Indversk veisla að hætti Yesmine Olsson með íslenskri bjórpörun!

Ég hef alltaf verið spenntur fyrir indverskum mat en ég hef ekki hætt mér út í að prófa að elda hann sjálfur, það hefur bara vaxið mér í augum.  Mig hefur samt alltaf langað að læra að gera indverskt. Ég hnippti því hér um árið í nágranna okkar og vinkonu Yesmine Olsson sem eins og kunnugt er er snillingur í indverskri matargerð . Ég spurði  hana hvort hún vildi ekki elda með mér indverskt og bjóða góðu fólki í mat en til að selja henni hugmyndina kvaðst ég vilja prófa að para bjór með réttunum.  Yesmine líkaði hugmyndin vel en hún sagði mér reyndar eftir á að hún hafi ekki verið vongóð um að bjórpörunin kæmi vel út en samt spennt að sjá hvernig til tækist.  Hún er búin að taka þetta til baka núna enda kom það henni verulega á óvart hvernig til tókst. Reyndar mér líka!

Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig það kæmi út að para bjór við indverska rétti, þetta er nefnilega mikil áskorun, þeir eru oft mjög sterkir og miklir réttirnir og það eru svo ótal mörg krydd í þeim, krydd sem maður þekkir ekkert allt of vel.  Ég sá mér því leik á borði, ég myndi læra smá inn á töfrandi heim indverskrar matargerðar á sama tíma og ég gæti prófað bjórpörunina.

wp-1590433486965.jpg

Yesmine er snillingur í eldhúsinu, ég vissi það svo sem en ég fékk bara meiri staðfestingu á því eftir þennan dag okkar saman í eldhúsinu, mikið var þetta gaman.  Við vorum reyndar nokkra daga að plana veisluna og svo þurftum við að hittast því ég þurfti að fá nákvæmar lýsingar á réttunum, við erum að tala um hvernig krydd, hvernig áferð, sætt, súrt, sterkt og svo framvegis.  Ég nefnilega þurfti að velja bjórinn út frá þessum upplýsingum eingöngu því ég hafði jú ekki smakkað neitt af þessu áður.  Út frá þessum upplýsingum gerði ég lista yfir þá bjóra sem kæmu til greina, ég valdi nokkra til að prófa með hverjum rétt bara svona til að hafa smá varnagla á. Það má ekki gleyma því að við vorum með 8 gesti í þessari veislu þannig að smá pressa! Ég vildi hafa þetta íslenskt bjórþema og auðvitað bara bjór frá landsins bestu brugghúsum!

Þetta lukkaðist svona líka vel, bæði að mínu mati og svo 9 annara reyndar líka, og maturinn guð minn góður…eða ætti ég frekar að segja Yesmine góða?  Ég ætla að rissa aðeins upp þessar paranir og láta eina og eina uppskrift fljóta með.

Djúpsteikt indverskt „dumplings“ með geggjaðri karrí mayo sósu!

Við byrjuðum á léttum forrétt svona til að koma öllum í gírinn.  Við vorum ofsalega heppin með veður og gátum því notið matar og drykkjar á svölunum hjá þeim Yesmine og Adda.  Í forrétt vorum við með djúpsteikt indversk „dumplings“ sem við höfðum fyllt með nautahakki og svínahakki sem legið hafði í indverskri kryddmarineringu yfir nótt.  Þetta er virkilega bragðmikill réttur en þó ekkert sem rífur allt of mikið í.   Við erum með öll klassísku kryddin í þessu, kóríander, múskat, engifer, túrmerik, karrí og meira til.  Þessi réttur er dálítil handavinna, jafnvel þó við séum búin að marinera deginum áður. En í góðum félagsskap og með gott hvítvín t.d. á kantinum þá er bara gaman!

wp-1590434071375.jpg

Ef maður er svakalega anal getur maður gert degið sjálfur en best er að kaupa dumplings deig bara tilbúið í asískum verslunum.  Þetta eru örþunnar deigplötur.  Bleytið alla kanta með vatni til að deigið klístrist saman í lokin þegar þið krumpið það saman.  Setjið hæfilegt magn af fyllingu á miðja örkina og lokið svo með fingrunum og þéttið vel.  Svo er þetta djúpsteikt í jurtaolíu þar til orðið gyllt og stökkt.  Látið svo standa á grind!

