Ég ætla nú ekki að taka neinn sérstakan heiður af þessari uppskrift, ég fór bara á netið og fann eitthvað. Þær eru nú samt allar frekar svipaðar. Ég fylgdi samt ekki uppskriftinni alveg og ég breytti aðeins hlutföllum. Útkoman var alveg mögnuð.
Það sem þarf fyrir 4-5
Kjúklingavængir, 3 bakkar
Stórt stykki af ferskum engifer, rifinn fínt
Maíshveiti, 100 g
Jurtaolía til steikingar
Sesam fræ og niðurskorinn vorlaukur
fyrir sósuna
Púðursykur, 12 mtsk
Soyasósa 5 mtsk
5 mtsk gochujan eða kóresk chili pasta
3-4 hvítlauksgeirar, pressaðir
Lítill ferskur engifer biti, rifinn (stærð eftir smekk bara)
Sesamolía 4 tsk
Aðferð
Takið vængina og skerið krípí skrítna endann af sem líkist litla fingri af hverjum væng fyrir sig. Fargið þessum afskurði. Skerið svo vængina aftur í sundur við næstu liðamót þannig að þið endið með tvo bita úr hverjum væng.
Setjið vængina í stóra skál, saltið og piprið og blandið rifna engiferinu saman við. Veltið svo vængjunum uppúr maíshveitinu (um 100 g) þannig að það hjúpi vel vængina.
Komdu svo olíunni af stað í djúpsteikingapotti, ef þú átt það ekki er hægt að nota pönnu. En þá þarf olían að ná um 2 cm upp á hliðarnar.
Nú er ágætt að byrja á sósunni. Takið fram pönnu, stillið á meðalhita. Setjið 12 mtsk púðursykur, 5 mtsk soyasósu, 5 mtsk chili pasta, 4 tsk semsamolíu, rifna engiferið og 3 pressaða hvítlauksgeira á pönnuna. Blandið vel saman og látið malla.
Svo er það steikingin. Djúpsteikið kjúklinginn á 190 gráður í ca 11 mínotur. Takið stöðuna á einum bita, mögulega þarf 12-13 mín. Ef þið eruð með pönnu þá steikið þið kjúklinginn í olíunni í um 4-6 mín og snúið svo bitunum og steikið í aðrar 4-6 mín.
Látið bitana kólna á eldhúsbréfi í um tvær mín. Nú ætti sósan að vera orðin dálítið eins og síróp. Veltið bitunum uppúr sósunni og setjið í skál. Skreytið með vorlauknum og sesamfræum og rífið þetta svo í ykkur. Notið puttana, anna er erfitt.
Með þessu þarf að vera einhver nettur, létt beiskur bjór, eins og pale ale eða amerískur IPA. Úlfur frá Borg er t.d. Svakalega næs með þessu!
Undanfarið hef ég verið dálítið hugmyndalaus varðandi eldamennskuna, bara ekkert drif….getur maður farið í eldhúslægð? Alla vega, það lifnaði yfir mér um daginn þegar Björk nágranni minn var að tala um villisveppa risotto sem hún hafði smakkað einhvers staðar og það djúpsgteikt í þokkabót. Ég ákvað að prófa að gera svona því risotto er gott, villisveppir eru góðir og allt djúpsteikt er geggjað. Þetta tókst mjög vel. Ég man ekki hvar ég fann uppskrift en minnir að það hafi verið á Vínotek! Ég fór svona að mestu eftir henni.
Það sem þarf fyrir ca 4
2 skarlottulaukar, skornir smátt
2 hvítlausrif, skorið smátt eða hvitlauks mauk sem mér finnst mun skemmtilegra að nota, það væri þá ca 1 tsk
Ca 100g kastaníusveppir, smátt skorið
Ca 50g þurrkaðir villisveppir, skorið smátt
1.5L sveppasoð (tveir teningar af sveppakrafti leyst í vatni)
400g risotto grjón
2 dl hvítvín
75g smjör
100g rifinn parmesan ostur
Salt og pipar
háfur sveppaostur circa
Pancho rasp
olía til djúpsteikingar
Klettasalat, einn poki
Parmesan, rifinn yfir
Trufflu aioli, sem meðlæti ef vill
Fyrir papríku tómata sósuna
1 krukka grillaðar papríkur (Jamie Oliver t.d) saxað smátt
1 dós hakkair Mutti tómatar
2 hvítlauksgeirar skornir smátt
1 skarlottulaukur, skorinn smátt
1 lúka af ferskri basillicu, smátt skorið
Salt og pipar
1-2 dl rjómi eftir smekk
Aðferð
Skolið villisveppina í heitu vatni, leggið svo í bleyti í volguvvatni í 15 mín. Sigtið svo vatnið frá og skerið smátt. Setjið slatta af smjöri á pönnu, saxið skarlottlauk (2 stk), hvíltauksrif (2 stk), og sveppi (ca 100g) smátt.
Steikið fyrst lauk og hvítlauk á pönnunni á ekki of miklum hita, passa að hvítlaukur brenni ekki. Bætið sveppunum útí, meira smjör ef þarf. Bætið svo ca dl. af hvítvíni saman við. Setjið svo grjónin út í og veltið vel uppúr smjöri og hvítvíni. Bætið rest af hvítvíni samanvið og látið malla þar til vökvi er nánast horfinn. Bætið þá 2 ausum af sveppasoði út á pönnuna og hrærið áfram á meðalhita.
Þegar vökvinn er nánast horfin er þetta endurtekið, sem sagt ausið alltaf reglulega vökva saman við og hrærið stöðugt svo ekki brenni í botninn. Endurtakið þetta í ca 20 mín eða lengur þar til grjónin eru mjúk en samt ekki eins og grautur, það á að vera smá bit í þessu. Skerið loks smjör í kubba og bætið út á grjónin, rífið svo parmesan yfir og blandið öllu saman. Salt og pipar eftir smekk.
Setjið svo risotto í skál og kælið. Svo er það djúpsteikingin. Skerið sveppaostinn í litla kubba, ca 1 cm á kant eða minna. Hjúpið ostabitana með risotto þannig að þið myndi litla bolta með ost í miðjunni. Stærð fer eftir smekk en eftir því sem boltarnir eru stærri því minna bráðnar osturinn inní. Ég myndi miða við aðeins stærri en golfkúlur. Veltið svo bollunum upp úr pancho raspi og djúpsteikið þar til orðið gullið og fagurt. Látið standa á grind þar til þið berið fram.
Papríku tómata sósan
Mýkið laukinn (1 stk) á meðalhita í smá smjöri og olíu, bætið hvítlauk (2 rif) saman við og mýkið, bætið svo smátt skorinni paprikunni (1 krukka) ásamt hökkuðu tómötunum (1 dós) saman við og hrærið á meðal hita. Salt og pipar eftir smekk. Bæti svo 1-2 dl rjóma saman við og blandið saman og látið malla áfram. Bætið loks basillikunni saman við. Ef þetta er of þykkt þá þynnið með vatni.
Svona, nú er allt klárt. Setjið klettasalat á disk, dreifið sósunni (sjá að neðan) yfir fyrir miðju og raðið þrem risotto bollum yfir þannig að þær standi í sósunni. Rífið svo ríkulega parmesan yfir og raðið loks ferskum basilliku blöðum efst. Svo er geggjað að hafa smá trufflu aioli með þessu líka, væri jafnvel hægt að setja það inní bollurnar með ostinum.
Pörunin
Hér gengur alls konar, gott rauðvín eða þróttmikið hvítvín. Jafnvel góðar búbblur. Í bjórnum væri það t.d. Saison (farmhouse) eða jafnvel belgískur blond. Ég held líka að krispípilsner gæti gengið og svo fyrir meira ævintýri, belgískur Tripel.
Kjúklingur er ágætt hráefni og það er sannarlega hægt nota hann í stórkostlega rétti. Þessi réttur er svo magnaður að ég er sannfærður um að þetta verði besti kjúklingaréttur sem þú munt smakka á þessu ári. Ég elska að djúpsteikja allan andskotan, þegar ég sá nafna minn Ragnar Frey (Læknirinn í Eldhúsinu) gera þetta einhvern tíman á instagram þá varð ég bara að prófa. Eða í raun var það Sigrún mín sem eldaði og þetta var alveg magnað. Krakkarnir okkar elska þetta en þau kalla þennan rétt rauða kjúllann.
Sigrún hefur eldað þetta nokkrum sinnum en nú langaði mig að prófa. Uppskriftin er á síðunni hans Ragnars en fyrir mig sem þarf að hafa allt mjög skipulagt og einfalt uppsett þá fannst mér dálítið erfitt að lesa mig í gegnum hana. Ég ákvað því að skrifa þetta upp til að auðvelda mér verkið næst þegar ég elda þetta því það verður svo sannarlega gert oft, krakkarnir einfaldlega krefjast þess.
Ég er svo aukalega með döðlu raita og saffran hrísgrjón sem passa svakalega vel með!
