Við Sigrún erum mikið fyrir eftirrétti, það er bara svo ljúft að enda góða máltíð með einhverju sætu og góðu sem gleður. Pavlova er einn af þessum eftirréttum sem ég hef verið pínu hræddur við að gera en elska að borða. Þessi marens lítur alltaf út fyrir að vera svo hættulegur og flókinn en svo kemur á daginn að svo er ekki. Sigrún henti í þessa um daginn og nú er ekki aftur snúið, þetta er nefnilega ekki eins flókið og það hljómar. Bara alls ekki!
Okkur finnst þessi koma vel út á eftirréttaborðinu, pínu öðruvísi og smá ögrandi, eins og sprengja af hamingju sem bíður þess að valda ursla. Æ ok ég er hættur núna, vindum okkur í þetta.
Það eru til margar uppskriftir auðvitað og vonlaust að ætla að smakka sig áfram til að finna þá bestu. Við tókum uppskriftina að marensnum frá Lindu Ben og erum fullkomlega sátt við útkomuna. Fyllingin er uppúr höfðinu á Sigrúnu minni og þvílíkt sælgæti sem hún er.
Það sem þarf í eina bombu
Marensinn
8 eggjahvítur
Salt á hnífsoddi
500g sykur
1 msk. maísmjöl
2 tsk. edik
Sítrónufylling
250ml rjómi, þeyttur
1 krukka eða 326g lemon curd t.d. frá Stonewall, eða enn betra heimalagað ef þið nennið
150g rjómaostur við stofuhita
4-5 msk. flórsykur
Aðferðin
Marensinn
Aðskiljið eggjarauðurnar frá hvítunum (8 egg), saltið hvíturnar og stífþeytið í hrærivél. Bætið sykrinum (500g) smám saman saman við á meðan þið eruð að þeyta. Þegar eggjahvíturnar eru orðnar sléttar og śtífar þá bætið þið 1 msk maísmjöli og 2 tsk ediki saman við og hrærið aðeins áfram.
Hitið ofninn í 180 gráður. Teiknið hring á bökunarpappír, t.d. með disk sem er ca 22 cm í þvermál. Hellið marensmassanum á pappírinn og mótið að vild. Hafið samt kantana háa og miðjuna flatari svo fyllingin komist þar fyrir. Það er gaman að móta þetta dálítið eins og sekk eða eins og lokuð rós. Lækkið svo hitann i 120 gráður og skellið marensnum inn og baki í 1 klukkutíma og 15 mínútúr. Látið svo marensinn kólna.
Fyllingin
Þeytið 250ml rjóma og leggið til hliðar. Þeytið svo saman 150g rjómaost og 4-5 msk flórsykur. Bætið svo lemon curd saman við og þeytið áfram þar til hefur blandast vel saman. Ef þið getið þá er geggjað að gera lemon curd sjálf, það verður töluvert betra. Blandið svo þeytta rjómanum saman við.
Loks er það bara að steja fyllinguna ofan í marensinn og svo fersk ber yfir. Svo má leika sér með þetta, t.d. Núna eru Páskar þá er hægt að mylja lítil páskaegg yfir líka.
Ég nota bjór mikið í matargerð því hann flott hráefni með margslunginn karakter sem erfitt er að fá í öðrum hráefnum. Ég hef sagt það áður, ég er súkkulaðifíkill og ég hef engin plön um að fara í meðferð. Stout bjór og súkkulaði er góð pörun, stout er sérlega flottur með eftirréttum því hann er með skemmtilega blöndu af kaffi og dökku súkkulaði í sínum bragðprófíl.
Hér datt ég inn á eftirrétt sem sameinar þetta, sem sagt súkkulaði og stout. Þessi réttur er eins geggjaður og hann lítur út fyrir að vera. Uppskrift er fengin frá The Beeroness á instagram en þessi kona gerir mjög spennandi rétti úr bjór.
Það sem þarf:
170 g dökkir súkkulaðihnappar
1/3 bolli góður stout, ég notaði hér Morning glory frá RVK Brewing
115g brætt smjör
1 bolli sykur
1/2 bolli púðursykur
3 stór egg
3/4 bolli hveiti
1 tsk salt
1/4 bolli bökunarkakó
Fyrir stout súkkulaðisósuna
280 g dökkt súkkulaði
1/3 bolli súkkulaði stout. Ég var með Jóla Jólru imperial stout frá Ölvisholti
Vanilluís
Aðferðin:
Best er að gera kökuna degi áður en hún er borin fram þá verður hún blautari og þéttari.
Byrjið á að setja súkkulaðihnappana (170 g) í skál sem þolir hita. Setjið skálina yfir pott með vatni í. Ekki láta vatnið snerta skálina. Stillið á meðalhita, bætið 1/3 bolla stout út í og bræðið súkkalaðið saman við bjórinn. Takið af hitanum.
Í stóra skál blandið þið saman bræddu smjöri (115 g), sykur (1 bolli) , púðursykur (1/2 bolli). Hrærið saman, bætið svo þremur eggjum saman við og blandið vel.
Blandið súkkulaði blöndunni saman við og loks salti, hveiti (3/4 bolli) og kakó (1/4 bolli). Hrærið þessu saman svo það sameinist allt. Leggið bökunarpappír í ferhyrnt mót og hellið blöndunni yfir.
Bakið við 180 gráður í 25-30 mín. Kakan á að vera þétt að ofan en virðast nánast fljótandi undir yfirborðinu. Látið svo kólna yfir nótt helst, en það þarf samt ekki.
Svo er það heita súkkulaðisósan.
Bræðið dökkt súkkulaði (280g) saman við 1/3 bolla stout yfir vatnsbaði eins og áður. Gott er að hafa bjórinn hér ekki of ramman, imperial stout eða jafnvel pastry stout kemur vel út hér.
Flóknara var það ekki. Skerið kökuna í ferkantaða bita og raðið á disk. Setjið svo væna skeið af vanilluís ofaná, svo annan brownie bita og loks aftur vanilluís efst. Hellið svo yfir stout súkkulaðisósunni og sáldrið nokkrum súkkulaðihnöppum efst og berið fram.
Pörunin
Hér er pörunin augljós, kaffiporter eða stout eða kannski enn betra sætur imperialstout er frábær pörun. Þetta gæti samt orðið dálítið þungt í maga svona. Við prófuðum því bláberja súrbjór sem kom fáránlega vel út. Ber og súkkulaði er auðvitað augljós pörun. Ég átti til Skyrjarm jólabjór og notaði hann og mikið svakalega kom þetta vel út.
Við Sigrún elskum góða eftirrétti, eitthvað létt og ljúft til að enda fullkomna máltíð. Það er allt of oft þannig að þegar maður fer út að borða að þá eru eftirréttirnir ekkert sérstaklega eftirminnilegir. Við erum því oftast hætt að panta þá bara. En nóg um það. Hún Sigrún mín henti í þennan um daginn þegar okkur var boðið í mat til vina okkar Snædísar og Ragnars Freys (Læknirinn í Eldhúsinu). Þetta var svo ljúft að Ragnar vildi fá að hafa réttinn í nýju bókinni sem hann er að vinna að um þessar mundir.
En vindum okkur í þetta. Það sem þarf fyrir ca 4
1 flaska freyðivín, ekki þurrt. Prosecco myndi ganga hér.
hvítt súkkulaði eða saltkaramellusúkkulaði til að rífa yfir
1 peli af rjóma
Aðferðin
Athugið, þessi uppskrift er að þróast mjög hratt. Sigrún gerði þetta upphaflega bara eftir höfðinu, svo gerði ég réttinn heima hjá Ragnari þegar hann var að taka upp fyrir bókina þar sem Sigrún komst ekki. Þá breyttist uppskriftin aðeins og svo hef ég aðeins endurstillt hana hér þegar ég skrái hana niður. En það er í lagi, þetta eru engin geimvísindi. Hér er það smekkur manna sem ræður, smakkið þetta bara dálítið til. Það má líka leika sér með berin, t.d. hafa brómber líka eða bláber. Ég held líka að væri gott að skafa úr ástaraldinn efst sem skaut. En alla vega.
