Stout súkkulaði kirsuberja baka með villtum kirsuberjabjór

Ég rakst á þessa uppskrift um daginn einhvers staðar og varð strax hugfanginn, þetta getur ekki verið vont.  Stout kirsuberja baka!  Ég hef verið að bíða eftir rétta augnablikinu til að henda í þetta og svo kom Rebekka Cherry Wild Ale frá Borg út og þá voru bara engar afsakanir lengur.  Hljómar eins og drauma combo og það kemur svo í ljós að það er  það svo sannarlega.

Ég er ekki flinkur að baka en mér tókst þetta og þá tekst ykkur þetta líka, líklega jafnvel betur.

Það sem þið þurfið:

Böku botn, (pie crust), það eru margir möguleikar, veljið það sem þið eruð vön að nota.  Hér er ein hugmynd.  Þessi er dálítið rífleg fyrir 31cm form.

  • 240g smjör
  • 180g flórsykur
  • 1 tsk salt
  • 60g möndlumjöl (fínt hakkaðar möndlur)
  • 1 stk egg
  • 1 stk eggjarauða
  • 470g hveiti

Fyllingin

  • 300g 70% súkkulaði brotið í bita
  • 4,5 msk ósaltað smjör
  • 3 msk hlynsíróp
  • 120ml stout
  • 4,5 msk rjómi
  • 2 og 1/2 bolli steinlaus kirsuber, má vera 3 bollar ef þið nennið

Þeyttur rjómi

  • 2 bollar rjómi (473ml)
  • 2/3 bolli flórsykur (158ml)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 2 msk stout

Bjórinn

  • Stout fyrir rjómann og fyllinguna.  Hér notaði ég Lepp frá Brothers Brewing sem er frábær í þetta.  Leppur er milk stout en þetta má vera hvaða stout sem er svo lengi sem hann er góður.
  • Kirsuberjabjór (kriek) eða flanders red.  Má svo sem prófa frambozen eða svipað.  Hér notaði ég Rebekku Cherry Wild Ale frá Borg sem er magnaður, ég prófaði líka Rauðhettu og Úlfinn frá Borg og Brekeriet sem kom álíka vel út.

IMG_8459

Aðferðin

Böku botn

Byrjið á bökunni, hafið allt hráefnið við sama hita og setjið saman í hrærivél nema 350g af hveiti.  Blandið þessu saman í vélinni, bætið svo afganginum af hveitinu eftir þörfum, ekki víst að þurfi allt.  Byrjið á að bæta við og notið hnoðarann á hrærivélinni, færið svo á borðið og hnoðið í höndunum.  Þetta á að vera aðeins rök klessa, ekki of þurrt. Kælið í ísskáp í 5 mín, því best er að vinna með deigið kalt.

Á meðan deigið er að kólna er gott að skera kirsuberin í tvennt og steinhreinsa, það er dálítið dúlt..

Takið svo tvær arkir af bökunarpappír, stráið smá hveiti á deigið og fletjið mjög þunnt á milli pappírsarkanna. Við erum að tala um ca 3mm þykkt.   Setjið svo deigið í böku form og látið standa í ca 30 mín. ATH miðað við 31 cm form þá verður afgangur af deiginu. Gott er að pikka nokkur göt í botninn. Loks er þetta bakað í ofni við 160 gráður þar til kominn er aðeins litur á þetta.  Þetta tekur um 20 mín.  Takið svo bökuna út og látið kólna alveg.

Fyllingin

20190323_153122.jpgBrytjið 200g súkkulaði, 3 msk smjör, 1/3 bolli stout og 2msk hlynsýróp í skál sem þolir hita.  Setjið ögn vatn í pott og látið malla á lágum hita.  Setjið skálina yfir og látið bráðana. Hrærið reglulega í með sleikju.  Passa að ekkert vatn komist í súkkulaðið, þá kekkjast allt.  Þegar þetta er bráðnað og komið vel saman bætið þið 3 msk rjóma saman við og blandið vel saman.  Loks hellið þið öllum kirsuberjunum saman við og hrærið saman þar til öll berin eru hulin súkkulaði.

Látið þetta kólna aðeins, þó ekki þannig að byrjið að storkna.   Hellið svo ofan í böku botninn sem er orðinn kaldur.   Dreifið vel úr og setjið svo plastfilmu yfir og inn í ísskáp í amk 4 tíma.  Best að láta þetta bara vera yfir nótt.

Rjóma toppur

Skömmu áður en þetta er borið fram er allt sett í skál og þeytt í hrærivél þar til myndast dálítið stífir fallegir toppar.  Smakkið þetta þetta er fáránlega gott.  Svo dreifið þið bara úr þessu ofan á kældu bökuna og skreytið með ferskum kirsuberjum.   Þetta má svo stífna aftur í ísskáp en þá verður rjóminn dálítið eins og stíft krem ofaná sem er líka gott.

IMG_8490-01.jpeg

Pörunin

Þetta er ofsalega skemmtilegt, kakan er svo glæsileg með dökkvínrauðum kirsuberjum og Rebekka kemur ofsalega vel út með þessu í glæsilegu flöskunni með korktappa og vírneti.  Allt voðalega elegant og spennandi að bera fram.  Gestir reka upp stór augu.

Kakan ein og sér er virkilega flott, 70% súkkulaðið og stoutinn í fyllingunni gefa áberandi beiskju og seltu en berin og sætur rjóminn ofaná jafna þetta aðeins út.  Útkomonan er flott og alls ekki væmin, frekar hallast þetta aðeins yfir í beiskju hliðina. Svo koma notalegir kontrastar fram þegar stökkur botninn mætir lungnabjúka rjómanum ofaná. Það góða við þetta er að börnin voru ekkert voðalega hrifinn og létu kökuna vera, ekki nógu sætt fyrir þau.  Ef maður vill hafa þetta meira barnvænt og væmið væri hægt að hafa 55% súkkulaði t.d.  En við viljum það ekki hér því bjórinn gerir það sem þarf.

Rebekka cherry wild ale er algjörlega frábær með þessu, léttur og sýrður með kirsuberjatónun og skemmtilegu gerkryddum.  Berin tengja saman við berin í kökunni og draga fram bragið þannig að maður áttar sig á að hér erum við með kirsuberja böku.  Sýran léttir á beiskjunni í kökunni og léttir á öllu og svo er eins og sætan í kökunni verði meiri sem líklega má hengja á kirsuberin í bjórnum.  Loks gerir kolsýran góðverk með því að kljúfa fituna í rjómanum og smjörinu í botninum upp og hreinsa þannig gómboga og bragðlauka.   Þessi blanda er geggjuð og ég verð að segja að hér er bjórinn ómissandi.

