Svakaleg hvítsúkkulaði kókos brownie með ítölskum marens og ástaraldin

Ég viðurkenni það að við á B&M erum mjög hrifin af sætum eftirréttum, það er bara eitthvað svo fullnægjandi við að enda góða máltíð á ljúfum og sætum nótum. Við höfum prófað ýmsa eftirrétti á veitingastöðum borgarinnar og það er einn sem stendur uppúr. Hvítsúkkulaði ostakakan á KOL er einfaldlega hrikalega góð. Við höfum meira að segja stundum farið út að borða á einu veitingastað en endað kvöldið með eftirrétt á Kol. Það má!

Við frúin höfum undanfarið verið að reyna að gera þennan rétt heima í eldhúsinu, vonarljósið kveiknaði fyrst fyrir nokkru síðan þegar Elísabet mágkona Sigrúnar bauð okkur í hvíta brownie með ristuðum kókosflögum. Þetta minnti nokkuð á réttin á Kol og gaf okkur hugmyndir til að þróa þetta áfram. Við bættum aðeins í kökuna, hvítu súkkulaði t.d. og svo höfum við þróað mascarpone krem ofan á með kókos og sítrónu. Svo þegar við bættum fersku ástaraldin og ítalska marensnum við var þetta eiginlega komið. Ástaraldin ísinn (gelato) fær maður svo t.d. hjá Valdísi eða einhverri af betri ísbúðum borgarinnar. Þetta er einfalt og skemmtilegt að gera. Endilega að prófa, best er að gera kökuhlutann sólarhring áður en borið fram.

ÞAÐ SEM ÞARF (það mætti í raun gera helmingi minni uppskrift)

Þetta er líklega nóg í efitrrétti fyrir 10 manns eða meira.

150 g ósaltað smjör
100 g hvítt súkkulaði
2 egg
2,5 dl hrásykur
1 tsk vanilludropar
½ tsk salt
1 sítróna
1,5 dl hveiti

4 eggjahvítur
½ tsk cream of tartar
200 g sykur

Kókosflögur, ristað á pönnu
3-4 ástaraldin
ástaraldinn sorbet/ítalskur ís (má sleppa en er geggjað með)

1 stk mascarpone ostur
2 tsk sítrónusafi
1 tsk kókosekstrakt

1 msk flórsykur

4-5msk rjómi

AÐFERÐIN

Kökubotninn

Best að byrja á kökunni, helst deginum áður en veislan fer fram því þá nær kakan að þéttast og verður meira djúsí. Látið smjörið (150g) og hvítt súkkulaði (100g) í skál og bræðið á vægum hita yfir vatnsbaði. Hrærið vel saman. Ef þetta virðist skilja sig þá er það alveg ok. Þetta fer allt saman þegar rest er bætt við. Látið þetta svo kólna aðeins.
Setjið svo 2 egg, 2,5 dl hrásykur og vanilludropa í skál og þeytið saman. Bætið svo ½ tsk salt, safa úr 1 sítrónu saman og hrærið áfram. Bætið svo 1.5 dl hveiti saman við og hrærið vel. Þegar þetta er allt komið saman er loks súkkulaðismjörblöndunni bætt útí og allt hrært saman. Svo er þetta sett í form, gott er að hafa smjörpappír í forminu og pennsla með olíu.

Bakið svo við 150 gráður í ofni í um 40 – 45 mín. Látið svo kólna og setjið inn í ísskáp til næsta dags.

Kremið

Heill mascarpone ostur, við ca stofuhita sett í skál. Bætið ½ – heilli tsk kókosextract saman við. Ég vil hafa smá kókosbragð af þessu og notaði heila tsk. 2 msk flórsykur, má vera 3 msk og loks 2 tsk sítrónusafi (má auka eftir smekk). Hrærið þessu saman með þeytara eða í hrærivél. Bætið svo dass af rjóma saman við og hrærið áfram. Hvað er dass? Ég hellti tvisvar úr rjómanum, líklega um 4 msk?

Passið að þeyta ekki of mikið þannig að rjóminn skilji sig og verði að smjöri.

Smyrjið þessu svo á kökuna og látið standa í kæli þar til tilbúið til framreiðslu.

Marensinn

Það eru til alls konar tilfæringar yfir hvernig maður gerir ítalskan marens. Ég nennti ekki að spá í því heldur gerði klassískan franskan marens og flamberaði það svo með brennara í lokin.

Sem sagt, setjið 4 eggjahvítur í skál, helst að láta standa í amk 20 mín áður en þið hrærið þær saman. Passa að ekki komist arða af eggjarauðu með. Skálin þarf að vera þurr og alveg hrein. Hrærið svo saman með ½ tsk cream of tartar á meðalhraða til að byrja með. Þegar þetta virðist vera komið nokkuð vel saman og farið að lofta um þá má auka hraðann. Þegar hvíturnar eru orðnar mjúkar og hægt að mynda toppa þá fer sykurinn útí. Bætið 200g sykri saman við, mjög varlega á meðan þið hrærið. Við erum að tala um ca matskeið í senn með mínotu millibili. Já þetta tekur tíma. Þegar allur sykurinn er kominn er hrært á góðum hraða áfram þar til blandan er orðin þykk og aðeins stíf og þið finnið helst ekki sykurkorn milli fingranna.

20190828_212038-01669838994.jpeg

FRAMREIÐSLAN

Skerið kökuna í bita, ca 3 x 10 cm kubba og setjið á diska. Létt ristið kókosflögur á pönnu og setjið til hliðar. Setjið marensinn strax í sprautupoka, varlega þó. Hafið hringlaga stút á og sprautið svo á diskinn fallegan marenstopp. Flamberið svo með brennara þannig að það komi aðeins litur á þetta.

Skerið ástaraldinn í tvennt og skóflið úr hálfum slíkum innvolsið og látið leka yfir kökuna og diskinn. Loks sáldrið þið kókosflögunum yfir þetta og berið fram.

Það er frábært en ekki ómissandi að hafa með þessu ástaraldin sorbet eða ítalskan ís (gelato). Ég hef prófað að kaupa ástaraldin ís hjá Valdísi en hann er frábær með þessu, ferskur og kaldur. Æi hann er eiginlega ómissandi með, amk ef þetta á að verða eins og á Kol. Ef þið hafið ísinn með þá bætið því honum síðast á diskinn, myndið kúlu eða ef þið getið svona möndlulagaða ískúlu og setjið á hvern disk og berið fram. Þetta er svakaleg hamingjubomba.

Með þessu eru nokkrir möguleikar, kampavín gengur alltaf með hvítu súkkulaði og ástaraldin. Frábært combo en ef maður er í bjór þá held ég að súrbjór væri snilld, ég er að hugsa Peche n Brett frá Logsdon en sá bjór er algjörlega magnaður súrbjór með ferskjum og ætti að fást enn í Vínbíðinni. Þetta verður líklega prófað á næstu dögum!

Sjúkar stout pecanhnetu brownies með ljúfum porter á sunnudegi

Sunnudagar eru oft leiðinlegir, já eða það finnst mér alla vega, einhvern veginn ekkert að gera og bara vinnuvika faramundan.  Það er vel hægt að lyfta upp deginum með einhverju góðu í gogginn.  Ég sá þessa uppskrift um daginn á instagram, theberonesse heitir „accountinn“ en þar eru að finna helling af spennandi bjóruppskriftum.

Ég er mikið fyrir súkkulaði, þannig er það bara og góð „brownie“ er himnasæla ef hún er vel gerð.  Hér er uppskrift sem er að slá í gegn hér á mínu heimili á þessum rigningar sunnudegi.  Það er allt í lagi að para við bjór á sunnudegi, það er enginn að fara detta í það svo sem. Ath, maður þarf eiginlega að baka þetta deginum áður og láta standa í kæli yfir nótt.

Bjórinn

20190330_155731-01893071815.jpeg

Það er reyktur stout í þessari uppskrift en eini bjórinn af þeim toga hér heima í vínbúðunum er Lava stout frá Ölvisholti en hann er líka virkilega ljúffengur og flottur í matargerð.  Ég hef oft gripið í hann t.d. við hægeldaðan grís, sósur og annað.  Það var hins vegar enginn Lava til í Vínbúðinni þegar ég ætlaði að henda í köku, það er í raun í lagi en reykurinn er dálítið einkennandi og sérstakur og ég vildi gera þetta eftir bókinni.  Ef þið finnið ekki Lava þá er hægt að nota bara þurran porter eða stout í staðinn.  Ég hins vegar á til nokkrar flöskur af Surti 30 frá Borg brugghús, bæði frá 2015 og 2016.  Þessi var ofsalega reyktur í upphafi en árin hafa mildað reykinn nokkið og er hann orðinn ljúfur sem lamb.

