Kjúklingur er ágætt hráefni og það er sannarlega hægt nota hann í stórkostlega rétti. Þessi réttur er svo magnaður að ég er sannfærður um að þetta verði besti kjúklingaréttur sem þú munt smakka á þessu ári. Ég elska að djúpsteikja allan andskotan, þegar ég sá nafna minn Ragnar Frey (Læknirinn í Eldhúsinu) gera þetta einhvern tíman á instagram þá varð ég bara að prófa. Eða í raun var það Sigrún mín sem eldaði og þetta var alveg magnað. Krakkarnir okkar elska þetta en þau kalla þennan rétt rauða kjúllann.
Sigrún hefur eldað þetta nokkrum sinnum en nú langaði mig að prófa. Uppskriftin er á síðunni hans Ragnars en fyrir mig sem þarf að hafa allt mjög skipulagt og einfalt uppsett þá fannst mér dálítið erfitt að lesa mig í gegnum hana. Ég ákvað því að skrifa þetta upp til að auðvelda mér verkið næst þegar ég elda þetta því það verður svo sannarlega gert oft, krakkarnir einfaldlega krefjast þess.
Ég er svo aukalega með döðlu raita og saffran hrísgrjón sem passa svakalega vel með!
Það sem þarf fyrir 6
Fyrir marineringu
1.4 kg Kjúklingalæri úrbeinuð (tveir bakkar)
1 dós grísk jógúrt (350ml)
2 sítrónur, safinn
2 egg
3 mtsk túrmerik
3 mtsk garan masala
3 mtsk paprikuduft
2 mtsk chiliduft
1/2 – 1 mtsk chiliflögur, fer eftir hversu sterkar þær eru
2 mtsk svartur pipar
1 bolli maísmjöl
3 mtsk engifermauk
3 mtsk hvítlauksmauk
50 mll rauðrófusafi
salt
2-2,5 L djúpsteikingarolía
Fyrir sósuna
1 dós grísk jógúrt (350 ml)
50 ml rauðrófusafi
5 mtsk tómatsósa
2 mtsk sæt chilisósa
2 mtsk sriracha sósa
salt og pipar eftir smekk
1 grænn chili, skorinn fínt
10-15 karrílauf, má sleppa, nota þá ca tsk karrí í staðinn
1 mtsk engifermauk
1 mtsk hvítlauksmauk
Döðlu raita
1 dós grísk jógúrt
1/2 búnt kóríander, saxað
1-2 hvítlauksgeirar, pressaðir
15-20 steinlausar döðlur, skorið smátt
salt
Allt hrært saman í skál
Saffran Hrísgrjón
5 dl basmati hrísgrjón
1 L vatn
1 mtsk isio 4 olía eða 2 mtsk ghee
1/2 – 1 tsk saffran þræðir
1/2 sítróna, bæði hýði og safi
1 tsk salt
2 tsk brún sinnepsfræ (fæst í Fiska)
Aðferð
Marinering
Byrjið á að skera kjúklingalærin í hæfilega bita. Ég fékk 4 bita úr hverju læri t.d. Finnið til stóra skál og setjið kjúklinginn í hana. Þvínæst er öllum kryddunum, jógúrti, sítrónusafa, rauðrófusafa, eggjum og öllu því sem ég er líklega að gleyma að telja upp, bætt í skálina. Svo er bara að hnoða þetta eða blanda vel saman með höndunum. Látið standa í 2-3 klst eða lengur.
Sósan
Takið til skál, hrærið saman 1 dós af grískri jógúrt, 50 ml rauðrófusafa, 5 mtsk tómatsósu, 2 mtsk sæta chilisósu, 2 mtsk sriracha, salt og pipar eftir smekk. Skerið chili smátt, hitið olíu á pönnu og steikið svo aðeins chili, engifermauk, hvítlauksmauk og karrí. Hellið svo sósunni út á pönnuna og hrærið saman. Smakkið til með salti og pipar. Sósan er þá í raun tilbúin en svo er þetta hitað upp með kjúklingnum á eftir.
Hrísgrjónin
Gott er að koma hrísgrjónunum af stað áður en byrjað er að djúpsteikja. Setjið vatn í pott (1 L) og látið suðuna koma upp. Bætið við rifnum sítrónuberki og safa (1/2 sítróna) út í vatnið ásamt saffran þráðunum og látið renna saman í 5 mín. Á meðan notið þið tíman og setjið olíuna eða ghee í pott og náið upp hita. Setjið sinnepsfræin varlega útí en passið ykkur þau geta poppað og þá slettist á ykkur heit ólían. Hrærið í fræunum stöðugt í 30-40 sek, bætið svo þurrum hrísgrjónumum útí pottinn og blandið við fræin í 1-2 mín.
Bætið þvínæst hrísgrjónunum ásamt salti (1 tsk) út í saffran vatnið og hrærið létt saman og setjið svo viskastykki yfir pottinn og lok yfir og látið malla í 10 mín. Ekki bullsjóða. Forðist að hræra mikið svo þið brjótið ekki grjónin. Þvínæst slökkvið þið á hitanum og látið pottinn standa í aðrar 10 mínútur.
Djúpsteikingin
Notið djúpsteikingarpott ef þið eigið. Hitið um 2 L olíu upp í 170 – 180 gráður. Djúpsteikið svo kjúklinginn í ca 4 mínútur. Kannið hvort þetta sé eldað í gegn, ef ekki þá bætið þið við mínútu ef þarf. Látið svo standa á ofngrind og kólna. Hér er fínt að henda í raita en það er alveg ómissandi með. Þetta mun slá í gegn við matarborðið. Skerið dölurnar og kóríander smátt og hrærið svo bara öllu saman í skál. Smakkið til með salti.