Fyllingin er hér

  • 250 g nautahakk
  • 250 g svínahakk
  • 1 laukur
  • 1 rauðlaukur
  • 1,5 dl vorlaukur
  • 2 skalottlaukar
  • 4 hvítlaukssrif
  • 25 g ferskur kóríander
  • 3 stórir tómatar
  • 2 cm engiferrót
  • 1/4 tsk múskat
  • 1/2 tsk túrmerik
  • 2 tsk karrí
  • 2-3 ferskir rauðir chilipipar eftir smeklk
  • 3-4 msk matarolía
  • 5 stk döðlur
  • salt og pipar

Allt nema kjötið er blandað vel saman í matvinnsluvél.  Svo er kjötinu bætt útí og hrært saman.  Látið svo standa yfir nótt helst.  Amk nokkra tíma.

Með þessu vorum við  svo með alveg splunku nýja uppfinningu, karrí mayo sósu sem Yesmine töfraði fram.  Yesmine sagðist hafa fengið innblástur frá kóríander mayo sósunni minni og langaði að prófa að gera eitthvað svona indverskt twist með majonesi.  Hún hefur annars aldrei áður notað majones í sinni matargerð.  Ég viðurkenni að ég er pínu stoltur sko.  Þessi sósa er kreisí!  Krrrrreisí og ég sök á því að hún varð til!

Indversk karrí mayo sósa

  • ca 2-3 bollar (US cups) majones
  • ca 1/2 mtsk kapers
  • 2-3 litlar súrar gúrkur (pikles)
  • 1-2 mtsk engiferrót
  • 1 grænn chili ávöxtur
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 1 mtsk gott karrí krydd
  • sjávarsalt eftir smekk

Aðferð.

Ok, þetta er í fyrsta sinn sem þessi sósa er gerð, ég gerði hana svo aftur daginn eftir nokkurn veginn svona.  Menn verða svo bara að smakka til, meiri hvítlauk eða meira salt eða karrí.  Allt eftir smekk.  Þetta á samt að vera karrí mayo þannig að meira karrí en minna.   Þetta er í raun allt sett saman og maukað með töfrasprota.  Ef menn vilja bera fram í skál með smá bitum í þá er það bara fínt en ef við viljum bera sósuna fram í sprautuflösku þá þarf að mauka þetta vel þannig að engir bitar eru eftir í maukinu.  Bæði betra!

Þessi sósa er alveg mögnuð með þessu og í raun með ansi mörgum réttum sé ég fyrir mér.  Ég veit að þessi sósa mun slá rækilega í gegn í sumar!

wp-1590434139611.jpg

Pörunin!

Hér erum við með stökka áferð, það er fita í deiginu og djúpsteikingunni og svo er grísahakkið feitt og djúsí inní og kryddin áberandi.  Karrí mayo sósan er svo alveg sér á báti og rífur vel í með hvítlauk og karrí.   Þetta er geggjað eitt og sér en enn betra með góðum drykk.   Hér þarf bjór sem heldur velli gagnvart kryddunum og bragmikilli sósunni en þó ekki þannig að hann taki öll völd.  Við viljum njóta líka kryddanna og kjötsins.  Með feitum mat og sósum eins og hér er er kjörið að nota bjór með smá beiskju bit, IPA er fullkominn í verkið og svo auðvitað gaman að para Indian Pal Ale við Indian food ekki satt, svona bara vegna upprunans?  Beiskjan í bjórnum klippir upp fituna í þessum rétt og opnar allt upp á gátt og hreinsar munn og kok af fitubrákinni sem myndast.  Ég ákvað að fara hér í minn uppáhalds íslenska IPA/pale ale sem er frá Malbygg brugghús og heitir einfaldlega Kisi. Mér er sama hvað stendur á dósinni, þetta er safaríkur djúsí NEIPA (new england IPA) þar sem humlarnir fá að njóta sín með ávaxtakeim á borð við mango og ástaraldin en svo er líka örlítið beiskjubit sem sinnir sínu hlutverki eins og áður er ritað.

