Svakaleg hvítsúkkulaði kókos brownie með ítölskum marens og ástaraldin

Ég viðurkenni það að við á B&M erum mjög hrifin af sætum eftirréttum, það er bara eitthvað svo fullnægjandi við að enda góða máltíð á ljúfum og sætum nótum. Við höfum prófað ýmsa eftirrétti á veitingastöðum borgarinnar og það er einn sem stendur uppúr. Hvítsúkkulaði ostakakan á KOL er einfaldlega hrikalega góð. Við höfum meira að segja stundum farið út að borða á einu veitingastað en endað kvöldið með eftirrétt á Kol. Það má!

Við frúin höfum undanfarið verið að reyna að gera þennan rétt heima í eldhúsinu, vonarljósið kveiknaði fyrst fyrir nokkru síðan þegar Elísabet mágkona Sigrúnar bauð okkur í hvíta brownie með ristuðum kókosflögum. Þetta minnti nokkuð á réttin á Kol og gaf okkur hugmyndir til að þróa þetta áfram. Við bættum aðeins í kökuna, hvítu súkkulaði t.d. og svo höfum við þróað mascarpone krem ofan á með kókos og sítrónu. Svo þegar við bættum fersku ástaraldin og ítalska marensnum við var þetta eiginlega komið. Ástaraldin ísinn (gelato) fær maður svo t.d. hjá Valdísi eða einhverri af betri ísbúðum borgarinnar. Þetta er einfalt og skemmtilegt að gera. Endilega að prófa, best er að gera kökuhlutann sólarhring áður en borið fram.

ÞAÐ SEM ÞARF (það mætti í raun gera helmingi minni uppskrift)

Þetta er líklega nóg í efitrrétti fyrir 10 manns eða meira.

150 g ósaltað smjör
100 g hvítt súkkulaði
2 egg
2,5 dl hrásykur
1 tsk vanilludropar
½ tsk salt
1 sítróna
1,5 dl hveiti

4 eggjahvítur
½ tsk cream of tartar
200 g sykur

Kókosflögur, ristað á pönnu
3-4 ástaraldin
ástaraldinn sorbet/ítalskur ís (má sleppa en er geggjað með)

1 stk mascarpone ostur
2 tsk sítrónusafi
1 tsk kókosekstrakt

1 msk flórsykur

4-5msk rjómi

AÐFERÐIN

Kökubotninn

Best að byrja á kökunni, helst deginum áður en veislan fer fram því þá nær kakan að þéttast og verður meira djúsí. Látið smjörið (150g) og hvítt súkkulaði (100g) í skál og bræðið á vægum hita yfir vatnsbaði. Hrærið vel saman. Ef þetta virðist skilja sig þá er það alveg ok. Þetta fer allt saman þegar rest er bætt við. Látið þetta svo kólna aðeins.
Setjið svo 2 egg, 2,5 dl hrásykur og vanilludropa í skál og þeytið saman. Bætið svo ½ tsk salt, safa úr 1 sítrónu saman og hrærið áfram. Bætið svo 1.5 dl hveiti saman við og hrærið vel. Þegar þetta er allt komið saman er loks súkkulaðismjörblöndunni bætt útí og allt hrært saman. Svo er þetta sett í form, gott er að hafa smjörpappír í forminu og pennsla með olíu.

Bakið svo við 150 gráður í ofni í um 40 – 45 mín. Látið svo kólna og setjið inn í ísskáp til næsta dags.

Kremið

Heill mascarpone ostur, við ca stofuhita sett í skál. Bætið ½ – heilli tsk kókosextract saman við. Ég vil hafa smá kókosbragð af þessu og notaði heila tsk. 2 msk flórsykur, má vera 3 msk og loks 2 tsk sítrónusafi (má auka eftir smekk). Hrærið þessu saman með þeytara eða í hrærivél. Bætið svo dass af rjóma saman við og hrærið áfram. Hvað er dass? Ég hellti tvisvar úr rjómanum, líklega um 4 msk?