Naan brauð
Það verður að vera naan með til að þurrka upp þessa geggjuðu sósu. Við höfum gert ýmsar útgáfur, en Sigrún mín hefur verið dugleg að prófa sig áfram. Ég held samt að hveitikökuuppskriftin mín (tortilla) komi best út með þessu. Mótið hvert naan að vild en hafið kannski deigið aðeins þykkara en þegar gert er tortilla. Staflið naan brauðunum upp og pakkið inn í álpappír.
Þegar allt er klárt þá setjið þið kjúklingabitana út í sósuna og veltið vel saman þannig að bitarnir hjúpist alveg. Hitið aðeins upp þessa blöndu en ekki sjóða eða steikja. Skreytið með ferskum kóríander og berið fram.
Þetta er dálítið sterkt en alls ekkert sem rífur of mikið í. Mér finnst best að para indverskt með flottum premium lager, amk þennan rétt hér. Sætan í lagernum dempar dálítið brunann frá chili-inu, kolsýran og létt beiskjan opna upp sósurnar og létta á öllu. IPA gengur líka en þá þarf maður að vera tilbúinn í að bruninn í matnum verði meira áberandi.
Ég hef alltaf verið spenntur fyrir indverskum mat en ég hef ekki hætt mér út í að prófa að elda hann sjálfur, það hefur bara vaxið mér í augum. Mig hefur samt alltaf langað að læra að gera indverskt. Ég hnippti því hér um árið í nágranna okkar og vinkonu Yesmine Olsson sem eins og kunnugt er er snillingur í indverskri matargerð . Ég spurði hana hvort hún vildi ekki elda með mér indverskt og bjóða góðu fólki í mat en til að selja henni hugmyndina kvaðst ég vilja prófa að para bjór með réttunum. Yesmine líkaði hugmyndin vel en hún sagði mér reyndar eftir á að hún hafi ekki verið vongóð um að bjórpörunin kæmi vel út en samt spennt að sjá hvernig til tækist. Hún er búin að taka þetta til baka núna enda kom það henni verulega á óvart hvernig til tókst. Reyndar mér líka!
Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig það kæmi út að para bjór við indverska rétti, þetta er nefnilega mikil áskorun, þeir eru oft mjög sterkir og miklir réttirnir og það eru svo ótal mörg krydd í þeim, krydd sem maður þekkir ekkert allt of vel. Ég sá mér því leik á borði, ég myndi læra smá inn á töfrandi heim indverskrar matargerðar á sama tíma og ég gæti prófað bjórpörunina.
Yesmine er snillingur í eldhúsinu, ég vissi það svo sem en ég fékk bara meiri staðfestingu á því eftir þennan dag okkar saman í eldhúsinu, mikið var þetta gaman. Við vorum reyndar nokkra daga að plana veisluna og svo þurftum við að hittast því ég þurfti að fá nákvæmar lýsingar á réttunum, við erum að tala um hvernig krydd, hvernig áferð, sætt, súrt, sterkt og svo framvegis. Ég nefnilega þurfti að velja bjórinn út frá þessum upplýsingum eingöngu því ég hafði jú ekki smakkað neitt af þessu áður. Út frá þessum upplýsingum gerði ég lista yfir þá bjóra sem kæmu til greina, ég valdi nokkra til að prófa með hverjum rétt bara svona til að hafa smá varnagla á. Það má ekki gleyma því að við vorum með 8 gesti í þessari veislu þannig að smá pressa! Ég vildi hafa þetta íslenskt bjórþema og auðvitað bara bjór frá landsins bestu brugghúsum!
Þetta lukkaðist svona líka vel, bæði að mínu mati og svo 9 annara reyndar líka, og maturinn guð minn góður…eða ætti ég frekar að segja Yesmine góða? Ég ætla að rissa aðeins upp þessar paranir og láta eina og eina uppskrift fljóta með.
Djúpsteikt indverskt „dumplings“ með geggjaðri karrí mayo sósu!
Við byrjuðum á léttum forrétt svona til að koma öllum í gírinn. Við vorum ofsalega heppin með veður og gátum því notið matar og drykkjar á svölunum hjá þeim Yesmine og Adda. Í forrétt vorum við með djúpsteikt indversk „dumplings“ sem við höfðum fyllt með nautahakki og svínahakki sem legið hafði í indverskri kryddmarineringu yfir nótt. Þetta er virkilega bragðmikill réttur en þó ekkert sem rífur allt of mikið í. Við erum með öll klassísku kryddin í þessu, kóríander, múskat, engifer, túrmerik, karrí og meira til. Þessi réttur er dálítil handavinna, jafnvel þó við séum búin að marinera deginum áður. En í góðum félagsskap og með gott hvítvín t.d. á kantinum þá er bara gaman!
Ef maður er svakalega anal getur maður gert degið sjálfur en best er að kaupa dumplings deig bara tilbúið í asískum verslunum. Þetta eru örþunnar deigplötur. Bleytið alla kanta með vatni til að deigið klístrist saman í lokin þegar þið krumpið það saman. Setjið hæfilegt magn af fyllingu á miðja örkina og lokið svo með fingrunum og þéttið vel. Svo er þetta djúpsteikt í jurtaolíu þar til orðið gyllt og stökkt. Látið svo standa á grind!
Fyllingin er hér
250 g nautahakk
250 g svínahakk
1 laukur
1 rauðlaukur
1,5 dl vorlaukur
2 skalottlaukar
4 hvítlaukssrif
25 g ferskur kóríander
3 stórir tómatar
2 cm engiferrót
1/4 tsk múskat
1/2 tsk túrmerik
2 tsk karrí
2-3 ferskir rauðir chilipipar eftir smeklk
3-4 msk matarolía
5 stk döðlur
salt og pipar
Allt nema kjötið er blandað vel saman í matvinnsluvél. Svo er kjötinu bætt útí og hrært saman. Látið svo standa yfir nótt helst. Amk nokkra tíma.