 

Það sem þarf í þetta

Fyrir brownie

  • 280g hafrakex (Digestive), mulin
  • 2  msk púðursykur
  • 90g bráðnað smjör og aftur 90g bráðnað smjör (notað á mism. stöðum)
  • 420g sykur
  • 135g ósætt bökunarkakó
  • 1 tsk salt
  • 3/4 bolli (um 164g) reyktur stout7porter
  • 1 tsk vanillodropar
  • 2 stór heil egg og tvær eggjarauður
  • 95g hveiti
  • 1/4 tsk reykt paprika

Fyrir pecan lagið

  • 2 msk reyktur stout
  • 1 bolli púðursykur
  • 1/2 bolli hlynsíróp
  • 2 egg
  • 1 tsk vanilludropar
  • 55g bráðið smjör
  • 57g (1/4 bolli) rjómi
  • 230g hakkaðar pecan hnetur
  • 1 sk salt

Aðferð

  1. Hendið 280g hafrakexi í matvinnsluvél, brjótið þetta niður fyrst og setjið 2 msk púðursykur saman við og blandið þar til orðið vel mulið.  Hafið vélina í gangi og bætið bráðna smjörinu (90g) saman við.  Blandið þar til þetta er orðið eins og blautur sandur.
  2. Pressið þessu ofan í ferkantað mót, 23 x 33cm (ég var með ögn minna og fékk því aðeins þykkari bita)
  3. Blandið saman afgangnum af smjörinu (90g), 420g sykur, 135g bökunarkakó, 1 tsk salt, 1tsk vanilludropar og bjórnum í hrærivél.
  4. Þegar þetta er allt sameinað bætið þið eggjunum út í, tvö heil egg og tvær eggjarauður.  Hrærið þar til vel blandað saman.
  5. Loks bætið þið hveitinu (95g) og reyktu paprikunni út í og hrærið létt þar til hefur blandast saman, ekki mikið meira en það.
  6. Hellið þessu svo yfir kexbotninn og inn í ofn á 180gráður í 20-25 mín.   Takið þetta svo út og lækkið ofninn í 160 gráður.

fyrir pekan lagið

  1. Þvoið hrærivélaskálina og blandið svo saman 2 msk bjór, 1 bolla púðursykur, 1/2 bolla sírópi, 2 egg, 55g smjör, 57g  rjóma og hökkuðu pecanhnetunum.  Blandið vel saman.
  2. Hellið þessu yfir brownie lagið þannig að það þekji alveg og bakið í 35 mín við 160 gráður.  Miðjan á að vera dálítið hreyfanleg en ekki eins og drulla.
  3. Matarfilma yfir og kælið í ískáp yfir nótt.

img_8608-01521321348.jpeg

Pörunin

Ok það skal sagt bara strax í upphafi, þetta er eins langt frá lágkolvetna eða keto fæði og hægt er enda er það bara allt í lagi líka.  Þetta er líka svakalega þungt í maga þannig að þessi uppskrift er líklega fyrir 12 manns, farið varlega.

Kakan er mjög djúsí og dálítið klístruð, salt er áberandi en svo er líka ákveðin sæta frá pecan laginu og súkkulaðið kemur auðvitað líka vel fram.  Ég finn lítið sem ekkert fyrir reyknum í bjórnum í þessu samt.  Þetta er dásamelgt í munni, 3-4 bitar alveg nóg held ég.  Rjómi eða vanilluís er fullkomin og jafnvel kærkomin viðbót við þetta.  Hér er svo hægt að bjóða kaffi með, það gengur alltaf með svona súkkulaði kökum en ef við viljum hafa bjór þá má það ekki vera of þungur bjór, það gæti endað illa.  Imperial stout og jafnvel stout er því úr myndinni hins vegar er porter léttari og mildari bjór og alveg ljómandi pörun.

Porter hefur margt sameignlegt með kaffibollanum, hann er til að byrja með svartur eins og kaffi en í hann er notað ristað malt sem gefur þennan lit en einnig létta rist og kaffikeim.  Oft koma einnig fram léttir súkkulaðitónar.  Bjórinn er með ögn beiskju en þó ekkert eins og IPA.  Beiskjan léttir vel á þessum rétt og klippir í gegnum smjörfituna og klístrið og opnar upp bitann í munni.  Kaffið og ristin tengja vel við súkkulaðið og hneturnar og draga dálítið úr sætunni sem getur orðið heldur mikil.  Súkkulaðið í kökunni dregur einnig fram súkkulaðikeiminn í bjórnum.  Þetta er mjög ljúft allt saman.  Við notuðum hér Myrkva frá Borg brugghús en það er ljómandi porter og meira að segja notað kaffi í hann, kaffi porter.

Stout súkkulaði kirsuberja baka með villtum kirsuberjabjór

Ég rakst á þessa uppskrift um daginn einhvers staðar og varð strax hugfanginn, þetta getur ekki verið vont.  Stout kirsuberja baka!  Ég hef verið að bíða eftir rétta augnablikinu til að henda í þetta og svo kom Rebekka Cherry Wild Ale frá Borg út og þá voru bara engar afsakanir lengur.  Hljómar eins og drauma combo og það kemur svo í ljós að það er  það svo sannarlega.

Ég er ekki flinkur að baka en mér tókst þetta og þá tekst ykkur þetta líka, líklega jafnvel betur.

Það sem þið þurfið:

Böku botn, (pie crust), það eru margir möguleikar, veljið það sem þið eruð vön að nota.  Hér er ein hugmynd.  Þessi er dálítið rífleg fyrir 31cm form.

  • 240g smjör
  • 180g flórsykur
  • 1 tsk salt
  • 60g möndlumjöl (fínt hakkaðar möndlur)
  • 1 stk egg
  • 1 stk eggjarauða
  • 470g hveiti

Fyllingin

  • 300g 70% súkkulaði brotið í bita
  • 4,5 msk ósaltað smjör
  • 3 msk hlynsíróp
  • 120ml stout
  • 4,5 msk rjómi
  • 2 og 1/2 bolli steinlaus kirsuber, má vera 3 bollar ef þið nennið

Þeyttur rjómi

  • 2 bollar rjómi (473ml)
  • 2/3 bolli flórsykur (158ml)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 2 msk stout

Bjórinn

  • Stout fyrir rjómann og fyllinguna.  Hér notaði ég Lepp frá Brothers Brewing sem er frábær í þetta.  Leppur er milk stout en þetta má vera hvaða stout sem er svo lengi sem hann er góður.
  • Kirsuberjabjór (kriek) eða flanders red.  Má svo sem prófa frambozen eða svipað.  Hér notaði ég Rebekku Cherry Wild Ale frá Borg sem er magnaður, ég prófaði líka Rauðhettu og Úlfinn frá Borg og Brekeriet sem kom álíka vel út.

IMG_8459

Aðferðin

Böku botn

Byrjið á bökunni, hafið allt hráefnið við sama hita og setjið saman í hrærivél nema 350g af hveiti.  Blandið þessu saman í vélinni, bætið svo afganginum af hveitinu eftir þörfum, ekki víst að þurfi allt.  Byrjið á að bæta við og notið hnoðarann á hrærivélinni, færið svo á borðið og hnoðið í höndunum.  Þetta á að vera aðeins rök klessa, ekki of þurrt. Kælið í ísskáp í 5 mín, því best er að vinna með deigið kalt.

Á meðan deigið er að kólna er gott að skera kirsuberin í tvennt og steinhreinsa, það er dálítið dúlt..

Takið svo tvær arkir af bökunarpappír, stráið smá hveiti á deigið og fletjið mjög þunnt á milli pappírsarkanna. Við erum að tala um ca 3mm þykkt.   Setjið svo deigið í böku form og látið standa í ca 30 mín. ATH miðað við 31 cm form þá verður afgangur af deiginu. Gott er að pikka nokkur göt í botninn. Loks er þetta bakað í ofni við 160 gráður þar til kominn er aðeins litur á þetta.  Þetta tekur um 20 mín.  Takið svo bökuna út og látið kólna alveg.

Fyllingin

20190323_153122.jpgBrytjið 200g súkkulaði, 3 msk smjör, 1/3 bolli stout og 2msk hlynsýróp í skál sem þolir hita.  Setjið ögn vatn í pott og látið malla á lágum hita.  Setjið skálina yfir og látið bráðana. Hrærið reglulega í með sleikju.  Passa að ekkert vatn komist í súkkulaðið, þá kekkjast allt.  Þegar þetta er bráðnað og komið vel saman bætið þið 3 msk rjóma saman við og blandið vel saman.  Loks hellið þið öllum kirsuberjunum saman við og hrærið saman þar til öll berin eru hulin súkkulaði.

Látið þetta kólna aðeins, þó ekki þannig að byrjið að storkna.   Hellið svo ofan í böku botninn sem er orðinn kaldur.   Dreifið vel úr og setjið svo plastfilmu yfir og inn í ísskáp í amk 4 tíma.  Best að láta þetta bara vera yfir nótt.

