Páskar og bjór!

Páskar eru að bresta á með öllu tilheyrandi en eitt af því er vissulega súkkulaðið, þ.e. páskaeggin sem reyndar hafa flest staðið í matvörubúðunum núna síðustu þrjá mánuði þannig að það væri auðvelt að vera kominn með hundleið á þeim þegar hátíðin gengur loks í garð.  Í sjónvarpinu eru þau samt auglýst „páskaeggin voru að detta í hús“ en það er önnur saga.

Annað er svo páskabjórinn en að venju koma mörg brugghús með páskabjór fyrir þessi tímamót.  Ég veit ekki hvað margir páskabjórar standa til boða þetta árið, maður hefur stundum farið í það að smakka þetta allt og reyna að dæma hvað sé best en við erum eiginlega hætt að nenna því.  Mikið af þessu er bara ekkert sérstakt og það eina sem er öðruvísi við bjórinn er oft bara að það er sett „páska“ í nafnið á bjórnum.  Klassískt er að gera páskabjór dálítið dekkri og með meiri karamellukeim en vanalega en það er svo sem ekkert til sem heitir páskabjór í þeim skilningi, hann má vera hvernig sem er.

Hvað er þá besti páskabjórinn kann einhver að spyrja, eða hvernig bjór er bestur sem páskabjór?  Fyrir okkur hér á B&M er páskabjór eitthvað sem tengir við Páskana, það getur t.d. verið bjór sem gengur vel með klassískum páskaréttum, lambi t.d. eða bjór sem bragðast eins og Páskar á einhvernig hátt?  Ég skal ekki segja, nú er súkkulaðið samt stór hluti af Páskunum og við elskum súkkulaði og því finnst okkur bjór sem passar vel með súkkulaði kjörinn páskabjór.  Það má þá vera bjór eins og stout sem hefur súkkulaðikeim eða kaffi sem tengir vel við súkkulaði en það getur líka verið eitthvað annað sem vegur á móti súkkulaðinu, t.d. súr hindberjabjór með léttum chilibruna?  Belgískur blond ,triple eða saison gengur svo vel með flestu lambi og svona mætti spá í þetta endalaus.  En látum þessar pælingar aðeins til hliðar.

Eins og fyrr segir þá elskum við súkkulaði hér á B&M og mig langaði að minna á bestu páskaegginn sem í boði eru hér heima en það eru án efa páskaeggin frá Hafliða súkkulaðigerðarmanni sem er sá besti í bransanum hér að okkar mati.  Við lékum okkur aðeins í fyrra með að para saman páskaeggjunum hans við valda páskabjóra, það var virkilega gaman.   Ein besta pörunin og einn besti páskabjórinn í fyrra var mjólkur stoutinn Páska Bjór frá The Brothers Brewing sem kom æðislega vel út með súkkulaði og það góða er að sá bjór er kominn aftur þetta árið og mælum við eindregið með því að fólk prófi þennan bjór.  Frábær með dökku súkkulað t.d.

img_7152-01316355110.jpeg

En já þetta er alla vega valmöguleiki, við höfum svo sem ekki skoðað í kjölinn hvað annað er í boði þetta árið það er reyndar María hveitibjór frá Borg sem er nýr þetta árið en hann nettur og þægilegur og líklega flottur með grilluðu lambi eða eitthvað slíkt.  Við munum samt hafa augun opin og láta í okkur heyra hér ef við sjáum páskabjór sem vert er að skoða nánar!

Páskaegg frá HR konfekt með rétta bjórnum, er til eitthvað betra?