Með þessu vorum við svo með alveg splunku nýja uppfinningu, karrí mayo sósu sem Yesmine töfraði fram. Yesmine sagðist hafa fengið innblástur frá kóríander mayo sósunni minni og langaði að prófa að gera eitthvað svona indverskt twist með majonesi. Hún hefur annars aldrei áður notað majones í sinni matargerð. Ég viðurkenni að ég er pínu stoltur sko. Þessi sósa er kreisí! Krrrrreisí og ég sök á því að hún varð til!
Indversk karrí mayo sósa
ca 2-3 bollar (US cups) majones
ca 1/2 mtsk kapers
2-3 litlar súrar gúrkur (pikles)
1-2 mtsk engiferrót
1 grænn chili ávöxtur
3 hvítlauksgeirar
1 mtsk gott karrí krydd
sjávarsalt eftir smekk
Aðferð.
Ok, þetta er í fyrsta sinn sem þessi sósa er gerð, ég gerði hana svo aftur daginn eftir nokkurn veginn svona. Menn verða svo bara að smakka til, meiri hvítlauk eða meira salt eða karrí. Allt eftir smekk. Þetta á samt að vera karrí mayo þannig að meira karrí en minna. Þetta er í raun allt sett saman og maukað með töfrasprota. Ef menn vilja bera fram í skál með smá bitum í þá er það bara fínt en ef við viljum bera sósuna fram í sprautuflösku þá þarf að mauka þetta vel þannig að engir bitar eru eftir í maukinu. Bæði betra!
Þessi sósa er alveg mögnuð með þessu og í raun með ansi mörgum réttum sé ég fyrir mér. Ég veit að þessi sósa mun slá rækilega í gegn í sumar!
Pörunin!
Hér erum við með stökka áferð, það er fita í deiginu og djúpsteikingunni og svo er grísahakkið feitt og djúsí inní og kryddin áberandi. Karrí mayo sósan er svo alveg sér á báti og rífur vel í með hvítlauk og karrí. Þetta er geggjað eitt og sér en enn betra með góðum drykk. Hér þarf bjór sem heldur velli gagnvart kryddunum og bragmikilli sósunni en þó ekki þannig að hann taki öll völd. Við viljum njóta líka kryddanna og kjötsins. Með feitum mat og sósum eins og hér er er kjörið að nota bjór með smá beiskju bit, IPAer fullkominn í verkið og svo auðvitað gaman að para Indian Pal Ale við Indian food ekki satt, svona bara vegna upprunans? Beiskjan í bjórnum klippir upp fituna í þessum rétt og opnar allt upp á gátt og hreinsar munn og kok af fitubrákinni sem myndast. Ég ákvað að fara hér í minn uppáhalds íslenska IPA/pale ale sem er frá Malbygg brugghúsog heitir einfaldlega Kisi. Mér er sama hvað stendur á dósinni, þetta er safaríkur djúsí NEIPA(new england IPA) þar sem humlarnir fá að njóta sín með ávaxtakeim á borð við mango og ástaraldin en svo er líka örlítið beiskjubit sem sinnir sínu hlutverki eins og áður er ritað.
Þetta er fullkomið, öll þessi krydd , léttur hiti og þessi feita áferð steinliggja með þessum frábæra bjór. Ég elska líka kóríander og IPA, það er eins og þetta tvennt hafi verið fundið upp saman. Vá! Það besta er að Yesmine, sem ekki er mikið fyrir bjórinn, var alveg dolfallin. Henni fannst þetta koma svakalega vel út og þá er takmarki mínu náð.
Aðalréttirnir, lamba pylsu grillspjót og kjúklinga grillsprjót með spínat kóríandersósu og alls konar meðlæti.
Eggaldinn í alveg nýjum búning
Við ákváðum að hafa nokkra rétti sem fólk bara blandar saman á einn disk, það voru bæði stærri og minni réttir. Við vorum með hvítlauks naanbrauð með, saffran hrísgrjónum, magnað döðlu raita og svakalega góð ofnbökuð eggaldinn með indverskum kryddum toppuð með sósu af óþekktum toga, já ég gat ekki fylgst með öllum töfrunum hennar Yesmine.
Fyrir lambagrillspjótin (fyrir 4-5)
400 g lambaprime, skorið í hæfilega bita
400 g kryddpylsur, tvær gerðir, t.d. chorizo pylsur og eitthvað annað gott
1/2 dl repjuolía
5 kardimommur
10 negulnaglar
5 cm kanilstöng
1 tsk túrmerik
5 svört piparkorn
2 tsk cuminfræ
2 stórir laukar, skornir í fernt
5 hvítlauksrif
2 grænir chilibelgir með fræjum
5 cm af ferskri engiferrót, afhýdd, skorin gróft
safi úr 1/2 sítrónu
1 tsk sjávarsalt
Aðferðin
Fyrir marineringuna á kjötinu. Taktu öll kryddin á disk. Taktu til pönnu og hitaðu hana vel upp. Svo eru kardimommur, negulnaglar, kanilstöng, pipar og cuminfræ þurristað á pönnunni í 30-40 sek eða þar til kryddin breyta um lit og gefa frá sér frábæran ilm. Notaðu svo mortél til að merja öll kryddin nema túrmerik. Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél ásamt kryddunum og maukið saman. Veltu lambakjötinu vel uppúr marineringunni, skerðu líka pyslurnar í hæfilega bita og blandaðu þeim saman við lambið. Látið standa yfir nótt.
Sama dag og rétturinn er borinn fram. Leggi tréspjót/grillpinna í bleyti, skerið niður gula papriku og rauðlauk í hæfilega bita eftir smekk. Raðið svo lambi og pylsum saman á spjótin og inn á milli lauk og papríku. Látið þetta líta dálítið vel út. Pysla og kjöt saman samt, þannig renna kryddin úr hvoru tveggja saman við grillunina.