Rjóma toppur

Skömmu áður en þetta er borið fram er allt sett í skál og þeytt í hrærivél þar til myndast dálítið stífir fallegir toppar.  Smakkið þetta þetta er fáránlega gott.  Svo dreifið þið bara úr þessu ofan á kældu bökuna og skreytið með ferskum kirsuberjum.   Þetta má svo stífna aftur í ísskáp en þá verður rjóminn dálítið eins og stíft krem ofaná sem er líka gott.

IMG_8490-01.jpeg

Pörunin

Þetta er ofsalega skemmtilegt, kakan er svo glæsileg með dökkvínrauðum kirsuberjum og Rebekka kemur ofsalega vel út með þessu í glæsilegu flöskunni með korktappa og vírneti.  Allt voðalega elegant og spennandi að bera fram.  Gestir reka upp stór augu.

Kakan ein og sér er virkilega flott, 70% súkkulaðið og stoutinn í fyllingunni gefa áberandi beiskju og seltu en berin og sætur rjóminn ofaná jafna þetta aðeins út.  Útkomonan er flott og alls ekki væmin, frekar hallast þetta aðeins yfir í beiskju hliðina. Svo koma notalegir kontrastar fram þegar stökkur botninn mætir lungnabjúka rjómanum ofaná. Það góða við þetta er að börnin voru ekkert voðalega hrifinn og létu kökuna vera, ekki nógu sætt fyrir þau.  Ef maður vill hafa þetta meira barnvænt og væmið væri hægt að hafa 55% súkkulaði t.d.  En við viljum það ekki hér því bjórinn gerir það sem þarf.

Rebekka cherry wild ale er algjörlega frábær með þessu, léttur og sýrður með kirsuberjatónun og skemmtilegu gerkryddum.  Berin tengja saman við berin í kökunni og draga fram bragið þannig að maður áttar sig á að hér erum við með kirsuberja böku.  Sýran léttir á beiskjunni í kökunni og léttir á öllu og svo er eins og sætan í kökunni verði meiri sem líklega má hengja á kirsuberin í bjórnum.  Loks gerir kolsýran góðverk með því að kljúfa fituna í rjómanum og smjörinu í botninum upp og hreinsa þannig gómboga og bragðlauka.   Þessi blanda er geggjuð og ég verð að segja að hér er bjórinn ómissandi.

Við prófuðum líka Rauðhettu og Úlfinn sem er flanders red/IPA eða wild IPA.  Hér eru berjatónar á borð við kirsuber áberandi og bjórinn er funky og súr sem smellpassar við þessa böku.   Já hér eru alla vega tveir möguleikar en það má leika sér með aðra stíla líka. t.d. Gæti stout virkað vel eða porter, t.d. bjórinn sem við notum í fyllinguna og rjómann.   Hér var það Leppur (milk stout) frá Brothers Brewing en ég var bara búinn að drekka hann þegar kom að því að smakka bökuna.

Læknarnir í eldhúsinu með þriggja rétta bjórpörunar veislu

Það kom loksins að því að við nafnarnir Ragnar Freyr (Bjór & Matur) og Ragnar Freyr (Læknirinn í Eldhúsinu) blésum til veislu. Annar er klárari en hinn í sumu en hinn í öðru, eitt er þó víst að kollegi minn, góður vinur og algjörlega sturlaður kokkur, Læknirinn í Eldhúsinu, Ragnar Freyr Ingvarsson er mörgum skörum ofar en undirritaður í matargerð. Við höfum hins vegar báðir brennandi áhuga á mat og með því og ég vil meina að ég hafi amk bjórspekina á hann félaga minn í eldhúsinu ef ekki annað. Við höfum oft rætt það að leiða saman hesta okkar og leika okkur með að para mat og bjór og loksins er komið að því. Hér er afraksturinn, ég verð að segja að þetta kom gríðarlega vel út og var ákaflega gaman því við fengum til okkar góða vini til að njóta með okkur.
Lesa má nánar um uppskriftir og aðferðir hér á Læknirinn í Eldhúsinu en ég mun svona taka léttu yfirferðina og kafa meira í bjórinn. Við nafnarnir erum báðir hrifnir af
bjórnum frá Borg og því var borðleggjandi að nota bjór frá þessu frábæra brugghúsi við pörunina að þessu sinni. Þetta var virkilega skemmtilegur dagur en við félagarnir byrjuðum daginn snemma í eldhúsi meistarans. Þetta var þrírétta máltíð fyrir 6 fullorðna og 2 börn og mikið sem þurfti að gera en ég held að ef maður er skipulagður og byrjar daginn snemma að þá geti maður vel eldað þetta einn. Svo er alltaf gott að muna að þetta á að vera gaman, settu eitthvað gott í glas og ljúft á fóninn og eigðu góða stund í eldhúsinu með sjálfum þér, ja eða góðum vinum.

20190209_163111.jpg

Innkaupalistinn fyrir kvöldið:

Fyrir sushi forrétt

  • sushi grjón, einn poki
  • sushi edik 1 flaska
  • nori blöð 2 pakkar
  • lax, lítill biti
  • humarhalar, 5-6 litlir halar
  • avocado, 1 stk, skorið í þunnar sneiðar
  • gúrka, 1 stk, flysjuð og skorin í lengjur
  • gulrætur, skornar í lengjur
  • stökkt laxaroð (roðið af laxinum steik í olíu þangað til að það er stökkt eins og kex)
  • wasabi majones eftir þörfum (búið það til sjálf)
  • pæklað engifer, 1 krukka
  • Kikkoman Soyasósa, 1 flaska

Tempura deig

  • hveiti, 1 bolli
  • sykur, 1 msk
  • maísmjöl, 1 msk
  • salt, 1 tsk
  • lyftiduft, 1 tsk
  • kolsýrt vatn 1,5 bolli ( bætið við eftir þörfum, deigið á að vera dálítið eins og lím að þykkt)

Fyrir Bao Bun (fyrir ca 6-8)

  • þurrger, 3 tsk
  • vatn, 1,5 bollar, hitað í 20-25 gráður
  • hveiti, 5 bollar
  • sykur, 4 msk
  • lyftiduft, 4 tsk
  • matarolía 4 msk og svo um tvær til að smyrja skálina

Fyrir hægeldaða grísasíðuna (við vorum 6)

  • grísasíða, 2 tsk (t.d. úr Krónunni)
  • stjörnuanis, 2 stk
  • ferskur Chili, 1 stk niðurskorinn
  • rauðlaukur, 1 stk, skorinn í grófa bita
  • kulrætur, 3 stk eða svo, skornar í grófa bita
  • kanilstangir, 2 stk
  • Kikkoman Soya sósa, 4 msk
  • hlynsýróp, 4 msk eða aðeins meira
  • Garún 19.3, rúmlega ein og hálf flaska ( í soð og sósu)
  • smjör, ca 100g
  • hunang, ca 1 dl

Fyrir ribeye nautasteikina (við vorum 6)

  • ribeye nautasteikur 3 stk
  • júmfrúarolía, 3msk
  • Kikkoman Soya sósa, 3msk
  • límóna, 1 stk
  • ferskur Chili, 1 stk
  • engifer, um 5 cm
  • hvítlauskgeirar, 2 stk

Fyrir pæklað meðlæti

  • epli, 1 stk
  • pera, 1 stk
  • rauðkál
  • engifer, raspað niður, ca 5 cm
  • hvítvínsedik
  • rauðvínsedik
  • sykur og salt og smá pipar
  • ferskur rauður chili, 1 stk
  • rauðlaukur, 1 stk skorinn í ræmur

Fyrir bestu súkkulaðimús í heimi (fyrir 6+)

  • sykurpúðar, 150g
  • smjör, 50g
  • dökkt súkkulaði 250g (fínt að hafa 125g 70% og rest eitthvað gott dökkt súkkulaði)
  • heitt vatn, 60ml
  • þeyttur rjómi, 280ml
  • vanilludropar, 1 tsk

Hindberja mauk

  • frosin hindber, 300g
  • sykur, 1/2 bolli
  • súrbjór eða sitrónusafi, 2 msk
  • nýmulinn pipar, 1/2 tsk, má sleppa.

Bjórinn

  • Skoffín Nr C16 í fordrykk – skemmtilegur léttur og frískandi frá Borg
  • Esja Nr 60 – frábær wild ale frá Borg. (nánar hér)
  • Barabbas Nr 57 frá Borg, eða einhver annar belgískur Dubbel, (nánar hér)
  • Garún Nr 19.3 frá Borg í soð og sósu, má alveg vera bara Garún Nr 19 eða t.d. Nykur frá Borg svo lengi sem um ræðir öflugan imperial stout, helst tunnuþroskaður.
  • Skyrjarmur Nr 59, frá Borg (jólabjórinn 2018), svakalega skemmtilegur bláberja súrbjór með efittréttinum. (nánar hér)
  • Surtur Nr 8.2 frá Borg. Geggjaður tunnuþroskaður imperial stout sem „nicht cap“ eftir þetta allt saman, eða með eftirréttinum í stað Skyrjarms.