Þetta er fullkomið, öll þessi krydd , léttur hiti og þessi feita áferð steinliggja með þessum frábæra bjór.  Ég elska líka kóríander og IPA, það er eins og þetta tvennt hafi verið fundið upp saman. Vá!  Það besta er að Yesmine, sem ekki er mikið fyrir bjórinn, var alveg dolfallin.  Henni fannst þetta koma svakalega vel út og þá er takmarki mínu náð.

Aðalréttirnir, lamba pylsu grillspjót og kjúklinga grillsprjót með spínat kóríandersósu og alls konar meðlæti.

wp-1590434012790.jpg
Eggaldinn í alveg nýjum búning

Við ákváðum að hafa nokkra rétti sem fólk bara blandar saman á einn disk, það voru bæði stærri og minni réttir.  Við vorum með hvítlauks naanbrauð með, saffran hrísgrjónum, magnað döðlu  raita og svakalega góð ofnbökuð eggaldinn með indverskum kryddum toppuð með sósu af óþekktum toga, já ég gat ekki fylgst með öllum töfrunum hennar Yesmine.

Fyrir lambagrillspjótin (fyrir 4-5)

  • 400 g lambaprime, skorið í hæfilega bita
  • 400 g kryddpylsur, tvær gerðir, t.d. chorizo pylsur og eitthvað annað gott
  • 1/2 dl repjuolía
  • 5 kardimommur
  • 10 negulnaglar
  • 5 cm kanilstöng
  • 1 tsk túrmerik
  • 5 svört piparkorn
  • 2 tsk cuminfræ
  • 2 stórir laukar, skornir í fernt
  • 5 hvítlauksrif
  • 2 grænir chilibelgir með fræjum
  • 5 cm af ferskri engiferrót, afhýdd, skorin gróft
  • safi úr 1/2 sítrónu
  • 1 tsk sjávarsalt

Aðferðin

Fyrir marineringuna á kjötinu.  Taktu öll kryddin á disk.  Taktu til pönnu og hitaðu hana vel upp.  Svo eru kardimommur, negulnaglar, kanilstöng, pipar og cuminfræ þurristað á pönnunni í 30-40 sek eða þar til kryddin breyta um lit og gefa frá sér frábæran ilm.  Notaðu svo mortél til að merja öll kryddin nema túrmerik.   Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél ásamt kryddunum og maukið saman.  Veltu lambakjötinu vel uppúr marineringunni, skerðu líka pyslurnar í hæfilega bita og blandaðu þeim saman við lambið.  Látið standa yfir nótt.

wp-1590433676693.jpg

Sama dag og rétturinn er borinn fram.   Leggi tréspjót/grillpinna í bleyti, skerið niður gula papriku og rauðlauk í hæfilega bita eftir smekk.  Raðið svo lambi og pylsum saman á spjótin og inn á milli lauk og papríku.  Látið þetta líta dálítið vel út.  Pysla og kjöt saman samt, þannig renna kryddin úr hvoru tveggja saman við grillunina.

Auk lambaspjóta vorum við með kjúklingaspjót með dásamlegri spínat kóríandersósu.  Yesmine notar alltaf úrbeinað lærkjöt þegar hún notar kjúkling, ég er algjörlega sammála, þetta er besta kjötið, svo djúsí og gott og dregur í sig öll kryddin í marineringunni.  Þessi réttur var bragðmikill líka, ekki þó eins spicy og lambaspjótin en í sósunni er ríkjandi kóríander og hvítlauksbragð.  Ofsalega gott saman.