Takið berin og skolið varlega, skerið blæjuberin í tvent og fjarlægið vængina. Blandið berjunum saman í fallegt glas á fæti. Hálffyllið glasið eða rúmlega það, hellið freyðivíni yfir þannig að það nánast hylur berin en samt ekki alveg. Látið standa í kæli á meðan haldið er áfram.
Setjið ca 200 g af rjómaosti, um 80 g flórsykur og 2-3 kúfaðar lemon curd í skál. Ath heimalagað lemon curd er margfalt betra en tekur smá tíma. Hrærið saman og smakkið til. Hér má alveg vera dálítið sítrónubragð. Þeytið þetta svo saman í hrærivél. Rífið sítrónubörk, passið að fara ekki mikið í hvíta lagið. Blandið saman við og smakkið til. Stillið sítrónuna eftir smekk. Þegar þetta er komið vel saman þá bætið þið pela af rjóma og þeytið áfram þar til þetta er orðið mjúkt og notalegt og farið að stífna smá. Ekki samt þeyta allt of lengi.
Takið fram berjaskálarnar, hellið rjómablöndunni yfir, skreytið efst með blæjuberjum og hindberjum og svo eitt blæjuber með vængjunum. Saxið svo hvítt súkkulaði og dreyfið yfir. Berið strax fram.
Hellið góðu freyðivíni í glas og berið fram með réttinum, hér má vera þurrt cava eða kampavín en ég held að aðeins sætara eins og sec komi líka vel út hér. Sleppið samt prosecco, það er ekkert sérstakt að okkar mati, en það er jú bara við. Þessi réttur er afskaplega ljúfur og frískandi. Gengur líka bara sem stakur „fordrykku“ á pallinum í sólinni!
Ég gerði þessa uppskrift eignlega óvart. Já ég hef svo sem aldrei gefið mig út fyrir að vera einhver meistara kokkur, ég er bara að gera tilraunir. Ég lagði upp með að finna uppskrift af soufflé, svona eggja soufflé. Mér fannst þessi líta svo vel út og var ekkert að lesa hana í gegn. Það var ekki fyrr en ég kom að flórsykrinum að ég áttaði mig á að hér væri kannski annars konar soufflé á ferðinni. Já ekki dæma, ég er að koma hreint fram hérna. En ég sé alls ekki eftir þessu, þessi réttur er frábær og jafnframt svo elegant.
Það sem þarf í þetta (4 soufflé)
brætt smjör, til að bera á mótin
2 sítrónur, safinn og rifinn börkur
2 eggjarauður og 4 eggjahvítur
6 kúfaðar matsk sykur
3 kúfaðar tsk maíshveiti
1 kúfuð mtsk hveiti
90ml rjómi
110ml nýmjólk
flórsykur til að skreyta
Aðferðin
Takið til 4 soufflé mót og pennslið að innan með smjöri. Setjið smá sykur í hvert mót og þyrlið og veltið þannig að það myndast smá sykurhjúpur innan á mótunum. Hellið svo öllum lausum sykri úr. Látið svo mótin standa í kæli.
Með fínu rifjárni rífið þið sítrónubörk af 2 sítrónum. Passa að rífa ekki niður í hvíta undirlagið, það er of biturt. Skerið sítrónurnar svo í tvennt og kreistið safa úr. Blandið rifna börkinum saman við. Setjið til hliðar.
Aðskiljið eggjarauður frá hvítunni, setjið 4 eggjahvítur í stóra skál. Í aðra skál setjið þið tvær eggjarauður en hinar tvær notið þið ekki hér. Bætið 6 mtsk sykur við eggjarauðurnar og látið bíða.
Setjið hveitið, maíshveiti og rjóma í skál og pískið saman þar til þið fáið mjúkt krem. Hitið mjólkina í potti alveg að suðu. Blandið svo mjólkinni saman við hveitikremið og pískið saman. Byrjið að smá mjólk til að byrja með og hrærið vel saman og pressið út alla klumpa. Hrærið þar til þið eruð komin með mjög þykkt krem. Bætið þá restinni af mjólkinni saman við og blandið saman.
Hellið blöndunni aftur í pottinn og setjið á meðal hita. Pískið stöðugt því annars getur þetta byrjað að brenna í botninn. Þegar þið finnið að þetta er farið að þykkna þá takið þið pottinn af hitanum og bætið sítrónusafanum út í í litlum skömmtum.
Notið trésleif til að hræra saman eggjarauður og sykurinn frá því áðan. Við viljum frá þykkt krem. Bætið þessu þykka kremi svo saman við blönduna í pottinum. Blandið vel saman. Setjið pottinn aftur á helluna og hitið þar til fer að sjóða. Hrærið stöðugt á meðan. Takið svo af hitanum aftur og látið kólna áður en eggjahvítur fara saman við.
Eggjahvíturnar þurfa að vera í alveg hreinni skál, engin korn eða óhreinindi. Passið að enginn skurn eða eggjarauðurest sé í hvítunum. Stífþeytið hvíturnar þar til þið getið myndað stífa toppa.
Þegar blandan í pottinum er farin að kólna er hægt að blanda hvítunni saman við. Blandan þarf að vera kaldari en líkamshiti. Byrjið á að setja stóra skeið af hvítunum í blönduna og hrærið vel saman við þannig að blandan verði ekki eins stíf. Næst notið þig stóra málmskeið eða sleikju og bætið afar varlega afganginum af hvítunum saman við. Veltið þessu saman varlega. Markmiðið er að fella lofti inn í deigið. Haldið áfram þar til þið eruð komin með fölgula blöndu án eggjahvítustrengja.
Takið fram mótin og sléttfyllið þau með blöndunni. Sléttið yfir með hníf t.d. Gott er svo að renna hnífsoddi meðfram kantinum allan hringinn innanvert til að losa aðeins um þar. Þá lyftist deigið betur þegar það bakast og fellur síður.
Hitið ofninn í 180 gráður. Setjið svo mótin í miðjan ofn í ca 14-15 mín eða þar til þetta hefur lyft sér vel og orðið gyllt og fallegt. Fylgist vel með allan tíman. Alls ekki opna ofninn að óþörfu. Um leið og soufflé hefur lyft sér og byrjað að fá þessa gylltu áferð þá takið þið mótin út. Ath bökunartími fer eftir stærð mótanna.
Berið fram um leið og þetta er komið út úr ofninum. Dustið flórsykri yfir eftir smekk.
Pörunin
Freyðivín er geggjað með svona sítrónu eftirréttum. Hins vegar þarf að passa að vínið sé ekki þurrt. Við elskum þurrt freyðivín á þessum bæ en hér gengur það ekki. Þurrt freyðivín verður hvasst og leiðinlegt með súrum réttum. Sýran virðist skemma dálítið vínið. Hér viljum við vín í sætari endanum en það kemur vel á móti sýrunni í þessum rétt. Búblurnar opna líka réttinn upp og létta á öllu. Þetta er frábært combo.
Espresso martini er einn af okkar uppáhalds kokdillum en ég hef verið að reyna að mastera hann í nokkurn tíma núna. Þegar ég svo náði honum fullkomnum fór ég að fikta í honum áfram og leika mér aðeins. Ég prófaði t.d. að setja létt þeyttan rjóma ofan á drykkinn rétt áður en ég ber hann fram. Þetta hefur slegið í gegn hér á mínu heimili og gestir eru svakalega ánægðir. Rjóminn tekur í sig kaffið og Kahlua og verður algert salgæti þarna ofaná.
Um daginn sátum við saman konan og vinkona okkar og gæddum okkur á þessum drykk, þvílíkt hnossgæti, fljótlega fór umræðan að snúast um hvort ekki væri hægt að gera þetta sem rétt. Eftirrétt t.d. …þar sem Sigrún mín er mjög hrifin af tiramisuþá datt mér í hug að auðvitað væri hægt að gera einhvers konar espresso martini tiramisu! Hugmyndin var fædd, mér leiddist í dag svo ég ákvað að prófa þetta. Ath ég er að búa til þessa uppskrift en byggi aðeins á tiramisu uppskrift auðvitað þannig að mögulega mun ég breyta henni með tímanum, fínpússa. Það kann vera að þetta hafi verið gert áður, reyndar mjög líklegt en ég hef amk ekki séð neina slíka uppskrift.
