Þegar ég skrifaði þessa færslu fyrst þá var konudagur og þá talaði ég um hversu mikilvægt það er að gæla við konurnar í lífi okkar. Mér dettur ekkert betra í hug en að skella í dásamlegt súkkulaðitrít fyrir mína í tilefni dagsins. Ég er mikill súkkulaðifíkill og ég ætla ekkert að reyna að fela það en það er bara fátt betra í þessu lífi en góður súkkulaði eftirréttur. Súkkulaðimús er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég hef sko prófað margar slíkar, trúið mér en það er bara engin mús eins góð og þessi hér sem upprunanlega kemur frá eldhúsgyðjunni Nigella Lawson. Það versta við þessa mús er að ég get bara ekki stoppað þegar ég byrja og það kemur ekki vel út þegar gestir þurfa að berjast við mig um síðustu bitana, Sigrún þarf samt ekkert að óttast á konudaginn. Ég er svo ekki alveg að fara eftir Nigellu hér því mig langaði í smá berjasætu, hindber og sýru til að létta aðeins réttinn og gera hann meira svona konudags, ég fékk því mágkonu mína Elínu sem er snillingur í gúmmilaðigerð til að koma með hugmyndir og hún kom með hugmynd að dásamlegu hindberjagumsi sem smellpassar við bæði réttinn og bjórinn sem ég ætla að bjóða frúnni með þessu.
Viðbót júlí 2022. Það er langt síðan ég skrifaði þessa færslu inn og margt vatn runnið til sjávar síðan. Hún heldur sannarlega velli þessi mús en mér datt í hug að prófa að gera Dulce súkkulaðimús líka því dulce súkkulaði er bara svo geggjað gott. Þið hafið vonandi smakkað litlu dulce páskaeggin frá Nóa…klikk! Ég reyndar keypti vitlaust súkkulaði og endaði með saltkaramellu rjómasúkkulaði en það kom samt mjög vel út.
.
Það sem þarf (fyrir ca 5-6 skálar)
Fyrir dökku klassísku músina
- 150 g sykurpúðar
- 50 g smjör
- 250 g gott súkkulaði (125 g suðusúkkulaði og 125 g 70% súkkulaði)
- 60 ml heitt vatn (soðið vatn)
- 285 ml rjómi, þeyttur
- 1 tsk vanilludropar
Fyrir saltkaramellu súkkulaði músina
- Allt eins nema í stað suðusúkkulaði er 250 saltkaramellu rjómasúkkulaði
- Smá salt
- Rifinn límónubörkur
- Rifsber og hindber til að skreyta
Fyrir hindbarjamaukið (best á dökku músina)
- 300 g hindber (frosin er alveg i lagi)
- 1/4 bolli sykur
- 1 mtsk súrbjor, eða bara sítrónusafi
- 1/4 tsk nýmulinn pipar (má sleppa)
.
Aðferð
Þetta er svo einfalt að það er pínu vandræðalegt. Dóttir mín er farin að gera þetta undir eftirliti. Takið 250g súkkulaði og saxið niður setjið í stóran pott, bætið 150 g af sykurpúðum og 50 g smjör í pottinn og bætið svo 60 ml heitt vatn yfir. Látið þetta malla á mjög lágum hita þannig að þetta bráðni saman. Hrærið nánast stöðugt. Látið svo kólna aðeins. Þeytið rjóma og 1 tsk vanilludropa saman og blandið svo varlega saman við rest.
Hindberjamaukið.
Setjið allt í matvinnsluvél og maukið þar til berin eru orðin að mauki. Svo er gott að sigta maukið til að losna við steinana. Sjóðið í örlitla stund á vægum hita en þetta gerir maukið silkimjúkt og aðeins hlaupkennt.
AÐFERÐ: Varðandi dökku músina þá er hægt að fara tvær leiðir í framsetningu, annars vegar að hafa eldrautt hindberjamaukið ofan á súkkulaðimúsinni eins og á myndinni að ofan en það kemur ofsalega fallega út, svo er bjórinn rauður í stíl en hins vegar setur maður maukið í botninn þannig að dásamleg músin fær að njóta sín (mynd að neðan). Ef þið veljið að setja rautt ofan á þá þarf fyrst að láta músina storkna í kæli í svona 2 klst og svo bara hella maukinu ofaná. Ef hin leiðin er valin þá er fínt að setja maukið í skálarnar og inn í frysti í smá stund. Svo er súkkulaðimúsinni hellt yfir og látin storkna í kæli í ca tvo tíma. Loks er skreytt með ferskum hindberjum og brómberjum t.d.
Fyrir saltkaramellu „dulce“ músina þá er það bara að setja hana í skál og kæla yfir nótt og svo skreyta með t.d. rifsberjum og hindberjum. Stráið svo smá sjávarsalti yfir og prófið að rífa límónubörk yfir þetta allt. Mjöög næs.

BJÓRINN: Þetta er ein magnaðasta pörun okkar til þessa held ég, kannski er það bara af því að hér erum við að leika okkur með súkkulaðirétt sem er mitt uppáhald og svo „funky“súrbjór sem ég held líka mikið uppá. Ég veit það ekki, hitt er þó víst, bjórinn einn og sér geggjaður en með súkkulaðimúsinni er hann algjörlega magnaður. Súkkulaðimúsin er mjög saðsöm og þung en hindberjagumsið í botninum opnar þetta upp með ferskum súrum berjablæ. Ég valdi þennan bjór ROSES ARE BRETT frá To Øl einmitt vegna þess að hann er súr og bruggaður með hindberjum og svo er hann bara svo fallegur svona rauður og elegant. Hindberin og sýran í bjórnum tengja gjörsamlega við hindberjamaukið í músinni og gerir það að verkum að bjór og eftirréttur framlengja hvort annað. Fyrst fær maður dásemlegt súkkulaðið, svona silkimjúkt og ljúft en dálítið þungt svo opnast allt uppá gátt með súrsætum hindberjum í botninum og þetta tvinnast allt saman, loks kemur bjórsopinn og framlengir hindberin og súra keiminn en með skemmtilegu „funky“ twisti sem einhvern veginn dregur súkkulaðið aftur fram. Þetta er algjörlega geggjað saman. Roses are brett fæst aðeins via sérpöntun ÁTVR en það er í raun lítið mál að panta svona, maður sendir bara póst á Vínbúðina og óskar eftir sérpöntun. Það er þó vel hægt að mæla með LIEFMANS KRIEK og OUD BEERSEL KRIEK eða GUEUZE sem fást allir í Vínbúðunum.
Fyrir saltkaramellu músina þá gæti súrbjór komið vel út en ég held að gott kampavín væri alveg geggjað með þessu. En það er bara að prófa sig áfram.
2 athugasemdir við “Besta súkkulaðimús í heimi með hindberjum og funky hindberja saison!”