Gaurarnir í Borg brugghús sitja ekki auðum höndum þessa dagana, þeir eru á stöðugum þeytingi bruggandi bjór út um allar jarðir. Hér er það Tanker Brewery í Tallin Eistlandi. Bjórinn kalla þeir Chocosourus C8 og já það er líklega gert með vilja að skrifa „sourus“ en ekki „saurus“ þrátt fyrir risaeðluna á merkimiðanum því um er að ræða súrbjór. Í bjórinn nota þeir svo kakóhismi frá Omnon súkkulaðigerð sem skýrir fyrri hluta nafnsins dálítið. Já við erum að tala um spriklandi ferskan súkkulaðisúrbjór, ekki klassísk túlkun á stílnum en svo sannarlega skemmtileg. Súkkulaði og ber, er það ekki eitthvað? Súkkulaðihúðuð hindber eða jarðaber eru t.d. oooofsalega flott.
Bjórinn er ferskur og spriklandi á tungu með súrum undirtón og alls konar mildum ávöxtum. Það má svo finna örlítið súkkulaði í bakgrunni, það hjálpar reyndar að vita af
því í bjórnum samt. Bjórinn er ofsalega fallegur í glasi en froðan staldrar stutt við.
Mjög skemmtilegur súrbjór sem gengur svo sannarlega sem sumarbjór. Nú er um að gera að fylgjast með ef menn vilja næla sér í flösku en hann dettur í Vínbúðir og bari á næstu dögum. Venja er að um mjög takmarkað magn sé að ræða þegar kemur að collab!
MATARPÆLING: Þetta er bara skemmtilegur bjór einn og sér en ég veit að hann myndi elska djúsí súkkulaðieftirrétti með ferskum berjum á borð við hindber eða brómber t.d. Besta súkkulaðimús í heimi kemur sterklega til greina en þar erum við jú bæði með hindber,brómber og jarðaber í djúsí dökkri súkkulaðimús, þvílík pörun, ætli maður prófi þetta ekki bara um helgina? Svo gengur hvíta súkkulaðifrauðið með fersku ástaraldin einnig mjög vel með þessum. Já það er svo sannarlega gaman að vera til.