Hin árlega lagköku og bjórkeppni Nollanna 2019

„hugmynd kviknaði einmitt í góðra vina hópi fyrir ári síðan“

Bjór er hægt að para við nánast hvaða rétt sem er og er þá jólalagkaka, randalína, vínarkaka eða hvaða nöfnum hún nefnist, engin undantekning, aðal málið er bara að fá hugmyndina.
…..Þessi hugmynd kviknaði einmitt í góðra vina hópi fyrir ári síðan þar sem nokkrir góðir nágrannar í Norðlingaholti voru saman komnir yfir öli heima hjá Bjór & Matur. Einhverjir byrjuðu að monta sig af lagkökum sínum, menn töldu auðvitað sína köku bestu lagkökuna og gerðu mikið úr eigin hæfileikum í bakstri og það lá því beinast við að sannreyna það fyrir næstu jól sem eru einmitt þessi jól 2019.
…..Það voru þó einhverjir sem ekki voru eins roggnir enda er kökubakstur er alls ekki allra.  Því kom upp sú hugmynd að tefla líka fram bjór með kökunum, einhvern magnaðan sem líka parast vel við þá köku sem menn reiddu fram.

Í upphafi var þetta að mestu leiti í gríni gert en þegar líða fór á árið fóru menn að huga að þessum viðburði og að endingu ákveðið að gera þetta að veruleika enda voru menn farnir að draga heim í bú alls konar furðulega og spennandi bjóra á ferðalögum sínum um heiminn, eitthvað sem gæti gengið með lagköku.

Til að gera mjög langa loku frekar stutta þá varð úr að núna þann 19.12.19 mættu 12 sigursælar sálir með kökuna og bjór í fyrstu lagköku bjórkeppni sögunnar.  Menn voru ekkert að grínast með þetta, menn mættu með ýmist ævafornar uppskriftir sem gengið hafa milli kynslóða í fjölskyldunum eða glænýjar og spennandi tilraunir með ný hráefni.
…..Það voru jafnvel tár á hvörmum þegar sumar kökurnar voru kynntar til leiks með hugljúfum sögum um hvernig uppskriftin kom til.  Auðvitað veit maður ekkert hvort sögurnar voru sannar eða ekki en það var algjört aukaatriði.

„kakan þarf að vera lagkaka, fjöldi laga er frjáls og í raun útlit líka..“

Reglurnar voru einfaldar að þessu sinni enda í fyrsta sinn sem þessi keppni er haldin og líklega fyrsta sinn í veröldinni líka ef út í það er farið?  Regluverkið mun fínpússast á komandi árum enda var ákveðið að gera þetta að árlegum viðburði í kringum jólin því allir voru á eitt sáttir, þetta var ofsalega skemmtilegt.
…..Ein af reglunum er að kakan þarf að vera lagkaka, fjöldi laga er frjáls og í raun útlit líka en auðvitað getur það komið niður á dómum ef menn fara of frjálst með túlkun sína á lagköku.  Í raun veit enginn skilgreininguna á lagköku en ákveðnar hugmyndir voru vissulega uppi.
…..Kakan má heldur ekki vera bökuð af neinum nema þeim sem taka þátt í keppninni.  Bjórinn er alveg frjáls, menn þurfa bara að reyna að finna bjór sem gleður, er spennandi og spes en samt gengur með þeirri köku sem menn tefla fram.  Menn geta ekki dæmt sína köku eða sinn bjór.

wp-1576926060062.jpg

Dæmt er á eftirfarandi hátt, stig eru gefin fyrir bragð kökunnar og útlit.  Bjórinn er dæmdur eftir bragði en líka hversu framandi og spennandi hann er.  Bjór sem t.d. er vondur getur fengið fullt af stigum fyrir exotic flokkinn t.d. ef hann er bruggaður á botni eldfjalls á Galapagos eyjum eða hann er bruggaður einu sinni á ári af nunnum og seldur í litlu fjallaþorpi í Nepal einn dag á ári eða eitthvað álíka. Loks voru gefin mikilvæg stig fyrir bestu pörunina líka.

„maður hefði einhvern veginn ekki trúað að lagkaka gæti verið svona mismunandi“

Það kom á óvart hve fjölbreytnin var mikil, maður hefði einhvern veginn ekki trúað að lagkaka gæti verið svona mismunandi.  Formið var svipað í flestum tilvikum og var rétthyrningurinn vinsælastur enda það sem menn hafa kannski oftast séð og tengt við lagköku.
…..Lögin voru mismörg, sá sem var með flest lög var með 7 lög en flestir voru með 5 lög.  Ein kakan var með blandaðri berjasultu á milli, önnur var gerð úr guinnes bjór, enn önnur var með saltkaramellu smjörkremi á milli og svona mætti lengi telja.  Sumar kökurnar voru ljósar og aðrar dökkar eins og nóttin.

Útliðið telur og því er vissara að vanda til verksins, sumir pössuðu sig á að hafa öll lögin jafn þykk og öll horn rétt og yfirborð með réttum vatnshalla á meðan aðrir földu óvönduð vinnubrögð með glæsilegum skreytingum.  Sumir nenntu ekkert að spá í þessu og treystu á bragð og bjórinn með.

Keppnin fór þannig fram að menn byrjuðu á að kynna til leiks bjór og köku.  Hér gefst mönnum tækifæri á að segja frá því hvaðan uppskriftin er komin og hvaða humyndir voru á bak við val á hráefnum ofl.  Það var hér sem sumir kusu að reyna að skora stig með hjartnæmum frásögnum um tilurð uppskrifta.
…..Bjórinn er ekki minna mikilvægur enda höfðu menn haft ár til að grúska í þessu og næla sér í eitthvað spennandi.  Menn fengu hér tækifæri á að segja frá hvernig þeir náðu í bjórinn og hvað er merkilegt við hann.  Eins afhverju þessi bjór var valinn með þeirri köku sem þeir reiddu fram.   Þetta kom skemmtilega út og var ákveðið að á næsta ári væru gefin auka stig fyrir framsetningu.