Svona gerði ég þetta.
Það sem þarf fyrir 3:
Kokteilhristari
Ísmolar
Ca 200 ml rjómi
1 egg (hvítan og rauðan aðskilin)
70 ml Kahlua + 2 tsk auka í rjómann
70 ml kalt sterkt kaffi
70 ml Vodka
Suðusúkkulaði til að rífa yfir (má sleppa)
½ mtsk bökunarkakó
250 g mascarpone ostur (við stofuhita)
50 g sykur
8 stk lady fingers kex
Aðferð
Ok við erum að tala um að þetta er espresso tiramisu martini og það þýðir að ég geri espresso martini hrist í shaker með klökum og allt, ekkert plat. Ég mæli með að gera þrefalda uppskrift, þá er hægt að hella í sér glas til að njóta á meðan eftirrétturinn er lagaður.
Drífið í því að hella uppá gott sterkt kaffi, hellið því svo í skál svo það kólni hraðar. Látið 250 g mascarpone ost og 1 egg ná stofuhita, mikilvægt. Aðskiljið svo hvítuna og rauðuna. Þeytið saman rauðuna og 50g sykur í skál. Þegar þetta er komið saman þá bætið þið mjúkum mascarpone ostinum saman við ásamt 2 tsk Kahlua og þeytið þar til vel blandað saman eins og smjör.
Þeytið eggjahvítuna í annari skál þar til þið náið að mynda toppa. Ekki alveg stífþeyta eins og við marens. Leggið til hliðar.
Gerið espresso martini. Takið fram hristarann og setjið nokkra ísmola í hann, svo 70 ml Kahlua, 70 ml kaffi og 70 ml Vodka (ef þið ætlið að gera þrefalda þá er betra að gera þriðja drykkinn sér). Hristið eins og enginn sé morgundagurinn. Takið fram 4 martiniglös og hellið í gegnum sigti í eitt glas, ef þið ætlið að fá ykkur þá eruð þið með 5 glös. Brjótið svo 8 lady fingers í minni bita og leggið í skál og hellið svo espresso martini yfir og látið þetta blotna dálítið. Raðið svo lady fingers í 3 martiniglös.
Þvínæst blandið þið eggjahvítunni varlega saman við mascarpone blönduna. Dreifið svo þessu yfir lady fingers lagið í glösunum þremur. Grófsaxid suðusúkkulaði og dreifið yfir mascarpone lagið.
Næst setjið þið 200 ml rjóma í skál og svo hellið þið espresso martini úr hinu glasinu saman við (sem sagt það fer heill einfaldur kokteill í þetta). Þeytið svo rjóma martini blönduna þar til þið eruð sátt..
Dreifið rjómanum svo yfir mascarpone lagið, sigtið í lokin kakódufti yfir og setjið í kæli. Þetta þarf amk 3 tíma í kæli en sólarhringur væri fullkomið, þá nær bragðið að koma fram og blandast vel.
Sigrún kynnti mér fyrir þessu fyrirbæri fyrir mörgum mörgum árum þegar við vorum eiginlega krakkar að skoða París. Hún pantaði sér lemon tart á litlu kaffihúsi skammt frá Eiffelturninum og auðvitað glas af kampavíni með. Þetta var geggjað!
Eftir þetta reyndum við að líkja eftir þessu hér heima enda á þeim tíma ekki hægt að fá neitt svipað hér á kaffihúsum. Stutta sagan er að þetta tókst bara engan vegin enda færni í eldhúsinu ekki uppá marga fiska þá.
Nú höfum við hins vegar náð meiri leikni í eldhúsinu. Ég ákvað fyrir líklega tveim árum að prófa aftur að endurlifa þessa hamingju og gerði sítrónu marens tertu að hætti Nigella Lawson. Ég setti þessa færslu inn hér undir „gómsæt sítrónu marengs terta..“. Þessi terta kom mjög vel út og gladdi konu mína mikið á þeim tíma. Þetta er líka mjög gott en samt ekki þessi Parísar upplifun. Við vorum svo sem sátt þar til við prófuðum lemon tart frá Gulla Arnar. Þessi gaur kann sitt fag, lemon tartið hans sendi okkur beint til Parísar og þá var ekki aftur snúið. Ég ákvað að reyna aftur, fór á netið og googlaði. Það er haugur af uppskriftum til, ég skil í raun ekki afhverju ég reyndi þetta ekki fyrr. Ég raðaði saman nokkrum sem ég fann og þetta er útkoman, alveg geggjað og alveg á pari við það sem við fengum í París. Veii!
Það sem þarf í þetta:
fyrir bökuna
175 g hveiti
25 g möndlu mjöl
75 g flórsykur
smá salt
90 g smjör
35 g egg
fyrir lemon curd
250 g smjör
500 g sykur
300 g sítrónusafi úr ca 8 sítrónum
4 egg
rifinn sítrónubörkur úr tveim sítrónu
fyrir marensinn
½ tsk „cream of tartar“
200 g sykur
eggjahvítur úr 4 eggjum
Aðferðin
Bakan
Byrjið á bökunni, það má gera hana daginn áður, líklega betra. Ég fann þessa uppskrift hér og fylgdi henni bara alveg. Kom mjög vel út.
Setjið þurrefnin í hræirvélaskál, 175 g hveiti, 25 g möndlumjöl, 75 g flórsykur og salt. Blandið saman. Skerið svo smjörið (90 g) í litla kubba og bætið út í og hrærið vel þar til deigið er orðið eins og blautur sandur.
Pískið egg saman í skál, vigtið 35 g og hellið varlega saman við deigið á meðan þið hrærið. Hættið að hræra þegar deigið hefur sameinast, ekki hræra áfram.
pakkið deiginu inn í matarfilmu, fletjið það út og myndið ferning. Kælið í 2-3 tíma þar til kalt í gegn.
Stráið hveit á borð og keflið. Strjúkið hveiti líka á deigið. Mýkið deigið með því að þrýsta á það með keflinu hér og þar. Forðist mikla snertingu með höndum, það gerir deigið klístrað. Þegar deig er farið að mýkjast er hægt að fletja út með keflinu. Gerið eins þunnt og þið viljið. Ég var með 28 cm form en það má vera hvernig stærð sem er. Fyrir þessa stærð er ágætt að fletja deigið út á smjörpappír. Þá er auðveldara að koma deiginu yfir í formið.
Hvolfið svo deiginu yfir formið og pressið því niður í öll horn. Fletjið svo út deigið í formið og jafnið. Gerið göt með gafli í botninn hér og þar til að forðast loftbólur. Skerið svo deigið af köntunum. Kælið svo aftur í ca klst. Bakið svo í ofni, 160 gráður í 15-20 mín þar til bakan er orðin gullin og falleg.
fyllingin, lemon curd
Ég skoðaði nokkrar uppskriftir á netinu, þessi gaur hér var eitthvað svo einlægur og skemmtilegur og fransk – enskan hans alveg dásamleg. Ég sé ekki eftir að hafa prófað þessa því útkoman var stórkostleg.
Setjið smjörið (250 g) í pott, stillið á lægsta hita og látið bráðna í rólegheitum meðan annað er græjað. Kreistið 7 til 8 sítrónur eða þar til þið eruð komin með 300 g vökva. Rífið börk af einni sítrónu ofan í og blandið saman.
Þegar smjörið er bráðnað kannið hitan, smjörið á bara að vera ögn volgt. Bætið sykrinum útí (500 g) og hrærið saman. Takið svo af hellunni og hrærið áfram. Bætið einu eggi samanvið á meðan hrært er stöðugt. Passa að hræra hratt og strax því botninn á pottinum er heitari en blandan sjálf. Því næst er næsta eggi bætt við á sama hátt og svo koll af kolli.