Það sem þarf fyrir 6
Fyrir marineringu
1.4 kg Kjúklingalæri úrbeinuð (tveir bakkar)
1 dós grísk jógúrt (350ml)
2 sítrónur, safinn
2 egg
3 mtsk túrmerik
3 mtsk garan masala
3 mtsk paprikuduft
2 mtsk chiliduft
1/2 – 1 mtsk chiliflögur, fer eftir hversu sterkar þær eru
2 mtsk svartur pipar
1 bolli maísmjöl
3 mtsk engifermauk
3 mtsk hvítlauksmauk
50 mll rauðrófusafi
salt
2-2,5 L djúpsteikingarolía
Fyrir sósuna
1 dós grísk jógúrt (350 ml)
50 ml rauðrófusafi
5 mtsk tómatsósa
2 mtsk sæt chilisósa
2 mtsk sriracha sósa
salt og pipar eftir smekk
1 grænn chili, skorinn fínt
10-15 karrílauf, má sleppa, nota þá ca tsk karrí í staðinn
1 mtsk engifermauk
1 mtsk hvítlauksmauk
Döðlu raita
1 dós grísk jógúrt
1/2 búnt kóríander, saxað
1-2 hvítlauksgeirar, pressaðir
15-20 steinlausar döðlur, skorið smátt
salt
Allt hrært saman í skál
Saffran Hrísgrjón
5 dl basmati hrísgrjón
1 L vatn
1 mtsk isio 4 olía eða 2 mtsk ghee
1/2 – 1 tsk saffran þræðir
1/2 sítróna, bæði hýði og safi
1 tsk salt
2 tsk brún sinnepsfræ (fæst í Fiska)
Aðferð
Marinering
Byrjið á að skera kjúklingalærin í hæfilega bita. Ég fékk 4 bita úr hverju læri t.d. Finnið til stóra skál og setjið kjúklinginn í hana. Þvínæst er öllum kryddunum, jógúrti, sítrónusafa, rauðrófusafa, eggjum og öllu því sem ég er líklega að gleyma að telja upp, bætt í skálina. Svo er bara að hnoða þetta eða blanda vel saman með höndunum. Látið standa í 2-3 klst eða lengur.
Sósan
Takið til skál, hrærið saman 1 dós af grískri jógúrt, 50 ml rauðrófusafa, 5 mtsk tómatsósu, 2 mtsk sæta chilisósu, 2 mtsk sriracha, salt og pipar eftir smekk. Skerið chili smátt, hitið olíu á pönnu og steikið svo aðeins chili, engifermauk, hvítlauksmauk og karrí. Hellið svo sósunni út á pönnuna og hrærið saman. Smakkið til með salti og pipar. Sósan er þá í raun tilbúin en svo er þetta hitað upp með kjúklingnum á eftir.
Hrísgrjónin
Gott er að koma hrísgrjónunum af stað áður en byrjað er að djúpsteikja. Setjið vatn í pott (1 L) og látið suðuna koma upp. Bætið við rifnum sítrónuberki og safa (1/2 sítróna) út í vatnið ásamt saffran þráðunum og látið renna saman í 5 mín. Á meðan notið þið tíman og setjið olíuna eða ghee í pott og náið upp hita. Setjið sinnepsfræin varlega útí en passið ykkur þau geta poppað og þá slettist á ykkur heit ólían. Hrærið í fræunum stöðugt í 30-40 sek, bætið svo þurrum hrísgrjónumum útí pottinn og blandið við fræin í 1-2 mín.
Bætið þvínæst hrísgrjónunum ásamt salti (1 tsk) út í saffran vatnið og hrærið létt saman og setjið svo viskastykki yfir pottinn og lok yfir og látið malla í 10 mín. Ekki bullsjóða. Forðist að hræra mikið svo þið brjótið ekki grjónin. Þvínæst slökkvið þið á hitanum og látið pottinn standa í aðrar 10 mínútur.
Djúpsteikingin
Notið djúpsteikingarpott ef þið eigið. Hitið um 2 L olíu upp í 170 – 180 gráður. Djúpsteikið svo kjúklinginn í ca 4 mínútur. Kannið hvort þetta sé eldað í gegn, ef ekki þá bætið þið við mínútu ef þarf. Látið svo standa á ofngrind og kólna. Hér er fínt að henda í raita en það er alveg ómissandi með. Þetta mun slá í gegn við matarborðið. Skerið dölurnar og kóríander smátt og hrærið svo bara öllu saman í skál. Smakkið til með salti.
Naan brauð
Það verður að vera naan með til að þurrka upp þessa geggjuðu sósu. Við höfum gert ýmsar útgáfur, en Sigrún mín hefur verið dugleg að prófa sig áfram. Ég held samt að hveitikökuuppskriftin mín (tortilla) komi best út með þessu. Mótið hvert naan að vild en hafið kannski deigið aðeins þykkara en þegar gert er tortilla. Staflið naan brauðunum upp og pakkið inn í álpappír.
Þegar allt er klárt þá setjið þið kjúklingabitana út í sósuna og veltið vel saman þannig að bitarnir hjúpist alveg. Hitið aðeins upp þessa blöndu en ekki sjóða eða steikja. Skreytið með ferskum kóríander og berið fram.
Þetta er dálítið sterkt en alls ekkert sem rífur of mikið í. Mér finnst best að para indverskt með flottum premium lager, amk þennan rétt hér. Sætan í lagernum dempar dálítið brunann frá chili-inu, kolsýran og létt beiskjan opna upp sósurnar og létta á öllu. IPA gengur líka en þá þarf maður að vera tilbúinn í að bruninn í matnum verði meira áberandi.
Ég hef alltaf verið spenntur fyrir indverskum mat en ég hef ekki hætt mér út í að prófa að elda hann sjálfur, það hefur bara vaxið mér í augum. Mig hefur samt alltaf langað að læra að gera indverskt. Ég hnippti því hér um árið í nágranna okkar og vinkonu Yesmine Olsson sem eins og kunnugt er er snillingur í indverskri matargerð . Ég spurði hana hvort hún vildi ekki elda með mér indverskt og bjóða góðu fólki í mat en til að selja henni hugmyndina kvaðst ég vilja prófa að para bjór með réttunum. Yesmine líkaði hugmyndin vel en hún sagði mér reyndar eftir á að hún hafi ekki verið vongóð um að bjórpörunin kæmi vel út en samt spennt að sjá hvernig til tækist. Hún er búin að taka þetta til baka núna enda kom það henni verulega á óvart hvernig til tókst. Reyndar mér líka!
Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig það kæmi út að para bjór við indverska rétti, þetta er nefnilega mikil áskorun, þeir eru oft mjög sterkir og miklir réttirnir og það eru svo ótal mörg krydd í þeim, krydd sem maður þekkir ekkert allt of vel. Ég sá mér því leik á borði, ég myndi læra smá inn á töfrandi heim indverskrar matargerðar á sama tíma og ég gæti prófað bjórpörunina.
Yesmine er snillingur í eldhúsinu, ég vissi það svo sem en ég fékk bara meiri staðfestingu á því eftir þennan dag okkar saman í eldhúsinu, mikið var þetta gaman. Við vorum reyndar nokkra daga að plana veisluna og svo þurftum við að hittast því ég þurfti að fá nákvæmar lýsingar á réttunum, við erum að tala um hvernig krydd, hvernig áferð, sætt, súrt, sterkt og svo framvegis. Ég nefnilega þurfti að velja bjórinn út frá þessum upplýsingum eingöngu því ég hafði jú ekki smakkað neitt af þessu áður. Út frá þessum upplýsingum gerði ég lista yfir þá bjóra sem kæmu til greina, ég valdi nokkra til að prófa með hverjum rétt bara svona til að hafa smá varnagla á. Það má ekki gleyma því að við vorum með 8 gesti í þessari veislu þannig að smá pressa! Ég vildi hafa þetta íslenskt bjórþema og auðvitað bara bjór frá landsins bestu brugghúsum!
Þetta lukkaðist svona líka vel, bæði að mínu mati og svo 9 annara reyndar líka, og maturinn guð minn góður…eða ætti ég frekar að segja Yesmine góða? Ég ætla að rissa aðeins upp þessar paranir og láta eina og eina uppskrift fljóta með.
Djúpsteikt indverskt „dumplings“ með geggjaðri karrí mayo sósu!
Við byrjuðum á léttum forrétt svona til að koma öllum í gírinn. Við vorum ofsalega heppin með veður og gátum því notið matar og drykkjar á svölunum hjá þeim Yesmine og Adda. Í forrétt vorum við með djúpsteikt indversk „dumplings“ sem við höfðum fyllt með nautahakki og svínahakki sem legið hafði í indverskri kryddmarineringu yfir nótt. Þetta er virkilega bragðmikill réttur en þó ekkert sem rífur allt of mikið í. Við erum með öll klassísku kryddin í þessu, kóríander, múskat, engifer, túrmerik, karrí og meira til. Þessi réttur er dálítil handavinna, jafnvel þó við séum búin að marinera deginum áður. En í góðum félagsskap og með gott hvítvín t.d. á kantinum þá er bara gaman!
Ef maður er svakalega anal getur maður gert degið sjálfur en best er að kaupa dumplings deig bara tilbúið í asískum verslunum. Þetta eru örþunnar deigplötur. Bleytið alla kanta með vatni til að deigið klístrist saman í lokin þegar þið krumpið það saman. Setjið hæfilegt magn af fyllingu á miðja örkina og lokið svo með fingrunum og þéttið vel. Svo er þetta djúpsteikt í jurtaolíu þar til orðið gyllt og stökkt. Látið svo standa á grind!
Fyllingin er hér
250 g nautahakk
250 g svínahakk
1 laukur
1 rauðlaukur
1,5 dl vorlaukur
2 skalottlaukar
4 hvítlaukssrif
25 g ferskur kóríander
3 stórir tómatar
2 cm engiferrót
1/4 tsk múskat
1/2 tsk túrmerik
2 tsk karrí
2-3 ferskir rauðir chilipipar eftir smeklk
3-4 msk matarolía
5 stk döðlur
salt og pipar
Allt nema kjötið er blandað vel saman í matvinnsluvél. Svo er kjötinu bætt útí og hrært saman. Látið svo standa yfir nótt helst. Amk nokkra tíma.
