Sushi borgari með krabbasalati og ljómandi lager bjór

Við elskum sushi hér á þessu heimili, það er ekkert leyndarmál og þegar ég rak augun í gaura í Las Vegas sem bjóða uppá sushi borgara af ýmsum toga þá var bara of erfitt að hemja sig.  Auðvitað varð ég að prófa.  Ég hef verið að djúpsteikja hitt og þetta að undanförnu eftir að tengdó gaf okkur forláta djúpsteikingarpott sem hún hefur notað í gegnum aldana rás.  Pottur með sál skal ég segja ykkur. Það var því borðleggjandi að gera djúpsteikt sushi grjón og nota í stað hamborgarabrauðs.

Megin áleggið á þessum borgara er spicy krabbasalat,  eitthvað sem ég hef verið að þróa í gegnun tíðina og hef bara náð ansi góðum árangri í.  Salatið er alveg sturlað í sushi.  Vinsælustu rúllurnar á okkar borðum satt best að segja.   Afgangurinn er svo bara eitthvað sem menn raða í raun sjálfir á borgarann eftir smekk.  Ég notaði hér fínt skornar paprikur, lárperusneiðar, ferskan lax í strimlum, graslauk, spicy majones, nori blað og soyja sósu.

Það sem þið þurfið (fyrir 5-6):

 • 500 g sushi grjón
 • 0,75 dl sushi edik
 • 0,75 dl sykur
 • 7 dl vatn
 • 1 nori blað
 • 1 pakki af brauðraspi
 • ferskur lax eftir smekk (má sleppa)
 • 2 lárperur
 • 1 pakka/búnt af graslauk
 • 1 dós létt majones
 • 1 límóna (safinn)
 • 2 rauðir ferskir chili ávextir
 • 1 tsk reykt paprikuduft
 • 1/2 pakki frosið krabbakjöt (surimi sem er í raun ekki alvöru krabbi)
 • 2-3 L djúpsteikingarolía

Bjórinn með: 

Hvað er gott með sushi?  Við fórum í gegnum það dálítið hér um árið, hveitibjór er flottur með sushi, belgískur blond líka og jafnvel vel valinn súrbjór.  Hér erum við hins vegar með dálítið þungan rétt og mikið að gerast.  Lagerinn gengur vel og svo ekki sé talað um aðeins humlaðan lager á borð við nýja oktoberbjórinn frá Borg, RUMPUTUSKI!

Aðferð:

Byrjið á grjónunum, það er dálítið dútl, tekur ca 2 tíma í heildina.  Sjá nánar hér.   Þegar grjónin eru komin í bleyti er best að fara í að græja krabbasalatið.  Hér er það dálítið eftir smekk bara, þetta er svona ca eins og hér segir:

 • Majones, ca hálf krukka(fer alveg eftir hve mikið þið ætlið að gera)
 • Surimi („krabbakjöt“), t.d. 6-10 lengjur.  Skorið mjög fínt.
 • Vorlaukur eða blaðlaukur, skorið mjög fínt.  Magn fer bara eftir smekk.
 • Safi úr heilli lárperu
 • Chilli krydd, eða ferskur fíntskorinn chili.  Eftir smekk, má alveg taka vel í
 • Reykt paprikuduft, eftir smekk.

20170923_212458

Hrærið bara öllu saman í skál og látið standa. Klárið svo að græja grjónin og látið þau kólna.  Gerið dressinguna, 0,75 dl edik og 0.75dl sykur í pott.  Hitið þar til sykurinn er horfinn og hellið þessu svo yfir grjónin þegar þau hafa náð ca stofuhita.

Gerið áleggið klárt, skerið niður papriku í fínar ræmur, laxinn í ræmur líka.  Lárperur eru skornar í fínar sneiðar og svo er graslaukurinn tilbúinn á kantinum.   Næst er svo að gera botninn og lokið á borgarann úr grjónunum.   Hér þarf að hafa eitthvað mót til að móta grjónin.  Fínt að nota sama áhald ef menn nota slíkt til að búa til hamborgara úr nautahakki.

Hitið olína í potti, max hiti. Veltið svo „grjónaborgurunum“ varlega uppúr raspinu og djúpsteikið einn og einn í einu.  Látið kólna aðeins og svo bara raðið þið þessu saman á smekklegan máta.  Ég klippti noriblöðin í ferninga, rétt aðeins minni en borgararnir sjálfir og rétt aðeins bleytti í þeim til að mýkja.  Þetta er nú aðalega til að fá sushi stemninguna, þarf alls ekki að vera með.   Berið svo fram með góðum bjór!