Auk lambaspjóta vorum við með kjúklingaspjót með dásamlegri spínat kóríandersósu. Yesmine notar alltaf úrbeinað lærkjöt þegar hún notar kjúkling, ég er algjörlega sammála, þetta er besta kjötið, svo djúsí og gott og dregur í sig öll kryddin í marineringunni. Þessi réttur var bragðmikill líka, ekki þó eins spicy og lambaspjótin en í sósunni er ríkjandi kóríander og hvítlauksbragð. Ofsalega gott saman.
Hrísgrjón eru ómissandi með indverskum mat, þau vissulega drýgja máltíðina en eru líka frábær til að sjúga í sig sósurnar á diskunum, ekkert má fara til spillis. Með mjög sterkum mat er líka gott að nota hrísgrjónin til að dempa brunann. En hrísgrjón eru ekki bara hrísgrjón, Yesmine notar nánast eingöngu basmati grjón t.d. en það er mikill munur á gæðunum. Þetta kvöld komst ég svo að því að ég og Sigrún mín höfum verið að elda hrísgrjón vitlaust alla okkar tíð. Ég komst líka að því að hægt er að gera fáranlega gómsæt hrísgrjón sem meðlæti.
Saffran þræðir, gull kryddanna!
Saffran hrísgrjón
5 dl basmati hrísgrjón
1 L vatn
1 mtsk isio 4 olía eða 2 mtsk ghee
1/2 – 1 tsk saffran þræðir
1/2 sítróna, bæði hýði og safi
1 tsk salt
2 tsk brún sinnepsfræ (fæst í Fiska)
Setjið vatn í pott (1 L) og látið suðuna koma upp. Bætið við rifnum sítrónuberki og safa (1/2 sítróna) út í vatnið ásamt saffran þráðunum og látið renna saman í 5 mín. Á meðan notið þið tíman og setjið olíuna eða ghee í pott og náið upp hita. Setjið sinnepsfræin varlega útí en passið ykkur þau geta poppað og þá slettist á ykkur heit ólían. Hrærið í fræunum stöðugt í 30-40 sek, bætið svo þurrum hrísgrjónumum útí pottinn og blandið við fræin í 1-2 mín.
Bætið þvínæst hrísgrjónunum ásamt salti (1 tsk) út í saffran vatnið og hrærið létt saman og setjið svo viskastykki yfir pottinn og lok yfir og látið malla í 10 mín. Ekki bullsjóða. Forðist að hræra mikið svo þið brjótið ekki grjónin. Þvínæst slökkvið þið á hitanum og látið pottinn standa í aðrar 10 mínútur.
Þetta er svakalega gott með öllum þessum réttum.
Gott naan brauð er líka ómissandi með indverskum mat. Það má gera það frá grunni sem er auðvitað skemmtilegast og svo grilla á grilli eða ef maður á tandori ofn, þá notar maður hann auðvitað. Gott er að útbúa einhverja góða olíu, t.d. hvítlauskolíu og pennsla brauðin fyrir eldun.
Annað sem er mikilvægt að mínu mati er eitthvað ferskt og létt til að milda tungu og hvíla frá sterkum kryddum. Klassískt er gúrku raita sem þó mér finnst stundum dálítið of klassískt jafnvel. Yesmine bauð uppá aðeins aðra útgáfu, alveg hrikalega góða döðlu raita sem koma æðislega vel út með öllu þessu hérna, döðlurnar gefa skemmtilega sætu í þetta allt saman.
Loks var það ofnbakaða eggaldinið, það var svakalegt. Maður er vanur að grilla þetta og setja salt og olíu á og það kemur vel út en þessi útgáfa var stórkostleg, öll þessi indversk krydd, radísuspírur og svo þessi dularfulla sósa ofan á. Úff úff úff!
Pörunin
En ok, pörunin, þetta var pínu flókið en svo í raun ekki. Hér gat ég ekki parað einn bjór við hvern rétt því við buðum upp á þetta allt saman í einu, sem einn rétt með mörgum vinklum. Ég prófaði nokkra bjóra með þessu. Mér fannst borðleggjandi að velja frekar látlausa bjóra en sem þó gætu höndlað sterk krydd á sama tíma og þeir yfirbuguðu ekki látlausu kryddin sem maður vill ekki missa af eins og t.d. safran eða múskat. Hrísgrjón er lykil meðlæti í svona veislu og því tilvalið að velja bjór sem bruggaður er með hrísgrjónum, bæði tengja grjónin vel við grjónin í matnum en svo gefa þau fyllingu og dempa brunann frá „heitum“ kryddum á borð við chili eða sterk karrí. Ég valdi hrísgrjóna lager í þetta verk en það vill svo til að það eru alla vega tveir slíkir í boði akkúrat núna frá íslenskum framleiðendum.
Sudoku Rice Lager frá Borger frábær lager. Hann er þéttur og elegant með ögn sætukeim og afar látlausu humalbiti sem er þó til staðar. Mér fannst borðleggjandi að tefla fram lager með grilluðum pylsum, kjúlla og lambi og þetta svínvirkaði. Sætan í korninu dempaði ögn kryddin en slökkti samt alls ekki á þeim heldur tvinnaðist bragðið frá bjórnum fallega saman við hrísgrjónin og rest. Nett beiskjan var nægileg til að vinna á fitunni frá kjötinu og sósunum. Mjög gott combo.
Önnur pörun sem kom vel út var Yuzu Rice Lager frá RVK Brewing. Þessi bjór er líka bruggaður með hrísgrjónum en einnig yuzu ávexti sem er súrt sítrusaldin frá Austurlöndum fjær. Þessi bjór er afar ferskur og sumarlegur og smellpassar á pallinn í sólinni en gengur líka vel hér af sömu ástæðum og hér að ofan. Súraldinið gefur svo auka vinkil með þægilega sýru sem gengur vel á móti þungum matnum og styður skemmtilega við ferska döðlu raita-ið. Gestum þótti þetta skemmtilegur valmöguleiki með matnum.