Með þessu vorum við svo með alveg splunku nýja uppfinningu, karrí mayo sósu sem Yesmine töfraði fram. Yesmine sagðist hafa fengið innblástur frá kóríander mayo sósunni minni og langaði að prófa að gera eitthvað svona indverskt twist með majonesi. Hún hefur annars aldrei áður notað majones í sinni matargerð. Ég viðurkenni að ég er pínu stoltur sko. Þessi sósa er kreisí! Krrrrreisí og ég sök á því að hún varð til!
Indversk karrí mayo sósa
ca 2-3 bollar (US cups) majones
ca 1/2 mtsk kapers
2-3 litlar súrar gúrkur (pikles)
1-2 mtsk engiferrót
1 grænn chili ávöxtur
3 hvítlauksgeirar
1 mtsk gott karrí krydd
sjávarsalt eftir smekk
Aðferð.
Ok, þetta er í fyrsta sinn sem þessi sósa er gerð, ég gerði hana svo aftur daginn eftir nokkurn veginn svona. Menn verða svo bara að smakka til, meiri hvítlauk eða meira salt eða karrí. Allt eftir smekk. Þetta á samt að vera karrí mayo þannig að meira karrí en minna. Þetta er í raun allt sett saman og maukað með töfrasprota. Ef menn vilja bera fram í skál með smá bitum í þá er það bara fínt en ef við viljum bera sósuna fram í sprautuflösku þá þarf að mauka þetta vel þannig að engir bitar eru eftir í maukinu. Bæði betra!
Þessi sósa er alveg mögnuð með þessu og í raun með ansi mörgum réttum sé ég fyrir mér. Ég veit að þessi sósa mun slá rækilega í gegn í sumar!
Pörunin!
Hér erum við með stökka áferð, það er fita í deiginu og djúpsteikingunni og svo er grísahakkið feitt og djúsí inní og kryddin áberandi. Karrí mayo sósan er svo alveg sér á báti og rífur vel í með hvítlauk og karrí. Þetta er geggjað eitt og sér en enn betra með góðum drykk. Hér þarf bjór sem heldur velli gagnvart kryddunum og bragmikilli sósunni en þó ekki þannig að hann taki öll völd. Við viljum njóta líka kryddanna og kjötsins. Með feitum mat og sósum eins og hér er er kjörið að nota bjór með smá beiskju bit, IPAer fullkominn í verkið og svo auðvitað gaman að para Indian Pal Ale við Indian food ekki satt, svona bara vegna upprunans? Beiskjan í bjórnum klippir upp fituna í þessum rétt og opnar allt upp á gátt og hreinsar munn og kok af fitubrákinni sem myndast. Ég ákvað að fara hér í minn uppáhalds íslenska IPA/pale ale sem er frá Malbygg brugghúsog heitir einfaldlega Kisi. Mér er sama hvað stendur á dósinni, þetta er safaríkur djúsí NEIPA(new england IPA) þar sem humlarnir fá að njóta sín með ávaxtakeim á borð við mango og ástaraldin en svo er líka örlítið beiskjubit sem sinnir sínu hlutverki eins og áður er ritað.
Þetta er fullkomið, öll þessi krydd , léttur hiti og þessi feita áferð steinliggja með þessum frábæra bjór. Ég elska líka kóríander og IPA, það er eins og þetta tvennt hafi verið fundið upp saman. Vá! Það besta er að Yesmine, sem ekki er mikið fyrir bjórinn, var alveg dolfallin. Henni fannst þetta koma svakalega vel út og þá er takmarki mínu náð.
Aðalréttirnir, lamba pylsu grillspjót og kjúklinga grillsprjót með spínat kóríandersósu og alls konar meðlæti.
Eggaldinn í alveg nýjum búning
Við ákváðum að hafa nokkra rétti sem fólk bara blandar saman á einn disk, það voru bæði stærri og minni réttir. Við vorum með hvítlauks naanbrauð með, saffran hrísgrjónum, magnað döðlu raita og svakalega góð ofnbökuð eggaldinn með indverskum kryddum toppuð með sósu af óþekktum toga, já ég gat ekki fylgst með öllum töfrunum hennar Yesmine.
Fyrir lambagrillspjótin (fyrir 4-5)
400 g lambaprime, skorið í hæfilega bita
400 g kryddpylsur, tvær gerðir, t.d. chorizo pylsur og eitthvað annað gott
1/2 dl repjuolía
5 kardimommur
10 negulnaglar
5 cm kanilstöng
1 tsk túrmerik
5 svört piparkorn
2 tsk cuminfræ
2 stórir laukar, skornir í fernt
5 hvítlauksrif
2 grænir chilibelgir með fræjum
5 cm af ferskri engiferrót, afhýdd, skorin gróft
safi úr 1/2 sítrónu
1 tsk sjávarsalt
Aðferðin
Fyrir marineringuna á kjötinu. Taktu öll kryddin á disk. Taktu til pönnu og hitaðu hana vel upp. Svo eru kardimommur, negulnaglar, kanilstöng, pipar og cuminfræ þurristað á pönnunni í 30-40 sek eða þar til kryddin breyta um lit og gefa frá sér frábæran ilm. Notaðu svo mortél til að merja öll kryddin nema túrmerik. Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél ásamt kryddunum og maukið saman. Veltu lambakjötinu vel uppúr marineringunni, skerðu líka pyslurnar í hæfilega bita og blandaðu þeim saman við lambið. Látið standa yfir nótt.
Sama dag og rétturinn er borinn fram. Leggi tréspjót/grillpinna í bleyti, skerið niður gula papriku og rauðlauk í hæfilega bita eftir smekk. Raðið svo lambi og pylsum saman á spjótin og inn á milli lauk og papríku. Látið þetta líta dálítið vel út. Pysla og kjöt saman samt, þannig renna kryddin úr hvoru tveggja saman við grillunina.
Auk lambaspjóta vorum við með kjúklingaspjót með dásamlegri spínat kóríandersósu. Yesmine notar alltaf úrbeinað lærkjöt þegar hún notar kjúkling, ég er algjörlega sammála, þetta er besta kjötið, svo djúsí og gott og dregur í sig öll kryddin í marineringunni. Þessi réttur var bragðmikill líka, ekki þó eins spicy og lambaspjótin en í sósunni er ríkjandi kóríander og hvítlauksbragð. Ofsalega gott saman.
Hrísgrjón eru ómissandi með indverskum mat, þau vissulega drýgja máltíðina en eru líka frábær til að sjúga í sig sósurnar á diskunum, ekkert má fara til spillis. Með mjög sterkum mat er líka gott að nota hrísgrjónin til að dempa brunann. En hrísgrjón eru ekki bara hrísgrjón, Yesmine notar nánast eingöngu basmati grjón t.d. en það er mikill munur á gæðunum. Þetta kvöld komst ég svo að því að ég og Sigrún mín höfum verið að elda hrísgrjón vitlaust alla okkar tíð. Ég komst líka að því að hægt er að gera fáranlega gómsæt hrísgrjón sem meðlæti.
Saffran þræðir, gull kryddanna!
Saffran hrísgrjón
5 dl basmati hrísgrjón
1 L vatn
1 mtsk isio 4 olía eða 2 mtsk ghee
1/2 – 1 tsk saffran þræðir
1/2 sítróna, bæði hýði og safi
1 tsk salt
2 tsk brún sinnepsfræ (fæst í Fiska)
Setjið vatn í pott (1 L) og látið suðuna koma upp. Bætið við rifnum sítrónuberki og safa (1/2 sítróna) út í vatnið ásamt saffran þráðunum og látið renna saman í 5 mín. Á meðan notið þið tíman og setjið olíuna eða ghee í pott og náið upp hita. Setjið sinnepsfræin varlega útí en passið ykkur þau geta poppað og þá slettist á ykkur heit ólían. Hrærið í fræunum stöðugt í 30-40 sek, bætið svo þurrum hrísgrjónumum útí pottinn og blandið við fræin í 1-2 mín.
Bætið þvínæst hrísgrjónunum ásamt salti (1 tsk) út í saffran vatnið og hrærið létt saman og setjið svo viskastykki yfir pottinn og lok yfir og látið malla í 10 mín. Ekki bullsjóða. Forðist að hræra mikið svo þið brjótið ekki grjónin. Þvínæst slökkvið þið á hitanum og látið pottinn standa í aðrar 10 mínútur.
Þetta er svakalega gott með öllum þessum réttum.
Gott naan brauð er líka ómissandi með indverskum mat. Það má gera það frá grunni sem er auðvitað skemmtilegast og svo grilla á grilli eða ef maður á tandori ofn, þá notar maður hann auðvitað. Gott er að útbúa einhverja góða olíu, t.d. hvítlauskolíu og pennsla brauðin fyrir eldun.
Annað sem er mikilvægt að mínu mati er eitthvað ferskt og létt til að milda tungu og hvíla frá sterkum kryddum. Klassískt er gúrku raita sem þó mér finnst stundum dálítið of klassískt jafnvel. Yesmine bauð uppá aðeins aðra útgáfu, alveg hrikalega góða döðlu raita sem koma æðislega vel út með öllu þessu hérna, döðlurnar gefa skemmtilega sætu í þetta allt saman.
Loks var það ofnbakaða eggaldinið, það var svakalegt. Maður er vanur að grilla þetta og setja salt og olíu á og það kemur vel út en þessi útgáfa var stórkostleg, öll þessi indversk krydd, radísuspírur og svo þessi dularfulla sósa ofan á. Úff úff úff!
