Dulcey páskaegg og stout

IMG_6218

Nú líður að Páskum sem þýðir súkkulaði og meira súkkulaði en úrvalið er orðið ansi flott, það er hægt að fá egg af ýmsum toga núna frá nokkrum framleiðendum.  Svo má ekki gleyma snillingnum og súkkulaðimógúlnum Hafliða Ragnarssyni sem er að mínu mati besti súkkulaðigerðarmaður landsins.   Ég hef lengi haft augastað á páskaeggjunum hans en aldrei einhvern veginn látið vaða í þau þar til nú. Hvert egg er stórkostlegt lystaverk og maður í raun tímir ekki að skemma það og borða.  Nóg um það, við megum auðvitað ekki gleyma bjórnum en það er vel hægt að para bjór við súkkulaðieggin. 

Ég valdi Dulcey blond súkkulaðiegg handa okkur frúnni en ég viðurkenni samt að mig langaði dálítið í dökka súkkulaðieggið líka, ég bara elska dökkt súkkulaði.  Dulcey er hins vegar dásamlegt súkkulaði og ég sé ekki eftir því vali.  Það er hægt að leika sér með nokkra bjórstíla með þessu eggi en mig langaði að prófa gamlan félaga, Mikkeller Beer Geek Breakfast sem er dásamlegur hafra stout með 100 stig af 100 mögulegum á Ratebeer.com. Beer Geek er sögulegur bjór en þetta er einn af fyrstu bjórum Mikkellers og sá bjór sem kom Mikkeller á kortið á sínum tíma.  Bjórinn er virkilega vandaður og flottur, bruggaður með hafraflögum og eðal kaffi.  Hann býr þannig yfir notalegri rist, kaffi og svo látlausri en vel merkjanelgri sætu.  Það góða við þennan bjór er nafnið, morgunverður sem gefur manni þannig grænt ljós að drekka hann með súkkulaðiegginu á Páskamorgun.
IMG_6210Dulcey súkkulaði er eins konar blanda af mjólkursúkkulaði og karamellu, ja eða þannig upplifi ég það amk. Dúnamjúkt og rjómakennt og svo er ögn salt með.  Þessi blanda kallar dálítið á eitthvað mótspil, við viljum ekki meira sætt hér, það verður of mikið af því góða.  Stout eða porter er kjörinn bjór fyrir þetta verkefni.  Hér mætir beiskjan og ristin frá korninu sætunni og bráðnar einhvern veginn saman við og gerir mjög gott mót.  Kaffikeimurinn er líka velkominn en við erum auðvitað vön að tefla kaffi á móti flestum sætum eftirréttum, sumir nota meira að segja sykur í kaffið.  Súkkulaðikeimur er oft líka í þessum bjórum, dökkt súkkulaði sem er flott með mjólkursúkkulaðinu og svo tengir karamellan í egginu vel við karamellukeiminn frá ristaða korninu í bjórnum.  Sem sagt, hér erum við bæði með andstæður og samstæður.  Mjög ljúft.  

Okkar ástkæri Myrkvi frá Borg er einnig frábær með þessu en aðrir stout eða porter bjórar koma vel til greina.

Júdas 16.1 og páska – eplabaka með pecanhnetum og karamellusósu.RÉTTUR: eplabaka með muldu páskaeggi og pecanhnetum, skreytt með pecanhnetum og karamellusósu.

– 200g hveiti
– 200g smjör
– 200g sykur
– 100g haframjöl
– 4 græn epli
– 3 lítil mulin páskaegg frá Nóa td.
– Pecanhnetur grófsaxaðar
– kanilsykur

Aðferð.  Einfalt, hveiti, smjör, sykur og haframjöl er hnoðað saman í skál.  Eplin afhýdd og skorin í sneiðar og raðað í eldfast mót.  Kanilsykur yfir (ekki spara) og svo er deigið mulið yfir ásamt muldum pecanhnetum og páskaeggjabrotum.  Þessu er svo hent í ofn á ca 180 gráður þar til komin er fallega gyllt áferð á deigið.