Við prófuðum líka Rauðhettu og Úlfinn sem er flanders red/IPA eða wild IPA.  Hér eru berjatónar á borð við kirsuber áberandi og bjórinn er funky og súr sem smellpassar við þessa böku.   Já hér eru alla vega tveir möguleikar en það má leika sér með aðra stíla líka. t.d. Gæti stout virkað vel eða porter, t.d. bjórinn sem við notum í fyllinguna og rjómann.   Hér var það Leppur (milk stout) frá Brothers Brewing en ég var bara búinn að drekka hann þegar kom að því að smakka bökuna.

Páskaegg frá HR konfekt með rétta bjórnum, er til eitthvað betra?

Fyrir okkur hjá Bjór & Matur eru páskarnir tími til að njóta, við erum að tala um frí frá vinnu og svo allt hnossgætið, súkkulaði í stórum stíl, páskabjórinn og svo má ekki gleyma blessuðu lambinu.  Það eru margir sem framleiða páskaegg hér á landi, hillurnar í búðunum eru þegar farnar að fyllast af þessu. Fyrir súkkulaðifíkil eins og mig þá eru hins vegar til páskaegg og svo eru til PÁSKAEGG!   Já ég segi það bara, súkkulaði er ekki bara súkkulaði, þetta er svona rétt eins og með bjórinn, það er til fjöldaframleitt óspennandi súkkulaði og svo erum við með vandað hanverks súkkulaði.  Minn uppáhalds súkkulaðikarl hér heima er Hafliði Ragnarsson frá HR konfekt / Mosfellsbakarí,en þar á bæ kunna menn sko að gera súkkulaði og þegar kemur að páskaeggjum þá erum við að tala um hrein listaverk.  Eggin eru svo falleg að maður vill eiginlega ekki borða þau, bara horfa.  Það er samt hluti af þessu öllu saman og gleymist oft, maður á að nota öll skilningarvitin þegar maður er að njóta sælkeravöru ekki bara bragðskynið.

Súkkulaði og bjór á vel saman, menn virðast eiga erfitt með að sjá það fyrir sér en það er svo sannarlega málið.  Við höfum áður leikið okkur með bjór og súkkulaði með mjög góðum árangri.   Þetta árið ákváðum við að prófa helling af bjór og finna hina fullkomnu pörun með eggjunum frá Hafliða en hann gerir þrjár gerðir, dökkt 70% súkkulaði, mjólkursúkkulaði 38% og dulcey blond 32% súkkulaði.  Reyndar líka eitthvað af eggjum úr hvítu súkkulaði.  Ég get sagt ykkur það að mér leið eins og krakka í leikfangabúð þegar ég fékk túrinn í súkkulaðigerðinni þeirra!  Ég gæti sennilega ekki unnið þarna án þess að lenda í stórkostlegum vanræðum.

Ár hvert dettur haugur af páskabjór í vínbúðirnar, flest allt frekar óspennandi en það er þó einn og einn góður.  Við ákváðum að vera ekkert sérstaklega að einbeita okkur að páskabjór með páskaeggjunum en það slæddust þó nokkrir inn í prufurnar.  Hér er svo afraksturinn.

Glæsilegt gullið Dulcey Blond egg.

IMG_7174
Byrjum á Dulcey en þetta er uppáhalds egg konunnar.  Dulcey súkkulaði er elegant ljós karamellubrúnt og lungnamjúkt með rjómakenndri áferð í munni.  Það er nokkur sæta á tungu en ekki eins sætt og hvítt súkkulaði eða mjólkursúkkulaðið.  Við finnum svo ögn karamellukeim og smákökur og það örlar fyrir kókos.
Eftir smakk kvöldsins komumst við að því að Dulcey eggið passaði við nánast alla bjórstílana en það sem stóð uppúr voru súru ávaxtabjórarnir.  Það er vel þekkt hjá súkkulaðigerðum að tengja ávexti/ber við súkkulaðið, maður sér það t.d. í sumum molunum sem eru inní eggjunum frá HR.  Sumir eru með jarðaberjafyllingu eða ástaraldin ofl.
Oud Beesel Kriek er með betri kirsuberjabjórum sem við höfum aðgang að hér heima og gengur mjög vel með súkkulaði.  Kriek er belgískur villigerjaður bjór, bruggaður með örverum úr andrúmsloftinu sem gefa frá sér súran funky keim, svo er bjórinn látinn þroskast á kirsuberjum í mánuði og drekkur hann þannig í sig dásamlegan berjakeiminn.  Bjórinn er þannig aðeins súr og svo með áberandi kirsuberjabragði.  Svona bjór er líka nokkuð kolsýrður en kolsýran hjálpar til með að hreinsa palletuna og létta á öllu milli bita. Súkkulaðið þekur nefnilega dálítið góminn með dásamlegum rjómakenndum súkkulaðihjúp sem kolsýran skefur svo af milli bita.  Sýran í bjórnum dregur ögn úr sætunni í súkkulaðinu og kirsuberin tengjast mjög vel við súkkulaðið og gefa ákveðin elegans ofan á elegant.   Þetta alveg stein lá.

IMG_7148.JPG

Við prófuðum fleiri súrbjóra með þessu eggi og kom nýji collab bjórinn frá Borg stórkostlega út með þessu eggi líka.  Kalsari Kannit sem er ketilsýrður bjór með ástaraldin og ferskjum. Þessi bjór er bruggaður með einhverju finnsku brugghúsi sem ég bara þekki ekki neitt til. Verst að þessi kemur ekki í búðir hér heima en bjórinn er virkilega flottur og fæst á helstu börum borgarinnar um þessar myndir.

Dökkt 70% lífrænt súkkulaði frá Perú (Fairtrade).

Uppáhalds súkkulaðið mitt persónulega er þetta hér, dökkt, mikið og geggjað með kakó og svo ögn beiskju í bland við sýru. Eggið er ofsalega fallegt svona undið og snúið með kopargyllingu.   Hér koma ávaxtabjórarnir vel út, Oud Beersel Kriek er t.d. mjög flottur hér líka en bjórinn bæði léttir á öllu og gefur svo frísklegan ávaxtakeim ofaná.  Það sem okkur fannst hins vegar enn betri pörun var nýji páskabjórinn frá The Brothers Brewing í Vestmannaeyjum sem heitir einfaldlega Páska Bjór Milk Stout 8% og er svo kallaður imperial milk stout.