IMG_8085-01.jpeg

Aðferðin

Ok við Ragnar vorum tveir í þessu og það tók okkur dálítinn tíma að græja þetta, kannski líka af því að við vorum að masa dálítið og skrattast í Snædísi konu hans, svo bættist Maggi vinur okkar í hópinn um kvöldið og aðstoðaði okkur við eitt og annað á meðan dömurnar skelltu sér í pottinn. Það er samt alveg hægt að gera þessa máltíð einn, maður þarf bara að skipuleggja sig vel. Byrja á því sem tekur tíma að lyfta sér/ eldast eða stífna . Bao Bun þarf t.d. að lyfta sér í klst og svo aftur í um 60 mín. Sushi grjónin þurfa að standa líka í um klst fyrir suðu. Svo er auðvitað grísinn sem kúrir í ofni í einhverja tíma. Súkkulaðimúsin þarf að stífna í tvo tíma ca þannig að gott er að hafa þetta í huga.

Ég held að það þurfi að byrja svona um hádegi ef boðið er um kvöldið sama dag. Þar sem við vorum tveir gátum við skipt milli okkar verkum og settum grís og naut af stað á sama tíma og bao brauðin og sushi grjónin. Svo komu gestirnir þegar við vorum komnir vel af stað. Við sendum dömurnar í pottinn með Skoffín Nr C16 frá Borg í fordrykk. Maggi fékk líka Skoffín á meðan við létum hann rúlla nokkrum sushi lengjum upp. Skoffín er þægilegur og léttur, 3.8% blanda af Snorra frá borg og kombucha sem er eins konar te af Mansjúríusveppnum sem var vinsæll hér heima fyrir áratugum síðan. Þessi blanda verður skemmtileg og létt með hressandi kolsýru. Maður finnur nokkra sætu í bland við te og svo gerkrydd og jurtir frá bjórnum. Mjög næs að byrja kvöldið á svona léttmeti.

Ferskt og djúpsteikt sushi með lax, humar og stökku laxaroði.

Sushi gerð er mun einfaldari en maður heldur, ég hef gert þetta mörgum sinnum. Það eru til nokkrar aðferðir við að undirbúa grjónin, hér er sú sem ég nota. Reikna má með ca 2 klst í heildina fyrir þetta. Þegar grjónin eru klár er þeim dreift yfir nori blöðin og svo raðar maður fyllingunni á. Í eina rúllu settum við wasabe-majones, lax, steikt laxaroð, gulrætur og pæklaðan engifer. Í hina wasabe-majones, humar, gulrætur og avokadó.

Þessu er svo rúllað upp á bambus mottu og svo skorið í hæfilega maki bita.

Svo er það tempur deigið, fljótlegt að gera, passa bara að hafa ekki of þunnt. Bæta hveiti eða nota minna vatn ef eins og mjólk.

  • Hveiti, 1 bolli
  • Sykur, 1 msk
  • Maísmjöl, 1 msk
  • Salt, 1 tsk
  • Lyftiduft, 1 tsk
  • Kolsýrt vatn 1,5 bolli ( bætið við eftir þörfum, deigið á að vera dálítið eins og lím að þykkt)

Hluti af maki bitunum var svo velt upp úr deiginu og djúpsteikt í olíu þar til orðið fallega gyllt að utan. Afgangs humarhalar fóru sömu leið.

Svo er þessu raðað fallega á disk með wasapi, pækluðum engifer og soyasósu.

Langelduð grísasíða með beini og dásamlegri Garún sósa

Sennilega er best að koma kjötinu af stað áður en allt hitt er gert því svo kúrir það bara í ofni á meðan við græjum rest og fyllir eldhúsið að dásamlegum kryddilm. Hér má lesa nánar aðferðina en í raun er þetta sára einfallt. Grísasíðan er bara sett í eldfast mót sem hægt er að loka. Svo hellum við amk einni flösku af Garún 19.3 eða sambærilegum bjór yfir. Hér er allt í lagi að fá sér einn sopa, þessi bjór er svo svakalegur. Svo eru það gróft skornar gulrætur (ca 3), rauðlaukur (1 stk), 2 stk stjörnuanis, 2 kanilstangir og ferskur chili (rauður). Svo hellir maður yfir þetta um 4 msk hlynsýróp og 4msk Kikkoman Soya sósu. Lok yfir og svo inn í ofn við 155 gráður í amk  3-4 klst. Ragnar notaði samt líka einhver piparkorn í þetta, svartan pipar og rauðan!
Takið svo síðurnar upp og setjið á bretti, skerið puruna af og hendið í ofn við 220 – 250 gráður þar til hún verður stökk. Passið að brenna ekki. Skerið svo af beininu og leggið í eldfast mót og pennslið smá soði yfir og grillið á blússandi grilli eða ofni í eina til tvær mínotur.  Lokst er grísasíðan sneidd í þunnar sneiðar og látið standa undir álpappír á meðan annað er undirbúið.

IMG_8125-01.jpeg

Dásamleg Garún niðursoðin sósa

Ekki henda soðinu í kringum grísinn. Sigtið þetta í pott, pressið líka vel öllu gumsinu í gegnum sigtið ofan í pottinn. Svo vel rúmlega hálf flaska af Garúnu 19.3. Setjið svo á suðu og látið sjóða dálítið niður ca um helming þar til orðið þykkt, hrærið reglulega í. Lækkið svo hita og bætið helling af hunangi út í, ca 1 dl svo er þetta bara látið malla í amk klst eða tvær. Undir lokin er um 100g af smjöri bætt útí og látið malla aðeins lengur. Sósan á að verða hnausþykk og glansandi eins og sýróp. Ef hún er of sölt/beisk, þá bætið þið meira hunangi út í. Þessi sósa var rugl góð og gríðarlega bragðmikil. Við nafnar fengum feitt prik fyrir þessa sósu þetta kvöld.

Grilluð nauta ribeye

Þetta er tekið beint af síðu Læknisins í Eldhúsinu. „Lagði steikurnar í skál, nuddaði með jómfrúarolíu, soya og lime safa. Blandaði hvítlauk, engifer og chilli saman við ásamt smáræði af niðurskorinni steinselju. Fékk svo að marinerast í nokkrar klukkustundir á meðan við undirbjuggum meðlæti og annað sem er að finna í þessari færslu. “  Grillið svo á pönnu í þrjár mínútúr á hvorri hlið, má líka grilla úti á grillinu ef veður er gott. Sneiðið svo í þunnar sneiðar og sáldrið ferskri streinselju yfir áður en það er borið fram.

Pæklað meðlæti

Texti beint af síðu Læknisins í Eldhúsinu

Við gerðum þrjár tegundir af pækluðu meðlæti. Skar niður smáræði af rauðkáli, raspaði fimm cm af engifer saman við og huldi með hvítvínsediki. Bragðbætti með einni matskeið af sykri og salti. Smá pipar.

Skar svo niður eitt grænt epli og eina peru og huldi með hvítvínsediki. Bætti svo hálfum rauðum chilli saman við og bragðbætti með einni matskeið af sykri og salti.

Svo var það rauðlaukurinn. Einn rauðlaukur skorinn í þunnar sneiðar, huldi með hvítvínsediki, bragðbætti með einni matskeið af sykri og salti. Smá pipar.
Allt þetta lét ég standa út á borði í nokkrar klukkustundir á meðan við undirbjuggum allt annað sem er að finna í þessari færslu.
Auk þess að vera með pæklað meðlæti vorum við einnig með ferska næfurþunnt skorna agúrku, papríku og ferskan kóríander (fyrir þá sem eru ekki með ofnæmi).

Gufusoðið Bao brauð

20190211_194728-01.jpeg

Setjið vatn 1.5 bollar í skál, hitið í um 22-25 gráður og látið gerið útí (3 tsk) og hrærið létt. Látið standa aðeins, ca 1-2 mín. Bætið svo 4msk matarolíu saman við og hrærið aftur og látið svo standa.

Setjið 4msk sykur, 5 bolla hveiti og 4 tsk lyftiduft í skál fyrir hrærivél og blandið létt. Notið hnoðara hausinn og blandið á meðan þið hellið gervatninu yfir rólega. Aukið svo hraðan og látið vélina hnoða deigið þar til það er komið saman í kúlu. Hnoðið svo restar saman við og hnoðið deigið, það á ekki að vera klístrað þannig að það festist við borið. Bætið þá ögn hveiti og hnoðið ef þannig er.

Pennslið svo skál með restinni af olíunni, setjið deigið í, plastfilmu yfir og látið standa á ekki of köldum stað í amk klst.

Þegar deigið er orðið tvöfalt er það hoðað létt saman og mynduð lengja. Deigið á að vera létt og dúnamjúkt hérna. Skerið svo lengjuna í hæfilega bita ca 25 stk. Prófið t.d. einn bita fyrst, fletjið hann út í disk í lóanum, rétt rúmlega lóastór og um 2-3mm þykk. Notið svo kökukefli til að fletja út áboði. Þetta gerið þið við alla bitana. Pennslið helminginn með olíu og lokið þannið að það myndast hálfmáni. Setjið á bökunarpappírsbúta, einn hálfmáni á hvern bút og látið svo lyfta sér í 60 mín eða svo undir þurru viskustykki.

