nr 57 (8%) er einmitt skemmtilegur belgískur dubbel sem fer blíðum höndum um tunguna með snefil af dökkum ávöxtum og notalegum belgískum kryddum.  Barabas kom vel út með mjólkursúkkulaðinu og kolsýran er mjög hentug hér því hún léttir skánina af gómnum og hreinsar alveg palletuna og gerir klára í næsta skammt.

IMG_7213

Það þarf svo alltaf að hafa í huga við svona lesningu að hér ræður smekkur manna öllu.  Ofanritað er einungis ætlað sem leiðbeiningar fyrir þá sem vilja prófa sig áfram.  Við vorum þrjú í þessum pælingum (takk Ólafur Darri fyrir aðstoðina) og eru þetta niðurstöður okkar þriggja en segir í raun ekkert um hvað þér þykir best.  Njótið heil!

 

Hrærð egg að hætti Masterchef með Beer Geek Breakfast stout í morgunmat

Má bjóða þér hinn fullkomna morgunverð á laugardagsmorgni?  Dásamleg hrærð egg eins og Gordon Ramsay gerir það á ristuðu súrdeigsbrauði með grilluðum tómötum og bacon og svo Beer Geek Breakfast Stout frá Mikkeller með!

Ég hef alltaf haft dálítið gaman að því að fylgjast með matreiðsluþáttum í sjónvarpinu.  Mér finnst sérlega gaman að hinum ofvirka snillingi Gordon Ramsay en hann gerir margt ansi ljúft.  Ég hef stundum prófað að apa eftir honum með misgóðum árangri. Gordoninn hefur í gegnum tíðina oft talað um hve erfitt sé að gera hrærð egg (scrambled egg) svo vel sé.  Það er svo vandasamt að hann lætur nýja kokka í eldhúsum hans um víða veröld elda þetta fyrir sig og ef þeir gera það rétt þá veit hann að þeir muni spjara sig.

Hér mé sjá kappann sýna hvernig þetta er gert (myndbrot).  Ég ákvað að láta vaða í þetta því mér finnst stundum gott að fá mér hrærð egg með einhverju brösuðu ss bacon í morgunmat um helgar t.d og ekki verra að fá góðan stout með.  Fyrsta tilraunin klikkaði auðvitað hjá mér og ég endaði með hrærð egg bara svona eins og maður er vanur, allt í lagi en ekkert sérstakt.  Ég dreif mig strax í aðra tilraun og þá tókst þetta og guð minn góður hve mikill munur var á þessum tveimur útgáfum.  Seinni rétturinn var alveg magnaður og minnti í raun bara ekkert á þetta klassíska hrærða egg sem ég er amk vanur.   Þetta var svo mjúkt og „fluffy“ og einhvern veginn bráðnaði bara í munni.   Svo þarf ljúft meðlæti með og þá er ekkert betra en bakaðir smátómatar til að gefa sætuna og svo gamla góða baconið (er það ekki alltaf gott með?) og auðvitað þarf eggjahræran að liggja ofan á þykkri sneið af ristuðu súrdeigsbrauði.  Ekki spara í brauðið, það drepur allt niður að hafa bara eitthvað heimilisbrauð undir þessu.  

Innkaupalistinn (fyrir 4):

9 egg
Smjör, 3 klípur
Kokteiltómatar
Bacon
Sýrður rjómi, 3 tsk
Graslaukur, klipptur fínt
Salt og pipar
Gott brauð, helst nýbakað súrdeigsbrauð skorið gróft

Aðferðin:

Ok ég er langt frá því að vera einhver matreiðslumeistari en mér tókst þetta í annari tilraun þannig að þú átt góðan möguleika og erfiðið er sko þess virði, konan t.d. ljómaði öll.  Trikkið er að ofhita ekki eggin því þá verða þau kekkjótt og renna til.  Svo má alls ekki krydda eggin fyrr en í blálokin því piparinn litar eggjahræruna gráa en við viljum hafa hana skínandi gula og saltið brýtur upp eggin og skemmir áferðina.

Hitið ofninn, setjið tómata í eldfast mót, olíu yfir og salt og pipar.  Látið svo inn við ca 180 gráður.  Skerið niður bacon í litla strimla og raðið á ofnplötu inn í sama ofn.  Látið malla á meðan þið hrærið eggin.  Setjið eggin í stóran pott og þrjár klípur af smjöri, ca 3 kúgaðar teskeiðar, jafnvel aðeins meira.  Ekki hafa of heitt undir, svo er bara að hræra vel með sleikju, skafa botninn allan jafnt og þétt stanslaust.  Takið pottinn af reglulega til að kæla niður, hrærið reglulega.  Smám saman byrjar þetta að þykkna og verða að eggjahræru.  Þegar hræran er að verða klár, við erum að tala um rjómakennd og aðeins kekkjótt þá takið þið af hellunni og bætið 3 tsk af sýrðum rjóma útí og hrærið.  Hér megið þið salta og pipra  að vild.  Hræran á að renna dálítið en þó halda sér á brauðinu.  

Takið bacon og tómata úr ofninum og raðið á disk, ristið súrdeigsbrauðið og setjið á diskinn og dreifið svo eggjahrærunni yfir.  Loks klippið þið graslaukinn yfir.  Smellið svo bjór í glas og vekjið makann.

Bjórinn:

Mér fannst tilvalið að hafa öl með þessu, ég meina það er hádegi á laugardegi og hvað er þá betra en MIKKELLER BEER GEEK BREAKFAST sem eins og nafnið gefur til kynna er morgunverðarbjór….eða þannig!  Bjórinn er amk stórkostlegur með áberandi ristuðu korni og kaffi sem gefur rist og kaffikeim sem er jú eitthvað sem flestir tengja við morgunverð ekki satt?  Beiskjan frá humlunum tekst vel á við fituna í bacon sneiðunum og smjörinu og opnar allt upp, sætan frá tómötunum tvinnast svo í sætbeiskum dansi með humlunum og verður þannig ekki of mikil.  Karamellukeimurinn af ristuðu brauðinu magnast dálítið upp líka með maltinu í bjórnum. Allt er þetta dálítið „heavy“ réttur en fersk beskjan og kolsýran frá bjórnum léttir á þessu öllu og gerir þetta bara dásamlegt.