IMG_7202

Stout er kolsvartur bjór sem bruggaður er með brenndu byggi sem gefur bæði lit og svo ristað bragð sem oft minnir á expresso og dökkt súkkulaði.  Milk stout er svo samskonar nema að í hann er notaður mjólkursykur, lactosi sem gerfrumurnar geta ekki notað í gerjunina og því situr hann eftir í loka afurðinni og gerir bjórinn sætari og meira djúsí.  Páska Bjór Milk Stout er einmitt það, mjúkur og rjómakenndur í munni með sætum nótum en einnig þessa notalegu kaffirist og svo er smá lakkrís.  Hver kannast ekki við kaffi og súkkulaði annars?  Þetta kemur í staðinn og er enn betra.  Hér er tengingin augljós,  kaffirist og súkkulaði, sætan í bjórnum tónar svo beiskjuna frá súkkulaðinu niður og þetta verður bara æðisleg upplifun.  Páskabjór með páskaeggi, bæði dæmi um handverk af bestu gerð.

Við prófuðum alla bjórana með öllum eggjunum og komumst að því að Páska Bjór frá The Brothers gengur vel með þeim öllum.  Hér er líklega bara hinn fullkomni páskabjór á ferðinni?

Mjólkursúkkulaði 38%

Loks vorum við með klassískt páskaegg úr mjólkursúkkulaði, mjög sætt súkkulaði sem bráðnar í munni og þekur góm og tungu með feitri kakóskán.  Ekki svo að skilja að það sé neikvætt samt.  Fyrir mína parta er þetta aðeins of sætt en krakkarnir elskuðu það.  Hér komu súru bjórarnir vel út og tóna vel niður sætuna, porter og stout koma vel út líka með þessu og bæta rist og ögn beiskju við upplifunina.  Myrkvi frá Borg og Páska Bjór Milk Stout frá Brothers voru flottir með t.d.  Hins vegar er belgískt öl alltaf skemmtilegt með súkkulaði, belgíska ölið er oftast lítið sem ekkert beiskt og svo erum við með ávaxtalega sætu, oft karamellu og gerkrydd sem gaman er að leika sér með við mat. Belgískur bjór er oft einnig nokkuð kolsýrður en það er einmitt þægilegur eiginleiki þegar við erum með feita áferð í mat. Páskabjórinn þetta árið frá Borg brugghúsBarabas nr 57 (8%) er einmitt skemmtilegur belgískur dubbel sem fer blíðum höndum um tunguna með snefil af dökkum ávöxtum og notalegum belgískum kryddum.  Barabas kom vel út með mjólkursúkkulaðinu og kolsýran er mjög hentug hér því hún léttir skánina af gómnum og hreinsar alveg palletuna og gerir klára í næsta skammt.

IMG_7213

Það þarf svo alltaf að hafa í huga við svona lesningu að hér ræður smekkur manna öllu.  Ofanritað er einungis ætlað sem leiðbeiningar fyrir þá sem vilja prófa sig áfram.  Við vorum þrjú í þessum pælingum (takk Ólafur Darri fyrir aðstoðina) og eru þetta niðurstöður okkar þriggja en segir í raun ekkert um hvað þér þykir best.  Njótið heil!

 

Dásamleg Nutella Ostakaka parað við Kirsuberja Súrbjór (Kirek) og Porter!

Nú fer að líða að konudeginum og þá er eins gott að fara íhuga trít fyrir betri helminginn. Ég er mikið fyrir súkkulaði og súkkulaðieftirrétti og það er sem betur fer eiginkonan líka þannig að þetta er nokkuð borðleggjandi.  Þegar kemur að eftirréttum þá leita ég oft til Nigellu Lawson til að fá hugmyndir því ég veit að hún er mikill nautnaseggur eins og ég og eftirréttir hennar svíkja sjaldan.  Þessi er t.d. eins og sniðin fyrir mig nutella ostakaka!   Eins og ég segi oft, það næstbesta við þessa uppskrift (það besta er auðvitað útkoman) er að það er sára sára einfallt að gera hana, meira að segja ég get gert hana!

Gott er að gera kökuna daginn áður en hún er borin fram því þá verður hún stíf og fín í ísskápnum.

Innkaupalistinn er hér (fínt að taka bara mynd af honum með símanum):

– 400 g Nutella við stofuhita
– 250 g hafrakex, Digestives
– 75 g mjúkt ósaltað smjör
– 100 g saxaðar ristaðar herslihnetur
– 500 g rjómaostur við stofuhita
– 60 g flórsykur, sigtaður

-Myrkvi frá Borg
-Oud Beersel Kriek

Aðferð:

  1. Myljið kexið í blandara, bæti við smjörinu og um 15 ml af Nutella.  Blandið saman.  Bætið svo 3 mtsk herslinetum við og blandið þar til orðið eins og aðeins rakur sandur.
    .
  2. Finnið til hringlaga springform ca 25cm í þvermál eða þannig að kexbotninn verði ca 1 cm á þykkt þegar kexblandan er sett í. setjið kexblönduna svo í formið. Mér finnst fínt að hafa smjörpappír í botninn og smyrja hliðarnar á forminu með smjöri.  Þéttið með skeið eða bara lóanum.  Skellið inn í ísskáp
    .
  3. Þeytið svo rjómaost og flórsykur saman í hrærivél þar til orðið mjúkt og án kekkja.  Bætið þá afganginum af nutella saman við og þeytið áfram.  Við viljum enda með silkimjúka og algjörlega ókekkjótta blöndu.
    .
  4. Takið formið út úr ísskápnum og setjið blönduna varlega yfir kexbotninn.  Þekjið svo yfirborðið með herslihnetunum og setjið filmu yfir og inn í áskáp þar til næsta dag.  Berið fram beint úr ísskápnum.