Svo er bara að gufusjóða í um 7 mín. Þetta er best gert í bambus gufugræju yfir wokpönnu með vatni í, passið að láta ekki vatnið ná upp í gufugrindina.

Besta súkkulaðimús í heimi

Ég hef skrifað um þessa frábæru súkkulaðimús áður og vísa ég því bara í þá færslu mína hér. Þetta virkar alltaf, ég meina hver elskar ekki súkkulaði. Reyndar settum við smá romm í þetta að þessu sinni bara til að ná aðeins spennu í þetta. Munið bara að músin þarf að stífna í ískáp í ca 2 klst. Svo þarf hindberjagumsið líka aðeins að kólna. Passið að nota bara örlítið af hindberjagumsinu ofan á músina. Þetta á að vera örþunnt lag.

Pörunin

Dúpsteikt og hefðbundið humar og laxa sushi með Esju Wild Ale frá Borg.

Það var virkilega gaman að elda í eldhúsi Læknisins í Eldhúsinu en það er í raun fullbúið professional eldhús. Svo er aldrei leiðinlegt að vera nálægt nafna mínum Ragnari Frey svo mikið er víst, hress karl með gríðarlega nærveru. En ef við byrjum á sushi forréttinum þá kom hann svakalvega vel út svona djúpsteiktur í tempura deigi, bæði humarinn og laxinn elduðust í gegn og fengu á sig rjómakennda áferð með hrísgrjónunum og grænmetinu. Þannig bítur maður í gegnum stökkt tempuradeigið og lendir svo í mjúku innihaldinu. Grjónin pakka fiskinum vel inn sem nýtur sín til fulls og svo kemur ögn bruni í bakgrunni frá wasabi majonesinu. Þetta toppar maður svo með söltu soyja sósunni. Bjórinn með þessu þarf að geta ráðið við allt án þess að skemma það. Esja Nr 60 er frábær bjór sem ég hef áður fjallað um, reyndar einstakur bjór í íslenskri bjórsögu ef út í það er farið. Bjórinn, sem er af gerðinni wild ale, er dálítið kolsýrður sem er mjög gott með þessu því kolsýran skefur skánina af gómnum sem myndast af sætum grjónunum og tempura deiginu. Það er létt sýra í bjórnum, eða kannski meira hinn einkennandi funky keimur sem tónar vel við fiskinn og svo er það þessi dásamlega eik sem kemur vel fram í bjórnum. Eikarkeimurinn á rosalega vel við djúpsteiktu bitana sérstaklega. Þetta var frábær pörun sem ég mun án efa endurtaka á meðan Esja fæst í vínbúðum.

20190209_213258.jpg

Hægelduð grísasíða og grillað nautaribeye í gufusoðnu Bao brauði með Barabbas Nr 57 frá Borg.

Við vorum með alls konar til að fylla bao brauðin, annars vegar hægeldaða grísasíðu og svo grillað nautaribeye. Ofan á þessi prótein vorum við svo með þrenns konar piklað, piklaðan rauðlauk, piklaðar perur og epli og piklað rauðkál með engifer en svona feitir réttir þurfa sýru til að opna allt upp á gátt og tóna niður fituna. Svo vorum við með stökka svínapuru sem við muldum niður til að gefa stökka áferð á móti dúnamjúku bao brauðinu og alla fituna. Svo er kóríander, já ég gæti haldið langan fyrirlestur um þessa jurt sem er ein af Guðs gjöfum til okkar mannanna, kóríander gerir allan mat og bara lífið sjálft svo ljúft. Ég mæli með því með bæði nauti og grís hér og ekki bara nokkur lauf heldur heila lúku. Svo er hægt að nota ýmsar sósur ss siracha sem alltaf er góð með svona „street food“, eða heimalagað chili majones en við vorum með vægast sagt sturlaða Garún sósu/sýróp með þessu. Þegar maður sýður svona sósu í 2 til 3 tíma með hunangi og svo smjöri gerist bara eitthvað undravert. Sósan er svo þykk, bragðmikil og rík, þar sem við finnum saltan soð-bakrunninn, stjörnuanis, kanil og svo ristuðu tónana og kaffið frá korninu í bjórnum í bland við karamelliserað hunangið. Allt þetta tvinnast svo saman í stórbrotna og flókna heild sem kemur fullkomlega á móti fitunni í kjötinu og öllu þessu súra pikklaða. Bjórinn hér með getur verið á nokkra vegu, við verðum samt að átta okkur á að hér er þróttmikill réttur á ferð með alls konar bragðflækjum og stigum. Bjórinn þarf að vera dálítið mikill en alls ekki of en hann getur ekki verið mildur og léttur því þá hverfur hann bara og við gætum allt eins verið í vatn.

IMG_8117-01.jpeg

Bjórinn sem ég valdi með þessu var páskabjórinn frá Borg frá síðasta ári (2018), sem sagt næstum árs gamall Barabbas , 7% belgískur dubbel af bestu sort. Bjórinn er virkilega góður matarbjór, mildur og mjúkur með fína sætu frá möltuðu bygginu og svo er þægileg kolsýran að gera heilmikið fyrir heildar upplifunina en belgískir bjórar eru gjarnan dálítið vel kolsýrðir. Sætan og karamellukeimurinn frá maltinu tengir vel við karamelliseringuna í kjötinu og sósunni og svo vegur sætan vel á móti beiskjunni og saltinu í sósunni og hitanum frá siracha. Það er líka mikil fita í þessu kjöti en kolsýran í bjórnum vinnur vel á henni og losar um hana af gómbogum og hreinsar palletuna og gerir hana klára fyrir næsta bita. Sýran frá piklaða grænmetinu er svo algjörlega nauðsynleg sem frábært mótvægi við salt, sætt og beiskt bæði í bjór og mat. Saman verður þetta alveg mögnuð upplifun.
Við vorum líka með Úlf Nr 3 frá Borg en það er spriklandi og hressandi IPA með beiskju og aðeins bit. IPA er ekki allra en hann er mjög flottur með feitum mat og kemur skemmtilega út á móti söltum eða sterkum mat. Humlarnir í bjórnum krydda réttinn en þeir eru líka góðir í að vinna á feitum sósunum og fitunni í kjötunu og klúfa upp á gátt og opna þannig réttinn. Einnig hreinsa humlarnir vel pallettuna á milli bita, þessi skán sem stundum myndast í gómu þegar við borðum feitmeti hverfur alveg eftir hvern sopa. Saltið og chiliið í matnum hins vegar vinnur á bjórnum og rífur aðeins upp beiskjubitið og gerir bjórinn dálítið grimmari en annars er.

IMG_8133.JPG

Frábær súkkulaðimús með hindberjamauki og bláberja súrbjór, Skyrjarmi frá Borg.

Þessi mús er geggjuð og en þung. Maður ætti að láta sjatna vel áður en þetta er borið fram og hafa skammta litla. Hindberja hlaupið léttir á þessu samt en gæti orðið væmið ef notað er of mikið. Með sætum eftirréttum með súkkulaði er klassískt að para saman stout eða enn betra imperial stout, þetta virkar dálítið eins og vel þekkt combo, kaffi og eftirréttir nema er bara mun betra. Í kvöld var hins vegar ákveðið að fara í aðeins léttari bjór, stórkostlegan bjór reyndar, Skyrjarm Nr 59 sem var einn af jólabjórunum frá Borg þetta árið. Bjórunn er súr með helling af bláberjum og skyri. Þetta virkar eins of fullkomin dressing á efirréttinn og eftir á að hyggja hefði verið flott bara að sleppa hindberjagumsinu og láta bjórinn gera það sama fyrir réttinn. Sýran og sætan frá bláberjunum létta vel á þungu súkkulaðinu og tengir einnig við berin í hindberjahlaupinu, vá hvað þetta var gott.

IMG_8141 (1).JPG

Eftir svona stóra mikla máltíð eru sumir sem setjast í betri stofuna við arininn með koníak eða whisky en það er líka hægt að opna einn svakalegan 14.5% Surt Nr 8.2 sem er sætur imperial stout þroskaður á notuðum bourbon tunnum í nokkra mánuði. Bjórinn er svakalegur, þróttmikill og margslunginn með sætum maltkeim og ögn vanillu og svo kemur notaleg bourbon tunnan vel í gegn. Eftir einn svona þá er maður til í háttinn.

Frábært kvöld, takk fyrir mig Ragnar Freyr!

