Sunnudagar eru oft leiðinlegir, já eða það finnst mér alla vega, einhvern veginn ekkert að gera og bara vinnuvika faramundan. Það er vel hægt að lyfta upp deginum með einhverju góðu í gogginn. Ég sá þessa uppskrift um daginn á instagram, theberonesse heitir „accountinn“ en þar eru að finna helling af spennandi bjóruppskriftum.
Ég er mikið fyrir súkkulaði, þannig er það bara og góð „brownie“ er himnasæla ef hún er vel gerð. Hér er uppskrift sem er að slá í gegn hér á mínu heimili á þessum rigningar sunnudegi. Það er allt í lagi að para við bjór á sunnudegi, það er enginn að fara detta í það svo sem. Ath, maður þarf eiginlega að baka þetta deginum áður og láta standa í kæli yfir nótt.
Bjórinn
Það er reyktur stout í þessari uppskrift en eini bjórinn af þeim toga hér heima í vínbúðunum er Lava stout frá Ölvisholti en hann er líka virkilega ljúffengur og flottur í matargerð. Ég hef oft gripið í hann t.d. við hægeldaðan grís, sósur og annað. Það var hins vegar enginn Lava til í Vínbúðinni þegar ég ætlaði að henda í köku, það er í raun í lagi en reykurinn er dálítið einkennandi og sérstakur og ég vildi gera þetta eftir bókinni. Ef þið finnið ekki Lava þá er hægt að nota bara þurran porter eða stout í staðinn. Ég hins vegar á til nokkrar flöskur af Surti 30 frá Borg brugghús, bæði frá 2015 og 2016. Þessi var ofsalega reyktur í upphafi en árin hafa mildað reykinn nokkið og er hann orðinn ljúfur sem lamb.
Það sem þarf í þetta
Fyrir brownie
- 280g hafrakex (Digestive), mulin
- 2 msk púðursykur
- 90g bráðnað smjör og aftur 90g bráðnað smjör (notað á mism. stöðum)
- 420g sykur
- 135g ósætt bökunarkakó
- 1 tsk salt
- 3/4 bolli (um 164g) reyktur stout7porter
- 1 tsk vanillodropar
- 2 stór heil egg og tvær eggjarauður
- 95g hveiti
- 1/4 tsk reykt paprika
Fyrir pecan lagið
- 2 msk reyktur stout
- 1 bolli púðursykur
- 1/2 bolli hlynsíróp
- 2 egg
- 1 tsk vanilludropar
- 55g bráðið smjör
- 57g (1/4 bolli) rjómi
- 230g hakkaðar pecan hnetur
- 1 sk salt
Aðferð
- Hendið 280g hafrakexi í matvinnsluvél, brjótið þetta niður fyrst og setjið 2 msk púðursykur saman við og blandið þar til orðið vel mulið. Hafið vélina í gangi og bætið bráðna smjörinu (90g) saman við. Blandið þar til þetta er orðið eins og blautur sandur.
- Pressið þessu ofan í ferkantað mót, 23 x 33cm (ég var með ögn minna og fékk því aðeins þykkari bita)
- Blandið saman afgangnum af smjörinu (90g), 420g sykur, 135g bökunarkakó, 1 tsk salt, 1tsk vanilludropar og bjórnum í hrærivél.
- Þegar þetta er allt sameinað bætið þið eggjunum út í, tvö heil egg og tvær eggjarauður. Hrærið þar til vel blandað saman.
- Loks bætið þið hveitinu (95g) og reyktu paprikunni út í og hrærið létt þar til hefur blandast saman, ekki mikið meira en það.
- Hellið þessu svo yfir kexbotninn og inn í ofn á 180gráður í 20-25 mín. Takið þetta svo út og lækkið ofninn í 160 gráður.
fyrir pekan lagið
- Þvoið hrærivélaskálina og blandið svo saman 2 msk bjór, 1 bolla púðursykur, 1/2 bolla sírópi, 2 egg, 55g smjör, 57g rjóma og hökkuðu pecanhnetunum. Blandið vel saman.
- Hellið þessu yfir brownie lagið þannig að það þekji alveg og bakið í 35 mín við 160 gráður. Miðjan á að vera dálítið hreyfanleg en ekki eins og drulla.
- Matarfilma yfir og kælið í ískáp yfir nótt.
Pörunin
Ok það skal sagt bara strax í upphafi, þetta er eins langt frá lágkolvetna eða keto fæði og hægt er enda er það bara allt í lagi líka. Þetta er líka svakalega þungt í maga þannig að þessi uppskrift er líklega fyrir 12 manns, farið varlega.
Kakan er mjög djúsí og dálítið klístruð, salt er áberandi en svo er líka ákveðin sæta frá pecan laginu og súkkulaðið kemur auðvitað líka vel fram. Ég finn lítið sem ekkert fyrir reyknum í bjórnum í þessu samt. Þetta er dásamelgt í munni, 3-4 bitar alveg nóg held ég. Rjómi eða vanilluís er fullkomin og jafnvel kærkomin viðbót við þetta. Hér er svo hægt að bjóða kaffi með, það gengur alltaf með svona súkkulaði kökum en ef við viljum hafa bjór þá má það ekki vera of þungur bjór, það gæti endað illa. Imperial stout og jafnvel stout er því úr myndinni hins vegar er porter léttari og mildari bjór og alveg ljómandi pörun.
Porter hefur margt sameignlegt með kaffibollanum, hann er til að byrja með svartur eins og kaffi en í hann er notað ristað malt sem gefur þennan lit en einnig létta rist og kaffikeim. Oft koma einnig fram léttir súkkulaðitónar. Bjórinn er með ögn beiskju en þó ekkert eins og IPA. Beiskjan léttir vel á þessum rétt og klippir í gegnum smjörfituna og klístrið og opnar upp bitann í munni. Kaffið og ristin tengja vel við súkkulaðið og hneturnar og draga dálítið úr sætunni sem getur orðið heldur mikil. Súkkulaðið í kökunni dregur einnig fram súkkulaðikeiminn í bjórnum. Þetta er mjög ljúft allt saman. Við notuðum hér Myrkva frá Borg brugghús en það er ljómandi porter og meira að segja notað kaffi í hann, kaffi porter.
You must be logged in to post a comment.