Pörunin
:
Kakan er ekki eins þung og ætla mætti, rjómaosturinn gefur netta sýru sem léttir aðeins á.  Engu að síður erum við með helling af nutella og svo kexbotninn sem er dálítið þungur.   Við gætum farið í imperial stout með þessu sem er nokkuð klassískt með svona rétt en fyrir mér væri það of þungt.  Við viljum létta á þessu og opna upp með t.d. spriklandi gosmiklum kirsuberja súrbjór eða kriek eins og hann heitir á frummálinu.  Hér á landi er ekki mikið úrval sem stendur en við höfum þó aðgang að einum besta kriek í heimi, OUD BEERSEL KRIEK.  Kakan þekur góminn með silkimjúkri hnetusúkkulaðiskán sem gælir við bragðlaukana en gæti orðið aðeins þrúgandi til lengdar en bjórinn skefur þessa skán af með kolsýrunni og bætir svo léttri sýru ásamt kirsuberjum við bragðupplifunina.  Sýran í ostinum tengir algjörlega við sýruna í bjórnum.  Svo er bjórinn svo fallegur á borði, fagur rauður og konudagslegur ekki satt?  Þetta er frábær leið til að heilla konuna upp úr skónum, ja eða bara hvern sem er.

IMG_6911Við Sigrún vorum mjög sátt, hins vegar fannst okkur jafnvel vanta smá kaffirist með þessu. Það er alltaf gott að fá sér kaffi eftir góða máltíð.  Það er auðvitað hægt að fá sér rjúkandi kaffibolla með, það kemur mjög vel út en ef við erum að einbeita okkur að bjórnum þá er MYRKVI frá Borg algjörlega máli.  Þetta er fullkomið combo, Myrkvi er kaffi porter ef bestu gerð sem þýðir ristað korn og kaffibaunir er gefa ljúfa kaffitóna í bakgrunni.  Súkkulaði og kaffi er órjúfanleg heild ekki satt?  Nett beiskjan frá humlunum virka líka ofsalega vel á móti rjómaostinum og fitunni í þessu og hjálpar til við að létta á pallettunni milli bita.  Ristin á korninu er svo eins og beint framhald af ristuðu herslihnetunum á kökunni.  Þetta bráðnar allt einhvern veginn í fullkomna heild.

Já hér eru tveir mjög skemmtilegir möguleikar í boði, er ekki bara um að gera að prófa báða?

Grillað lamb í kirsuberjabjórlegi með kinoa-myntu salati með granateplum, pistashnetum og geitaosti.

Það eru komnir tveir nýjir bjórar frá Borg í hillur Vínbúðarinnar, tveir af nokkrum reyndar þetta sumarið, annar er ný útgáfa af Ástríki sem sem bara dúkkaði upp í dag en Ástríkur er eins og margir muna hinn árlegi óopinberi Gay Pride bjór okkar Íslendinga. Hinn er endurútgáfa af Aycayia IPA sem er samstarfsbjór Borg Brugghúss og Cigar City í Tampa.  Þetta er bjór sem ég er mjög stoltur af enda átti ég nokkurn þátt í tilurð hans á sínum tíma.  Bjórinn kom út í flöskum á síðasta ári sælla minninga en er nú kominn í nýjan og betri búning, dósir sem eru bæði umhverfisvænar og varðveita gæði bjórsins betur en flöskurnar!

Kriek legið lambakjöt.

20170614_225919

Ég hef haft augastað á þessum rétti í nokkurn tíma.  Uppskriftin er úr bókinni Cooking with beer eftir Mark Dredge.  Ég greip nokkrar lambasteikur um daginn þegar ég var að skoða Costco eins og stór hluti þjóðarinnar.  Ég fann svo aldrei tíma til að elda þær vegna anna.  Í gær ákvað ég að henda kjötinu í pækil þar sem ég átti allt til sem þurfti, ekki vildi ég að kjötið færi til spillis.  Daginn eftir var svo kjötið eldað.  Hugmyndin var upphaflega að para þetta með stout eða porter, reyndar veit ég að súrbjór á borð við gueuze myndi líka ganga vel.  Ég komst hins vegar ekki í vínbúðina fyrir kvöldið.  Ég átti til smakkprufur af Ástríki og Aycayia og ákv að prófa þá með lambinu.  Hugmyndin er svo sem ekki galin, belgískur blond með tropical humlum sem smellpassa við ávaxtaþemað i salatinu og svo þessi geggjaði Aycayia sem er hlaðinn af djúsí framandi suðrænum humlum sem gefa okkur keim af  mango, ferskjum, ástaraldin ofl.  Ég verð að viðurkenna að ég varð bara nokkuð spenntur fyrir þessu.  Mynta, granatepli, sítróna og kirsuber með öllum þessum suðrænu ávaxtatónum frá ölinu hljómar næstum jafn vel á blaði og í munni.


Það sem þarf (fyrir 4):

Pækill
250ml Oud Beersel Kriek eða annar kriek
3 mtsk sykur
3 mtsk salt
12 kóríander fræ, mulin
1/2 tsk mulinn kanill
2 lárviðarlauf
3 hvítlauksgeirar
Lambakjöt að eigin vali, kótilettur eða lambasteikur t.d.

Salatið
Kinoa mv 4 (ca 60g á mann)
Fræ úr einu granatepli (varðveitið safann ef hægt)
100g ristaðar pistashnetur (án skeljar)
Rjómageitaostur eftir smekk
Lúka af ferskri myntu, skorin fínt

Dressing

4 mtsk Oud Beersel Kriek eða annar kriek
2 mtsk sítrónusafi
2 mtsk safi úr granatepli ef einhver er
4 mtsk olífuolía
1 mtsk hunang
1/2 tsk salt

Bjórinn
Ástríkur belgískur pale ale eða Aycayia IPA eru mjög skemmtilegir með þessu en aðrir góðir möguleikar eru stout eða gueuze (t.d. Oud Beersel Gueuze).

Aðferð

Daginn fyrir eldun er pækill undirbúinn.  Setjið allt í skál og hrærið.  Geymið rest af bjórnum til morguns.  Hellið yfir í ílát með loki og látið kjötið ofan í þannig að það fljóti yfir kjötið.  Bætið vatni ef þarf.

Þegar elda á kjötið, takið lambið úr pæklinum og þerrið með viskastykki eða bréfi.  Saltið og piprið aðeins og grillið á heitu grilli í nokkrar mín á hvorri hlið.  Látið hvíla í 5 mín áður en borið fram.

Sjóðið kinoa eins og stendur á pakkningu og látið kólna.  Blandið svo í skál eða á fat. Dreifið svo granateplafræjum, hnetunum, geitaosti og myntu yfir á smekklegan hátt. Búið til dressing með að blanda öllu saman í skál og hræra vel.  Dreifið svo yfir bæði lambið og salatið.  Það munar öllu að hafa svoldið vel blautt salatið.