Færið pottinn aftur á helluna og hækkið hitann. Bætið svo sítrónublöndunni saman við og hrærið vel. Náið upp suðu, þetta þarf að vera kröftug suða en látið bara sjóða í nokkrar sek. Takið af hellunni, hrærið áfram um stund og látið svo kólna.
Þegar lemon curd er farið að stífna aðeins er henni hellt yfir bökuna. Látið svo standa í kæli í 3-4 klst. Þetta er ríflegt í þetta mót. Afganginn setjið þið bara í krukku og notið síðar!
Marensinn
Það eru til alls konar tilfæringar yfir hvernig maður gerir ítalskan marens en hann er mjög flottur á svona tertur. Ég nennti samt ekki að spá í því heldur gerði klassískan franskan marens og flamberaði það svo með brennara í lokin.
Sem sagt, setjið 4 eggjahvítur í skál, helst að láta standa í amk 20 mín áður en þið hrærið þær saman. Passa að ekki komist arða af eggjarauðu með. Skálin þarf að vera þurr og alveg hrein. Hrærið svo saman með ½ tsk cream of tartar á meðalhraða til að byrja með. Þegar þetta virðist vera komið nokkuð vel saman og farið að lofta um þá má auka hraðann. Þegar hvíturnar eru orðnar mjúkar og hægt að mynda toppa þá fer sykurinn útí. Bætið 200 g sykri saman við, mjög varlega á meðan þið hrærið. Við erum að tala um ca matskeið í senn með mínotu millibili. Já þetta tekur tíma. Þegar allur sykurinn er kominn er hrært á góðum hraða áfram þar til blandan er orðin þykk og stíf og þið finnið helst ekki sykurkorn milli fingranna.
Dreifið svo marens yfi lemon curd lagið og skreytið að vild. Mér finnst koma vel út að gera svona toppa með sprautupoka og svo flambera með brennara. Það mætti meira segja brenna þetta meira næst sé ég.
Pörunin
Þetta er einfalt, hér er það kampavíniðsem ræður ríkjum í pöruninni, þurrt gott kampavín. Gula ekkjan kom svakalega vel út, ísköld og ferskt með ögn sítrus tón og milda sætu tóna sem koma vel saman við sítrónukeiminn í tertunni. Sætan í marensnum dempast skemmtilega með þurru víninu og kolsýran hjálpar við að losa skánir af gómbogum. Í bjórveröldinni væru það einhverjir súrbjórareða wild ale, jafnvel með ávöxtum eins og mango eða ástaraldin. Ekki þó of sætir bjórar. Mig langar t.d. að prófa Teigeða Holtfrá RVK Brewing með þessu ef ég næ tökum á flösku.
Njótið vel og sendið mér endilega myndir ef þið nennið!
Ég hef alltaf verið spenntur fyrir indverskum mat en ég hef ekki hætt mér út í að prófa að elda hann sjálfur, það hefur bara vaxið mér í augum. Mig hefur samt alltaf langað að læra að gera indverskt. Ég hnippti því hér um árið í nágranna okkar og vinkonu Yesmine Olsson sem eins og kunnugt er er snillingur í indverskri matargerð . Ég spurði hana hvort hún vildi ekki elda með mér indverskt og bjóða góðu fólki í mat en til að selja henni hugmyndina kvaðst ég vilja prófa að para bjór með réttunum. Yesmine líkaði hugmyndin vel en hún sagði mér reyndar eftir á að hún hafi ekki verið vongóð um að bjórpörunin kæmi vel út en samt spennt að sjá hvernig til tækist. Hún er búin að taka þetta til baka núna enda kom það henni verulega á óvart hvernig til tókst. Reyndar mér líka!
Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig það kæmi út að para bjór við indverska rétti, þetta er nefnilega mikil áskorun, þeir eru oft mjög sterkir og miklir réttirnir og það eru svo ótal mörg krydd í þeim, krydd sem maður þekkir ekkert allt of vel. Ég sá mér því leik á borði, ég myndi læra smá inn á töfrandi heim indverskrar matargerðar á sama tíma og ég gæti prófað bjórpörunina.
Yesmine er snillingur í eldhúsinu, ég vissi það svo sem en ég fékk bara meiri staðfestingu á því eftir þennan dag okkar saman í eldhúsinu, mikið var þetta gaman. Við vorum reyndar nokkra daga að plana veisluna og svo þurftum við að hittast því ég þurfti að fá nákvæmar lýsingar á réttunum, við erum að tala um hvernig krydd, hvernig áferð, sætt, súrt, sterkt og svo framvegis. Ég nefnilega þurfti að velja bjórinn út frá þessum upplýsingum eingöngu því ég hafði jú ekki smakkað neitt af þessu áður. Út frá þessum upplýsingum gerði ég lista yfir þá bjóra sem kæmu til greina, ég valdi nokkra til að prófa með hverjum rétt bara svona til að hafa smá varnagla á. Það má ekki gleyma því að við vorum með 8 gesti í þessari veislu þannig að smá pressa! Ég vildi hafa þetta íslenskt bjórþema og auðvitað bara bjór frá landsins bestu brugghúsum!
Þetta lukkaðist svona líka vel, bæði að mínu mati og svo 9 annara reyndar líka, og maturinn guð minn góður…eða ætti ég frekar að segja Yesmine góða? Ég ætla að rissa aðeins upp þessar paranir og láta eina og eina uppskrift fljóta með.
Djúpsteikt indverskt „dumplings“ með geggjaðri karrí mayo sósu!
Við byrjuðum á léttum forrétt svona til að koma öllum í gírinn. Við vorum ofsalega heppin með veður og gátum því notið matar og drykkjar á svölunum hjá þeim Yesmine og Adda. Í forrétt vorum við með djúpsteikt indversk „dumplings“ sem við höfðum fyllt með nautahakki og svínahakki sem legið hafði í indverskri kryddmarineringu yfir nótt. Þetta er virkilega bragðmikill réttur en þó ekkert sem rífur allt of mikið í. Við erum með öll klassísku kryddin í þessu, kóríander, múskat, engifer, túrmerik, karrí og meira til. Þessi réttur er dálítil handavinna, jafnvel þó við séum búin að marinera deginum áður. En í góðum félagsskap og með gott hvítvín t.d. á kantinum þá er bara gaman!
Ef maður er svakalega anal getur maður gert degið sjálfur en best er að kaupa dumplings deig bara tilbúið í asískum verslunum. Þetta eru örþunnar deigplötur. Bleytið alla kanta með vatni til að deigið klístrist saman í lokin þegar þið krumpið það saman. Setjið hæfilegt magn af fyllingu á miðja örkina og lokið svo með fingrunum og þéttið vel. Svo er þetta djúpsteikt í jurtaolíu þar til orðið gyllt og stökkt. Látið svo standa á grind!
Fyllingin er hér
250 g nautahakk
250 g svínahakk
1 laukur
1 rauðlaukur
1,5 dl vorlaukur
2 skalottlaukar
4 hvítlaukssrif
25 g ferskur kóríander
3 stórir tómatar
2 cm engiferrót
1/4 tsk múskat
1/2 tsk túrmerik
2 tsk karrí
2-3 ferskir rauðir chilipipar eftir smeklk
3-4 msk matarolía
5 stk döðlur
salt og pipar
Allt nema kjötið er blandað vel saman í matvinnsluvél. Svo er kjötinu bætt útí og hrært saman. Látið svo standa yfir nótt helst. Amk nokkra tíma.
Með þessu vorum við svo með alveg splunku nýja uppfinningu, karrí mayo sósu sem Yesmine töfraði fram. Yesmine sagðist hafa fengið innblástur frá kóríander mayo sósunni minni og langaði að prófa að gera eitthvað svona indverskt twist með majonesi. Hún hefur annars aldrei áður notað majones í sinni matargerð. Ég viðurkenni að ég er pínu stoltur sko. Þessi sósa er kreisí! Krrrrreisí og ég sök á því að hún varð til!