Pörunin
En ok, pörunin, þetta var pínu flókið en svo í raun ekki. Hér gat ég ekki parað einn bjór við hvern rétt því við buðum upp á þetta allt saman í einu, sem einn rétt með mörgum vinklum. Ég prófaði nokkra bjóra með þessu. Mér fannst borðleggjandi að velja frekar látlausa bjóra en sem þó gætu höndlað sterk krydd á sama tíma og þeir yfirbuguðu ekki látlausu kryddin sem maður vill ekki missa af eins og t.d. safran eða múskat. Hrísgrjón er lykil meðlæti í svona veislu og því tilvalið að velja bjór sem bruggaður er með hrísgrjónum, bæði tengja grjónin vel við grjónin í matnum en svo gefa þau fyllingu og dempa brunann frá „heitum“ kryddum á borð við chili eða sterk karrí. Ég valdi hrísgrjóna lager í þetta verk en það vill svo til að það eru alla vega tveir slíkir í boði akkúrat núna frá íslenskum framleiðendum.
Sudoku Rice Lager frá Borger frábær lager. Hann er þéttur og elegant með ögn sætukeim og afar látlausu humalbiti sem er þó til staðar. Mér fannst borðleggjandi að tefla fram lager með grilluðum pylsum, kjúlla og lambi og þetta svínvirkaði. Sætan í korninu dempaði ögn kryddin en slökkti samt alls ekki á þeim heldur tvinnaðist bragðið frá bjórnum fallega saman við hrísgrjónin og rest. Nett beiskjan var nægileg til að vinna á fitunni frá kjötinu og sósunum. Mjög gott combo.
Önnur pörun sem kom vel út var Yuzu Rice Lager frá RVK Brewing. Þessi bjór er líka bruggaður með hrísgrjónum en einnig yuzu ávexti sem er súrt sítrusaldin frá Austurlöndum fjær. Þessi bjór er afar ferskur og sumarlegur og smellpassar á pallinn í sólinni en gengur líka vel hér af sömu ástæðum og hér að ofan. Súraldinið gefur svo auka vinkil með þægilega sýru sem gengur vel á móti þungum matnum og styður skemmtilega við ferska döðlu raita-ið. Gestum þótti þetta skemmtilegur valmöguleiki með matnum.
Það sem hins vegar sló í gegn hjá mér persónulega, og það voru nokkrir sammála mér í því var næsti bjór. Ég var reyndar á höttunum eftir rauðölieða amber bjór fyrir verkið, jafnvel hefði bockgeta komið vel út en þau brugghús sem ég skoðaði, bestu íslensku brugghúsin okkar auðvitað, áttu slíkan bjór ekki til á flöskum eða dósum. Hér langaði mig að nota bjór með mikinn maltkarakter en sem væri þó léttur og meðfærilegur. Ofannefndir bjórstílar eru dekkri en hinn ljósi lager því í þá er notað aðeins meira ristað korn/malt sem gefur af sér ögn karamellukeim og rist. Ég sá fyrir mér fullkomna tengingu við grillaða kjötið sem fær jafnan á sig ákv karamellu áferð við grillunina. Það er líka vel þekkt að sætukeimurinn frá maltinu komi ofsalega vel út á móti sterkum kryddum og er jafnvel það eina sem gengur á móti sterkustu chiliréttum þeirra Indverja.
Það var Maggi hjá RVK brewing sem reyndar líka er með sitt eigið brugghús, sem ég hef fjallað stuttlega um áður Mono, sem benti mér á aðra mögulega lausn. Þeir Mono strákar voru nýlega komnir með bjór á flösku sem gæti gengið, svo kallaður märtzen, sem er þýskur lager sem menn tengja jafnan við Oktoberfest þar í landi. Þetta er „maltforward“ bjór og oft með kopar til rauðum blæ. Bjórinn er lager og yfirleitt með létta til meðal fyllingu og litla beiskju. Þetta fannst mér frábær hugmynd og ákvað að prófa.
De Stijl heitir kauði og er samstarfsbrugg með Ekta Brewing sem ég þekki lítt til. Bjórinn var töluvert mildari en ég átti von á og ekki eins maltaður og amber en maltið þó vel merkjanlegt. Bjórinn er þó með áberandi meiri bragðprófíl ef miðað er við hrísgrjóna lagerinn sem ég fjallaði um að ofan. Þessi bjór algjörlega negldi þennan mat og gerði nákvæmlega það sem ég hafði vonast til. Maltsætan og ristin dönsuðu vel með grilltónunum frá kjötinu, indversku kryddin komu líka skemmtilega vel út með þessum bjór og tvinnuðust kóríander, kardimommur, negull og allt hitt skemmtilega við karamelluristina frá korninu. Sterkustu tónarnir frá lambaspjótunum milduðust ögn og lyftu meira að segja upp bjórnum og gerðu hann meiri. Kolsýran var líka kærkomin á móti öllum þessum brögðum og fitunni en kolsýran „skefur“ einhvern veginn palletuna og opnar fyrir næsta bita.
Frábær pörun!
Svakaleg sænsk „kladdkaka“ með indversku chili súkkulaði ganache og þeyttum mynturjóma
Góð veisla þarf að enda eftirminnilega að mínu mati og þessi gerði það svo sannarlega. Jafnframt var hér besta pörun kvöldsins sem kom meira að segja mestu efasemdamönnum á óvart. Þessi kaka er svakaleg, djúsí og klístruð með fullfermi af súkkulaði alveg eins og ég vil hafa það í eftirrétt. Ofan á þessu var svo þykkt nánast eins og fudge súkkulaðikrem með indversku chili kryddi sem reif af og til í. Svo kom stökk áferð frá ristuðu pistasíuhnetunum ofan á. Ekki má svo gleyma þeytta rjómanum með fersku myntunni en myntan og kryddin í kökunni dönsuðu vel saman og myntan gefur líka léttleika og ferskan blæ í þetta allt saman.
Ég mun pottþétt gera sér færslu hér innan skamms bara með uppskrift af sænskri súkkulaðikladdköku með chili súkkulaðikremi og svo þessari pörun. Þessi eftirréttur er svakalega þungur en gefandi, mér datt í hug að prófa tvo bjóra með. Mjög hefðbundið er að nota stout, portereða imperial stout með súkkulaðieftirréttum. Hér er það tengingin við kaffið sem er augljós enda oft hægt að finna kaffitóna og súkkulaði í þessum bjórum. Humlarnir gefa svo beiskjuna sem létta dálítið á þunganum. Ég bauð því uppá Garúnu frá Borg. Þetta er svakalega flottur bjór, rótsterkur og mikill með ögn sætu en þó vegur beiskjan þyngra og svo áberandi kaffiristin, jafnvel ögn lakkrís og súkkulaði. Þetta er bjór fyrir þróttmikið fólk með sterka palletu. Bjórinn gengur einn og sér sem eftirréttur ef út í það er farið. Þessi pörun var skemmtileg, kaffið og súkkulaðið tengdu vel við og beiskjan opnaði vel upp þunga kökuna. Beiskjan dró líka mikið upp chili hitann í kreminu sem var mjög skemmtilegt því ef eitthvað er hefði mátt vera meira chili í kökunni að mínu mati.
Það sem sló hins vegar öll met var Blágosi frá Microbar & Brew(Gæðingi brugghús). Blágosi er ofsalega skemmtilegur súrbjóreða svo kallaður gosesem er þýsk ættaður súrbjór, Blágosi er í grunninn Skyrgosi ketilsýrður með skyri og bragðbættur með bláberum, heilum helling alveg. Bjórinn er ofsalega þægilegur með léttri sýru, ögn skyrkeim og svo ljómandi bláberjasýru. Mér datt í hug að tefla þessum bjór fram á móti þungri kökunni til að létta aðeins á öllu. Svo eru ber á borð við hindber, bláber og jarðaber alveg frábær með súkkulaðikökum yfirleitt. Gosið í bjórnum og sýran opnuðu allt upp á gátt gerði kökuna auðmeltari og skópu pláss fyrir næsta bita, berin tvinnuðust dásamlega saman við súkkulaðið og sýran skapaði skemmtilegar andstæður við chili brunann. Þetta var alveg mögnuð pörun og mun ég klárlega hafa þetta í mínum veislum þegar ég vil slá í gegn.
Við elskum BrewDog Reykjavík, það hefur ekki farið framhjá lesendum síðunnar en þessi staður er alveg eins og sniðinn fyrir okkur hér á Bjór & Matur. Hellingur af gæðabjór og dásamlegur matseðill til að leika sér með. Til þessa er allt gott sem við höfum smakkað þarna. M.a. er djúpsteikta sterka BBQ blómkálið og við erum sko ekki ein um þá skoðun hér því ég hef heyrt marga tala um þetta salgæti!
Það er gott að bregða sér á bæ stundum og kíkja í down town RVK á BrewDog til Þossa, Hjörvars og félaga en stundum vill maður bara vera heima og hafa það náðugt. Þá er gott að geta tekið smá BrewDog með sér heim ekki satt? Hér er tilraun okkar til að líkja eftir djúpsteikta blómkálinu þeirra og hún tókst bara svona helvíti vel. Það skal tekið fram að þessi uppskrift er ekki frá BrewDog RVK heldur reyni ég að líkja eftir þessu. Það er líklega hernaðarleyndarmál hvað er í BBQ sósunni þeirra!
Það sem þarf (ca f 4)
1 Blómkálhaus, brotinn í hæfilega stóra bita (sem ykkur finnst fallegt)
Vorlaukur, smátt skorinn til skrauts
mais mjöl, nóg til að velta bitunum uppúr
2 egg
2,5 L steikingarolía
Bjór sem passar á móti smá bruna, t.d. hveitibjór eða humlaður lager.
fyrir sterku BBQ sósuna
2 flöskur góð BBQ sósa, þessi er geggjuð Triple Crown Black Garlic (fékk í Krónunni)
4 tsk Sriracha sósa, fer samt eftir smekk
3 msk hlynsíróp
1 tsk heit reykt paprika (má sleppa)
fyrir gráðostasósuna
1/2 blámygluostur
1/2 dós sýrður rjómi
2 hvítlauksgeirar (pressaðir)
2 msk majones light
salt og pipar eftir smekk
Aðferð
Fínt er að byrja á gráðaostasósunni og hafa hana í kæli meðan hitt er græjað. Takið fram töfrastaf eða góða matvinnsluvél og mauka saman 1/2 blámygluost, 1/2 dós sýrðan rjóma, 2 pressaðir hvítlauksgeirar og 2 msk majones. Smakkið svo til með salti og pipar. Setjið í skál inn í kæli.