Pörunin:

Þessi borgari er frekar þungur, einn svona gaur er vel til að fylla stóran svangan karlmann.  Líklega mun ég prófa aftur að gera þetta og hafa þá bara djúpsteikt grjón í botninn og mun minni botn og raða svo ofan á eins og á snittum.  Bjórinn má ekki vera þungur því þá er þetta bara búið, við þurfum bjór sem er líflegur og léttir stemninguna, ég held að belgíski blondinn yrði of mikið hér, súrbjór gæti vel gengið og humlaður hveiti er líklega flottur með en við fórum í nýja bjórinn frá Borg, Oktoberbjórinn frá þeim í ár, RUMPUTUSKI sem er svo kallaður indian pale lager (IPL).

Já við erum þá með lager sem hefur aðeins verið fitlað við með humlum sem gefa honum þannig meiri beiskju og karakter.  Ég held að þetta sé bara akkúrat bjórinn sem við þurfum með þessum rétt.  Klassískur lager væri mögulega of einfaldur og myndir hverfa í skuggan á sterku salatinu og spicy majoinu.  Humlarnir í Rumputuska tengja vel við sterku kryddin og magna upp bragð í bæði bjór og mat en á sama tíma tengir sætan frá korninu í bjórnum við sætuna í paprikunni og dempar þetta allt saman og pakkar einhvern veginn inn á notalegan máta. Það er jafnframt mikil sæta í þessum djúpsteiktu grjónum sem gæti orðið of mikið af þvi góða en beiskjan bæði frá humlunum og graslauknum brjóta þetta aðeins upp og draga úr væmninni.  Djúpsteikingin skapar skemmtilega stökka áferð sem passar líka svo vel við lagerinn sem er dálítið „krispí“ og beittur í munni ef svo má segja.

Mér finnst líka alltaf beiskja í bjór opna upp þunga rétti og skapa pláss í mallakút, kannski dálítið eins og kók og þung steik? Þegar ég er að tala um beiskju hér er ég samt að tala um afar látlausa beiskju, ekkert á við IPA eða Pale Ale samt þannig að fólk þarf ekki að óttast neitt.  Þetta er bjór sem allir ættu að geta sötrað með góðu móti. Þetta er alla vega mjög flott combo hér og þessi sushi borgari er alveg geggjaður!

Hvað er gott með Sushi?

Það er langt síðan ég gerði sushi en ég var nokkuð duglegur hér fyrir nokkrum árum að gera sushi frá grunni við mikinn fögnuð fjölskyldunnar.  Þetta var nánast hverja helgi á tímabili.  Við elskum nefnilega gott sushi á þessu heimili (hver gerir það ekki?). Ég hef hins vegar legið í dvala núna í nokkur ár.  Í gær ákvað ég hins vegar að rjúfa múrinn og dusta rykið af sushi töktunum og prófa nokkra bjóra með sem við Sigrún höfum verið að skoða mtt einmitt sushi.   Sushi gerð er dálítið dútl og tekur tíma en það er alveg kjörið að hóa í nokkra vini og setjast saman yfir þetta með gott vín eða góðan bjór við hönd og spjalla, þá er bara allt í lagi að eyða tíma í þetta.

Ég lendi oft í því að missa mig í hráefnum og enda með allt of margar tegundir af sushi bitum (Maki) og allt of fáa af hverri tegund og svo man maður bara ekkert hvað var í hverju, möguleikarnir eru auðvitað nánast endalausir.  Mitt ráð til ykkar er því að ákveða t.d. bara  3 gerðir af rúllum og gera þær vel.  Í gær var ég með spicy þema en spicy krabbasallat bitarnir mínir eru uppáhald fjölskyldunnar og mér heyrist eftir gærdaginn að Lovísa Ósk vinkona okkar sé hjartanlega sammála.  En skoðum þetta á eftir, fyrst er það undirbúningurinn, ss grjónin.


SUSHI GRJÓNIN: maður verður að nota sushi grjón (fæst í Bónus og Hagkaup t.d.), einn poki (500g) ætti að duga fyrir 3 svanga fullorðna.