Það sem hins vegar sló í gegn hjá mér persónulega, og það voru nokkrir sammála mér í því var næsti bjór. Ég var reyndar á höttunum eftir rauðölieða amber bjór fyrir verkið, jafnvel hefði bockgeta komið vel út en þau brugghús sem ég skoðaði, bestu íslensku brugghúsin okkar auðvitað, áttu slíkan bjór ekki til á flöskum eða dósum. Hér langaði mig að nota bjór með mikinn maltkarakter en sem væri þó léttur og meðfærilegur. Ofannefndir bjórstílar eru dekkri en hinn ljósi lager því í þá er notað aðeins meira ristað korn/malt sem gefur af sér ögn karamellukeim og rist. Ég sá fyrir mér fullkomna tengingu við grillaða kjötið sem fær jafnan á sig ákv karamellu áferð við grillunina. Það er líka vel þekkt að sætukeimurinn frá maltinu komi ofsalega vel út á móti sterkum kryddum og er jafnvel það eina sem gengur á móti sterkustu chiliréttum þeirra Indverja.
Það var Maggi hjá RVK brewing sem reyndar líka er með sitt eigið brugghús, sem ég hef fjallað stuttlega um áður Mono, sem benti mér á aðra mögulega lausn. Þeir Mono strákar voru nýlega komnir með bjór á flösku sem gæti gengið, svo kallaður märtzen, sem er þýskur lager sem menn tengja jafnan við Oktoberfest þar í landi. Þetta er „maltforward“ bjór og oft með kopar til rauðum blæ. Bjórinn er lager og yfirleitt með létta til meðal fyllingu og litla beiskju. Þetta fannst mér frábær hugmynd og ákvað að prófa.
De Stijl heitir kauði og er samstarfsbrugg með Ekta Brewing sem ég þekki lítt til. Bjórinn var töluvert mildari en ég átti von á og ekki eins maltaður og amber en maltið þó vel merkjanlegt. Bjórinn er þó með áberandi meiri bragðprófíl ef miðað er við hrísgrjóna lagerinn sem ég fjallaði um að ofan. Þessi bjór algjörlega negldi þennan mat og gerði nákvæmlega það sem ég hafði vonast til. Maltsætan og ristin dönsuðu vel með grilltónunum frá kjötinu, indversku kryddin komu líka skemmtilega vel út með þessum bjór og tvinnuðust kóríander, kardimommur, negull og allt hitt skemmtilega við karamelluristina frá korninu. Sterkustu tónarnir frá lambaspjótunum milduðust ögn og lyftu meira að segja upp bjórnum og gerðu hann meiri. Kolsýran var líka kærkomin á móti öllum þessum brögðum og fitunni en kolsýran „skefur“ einhvern veginn palletuna og opnar fyrir næsta bita.
Frábær pörun!
Svakaleg sænsk „kladdkaka“ með indversku chili súkkulaði ganache og þeyttum mynturjóma
Góð veisla þarf að enda eftirminnilega að mínu mati og þessi gerði það svo sannarlega. Jafnframt var hér besta pörun kvöldsins sem kom meira að segja mestu efasemdamönnum á óvart. Þessi kaka er svakaleg, djúsí og klístruð með fullfermi af súkkulaði alveg eins og ég vil hafa það í eftirrétt. Ofan á þessu var svo þykkt nánast eins og fudge súkkulaðikrem með indversku chili kryddi sem reif af og til í. Svo kom stökk áferð frá ristuðu pistasíuhnetunum ofan á. Ekki má svo gleyma þeytta rjómanum með fersku myntunni en myntan og kryddin í kökunni dönsuðu vel saman og myntan gefur líka léttleika og ferskan blæ í þetta allt saman.
Ég mun pottþétt gera sér færslu hér innan skamms bara með uppskrift af sænskri súkkulaðikladdköku með chili súkkulaðikremi og svo þessari pörun. Þessi eftirréttur er svakalega þungur en gefandi, mér datt í hug að prófa tvo bjóra með. Mjög hefðbundið er að nota stout, portereða imperial stout með súkkulaðieftirréttum. Hér er það tengingin við kaffið sem er augljós enda oft hægt að finna kaffitóna og súkkulaði í þessum bjórum. Humlarnir gefa svo beiskjuna sem létta dálítið á þunganum. Ég bauð því uppá Garúnu frá Borg. Þetta er svakalega flottur bjór, rótsterkur og mikill með ögn sætu en þó vegur beiskjan þyngra og svo áberandi kaffiristin, jafnvel ögn lakkrís og súkkulaði. Þetta er bjór fyrir þróttmikið fólk með sterka palletu. Bjórinn gengur einn og sér sem eftirréttur ef út í það er farið. Þessi pörun var skemmtileg, kaffið og súkkulaðið tengdu vel við og beiskjan opnaði vel upp þunga kökuna. Beiskjan dró líka mikið upp chili hitann í kreminu sem var mjög skemmtilegt því ef eitthvað er hefði mátt vera meira chili í kökunni að mínu mati.
Það sem sló hins vegar öll met var Blágosi frá Microbar & Brew(Gæðingi brugghús). Blágosi er ofsalega skemmtilegur súrbjóreða svo kallaður gosesem er þýsk ættaður súrbjór, Blágosi er í grunninn Skyrgosi ketilsýrður með skyri og bragðbættur með bláberum, heilum helling alveg. Bjórinn er ofsalega þægilegur með léttri sýru, ögn skyrkeim og svo ljómandi bláberjasýru. Mér datt í hug að tefla þessum bjór fram á móti þungri kökunni til að létta aðeins á öllu. Svo eru ber á borð við hindber, bláber og jarðaber alveg frábær með súkkulaðikökum yfirleitt. Gosið í bjórnum og sýran opnuðu allt upp á gátt gerði kökuna auðmeltari og skópu pláss fyrir næsta bita, berin tvinnuðust dásamlega saman við súkkulaðið og sýran skapaði skemmtilegar andstæður við chili brunann. Þetta var alveg mögnuð pörun og mun ég klárlega hafa þetta í mínum veislum þegar ég vil slá í gegn.