Hrísgrjón eru ómissandi með indverskum mat, þau vissulega drýgja máltíðina en eru líka frábær til að sjúga í sig sósurnar á diskunum, ekkert má fara til spillis.  Með mjög sterkum mat er líka gott að nota hrísgrjónin til að dempa brunann.  En hrísgrjón eru ekki bara hrísgrjón, Yesmine notar nánast eingöngu basmati grjón t.d. en það er mikill munur á gæðunum.  Þetta kvöld komst ég svo að því að ég og Sigrún mín höfum verið að elda hrísgrjón vitlaust alla okkar tíð.  Ég komst líka að því að hægt er að gera fáranlega gómsæt hrísgrjón sem meðlæti.

wp-1590433511942.jpg
Saffran þræðir, gull kryddanna!

Saffran hrísgrjón

  • 5 dl basmati hrísgrjón
  • 1 L vatn
  • 1 mtsk isio 4 olía eða 2 mtsk ghee
  • 1/2 – 1 tsk saffran þræðir
  • 1/2 sítróna, bæði hýði og safi
  • 1 tsk salt
  • 2 tsk brún sinnepsfræ (fæst í Fiska)

Setjið vatn í pott (1 L) og látið suðuna koma upp.  Bætið við rifnum sítrónuberki og safa (1/2 sítróna) út í vatnið ásamt saffran þráðunum og látið renna saman í 5 mín.  Á meðan notið þið tíman og setjið olíuna eða ghee í pott og náið upp hita.  Setjið sinnepsfræin varlega útí en passið ykkur þau geta poppað og þá slettist á ykkur heit ólían.  Hrærið í fræunum stöðugt í 30-40 sek, bætið svo þurrum hrísgrjónumum útí pottinn og blandið við fræin í 1-2 mín.

Bætið þvínæst hrísgrjónunum ásamt salti (1 tsk) út í saffran vatnið og hrærið létt saman og setjið svo viskastykki yfir pottinn og lok yfir og látið malla í 10 mín.  Ekki bullsjóða.  Forðist að hræra mikið svo þið brjótið ekki grjónin.  Þvínæst slökkvið þið á hitanum og látið pottinn standa í aðrar 10 mínútur.

Þetta er svakalega gott með öllum þessum réttum.

Gott naan brauð er líka ómissandi með indverskum mat.  Það má gera það frá grunni sem er auðvitað skemmtilegast og svo grilla á grilli eða ef maður á tandori ofn, þá notar maður hann auðvitað.   Gott er að útbúa einhverja góða olíu, t.d. hvítlauskolíu og pennsla brauðin fyrir eldun.

Annað sem er mikilvægt að mínu mati er eitthvað ferskt og létt til að milda tungu og hvíla frá sterkum kryddum.  Klassískt er gúrku raita sem þó mér finnst stundum dálítið of klassískt jafnvel.  Yesmine bauð uppá aðeins aðra útgáfu, alveg hrikalega góða döðlu raita sem koma æðislega vel út með öllu þessu hérna, döðlurnar gefa skemmtilega sætu í þetta allt saman.

Loks var það ofnbakaða eggaldinið, það var svakalegt.  Maður er vanur að grilla þetta og setja salt og olíu á og það kemur vel út en þessi útgáfa var stórkostleg, öll þessi indversk krydd, radísuspírur og svo þessi dularfulla sósa ofan á.  Úff úff úff!

Pörunin

En ok, pörunin, þetta var pínu flókið en svo í raun ekki.  Hér gat ég ekki parað einn bjór við hvern rétt því við buðum upp á þetta allt saman í einu, sem einn rétt með mörgum vinklum.  Ég prófaði nokkra bjóra með þessu.  Mér fannst borðleggjandi að velja frekar látlausa bjóra en sem þó gætu höndlað sterk krydd á sama tíma og þeir yfirbuguðu ekki látlausu kryddin sem maður vill ekki missa af eins og t.d. safran eða múskat.  Hrísgrjón er lykil meðlæti í svona veislu og því tilvalið að velja bjór sem bruggaður er með hrísgrjónum, bæði tengja grjónin vel við grjónin í matnum en svo gefa þau fyllingu og dempa brunann frá „heitum“ kryddum á borð við chili eða sterk karrí.  Ég valdi hrísgrjóna lager í þetta verk en það vill svo til að það eru alla vega tveir slíkir í boði akkúrat núna frá íslenskum framleiðendum.