Hættulega góð súkkulaði truflu romm marens kaka með imperial stout

Enn ein mögnuð uppskrift frá Nigella Lawson.  Þvílíkur unaður…segi ég sem er háður súkkulaði, kannski ekki alveg hlutlaus.  Þessi uppskrift er frekar einföld (t.d. gat ég gert hana nokkuð slysalaust) en það erfiða við hana er að maður þarf að bíða í einn jafnvel tvo daga eftir að hún verði klár.   Þegar ég skellti í þessa uppskrift var ég í súkkulaði fráhvarfi og ætlaði að bæta heldur betur úr því, ég hafði ekki lesið uppskriftina til enda þegar ég byrjaði.  Ég reyndar strandaði fljótt þegar ég komst að því að ég átti ekki romm sem er algjörlega ómissandi í þessu.  Hreimur nágranni minn bjargaði mér hins vegar fyrir rest og ég gat haldið áfram en svo rak ég augnun í að kakan á að standa í einn til tvo sólarhringa í ísskáp!  Jább ég mæli sem sagt með því að fólk hafi eitthvað súkkulaðigott að maula á meðan þessi kúrir í kælinum.

Það sem þarf:

Fyrir botninn

1-2 eggjahvítur (fer eftir stærð)
50 g hvítur sykur
2 tsk bökunar kakó
1-2 dropar hvítvíns edik

Fyrir músina sjálfa

400 g dökkt súkkulaði (70%)
60 ml Romm
60 ml gyllt síróp
500 ml þeyttur rjómi
Bökunar kakó til skreytingar

Bjórimperial stout, helst eitthvað tunnuþroskað, ég tala nú ekki um rommtunnuþroskað.  Founders KBS er snilld með þessu sem og Borg Surtur nr. 38 vanillu stout.  Ég prófaði fleiri sem komu mjög vel út líka, Founders Imperial Stout og Borg Garún.  Ef hins vegar þið viljið létta á þessu þá er kriek (kirsuberja súrbjór) alveg geggjaður með, tékkið á því líka.

Aðferð:

1) Ofn í 180 gráður á blástur.  Smyrjið svo hliðarnar á 20cm spring formi og smjörpappír í botninn.

2) Þeytið eggjahvíturnar þar til þær eru orðnar froðukenndar og þið getið myndað toppa.  Mér finnst best að nota handþeytara því þá fæ ég meiri tilfinningu fyrir þessu.  Bætið svo sykrinum í smá skömmtum og þeytið áfram á lægri stillingu.  Þið eigið að enda með þykka glansandi blöndu.   Sáldrið kakói yfir og edikið og þeytið aðeins áfram til að sameina þetta allt.  Loks dreifið þið þessu í formið og reynið að slétta þetta út eins og þið getið.

3) Bakið þetta í ofninum í 15-20 mín.  Takið svo út og látið standa þar til orðið kalt.

4) Takið fram skál og setjið vatn í pott.  Ekki láta vatnið snerta skálina, látið malla, ekki sjóða.  Bræðið svo súkkulaðið ásamt sýrópi og romminu.  Passa að enginn raki komist í þetta því þá fellur þetta allt saman út og klumpast saman. Takið svo skálina af hitanum og látið standa í 5 mín eða svo til að kólna.

5) Þeytið rjóman þar til hann er farinn að verað aðeins fluffy og þéttur.  Ekki þeyta um of samt.  Blandið svo rjómanum varlega saman við súkkulaðið þar til þetta er orðið að dásamlegri súkkulaði romm blöndu.  Reynið að standast það að smakka þetta, ég mana ykkur, það er ekki séns.

6) Hellið þessu svo í formið ofan á marens botninn.  Sléttið úr og setjið svo plastfilmu yfir og inn í ískáp í alla vega sólarhring, helst tvo.  Jább sorry þannig er það bara!

7) Þegar þið loksins ætlið að bjóða uppá herlegheitin þá er gott að taka formið út úr ísskápnum og látið standa aðeins áður en þið losið úr forminu.  Ég myndi ekki reyna að taka kökuna af form botninum nema þið séuð rosalega klár, hann kurlast upp auðveldlega.

IMG_7293

Ok kakan er geggjuð, þetta er án gríns alveg „trufflað“ dæmi 🙂  Passið ykkur bara á að fá ykkur ekki of stóra sneið því þetta er mjög þungt í mallakút.  En fyrir súkkulaðifólk þá er þetta líklega eitt það besta sem hægt er að bjóða uppá.  Í raun held ég að við eigum að líta á þetta sem konfekt eftir góða málsverð, ekki köku.  Kaffi væri fínt með eeeen við erum að spá í ölinu sem er mun skemmtilegra ekki satt?   Hér langaði mig að máta þungan mikinn og djúsí imperial stout við, helst einhvern sem hefur legið á rommtunnu en slíkt fæst auðvitað ekki hér en ef við ættum t.d. Pirate Bomb frá Prairie Artisan Ales þá væri það skemmtileg pæling því þar fáum við aðeins rommið í gegn.   Bourbon þroskaður bjór verður að duga og það er sko aldeilis ekki slæmt val.  KBS frá Founders er frábær með þessu en hér erum við með þungt á móti þungu þannig að við þurfum að fara varlega.  KBS er bruggaður með kaffi m.a. og látinn þroskast á bourbon tunnum í marga mánuði.  Útkoman er mjúkur mikill bjór með ristuðu korni sem gefur m.a. súkkulaðikeim, svo er espresso og loks bruninn frá boubon tunnunni.  Stundum má finna notalega vanillu og jafnvel kókos í geng frá eikartunnunni.  KBS er annars mjög merkilegur bjór og alls ekki sjálfsagt að komast yfir hann.

Við prófuðum einnig Surt 38 frá Borg sem er enn til í Vínbúðunum.  Hér erum við með öflugan en sætan imperial stout sem bruggaður er með vanillu.  Við erum þannig með ofsalga flott mótvægi við beiskjuna og þunganum í kökunni, hér kemur sætan í bjórnunm og vanillan ofsalega vel út.  Beiskjan frá humlunum í þessum bjór létta á á öllu og opna upp fyrir næstu bita.  Mjög flott combo.  Prófið einnig Garúnu frá Borg, hún gerir það sama nema gefur meira kaffi og beiskju í þetta allt.

Ef ykkur finnst þetta of mikið af því góða, prófið þá að létta á þessu með ferskum hindberjum ofaná kökuna eða smá þeyttan rjóma.  Eins er hægt að nota spriklandi súrbjór á borð við Kriek eða Frambozen til að gera það sama.

Gómsæt Sítrónu Marengs Terta með bjór á súru á nótunum á konudaginn?

Nú er konudagurinn á morgun og þá er nú eins gott að græja eitthvað trít fyrir konuna.  Ég er forfallinn súkkulaði fíkill og reyni að nota öll tækifæri til gera eftirrétti þar sem súkkulaði er í aðalhlutverki.  Hins vegar er ekki hægt að hugsa um eigin hagsmuni þegar kemur að því að gera vel við hinn helminginn, maður verður stundum að láta undan.  Konan mín féll algjörlega fyrir sítrónu marengs tertu sem við fengum okkur í París fyrir nokkrum árum síðan.  Þetta var reyndar ofsalega gott og fór vel niður með frönsku kampavíni af bestu sort, ég verð bara að viðurkenna það.  Ég ákvað því að reyna að líkja eitthvað eftir þessu og sem oft áður kíkti ég á vefsíðu Nigellu og fann þessa uppskrift hér.  Það er gaman að lesa á síðunni hennar að hún gafst upp fyrir löngu síðan að reyna að gera  hefðbundna stírónu marengs tertu, þær voru bara aldrei nægilega fullkomnar hjá henni að hennar mati.  Þessi uppskrift á að vera einfaldari en alls ekki síðri.   Sigrún mín var alla vega virkilega sátt!

Það sem þarf í þetta (gott að smella bara mynd af listanum hér) :

Í botninn

  • 125 g mjúkt ósaltað smjör
  • 4 stór egg, annars 5, rauður og hvítur aðskildar, rauðurnar fara í botninn
  • 100 g sykur
  • 100 g hveiti
  • 25 g maís mjöl
  • 1 tsk lyftiduft
  • ½ tsk matarsóti
  • rifinn börkur af 1 sítrónu
  • 4 tsk sítrónusafi
  • 2 tsk mjólk

Í marenge-inn

  • ½ tsk „cream of tartar“
  • 200 g sykur
  • eggjahvítur úr 4 eggjum

Annað

  • 150 ml þeyttur rjómi
  • 150 g „lemon curd“, ég notaði 320g (heil krukka)

Bjórinn með

Súrbjór með ögn beiskju biti ss Sur Simcoe frá To Øl.  Eins kemur berliner weisse vel til greina, prófið t.d. Stone Berliner Weisse já eða Brjánsa frá Borg ef hann er enn til. Svo er belgíski gueuze alveg stórbrotinn með þessu líka. Tropical Rumble frá To Øl er geggjaður með þessu líka en hann er hlaðinn tropical ávöxtum og er með notalegt bit frá Mosaci humlum sem er nauðsynlegt hér.