Indversk karrí mayo sósa
ca 2-3 bollar (US cups) majones
ca 1/2 mtsk kapers
2-3 litlar súrar gúrkur (pikles)
1-2 mtsk engiferrót
1 grænn chili ávöxtur
3 hvítlauksgeirar
1 mtsk gott karrí krydd
sjávarsalt eftir smekk
Aðferð.
Ok, þetta er í fyrsta sinn sem þessi sósa er gerð, ég gerði hana svo aftur daginn eftir nokkurn veginn svona. Menn verða svo bara að smakka til, meiri hvítlauk eða meira salt eða karrí. Allt eftir smekk. Þetta á samt að vera karrí mayo þannig að meira karrí en minna. Þetta er í raun allt sett saman og maukað með töfrasprota. Ef menn vilja bera fram í skál með smá bitum í þá er það bara fínt en ef við viljum bera sósuna fram í sprautuflösku þá þarf að mauka þetta vel þannig að engir bitar eru eftir í maukinu. Bæði betra!
Þessi sósa er alveg mögnuð með þessu og í raun með ansi mörgum réttum sé ég fyrir mér. Ég veit að þessi sósa mun slá rækilega í gegn í sumar!
Pörunin!
Hér erum við með stökka áferð, það er fita í deiginu og djúpsteikingunni og svo er grísahakkið feitt og djúsí inní og kryddin áberandi. Karrí mayo sósan er svo alveg sér á báti og rífur vel í með hvítlauk og karrí. Þetta er geggjað eitt og sér en enn betra með góðum drykk. Hér þarf bjór sem heldur velli gagnvart kryddunum og bragmikilli sósunni en þó ekki þannig að hann taki öll völd. Við viljum njóta líka kryddanna og kjötsins. Með feitum mat og sósum eins og hér er er kjörið að nota bjór með smá beiskju bit, IPAer fullkominn í verkið og svo auðvitað gaman að para Indian Pal Ale við Indian food ekki satt, svona bara vegna upprunans? Beiskjan í bjórnum klippir upp fituna í þessum rétt og opnar allt upp á gátt og hreinsar munn og kok af fitubrákinni sem myndast. Ég ákvað að fara hér í minn uppáhalds íslenska IPA/pale ale sem er frá Malbygg brugghúsog heitir einfaldlega Kisi. Mér er sama hvað stendur á dósinni, þetta er safaríkur djúsí NEIPA(new england IPA) þar sem humlarnir fá að njóta sín með ávaxtakeim á borð við mango og ástaraldin en svo er líka örlítið beiskjubit sem sinnir sínu hlutverki eins og áður er ritað.
Þetta er fullkomið, öll þessi krydd , léttur hiti og þessi feita áferð steinliggja með þessum frábæra bjór. Ég elska líka kóríander og IPA, það er eins og þetta tvennt hafi verið fundið upp saman. Vá! Það besta er að Yesmine, sem ekki er mikið fyrir bjórinn, var alveg dolfallin. Henni fannst þetta koma svakalega vel út og þá er takmarki mínu náð.
Aðalréttirnir, lamba pylsu grillspjót og kjúklinga grillsprjót með spínat kóríandersósu og alls konar meðlæti.
Eggaldinn í alveg nýjum búning
Við ákváðum að hafa nokkra rétti sem fólk bara blandar saman á einn disk, það voru bæði stærri og minni réttir. Við vorum með hvítlauks naanbrauð með, saffran hrísgrjónum, magnað döðlu raita og svakalega góð ofnbökuð eggaldinn með indverskum kryddum toppuð með sósu af óþekktum toga, já ég gat ekki fylgst með öllum töfrunum hennar Yesmine.
Fyrir lambagrillspjótin (fyrir 4-5)
400 g lambaprime, skorið í hæfilega bita
400 g kryddpylsur, tvær gerðir, t.d. chorizo pylsur og eitthvað annað gott
1/2 dl repjuolía
5 kardimommur
10 negulnaglar
5 cm kanilstöng
1 tsk túrmerik
5 svört piparkorn
2 tsk cuminfræ
2 stórir laukar, skornir í fernt
5 hvítlauksrif
2 grænir chilibelgir með fræjum
5 cm af ferskri engiferrót, afhýdd, skorin gróft
safi úr 1/2 sítrónu
1 tsk sjávarsalt
Aðferðin
Fyrir marineringuna á kjötinu. Taktu öll kryddin á disk. Taktu til pönnu og hitaðu hana vel upp. Svo eru kardimommur, negulnaglar, kanilstöng, pipar og cuminfræ þurristað á pönnunni í 30-40 sek eða þar til kryddin breyta um lit og gefa frá sér frábæran ilm. Notaðu svo mortél til að merja öll kryddin nema túrmerik. Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél ásamt kryddunum og maukið saman. Veltu lambakjötinu vel uppúr marineringunni, skerðu líka pyslurnar í hæfilega bita og blandaðu þeim saman við lambið. Látið standa yfir nótt.
Sama dag og rétturinn er borinn fram. Leggi tréspjót/grillpinna í bleyti, skerið niður gula papriku og rauðlauk í hæfilega bita eftir smekk. Raðið svo lambi og pylsum saman á spjótin og inn á milli lauk og papríku. Látið þetta líta dálítið vel út. Pysla og kjöt saman samt, þannig renna kryddin úr hvoru tveggja saman við grillunina.
Auk lambaspjóta vorum við með kjúklingaspjót með dásamlegri spínat kóríandersósu. Yesmine notar alltaf úrbeinað lærkjöt þegar hún notar kjúkling, ég er algjörlega sammála, þetta er besta kjötið, svo djúsí og gott og dregur í sig öll kryddin í marineringunni. Þessi réttur var bragðmikill líka, ekki þó eins spicy og lambaspjótin en í sósunni er ríkjandi kóríander og hvítlauksbragð. Ofsalega gott saman.
Hrísgrjón eru ómissandi með indverskum mat, þau vissulega drýgja máltíðina en eru líka frábær til að sjúga í sig sósurnar á diskunum, ekkert má fara til spillis. Með mjög sterkum mat er líka gott að nota hrísgrjónin til að dempa brunann. En hrísgrjón eru ekki bara hrísgrjón, Yesmine notar nánast eingöngu basmati grjón t.d. en það er mikill munur á gæðunum. Þetta kvöld komst ég svo að því að ég og Sigrún mín höfum verið að elda hrísgrjón vitlaust alla okkar tíð. Ég komst líka að því að hægt er að gera fáranlega gómsæt hrísgrjón sem meðlæti.
Saffran þræðir, gull kryddanna!
Saffran hrísgrjón
5 dl basmati hrísgrjón
1 L vatn
1 mtsk isio 4 olía eða 2 mtsk ghee
1/2 – 1 tsk saffran þræðir
1/2 sítróna, bæði hýði og safi
1 tsk salt
2 tsk brún sinnepsfræ (fæst í Fiska)
Setjið vatn í pott (1 L) og látið suðuna koma upp. Bætið við rifnum sítrónuberki og safa (1/2 sítróna) út í vatnið ásamt saffran þráðunum og látið renna saman í 5 mín. Á meðan notið þið tíman og setjið olíuna eða ghee í pott og náið upp hita. Setjið sinnepsfræin varlega útí en passið ykkur þau geta poppað og þá slettist á ykkur heit ólían. Hrærið í fræunum stöðugt í 30-40 sek, bætið svo þurrum hrísgrjónumum útí pottinn og blandið við fræin í 1-2 mín.
Bætið þvínæst hrísgrjónunum ásamt salti (1 tsk) út í saffran vatnið og hrærið létt saman og setjið svo viskastykki yfir pottinn og lok yfir og látið malla í 10 mín. Ekki bullsjóða. Forðist að hræra mikið svo þið brjótið ekki grjónin. Þvínæst slökkvið þið á hitanum og látið pottinn standa í aðrar 10 mínútur.
Þetta er svakalega gott með öllum þessum réttum.
Gott naan brauð er líka ómissandi með indverskum mat. Það má gera það frá grunni sem er auðvitað skemmtilegast og svo grilla á grilli eða ef maður á tandori ofn, þá notar maður hann auðvitað. Gott er að útbúa einhverja góða olíu, t.d. hvítlauskolíu og pennsla brauðin fyrir eldun.