BJÓRINN: Þessi réttur er ofsalega „rich“ og því erfitt að hafa of þungan bjór með.  Quadrupel er massífur bjórstíll hins vegar langaði okkur að prófa JÚDAS 16.1. með þessu eiginlega vegna þess að bragðnúansar í bjórnum minna að mörgu leiti á réttinn.  Bock eða Scotch ale koma einnig sterklega til greina hér.img_6006
JÚDAS 16.1 PÁSKABJÓR
:
Júdas nr 16 var páskabjórinn frá Borg brugghús árið 2013 og var jafnframt fyrsti quadrupel okkar Íslendinga.  Virkilega flottur bjór á sínum tíma og ég tala nú ekki um þegar maður var búinn að lofa honum að eldast á flösku í ár t.d.  Quadrupel er belgískur bjórstíll og með þeim öflugari í bjórveröldinni.  Oftast liggur bjórinn frá 11% og uppúr.  Orðið „quad“ þýðir í sjálfu sér ekki neitt sérstakt en er meira tilvísun í styrk bjórins.  T.d. má segja að belgískur dubbel (eins og t.d. Leffe) sé tvöfaldur, tripel þrefaldur (Westmalle Tripel) og þá væri quadrupel fjórfaldur ekki satt?  Í ár færir Borg brugghús okkur Júdas endurfæddan, Júdas nr16.1 sem hefur þroskast á notuðum koníakstunnum í einhverja mánuði en við það dregur bjórinn í sig viðarkeiminn og bragð af koníaksrestunum.

Í glasi er Júdas 16.1 dökk dökk brúnn eða eiginlega svartur með léttan froðuhaus sem hverfur með hraði.  Það hellist yfir mann dásamlegur angan úr glasinu þegar hellt er, mikil sæta eins og rúsínur eða sykruð epli og svo er koníakið áberandi með ögn viðarkeim.  Í munni er mikill þróttur og vínandi sem er alls ekki sprittaður heldur meira á sætu nótunum, eins og sherrí eða koníak (nema hvað?).  Tunnukeimurinn og koníakið er áberandi og svo eins og rúsínur, og þegar líður á bjórinn og hann fær að volgna aðeins koma fram nýjir tónar, gul epli, kanelsykur og jafnvel hunang eða appelsínusafi.  Stórskemmtilegur bjór, maður getur treyst því að Júdas 16.1 setji sinn svip á Páskana.

PÖRUN:
Hvað gengur svo með quadrupel?  Ekki auðveld spurning því bjórinn er stór og mikill og getur verið erfitt að finna máltíð sem passar.  Rétturinn þarf að þola ágang bjórsins en á sama tíma að njóta sín.  Borg brugghús vann sælla minninga skemmtilega bjór og matarpörunarkeppni á síðasta ári sem kallað var „Bryggeribrak“.  Meðal bjóra sem Borg tefldi fram á þessari keppni var einmitt Júdas 16.1.  Pörunin var „spot on“ með hugljúfum eftirrétti.  Við erum að tala um kryddmarineraðar plómur,með áberandi sýrum, borið fram með sýrðum rjóma og karmeliseruðum heslihnetum.  Hljómar dásamlega.  Sigrún gerir stundum eplaböku eða mulning, ég veit ekki hvað maður á að kalla þetta, en eplabökuhrúgald kemur vel til greina?  Alla vega mjög gott, með skornum eplum, góðu „hveitikrösti“, pecanhnetum og kanilsykri.  Svo er hægt að bragðbæta með súkkulaðibitum og karamellusósu yfir!   Ég ákvað að prófa að tefla þessu á móti Júdasi og af því að við erum með Páskabjór þá notuðum við páskaegg frá Nóa í þetta.  Útkoman var virkilega flott.