.
Næst er það BBQ sósa,. hér er það bara að blanda saman rétt. Hellið tveim flöskum af BBQ sósu í skál, bætið svo við 4 tsk Sriracha sósu, 3 msk hlynsírópi og 1 tsk reykt papríka. Smakkið þetta svo bara til og bætið í því sem á vantar, t.d. ögn meira Sriracha eða kannski smá síróp ef þarf? Þetta þarf bara að vera gott og verður að rífa vel í.
.
Skerið svo blómkálið í hæfilega bita, og gufusjóðið í smá stund. Ekki þannig að verði mauk soðið. Ég vil hafa smá bit í þessu þannig að ég sauð þetta ekki eins lengi og maður myndi gera venjulega. Svo er bara að píska 2 egg í skál og velta blómkálinu upp úr þeim. Svo er bitunum velt uppúr mais mjöli, passa að hylja bitana vel.
.
Setjið steikingarolíu í pott, hitið upp í 190 gráður. Setjið svo blómkálið varlega í olíuna og steikið þar til orðið fallega gyllt. Þetta eru svona 3-4 mín. Þegar allir bitarnir eru klárir er fínt að henda BBQ sósunni aðeins í örbylgjuna til að hita upp og svo er bara að löðra þessu á bitana og bera fram. Skreytið með vorlauk.
Pörunin
Þetta er geggjað, hugsað sem smáréttur en við hjónin vorum pakksödd eftir þetta. Bitarnir eru djúsí með ögn stökka áferð og gríðarlega bragðmiklir. Sósan rífur vel í en hér kemur gráðaostasósan skemmtilega út sem mótspil við brunanum. Feitur osturinn tengir svakalega vel við BBQ sósuna og pakkar henni dálítið inn. Rétturinn er mjög djúsí með mikilli mýkt og dálítið feitri áferð í heild sinni. Það þarf því bjór með þessu, engin spurning. Bjórinn má alls ekki vera stór og þungur eins og imperial stout eða barley wine. DIPAer líka of öflugur hér. Við þurfum bjór sem vinnur vel á móti fitunni og þolir öll kryddin. Humlaður lagerer flottur í verkið en hér notuðum við samt humlaðan hveitibjór,María frá Borg sem gengur líka mjög vel. Beiskjan frá humlunum skefur fitunskánina af gómbogum og kolsýran í bjórnum skapar einhvern veginn kærkomið pláss í maga. Humlarnir tengja við chili-ið í réttnum og í raun draga fram aðeins meiri bruna, sama á við um bjórinn sem verður aðeins meira beiskari, hins vegar kemur hveitimaltið hér svakalega vel út og pakkar öllu inn þannig að tungan logar ekki eftir hvern bita. Maður verður dálítið þyrstur þegar maður borðar svona salt og heitt en hveitibjór er afar svalandi drykkur og auðvelt að þamba mikið af honum. Þetta gengur bara allt upp.
Okkur Sigrúnu var boðið í mat fyrir nokkru síðan til vina okkar Hafdísi og Magga sem töfruðu fram dásamlega veislu bæði fyrir bragðlauka og augað. Í forrétt voru þau með djúpsteiktan brie ost með heimagerðu ferskju chutney og svo auðvitað borið fram með mjög vel völdum saison. Maggi og Hafdís voru með Leif frá Borg þetta kvöld, hann alveg small við þetta.
Við vorum að fá okkur djúpsteikingarpott í dag og ég ákvað því að vígja hann með því að taka Magga og Hafdísi á þetta og henda í þessa uppskrift. Ég veit í raun ekkert hvaðan hún er komin ég ég fékk hana beint frá Magga. Mig langaði svo að prófa annan mjög flottan saison með að þessu sinni, Skaða frá Ölvisholt brugghús en þessi saison er virkilega fínn, hann er nokkuð beiskari og þróttmeiri en Leifur og þolir þannig öflugari rétti.
Það sem þið þurfið í þetta (sem forréttur fyrir 4):
2 brie ostahringir, skorið í 1/8 bita
3 egg, pískuð
2 bolllar hveiti
2 bollar panko brauðrasp
2 msk ferskt rósmarín fínt saxað
um 2,5 L djúpsteikingarolía (fer eftir potti)
Saison bjór, t.d. Leifur frá Borg eða Skaði frá Ölvisholti
fyrir ferskju maukið
1 dós niðursoðnar ferskjur, 470 g (þetta er vel ríflegt)
2 msk epla edik eða hvítvíns edik
2 msk sykur
1 tsk kúmen fræ
1 msk sinnep
Aðferð
Skerið brie ostinn í 8 bita, setjið hveti í skál, 3 egg í aðra skál og pískið til og í 3. skálina setjið þið 2 bolla panko brauðrasp. Skerið rósmarín smátt og hrærið saman við brauðraspið. Allt í lagi að pipra dálítið líka.
.
veltið svo ostabitunum upp úr hveiti, dustið létt, svo veltið þið uppúr eggjunum og loks hyljið þið hvern bita vel með brauðraspinu og látið svo standa á grind. Gerið þetta við alla bitana. Svo kemur hér smá trikk, skv uppskrift er þetta svona en þegar ég gerði þetta fyrst fyrir nokkrum vikum síðan þá láku margir bitarnir í steikingunni og voru bara tómir þegar kom að því að borða þá. Ég prófaði núna að heylja þá með tvöföldu lagi núna og þá lak ekki einn einasti. Sem sagt hver biti fer seinni umferð í gegnum hveiti, egg og loks aftur brauðrasp.
.
Látið standa í kæli í 10 mín.
.
Hellið olíu í pott, best að hafa djúpsteikingarpott sem heldur hitastiginu jöfnu en venjulegur pottur gengur alveg en þá þarf hitamæli. Hitinn á að vera svona 170 gráður.
.
Þegar olían er orðin heit steikið þið 3-4 bita í senn í um 4-5 mín eða þar til orðið fallega gullbrúnt að lit. Leggið svo til hliðar á grind.
.
Það er gott að byrja á ferskju maukinu á meðan osturinn kólnar í kælinum og olian er að hitna. Sem sagt eftir skref 3 hér að ofan. Allt sett í lítinn pott, 1 dós af ferskjum (safinn með), 2 msk epla edik, 2 msk sykur, 1 tsk kúmen og 1 msk sinnep. Látið suðu koma upp og maukið ferskjurnar, lækkið svo hitann og hrærið vel saman reglulega. Látið malla þar til þetta er orðið maukað og þykkt eins og marmelaði.
Pörunin
Berið þetta fram sem forrétt eða sem snarl á síðkvöldi með góðum bjór. Fínt að bera þetta fljótlega fram eftir að steikingu er lokið, þ.e.a.s þannig að osturinn sé enn bráðinn að innan. Þá er þetta dásamlega stökkt að utan og svo vellur mjúkur osturinn út þegar maður opnar þetta. Ferskju maukið gefur þessu skemmtilegan blæ, það er sæta frá ferskjunum en sýran jafnar þetta út og svo er kúmen keimurinn áberandi og spennandi. Þetta breytir alveg ostabitunum og tvinnar allt saman í flotta heild. Saison er mildur oftast en þó nægilega þróttmikill til að ráða við þetta. Það er nokkuð sæta í bjórnum sem vinnur vel með ferskju maukinu en svo gefur gerið af sér ögn jörð og sveit sem á svo vel við brie osta. Þetta gerir mjög áhugaverða blöndu, sérstaklega þegar kúmenið frá maukinu kemur saman við þetta. Frábær tenging. Loks er Skaði þægilega beittur með brakandi humlum sem eru svo mikilvægir í svona mat þar sem mikið er um fitu. Beiskjan klippir á fituna og gerir allt aðgengilegra, humlabitið tengir líka vel við stökku áferðina utna um ostabitana.
Þetta var virkilega flott pörun, og steikingarpotturinn svínvirkaði. Ég hef hingað til verið að gera þetta í venjulegum potti en þá hefur verið vesin að ná matnum uppúr og hitinn sveiflast mikið og ég hef lent í að steikja of mikið og mikil bræla. Í kvöld var þetta bara ekkert vandamál, nánast engin bræla og hver biti gullfallegur og fullkomlega djúpsteiktur. Mæli með þessu.
Hvað er saison?
Saison er orðinn mjög vinsæll á Íslandi enda stórskemmtilegur bjór sem er „örðuvísi“ ef maður miðar við lagerinn en ekki sérlega krefjandi stíll. Saison kemur upphaflega frá hinum frönsku mælandi hluta Belgíu, eða Vallóníu og var áður bruggaður í litlum sveitabrugghúsum eða sveitabæjum yfir kaldari haustmánuði ársins. Bjórinn var ætlaður sem svalandi drykkur yfir sumarmánuðina og gjarnan notaður til að fagna uppskerunni á bæjunum og er það líklega þaðan sem viðurnefnið „sveitabjór“ er komið. Bjórinn átti að vera svalandi og þægilegur en varð þó að vera nægilega sterkur til að lifa sumarmánuðina af. Saison stíllinn er gjarnan með áfengisprósentu í hærri kantinum 5-6.5% án þess þó að vera of sterkur, hann er gulur eða orange að lit með flottan froðuhaus og vel kolsýrður og spriklandi. Humlar koma við sögu og gefa notalega beiskju og stundum er hann þurrhumlaður til að gæða hann meiri angann. Bjórinn er oftast dálítið sýrður og þurr á tungu og kryddaðir tónar áberandi.
