Lungnamjúk lambakóróna í heiðgrænum kryddhjúpi með belgískum Trappist bjór

Ragnar Freyr, læknirinn í eldhúsinu er ekki bara kollegi og góður vinur okkar hjóna heldur höldum við mikið uppá matseld hans og eldum oft rétti uppúr bókum hans.  Við ákváðum að bjóða honum og konu hans ásamt fleirum dásamlegum og góðum vinum okkar til veislu.  Dálítið til að fá álit smekkmanna á þessari pörun okkar sem okkur finnst amk frábær, og auðvitað líka til að njóta samverunnar.

Lungnamjúkar lambakórónur í kryddhjúp (að hætti Gordon Ramsay) með rauðlaukssultu og bökuðum gulrótum parað með Chimay Tripel, sem er belgískur Trappist af bestu gerð.  Við vorum reyndar með þrírétta þetta kvöld, í forrétt ein besta pörun okkar til þessa, mjúkur geitaostur með Peche ‘n Brett og í eftirrétt þessi dásemd, nutella ostakaka með Myrkva frá Borg.

Útkoman var stórkostleg, lambið svakalega meirt og gott og allir sammála því að kjöt og bjór hafi farið sérlega vel saman.  Sumir voru einfaldlega hissa á því hversu gott var að drekka bjór með lambinu, jafnvel hörðustu rauðvínsunnendurnir.

ÞAÐ SEM ÞARF (fyrir 8)

  • Lambasíða Frenched (miðað er við ca 3 kórónur á mann)
  • Gulrætur 1 kg, helst nettar og grannar
  • Rauðlaukssulta (keypt tilbúin eða heimagerð en þá þarf rauðlauk, balsamic edik og smjör og ögn síróp)
  • Dijon sinnep til að pennsla kjötið
  • Ferskt rósmarín 2-3 greinar
  • Ferskt timian 2-3 greinar
  • Ferksur kóríander alveg lúkufylli eða meira
  • Fersk steinselja, tvær lúkur eða svo
  • Fransbrauð, 8 sneiðar og ristaðar
  • Parmesan ostur rifinn, 1 bolli eða rúmlega 2 dl
  • Ólifuolía
  • Salt og pipar
  • Hlynsíróp á gulræturnar
  • Bjórinn, Chimay Tripel (hvítur miði)

Í sósuna

  • Tasty Rauðvínssósugrunnur (Bónus), 2 pakkar
  • Vatn ca 500ml
  • Rauðvín, 2-3 dl
  • Skarlottulaukur 3 stk, smátt skorinn
  • Hlynsíróp, 1,5 dl
  • Rifsberjahlaup eftir smekk
  • Soya sósa eftir smekk, 2-3 tsk
  • Rjómi 2,5 dl
  • Ferskt rósmarin , ca tsk af nálum
  • Ferskt timian ca tsk af laufum
  • Smjör, ca50g
  • salt og pipar

AÐFERÐIN:

Ok þetta er dálítið dútl, takið góðan tíma í þetta, allt í lagi að opna einn Chimay Tripel eða smella í rauðvínsglas með þessu.  Tónlist á fóninn og hafa gaman.  Trúið mér vinnan er vel þess virði í lokin.

20180302_162259-011 ) Það fer eftir hvernig þið fáið kjötið í hendurnar en ég var með 4 hálfa lambahryggi sem búið var að „franska“ (frenched, veit ekkert hvernig þetta er á ísl) sem einfaldlega þýðir að það er búið að hreinsa rifbeinin af kjöti og fitu.  Fínt er að skera þetta niður þannig að maður er með 3 kórónur í hverjum bita (3 rif), sjá mynd.

2 ) Skerið grunnar rákir í fituhliðina, kryddið ríflega með salti og pipar og nuddið inn í kjötið.  Hafið disk undir og þurrkið svo upp allt umfram krydd með kjötinu.

3 ) Brúnið og lokið bitunum á heitri pönnu með ögn óifuolíu.  Hér þarf að koma litur á allar hliðar.  Gordoninn segir, enginn litur, ekkert bragð!  Bitinn á að vera aðeins stífur en þó gefa aðeins eftir við þrýsting.

4 ) Látið kjötið bíða aðeins og byrjið á sósunni, hún þarf langan tíma.  Mýkjið laukinn, ásamt rósmarín og timían í smjöri á pönnu. Setjið rauðvínssósugrunn í pott, ásamt vatni og rauðvíni (2-3dl).  Sjóðið vel niður ca um helming af vökvamagni (bæta má við vatni eftir þörfum). Setjið laukinn útí,rósmarin og timían, hlynsíróp (1,5dl), rifsberjahlaup eftir smekk, sojasósu (ca 2-3mtsk) og lofið að malla í góðan tíma á meðalhita.  Bætið svo rjóma (2.5dl) úti og látið malla á lágum hita á meðan annað er undirbúið.  Í lokin er smjör (ca 50g) sett útí í teningum, pískið vel saman og svo salt og pipar eftir smekk!