Ég verð samt að viðurkenna að þetta er mjög þungt, bakan er mjög saðsöm og svo er bjórinn heldur ekkert lamb að leika sér við þannig að menn verða að vera opnir fyrir þessu.  Fá sér bara litla skammta af bökunni og njóta.  Gleðilega Páska!!!

 

Besta súkkulaðimús í heimi með hindberjum og funky hindberja saison!

Nú er konudagur og þá þarf sko að gæla við konurnar í lífi okkar. Mér dettur ekkert betra í hug en að skella í dásamlegt súkkulaðitrít fyrir mína í tilefni dagsins. Ég er mikill súkkulaðifíkill og ég ætla ekkert að reyna að fela það en það er bara fátt betra í þessu lífi en góður súkkulaði eftirréttur. Súkkulaðimús er í miklu uppáhaldi hjá mér og ég hef sko prófað marga slíka rétti trúið mér en það er bara engin mús eins góð og þessi hér sem upprunanlega kemur frá eldhúsgyðjunni Nigella Lawson. Það versta við þessa mús er að ég get bara ekki stoppað þegar ég byrja og það kemur ekki vel út þegar gestir þurfa að berjast við mig um síðustu bitana, Sigrún þarf samt ekkert að óttast á konudaginn. Ég er svo ekki alveg að fara eftir Nigellu hér því mig langaði í smá berjasætu, hindber og sýru til að létta aðeins réttinn og gera hann meira svona konudags, ég fékk því mágkonu mína Elínu sem er snillingur í gúmmilaðigerð til að koma með hugmyndir og hún kom með hugmynd að dásamlegu hindberjagumsi sem smellpassar við bæði réttinn og bjórinn sem ég ætla að bjóða frúnni með þessu.


RÉTTUR: Besta súkkulaðimús í heimi með fersku hindberjamauki. Það besta við þessa mús er að það er fljótlegt að gera hana og auðvelt.

– 150 g sykurpúðar
– 50 g smjör
– 250 g gæðasúkkulaði (125 g suðusúkkulaði og 125 g 70% súkkulaði)
– 60 ml heitt vatn (soðið vatn)
– 285 ml rjómi, þeyttur.
– 1 tsk vanilludropar

Sykurpúðar, smjör og saxað súkkulaði er sett í stóran pott og svo er 60ml heitu vatni bætt við. Látið svo malla á mjög lágum hita, rétt til að bræða súkkulaðið og púðana. Hrærið reglulega þar til allt er bráðnað og látið svo kólna. Þeytið rjómann með vanilludropunum og blandið varlega saman við rest.

Hindberjamaukið:

– 300 g hindber (frosin er algjörlega í lagi)
– 1/4 bolli sykur
– 1 mtsk súrbjór eða bara sítrónusafi
– 1/4 tsk nýmulinn pipar (má sleppa samt)

Setjið þetta allt í matvinnsluvél og maukið þar til berin eru orðin að mauki. Svo er gott að sigta maukið til að losna við steinana og svo sjóða í ööörlitla stund á vægum hita en þetta gerir maukið silkimjúkt og aðeins hlaupkennt.

BJÓRINN: Með þessum rétt væri hægt að fara í imperial stout en það er bara of klassískt og ég held að það yrði líka of „heavy“. Hér viljum við frekar fara í frískandi súrbjór til að létta á öllu og lyfta upp sýruna í berjamaukinu. ROSES ARE BRETT frá To Øl er fullkominn hér, því hann er bruggaður með hindberjum m.a. Við gætum líka reynt aðra súrbjóra, kriek, frambozen, t.d. MIKKELLER SPONTANTFRAMBOOS en báða þessa bjóra þarf að sérpanta í ÁTVR. LIEFMANS KRIEK og OUD BEERSEL KRIEK eða GUEUZE sem fást allir í Vínbúðinni er líklega frábært val líka.


img_5985

AÐFERÐ: Það er hægt að fara tvær leiðir í framsetningu, annars vegar að hafa eldrautt hindberjamaukið ofan á súkkulaðimúsinni eins og á myndinni að ofan en það kemur ofsalega fallega út, svo er bjórinn rauður í stíl en hins vegar setur maður maukið í botninn þannig að dásamleg músin fær að njóta sín (mynd að neðan). Ef þið veljið að setja rautt ofan á þá þarf fyrst að láta músina storkna í kæli í svona 2 klst og svo bara hella maukinu ofaná. Ef hin leiðin er valin þá er fínt að setja maukið í skálarnar og inn í frysti í smá stund. Svo er súkkulaðimúsinni hellt yfir og látin storkna í kæli í ca tvo tíma. Loks er skreytt með ferskum hindberjum og brómberjum t.d.