 

BJÓRINN

20170615_180513ÁSTRÍKUR frá Borg brugghús er sem fyrr segir hinn óopinberi Gay Pride bjór okkar Íslendinga.  Hann kemur út í regnbogalitum ár hvert í kringum Gay Pride og áletrunin á merkimiðanum er öfug miðað við það sem við eigum að venjast.  Hingað til hefur Ástríkur verið öflugur belgískur tripel eða strong ale í krinum 10% áfengis en að þessu sinni er hann aðeins 4.6%.  Bjórinn er bruggaður með úrvals amerískum humlum sem þekktir eru fyrir suðrænan bragðprófíl.  Útkoman er notalegur belgískur blond með þægilega beiskju og milda suðræna ávaxtastemningu.  Mjög notalegur og auðveldur bjór.

Hinn bjórinn er svo hinn dásamlegi AYCAYIA, sem einnig er frá Borg, vægast sagt stórkostlegur bjór með aðdáunarverðan humalprófíl, Equinox, El Dorado, Eureka, Calypso, Mandarina Bavaria ásamt þekktum félögum Citra, Mosaic og Magnum. Þessi samsetning gefur af sér suðræna hamingjubombu á formi 6.4% IPA.  Í glasi er hann gylltur og mattur með dúnamjúkan froðuhaus.   Um leið og maður hellir honum finnur maður tælandi angan af suðrænum ávöxtum á borð við ananas, perur og mango til að nefna eitthvað.  Í munni er hann hreint út sagt dásamlegur, spriklandi gosið lífgar strax upp á bragðlaukana og gerir þá klára fyrir humlaseríuna sem mynda flókið samspil ávaxta, beiskju og blóma.  Hér má finna heila ávaxtakörfu af suðrænum ávöxtum af öllum stærðum og gerðum.  Ég fer ekki nánar út í það því hér verða menn að lofa sínum eigin bragðlaukum að ákveða nákvæmlega hvaða ávexti þeir pikka upp en það er einmitt svo einstaklingsbundið.  Sætan er langt í frá að vera of mikil því bjórinn er nokkuð þurr á móti.  Eftirbragð er langt og seyðandi og manni einhvern veginn er alveg sama þó maður eigi eftir að tapa áttum.  Hver sopi kallar á þann næsta en þannig á það líka að vera.

PÖRUNIN

Þessi réttur er mildari en mann grunar.  Bragðið af lambakjötinu fær að njóta sín til fulls þar sem engar þungar sósur eru að trufla, ég mæli samt með að menn noti ríkulega af dressingu til að fá þennan flotta súra berjakeim sem kemur mjög flott út með myntunni.  Seltan frá pistashnetunum, sýran frá granateplafræjunum og svo þessi funky jörð og rúnaða áferð frá geitaostinum vinna vel saman með myntunni og kirsuberjakeimnum frá ölinu og lífga hressilega upp á lambakeiminn og skapa dálítið „öðruvísi“ stemningu.

Hér verðum við að spá í regluna um að para létt með léttu því við viljum ekki gera lítið úr kjötinu.  Bjórinn þarf að lyfta undir réttinn og draga fram skemmtilega bragðtóna sem maður jafnvel myndi missa af annars.  Belgískur blond er flottur í þetta og ég tala nú ekki um ÁSTRÍK sem er með amerískum humalprófil sem gefa bragð af þekktum suðrænum ávöxtum.  Hér passar nefnilega að hafa ávaxtasætuna með til að draga fram ber og ávexti í dressingunni.  Belgíski gerkeimurinn á einnig alltaf vel við lambið sem er dálítið jarðbnundið ef svo má segja.  Myntan og krydd frá gerinu vinna mjög skemmilega saman.

20170617_192709 (1)

Klassískur IPA er kannski ekki fyrsta val með svona mildum lambarétti en beiskjan frá humlunum koma reyndar alltaf vel út með grilluðu kjöti og eins er beiskjan þægileg móti fitunni í kjötinu.  AYCAYIA er vissulega IPA en með tropical humlum sem gefa bragð af framandi suðrænum ávöxtum á borð við það sem maður fær í Ástríki nema bara mun meira áberandi. Humlarnir vinna einnig vel með myntunni og draga hana meira fram. Bjórinn gerir þennan milda rétt nokkuð bragðmeiri og skapar meiri dýpt og ávextirnir eiga vel við eins og fyrr segir.

Ég var með lambasteikur hér en ég held að grillað þurrkryddað lambalæri kæmi ofsalega vel út líka, mig langar amk að prófa það næst.  Skál, svo hlakka ég til að skrifa næstu snilld frá Borg sem er bara rétt handan við hornið.  Lifið heil!

Hvít súkkulaði- og ástaraldin mús með ávaxtabjór!

Ég held að Nigella Lawson elski súkkulaði álíka mikið og ég, hún er alla vega með ansi margar súkkulaðiuppskriftir á sínum vefsíðum.  Hér er eins sáraeinföld, falleg og svo sannarlega ljúffeng.   Algjör dásemd með vönduðum ávaxtabjór á borð við OUD BEERSEL KRIEK.


MÚS (fyrir 4): 150g hvítt súkkulaði, 3 stór egg, 5 ástaraldin og slatti af ferskum hindberjum.

BJÓRINN: Vandaður súrbjór með ávöxtum, t.d. kirsuberjum (kriek), hindberjum (framboise) eða einhverju öðru.  Passa þarf að um alvöru ávaxtabjór sé að ræða, ekki þessa með viðbættu ávaxtaþykkni.  Gott dæmi er OUD BEERSEL KRIEK eða LIEFMANS KRIEK BRUT.


MÚSIN: Súkkulaðið er brotið niður í litla bita, og svo sett í glerskál yfir potti með vatni. Látið vatnið sjóða.  Súkkulaðið á ekki að bráðna alveg í samfellda sósu eins og dökkt súkkulaði heldur er nóg að það sé farið að afmyndast og er orðið mjúkt. Passa vel að ekkert vatn fari i súkkulaðið. Of mikil bráðnun skemmir líka súkkulaðið.  Takið skálina svo til hliðar og látið kólna aðeins.