Ég er aðeins byrjaður að fikta í Prosecco en eins og komið hefur hér fram áður eru búblurí miklu uppáhaldi hjá okkur á B&M líka. Prosecco hefur hins vegar ekki verið mikið í glösum okkar í gegnum tíðina því við höfum til þessa valið helst gott þurrt cava eða champagne í okkar glös. Við erum hins vegar þessi misserin að skoða meira hið ítalska prosecco því þau eru til virkilega góð þarna úti og alveg á pari við gott cava ef þannig ber undir. Vinsældir prosecco vína eru miklar um þessar mundir og ekki bara á Ítalíu.
Á dögunum tókum við með okkur í kot Albino Armani Rosé Extra Dry sem er virkilega vandað prosecco frá Veneto héraði á Ítalíu þaðan sem prosecco er í raun ættað. Vínið er „spumante“ sem þýðir að það er vel freyðandi ólíkt „frizzante“ sem er hálffreyðandi ef svo má segja. Það er gert úr blöndu af vínþrúgum, Pinot Nero og Chardonnay og er fallega bleikt á litinn og stórglæsilegt í glasi. Rósa freyðivínin (bleiku vínin) eru að verða dálítið vinsæl um þessar mundir en til eru bleik champagne, cava og prosecco ásamt öðrum stílum. Orðið „extra dry“ sem sjá má á sumum prosecco vínum gefur til kynna sætuna í víninu. Það er oft talað um 5 flokka í prosecco og þá er það þurrasta (minnst sæta) kallað brut, svo extra dry, sec, demi sec og douxsem er lang sætast. Smekkur manna er misjafn auðvitað en við hér erum lítt hrifinn af sætari endanum og leitum alltaf af helst brut en extra dry er líka fínt.
Albino Armani Rosé er mjög þægilegt freyðivín, sætu er stillt í hóf en hún er þó þarna, búblurnar þéttar og miklar og mikill léttleiki yfir öllu. Við ákváðum að prófa þetta vín með geggjuðum grilluðum tígrisrækjum sem við smökkuðum fyrst hjá góðum vinum okkar Magga og Hafdísi hér um árið. Grillaðar Tígrisrækjur í chilli hvítlauks marineringu.
Innkaupalistinn
Stórar rækjur, á stærð við þumlung ss tígrisrækjur í Costco (helst frosnar hráar með halanum á), ca 1 kg
Hvítlaukur
Ferskur chilli rauður (3 stk)
Sítróna 1 stk
Ólífuolía
salt
klettasallat
Majones
Sýrður rjómi
Aðferð
Fyrir marineringuna: Heill hvítlaukur, 3-4 ferskir chilli, rifinn sítrónubörkur af einni sítrónu og ólifuolía, 2 dl. Setjið hvítlauk og chilli í matvinnsluvél og saxið í smátt, bætið við rifnum sítrónuberki og olíu og blandið vel.
Þerrið rækjurnar og setjið í fat og hellið merineringu yfir og látið kúra á meðan þið græjið grillið. Þegar grillið er orðið heitt þá grillið þið rækjurnar í ca 1.5 mín á hvorri hlið. Saltið þær svo létt.
Fyrir hvítlauks sósuna: Hrærið saman majonesi og sýrðum rjóma, bætið pressuðum hvítlauk ca 2 rif saman við og svo sítrónusafa eftir smekk.
Dreifið síðan kelttasallati á stórt fat, setjið rækjurnar yfir og kreistið aðeins sítrónu yfir. Berið svo fram með hvítlaukssósunni.
Þetta kemur virkilega vel út með þessu flotta prosecco sem er þurrt en hefur þó ögn sætu sem vinnur skemmtilega á móti chilli-inu í marineringunni. Kolsýran í víninu léttir svo á öllu og skapar þannig meira pláss fyrir rækjurnar. Hér er drykkurinn ekki að taka neitt frá frekar viðkvæmum rétti. Stórkostlegt!
Við prófuðum annað prosecco frá sama framleiðanda. Albino Armani Prosecco. Þetta vín er elegant í glasi, föl ljóst að lit með fallegum búblum. Það er nokkur sæta í því sem er of mikið fyrir rækjurnar og fyrir okkar smekk eitt og sér. Hins vegar snarvirkar þetta í hinn vinsæla drykk Aperol Spritz. Sætan kemur hér vel út á móti þurra Aperolinu og skapar flott jafnvægi. Það eru til nokkrar útgáfur af þessum kokdilli og aftur er það smekksatriði í hvaða hlutföllum maður blandar. Eftirfarandi er að virka vel fyrir okkur, drykkyrinn er dálítið þurr en ekkert um of.
Aperol Spritz: Setjið mulinn ís í glas, slatta, hálffylla glasið. Svo eru það 2 hlutar Aperol, 3 hlutar Albino Armani Prosecco og 1 hluti sódavatn. Hér á bæ sleppum við reyndar sódavatninu og notum bara meira prosecco. Svo tvær hálfar appelsínusneiðar til að glæsa þetta aðeins upp. Þetta er geggjað svona. Stillið svo af beiskjuna bara með Aperol.