Passið að þeyta ekki of mikið þannig að rjóminn skilji sig og verði að smjöri.

Smyrjið þessu svo á kökuna og látið standa í kæli þar til tilbúið til framreiðslu.

Marensinn

Það eru til alls konar tilfæringar yfir hvernig maður gerir ítalskan marens. Ég nennti ekki að spá í því heldur gerði klassískan franskan marens og flamberaði það svo með brennara í lokin.

Sem sagt, setjið 4 eggjahvítur í skál, helst að láta standa í amk 20 mín áður en þið hrærið þær saman. Passa að ekki komist arða af eggjarauðu með. Skálin þarf að vera þurr og alveg hrein. Hrærið svo saman með ½ tsk cream of tartar á meðalhraða til að byrja með. Þegar þetta virðist vera komið nokkuð vel saman og farið að lofta um þá má auka hraðann. Þegar hvíturnar eru orðnar mjúkar og hægt að mynda toppa þá fer sykurinn útí. Bætið 200g sykri saman við, mjög varlega á meðan þið hrærið. Við erum að tala um ca matskeið í senn með mínotu millibili. Já þetta tekur tíma. Þegar allur sykurinn er kominn er hrært á góðum hraða áfram þar til blandan er orðin þykk og aðeins stíf og þið finnið helst ekki sykurkorn milli fingranna.

20190828_212038-01669838994.jpeg

FRAMREIÐSLAN

Skerið kökuna í bita, ca 3 x 10 cm kubba og setjið á diska. Létt ristið kókosflögur á pönnu og setjið til hliðar. Setjið marensinn strax í sprautupoka, varlega þó. Hafið hringlaga stút á og sprautið svo á diskinn fallegan marenstopp. Flamberið svo með brennara þannig að það komi aðeins litur á þetta.

Skerið ástaraldinn í tvennt og skóflið úr hálfum slíkum innvolsið og látið leka yfir kökuna og diskinn. Loks sáldrið þið kókosflögunum yfir þetta og berið fram.

Það er frábært en ekki ómissandi að hafa með þessu ástaraldin sorbet eða ítalskan ís (gelato). Ég hef prófað að kaupa ástaraldin ís hjá Valdísi en hann er frábær með þessu, ferskur og kaldur. Æi hann er eiginlega ómissandi með, amk ef þetta á að verða eins og á Kol. Ef þið hafið ísinn með þá bætið því honum síðast á diskinn, myndið kúlu eða ef þið getið svona möndlulagaða ískúlu og setjið á hvern disk og berið fram. Þetta er svakaleg hamingjubomba.

Með þessu eru nokkrir möguleikar, kampavín gengur alltaf með hvítu súkkulaði og ástaraldin. Frábært combo en ef maður er í bjór þá held ég að súrbjór væri snilld, ég er að hugsa Peche n Brett frá Logsdon en sá bjór er algjörlega magnaður súrbjór með ferskjum og ætti að fást enn í Vínbíðinni. Þetta verður líklega prófað á næstu dögum!

Besti ítalski ís landsins?