Þeytið eggjahvíturnar þar til orðið stíft.  Á að haldast í skálinni þegar henni er hvolft. Blandið svo eggjarauðunum (ekki hvítunum, passið ykkur á því, ég gerði það nefnilega óvart fyrst) saman við súkkulaðið sem hefur náð að kólna aðeins.  Varlega!  Skerið svo ástaraldinin í helminga og skóflið innvolsinu út, öllu saman, fræ, kjöt og alles, út í súkkulaðiblönduna.  Veltið þeim varlega saman við súkkulaðið.  Loks blandið þið ofurvarlega hvítunum saman við þetta allt þar til vel blandað saman.

Loks veljið þið einhver falleg glös, setjið hindberin í botnin, fínt að láta standa aðeins þannig að þau kremjist aðeins og myndi safa.  Hellið svo músinni yfir og setjið inn í kæli þar til orðið stíft.  4 tímar ættu að duga.

IMG_6195-001

BJÓRINN: Þessi eftirréttur er vissulega flottur bara einn og sér en frábær með góðum ávaxtabjór.  Kaffi er ekki málið hér, það rústar dálítið fallegum og viðkvæmum bragðflækjunum í þessum milda eftirrétt.  Hvítt súkkulaðið er dásamlegt með eggjunum og skapar mjúka notalega áferð og svo kemur sýran frá hindberjunum og ástaraldininum og klippir upp áferðina og gerir heildina létta og frískandi.  Sætan í súkkulaðinu bindst svo vel við sætuna í ástaraldinunum.  Bjórinn með þessu þarf að lyfta undir þetta allt saman og ekki yfirgnæfa neitt.  Ávaxtabjór er kjörinn í þetta og í raun það eina raukrétta.  Belgískur kriek er súrbjór sem þroskaður er með ferskum kirsuberjum í einhverja mánuði.  Bjórinn er léttur og súr og svo með berjakeiminn auðvitað.  Frábær bjórstíll og geggjaður með svona efirrétt.  Það er auðvelt að sjá hvernig sýran í bjórnum tengir við og styður berjasýruna í eftirréttinum á sama tíma og hún skapar dásamlegt mótvægi við þrúgandi sætuna.   Þetta er eiginlega of góð pörun til að reyna að lýsa í rituðu máli.  Prófið t.d. OUD BEERSEL KRIEK.

Besta súkkulaðimús í heimi með hindberjum og funky hindberja saison!

Þegar ég skrifaði þessa færslu fyrst þá var konudagur og þá talaði ég um hversu mikilvægt það er að gæla við konurnar í lífi okkar. Mér dettur ekkert betra í hug en að skella í dásamlegt súkkulaðitrít fyrir mína í tilefni dagsins. Ég er mikill súkkulaðifíkill og ég ætla ekkert að reyna að fela það en það er bara fátt betra í þessu lífi en góður súkkulaði eftirréttur. Súkkulaðimús er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég hef sko prófað margar slíkar, trúið mér en það er bara engin mús eins góð og þessi hér sem upprunanlega kemur frá eldhúsgyðjunni Nigella Lawson. Það versta við þessa mús er að ég get bara ekki stoppað þegar ég byrja og það kemur ekki vel út þegar gestir þurfa að berjast við mig um síðustu bitana, Sigrún þarf samt ekkert að óttast á konudaginn. Ég er svo ekki alveg að fara eftir Nigellu hér því mig langaði í smá berjasætu, hindber og sýru til að létta aðeins réttinn og gera hann meira svona konudags, ég fékk því mágkonu mína Elínu sem er snillingur í gúmmilaðigerð til að koma með hugmyndir og hún kom með hugmynd að dásamlegu hindberjagumsi sem smellpassar við bæði réttinn og bjórinn sem ég ætla að bjóða frúnni með þessu.

Viðbót júlí 2022. Það er langt síðan ég skrifaði þessa færslu inn og margt vatn runnið til sjávar síðan. Hún heldur sannarlega velli þessi mús en mér datt í hug að prófa að gera Dulce súkkulaðimús líka því dulce súkkulaði er bara svo geggjað gott. Þið hafið vonandi smakkað litlu dulce páskaeggin frá Nóa…klikk! Ég reyndar keypti vitlaust súkkulaði og endaði með saltkaramellu rjómasúkkulaði en það kom samt mjög vel út.

.

Það sem þarf (fyrir ca 5-6 skálar)

Fyrir dökku klassísku músina

  • 150 g sykurpúðar
  • 50 g smjör
  • 250 g gott súkkulaði (125 g suðusúkkulaði og 125 g 70% súkkulaði)
  • 60 ml heitt vatn (soðið vatn)
  • 285 ml rjómi, þeyttur
  • 1 tsk vanilludropar

Fyrir saltkaramellu súkkulaði músina

  • Allt eins nema í stað suðusúkkulaði er 250 saltkaramellu rjómasúkkulaði
  • Smá salt
  • Rifinn límónubörkur
  • Rifsber og hindber til að skreyta

Fyrir hindbarjamaukið (best á dökku músina)

  • 300 g hindber (frosin er alveg i lagi)
  • 1/4 bolli sykur
  • 1 mtsk súrbjor, eða bara sítrónusafi
  • 1/4 tsk nýmulinn pipar (má sleppa)

.

Aðferð

Þetta er svo einfalt að það er pínu vandræðalegt. Dóttir mín er farin að gera þetta undir eftirliti. Takið 250g súkkulaði og saxið niður setjið í stóran pott, bætið 150 g af sykurpúðum og 50 g smjör í pottinn og bætið svo 60 ml heitt vatn yfir. Látið þetta malla á mjög lágum hita þannig að þetta bráðni saman. Hrærið nánast stöðugt. Látið svo kólna aðeins. Þeytið rjóma og 1 tsk vanilludropa saman og blandið svo varlega saman við rest.

Hindberjamaukið.

Setjið allt í matvinnsluvél og maukið þar til berin eru orðin að mauki. Svo er gott að sigta maukið til að losna við steinana. Sjóðið í örlitla stund á vægum hita en þetta gerir maukið silkimjúkt og aðeins hlaupkennt.

img_5985

AÐFERÐ: Varðandi dökku músina þá er hægt að fara tvær leiðir í framsetningu, annars vegar að hafa eldrautt hindberjamaukið ofan á súkkulaðimúsinni eins og á myndinni að ofan en það kemur ofsalega fallega út, svo er bjórinn rauður í stíl en hins vegar setur maður maukið í botninn þannig að dásamleg músin fær að njóta sín (mynd að neðan). Ef þið veljið að setja rautt ofan á þá þarf fyrst að láta músina storkna í kæli í svona 2 klst og svo bara hella maukinu ofaná. Ef hin leiðin er valin þá er fínt að setja maukið í skálarnar og inn í frysti í smá stund. Svo er súkkulaðimúsinni hellt yfir og látin storkna í kæli í ca tvo tíma. Loks er skreytt með ferskum hindberjum og brómberjum t.d.

