Geggjuð sænsk/indversk chilly klessukaka með spicy karamellu ganace topping

Þessa köku smakkaði ég fyrst þegar við Yesmine Olsson elduðum saman inverska veislu fyrir vini okkar. Mindblowing skal ég segja ykkur, ég hef margoft smakkað sænska klessuköku en þessi er með smá auka krúsídúllum, chilly, myntu og pistasiuhnetum og þessi karamellu hjúpur yfir er bara rugl. Uppskriftin er sem sagt í grunninn frá Eldhússögum og svo hefur hún verið tekið á næsta level af Yesmine. Þessi kaka er fullkominn endir á dásamlegri indverskri veislu.

Við Sigrún vorum með gesti í gær, við elduðum besta kjúklingarétt veraldar, Chicken 65 og svo vorum við með sturlaðar aloo kartöflur með. Í lokin buðum við uppá þessa köku sem sló rækilega í gegn.

Það sem þarf

Fyrir botninn

  • 100 g smjör
  • 2 egg
  • 1 og 1/2 dl Hveiti
  • 5 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • Hnífsoddur salt

Fyrir chilly karamellukremið

  • 2 dl rjómi
  • 1 dl sykur
  • 1 dl síróp
  • 100 g suðusúkkulaði
  • 100 g smjör
  • 1/4 tsk sjávarsalt
  • 1/4 tsk chilly flögur (vorum með extra hot flögur)

Fyrir cruncy kornflex topping

  • 100 g suðusúkkulaði, brætt
  • 1 bolli kornflex
  • 1 tsk rifinn engifer
  • 1/4 tsk chilly flögur
  • Smá salt
  • Pistasíuhnetur, saxaðar
  • Fersk mynta, skorið smátt
  • 1/4 peli rjómi, þeyttur

Aðferðin

Ok það gæti vel verið að Yesmine geri þetta öðruvísi, en svona gerðum við þetta. Höfum gert þetta nokkrum sinnum og alltaf komið vel út.

Hitið bakarofn í 175 gráður, bræðið svo 100g smjör í potti. Takið fram skál, setjið í hana tvö egg, 1,5 dl hveiti, 5 mtsk kakó, 2 tsk vanillusykur og smá salt. Bætið svo smjörinu samanvið og blandið vel. Smyrjið lausbotna form, ca 22-24 cm þvermál. Hellið deiginu ofaní og bakið í ca 20 mínútur. Takið svo kökuna út og látið kólna.

Þá er það kremið. Setjið allt saman í pott nema kryddunum, sem sagt 2 dl rjóma, 1 dl sykur, 1 dl síróp og 100g suðusúkkulaði. Hrærið saman og latið svo suðuna koma upp. Látið svo blönduna malla á lægri hita þar til hún þykknar. Hrærið í annað slagið. Þeta tekur um 10 mínútur. Þegar þetta er orðið dálítið þykkt takið þið pottinn af og bætið smjörinu út í. Blandið vel saman. Bætið svo saman við chilly og saltinu. Smakkið þetta til, það fer auðvitað eftir hversu sterkt chilly þið eruð með. Þetta á samt að rífa dálítið í.

Látið standa þar til það hefur kólnað vel niður. Þetta er reyndar ansi veglegt, mætti jafnvel helminga uppskriftina. Hellið svo yfir kökuna og látið kólna áfram inn í ískáp.

Bræðið 100 g suðusúkkulaði, blandið chilly og fínt rifnumn engifer saman við. Smá salt líka. Hellið kornflex flögum (1 bolli) í skál og hellið súkkulaðinu yfir, blandið vel þannig að flögurnar hjúpist vel. Drefið svo úr þessu á smjörpappír og kælið í frysti.

Svo er bara að taka kökuna úr kæli, mylgja súkkulaðikornflexið yfir, saxið svo pistasíuhnetur og dreifið yfir, ekki spara hneturnar. Svo er ágætt að klippa niður smá ferska myntu. Við hentum bláberjum yfir þetta síðast, kom vel út. Þetta er frábært með mynturjóma. Setjið rjomann bara í skál, klippið niður smá búnt af myntu og þeytið þar til orðið stíft. Ekki flókið

Færðu inn athugasemd