wp-1590434301967.jpg

Sudoku Rice Lager frá Borg er frábær lager.  Hann er þéttur og elegant með ögn sætukeim og afar látlausu humalbiti sem er þó til staðar.  Mér fannst borðleggjandi að tefla fram lager með grilluðum pylsum, kjúlla og lambi og þetta svínvirkaði.  Sætan í korninu dempaði ögn kryddin en slökkti samt alls ekki á þeim heldur tvinnaðist bragðið frá bjórnum fallega saman við hrísgrjónin og rest.   Nett beiskjan var nægileg til að vinna á fitunni frá kjötinu og sósunum.  Mjög gott combo.

wp-1590609667787.jpgÖnnur pörun sem kom vel út var Yuzu Rice Lager frá RVK Brewing.  Þessi bjór er líka bruggaður með hrísgrjónum en einnig yuzu ávexti sem er súrt sítrusaldin frá Austurlöndum fjær.  Þessi bjór er afar ferskur og sumarlegur og smellpassar á pallinn í sólinni en gengur líka vel hér af sömu ástæðum og hér að ofan.  Súraldinið gefur svo auka vinkil með þægilega sýru sem gengur vel á móti þungum matnum og styður skemmtilega við ferska döðlu raita-ið.   Gestum þótti þetta skemmtilegur valmöguleiki með matnum.

Það sem hins vegar sló í gegn hjá mér persónulega, og það voru nokkrir sammála mér í því var næsti bjór.  Ég var reyndar á höttunum eftir rauðöli eða amber bjór fyrir verkið, jafnvel hefði bock geta komið vel út en þau brugghús sem ég skoðaði, bestu íslensku brugghúsin okkar auðvitað, áttu slíkan bjór ekki til á flöskum eða dósum.   Hér langaði mig að nota bjór með mikinn maltkarakter en sem væri þó léttur og meðfærilegur.  Ofannefndir bjórstílar eru dekkri en hinn ljósi lager því í þá er notað aðeins meira ristað korn/malt sem gefur af sér ögn karamellukeim og rist.   Ég sá fyrir mér fullkomna tengingu við grillaða kjötið sem fær jafnan á sig ákv karamellu áferð við grillunina.  Það er líka vel þekkt að sætukeimurinn frá maltinu komi ofsalega vel út á móti sterkum kryddum og er jafnvel það eina sem gengur á móti sterkustu chiliréttum þeirra Indverja.

Það var Maggi hjá RVK brewing sem reyndar líka er með sitt eigið brugghús, sem ég hef fjallað stuttlega um áður Mono, sem benti mér á aðra mögulega lausn.   Þeir Mono strákar voru nýlega komnir með bjór á flösku sem gæti gengið, svo kallaður märtzen , sem er þýskur lager sem menn tengja jafnan við Oktoberfest þar í landi.  Þetta er „maltforward“ bjór og oft með kopar til rauðum blæ.  Bjórinn er lager og yfirleitt með létta til meðal fyllingu og litla beiskju.  Þetta fannst mér frábær hugmynd og ákvað að prófa.

wp-1590434346705.jpg

De Stijl heitir kauði og er samstarfsbrugg með Ekta Brewing sem ég þekki lítt til.  Bjórinn var töluvert mildari en ég átti von á og ekki eins maltaður og amber en maltið þó vel merkjanlegt.  Bjórinn er þó með áberandi meiri bragðprófíl ef miðað er við hrísgrjóna lagerinn sem ég fjallaði um að ofan.  Þessi bjór algjörlega negldi þennan mat og gerði nákvæmlega það sem ég hafði vonast til.  Maltsætan og ristin dönsuðu vel með grilltónunum frá kjötinu, indversku kryddin komu líka skemmtilega vel út með þessum bjór og tvinnuðust kóríander, kardimommur, negull og allt hitt skemmtilega við karamelluristina frá korninu.   Sterkustu tónarnir frá lambaspjótunum milduðust ögn og lyftu meira að segja upp bjórnum og gerðu hann meiri.  Kolsýran var líka kærkomin á móti öllum þessum brögðum og fitunni en kolsýran „skefur“ einhvern veginn palletuna og opnar fyrir næsta bita.