Annað sem er mikilvægt að mínu mati er eitthvað ferskt og létt til að milda tungu og hvíla frá sterkum kryddum. Klassískt er gúrku raita sem þó mér finnst stundum dálítið of klassískt jafnvel. Yesmine bauð uppá aðeins aðra útgáfu, alveg hrikalega góða döðlu raita sem koma æðislega vel út með öllu þessu hérna, döðlurnar gefa skemmtilega sætu í þetta allt saman.
Loks var það ofnbakaða eggaldinið, það var svakalegt. Maður er vanur að grilla þetta og setja salt og olíu á og það kemur vel út en þessi útgáfa var stórkostleg, öll þessi indversk krydd, radísuspírur og svo þessi dularfulla sósa ofan á. Úff úff úff!
Pörunin
En ok, pörunin, þetta var pínu flókið en svo í raun ekki. Hér gat ég ekki parað einn bjór við hvern rétt því við buðum upp á þetta allt saman í einu, sem einn rétt með mörgum vinklum. Ég prófaði nokkra bjóra með þessu. Mér fannst borðleggjandi að velja frekar látlausa bjóra en sem þó gætu höndlað sterk krydd á sama tíma og þeir yfirbuguðu ekki látlausu kryddin sem maður vill ekki missa af eins og t.d. safran eða múskat. Hrísgrjón er lykil meðlæti í svona veislu og því tilvalið að velja bjór sem bruggaður er með hrísgrjónum, bæði tengja grjónin vel við grjónin í matnum en svo gefa þau fyllingu og dempa brunann frá „heitum“ kryddum á borð við chili eða sterk karrí. Ég valdi hrísgrjóna lager í þetta verk en það vill svo til að það eru alla vega tveir slíkir í boði akkúrat núna frá íslenskum framleiðendum.
Sudoku Rice Lager frá Borger frábær lager. Hann er þéttur og elegant með ögn sætukeim og afar látlausu humalbiti sem er þó til staðar. Mér fannst borðleggjandi að tefla fram lager með grilluðum pylsum, kjúlla og lambi og þetta svínvirkaði. Sætan í korninu dempaði ögn kryddin en slökkti samt alls ekki á þeim heldur tvinnaðist bragðið frá bjórnum fallega saman við hrísgrjónin og rest. Nett beiskjan var nægileg til að vinna á fitunni frá kjötinu og sósunum. Mjög gott combo.
Önnur pörun sem kom vel út var Yuzu Rice Lager frá RVK Brewing. Þessi bjór er líka bruggaður með hrísgrjónum en einnig yuzu ávexti sem er súrt sítrusaldin frá Austurlöndum fjær. Þessi bjór er afar ferskur og sumarlegur og smellpassar á pallinn í sólinni en gengur líka vel hér af sömu ástæðum og hér að ofan. Súraldinið gefur svo auka vinkil með þægilega sýru sem gengur vel á móti þungum matnum og styður skemmtilega við ferska döðlu raita-ið. Gestum þótti þetta skemmtilegur valmöguleiki með matnum.
Það sem hins vegar sló í gegn hjá mér persónulega, og það voru nokkrir sammála mér í því var næsti bjór. Ég var reyndar á höttunum eftir rauðölieða amber bjór fyrir verkið, jafnvel hefði bockgeta komið vel út en þau brugghús sem ég skoðaði, bestu íslensku brugghúsin okkar auðvitað, áttu slíkan bjór ekki til á flöskum eða dósum. Hér langaði mig að nota bjór með mikinn maltkarakter en sem væri þó léttur og meðfærilegur. Ofannefndir bjórstílar eru dekkri en hinn ljósi lager því í þá er notað aðeins meira ristað korn/malt sem gefur af sér ögn karamellukeim og rist. Ég sá fyrir mér fullkomna tengingu við grillaða kjötið sem fær jafnan á sig ákv karamellu áferð við grillunina. Það er líka vel þekkt að sætukeimurinn frá maltinu komi ofsalega vel út á móti sterkum kryddum og er jafnvel það eina sem gengur á móti sterkustu chiliréttum þeirra Indverja.
Það var Maggi hjá RVK brewing sem reyndar líka er með sitt eigið brugghús, sem ég hef fjallað stuttlega um áður Mono, sem benti mér á aðra mögulega lausn. Þeir Mono strákar voru nýlega komnir með bjór á flösku sem gæti gengið, svo kallaður märtzen, sem er þýskur lager sem menn tengja jafnan við Oktoberfest þar í landi. Þetta er „maltforward“ bjór og oft með kopar til rauðum blæ. Bjórinn er lager og yfirleitt með létta til meðal fyllingu og litla beiskju. Þetta fannst mér frábær hugmynd og ákvað að prófa.
De Stijl heitir kauði og er samstarfsbrugg með Ekta Brewing sem ég þekki lítt til. Bjórinn var töluvert mildari en ég átti von á og ekki eins maltaður og amber en maltið þó vel merkjanlegt. Bjórinn er þó með áberandi meiri bragðprófíl ef miðað er við hrísgrjóna lagerinn sem ég fjallaði um að ofan. Þessi bjór algjörlega negldi þennan mat og gerði nákvæmlega það sem ég hafði vonast til. Maltsætan og ristin dönsuðu vel með grilltónunum frá kjötinu, indversku kryddin komu líka skemmtilega vel út með þessum bjór og tvinnuðust kóríander, kardimommur, negull og allt hitt skemmtilega við karamelluristina frá korninu. Sterkustu tónarnir frá lambaspjótunum milduðust ögn og lyftu meira að segja upp bjórnum og gerðu hann meiri. Kolsýran var líka kærkomin á móti öllum þessum brögðum og fitunni en kolsýran „skefur“ einhvern veginn palletuna og opnar fyrir næsta bita.
Frábær pörun!
Svakaleg sænsk „kladdkaka“ með indversku chili súkkulaði ganache og þeyttum mynturjóma
Góð veisla þarf að enda eftirminnilega að mínu mati og þessi gerði það svo sannarlega. Jafnframt var hér besta pörun kvöldsins sem kom meira að segja mestu efasemdamönnum á óvart. Þessi kaka er svakaleg, djúsí og klístruð með fullfermi af súkkulaði alveg eins og ég vil hafa það í eftirrétt. Ofan á þessu var svo þykkt nánast eins og fudge súkkulaðikrem með indversku chili kryddi sem reif af og til í. Svo kom stökk áferð frá ristuðu pistasíuhnetunum ofan á. Ekki má svo gleyma þeytta rjómanum með fersku myntunni en myntan og kryddin í kökunni dönsuðu vel saman og myntan gefur líka léttleika og ferskan blæ í þetta allt saman.
Ég mun pottþétt gera sér færslu hér innan skamms bara með uppskrift af sænskri súkkulaðikladdköku með chili súkkulaðikremi og svo þessari pörun. Þessi eftirréttur er svakalega þungur en gefandi, mér datt í hug að prófa tvo bjóra með. Mjög hefðbundið er að nota stout, portereða imperial stout með súkkulaðieftirréttum. Hér er það tengingin við kaffið sem er augljós enda oft hægt að finna kaffitóna og súkkulaði í þessum bjórum. Humlarnir gefa svo beiskjuna sem létta dálítið á þunganum. Ég bauð því uppá Garúnu frá Borg. Þetta er svakalega flottur bjór, rótsterkur og mikill með ögn sætu en þó vegur beiskjan þyngra og svo áberandi kaffiristin, jafnvel ögn lakkrís og súkkulaði. Þetta er bjór fyrir þróttmikið fólk með sterka palletu. Bjórinn gengur einn og sér sem eftirréttur ef út í það er farið. Þessi pörun var skemmtileg, kaffið og súkkulaðið tengdu vel við og beiskjan opnaði vel upp þunga kökuna. Beiskjan dró líka mikið upp chili hitann í kreminu sem var mjög skemmtilegt því ef eitthvað er hefði mátt vera meira chili í kökunni að mínu mati.