Fyrir saltkaramellu „dulce“ músina þá er það bara að setja hana í skál og kæla yfir nótt og svo skreyta með t.d. rifsberjum og hindberjum. Stráið svo smá sjávarsalti yfir og prófið að rífa límónubörk yfir þetta allt. Mjöög næs.

BJÓRINN: Þetta er ein magnaðasta pörun okkar til þessa held ég, kannski er það bara af því að hér erum við að leika okkur með súkkulaðirétt sem er mitt uppáhald og svo „funky“súrbjór sem ég held líka mikið uppá. Ég veit það ekki, hitt er þó víst, bjórinn einn og sér geggjaður en með súkkulaðimúsinni er hann algjörlega magnaður. Súkkulaðimúsin er mjög saðsöm og þung en hindberjagumsið í botninum opnar þetta upp með ferskum súrum berjablæ. Ég valdi þennan bjór ROSES ARE BRETT frá To Øl einmitt vegna þess að hann er súr og bruggaður með hindberjum og svo er hann bara svo fallegur svona rauður og elegant. Hindberin og sýran í bjórnum tengja gjörsamlega við hindberjamaukið í músinni og gerir það að verkum að bjór og eftirréttur framlengja hvort annað. Fyrst fær maður dásemlegt súkkulaðið, svona silkimjúkt og ljúft en dálítið þungt svo opnast allt uppá gátt með súrsætum hindberjum í botninum og þetta tvinnast allt saman, loks kemur bjórsopinn og framlengir hindberin og súra keiminn en með skemmtilegu „funky“ twisti sem einhvern veginn dregur súkkulaðið aftur fram. Þetta er algjörlega geggjað saman. Roses are brett fæst aðeins via sérpöntun ÁTVR en það er í raun lítið mál að panta svona, maður sendir bara póst á Vínbúðina og óskar eftir sérpöntun. Það er þó vel hægt að mæla með LIEFMANS KRIEK og OUD BEERSEL KRIEK eða GUEUZE sem fást allir í Vínbúðunum.

Fyrir saltkaramellu músina þá gæti súrbjór komið vel út en ég held að gott kampavín væri alveg geggjað með þessu. En það er bara að prófa sig áfram.

img_6001

Rósir, nei takk bjór og súkkulaðifrauð fyrir mína 🙂

Bjór og Ostar

20161106_141522.jpg
Valdir ostar úr Búrinu og bjór úr Vínbúðinni

 



RÉTTUR:
Ostabakki með völdum ostum (Gouda, Grámygluostur, Hvítmygluostur og Geita Rauðkítti) og meðlæti (hnetur, perur, ætiþyrstlar, hunang, gráfíkjusulta og súrsuð rauðlaukssulta.

PÖRUN: Belgískur/Hollenskur Tripel eða Trappist, bestur með bragðmiklum Gouda en flottur með hinum líka, Imperial Stout eða belgískur Kriek geggjaður með grámygluostinum og belgískur Saison kom einnig vel út með öllum ostunum.

DÆMI: La Trappe Tripel, Oud Beersel Kriek, Garún frá Borg og Saison svo sem Snorri, Skaði eða álíka.


Það kannast flestir við ljúfu stundirnar með góðum vinum yfir ostabakkanum, það getur verið dásamlegt trít fyrir bragðlaukana ef rétt er að öllu staðið.  Klassíkt er að opna góða rauðvín til að gæða sér á með ostunum , þetta er eitthvað sem maður bara lærir að sé rétt…..eða hvað?  Það er nefnilega mikill misskilningur að rauðvín sé góð pörun við osta, í raun er það afleit hugmynd í ljósi þess að ostarnir fara einfaldlega illa með flest rauðvín, þeir draga m.a. úr áhrifum tanníns í rauðvíninu auk þess fer saltið ekki vel með eikarkeiminn, ávextina og sýruna í víninu.  Með öðrum orðum þá er maður að skemma gott rauðvín.  Flest rauðvín eru líka bragðmikil og yfirgnæfa auðveldlega bragðið af mörgum ostum.  Það er vissulega hægt að finna ágætis rauðvíns-ostapörun en ef maður vill endilega vera í léttvíni þá væri það frekar hvítvín og ostar.  Nóg um það, við ætlum að tala um bjór.

Að margra mati er bjór það besta með ostum, mun betra en rauðvín alla vega.  Bjór og ostar eiga einfaldlega ýmislegt sameiginlegt, þeir eru af sama sauðarhúsinu ef svo má segja.  Hvortveggja er viðkvæm vara þar sem gerjun og þroski er lykil þáttur í framleiðslunni.  Bjór og ostar geta verið skemmtilegir ferskir og ungir en þurfa oft að fá að þroskast í róleheitum til að fá meiri dýpt og karakter.   Maður gæti einnig talað um skyldleika en bjór er gerður úr korni og jurtum (humlum) og ostar úr mjólk sem vissulega kemur frá grasbítandi kúm.  Þannig má segja að jörðin tengi bæði osta og bjór saman.  Það mætti einnig benda á að við erum flest vön að maula á kexi eða snittubrauði með ostunum ekki satt?  Bjór er í raun sami hluturinn, þ.e.a.s. fljótandi brauð/kex gerður úr korni, geri og vatni.  Það er því ekkert skrítið að bjór passi svona vel við.


„Bjór er mun betri ostapörun en rauðvín“


Þegar maður ætlar að prófa osta og bjór saman er best að byrja á að velja sér ostinn. Spjallaðu við einhvern sem kann sitt fag, t.d. afgreiðslufólkið í ostabúðunum, en ekki hvað? Ég hef t.d. góða reynslu af Búrinu úti á Granda.  Fáðu að vita eiginleika og bragð og hvaðan osturinn kemur.  Oft getur þetta gefið vísbendingar um hvernig bjór væri sniðugur með.  Ég held að best sé að velja ekki of marga osta til að byrja með því það flækir málin, það er nefnilega svo að oftast eru fleiri en ein tegund af bjór sem passar með sama ostinum en  það er virkilega skemmtilegt að sjá hvernig osturinn breytist með mismunandi bjór.  Byrjaðu á t.d tveim ostum. Svo er það meðlætið, maður laumar gjarnar sultu, hunangi, vínberjum og öðru góðgæti með á bakkann, allt til að auka auðvitað bragðupplifunina.  Þetta hefur vissulega áhrif á hvaða bjór gengur með.  Prófaðu fyrst ostinn „allsberan“ og finndu góðan bjór með og upplifðu áhrifin.  Bættu svo maukinu við eða hunangi t.d. og sjáðu hvað gerist, kannski er annar bjór allt í einu orðinn skemmtilegri með.  Þetta er allt hluti af skemmtuninni, að koma bragðlaukunum stöðugt á óvart.