Pilsnereða léttur lagerer ekki bjórinn sem ég fer í þegar ég vil virkilega hafa það huggulegt, stíllinn á hins vegar alveg sinn sess hjá mér og það er oft tími fyrir einmitt einfaldan og lítt krefjandi bjór eins og t.d. með pizzunni, hamborgaranumeða sumu sjávarfangi sem þolir ekki stóra/mikla bjóra. Á sunnudögum nennir maður oft ekki að elda eitthvað svakalegt, oft tínir maður til afganga og gerir eitthvað sniðugt úr þeim, Sigrún mín er snillingur í að töfra fram ljúfmeti úr afgöngum. Pizza er tilvalið í þetta verkefni því hún er einföld í smíðum og það má í raun setja allt milli himins og jarðar á hana.
Þegar þetta er skrifað er einmitt sunnudagur og við ákváðum að elda „Eldum Rétt“ sem við grípum í annað slagið en Eldum rétt er oft bara virkilega gott og vandað og sparar mikinn tíma á annasömu heimili. Það er dálítið skemmtilegt því að í kvöld var Eldum Rétt rétturinn INDVERSK PIZZA en við vorum einmitt með indverskt soft taco kvöldið áður. Það sem meira var, það var næstum sama hráefnið í gangi.
RÉTTUR: Indversk pizza með kjúkling, rauðlauk og kasjúhnetum og svo dásamlegum ferskum kóríander ofaná.Sjá uppskrift hér.
BJÓRINN: Pizza og lagereða pilsnerer mjög flott pörun, bjórinn þolir margs konar hráefni sem oft ratar á pizzurnar. BRÍÓ frá Borger einn af mínum uppáhalds pilsner bjórum og því nota ég hann oft í svona verkefni, ég segi stundum að Bríó sé pilsner með karakter. Það má samt vel nota annan lager ss KALDA LJÓSA, GÆÐING LAGER ofl.
.
Ljósi lagerinn eða pilsnerinn er mildur og léttur með þægilega grösuga humla sem passa vel við álegg á borð við kóriander, klettasallat, spínat, papriku og annað grænmeti. Gosið í bjórnum dempar einnig sterkt álegg á borð við pepperoní og jalapeno t.d. Svo passar bragðmikið nautahakk, skinkan og annað kjöt ofsalega vel við brakandi lagerinn. Fyrir mér er þetta fullkomin pörun sem klikkar seint. BRIO frá Borg er í miklu uppáhaldi hjá mér enda er þetta stórkostlegur þýskur pilsnerog ekki skrítið að hann hafi unnið til fjölda verðlauna á erlendum bjórkeppnum, m.a valinn besti þýski pilsnerinn á World Beer cup 2012 en þar keppti hann á móti þýskum pilsner bjórum frá virtustu bjórframleiðendum Þýskalands. Mér finnst alltaf dálítið gaman að því að íslenskur „þýskur“ pilsner hafi unnið original þýsku pilsner bjórana sem hafa verið bruggaðir í landinu í áravís.
Þessi „Eldum Rétt“ pizza var stórkostleg og passaði vel með BRIO en ég sé reyndar líka fyrir mér góða pörun með pale aleeða IPAeins og við höfðum með mjúka tacoinuum daginn.
Ég elska taco og sérstaklega mjúkt taco eða soft taco það er bara svo dásamlega „fluffy“ og mjúkt og það er hægt að setja allan andskotann í þetta. Ég hef verið að leita að uppskrift að deigi um langt skeið, aldrei fundið neitt spennandi… Ég ákv því að prófa bara eitthvað allt annað, naanbrauðið hennar Sigrúnar minnar sem hún gerir alltaf þegar við höfum indverskt. Það er reyndar líka hægt að nota tandori naan brauð sem fæst t.d í Bónus en þetta brauð er bara stórgott þegar það er sett í brauðristina eða í ofn. Það verður dúnamjúkt og er mjög bragðgott og bara alls ekki síðra en heimagert…svona þegar maður er með haug af börnum og hefur varla tíma til að anda.
RÉTTUR: Soft taco tvær áttir, fylltar með steiktum þorskbitum annars vegar og kjúklingi hins vegar marinerað í tikka masala með ferskum chilli, lime safa, hvítlauk, kóríander og rjóma. Meðlæti: Gúrkustrimlar, rauðir paprikustrimlar, smjörsteiktur rauðlaukur og haugur af ferskum kóríander. Tvær kaldar sósur, Tikka Masalasósa blönduð með sýrðum rjóma og svo sýrður rjómi með slatta af limesafa, smá hvítlauk og salti.
TACO BRAUÐ: í raun heimagert naan brauð að hætti Sigrúnar.
1 tsk ger
2 matskeiðar olía
3 bollar hveiti
4 matskeiðar jógúrt (t.d. grísk jógúrt)
1 tsk salt
1 tsk hunang
3/4 bollar volgt vatn
Þurrefnum er blandað saman ásamt geri. Oliu, hunangi, jógúrti og vatni er einnig blandað saman og svo sett saman við þurrefnin. Hnoðum þetta vel og látið hefast í 30 til 60 mín. Því lengur því betra. Svo er bara að skipta deiginu niður og fletja út í hæfilega stórar flatbökur. Næst er olía hituð á pönnu, stingið svo nokkur göt með gafli í hverja köku og steikið á pönnunni. Snúa við og steikja hina hliðina þegar loftbólur byrja að myndast. Flott er að fá aðeins brunabletti hér og þar. Gott er svo að leggja brauðið saman svo það myndi hálfmána.
BJÓRINN: Það getur verið erfitt að finna góða matarpörun fyrir IPA en hér gengur hann eins og flís við rass. Við prófuðum bæði ÚLF IPA og systur hans ÚLFRÚNU frá Borgsem er mildari á tungu mtt beiskju. Úlfur með kjúklinga tacoinu er geggjað, opnar réttinn alveg upp á gátt og daðrar við bragðlaukana milli bita. Hann lífgar upp á chilli-ið í réttinum en kóriander og lime safinn dempa samt áhrifin. Saman skapa öll þessi „element“ mjög flotta heild. Úlfrún er svo aðeins mildari sem hentar þorskinum mun betur en Úlfurinn sem stelur dálítið senunni. Úlfrún fer mildum höndum um fiskinn en stendur samt fyllilega fyrir sínu gagnvart kryddunum í marineringunni. Kóríander og IPA fer svo bara einhvern veginn svo ofsalega vel saman. Elska þetta!