Ég sá þetta á instagram um daginn, þ.e.a.s menn voru að para scotch egg við american pale ale. Ég heillaðist af frábærum myndum af eggjunum. Ég hef svo sem aldrei spáð í það hvað Skota egg eru en nú veit ég það. Ég ákvað að prófa því þetta hljómaði bara ansi blátt áfram í rauninni en ég komst að því að þetta er dálítið dútl og vesen. Venjulega tala ég um hvað einfalt er að gera þessar uppskriftir sem ég tek fyrir hér en nú verð ég að viðurkenna að þetta er bara ansi snúið. En gott er það og pörunin frábær.
Það sem þarf í þetta (fyrir 2):
2 egg, linsoðin
1 egg, hrært
2 msk mjólk
4 msk Gölli IPA eða álíka bjór
400g ca nautahakk
400g ca svínahakk
graslaukur, smátt skorinn
steinselja, smátt skorin
timían ca tvær greinar
salt og pipar
1 bolli Panko brauðrasp
1/2 bolli hveiti
1,5 L djúpsteikingarolía
Bjórinn:
Hér viljum við dálítið humlaðan/beiskan bjór sem getur borað sig í gegnum fituna í matnum og opnar allt upp. Bjórinn þarf líka að tóna vel við áferð og bragð í matnum. Hér er ekkert annað en American Pale Ale (APA) eða India Pale Ale (IPA) sem kemur til greina. Ég valdi Gölla IPA frá Brothers Brewery en þetta er stórfínn IPA með áberandi maltkeim. Það má vel vera einhver annar IPA eða APA samt.
Aðferð
Ok ég sagði í upphafi að þetta væri ekki einfalt. Fyrir mér hljómaði þetta samt afar einfalt og það gerir það svo sem en svo eru nokkur atriði sem alla vega vöfðust fyrir mér. Við borðuðum kl 21:00 þetta kvöld!
fyrst þarf að sjóða eggin, gerið það sem þið eruð vön til að fá linsoðin egg, t.d. egg sett varlega í pott með köldu vatni, látið suðu koma upp og sjóðið í um 5 mín. Takið svo eggin varlega upp og látið í ísbað til að stöðva eldunina. Ég myndi gera eitt auka egg, svona tester!
.
Saxið ferska kryddið í smátt, blandið því svo við nauta og svínahakkið t.d. í hrærivél. Saltið og piprið þetta líka. Hér má alveg leika sér með krydd, sumir nota Worcestershire sósu eða álíka til að fá meira bragð. Svo setjið þið bjórinn í, 5msk eða svo og hnoðið allt saman. Plastfilma yfir og svo látið stífna aðeins í ískáp.
.
Hingað til nokkuð einfalt ekki satt? Svo kemur að því að ná bévítans skurninum af eggjunum, þetta er snúið, linsoðin ekki vilja detta í sundur og eða hvítan fer bara með skurninum. Hvernig sem þið gerið þetta þá er þetta líklega mesta dútlið. (ég var með 6 egg og því ansi lengi, sem skýrir kannski afhverju við borðuðum seint.
.
Nú er að koma kjötinu utan um eggin. Setjið matarfilmu á borð og takið kjötklessu og setjið á filmuna. Fletjið út með puttunum og myndið disk sem er töluvert stærri en eggið þegar það liggur í miðjunni. Ca 5 cm í allar áttir. Lokið svo varlega filmunni með kjötinu í utan um eggið þannig að það þeki eggið alveg. Fínt að vinda upp á báða endana á filmunni en þannig herðist utan um kjötið og eggið. Gerið þetta við öll 3 eggin og látið svo standa í 10 mín í ískáp til að stífna.
.
Náði í tvo diska og eina skál eða eldfast mót eða álíka til að píska saman egg og 2 msk mjólk. Setjið hveiti á fyrsta diskinn, eggjamjólkina í skálina og á 3. diskinn panko brauðrasp.
.
Setjið olíu (td vegetable oil) í pott eða djúpsteikingarpott og hitið upp. Olían á að ná 176 gráðum. Hér byrjaði ég að lenda í vandræðum, ég er bara með venjulegan pott og engan mæli þannig að ég vissi ekkert hver hitinn var. Ég veit þó núna að ég var með of mikinn hita því brauðraspið var fljótt mjög dökkt og nánast brennt en kjötið óeldað. Svo lækkaði ég hitann og beið þar til olían var orðin töluvert kaldari og þá gekk þetta betur. Skv uppskrift á að djúpsteikja þetta í 7-8 mín við 176 gráður og líklega best að fara eftir því. T.d. fínt að prófa testerinn og sjá hvort vanti uppá steikinguna eða hvort það sé of mikið (eggið harðsoðið).
.
Alla vega, veltið eggjunum upp úr hveiti, svo eggjamjólk og loks brauðraspinu og djúpsteikið svo varlega.
Pörunin
Það er virkilega flott að kljúfa eggin í tvent og bera þannig fram með sinnepi (ég notaði hunangs Dijon sinnep) og steiktan lauk eða bara eitthvað sem ykkur finnst passa. Klettasallat kemur líka mjög vel út með þessu. Svo er það IPAeða APA. Þessir bjórstílar eru beittir og öflugir og ráða vel við þennan rétt. Humlabitið klýfur fituna og opnar upp réttinn og kolsýran skefur góminn og gerir klárt fyrir næsta bita. Karamellumaltið tengir fullkomlega við djúpsteikta brauðraspið og virkar nánast eins og eðlilegt framhald af því í munni. Svo er þessi stíll dálítið stökkur ef svo má segja, beiskur og hvass sem passar vel við stökka brauðhjúpinn á kjötinu. Mér fannst beiskjan koma skemmtilega út sem andsvar við eggjarauðunni og tvinnaði andstæður saman á einhvern hátt. Þetta er alveg mögnuð pörun og Gölli frá þeim bræðrum í Eyjum er frábær í þetta.
Það kom loksins að því að við nafnarnir Ragnar Freyr (Bjór & Matur) og Ragnar Freyr (Læknirinn í Eldhúsinu) blésum til veislu. Annar er klárari en hinn í sumu en hinn í öðru, eitt er þó víst að kollegi minn, góður vinur og algjörlega sturlaður kokkur, Læknirinn í Eldhúsinu, Ragnar Freyr Ingvarsson er mörgum skörum ofar en undirritaður í matargerð. Við höfum hins vegar báðir brennandi áhuga á mat og með því og ég vil meina að ég hafi amk bjórspekina á hann félaga minn í eldhúsinu ef ekki annað. Við höfum oft rætt það að leiða saman hesta okkar og leika okkur með að para mat og bjór og loksins er komið að því. Hér er afraksturinn, ég verð að segja að þetta kom gríðarlega vel út og var ákaflega gaman því við fengum til okkar góða vini til að njóta með okkur.
Lesa má nánar um uppskriftir og aðferðir hér á Læknirinn í Eldhúsinu en ég mun svona taka léttu yfirferðina og kafa meira í bjórinn. Við nafnarnir erum báðir hrifnir af
bjórnum frá Borgog því var borðleggjandi að nota bjór frá þessu frábæra brugghúsi við pörunina að þessu sinni. Þetta var virkilega skemmtilegur dagur en við félagarnir byrjuðum daginn snemma í eldhúsi meistarans. Þetta var þrírétta máltíð fyrir 6 fullorðna og 2 börn og mikið sem þurfti að gera en ég held að ef maður er skipulagður og byrjar daginn snemma að þá geti maður vel eldað þetta einn. Svo er alltaf gott að muna að þetta á að vera gaman, settu eitthvað gott í glas og ljúft á fóninn og eigðu góða stund í eldhúsinu með sjálfum þér, ja eða góðum vinum.
Innkaupalistinn fyrir kvöldið:
Fyrir sushi forrétt
sushi grjón, einn poki
sushi edik 1 flaska
nori blöð 2 pakkar
lax, lítill biti
humarhalar, 5-6 litlir halar
avocado, 1 stk, skorið í þunnar sneiðar
gúrka, 1 stk, flysjuð og skorin í lengjur
gulrætur, skornar í lengjur
stökkt laxaroð (roðið af laxinum steik í olíu þangað til að það er stökkt eins og kex)
wasabi majones eftir þörfum (búið það til sjálf)
pæklað engifer, 1 krukka
Kikkoman Soyasósa, 1 flaska
Tempura deig
hveiti, 1 bolli
sykur, 1 msk
maísmjöl, 1 msk
salt, 1 tsk
lyftiduft, 1 tsk
kolsýrt vatn 1,5 bolli ( bætið við eftir þörfum, deigið á að vera dálítið eins og lím að þykkt)
Fyrir Bao Bun (fyrir ca 6-8)
þurrger, 3 tsk
vatn, 1,5 bollar, hitað í 20-25 gráður
hveiti, 5 bollar
sykur, 4 msk
lyftiduft, 4 tsk
matarolía 4 msk og svo um tvær til að smyrja skálina
Fyrir hægeldaða grísasíðuna (við vorum 6)
grísasíða, 2 tsk (t.d. úr Krónunni)
stjörnuanis, 2 stk
ferskur Chili, 1 stk niðurskorinn
rauðlaukur, 1 stk, skorinn í grófa bita
kulrætur, 3 stk eða svo, skornar í grófa bita
kanilstangir, 2 stk
Kikkoman Soya sósa, 4 msk
hlynsýróp, 4 msk eða aðeins meira
Garún 19.3, rúmlega ein og hálf flaska ( í soð og sósu)
smjör, ca 100g
hunang, ca 1 dl
Fyrir ribeye nautasteikina (við vorum 6)
ribeye nautasteikur 3 stk
júmfrúarolía, 3msk
Kikkoman Soya sósa, 3msk
límóna, 1 stk
ferskur Chili, 1 stk
engifer, um 5 cm
hvítlauskgeirar, 2 stk
Fyrir pæklað meðlæti
epli, 1 stk
pera, 1 stk
rauðkál
engifer, raspað niður, ca 5 cm
hvítvínsedik
rauðvínsedik
sykur og salt og smá pipar
ferskur rauður chili, 1 stk
rauðlaukur, 1 stk skorinn í ræmur
Fyrir bestu súkkulaðimús í heimi (fyrir 6+)
sykurpúðar, 150g
smjör, 50g
dökkt súkkulaði 250g (fínt að hafa 125g 70% og rest eitthvað gott dökkt súkkulaði)
heitt vatn, 60ml
þeyttur rjómi, 280ml
vanilludropar, 1 tsk
Hindberja mauk
frosin hindber, 300g
sykur, 1/2 bolli
súrbjór eða sitrónusafi, 2 msk
nýmulinn pipar, 1/2 tsk, má sleppa.