Aðferð:

IMG_6946Ok til að byrja með verð ég að taka fram að ég er virkilega lélegur með eggjahvítur og svona marenge.  Ég ælta líka að viðurkenna að marenge dæmið mitt féll í fyrstu umferð hjá mér en útkoman var samt geggjuð. Það sést vel á myndinni að ofan að marenge lagið er ansi aumingjalegt og ekkert í líkingu við það sem maður sér hjá Nigellu. Ég veit samt hvað klikkaði, komum að því á eftir.  Viðbót, ég endurtók þetta á 2. í konudegi og þá lukkaðist þetta svona líka vel (sjá hér til hliðar).

 1. Byrjið á að forhita bakarofn í 190 gráður.  Finnið til tvö hringlaga form, 21 cm í þvermál og smyrjið með smjöri.

2. Blandið eggjarauðum, 100 g af sykrinum, mjúka smjörið, hveiti, maís mjöl, lyftidufti, matarsóda og sítrónu berki í blandara og blandið vel.  Bætið svo sítrónu safanum og mjólk við og blandið áfram.

3. Deilið blöndunni milli formanna tveggja.  Hér fær maður smá panic, þetta virðist voðalega lítið en þetta nær samt að dekka formið.  Bara anda með nefinu og dreifa úr þessu í formin.

4. Þetta finnst mér alltaf erfiðast.  Þeytið eggjahvíturnar og „cream of tartar“ vel í þeytara (hrærivél) þar til þið fáið rjómakennda áferð og hægt er að mynda toppa.  Stillið svo á aðeins hægari stillingu á þeytaranum, og þeytið meðan þið bætið sykrinum (200g) smátt og smátt saman við.   Ég hrærði honum varlega saman við í fyrstu tilraun með sleif en þá held ég að hvíturnar hafi fallið hjá mér, alls ekki gera það.  Ég gerði þetta í hrærivél í annað sinn og þá var þetta flott.  Blandan á að verða  töluvert þykk og stíf í lokin. Deilið svo blöndunni á milli formanna og dreifið úr.

5. Svo er Nigella með einhverjar tilfæringar, í annað formið á maður að slétta vel úr eggjahvítunum með málmspaða en hitt formið þá notar maður bakhliðina á skeið til að ýfa upp og mynda toppa í yfirborðið.   Stráið svo ögn sykri yfir toppana. Smellið báðum formunum svo í ofninn í ca 25 mín.

6. Látið svo botnana kólna alveg.  Takið slétta botninn (þann sem þið gerðuð ekki toppa í) og snúið á hvolf (marengs hliðin niður) á kökudisk.

7. Þeytið rjóma, ekki þannig að verði alveg stífur samt.  Dreifið svo „lemon curd“ yfir botninn og svo rjóma þar yfir.  Takið svo hinn botninn og leggið ofaná þannið að hliðin með marengs toppunum snúi upp.  Þá er þetta bara klárt.

Kakan kom dásamlega vel út, súr en líka nokkuð sæt.  Ég hefði alveg vilja meira krispí marengs en það kemur bara næst.  Bjórinn gerði svo alveg útslagið.

IMG_6962
Sur Simcoe
frá To Øl er skemmtilegur súr session pale ale, sem sagt blanda af súröl og pale ale.  Við erum þarna með aðeins beiskjuna frá simcoe humlunum og sítrus furunálarnar sem oft fylgja simcoe og svo er einhver ögn ferskja sem skín í gegn.   Þegar bjórinn kemur strax á eftir munnbita af kökunni er eins og hann taki bragðið sem er að fjara dálítið út og blæs lífi í það og togar fram aftur súra sítrónukeiminn, beiskjan ræðst svo á rjómafituna og opnar allt upp á þægilegan hátt.  Skánin sem byrjar að myndast í gómnum hverfur alveg.  Þannig er eins og bjórinn framlengi braðinu frá kökunni og heldur gangandi þar til næsti biti mætir á staðinn.  Svo kemur sykursætan í kökunni vel út á móti súr-beiskjunni í bjórnum og gerir mjög skemmtilegt mót.  Þetta er sannarlega súr en góð upplifun.

Þegar ég endurgerði kökuna (taka tvö), köllum það bara 2. í konudegi, þá prófaðir ég ansi magnaðan bjór með sem algjörlega negldi þetta.  Tropical Rumble frá To Øl er 4.3% tropical IPA bruggaður með mango, ástaraldin og ferskjum ásamt helling af mosaic humlum.  Bjórinn er virkilega nettur með þægilega beiskju frá humlunum og djúsí sítrus og ávaxtaríka humla en svo koma ávextir inn með dálítið beiskum ávaxtakeim.  Virkilega flott með tertunni sem sem fyrr segir er dálítið sæt.  Beiskjan trappar sætuna niður og heldur vel við sítrónukeiminn.  Geggjað.

Gott freyðivín er líka algjörlega geggjað með þessu og nánast betri pörun en hér er talað um að ofan.

Dásamleg Nutella Ostakaka parað við Kirsuberja Súrbjór (Kirek) og Porter!

Nú fer að líða að konudeginum og þá er eins gott að fara íhuga trít fyrir betri helminginn. Ég er mikið fyrir súkkulaði og súkkulaðieftirrétti og það er sem betur fer eiginkonan líka þannig að þetta er nokkuð borðleggjandi.  Þegar kemur að eftirréttum þá leita ég oft til Nigellu Lawson til að fá hugmyndir því ég veit að hún er mikill nautnaseggur eins og ég og eftirréttir hennar svíkja sjaldan.  Þessi er t.d. eins og sniðin fyrir mig nutella ostakaka!   Eins og ég segi oft, það næstbesta við þessa uppskrift (það besta er auðvitað útkoman) er að það er sára sára einfallt að gera hana, meira að segja ég get gert hana!

Gott er að gera kökuna daginn áður en hún er borin fram því þá verður hún stíf og fín í ísskápnum.

Innkaupalistinn er hér (fínt að taka bara mynd af honum með símanum):

– 400 g Nutella við stofuhita
– 250 g hafrakex, Digestives
– 75 g mjúkt ósaltað smjör
– 100 g saxaðar ristaðar herslihnetur
– 500 g rjómaostur við stofuhita
– 60 g flórsykur, sigtaður

-Myrkvi frá Borg
-Oud Beersel Kriek

Aðferð:

  1. Myljið kexið í blandara, bæti við smjörinu og um 15 ml af Nutella.  Blandið saman.  Bætið svo 3 mtsk herslinetum við og blandið þar til orðið eins og aðeins rakur sandur.
    .
  2. Finnið til hringlaga springform ca 25cm í þvermál eða þannig að kexbotninn verði ca 1 cm á þykkt þegar kexblandan er sett í. setjið kexblönduna svo í formið. Mér finnst fínt að hafa smjörpappír í botninn og smyrja hliðarnar á forminu með smjöri.  Þéttið með skeið eða bara lóanum.  Skellið inn í ísskáp
    .
  3. Þeytið svo rjómaost og flórsykur saman í hrærivél þar til orðið mjúkt og án kekkja.  Bætið þá afganginum af nutella saman við og þeytið áfram.  Við viljum enda með silkimjúka og algjörlega ókekkjótta blöndu.
    .
  4. Takið formið út úr ísskápnum og setjið blönduna varlega yfir kexbotninn.  Þekjið svo yfirborðið með herslihnetunum og setjið filmu yfir og inn í áskáp þar til næsta dag.  Berið fram beint úr ísskápnum.


Pörunin
:
Kakan er ekki eins þung og ætla mætti, rjómaosturinn gefur netta sýru sem léttir aðeins á.  Engu að síður erum við með helling af nutella og svo kexbotninn sem er dálítið þungur.   Við gætum farið í imperial stout með þessu sem er nokkuð klassískt með svona rétt en fyrir mér væri það of þungt.  Við viljum létta á þessu og opna upp með t.d. spriklandi gosmiklum kirsuberja súrbjór eða kriek eins og hann heitir á frummálinu.  Hér á landi er ekki mikið úrval sem stendur en við höfum þó aðgang að einum besta kriek í heimi, OUD BEERSEL KRIEK.  Kakan þekur góminn með silkimjúkri hnetusúkkulaðiskán sem gælir við bragðlaukana en gæti orðið aðeins þrúgandi til lengdar en bjórinn skefur þessa skán af með kolsýrunni og bætir svo léttri sýru ásamt kirsuberjum við bragðupplifunina.  Sýran í ostinum tengir algjörlega við sýruna í bjórnum.  Svo er bjórinn svo fallegur á borði, fagur rauður og konudagslegur ekki satt?  Þetta er frábær leið til að heilla konuna upp úr skónum, ja eða bara hvern sem er.

IMG_6911Við Sigrún vorum mjög sátt, hins vegar fannst okkur jafnvel vanta smá kaffirist með þessu. Það er alltaf gott að fá sér kaffi eftir góða máltíð.  Það er auðvitað hægt að fá sér rjúkandi kaffibolla með, það kemur mjög vel út en ef við erum að einbeita okkur að bjórnum þá er MYRKVI frá Borg algjörlega máli.  Þetta er fullkomið combo, Myrkvi er kaffi porter ef bestu gerð sem þýðir ristað korn og kaffibaunir er gefa ljúfa kaffitóna í bakgrunni.  Súkkulaði og kaffi er órjúfanleg heild ekki satt?  Nett beiskjan frá humlunum virka líka ofsalega vel á móti rjómaostinum og fitunni í þessu og hjálpar til við að létta á pallettunni milli bita.  Ristin á korninu er svo eins og beint framhald af ristuðu herslihnetunum á kökunni.  Þetta bráðnar allt einhvern veginn í fullkomna heild.