Frábær pörun!

Svakaleg sænsk „kladdkaka“ með indversku chili súkkulaði ganache og þeyttum mynturjóma

wp-1590434457338.jpg

Góð veisla þarf að enda eftirminnilega að mínu mati og þessi gerði það svo sannarlega.  Jafnframt var hér besta pörun kvöldsins sem kom meira að segja mestu efasemdamönnum á óvart.  Þessi kaka er svakaleg, djúsí og klístruð með fullfermi af súkkulaði alveg eins og ég vil hafa það í eftirrétt.  Ofan á þessu var svo þykkt nánast eins og fudge súkkulaðikrem með indversku chili kryddi sem reif af og til í.  Svo kom stökk áferð frá ristuðu pistasíuhnetunum ofan á.  Ekki má svo gleyma þeytta rjómanum með fersku myntunni en myntan og kryddin í kökunni dönsuðu vel saman og myntan gefur líka léttleika og ferskan blæ í þetta allt saman.

Ég mun pottþétt gera sér færslu hér innan skamms bara með uppskrift af sænskri súkkulaðikladdköku með chili súkkulaðikremi og svo þessari pörun.   Þessi eftirréttur er svakalega þungur en gefandi, mér datt í hug að prófa tvo bjóra með.  Mjög hefðbundið er að nota stout, porter eða imperial stout með súkkulaðieftirréttum.  Hér er það tengingin við kaffið sem er augljós enda oft hægt að finna kaffitóna og súkkulaði í þessum bjórum.  Humlarnir gefa svo beiskjuna sem létta dálítið á þunganum.  Ég bauð því uppá Garúnu frá Borg.  Þetta er svakalega flottur bjór, rótsterkur og mikill með ögn sætu en þó vegur beiskjan þyngra og svo áberandi kaffiristin, jafnvel ögn lakkrís og súkkulaði.    Þetta er bjór fyrir þróttmikið fólk með sterka palletu.  Bjórinn gengur einn og sér sem eftirréttur ef út í það er farið.  Þessi pörun var skemmtileg, kaffið og súkkulaðið tengdu vel við og beiskjan opnaði vel upp þunga kökuna.  Beiskjan dró líka mikið upp chili hitann í kreminu sem var mjög skemmtilegt því ef eitthvað er hefði mátt vera meira chili í kökunni að mínu mati.

wp-1590434520599.jpg

Það sem sló hins vegar öll met var Blágosi frá Microbar & Brew (Gæðingi brugghús).  Blágosi er ofsalega skemmtilegur súrbjór eða svo kallaður gose sem er þýsk ættaður súrbjór, Blágosi er í grunninn Skyrgosi ketilsýrður með skyri og bragðbættur með bláberum, heilum helling alveg.   Bjórinn er ofsalega þægilegur með léttri sýru, ögn skyrkeim og svo ljómandi bláberjasýru.   Mér datt í hug að tefla þessum bjór fram á móti þungri kökunni til að létta aðeins á öllu.  Svo eru ber á borð við hindber, bláber og jarðaber alveg frábær með súkkulaðikökum yfirleitt.  Gosið í bjórnum og sýran opnuðu allt upp á gátt gerði kökuna auðmeltari og skópu pláss fyrir næsta bita, berin tvinnuðust dásamlega saman við súkkulaðið og sýran skapaði skemmtilegar andstæður við chili brunann.   Þetta var alveg mögnuð pörun og mun ég klárlega hafa þetta í mínum veislum þegar ég vil slá í gegn.