1. Setjið grjónin í stóra skál, helst úr gleri eða plasti.  Skolið svo varlega með fersku vatni.  Hér viljum við skola alla sterkju af grjónunum.   Fínt að hella af reglulega vatninu af sem í fyrstu er hvítt en verður svo tærara og tærara.  Tilbúið þegar skolvatn er alveg tært.

2. Látið grjónin standa í fersku vatni í klst.  Svo færir maður grjónin yfir í sigti og lætur renna af þeim í 15 mín.

3. Setjið grjónin í pott, bætið 7 dl af vatni útí og látið suðu koma upp með lokið á.  Lækkið svo hita í lægsta hita og látið malla í 10 mín.  Svo er potturinn tekinn af hellunni og látinn standa í aðrar 10 mín.

4. Færið grjónin loks yfir í tréskál, má vera úr plasti eða gleri reyndar.  Sumir reyna að þerra grjónin, ég sleppti því.  Látið kólna niður í stofuhita með handklæði yfir.

DRESSING á GRJÓNIN: Þið fáið grjóna edik á sama stað og grjónin. 0.75 dl af ediki með 0.75dl sykri.  Setjið í pott og hitið þar til sykurinn er uppleystur í edikinu.  Ef þið notið meira af grjónum þarf meira af þessari dressingu.  Svo er bara að blanda þessu saman varlega við grjónin.

SPICY KRABBASALLAT: Ok ég datt bara niður á þessa blöndu með fikti og tilraunum en þetta er alveg geggjað í sushi.  Spicy krabbasallat bitarnir eru lang vinsælastir á heimilinu.  Það er því góð hugmynd að gera nóg af þessu sallati.

– Majones, ca 5 mtsk (fer alveg eftir hve mikið þið ætlið að gera)
– Surimi („krabbakjöt“), t.d. 5-6 lengjur.  Skorið mjög fínt.
– Vorlaukur eða blaðlaukur, skorið mjög fínt.  Magn fer bara eftir smekk.

– Safi úr hálfum til heilum lime

– Chilli krydd, eða ferskur fíntskorinn chilli.  Eftir smekk, má alveg taka vel í

– Reykt paprikuduft, eftir smekk. 

Hrærið bara öllu saman í skál og látið standa aðeins áður en sett á maki bitana.  Fín að græja þetta t.d. á meðan grjónin liggja í bleyti.


IMG_6231Þegar grjónin eru tilbúin þá er eftirleikurinn auðveldur, að raða hráefnum saman og rúlla vefjurnar.  Fínt er að gera krabbasallatið á meðan grjónin standa í bleyti og svo á meðan grjónin kólna er tilvalið að skera niður grænmetið og gera allt klárt.

Ég ætla svo ekki að segja ykkur hvað á að setja í rúllurnar, þar kemur að ykkar eigin ímyndunarafli.  Ég læt þó hérna með hugmyndir af þeim rúllum sem ég var með í gær en þær komu ofsalega vel út.   Það sem þið þurfið að hafa eru nori blöð (þangblöð) sem undirlag fyrir grjónin og svo bambusmottu til að rúlla með.  Fyrir „inside out“ vefjurnar þarf plastfilmu.  Meðlæti er klassískt, soya sósa, sýrður engifer og wasabi.

Spicy krabbasallat (maki): Hér nota ég hálft noriblað, glansandi hliðin niður.  Set svo þunnt lag af grjónum yfir allt blaðið, þunnt lag af krabbasallati ofan á fyrir miðju og rúlla svo upp.  Bitarnir verða dálítið mjóir og háir.  Flott að setja svo smá sallat ofan á bitana þegar búið að skera niður.

Djúpsteiktur teriyaki kjúlli (maki): Hér fékk ég smá hjálp frá Nings, ég bara nenni ekki að standa í að gera djúpsteiktan kjúkling.  Pantaði lítinn skammt og fékk mjög ljúft létt sýrt hrásallat með.  Flott að gera inside out rúllur líka, sem sagt grjónahliðin snýr út.
Til að gera þetta þarf plastfilmu líka.  Setjið grjón á noriblað (heilt blað), glans hliðin snýr niður.  Flott að sáldra sesamfæjum yfir grjónin, eða rauð hrogn en þetta lookar bara svo vel.  Leggið svo plastfilmuna yfir grjónin og snúið öllu við þannig að glanshliðin á noriblaðinu snúi upp.  Leggið þetta á bambusmottuna og svo er fyllingin sett beint á norihliðina.   Kjúklingurinn, hrásallatið, og Teriyaki sósan.  Einnig gott að lauma línu af spicy majonesi (fæst í Bónus t.d.).  Svo er rúllað upp og plastfilma tekin undan jafn óðum. Þegar búið er að skera bitana niður er flott að skreyta með chillisósu.