Það sem sló hins vegar öll met var Blágosi frá Microbar & Brew(Gæðingi brugghús). Blágosi er ofsalega skemmtilegur súrbjóreða svo kallaður gosesem er þýsk ættaður súrbjór, Blágosi er í grunninn Skyrgosi ketilsýrður með skyri og bragðbættur með bláberum, heilum helling alveg. Bjórinn er ofsalega þægilegur með léttri sýru, ögn skyrkeim og svo ljómandi bláberjasýru. Mér datt í hug að tefla þessum bjór fram á móti þungri kökunni til að létta aðeins á öllu. Svo eru ber á borð við hindber, bláber og jarðaber alveg frábær með súkkulaðikökum yfirleitt. Gosið í bjórnum og sýran opnuðu allt upp á gátt gerði kökuna auðmeltari og skópu pláss fyrir næsta bita, berin tvinnuðust dásamlega saman við súkkulaðið og sýran skapaði skemmtilegar andstæður við chili brunann. Þetta var alveg mögnuð pörun og mun ég klárlega hafa þetta í mínum veislum þegar ég vil slá í gegn.
Hér á þessum bæ elskum við súkkulaði og súkkulaðikökur já og í raun allt sem er með súkkulaði, meira að segja súkkulaðibjór. Við höfum prófað ýmsar uppskriftir en ef maður þarf að svala súkkulaðiþörfinni í eitt skipti fyrir öll þá er það þessi hér. Þessa uppskrift fékk Sigrún kona mín frá vinkonu okkar Elvu Brá sem er bökunarmeistarinn í vinahringnum okkar.
Þessi er svakaleg, þá er ég ekki að meina af því að hún sé svo þung og tormelt heldur er hún svo lungnamjúk og með svo ríkulegt súkkulaðibragð að það hálfa væri nóg. Það besta við þetta allt er að það er frekar einfalt að baka þessa köku.
Það sem þarf í þessa elsku:
1 og 1/2 bolli (355 ml) mjög heitt eðal kaffi
85 grams suðusúkkulaði, saxað
3 bollar (600 g) sykur
1 og 1/4 tsk matarsalt
3/4 bollar (175 ml) jurtaolía
1 og 1/2 bolli (355 ml) súrmjólk eða AB mjólk
3/4 tsk vanilludropar
3 eggs (stór)
2 og 1/2 bolli (315 g) hveiti
1 og 1/2 bolli (ca. 130 g) ósætt bökunarkakó
2 tsk (10 grams) matarsóti
3/4 tsk (4 grams) lyftiduft
fyrir kremið
455 g suðusúkkulaði
1 bolli (235 ml) rjómi
2 mtsk (25 grams) sykur
2 mtsk (40 g) sýróp, ljóst
55 g ósaltað smjör
Aðferðin
Saxið súkkulaði (85g) frekar fínt og setjið í vel stóra skál, Bruggið kaffi, hafið það sterkt og mjög heitt. Hellið kaffinu yfir og br æðið þannig súkkulaðið saman við. Látið standa svona í 4-5 mín og hrærið svo vel saman þar til þetta hefur blandast vel saman. Þetta lítur út eins og þunnfljótandi kaffi núna en það mun lagast. Bætið svo sykri (600g) , salti (1 og 1/4 tsk), súrmjólk (1 og 1/2 bolli), vanilludropum (3/4 tsk) og olíu (3/4 bolli) saman við og blandið vel. Hrærið svo saman við eggjunum (3 stk) einu í einu. Engar áhyggjur, þetta mun þykkjast vel þegar þurrefnin fara út í. .
Sigtið svo yfir þetta hveiti (2 og 1/2 bolli), bökunarkakói (1 og 1/2 bolli), matarsóta (2 tsk) og lyftidufti (3/4 tsk). Blandið svo öllu vel saman þar til orðið alveg án köggla. .
Hitið ofninn í 150 gráður, takið til 3 hringlaga form, 18 cm að þvermáli. Smyrjið að innan með smjöri og deilið deiginu í formin. ATH það verður dálítill afgangur sem er tilvalinn í nokkur bollakökuform. Bakið svo í ca 30 mín, við byrjuðum að kanna deigið eftir 30 mín, botnarnir eru tilbúnir þegar þið stingið tannstöngli í miðjuna og ekkert kemur á hann. .
Takið botnana út og látið kólna alveg. .
Þá er það kremið. Fínsaxið súkkulaðið (455 g) og setjið í skál. .
Setjið rjóma (235 ml), sykur (2 mtsk) og sýróp (2 mtsk) í pott yfir vægan hita. Pískið vel þar til sykur er leystur upp. Látið suðuna koma upp. Takið pottinn af hellunni og hellið yfir súkkulaðið og pískið vel þar til súkkulaðið er alveg bráðnað samanvið. Skerið smjör í kubba og bætið saman við. Hrærið áfram þar til allt er sameinað og fínt. .
Látið kremið kólna vel niður, hrærið annað slagið í. Sumir tala um að gera þetta yfir ísbaði til að hraða ferlinu. Þegar kremið er orðið stífara og eins og þykkt smjör er það orðið tilbúið. Ef þetta verður of stíft þannig að það er ekki hægt að smyrja má aðeins hita aftur upp. .
Svo er bara að smyrja þessu á botnana og raða þeim upp. Hafið alveg 7-8mm þykk lög. Smyrjið líka ofan á kökuna og hliðarnar. Skreytið að vild. Sigrún bakaði þessa köku núna um Páskana og skreytti með litlum súkkulaði eggjum og kanínum.
Njótið. Kakan er geggjuð daginn eftir og á degi tvö enn betri. Það er augljós pörun með þessu, mjúkur portereða stout, jafnvel imperial stout.
Sunnudagar eru svona tiltektar dagar hjá okkur, það er einhvern veginn ekki hægt að liggja með tær uppí loft án þess að fá samviskubit. Ég hef samt komist hjá því stundum að vera á haus í tiltekt ef ég tek mig til og baka. Ég er lengi að baka, mikill dútlari þannig að sunnudagar eru orðnir dálítið bökunardagar hjá okkur. Ég sé þá um eldhúsið og skil það eftir eins og dauðhreinsaða skurðstofu…….. fyrir aðgerð það er að segja.
Ég leitaði einu sinni sem oftar til Nigellu Lawson í leit að ostakökuuppskrift, ég meina þessi kona er nautnaseggur fram í fingurgóma og hún kann svo sannarlega að gæla við bragðlaukana. Ég datt niður á þessa hér og sá allt í einu lausnina á bananavanda heimilisins. Þannig er að við kaupum inn banana en það þarf að gera eftir ströngum reglum því sú yngsta vill helst hafa þá græna og harða en unglingurinn vill hafa bananana gula og mjúka en alls ekki með neinum blettum á. Það endar því oft þannig að einhver er ósáttur og bananarnir fá að dúsa í ávaxtaskálinni þar til þeir eru svo svartir að það er varla hægt að handfjatla þá. Hér er komin uppksrift sem krefst þess að bananarnir séu vel þroskaðir og djúsí.
Alla vega!
Það sem þarf
Í botninn
250 g Digestive kex
75 g ósaltað mjúkt smjör
fyrir fyllinguna
4 ofþroskaðir bananar, milli stórir
60 ml sítrónusafi
700 g rjómaostur, við stofuhita (mikilvægt)
6 stór egg
150 g mjúkur ljós púðursykur
fyrir toffee sósuna
100 g ósaltað smjör
125 ml gyllt sýróp
75 g mjúkur ljós púðursykur
Aðferðin
Ok til að svekkja ykkur, þá þarf kakan að standa yfir nótt þannig að planið tímanlega.
Takið til springform, 23cm í þvermál. Smyrjið vel að innan með smjöri eða klippið til smjörpappír í botninn. Pakkið forminu svo vel inn í álpappír að utan. Þetta á að vera þannig að vatn sleppi ekki inn í formið þegar það er sett í vatnsbað. Það má alls ekki leka. .
Setjið kexið (250g) og mjúka smjörið (75g) í matvinnsluvél og maukið þar til þetta er orðið eins og rakur sandur og farið að klumpast ögn saman. Pressið blöndunni svo í botninn á springforminu og setjið inn í kæli .
