Það geta held ég allir verið sammála því að súkkulaði er gott, sérstaklega ef það er vandað handverks súkkulaði eða craft súkkulaði eins og ég kalla það. Omnom er einmitt þekkt fyrir frumlegt og afar ljúffengt handgert súkkulaði. Fyrir mína parta þá er nánast allt sem ég hef smakkað frá þeim til þessa gott. Ég reyndar elska súkkulaði, er eiginlega fíkill og er því kannski ekki alveg hlutlaus en ég er reyndar líka mjög kröfuharður á súkkulaði sem kannski vegur upp á móti? Annað sem ég elska er auðvitað bjórinn og þegar kemur að honum þá stendur Borg brugghús mjög framarlega hér heima. Þeir eru endalaust að koma fram með eitthvað nýtt og spennandi sem oftast er hrein unun að renna niður. Það vita það kannski ekki margir en bjór gengur oft mjög vel við súkkulaði, það fer vissulega eftir bjórstíl og súkkulaðinu hverju sinni og maður þarf auðvitað aðeins að spá í hvað fer vel saman. Við hjá Bjór & Matur höfum oft leikið okkur með klassískar paranir á þessu sviði eins og t.d. dökkt mikið súkkulaði með bleksvörtum imperial stout, eða súkkulaði með ögn chilli parað við létt humlaðan amerískan porter. Hér mætti kannski hugsa sér að við værum að skipta kaffibollanum út fyrir kaffiristinni sem einkennir bæði porterninn og stoutinn. Humlarnir eru svo góðir móti chilli-inu, lyfta því aðeins upp og gera meira áberandi. Eins og alltaf þá er gaman að skoða áferð og þyngd ásamt bragðinu sjálfu og vinna ýmist með andstæður eða sameiginlega eiginleika og sjá hvað virkar best. Súrt með súru, létt á móti þungu, sætt með söltu og svo framvegis. Nú orðið er súkkulaði orðið svo fjölbreytt og margar braðgflækjur í gangi að það er endalaust hægt að leika sér með þessa hluti. Maður þarf því að skoða aðeins hvað maður er með í höndunum til að átta sig á hvernig bjór passar best við. Þetta á samt ekki að vera stressandi og flókið verkefni því maður á að hafa gaman að þessu og prófa sig áfram. Ég held að allir geta tekið undir það að það getur ekki verið slæmt að þurfa að prófa sig áfram með alls konar súkkulaði á móti alls konar bjór!
Fyrirtæki hér heima eru aðeins byrjuð að átta sig á hve magnað það er að sjá hvernig réttur bjór breytir mat og öfugt. Maður er farinn að sjá einn og einn viðburðinn skjóta upp kollinum undanfarin ár. Við Sigrún fórum á einn svona viðburð núna bara vikunni, þar sem snillingarnir hjá Omnom og meistarar bjórsins frá Borg brugghús leiddu saman hesta sína í stórfenglegri súkkulaði bjórpörun. Þetta var í senn mikil fræðsla um súkkulaðiplöntuna og gerð súkkulaðis sem og „mini“ bjórskóli og svo auðvitað tilraunir með paranirnar. Ég verð að segja að eftir þessa kvöldstund þá lít ég súkkulaði allt öðrum augum. Þetta er nánast eins og með bjórinn, það er hægt að búa til svo mikið af mismunandi bragðprófílum og áferð allt eftir hvaða súkkulaðibaunir eru valdar og hvernig gerjun og ristun er háttað og það er sko ekki sama hvort við erum að tala um fjöldaframleitt súkkulaði eða handgert eins og Omnom gerir það. Þetta er alveg magnað. Pörunin var líka stórksemmtileg, þeir Borgarmenn höfu gert eina pörun og Omnom fólkið aðra, sumt alveg frábært og eitthvað sem maður á klárlega eftir að leika sér með áfram.
Það voru fimm bjórar í boði þetta kvöld allir mismunandi á sinn hátt, Askasleikir amber ale, Brjánsi súröl, Giljagaur barley wine, Garún imperial stout og loks einn magnaðasti bjór brugghússins til þessa Hurðaskellir imperial porter tunnuþroskaður en þessi herramaður er fyrir alls löngu uppseldur hér heima. Á móti þessu var heill haugur af mismunandi súkkulaði sem maður gat leikið sér með og prófað. Ég ætla nú ekki að kafa í sauma á þessum bjórum hér eða súkkulaðinu sem slíku því það er efni í mjög langan og erfiðan pistil. Það voru samt nokkar paranir sem vert er að fjalla um og prófa heima.
Tökum fyrst Askasleikir, sem er frekar milt og einfalt amber öl, hér má súkkulaðið ekki vera það öflugt að bjórinn hverfi, við erum alltaf að reyna að skapa aðstæður þar sem bæði matur og drykkur hagnast á pöruninni. Mér fannst Milk and cookies súkkulaðið koma vel út því súkkulaðið er skemmtilega kryddað með alls konar jólalegum kryddum. Hér nær súkkulaðið að „spika“ bjórinn og gera hann bragðmeiri og jólalegri og bjórinn gefur svo súkkulaðinu karamellu sætu á móti. Annað súkkulaði sem kom mjög vel út var Spiced White + Caramel sem hefur ögn appelsínu og kanil og svo er það með áberandi karamellukeim. Hér ná humlar í bjórnum og appelsínan í súkkulaðinu vel saman. Þetta súkkulaði má eiginlega heita sigurvegari kvöldsins því það passaði við alla bjórana nánast en á mismunandi hátt hverju sinni. Frábært súkkulaði !!!