Það má vel nota aðra IPA bjóra ss Gæðing Tuma Humal, Founders All Day, BrewDog Punk IPA ofl.
Að eiga góða kvöldstund með vinum yfir góðum bjór og mat sem smellpassar við þarf ekki að þýða flókið hráefni og margra klukkustunda eldamennsku. Taco er eins konar skyndibiti, nei það ER einfaldlega skyndibiti og ef maður hefur gott vald á bakstri og er fljótur að skella í smá deig þá er þetta bara frekar einfallt en ef menn treysta sér ekki í það þá endilega prófa Tandori Naan brauðið í Bónus, án gríns það gengur vel með þessu. En byrjum á byrjuninni, það þarf að græja marineringuna fyrst en hún er sára einföld.
MARINERING. Tikka masala sósa, heimatilbúin ef þið hafið tíma eða úr krukku bara frá Hagkaup/Bónus. Slatti af rjóma með, salt og pipar. Ég bætti smá tandori kryddi með og kreisti lime yfir, heilmikið lime, úr einum jafnvel tveim ávöxtum. Saxaður ferskur kóríander, fínskorinn ferskur chilli og nokkur pressuð hvítlauksrif og svo öllu bara hrært saman og hellt yfir fiskinn og kjúklinginn. Látið endilega miklu meira lime safa yfir fiskinn, t.d. úr heilu lime aukalega.
NAAN BRAUÐ: Gott að drífa svo brauðið af því deigið þarf að standa og hefast. Þurrefnum (sjá að ofan) er blandað saman ásamt geri. Oliu, hunangi, jógúrti og vatni er einnig blandað saman og svo sett saman við þurrefnin. Hnoðum þetta vel og látið hefast í 30 til 60 mín. Því lengur því betra. Svo er bara að skipta deiginu niður og fletja út í hæfilega stórar flatbökur. Næst er olía hituð á pönnu, stingið svo nokkur göt með gafli í hverja köku og steikið á pönnunni. Snúa við og steikja hina hliðina þegar loftbólur byrja að myndast. Flott er að fá aðeins brunabletti hér og þar. Gott er svo að leggja brauðið saman svo það myndi hálfmána.
MEÐLÆTI: Það er gott að hafa smá sætu með þessu öllu, t.d. smjörsteiktan rauðlauk með smá sykri gerir gæfu muninn. Bara láta malla aðeins á pönnunni þar til orðinn, mjúkur og djúsí. Svo er grófsaxaður kóríander algjört möst en án hans er þessi réttur ekkert. Loks er gott að hafa fínskorna rauða papriku og gúrku með. Kínakál er líka flott. Gott er að skera þetta allt niður og hafa tilbúið í skálum.
Próteinið er svo steikt á pönnu rétt fyrir framreiðslu. Bæði kjúklingur og fiskur er skorinn í litla bita eða ræmur og svo er bara að raða þessu flott í tacoið. Það kemur vel út að klippa niður smjörpappír í ferninga og setja utan um brauðið en þá lítur þetta út eins og alvöru „street food“. Það er hægt að leika sér endalaust með sósur, í þennan rétt höfðum við tvær kaldar, tikka masala blandað í sýrðan rjóma og svo sýrðan rjóma með lime safa, smá hvítlauk og salt og gott er að hafa þær báðar saman í einu. Fiskurinn lifnar svo alveg við með lime safa og því er gott að kreista lime yfir fisk tacoið rétt fyrir framreiðslu.
BJÓRINN. Taco kallar á bjór í léttari kantinum en hann má þó hafa smá karakter. Humlar og létt beiskja ganga vel með kryddunum í tacoinu og tikka masala blöndunni en það þarf að passa að beiskjan yfirgnæfi ekki prótein eins og fiskinn. Sætur karamelluseraður laukurinn og létt beiskjan í bjórnum eru ofsalega ljúfar andstæður og svo er súri lime keimurinn geggjaður með sítrustónum sem oft má finna í humlunum. Hér er kjörið að velja sér pale ale eða IPA svo fremi sem beiskja er stillt í hóf en það eru vissulega til þarna úti gríðarlega beiskir IPA bjórar. Góður lagereða pilsnergengur svo sannarlega hér líka en muna bara að ekki sætta þig við einhvern meðal lager bara af því að það gengur með matnum, við viljum að „bæði sé betra“ þ.e.a.s bæði bjór og matur á að geta staðið fyrir sínu. Ég get ekki annað en að nefna hér BRIO frá Borg sem mér finns með betri pilsner bjórum á Íslandi og svo má ekki gleima Mikkeller American Dream sem er algjör draumur.
ÚLFUR var fyrsti IPA bjór okkar Íslendinga og ég hef verið ástfanginn af honum alveg frá fyrsta degi enda stórkostlegur IPA, sérstaklega þegar maður nælir sér í hann ferskan og spriklandi. Það getur verið dálítið erfitt að finna mat sem passar við IPA því beiskjan getur verið vand með farin. Ég var því himinlifandi þegar ég áttaði mig á hversu flott soft taco parast við Úlfinn því ég hef eiginlega verið að leita eftir hinum fullkomna rétt fyrir hann um nokkurt skeið. Reyndar er hann pínu ágengur með fisk tacoinu en gengur samt, litla systir hans ÚLFRÚN er hins vegar stórkostleg með fisknum. Hér fær maður djúsí humla, væga beiskju og sítrus sem blandast stórkostlega við fiskinn og svo ég tali nú ekki um lime safann.
You must be logged in to post a comment.