„Möguleikarnir eru margir, þessar kökur eru í grunninn dálítið kryddaðar, negull, kanil og engifer“

Hvernig er annars best að para lagköku og bjór saman?  Er vænlegast að treysta á andstæður, súrt á móti söltu, sætt á móti beiskju og svo frameftir götum eða kemur best út að leika sér með samstæður, tengja eiginleika í bjór við hráefni í kökunni?  Það er erfitt að svara þessu og þess vegna er svo gaman að prófa sig áfram og sjá árangurinn.
….. Möguleikarnir eru margir, þessar kökur eru í grunninn dálítið kryddaðar, negull, kanil og engifer er oftast áberandi, sumir setja sýróp í deigið líka sem gefur ákv sætu, kremlögin geta svo verið margslungin og mismunandi.  Maður getur líka séð fyrir sér að vera með bjór sem minnir á það sem maður drekkur með kökum, kaffi t.d. eða ísköld mjólk jafnvel.  Hér sé ég strax fyrir mér milk stout t.d.!

wp-1576925281192.jpgVið Sigrún vorum t.d. með hlynsíróp í deiginu okkar og höfðum svo saltkaramellu smjörkrem á milli.  Við ákváðum að prófa geggjaðan bjór með, bæði af því að hann er svakalega góður og gæti halað inn stigum bara á bragðinu, eins er hann nokkuð exotic því hann er sjaldan bruggaður og erfitt að fá hann þegar hann kemur út einu sinni ári í mesta lagi.  Við erum að tala um Maplesaurus Rex sem er 14% massífur imperial stout með hlynsírópi og vanillu.   Bruggaður af Pure Project í San Diego og fæst í raun bara þar á bæ þegar hann kemur út.
….. Bjórinn er 14% en það kemur ekki fram í bragði, hann er mjúkur og þéttur með notalegum keim af hlynsírópi og svo vanillu í restina.  Mjög mild kaffirist af maltinu.  Þetta kom vel út með randalínunni okkar, sírópið tengdist við sírópið í kökunni og dró það meira fram, mýktin í bjórnum pakkaði inn kökubitanum og gerði hann meira djúsí.  Vanillan bættist við kökuna á skemmtilegan máta, en sætan í bjórnum var mögulega aðeins of mikil því kakan var líka dálítið sæt.  Þetta varð því dálítið þungt.  Saltkaramellan í kreminu naut sín vel með vanillunni og svo tengdi karamelluseraða maltið vel við kremið.

wp-1576926491009.jpg

 Eitt parið var með blandað sultulag á sinni randalínu og svo ávaxta gose með frá Dogfish Head.  Super Eight Super Gose heitir bjórinn en hann er pakkaður af alls konar berjum og ávöxtum, og er dálítið súr á tungu en þó má greina ögn saltkeim í bakgrunni.  Bjórinn einn og sér svona la la að mínu mati, en pörunin var virkilega flott, sýran og berin léttu vel á öllu og tónuðu sætuna í kökunni niður.  Sultan tengdist líka við berin og varð þannig meira áberandi.   Hér er gott dæmi um andstæður, sýran og léttleikinn í bjórnum koma til móts við þunga sætu kökuna og gerir allt svo létt og skemmtilegt.

„Sterkasti bjór veraldar?“

Fleiri bjórar þetta kvöld voru Sam Adams Utopias, 29% barley wine sem er með sterkari bjórum veraldar og kemur út einu sinni á ári ca og er aldrei eins.  Hér er mörgum lögunum af bjórnum sem legið hafa mislengi á mismunandi eikartunnum blandað saman í þennan eina bjór.  Flaskan kostar augun úr en við förum svo sem ekki út í verðið en ég gert sagt að flaskan er undir 50.000 kr.
….. Hér var það augljóslega exotic dómurinn sem menn voru að sækjast eftir en einnig kom hann mjög vel út með randalínunni.  Hér er það eins og gott koníak með eftirréttinum.  Þessi bjór er magnaður og það skrítna er, 29% koma ekki fram í bragði sem spritt eða bruni.

wp-1576925700004.jpg

Fleiri skemmtilegir bjórar voru á borðum, t.d. hinn glæsilegi Duchesse de Bourgogne frá Brouwerij Verhaeghe sem er frábært flæmst rauðöl og fæst neira að segja hér í Vínbúðum landsins, Svo var það áramótabjórinn frá Reykjavík Brewing, Kosmós 2020 sem er virkilega snoturt  sterkt belgískt öl með stokkrós og súraldin.   Þessi bjór kom með þeirri lagkögu sem vann keppnina í ár fyrir bestu kökuna en útlitið átti þar stóran þátt.  Pörunin kom líka nokkuð vel út með kökunni, dálítið súr, ávaxtaríkur og þægilegur á móti dökkri guinnes lagkökunni.

Já þessi keppni heppnaðist svona líka vel og verður klárlega endurtekin að ári.  Menn eru þegar farnir að huga að því sem betur mætti fara næst og nú er svo heilt ár til að finna þennan eina sanna bjór með kökunni.  Undirritaður ætlar að reyna að fá eitthvað af okkar frábæru brugghúsum til að brugga lagkökubjór fyrir næstu keppni.  Ég er þó ekkert allt of viss um að það takist en samt skemmtileg pæling.    En til lukku Kjartan og Beta, þið unnuð núna, við tókum annað sætið en þetta verður öruggur sigur á næsta ári.

wp-1576925995394.jpg

Færðu inn athugasemd

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s