Fyrir okkur hjá Bjór & Matur eru páskarnir tími til að njóta, við erum að tala um frí frá vinnu og svo allt hnossgætið, súkkulaði í stórum stíl, páskabjórinn og svo má ekki gleyma blessuðu lambinu.  Það eru margir sem framleiða páskaegg hér á landi, hillurnar í búðunum eru þegar farnar að fyllast af þessu. Fyrir súkkulaðifíkil eins og mig þá eru hins vegar til páskaegg og svo eru til PÁSKAEGG!   Já ég segi það bara, súkkulaði er ekki bara súkkulaði, þetta er svona rétt eins og með bjórinn, það er til fjöldaframleitt óspennandi súkkulaði og svo erum við með vandað hanverks súkkulaði.  Minn uppáhalds súkkulaðikarl hér heima er Hafliði Ragnarsson frá HR konfekt / Mosfellsbakarí,en þar á bæ kunna menn sko að gera súkkulaði og þegar kemur að páskaeggjum þá erum við að tala um hrein listaverk.  Eggin eru svo falleg að maður vill eiginlega ekki borða þau, bara horfa.  Það er samt hluti af þessu öllu saman og gleymist oft, maður á að nota öll skilningarvitin þegar maður er að njóta sælkeravöru ekki bara bragðskynið.

Súkkulaði og bjór á vel saman, menn virðast eiga erfitt með að sjá það fyrir sér en það er svo sannarlega málið.  Við höfum áður leikið okkur með bjór og súkkulaði með mjög góðum árangri.   Þetta árið ákváðum við að prófa helling af bjór og finna hina fullkomnu pörun með eggjunum frá Hafliða en hann gerir þrjár gerðir, dökkt 70% súkkulaði, mjólkursúkkulaði 38% og dulcey blond 32% súkkulaði.  Reyndar líka eitthvað af eggjum úr hvítu súkkulaði.  Ég get sagt ykkur það að mér leið eins og krakka í leikfangabúð þegar ég fékk túrinn í súkkulaðigerðinni þeirra!  Ég gæti sennilega ekki unnið þarna án þess að lenda í stórkostlegum vanræðum.

Ár hvert dettur haugur af páskabjór í vínbúðirnar, flest allt frekar óspennandi en það er þó einn og einn góður.  Við ákváðum að vera ekkert sérstaklega að einbeita okkur að páskabjór með páskaeggjunum en það slæddust þó nokkrir inn í prufurnar.  Hér er svo afraksturinn.

Glæsilegt gullið Dulcey Blond egg.

IMG_7174
Byrjum á Dulcey en þetta er uppáhalds egg konunnar.  Dulcey súkkulaði er elegant ljós karamellubrúnt og lungnamjúkt með rjómakenndri áferð í munni.  Það er nokkur sæta á tungu en ekki eins sætt og hvítt súkkulaði eða mjólkursúkkulaðið.  Við finnum svo ögn karamellukeim og smákökur og það örlar fyrir kókos.
Eftir smakk kvöldsins komumst við að því að Dulcey eggið passaði við nánast alla bjórstílana en það sem stóð uppúr voru súru ávaxtabjórarnir.  Það er vel þekkt hjá súkkulaðigerðum að tengja ávexti/ber við súkkulaðið, maður sér það t.d. í sumum molunum sem eru inní eggjunum frá HR.  Sumir eru með jarðaberjafyllingu eða ástaraldin ofl.
Oud Beesel Kriek er með betri kirsuberjabjórum sem við höfum aðgang að hér heima og gengur mjög vel með súkkulaði.  Kriek er belgískur villigerjaður bjór, bruggaður með örverum úr andrúmsloftinu sem gefa frá sér súran funky keim, svo er bjórinn látinn þroskast á kirsuberjum í mánuði og drekkur hann þannig í sig dásamlegan berjakeiminn.  Bjórinn er þannig aðeins súr og svo með áberandi kirsuberjabragði.  Svona bjór er líka nokkuð kolsýrður en kolsýran hjálpar til með að hreinsa palletuna og létta á öllu milli bita. Súkkulaðið þekur nefnilega dálítið góminn með dásamlegum rjómakenndum súkkulaðihjúp sem kolsýran skefur svo af milli bita.  Sýran í bjórnum dregur ögn úr sætunni í súkkulaðinu og kirsuberin tengjast mjög vel við súkkulaðið og gefa ákveðin elegans ofan á elegant.   Þetta alveg stein lá.

IMG_7148.JPG

Við prófuðum fleiri súrbjóra með þessu eggi og kom nýji collab bjórinn frá Borg stórkostlega út með þessu eggi líka.  Kalsari Kannit sem er ketilsýrður bjór með ástaraldin og ferskjum. Þessi bjór er bruggaður með einhverju finnsku brugghúsi sem ég bara þekki ekki neitt til. Verst að þessi kemur ekki í búðir hér heima en bjórinn er virkilega flottur og fæst á helstu börum borgarinnar um þessar myndir.