Ís er eitthvað sem all flestir geta tengt við en ísinn er oft stór hluti af lífi fólks, hver kannast ekki við ísbíltúrinn á sunnudögum?  Ég þekki held ég engan sem finnst ís beinlínis vondur en auðvitað er áhugi fólks á ís mis mikill.  Sem barn var ég auðvitað mikill ísáhugamaður en í seinni tíð hins vegar hefur þessi spenningur dalað töluvert, líklega vegna þess að ég hef bara ekki komist í almennileg gæði síðustu ár.   Ég man enn eftir geðshræringunni sem ég upplifði þegar ég fyrst smakkaði ítalska ísinn, gelato.  Þá vorum við Sigrún að þvælast á interrail á Sikiley fyrir ríflega 20 árum síðan, ég var rétt um tvítugt.  Reyndar smökkuðum við fyrst ítalskan gelato í Vín nokkrum dögum áður sem var alveg mindblowing en okkur fannst samt meira „alvöru“ að borða gelato á Ítalíu, nánar tiltekið Taormina á Sikiley.  Ég man að þarna var ég að upplifa eitthvað alveg nýtt, ég hafði ekki getað ímyndað mér að ís gæti bragðast svona dásamlega.  Eftir heimkomuna leit ég ís öðrum augum og allt þetta fjöldaframleidda Kjörís og Emmessís ævintýri var í mínum augum algjört plat og ég hætti að borða ís, mér fannst hann bara ekkert spes.  Síðan liðu mörg ár þangað til menn fóru að fikta við handverks ís (craft ís) hér heima með misgóðum árangri reyndar.

20180528_150943
Il Gelatone skammt frá Colosseum í Róm

Ég tek það fram að við erum engir sérstakir íssérfræðingar hér á B&M ef slíkt er til, en við höfum gaman að því að dekra við bragðlauka og borða eitthvað gott.  Við vorum á dögunum í Róm og notaðuðum tækifærið og prófuðum nokkrar ísgerðir eftir að hafa lesið okkur aðeins til og viti menn, ég fann aftur þessar sömu tilfinningar og þarna fyrir rúmum 20 árum í Taormina.  Það helltust yfir mig minningar um hvernig við höfðum uppgötvað ís í fyrsta sinn, þvílík gæði, ég hafði bara gleymt þessu.  Við prófuðum nokkrar ísgerðir í Róm og fengum staðfestingu á því að ítalskur ís er ekki góður bara af því að hann er gerður á Ítalíu því það er aragrúi af „plat“ ísgerðum þarna sem gera ekki alvöru gelato heldur fjöldaframleiddan „túrista ís“ með viðbættum bragðefnum og án allrar alúðar.  Eftir að hafa smakkað t.d. ísinn á Gelateria La Roma, já og reyndar Il Gelatone líka þá var bara ekki aftur snúið.  Þar á bæ búa menn til ísinn á staðnum og nota hágæða hráefni til að fá fram mismunandi bragð og áferð, ekki innantóm bragðefni eins og svo oft er.  Áferðin og bragðið er eitthvað sem erfitt er að lýsa en þetta var magnað, maður finnur að það er alvöru vanilla, alvöru mango, súkkulaði og allt hitt í ísnum.  „Kúlurnar“ eru svo ekki kúlur heldur silkimjúkar klessur sem eru smurðar á formin dálítið eins og smjörklípur, auðvitað án fitubragðs .  Nú mætti ætla að stemningin í Róm hefði áhrif á upplifunina en ég get sagt ykkur að ég henti stundum ís beint í ruslið þarna úti því þegar maður er búinn að smakka gelato eins og hann á að vera þá verður erfitt að borða túrista ísinn.

20180530_122926-01Við höfum ákveðið að skoða betur ísmarkaðinn hér heima í þeirri von að finna eitthvað sem líktist þessari hamingju.  Í sumar mun Bjór & Matur skoða ísinn í borginni og jafnvel víðar í von um að finna eitthvað sem kemst hvað næst alvöru ítölskum gelato, við erum ekki að fara smakka Kjörís eða Emmessís enda á það bara ekkert skilt með gelato, nema kannski að vera kallað ís?  Við munum fyrst og fremst dæma eftir bragði og útliti en einnig skiptir þjónusta og umhverfi máli.  Meginn fókusinn verður á ítalska ísinn en ef ef við dettum niður á eitthvað skemmtilegt og ljúffengt og kannski dálítið öðruvísi munum við skoða það líka.  Ef þið hafið ábendingar um góða ísgerð eða ísbúð þá endilega sendið okkur línu og skiljið eftir skilaboð á fésbókinni.  Þetta verður gott sumar….þó það verði ekki sól 🙂