BJÓRINN: Þetta er ein magnaðasta pörun okkar til þessa held ég, kannski er það bara af því að hér erum við að leika okkur með súkkulaðirétt sem er mitt uppáhald og svo „funky“súrbjór sem ég held líka mikið uppá. Ég veit það ekki, hitt er þó víst, bjórinn einn og sér geggjaður en með súkkulaðimúsinni er hann algjörlega magnaður. Súkkulaðimúsin er mjög saðsöm og þung en hindberjagumsið í botninum opnar þetta upp með ferskum súrum berjablæ. Ég valdi þennan bjór ROSES ARE BRETT frá To Øl einmitt vegna þess að hann er súr og bruggaður með hindberjum og svo er hann bara svo fallegur svona rauður og elegant. Hindberin og sýran í bjórnum tengja gjörsamlega við hindberjamaukið í músinni og gerir það að verkum að bjór og eftirréttur framlengja hvort annað. Fyrst fær maður dásemlegt súkkulaðið, svona silkimjúkt og ljúft en dálítið þungt svo opnast allt uppá gátt með súrsætum hindberjum í botninum og þetta tvinnast allt saman, loks kemur bjórsopinn og framlengir hindberin og súra keiminn en með skemmtilegu „funky“ twisti sem einhvern veginn dregur súkkulaðið aftur fram. Þetta er algjörlega geggjað saman. Roses are brett fæst aðeins via sérpöntun ÁTVR en það er í raun lítið mál að panta svona, maður sendir bara póst á Vínbúðina og óskar eftir sérpöntun. Það er þó vel hægt að mæla með LIEFMANS KRIEK og OUD BEERSEL KRIEK eða GUEUZE sem fást allir í Vínbúðunum.

img_6001
Rósir, nei takk bjór og súkkulaðifrauð fyrir mína 🙂

Indian Pale Ale Gulrótarkaka fyrir fullorðna!

Það er gaman að para bjór við mat og jafnvel enn skemmtilegra þegar maður notar bjórinn sem hráefni matargerð. Hér erum við með skemmtilega og gómsæta gulrótarköku fyrir fullorðna.  Double India Pale Ale (DIPA) Gulrótarköku!  Uppskriftin er fengin úr bókinni „Cooking With Beer“ sem ég gaf sjálfum mér í jólagjöf síðustu jól.


RÉTTUR: Double IPA gulrótarkaka úr STONE RUINATION IPA með IPA rjómaosta kremi fyrir 8-10.  

– 1/2 bolli rúsínur
– 75 g ananasbitar úr dós
– 50 ml STONE RUINATION IPA eða annar double IPA
– 200 g smjör við stofuhita
– 200 g púðursykur
– 4 eggjarauður
– sletta af salti
– börkur af einni appelsínu
– 225 g hveiti
– 1 teskeið lyftiduft
– 1/2 tsk mulinn kanill og engifer
– 250 g rifnar gulrætur

KREM. 300g rjómaostur, 200g mascarpone, 50 ml STONE RUINATION IPA eða annar DIPA, börkur af 1 appelsínu og flórsykur eftir þörfum til að stilla af sætu og þykkt.