Já hér eru tveir mjög skemmtilegir möguleikar í boði, er ekki bara um að gera að prófa báða?

„Mindblowing“ pörun á Spontan

Ég var í Kaupmannahöfn í vikunni og kíkti að sjálfsögðu á Spontan aftur.  Að þessu sinni valdi ég 4 rétti og bjórpörun með 4 bjórum.  Ég fékk allt annan mat en síðast en hann var algjörlega stórkostlegur eins og við var að búast.  Hver rétturinn algjört lystaverk, já ég setti „y“ hér með vilja!  Bjórinn var fínn og passaði vel við matinn en síðasta pörunin fór alveg með mig.  Rétturinn var eftirréttur og heitir á seðlinum „Cloudberry, Sea Buckthorn, Ymer, Honey“ en til að lýsa þessu þá er þetta eins og kalt sorbet með berjasósu, (cloudberry og Sea Buckthorn) sem var sætsúr og berjuð og svo næfurþunn kristalliseruð hunangsplata ofan á með fíngerðu lakkrískurli og claudberry dufti.  Skemmtileg blanda Cloudberryaf berjum, sýru og svo sætu hunangi með ögn seltu frá lakkrísnum.   Bjórinn sem var serveraður með var Yule mælk frá To Øl en þetta er 15.5% imperail stout.  Venja er að drekka imperial stout frekar volga en þessi var serveraður ískaldur.  Í fyrstu var ég pínu hissa á þessu, ætti þessir snillingar ekki að vita þetta?  Svo rann það upp fyrir mér að þetta hlyti að vera með vilja gert.  Ég spurði því þjóninn sem sagði mér að bjórinn ætti einmitt að vera kaldur þegar maður fær hann á borðið því þannig verður hann ekki eins „overpowering“ og stelur ekki senunni frá þessum dálítið viðkvæma eftirrétt.  Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei látið mér detta í hug að tefla svona öflugum bjór á móti svona berjuðum og viðkvæmum eftirrétti.  Hins vegar þegar bjórinn er svona kaldur þá virkar þetta frábærlega.  Bjórinn er líka mjög sætur og mjúkur þrátt fyrir 15.5% og tengir þannig rosalega vel við hunangssætuna og svo kemur allt þetta súra og ferska alveg svakalega vel á móti ristinni og aðeins kaffitónunum í bjórnum.   Það er bara erfitt að lýsa þessu en þessi blanda var algjörlega „mindblowing“.   Maður þarf að reyna eitthvað svipað hér heima…..hmmmm veit samt ekki með þessi ber og hunangsplötuna, verður pínu snúið 🙂

Hvít súkkulaði- og ástaraldin mús með ávaxtabjór!

Ég held að Nigella Lawson elski súkkulaði álíka mikið og ég, hún er alla vega með ansi margar súkkulaðiuppskriftir á sínum vefsíðum.  Hér er eins sáraeinföld, falleg og svo sannarlega ljúffeng.   Algjör dásemd með vönduðum ávaxtabjór á borð við OUD BEERSEL KRIEK.


MÚS (fyrir 4): 150g hvítt súkkulaði, 3 stór egg, 5 ástaraldin og slatti af ferskum hindberjum.

BJÓRINN: Vandaður súrbjór með ávöxtum, t.d. kirsuberjum (kriek), hindberjum (framboise) eða einhverju öðru.  Passa þarf að um alvöru ávaxtabjór sé að ræða, ekki þessa með viðbættu ávaxtaþykkni.  Gott dæmi er OUD BEERSEL KRIEK eða LIEFMANS KRIEK BRUT.


MÚSIN: Súkkulaðið er brotið niður í litla bita, og svo sett í glerskál yfir potti með vatni. Látið vatnið sjóða.  Súkkulaðið á ekki að bráðna alveg í samfellda sósu eins og dökkt súkkulaði heldur er nóg að það sé farið að afmyndast og er orðið mjúkt. Passa vel að ekkert vatn fari i súkkulaðið. Of mikil bráðnun skemmir líka súkkulaðið.  Takið skálina svo til hliðar og látið kólna aðeins.

Þeytið eggjahvíturnar þar til orðið stíft.  Á að haldast í skálinni þegar henni er hvolft. Blandið svo eggjarauðunum (ekki hvítunum, passið ykkur á því, ég gerði það nefnilega óvart fyrst) saman við súkkulaðið sem hefur náð að kólna aðeins.  Varlega!  Skerið svo ástaraldinin í helminga og skóflið innvolsinu út, öllu saman, fræ, kjöt og alles, út í súkkulaðiblönduna.  Veltið þeim varlega saman við súkkulaðið.  Loks blandið þið ofurvarlega hvítunum saman við þetta allt þar til vel blandað saman.

Loks veljið þið einhver falleg glös, setjið hindberin í botnin, fínt að láta standa aðeins þannig að þau kremjist aðeins og myndi safa.  Hellið svo músinni yfir og setjið inn í kæli þar til orðið stíft.  4 tímar ættu að duga.

IMG_6195-001

BJÓRINN: Þessi eftirréttur er vissulega flottur bara einn og sér en frábær með góðum ávaxtabjór.  Kaffi er ekki málið hér, það rústar dálítið fallegum og viðkvæmum bragðflækjunum í þessum milda eftirrétt.  Hvítt súkkulaðið er dásamlegt með eggjunum og skapar mjúka notalega áferð og svo kemur sýran frá hindberjunum og ástaraldininum og klippir upp áferðina og gerir heildina létta og frískandi.  Sætan í súkkulaðinu bindst svo vel við sætuna í ástaraldinunum.  Bjórinn með þessu þarf að lyfta undir þetta allt saman og ekki yfirgnæfa neitt.  Ávaxtabjór er kjörinn í þetta og í raun það eina raukrétta.  Belgískur kriek er súrbjór sem þroskaður er með ferskum kirsuberjum í einhverja mánuði.  Bjórinn er léttur og súr og svo með berjakeiminn auðvitað.  Frábær bjórstíll og geggjaður með svona efirrétt.  Það er auðvelt að sjá hvernig sýran í bjórnum tengir við og styður berjasýruna í eftirréttinum á sama tíma og hún skapar dásamlegt mótvægi við þrúgandi sætuna.   Þetta er eiginlega of góð pörun til að reyna að lýsa í rituðu máli.  Prófið t.d. OUD BEERSEL KRIEK.

Borg/Tanker collab, Chocosourus

Gaurarnir í Borg brugghús sitja ekki auðum höndum þessa dagana, þeir eru á stöðugum þeytingi bruggandi bjór út um allar jarðir.  Hér er það Tanker Brewery í Tallin Eistlandi. Bjórinn kalla þeir Chocosourus C8 og já það er líklega gert með vilja að skrifa „sourus“ en ekki „saurus“ þrátt fyrir risaeðluna á merkimiðanum því um er að ræða súrbjór.  Í bjórinn nota þeir svo  kakóhismi frá Omnon súkkulaðigerð sem skýrir fyrri hluta nafnsins dálítið.  Já við erum að tala um spriklandi ferskan súkkulaðisúrbjór, ekki klassísk túlkun á stílnum en svo sannarlega skemmtileg.  Súkkulaði og ber, er það ekki eitthvað?  Súkkulaðihúðuð hindber eða jarðaber eru t.d. oooofsalega flott.

Bjórinn er ferskur og spriklandi á tungu með súrum undirtón og alls konar mildum ávöxtum.  Það má svo finna örlítið súkkulaði í bakgrunni, það hjálpar reyndar að vita af
því í bjórnum samt. Bjórinn er ofsalega fallegur í glasi en froðan staldrar stutt við.
Mjög skemmtilegur súrbjór sem gengur svo IMG_6253.JPGsannarlega sem sumarbjór.   Nú er um að gera að fylgjast með ef menn vilja næla sér í flösku en hann dettur í Vínbúðir og bari á næstu dögum.  Venja er að um mjög takmarkað magn sé að ræða þegar kemur að collab!

MATARPÆLING: Þetta er bara skemmtilegur bjór einn og sér en ég veit að hann myndi elska djúsí súkkulaðieftirrétti með ferskum berjum á borð við hindber eða brómber t.d.  Besta súkkulaðimús í heimi kemur sterklega til greina en þar erum við jú bæði með hindber,brómber og jarðaber í djúsí dökkri súkkulaðimús, þvílík pörun, ætli maður prófi þetta ekki bara um helgina?  Svo gengur hvíta súkkulaðifrauðið með fersku ástaraldin einnig mjög vel með þessum.  Já það er svo sannarlega gaman að vera til.