Dökkt 70% lífrænt súkkulaði frá Perú (Fairtrade).

Uppáhalds súkkulaðið mitt persónulega er þetta hér, dökkt, mikið og geggjað með kakó og svo ögn beiskju í bland við sýru. Eggið er ofsalega fallegt svona undið og snúið með kopargyllingu.   Hér koma ávaxtabjórarnir vel út, Oud Beersel Kriek er t.d. mjög flottur hér líka en bjórinn bæði léttir á öllu og gefur svo frísklegan ávaxtakeim ofaná.  Það sem okkur fannst hins vegar enn betri pörun var nýji páskabjórinn frá The Brothers Brewing í Vestmannaeyjum sem heitir einfaldlega Páska Bjór Milk Stout 8% og er svo kallaður imperial milk stout.

IMG_7202

Stout er kolsvartur bjór sem bruggaður er með brenndu byggi sem gefur bæði lit og svo ristað bragð sem oft minnir á expresso og dökkt súkkulaði.  Milk stout er svo samskonar nema að í hann er notaður mjólkursykur, lactosi sem gerfrumurnar geta ekki notað í gerjunina og því situr hann eftir í loka afurðinni og gerir bjórinn sætari og meira djúsí.  Páska Bjór Milk Stout er einmitt það, mjúkur og rjómakenndur í munni með sætum nótum en einnig þessa notalegu kaffirist og svo er smá lakkrís.  Hver kannast ekki við kaffi og súkkulaði annars?  Þetta kemur í staðinn og er enn betra.  Hér er tengingin augljós,  kaffirist og súkkulaði, sætan í bjórnum tónar svo beiskjuna frá súkkulaðinu niður og þetta verður bara æðisleg upplifun.  Páskabjór með páskaeggi, bæði dæmi um handverk af bestu gerð.

Við prófuðum alla bjórana með öllum eggjunum og komumst að því að Páska Bjór frá The Brothers gengur vel með þeim öllum.  Hér er líklega bara hinn fullkomni páskabjór á ferðinni?

Mjólkursúkkulaði 38%

Loks vorum við með klassískt páskaegg úr mjólkursúkkulaði, mjög sætt súkkulaði sem bráðnar í munni og þekur góm og tungu með feitri kakóskán.  Ekki svo að skilja að það sé neikvætt samt.  Fyrir mína parta er þetta aðeins of sætt en krakkarnir elskuðu það.  Hér komu súru bjórarnir vel út og tóna vel niður sætuna, porter og stout koma vel út líka með þessu og bæta rist og ögn beiskju við upplifunina.  Myrkvi frá Borg og Páska Bjór Milk Stout frá Brothers voru flottir með t.d.  Hins vegar er belgískt öl alltaf skemmtilegt með súkkulaði, belgíska ölið er oftast lítið sem ekkert beiskt og svo erum við með ávaxtalega sætu, oft karamellu og gerkrydd sem gaman er að leika sér með við mat. Belgískur bjór er oft einnig nokkuð kolsýrður en það er einmitt þægilegur eiginleiki þegar við erum með feita áferð í mat. Páskabjórinn þetta árið frá Borg brugghúsBarabas nr 57 (8%) er einmitt skemmtilegur belgískur dubbel sem fer blíðum höndum um tunguna með snefil af dökkum ávöxtum og notalegum belgískum kryddum.  Barabas kom vel út með mjólkursúkkulaðinu og kolsýran er mjög hentug hér því hún léttir skánina af gómnum og hreinsar alveg palletuna og gerir klára í næsta skammt.

IMG_7213

Það þarf svo alltaf að hafa í huga við svona lesningu að hér ræður smekkur manna öllu.  Ofanritað er einungis ætlað sem leiðbeiningar fyrir þá sem vilja prófa sig áfram.  Við vorum þrjú í þessum pælingum (takk Ólafur Darri fyrir aðstoðina) og eru þetta niðurstöður okkar þriggja en segir í raun ekkert um hvað þér þykir best.  Njótið heil!