Bjórinn
Skoffín Nr C16 í fordrykk – skemmtilegur léttur og frískandi frá Borg
Esja Nr 60 – frábær wild ale frá Borg. (nánar hér)
Barabbas Nr 57 frá Borg, eða einhver annar belgískur Dubbel, (nánar hér)
Garún Nr 19.3 frá Borg í soð og sósu, má alveg vera bara Garún Nr 19 eða t.d. Nykurfrá Borg svo lengi sem um ræðir öflugan imperial stout, helst tunnuþroskaður.
Skyrjarmur Nr 59, frá Borg (jólabjórinn 2018), svakalega skemmtilegur bláberja súrbjór með efittréttinum. (nánar hér)
Surtur Nr 8.2 frá Borg. Geggjaður tunnuþroskaður imperial stout sem „nicht cap“ eftir þetta allt saman, eða með eftirréttinum í stað Skyrjarms.
Aðferðin
Ok við Ragnar vorum tveir í þessu og það tók okkur dálítinn tíma að græja þetta, kannski líka af því að við vorum að masa dálítið og skrattast í Snædísi konu hans, svo bættist Maggi vinur okkar í hópinn um kvöldið og aðstoðaði okkur við eitt og annað á meðan dömurnar skelltu sér í pottinn. Það er samt alveg hægt að gera þessa máltíð einn, maður þarf bara að skipuleggja sig vel. Byrja á því sem tekur tíma að lyfta sér/ eldast eða stífna . Bao Bun þarf t.d. að lyfta sér í klst og svo aftur í um 60 mín. Sushi grjónin þurfa að standa líka í um klst fyrir suðu. Svo er auðvitað grísinn sem kúrir í ofni í einhverja tíma. Súkkulaðimúsin þarf að stífna í tvo tíma ca þannig að gott er að hafa þetta í huga.
Ég held að það þurfi að byrja svona um hádegi ef boðið er um kvöldið sama dag. Þar sem við vorum tveir gátum við skipt milli okkar verkum og settum grís og naut af stað á sama tíma og bao brauðin og sushi grjónin. Svo komu gestirnir þegar við vorum komnir vel af stað. Við sendum dömurnar í pottinn með Skoffín Nr C16 frá Borg í fordrykk. Maggi fékk líka Skoffín á meðan við létum hann rúlla nokkrum sushi lengjum upp. Skoffín er þægilegur og léttur, 3.8% blanda af Snorrafrá borg og kombucha sem er eins konar te af Mansjúríusveppnum sem var vinsæll hér heima fyrir áratugum síðan. Þessi blanda verður skemmtileg og létt með hressandi kolsýru. Maður finnur nokkra sætu í bland við te og svo gerkrydd og jurtir frá bjórnum. Mjög næs að byrja kvöldið á svona léttmeti.
Ferskt og djúpsteikt sushi með lax, humar og stökku laxaroði.
Sushi gerð er mun einfaldari en maður heldur, ég hef gert þetta mörgum sinnum. Það eru til nokkrar aðferðir við að undirbúa grjónin, hér er sú sem ég nota. Reikna má með ca 2 klst í heildina fyrir þetta. Þegar grjónin eru klár er þeim dreift yfir nori blöðin og svo raðar maður fyllingunni á. Í eina rúllu settum við wasabe-majones, lax, steikt laxaroð, gulrætur og pæklaðan engifer. Í hina wasabe-majones, humar, gulrætur og avokadó.
Þessu er svo rúllað upp á bambus mottu og svo skorið í hæfilega maki bita.
Svo er það tempur deigið, fljótlegt að gera, passa bara að hafa ekki of þunnt. Bæta hveiti eða nota minna vatn ef eins og mjólk.
Hveiti, 1 bolli
Sykur, 1 msk
Maísmjöl, 1 msk
Salt, 1 tsk
Lyftiduft, 1 tsk
Kolsýrt vatn 1,5 bolli ( bætið við eftir þörfum, deigið á að vera dálítið eins og lím að þykkt)
Hluti af maki bitunum var svo velt upp úr deiginu og djúpsteikt í olíu þar til orðið fallega gyllt að utan. Afgangs humarhalar fóru sömu leið.
Svo er þessu raðað fallega á disk með wasapi, pækluðum engifer og soyasósu.
Langelduð grísasíða með beini og dásamlegri Garún sósa
Sennilega er best að koma kjötinu af stað áður en allt hitt er gert því svo kúrir það bara í ofni á meðan við græjum rest og fyllir eldhúsið að dásamlegum kryddilm. Hér má lesa nánar aðferðina en í raun er þetta sára einfallt. Grísasíðan er bara sett í eldfast mót sem hægt er að loka. Svo hellum við amk einni flösku af Garún 19.3eða sambærilegum bjór yfir. Hér er allt í lagi að fá sér einn sopa, þessi bjór er svo svakalegur. Svo eru það gróft skornar gulrætur (ca 3), rauðlaukur (1 stk), 2 stk stjörnuanis, 2 kanilstangir og ferskur chili (rauður). Svo hellir maður yfir þetta um 4 msk hlynsýróp og 4msk Kikkoman Soya sósu. Lok yfir og svo inn í ofn við 155 gráður í amk 3-4 klst. Ragnar notaði samt líka einhver piparkorn í þetta, svartan pipar og rauðan!
Takið svo síðurnar upp og setjið á bretti, skerið puruna af og hendið í ofn við 220 – 250 gráður þar til hún verður stökk. Passið að brenna ekki. Skerið svo af beininu og leggið í eldfast mót og pennslið smá soði yfir og grillið á blússandi grilli eða ofni í eina til tvær mínotur. Lokst er grísasíðan sneidd í þunnar sneiðar og látið standa undir álpappír á meðan annað er undirbúið.
Dásamleg Garún niðursoðin sósa
Ekki henda soðinu í kringum grísinn. Sigtið þetta í pott, pressið líka vel öllu gumsinu í gegnum sigtið ofan í pottinn. Svo vel rúmlega hálf flaska af Garúnu 19.3. Setjið svo á suðu og látið sjóða dálítið niður ca um helming þar til orðið þykkt, hrærið reglulega í. Lækkið svo hita og bætið helling af hunangi út í, ca 1 dl svo er þetta bara látið malla í amk klst eða tvær. Undir lokin er um 100g af smjöri bætt útí og látið malla aðeins lengur. Sósan á að verða hnausþykk og glansandi eins og sýróp. Ef hún er of sölt/beisk, þá bætið þið meira hunangi út í. Þessi sósa var rugl góð og gríðarlega bragðmikil. Við nafnar fengum feitt prik fyrir þessa sósu þetta kvöld.
Grilluð nauta ribeye
Þetta er tekið beint af síðu Læknisins í Eldhúsinu. „Lagði steikurnar í skál, nuddaði með jómfrúarolíu, soya og lime safa. Blandaði hvítlauk, engifer og chilli saman við ásamt smáræði af niðurskorinni steinselju. Fékk svo að marinerast í nokkrar klukkustundir á meðan við undirbjuggum meðlæti og annað sem er að finna í þessari færslu. “ Grillið svo á pönnu í þrjár mínútúr á hvorri hlið, má líka grilla úti á grillinu ef veður er gott. Sneiðið svo í þunnar sneiðar og sáldrið ferskri streinselju yfir áður en það er borið fram.
„Við gerðum þrjár tegundir af pækluðu meðlæti. Skar niður smáræði af rauðkáli, raspaði fimm cm af engifer saman við og huldi með hvítvínsediki. Bragðbætti með einni matskeið af sykri og salti. Smá pipar.
Skar svo niður eitt grænt epli og eina peru og huldi með hvítvínsediki. Bætti svo hálfum rauðum chilli saman við og bragðbætti með einni matskeið af sykri og salti.
Svo var það rauðlaukurinn. Einn rauðlaukur skorinn í þunnar sneiðar, huldi með hvítvínsediki, bragðbætti með einni matskeið af sykri og salti. Smá pipar.
Allt þetta lét ég standa út á borði í nokkrar klukkustundir á meðan við undirbjuggum allt annað sem er að finna í þessari færslu.
Auk þess að vera með pæklað meðlæti vorum við einnig með ferska næfurþunnt skorna agúrku, papríku og ferskan kóríander (fyrir þá sem eru ekki með ofnæmi). „
Gufusoðið Bao brauð
Setjið vatn 1.5 bollar í skál, hitið í um 22-25 gráður og látið gerið útí (3 tsk) og hrærið létt. Látið standa aðeins, ca 1-2 mín. Bætið svo 4msk matarolíu saman við og hrærið aftur og látið svo standa.