5 ) Þegar sósan er komin af stað setjið þá kjötbitana í eldfast mót með fituhliðina niður, inn í ofn við 200 gráður í 7-8 mín.  Sigrún mín er sósu snillingur og ég fæ hana alltaf til að gera sósurnar þegar ég er að elda. Mér dettur ekki annað í hug.  Það er mjög gott ef einhver getur bara séð um sósuna hér á meðan þú sérð um allt hitt, það er nóg að gera.

6 ) Ef þið ætlið að gera rauðlaukssultuna sjálf þá þurfið þið að koma því að einhvers staðar inn á milli.  Þetta er frá lækninum í eldhúsinu. Skerið rauðlauk í þunnar sneiðar og steikið upp úr smjöri við lágan hita í 10 mínútur eða svo þangað til að hann er orðin mjúkur og góður. Smá salt, smá pipar og svo balsamic edik sem er síðan soðið upp – þannig að ljúft bragðið verður eftir. Í lokin setjið þið  rúma matskeið af lífrænu sírópi á og hrærið vel saman. Lagt til hliðar.

7 ) Á meðan kjötið er í ofninum er fínt að græja gulræturnar.  Flysjið þær og skerið endana af.  Best er að vera með grannar fallegar gulrætur og elda þær í heilu lagi, ef þær eru stórar er gott að skera þær til helminga endilangt.  Veltið uppúr hlynsírópi, salt og pipar og dálítið rósmarín og ólífuolíu.  Setjið í eldfast mót og inn í ofninn og bakið vel.

8 ) Takið kjötið út og pennslið með Dijon sinnepi og látið svo standa undir álpappír.

9 ) Útbúið kryddblönduna, skerið kantana af brauðsneiðunum og ristið létt í brauðrist.  Setjið í matvinnsluvél og kurlið í smátt.  Bætið svo rifnum Parmesan, og kryddjurtum saman við.  Pillið laufin af Rósmaríni og Timian, ekki nota stilkana.  Svo sletta af ólifuolíu og blandið vel þar til orðið fínkornótt of heiðgrænt.  Ef græni liturinn er ekki að nást þá bæti ég útí steinselju.

10 ) Setjið kryddblönduna á stóran disk og veltið svo kjötinu uppúr og hjúpið vel.  Þett er geggjað flott svona.   Bitarnir mega alveg standa dálítið svona undir álpappír.  Svo setjið þið aftur inn í ofn við 200 gráður í ca 3 mín til að fá aðeins stökka áferð rétt fyrir framreiðslu.  Skerið svo hvern bita niður milli rifjanna þannig að þið fáið stakar kórónur (3 stk úr hverjum bita) og raðið svo fallega á disk með meðlætinu!

IMG_6883.JPG

Við vorum með ofnbakaðar kartöflur með þessu, tilbúnar beint í ofn en það er svo sem bara smekksatriði, sé fyrir mér líka flotta rjómakennda hvítlauks kartöflumús.

PÖRUNIN:

Til að byrja með verð ég að koma inn á hve ótrúlega ljúft lambakjötið var, líklega með betri lambaréttum sem ég hef smakkað.  Lungnamjúkt og svo þessi dásamlegi…og ég meina dásamlegi kryddhjúpur.  Sjálfur Læknirinn í Eldhúsinu var yfir máta hrifinn!  Rótargrænmetið var ómissandi með með ögn sætum keim og svo kemur rauðlaukssultan ofsalega skemmtilega út hér.  Sósan er svo algjör draumur, konan mín kann sko að gera sósur maður minn.   Þessi er dálítið karmelliseruð með söltum en líka sætum blæ sem tengir vel við allt hitt og magnar upp réttinn.

Bjórinn, Chimay Tripel er sem fyrr segir belgískur Trappist af bestu gerð.  Trappist  er varðveitt vörumerki sem aðeins sá bjór má bera sem bruggaður er af alvöru munkum í alvöru munkaklaustri.  Eins og staðan er í dag eru 12 slík brugghús í veröldinni, flest öll í Belgíu. Munkarnir hafa algjörlega fullkomnað þá list að skapa bjór enda líklega nægur tími sem þeir hafa í svona dútl eða hvað? Bjórinn er þróttmikill en alls ekki eitthvað sem fólk ætti ekki að ráða við.  Belgíska ölgerið gefur gerkeim og krydd sem tengir svakalega vel við jarðartóna í lambakjötinu.  Beiskju er stillt í hóf í þessum belgísku bjórum og eru þeir oftast meira á sætari ávaxtanótum.  Kolsýran er einnig áberandi en hún kemur virkilega vel út með þungum og feitum réttum eins og lambakórónan er því kolsýran opnar allt saman upp og hreinsar pallettuna af fitubrákinni sem myndast af feitu lambakjötinu og sósunni.  Eins einhvern veginn hliðrar kolsýran til þannig að maður getur borðað meira án þess að verða saddur, flestir kannast við þetta t.d. með kók og kjötréttum ekki satt?   Chimay Tripel fæst í Vínbúðunum í flestum útibúum borgarinnar.

Njótið!

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s