20161106_141354.jpg
Hollenski La Trappe Tripel bjórinn er flottur ostabjór

Við Sigrún ákváðum núna um helgina að gera vel við okkur og prófa 4 mismunandi osta með nokkrum vel völdum bjórum og til að gera þetta enn skemmtilegra hóuðum við í góða vinkonu okkar Lovísu sem reyndar vann á sínum tíma í ostabúð og er dálítið kresin á ostana. Það er alltaf skemmtilegra að vera fleiri saman að spá í hlutunum. Við fórum einu sinn sem oftar í Búrið og völdum þar flottan Gouda ost, Oowe Jongens sem er ljómandi ostur, bragðmikill en mjúkur, svo var það geita rauðkítti Landana Rosso frá Hollandi og gamli góði Gullosturinn (Hagkaup) og svo fer ég ekki í ostabúð nema að taka einn blámygluost.  Að þessu sinni var það Fourme D’Ambert frá Frakklandi.  Þessi ljúflingur er bragðmikill með kremaða áferð og svo er dálítill sveppatónn í bakgrunni, algjört salgæti.  Með þessu vorum við svo með bragðmylda pylsu, heslihnetur, perur, hunang, hina dásamlegu gráfíkjusultu og svo súrsaða rauðlaukssultu sem er algjört salgæti.

Bjórana valdi ég að þessu sinni dálítið handahófskennt því ég vildi prófa eitthvað nýtt, ég tók þó með nokkra klassíska sem ég vissi að smellpassa með ákveðnum ostum á bakkanum.  La Trappe er Hollenskt Trappist klaustur sem gerir ofsalega flottan bjór.  Þeir eru með nokkrar tegundir.  Ég valdi Tripelinn (8%) sem er dálítið þróttmikill en þó dálítið mjúkur með ljúfa sæta ávaxtatóna og notalega kryddtóna, blond (6.5%) hefði líka alveg gengið hugsa ég.  Það góða við La Trappe er að bjórinn er á fínu verði hér heima í Vínbúðinni, við höfum nefnilega aðgang að tveim öðrum Trappist brugghúsum hér heima, Chimay og Westmalle sem væru stórgott val með ostunum einnig.  Trappist klaustrin gera flest sína eigin osta auk bjórsins og því er maður nokkuð öruggur um góða pörun með svona bjór.  Við prófuðum La Trappe með öllum ostunum og fór hann vel með þá alla en kom best út með Oowe Jongens Gouda ostinum en Gullosturinn var líka flottur með.  Sætu ávaxtatónarnir í bjórnum tónuðu vel með seltunni og mýktinni í Gouda ostinum og kolsýran heldur skemmtilega utan um rjómakennda áferðina og fituna í báðum þessum ostum og hreinsar hana af pallettunni.  Ég prófaði einnig þýskan hveitibjór með öllum ostunum en hann var ekkert að gera, ostarnir drápu hann bara niður sem dæmi um slæma pörun, við viljum jú ekki skemma bjórinn.  Porter var líka reyndur en kom ekki vel út með þessum ostum, hann tók pylsuna vissulega í flottan dans en það er önnur saga.

20161106_141241.jpg
Sigurvegari kvöldsins, Oud Beersel Kriek (6%) með Fourme D’Ambert blámyglu

Ég valdi svo Garúnu frá Borg með blámygluostinum.  Garún er flottur 11.5% Imperial Stout en sá stíll getur verið frábær með blámygluostum.  Bjórinn er mjúkur en stór með sætu og rist og svo kaffitóna með.  Slíkur bjór gengur samt ekki með öllum ostum, aðeins þeir öflugustu þola svona bjór eins og t.d. blámyglan.  Bjórinn stelur engu frá ostinum og öfugt heldur magna ostur og bjór bragðtóna hvers annars.  Þeir tvinnast einhvern veginn saman í gómnum í flotta heild, frábært.  Svo var ofsalega gaman þegar við prófuðum súrbjórinn með sama osti, Oud Beersel Kriek sem er belgískur kirsuberjabjór af bestu sort.  Bjórinn er í grunninn súrbjór eða Lambic sem svo hefur þroskast á eikartunnum með ferskum kirsuberjum og verður þannig kirsuberjabjór með ríkulegum kirsuberjakeim.  Bjórinn er einnig dálítið súr og þurr og svo er heilmikið gos í honum.  Ofsalega flottur einn og sér æðislega skemmtilegur með bragðmiklum blámygluostinum.  Þetta kombo kom skemmtilega á óvart og voru stúlkurnar báðar sammála að þetta væri skemmtilegasta blanda kvöldsins.  Osturinn fær að njóta sín í fyrstu og þekur góm og boga og svo kemur bjórsopinn með ferskan kirsuberjablæ og sýru sem sker fituna og hreinsar góminn.  Svo er þetta sveita, leður funk alltaf aðeins í bakgrunninum. Þannig byrjar maður með ost og endar með skemmtilegt súrt, ferskt twist.  Dásamlegt.

Já þetta var bara byrjunin, svo var auðvitað enn skemmtilegra þegar við prófuðum allt meðlætið með.  Mismunandi bjórar gerðu mismunandi hluti fyrir bakkann, ostabakkinn lifnaði bókstaflega við.  Ég vil svo benda á í lokin að belgískur Saison er góð pæling með ostabakka og meðlætinu.  Saisoninn er dálítið jarðbundinn og oft nokkuð kryddaður með áberandi gertónum.  Ég prófaði minn eigin nano Saison sem kryddaður er með rósapipar ofl.  Þessi bjór var ofsalega flottur með t.d. Gouda ostinum og geitaostinum en gekk vel með hinum ostunum einnig. Við getum vel mælt með að menn prófi þennan stíl með.