Setjið 4msk sykur, 5 bolla hveiti og 4 tsk lyftiduft í skál fyrir hrærivél og blandið létt. Notið hnoðara hausinn og blandið á meðan þið hellið gervatninu yfir rólega. Aukið svo hraðan og látið vélina hnoða deigið þar til það er komið saman í kúlu. Hnoðið svo restar saman við og hnoðið deigið, það á ekki að vera klístrað þannig að það festist við borið. Bætið þá ögn hveiti og hnoðið ef þannig er.
Pennslið svo skál með restinni af olíunni, setjið deigið í, plastfilmu yfir og látið standa á ekki of köldum stað í amk klst.
Þegar deigið er orðið tvöfalt er það hoðað létt saman og mynduð lengja. Deigið á að vera létt og dúnamjúkt hérna. Skerið svo lengjuna í hæfilega bita ca 25 stk. Prófið t.d. einn bita fyrst, fletjið hann út í disk í lóanum, rétt rúmlega lóastór og um 2-3mm þykk. Notið svo kökukefli til að fletja út áboði. Þetta gerið þið við alla bitana. Pennslið helminginn með olíu og lokið þannið að það myndast hálfmáni. Setjið á bökunarpappírsbúta, einn hálfmáni á hvern bút og látið svo lyfta sér í 60 mín eða svo undir þurru viskustykki.
Svo er bara að gufusjóða í um 7 mín. Þetta er best gert í bambus gufugræju yfir wokpönnu með vatni í, passið að láta ekki vatnið ná upp í gufugrindina.
Besta súkkulaðimús í heimi
Ég hef skrifað um þessa frábæru súkkulaðimús áður og vísa ég því bara í þá færslumína hér. Þetta virkar alltaf, ég meina hver elskar ekki súkkulaði. Reyndar settum við smá romm í þetta að þessu sinni bara til að ná aðeins spennu í þetta. Munið bara að músin þarf að stífna í ískáp í ca 2 klst. Svo þarf hindberjagumsið líka aðeins að kólna. Passið að nota bara örlítið af hindberjagumsinu ofan á músina. Þetta á að vera örþunnt lag.
Pörunin
Dúpsteikt og hefðbundið humar og laxa sushi með Esju Wild Ale frá Borg.
Það var virkilega gaman að elda í eldhúsi Læknisins í Eldhúsinu en það er í raun fullbúið professional eldhús. Svo er aldrei leiðinlegt að vera nálægt nafna mínum Ragnari Frey svo mikið er víst, hress karl með gríðarlega nærveru. En ef við byrjum á sushi forréttinum þá kom hann svakalvega vel út svona djúpsteiktur í tempura deigi, bæði humarinn og laxinn elduðust í gegn og fengu á sig rjómakennda áferð með hrísgrjónunum og grænmetinu. Þannig bítur maður í gegnum stökkt tempuradeigið og lendir svo í mjúku innihaldinu. Grjónin pakka fiskinum vel inn sem nýtur sín til fulls og svo kemur ögn bruni í bakgrunni frá wasabi majonesinu. Þetta toppar maður svo með söltu soyja sósunni. Bjórinn með þessu þarf að geta ráðið við allt án þess að skemma það. Esja Nr 60er frábær bjór sem ég hef áður fjallað um, reyndar einstakur bjór í íslenskri bjórsögu ef út í það er farið. Bjórinn, sem er af gerðinni wild ale, er dálítið kolsýrður sem er mjög gott með þessu því kolsýran skefur skánina af gómnum sem myndast af sætum grjónunum og tempura deiginu. Það er létt sýra í bjórnum, eða kannski meira hinn einkennandi funky keimur sem tónar vel við fiskinn og svo er það þessi dásamlega eik sem kemur vel fram í bjórnum. Eikarkeimurinn á rosalega vel við djúpsteiktu bitana sérstaklega. Þetta var frábær pörun sem ég mun án efa endurtaka á meðan Esja fæst í vínbúðum.
Hægelduð grísasíða og grillað nautaribeye í gufusoðnu Bao brauði með Barabbas Nr 57 frá Borg.
Við vorum með alls konar til að fylla bao brauðin, annars vegar hægeldaða grísasíðu og svo grillað nautaribeye. Ofan á þessi prótein vorum við svo með þrenns konar piklað, piklaðan rauðlauk, piklaðar perur og epli og piklað rauðkál með engifer en svona feitir réttir þurfa sýru til að opna allt upp á gátt og tóna niður fituna. Svo vorum við með stökka svínapuru sem við muldum niður til að gefa stökka áferð á móti dúnamjúku bao brauðinu og alla fituna. Svo er kóríander, já ég gæti haldið langan fyrirlestur um þessa jurt sem er ein af Guðs gjöfum til okkar mannanna, kóríander gerir allan mat og bara lífið sjálft svo ljúft. Ég mæli með því með bæði nauti og grís hér og ekki bara nokkur lauf heldur heila lúku. Svo er hægt að nota ýmsar sósur ss siracha sem alltaf er góð með svona „street food“, eða heimalagað chili majones en við vorum með vægast sagt sturlaða Garún sósu/sýróp með þessu. Þegar maður sýður svona sósu í 2 til 3 tíma með hunangi og svo smjöri gerist bara eitthvað undravert. Sósan er svo þykk, bragðmikil og rík, þar sem við finnum saltan soð-bakrunninn, stjörnuanis, kanil og svo ristuðu tónana og kaffið frá korninu í bjórnum í bland við karamelliserað hunangið. Allt þetta tvinnast svo saman í stórbrotna og flókna heild sem kemur fullkomlega á móti fitunni í kjötinu og öllu þessu súra pikklaða. Bjórinn hér með getur verið á nokkra vegu, við verðum samt að átta okkur á að hér er þróttmikill réttur á ferð með alls konar bragðflækjum og stigum. Bjórinn þarf að vera dálítið mikill en alls ekki of en hann getur ekki verið mildur og léttur því þá hverfur hann bara og við gætum allt eins verið í vatn.
Bjórinn sem ég valdi með þessu var páskabjórinn frá Borg frá síðasta ári (2018), sem sagt næstum árs gamall Barabbas, 7% belgískur dubbel af bestu sort. Bjórinn er virkilega góður matarbjór, mildur og mjúkur með fína sætu frá möltuðu bygginu og svo er þægileg kolsýran að gera heilmikið fyrir heildar upplifunina en belgískir bjórar eru gjarnan dálítið vel kolsýrðir. Sætan og karamellukeimurinn frá maltinu tengir vel við karamelliseringuna í kjötinu og sósunni og svo vegur sætan vel á móti beiskjunni og saltinu í sósunni og hitanum frá siracha. Það er líka mikil fita í þessu kjöti en kolsýran í bjórnum vinnur vel á henni og losar um hana af gómbogum og hreinsar palletuna og gerir hana klára fyrir næsta bita. Sýran frá piklaða grænmetinu er svo algjörlega nauðsynleg sem frábært mótvægi við salt, sætt og beiskt bæði í bjór og mat. Saman verður þetta alveg mögnuð upplifun.
Við vorum líka með Úlf Nr 3 frá Borg en það er spriklandi og hressandi IPAmeð beiskju og aðeins bit. IPA er ekki allra en hann er mjög flottur með feitum mat og kemur skemmtilega út á móti söltum eða sterkum mat. Humlarnir í bjórnum krydda réttinn en þeir eru líka góðir í að vinna á feitum sósunum og fitunni í kjötunu og klúfa upp á gátt og opna þannig réttinn. Einnig hreinsa humlarnir vel pallettuna á milli bita, þessi skán sem stundum myndast í gómu þegar við borðum feitmeti hverfur alveg eftir hvern sopa. Saltið og chiliið í matnum hins vegar vinnur á bjórnum og rífur aðeins upp beiskjubitið og gerir bjórinn dálítið grimmari en annars er.
Frábær súkkulaðimús með hindberjamauki og bláberja súrbjór, Skyrjarmi frá Borg.
Þessi mús er geggjuð og en þung. Maður ætti að láta sjatna vel áður en þetta er borið fram og hafa skammta litla. Hindberja hlaupið léttir á þessu samt en gæti orðið væmið ef notað er of mikið. Með sætum eftirréttum með súkkulaði er klassískt að para saman stout eða enn betra imperial stout, þetta virkar dálítið eins og vel þekkt combo, kaffi og eftirréttir nema er bara mun betra. Í kvöld var hins vegar ákveðið að fara í aðeins léttari bjór, stórkostlegan bjór reyndar, Skyrjarm Nr 59 sem var einn af jólabjórunum frá Borg þetta árið. Bjórunn er súr með helling af bláberjum og skyri. Þetta virkar eins of fullkomin dressing á efirréttinn og eftir á að hyggja hefði verið flott bara að sleppa hindberjagumsinu og láta bjórinn gera það sama fyrir réttinn. Sýran og sætan frá bláberjunum létta vel á þungu súkkulaðinu og tengir einnig við berin í hindberjahlaupinu, vá hvað þetta var gott.
Eftir svona stóra mikla máltíð eru sumir sem setjast í betri stofuna við arininn með koníak eða whisky en það er líka hægt að opna einn svakalegan 14.5% Surt Nr 8.2 sem er sætur imperial stout þroskaður á notuðum bourbon tunnum í nokkra mánuði. Bjórinn er svakalegur, þróttmikill og margslunginn með sætum maltkeim og ögn vanillu og svo kemur notaleg bourbon tunnan vel í gegn. Eftir einn svona þá er maður til í háttinn.
You must be logged in to post a comment.