Ég held að Nigella Lawson elski súkkulaði álíka mikið og ég, hún er alla vega með ansi margar súkkulaðiuppskriftir á sínum vefsíðum. Hér er eins sáraeinföld, falleg og svo sannarlega ljúffeng. Algjör dásemd með vönduðum ávaxtabjór á borð við OUD BEERSEL KRIEK.
MÚS (fyrir 4): 150g hvítt súkkulaði, 3 stór egg, 5 ástaraldin og slatti af ferskum hindberjum.
BJÓRINN: Vandaður súrbjór með ávöxtum, t.d. kirsuberjum (kriek), hindberjum (framboise) eða einhverju öðru. Passa þarf að um alvöru ávaxtabjór sé að ræða, ekki þessa með viðbættu ávaxtaþykkni. Gott dæmi er OUD BEERSEL KRIEK eða LIEFMANS KRIEK BRUT.
MÚSIN: Súkkulaðið er brotið niður í litla bita, og svo sett í glerskál yfir potti með vatni. Látið vatnið sjóða. Súkkulaðið á ekki að bráðna alveg í samfellda sósu eins og dökkt súkkulaði heldur er nóg að það sé farið að afmyndast og er orðið mjúkt. Passa vel að ekkert vatn fari i súkkulaðið. Of mikil bráðnun skemmir líka súkkulaðið. Takið skálina svo til hliðar og látið kólna aðeins.
Þeytið eggjahvíturnar þar til orðið stíft. Á að haldast í skálinni þegar henni er hvolft. Blandið svo eggjarauðunum (ekki hvítunum, passið ykkur á því, ég gerði það nefnilega óvart fyrst) saman við súkkulaðið sem hefur náð að kólna aðeins. Varlega! Skerið svo ástaraldinin í helminga og skóflið innvolsinu út, öllu saman, fræ, kjöt og alles, út í súkkulaðiblönduna. Veltið þeim varlega saman við súkkulaðið. Loks blandið þið ofurvarlega hvítunum saman við þetta allt þar til vel blandað saman.
Loks veljið þið einhver falleg glös, setjið hindberin í botnin, fínt að láta standa aðeins þannig að þau kremjist aðeins og myndi safa. Hellið svo músinni yfir og setjið inn í kæli þar til orðið stíft. 4 tímar ættu að duga.
BJÓRINN: Þessi eftirréttur er vissulega flottur bara einn og sér en frábær með góðum ávaxtabjór. Kaffi er ekki málið hér, það rústar dálítið fallegum og viðkvæmum bragðflækjunum í þessum milda eftirrétt. Hvítt súkkulaðið er dásamlegt með eggjunum og skapar mjúka notalega áferð og svo kemur sýran frá hindberjunum og ástaraldininum og klippir upp áferðina og gerir heildina létta og frískandi. Sætan í súkkulaðinu bindst svo vel við sætuna í ástaraldinunum. Bjórinn með þessu þarf að lyfta undir þetta allt saman og ekki yfirgnæfa neitt. Ávaxtabjór er kjörinn í þetta og í raun það eina raukrétta. Belgískur kriek er súrbjór sem þroskaður er með ferskum kirsuberjum í einhverja mánuði. Bjórinn er léttur og súr og svo með berjakeiminn auðvitað. Frábær bjórstíll og geggjaður með svona efirrétt. Það er auðvelt að sjá hvernig sýran í bjórnum tengir við og styður berjasýruna í eftirréttinum á sama tíma og hún skapar dásamlegt mótvægi við þrúgandi sætuna. Þetta er eiginlega of góð pörun til að reyna að lýsa í rituðu máli. Prófið t.d. OUD BEERSEL KRIEK.
Ein athugasemd við “Hvít súkkulaði- og ástaraldin mús með ávaxtabjór!”