BJÓR MEÐ: Að sjálfsögðu notum við DIPA bjór með þessu og ekki verra að nota sama bjórinn og notaður er í uppskriftina, hér er það STONE RUINATION IPA sem er ofsalega flottur með þessu.  Úrvalið ef DIPA bjór er ekki mikið hér  heima en To Øl Dangerously Close to Stupit eða BrewDog Hardcore IPA koma einnig til greina.  Muna menn svo ekki eftir ÚLF ÚLF frá Borg.


img_5877

Við byrjum á því að opna eina ískalda dós af STONE RUINATION IPA sem kemur reyndar ekki í Vínbúðina fyrr en 1.2.17.  Maður verður jú að hafa það huggulegt þegar maður stendur í ströngu í eldhúsinu.  Þessi bjór er dásamlegur og við getum verið örugg um að hann er eins ferskur og það gerist.  Þurr, mikill í munni með notalegri beiskju sem aðeins tekur í, sítrus, furunálar og svo þægileg sæta.  Beiskjan tónar skemmtilega vel við beiskann börkinn af appelsínunum eins og við munum komast að þegar allt er klárt.

KÖKUMIXIÐ. Byrjum á að hita ofninn í 180 gráður.  Hellið svo 50 ml af bjór í skál og leggið rúsínurnar og ananasbitana í bleyti. Takið svo aðra stóra skál og þeytið vel saman smjörinu og sykrinum.  Bætið svo við eggjarauðum, einni í einu og þeytið vel á milli. Bætið svo saman við salti og rifnum appelísnuberki.  Þegar þetta er komið saman bætum við út í hveiti, lyftidufti, kanil og engifer og hrærið varlega.  Loks blöndum við gulrótum (rifnum fínt með rifjárni), rúsínunum og ananasbitunum ásamt bjórnum sem þetta lá í saman við rest.  Blandið vel saman öllum þessum dásamlegu hráefnum.

Hellið kökumixinu í tvö smurð form, ca 25cm í þvermál.  Bakið svo í ofni í 30-35 mín.  Þið tékkið bara á hvort botnarnir eru tilbúnir, stundum þarf aukalega 5-10 mín en ekki brenna þetta í Guðana bænum, það er dýrmætur bjór um borð.  Þegar þetta er tilbúið eru botnar teknir úr formum og kældir.

KREMIÐ. Einfallt, meira að segja ég get gert þetta krem og það skemmtilega við kremið er að við notum líka bjór í það.  50ml alveg.  Byrjum á að blanda rjómaostinum, bjórnum og rifnum appelsínuberki saman.  Hrærið svo flórsykri smám saman saman við og smakkið til eftir þörfum.  Við viljum ekki hafa kremið of sætt því það er skemmtilegt að finna beiskjuna í bjórnum og appelísnunni í gegn.  En þið ráðið þessu svo sem.

Skellið  svo botnunum saman með kremi á milli og ofaná.  Tilbúið!!!  Opnaðu annan bjór og klappaðu þér á bakið.  Reyndar var það Sigrún sem bakaði þetta á meðan ég hamaðist við kvöldverðinn, rifna grísinn sem tók dálítinn tíma.  Takk fyrir mig Sigrún!

Hóaðu svo í vini og bjóddu uppá köku með bjór.  Krakkarnir okkar smökkuðu kökuna en fannst hún aðeins of beisk en þannig á hún að vera.  Hér takast á sæta og beiskja frá appelsínum en ekki síst bjórnum.  Bjórinn gefur þurran sítrus keim en einnig sætu í kökuna.   Kakan ein og sér er ofsalega skemmtileg, nartar örlítið í bragðlaukana með smá beiskjubiti eftir að sætan er liðin hjá.  Minnir í raun dálítið á IPA bjór hvað þetta varðar. Svo fullkomnum við þetta með ísköldu glasi af STONE RUINATION IPA , magnað.  Bjórinn er auðvitað dálítið stór og öflugur en þéttleikinn, fyllingin og sætan í kökunni mæta bjórnum vel og svo tvinnast bjór og kaka saman í beiskjunni.  Bjórinn magnar ekki upp beiskjuna eins og maður hefði alveg eins búist við heldur virðist þetta jafnast meira út svona.