Spicy majo laxarúlla (maki): Við verðum að hafa fisk í sushi ekki satt?  Ferskur lax er málið.  Hér var ég með lax með spicy majonesi sem ég fékk í annað hvort Hagkaup eða Bónus, man bara ekki hvar.  Þetta er mjög gott með laxinum.  Ég geri alltaf „inside out“ rúllur fyrir laxinn, mér finnst það bara það eina rétta, rauð hrogn eru mjög viðeigandi skraut hér.  Ég fékk lítinn bita af laxi hjá Fiskikonginum, þetta þarf ekki að vera stór biti.  Svo er þetta bara eins og hér að ofan, laxinn settur í ræmum á nori blaðið, vel af spicy majo með, rauð paprika í ræmum og ferskar avocado lengjur.  Rúllið upp og skerið í bita.

Spicy majo laxa nigiri: Mér finnst alltaf flott að hafa nigiri bita með.  Þeir eru fljótgerðir og setja svip á bakkann.  Takið grjónaklípu og leggið í lóann og hálfkreppið lóann.  Þjappið svo grjónum og myndið lítinn bragga.  Svo er gott að smyrja spicy majonesi ofan á.  Skerið lax í þunnar fallegar sneiðar, og leggið ofan á.

IMG_6235

BJÓRINN MEÐ: Flestir eru vanir hvítvíni með sushi og það er bara ekkert að því, gott hvítvín getur verið frábært með sushi, bjórinn hins vegar býður upp á mun fleiri möguleika.  Megin reglan er að bjórinn taki ekki völdin, sushi er ekki ódýrt að gera og maður er búinn að eyða svo miklum tíma í að gera það, það væri mikil synd að finna svo ekki almennilegt bragð af því.  Bjórinn verður samt að vera merkjanlegur, við viljum heldur ekki bjór sem maður finnur ekki bragð af fyrir sushi-inu þá er alveg eins hægt að drekka vatn.  Hinn gullni millivegur, bjór og réttur verða að gera eitthvað fyrir hvort annað.

Það eru í raun margir möguleikar þegar bjórinn er valinn, það fer nefnilega dálítið eftir því sem maður setur í rúllurnar, en svo er nokkrir fastir punktar sem þarf að hafa í huga, eins og seltan frá soya sósunni og sætan frá grjónunum.  Wasabi er svo auðvitað mjög sterkt og tekur vel í og engiferið er sýrt og spicy.  Að þessu sinni var þemað „spicy“, maður gæti því hugsað sér IPA eða Pale Ale þar sem við erum með seltu og chilli hins vegar er beiskjan frá humlunum alls ekki að passa við stemninguna í sushi.  Belgískur blond er aftur á móti alveg málið t.d. LEFFE BLOND.  Þessi bjór er alveg laus við beiskjuna en býr yfir áberandi ávaxtasætu og skemmtilegum krydduðum tónum frá gerinu.  Bjórinn er ofsalega flottur á móti öllu þessu sterka frá réttinum og hann tengir vel við sæt grjónin og magnar upp bragðið. Bjórinn pakkar hann einhvern veginn inn sterkt chilli-ið og wasabi brunanum og mildar þetta allt saman og svo blandast þetta allt, sætt, salt og sterkt í rúnaða heild í gómnum.  Ljómandi gott.

Við vorum svo með annan skemmtilegan með þessu.  Súrbjórinn OUD BEERSEL GUEUZE sem er framúrskarandi belgískur gueuze.  Þessi bjór er léttur en í senn mildur og bragðmikill.  Súr á tungu með ögn sætu og svo þetta „funky“ bragð sem erfitt er að lýsa.  Þessi bjór léttir vel á spicy themainu með kitlandi gosinu og sýrða bragðinu.  Bjórinn breytir aðeins matnum en á skemmtilegan og funky máta!  Það er svo virkilega gaman að finna hvernig hann er með engiferinu en hann virkar hér eins og brú, bragðið af engiferinu, rífur aðeins í með sýru og spice og svo er bjórinn bara eins og fullkomið framhald og bragðið heldur áfram óbreytt nema bara meira áberandi.  Svo endar þetta í smá funky kveðju.

Geggjað….væri gaman að heyra ykkar álit!