Ein áhugaverðasta pörun kvöldsins var hins vegar að mínu mati með Brjánsa. Bjórinn er töluvert súr en þó léttur og þægilegur. Alls ekki bjór fyrir alla en afhverju ætti hann svo sem að vera það? Hér er vel hægt að nota Spiced White + Caramel en það sem kom mér verulega á óvart var hversu magnað var að fara í Lakkrís + Sea Salt súkkulaðið. Hér eru það andstæður sem koma svona vel út, salt á móti súru, og þungt á móti léttu, algjörlega frábær pörun. Hér gæti bjórnördinn sagt að við værum að breyta Brjánsa súröl í gose sem er þýskur súrbjórsstíll með söltuðum bakgrunni en það er önnur saga. Annað súkkulaði sem kom mér í algjörlega opna skjöldu en kom stórkostlega vel út var Madagascar sem er 66% súkkulaði með áberandi sýrukeim. Nú erum við ekki með andstæður heldur samstæður, súrt með súru. Þetta small algjörlega, bjór og súkkulaði magna upp sýru hvors annars og svo er notalegur sætur bakgrunnur frá korninu í bjórnum og súkkulaðisætunni.
Giljagaur er mikill bjór en þó ekki of þungur og það er töluverð sæta og karamella í bragði. Mér finnst svo alltaf einhver appelsínukeimur þarna líka. Hér höfðu menn valið Milk of Madagascar með sem er nokkuð sætt og mjúkt og með ögn karamellu og sítrus. Fín tengin við bjórinn. Við Sigrún fórum hins vegar í Spiced White + Caramel sem algjörlega negldi þetta. Við erum með látlausan appelsínubörk í súkkulaðinu og áberandi karamellu sem passar jú vel við það sem við erum að upplifa í bjórnum, svo er þarna ögn bruni eins og chilli eða eitthvað sem kemur í veg fyrir allt of væmið combo. Þetta var eiginlega besta pörun kvöldsins að okkar mati takk fyrir!!!
Garún pörunin var mjög klassísk, við þurfum eiginlega ekki að ræða það í smáatriðum, en gerum það samt, það er svo gaman. Hér komu tvö súkkulaði strax til greina, bæði Borg og Omnom voru á sömu línu. Dökkt og mikið súkkulaði með dökkum og miklum bjór. Garún þarf nefnilega eitthvað sem heldur velli, ekkert vesælt og aumt. Nicaragua er þróttmikið 73% dökkt súkkulaði með ögn sýru og töluverðri beiskju. Það er ekkert kaffi notað hvorki í gerð bjórsins né súkkulaðis en þegar þessu er blandað saman þá framkallast lúmsk kaffirist, eins kemur ögn kaffikeimur frá ristuðu maltinu í bjórnum. Þetta er frábær pörun, ekki síðri pörun er svo Coffee + Milk súkkulaðið sem er dökkt mjólkursúkkulaði með kaffi. Þetta súkkulaði er helvíti magnað en það er ekkert notað af kakónibbum við gerð þess heldur bara kakófeitin úr kakóbauninni, sykur, mjólkurduft og svo kaffibaunir. Þetta súkkulaði er mjúkt með mikla fyllingu og svo organdi kaffibragð. Þegar þetta kemur saman við Garúnu verður úr eins konar imperial kaffi stout, skemmtilegt.
Lokahnikkurinn var svo Hurðaskellir sem er gríðarlega magnaður bjór. Nánar um hann hér. Hér er er bjór sem að mínu mati er dálítið erfitt að para við, tillögur Omnom og Borgar voru ágætar en ekki eitthvað sem small að okkar mati en það er það sem svo skemmtilegt. Það er enginn með eins pallettu, það sem einum finnst gott finnst öðrum kannski skrítið. Við duttum hins vegar niður á skemmtilega pörun með Hazelnut súkkulaðinu en það er súkkulaði sem mér fannst reyndar ekkert sérstakt þegar ég smakkaði það eitt og sér. Þetta súkkulaði gekk heldur ekki með neinum öðrum bjór en það vakti lukku hjá okkur með Hurðaskelli. Það er mikil jörð í súkkulaðinu og hnetur, mild sæta og mýkt. Þessi bragðprófíll kom með skemmtilegan hnetukeim í bjórinn sem bætist við súkkuklaði, kókos, vanillu og rúgviskí í bjórnum. Súkkulaðið dregur einnig úr sætunni í bjórnum sem jaðrar við að vera of mikil.
Þetta var einfaldlega geggjað kvöld og þökkum við Omnom og Borg fyrir frábærar stundir.
You must be logged in to post a comment.