Páskar eru að bresta á með öllu tilheyrandi en eitt af því er vissulega súkkulaðið, þ.e. páskaeggin sem reyndar hafa flest staðið í matvörubúðunum núna síðustu þrjá mánuði þannig að það væri auðvelt að vera kominn með hundleið á þeim þegar hátíðin gengur loks í garð. Í sjónvarpinu eru þau samt auglýst „páskaeggin voru að detta í hús“ en það er önnur saga.
Annað er svo páskabjórinn en að venju koma mörg brugghús með páskabjór fyrir þessi tímamót. Ég veit ekki hvað margir páskabjórar standa til boða þetta árið, maður hefur stundum farið í það að smakka þetta allt og reyna að dæma hvað sé best en við erum eiginlega hætt að nenna því. Mikið af þessu er bara ekkert sérstakt og það eina sem er öðruvísi við bjórinn er oft bara að það er sett „páska“ í nafnið á bjórnum. Klassískt er að gera páskabjór dálítið dekkri og með meiri karamellukeim en vanalega en það er svo sem ekkert til sem heitir páskabjór í þeim skilningi, hann má vera hvernig sem er.
Hvað er þá besti páskabjórinn kann einhver að spyrja, eða hvernig bjór er bestur sem páskabjór? Fyrir okkur hér á B&M er páskabjór eitthvað sem tengir við Páskana, það getur t.d. verið bjór sem gengur vel með klassískum páskaréttum, lambi t.d. eða bjór sem bragðast eins og Páskar á einhvernig hátt? Ég skal ekki segja, nú er súkkulaðið samt stór hluti af Páskunum og við elskum súkkulaði og því finnst okkur bjór sem passar vel með súkkulaði kjörinn páskabjór. Það má þá vera bjór eins og stout sem hefur súkkulaðikeim eða kaffi sem tengir vel við súkkulaði en það getur líka verið eitthvað annað sem vegur á móti súkkulaðinu, t.d. súr hindberjabjór með léttum chilibruna? Belgískur blond ,triple eða saison gengur svo vel með flestu lambi og svona mætti spá í þetta endalaus. En látum þessar pælingar aðeins til hliðar.
Eins og fyrr segir þá elskum við súkkulaði hér á B&M og mig langaði að minna á bestu páskaegginn sem í boði eru hér heima en það eru án efa páskaeggin frá Hafliða súkkulaðigerðarmanni sem er sá besti í bransanum hér að okkar mati. Við lékum okkur aðeins í fyrra með að para saman páskaeggjunum hans við valda páskabjóra, það var virkilega gaman. Ein besta pörunin og einn besti páskabjórinn í fyrra var mjólkur stoutinn Páska Bjór frá The Brothers Brewing sem kom æðislega vel út með súkkulaði og það góða er að sá bjór er kominn aftur þetta árið og mælum við eindregið með því að fólk prófi þennan bjór. Frábær með dökku súkkulað t.d.
En já þetta er alla vega valmöguleiki, við höfum svo sem ekki skoðað í kjölinn hvað annað er í boði þetta árið það er reyndar María hveitibjór frá Borg sem er nýr þetta árið en hann nettur og þægilegur og líklega flottur með grilluðu lambi eða eitthvað slíkt. Við munum samt hafa augun opin og láta í okkur heyra hér ef við sjáum páskabjór sem vert er að skoða nánar!