Stappið banana (4 stk) með gafffli í skál, bætið við 60ml sítrónusafa og leggið til hliðar. .
setjið mjúka rjómaostinn (ath þarf að vera við stofuhita, ekki beint úr kæli) í hrærivél og hrærið þar til orðið silkimjúkt og fínt, bætið þá 6 eggjum og 150g púðursykur samanvið. Hrærið áfram til að blanda þessu vel saman. Loks fer bananastappan með sítrónusafanum útí. Hrærið þar til þið eruð komin með silkimjúka blöndu. .
Takið formið úr kæli og hellið blöndunni yfir. Finnið til djúpa ofnplötu og leggið formið í miðjuna. Hitið ofn í 170 gráður. Sjóðið vatn og látið það standa ögn. Þegar ofninn er orðinn heitur setjið þið ofnplötuna í ofninn og hellið vatninu ofan í þannig að það nái upp á mitt springformið. Vatnsbaðið gerir baksturinn hægari og jafnari þannig að kakan verður meira frauðkennd og „fluffy“.
Bakið í um klst, ég var með 55 mín. Tékkið á kökunni eftir klst, hún á að vera orðin stíf í yfirborði en dálítið eins og óbökuð í miðjunni þegar þið ýtið við henni. .
Takið kökuna út og látið kólna, setjið svo álpappír yfir hana og inn í ískáp í sólarhring. Takið kökuna út um 1/2 klst fyrir framreiðslu. .
Toffee sósuna má gera hvenær sem er, 1-2 dögum áður eða á meðan kakan er í ofninum. Aðal málið er að hún á að vera köld þegar hún er sett á. Þetta er skv Nigellu, ég gerði þetta fyrst deginum áður en þá var sósan orðinn mjög stíf og ómeðfærileg. Þurfti að hræra upp og hita í örbylgjuofni. Líklega best að gera þetta sama dag og þið berið kökuna fram.
Setjið 100g smjör, 75g ljós púðursykur og 125ml ljóst sýróp. Látið malla á lágum hita. Hrærið öðru hvoru í. Þegar þetta er farið að búbbla og farið að myndast froða (sjá mynd) þá látið þið búbbla áfram í um 1-2 mín og takið svo af hitanum og látið kólna ögn. Svo er þessu hellt í könnu og látið kólna alveg niður. Ekki í kæli samt. .
Takið kökuna út um 1/2 klst fyrir framreiðslu, opnið springformið og flytjið kökuna varlega yfir á kökudisk. Hrærið í toffee sósunni og hellið henni svo yfir. Ekki hella öllu því það er fínt að hafa aukalega fyrir þá sem vilja bæta enn meiri sælu í líf sitt eftir á.
Pörunin
Það er hægt að leika sér dálítið hér, t.d væri gaman að prófa bananastout með þessari köku en hann er svo sem ekki auðfundinn hér heima og gæti orðið heldur væmin útkoma. Imperial stout er augljós uppástunga en hann hefur sætuna, kaffiristina og svo auðvitað er oft áberandi súkkulaðikeimur af slíkum bjór en bananar og súkkulaði er vel þekkt blanda. Founders Imperial Stout, sem ég held að fáist enn hér heima er frábær með þessu, þar er súkkulaðikeimur í bragði og ögn kaffirist. Stundum finnst mér bananakeimur af bjórnum líka.
Annar skemmtilegur möguleiki er að tengja við karamelluna, þá er hægt að para bjór með mikinn maltkeim sem stundum minnir á karamellu, eins og t.d. bock eða doppelbock, scotch ale væri líklega alveg magnaður með líka, verst að það er ekki hægt að fá slíkan bjór hér heima síðast þegar ég vissi.
Ég hef aldrei gert alvöru ostaköku áður, mig langaði að prófa, það er fyrsti febrúar 2020, janúar verið algert helvíti, alls konar slys og snjóflóð ofl. Nú er kominn tími til að njóta og hafa það gott. Ég skoðaði nokkrar uppskriftir og datt inn á þessa, súkkulaði hnetusmjörs ostakaka frá Nigella Lawson. Ég elska hnetusmjör, sérstaklega þegar það er tengt við súkkulaði og því ákv ég að prófa. Ath, þessa þarf að baka deginum áður en á að njóta.
Það sem þarf í þetta
Fyrir botnin
200 g digestive kex
50 g salthnetur
100 g sökkt súkkulaði (t.d. dropar)
50 g ósaltað mjúkt smjör
Fyrir fyllinguna
500 g rjómaostur
3 stór egg
3 eggjarauður aukalega
200 g sykur
125 g sýrður rjómi
250 g fínt hnetusmjör
Fyrir kremið
250 g sýrður rjómi
100 g rjómasúkkulaði dropar
30 g mjúkur ljóst púðursykur
Aðferðin
Setjið kexið (200g), 50g salthnetur, dökka súkkulaðið (100g) og 50g mjúkt smjör í matvinnsluvél og maukið þar til þetta er orðið eins og rakur sandur og klumpast saman.
Finnið til hringlaga springform, 23cm í þvermál, dreifið úr deiginu í botninn, pressið niður í botninn og aðeins upp með hliðum. Setjið þetta í kæli meðan þið græjið annað. ATH ég smurði formið vel með smjöri en það er líklega betra að hafa bökunarpappír í botninn?
Takið til skál fyrir hrærivél, setjið allt í sem fer í fyllinguna, 500g rjómaostur, 200g sykur, 3 egg, 3 eggjarauður, 125g sýrður rjómi, 250g hnetusmjör og hrærið vel saman þar til orðið mjúkt og án kekkja. Hellið þessu svo yfir kexbotninn og inn í ofn. 170 gráður í um 50 mín.
Kakan á að vera eins og bökuð í yfirborðinu en ekki í gegn, dálítið eins og himna sem hægt er að rjúfa með skeið. Takið kökuna út og látið standa meðan þið gerið kremið.
Í lítinn pott setjið þið 100g rjómasúkkulaði, 250g sýrðan rjóma og 30 g púðursykur. Kveikið undir, og látið bráðna saman á vægum hita. Hrærið stöðugt með sleikju td þannig að ekkert brenni við botn. Muna, vægur hiti. Þegar þetta er bráðnað vel saman takið þið pottinn af og hellið þessu varlega yfir kökuna.
Þetta ætti að fljóta vel yfir kökuna en ef það er þykkt má nota skeið til að dreifa yfir en passið þá að rjúfa ekki yfirborðið á kökunni, þá blandast kremið dálítið við deigið undir yfirborðinu. Þetta fer svo inn í ofn í svona 7-10 mín.
Svo látið þið kökuna kólna í forminu og setjið matarfilmu eða álpappír yfir og inn í ísskáp í sólarhring. Kakan er nú klár í slaginn.
Pörunin
Hér erum við með ofsalega þunga og mikla köku. Ein lítil sneið er meira en nóg. Með þessu væri gott að hafa stouteða jafnvel portersem er mildari og léttari. Ekki skemmir ef notað er kaffi í bjórinn en oft er bara kaffikeimur af brennda maltinu sem notað er í þessa stíla. Nettir humlar rífa aðeins upp þetta mikla þunga og kaffiristin tónar vel við kökuna og súkkulaðið í kexbotninum. Hnetusmjör og stout er líka vel þekkt blanda enda mörg brugghús sem gera hnetusmjörs kaffistout. Imperial stout er líklega of þungt en mig langaði samt að prófa og fór því í Bjössa Bollu frá Malbygg en þessi bjór er frábær ef þú fílar bakkelsisbjór (pastry beer) yfir höfuð. Í bjórinn nota strákarnir ma. kókosbollur sem skapa sætuna og fyllingu líka. Þetta er mikill bjór og dálítið þungur, sætan í bjórnum gæti reynst mönnum of mikið með kökunni en ég elska sætt og mér fannst þetta algjört gúmmilaði saman. Ég var samt alveg búinn á því eftir eina sneið.
You must be logged in to post a comment.